Ársskýrsla 2016

á aðalfundi í Norræna húsinu, 11. febrúar 2017

Skýrsla formanns, Selmu Guðmundsdóttur, á 21. aðalfundi félagsins 11. febrúar 2017 í Norræna húsinu.

Þetta er 21. aðalfundur Richard Wagner félagsins á Íslandi, en félagið var formlega stofnað 12. desember árið 1995 að undangengnum undirbúningsstofnfundi sama ár úti í Bayreuth.

Samkvæmt lögum félagsins er kosið í stjórn annað hvert ár og var það síðast gert í fyrra. Það verður því ekki stjórnarkosning hér á eftir. Stjórnina skipa, auk mín sem formaður félagsins: Sólrún Jensdóttir varaformaður, Jón Ragnar Höskuldsson gjaldkeri, Egill Arnarson ritari og Jóhann J. Ólafsson í aðalstjórn. Í varastjórn Ásdís Kvaran, Ásmundur Jakobsson og Björn Bjarnason.

Ég ætla nú að rekja í stuttu máli starfsemi félagsins síðastliðið ár. Dagskrá félagsins 2016 hófst með aðalfundi félagsins 27. febrúar, en fundurinn skal skv. lögum félagsins, vera haldinn á tímabilinu janúar til mars. Að aðalfundinum loknum var Magnús Lyngdal Magnússon með fyrirlestur um Parsifal út frá hljóðritunarsögu óperunnar þar sem hann velti m.a. upp spurningum um hvort túlkun verksins hefði breyst frá því að hún var frumflutt árið 1882.

Á tímabilinu frá janúar til loka maí voru ekki færri en 12 útsendingar af óperum og ballettum frá óperusviðum erlendis, aðallega frá Metropolitan óperunni í Kringlubíói en einnig í Háskólabíói frá Covent Garden í London. Auk þess kynnti félagið reglulega óperusýningar, sem sendar voru út á netinu úr ýmsum óperuhúsum, m.a. frá München og Vínarborg. Ég ætla ekki að rekja nánar um hvaða sýningar er að ræða, en við í stjórninni leggjum áherslu á að kynna þessar sýningar vel meðal félagsmanna og njóta þær mikilla vinsælda og hafa mikið til leyst af hólmi okkar eigin sýningar á óperum hér í Norræna húsinu. Félagsmenn hittast gjarnan í hléum eða eftir sýningar í Kringlukránni og verður því talsverð samvera í kringum þessar sýningar.

Í mars var formanni boðið að vera viðstödd hátíðahöld vegna 50 ára afmælis Wagnerfélagsins í París, sem er elsta Wagnerfélagið í heiminum utan Þýskalands. Hátíðahöldin stóðu yfir helgi og hófust á laugardegi með sýningu á Meistarasöngvurunum frá Nürnberg, sem var ný uppfærsla norska leikstjórans Stefans Hehrheim í hljómsveitarstjórn Philippes Jordan. Ákaflega glæsileg sýning sem óhætt er að mæla með. Á sunnudag hófust hátíðarhöldin með morguntónleikum og ræðuhöldum sem stóðu frá 10-13 og beint á eftir hádegisverður, allt saman haldið í glæsilegum húsakynnum félags bandamanna, eða Cercle de l’Union des Interalliées. Sérstakur heiðursgestur og fulltrúi Wagnerfjölskyldunnar var Eva Wagner Pasquier, dóttir Wolfgangs Wagner.

Um páskana bauðst félagsmönnum að taka þátt í Kúbuferð með Wagnerfélaginu í München, sem heimsótti eyjuna með Wagnertrúboði í annað sinn og setti á svið e.k. dansútgáfu af Tannhäuser, í samvinnu við heimamenn. Enginn félagsmaður frá okkur fór með að þessu sinni, en fjórir tóku þátt í eftirminnilegri Kúbuferð Münchenfélagsins, sem farin var 2013.

Dagana 5. – 8. maí var árlegt þing Alþjóðasamtaka Wagnerfélaga í Strasbourg. Enginn félagsmaður sótti það að þessu sinni nema formaður, sem er nú í stjórn Alþjóðasamtakanna og sat formannafund þeirra auk þess að sækja aðra atburði, m.a. var þar einstakt tækifæri til að sjá eina af æskuóperum Wagners, “das Liebesverbot”, en sú ópera, sem byggð er á leikriti Shakespeares, er afar sjaldan sett á svið. Auk þess voru bæði tónleikar og fyrirlestrar og konsertuppfærsla á óperunni La Favorite eftir Donizetti.

Í lok maí fór 16 manna hópur félagsmanna til Dresden til að sjá Önnu Netrebko í Wagneróperu en hún söng Elsu í Lohengrin í Semperóperunni í Dresden undir stjórn Christians Thielemann. Óhætt er að segja að sýningin á Lohengrin hafi verið afar eftirminnileg og markar ef til vill þáttaskil á ferli Önnu Netrebko, sem þarna söng í fyrsta sinn Wagnerhlutverk og skilaði því með miklum glæsibrag. Talsvert er nú spáð í hvort hún muni syngja í nýrri uppfærslu á Lohengrin í Bayreuth árið 2018, en það hefur ekki enn fengist staðfest. Hins vegar mun Roberto Alagna syngja þar titilhlutverkið. Á undan sýningunni í Dresden fengu ferðalangarnir að skoða Semperoper innan frá og baksviðs. Að sýningu lokinni beið þeirra dýrindis máltíð í Restaurant William í Schauspielhaus. Kvöldið á undan Lohengrin sýningunni voru 7 félagsmenn á frumsýningu á óperunni Juliette eftir Martinu í Staatsoper í Berlín. Mjög eftirminnileg sýning, þar sem þau Magdalena Koszena og Rolando Villazon voru í aðalhlutverkum. Eiginmaður Magdalenu, Sir Simon Rattle, var í þetta sinn í hópi áhorfenda á meðan Daniel Barenboim stjórnaði hljómsveitinni.

Um miðjan júlí var Wagnerfélagið í Bonn/Siegburg í heimsókn á Íslandi. Hópurinn fór í dagsferðir út á land, m.a. upp í Reykholt en á kvöldin var skipulögð röð fyrirlestra í samvinnu okkar félags og tengiliðs hópsins, Þórhalls Eyþórssonar, sem er félagsmaður hjá okkur. Þórhallur flutti sjálfur fyrirlestur um Eddurnar, Íslendingasögurnar og Hring Wagners út frá sjónarmiði kveðskaparmáls, Magnús Lyngdal Magnússon talaði um Parsifal og Selma Guðmundsdóttir var með stutt ágrip af íslenskri tónlistarsögu auk frásagnar af Litla Hringnum 1994. Í Reykholtsferðinni hélt Árni Björnsson fyrirlestur um Ísland og Niflungahringinn, byggðan á rannsóknum sínum. Séra Geir Waage og frú Dagný tóku elskulega á móti hópnum í kirkjunni og skoðuð var Snorrasýningin. Sex félagsmenn úr okkar félagi gerðu sér ferð upp eftir og deildu hádegisverðinum og fyrirlestrinum með þýska hópnum, þar á meðal fráfarandi sendiherra okkar í Þýskalandi, Gunnar Snorri Gunnarsson, sem ávarpaði hópinn.

Bayreuthhátíðin sl. ár hófst með frumsýningu á Parsifal í leikstjórn óperustjórans í Wiesbaden, Uwe Laufenberg. Hinn ungi og frábæri hljómsveitarsjóri, Andris Nelsons, sagði sig því miður frá verkinu skömmu fyrir frumsýningu og í hans stað kom Þjóðverjinn Hartmut Haenchen, sem ekki hefur áður stjórnað í Bayreuth. Ýmsar skýringar voru á lofti um ástæður þess að Nelsons dró sig tilbaka og vildu margir kenna um afskiptasemi hins nýbakaða tónlistarstjóra Bayreuthhátíðarinnar, hljómsveitarstjóranum Christians Thielemann. Aðrir vísuðu því á bug og sögðu að Nelsons hefði hreinlega ofkeyrt sig með of mörgum verkefnum. Það sem styður síðari kenninguna er að altalað er að hann muni stjórna hljómsveitinni í næstu Hringuppfærslu í Bayreuth 2020. Hvað sem því líður þá tókst frumsýningin vel og var fólk yfirleitt ánægt með bæði leikstjórn og tónlist. Eftir tvær síðustu Parsifal uppfærslur þeirra Schlingenschiefs og Herheims var þessi frekar á hefðbundnari nótunum og fátt sem truflaði verulega eða kom á óvart. Klaus Florian Vogt stóð sig vel sem Parsifal og Georg Zeppenfeld var afburða Gurnemanz.. Formaður var á opnunarkvöldinu ásamt Gunnari Snorra Gunnarssyni sendiherra. Voðaverkin í München skömmu fyrir opnunina settu svip sinn á hátíðina því ríkisstjórn Bæjaralands boðaði samúðarforföll og hin árvissa ríkismóttaka, Staatsempfang, féll niður. Áður hafði Angela Merkel boðað fjarveru.

Á öðrum degi hátíðarinnar var sá merkisatburður í Villa Wahnfried að kynnt var nýútkomin Saga Bayreuthhátíðarinnar, sem Dr. Oswald Georg Bauer hefur unnið að í sl. 26 ár. Bókin er afar glæsileg, í tveim bindum og stóru bandi, með yfir 1000 myndum. Hún hefur þegar hlotið afar lofsamlegar móttökur gagnrýnenda. Alþjóðasamtök Wagnerfélaga og mörg aðildarfélög þess studdu útgáfuna fjárhagslega, m.a. lagði okkar félag 500 evrur til að hjálpa bókinni á flot.

Dagana 13. til 18. ágúst voru svokallaðir styrkþegadagar á Bayreuthhátíðinni. Styrkþegi okkar að þessu sinni var Oddur Arnþór Jónsson barýtónsöngvari sem getið hefur sér gott orð á síðustu misserum, m.a. með titilhlutverkum í Rakaranum í Sevilla og Don Giovanni hjá Íslensku óperunni. Hann debuteraði nú nýlega sem Wolfram í Tannhäuser í þýsku borginni Chemnitz. Félagið hafði fengið nokkra miða til ráðstöfunar á hátíðina og voru þarna Indriði Benediktsson og Ólafur sonur hans, Hróðmar Sigurbjörnsson tónskáld og Ari sonur hans og auk þess Kristján sonur formanns. Þess má geta að hinn 16 ára Ólafur Indriðason sá þarna sínar fyrstu Wagneróperur, fyrst Götterdämmerung og svo Tristan og Isolde og lét afar vel af þeirri reynslu.

Hátt í fjörutíu manna hópur fór til New York fyrstu dagana í október til að sjá sýningu á Tristan og Isolde 3. október, sem var opnunarsýning Metropolitan á þessu starfsári. New York ferðin var öllum til mikillar ánægju. Hópurinn byrjaði á því að hittast í Russian Tearoom sunnudaginn 2. okt kl 11 um morguninn og þaðan var farið í göngutúr um Central Park. Var þar fyrst gerður stans í þekktum veitingastað í garðinum, móts við 62. stræti vestur, sem heitir Tavern on the Green. Þar var snæddur léttur hádegisverður. Andi John Lennons og fleira frægs fólks sveif þarna yfir vötnum, en Lennon mun oft hafa haldið afmælisveislur sínar þarna. Farið var síðan á Strawberry Field minnisreitinn um Lennon í garðinum, sem er móts við 72. stræti og Dakota bygginguna, þar sem Lennon lét lífið. Gengið var síðan þvert í austur yfir þennan risastóra garð, sem er á stærð við tvöfalt smáríkið Mónakó, og næst höfð viðkoma á heillandi veitingastað, sem heitir Boathouse Restaurant, sem stendur afar fallega við vatn. Garðurinn iðaði af lífi, New York búar fjölmenna þangað um helgar í góðu veðri með fjölskyldum sínum. Eftir að hafa notið þess að stoppa í Boathouse lá leiðin út úr garðinum og niður fimmtu breiðgötu, með öllum sínum glæsibyggingum og söfnum. Klukkan 5 var hópurinn boðinn í freyðivín hjá sendiherra Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum, Einari Gunnarssyni og konu hans Elísabetu og fékk þar hinar bestu móttökur. Mánudaginn 3. október hittist svo hópurinn á veitingastaðnum Café Fiorello, þar sem snæddur var kvöldverður á undan Tristan. Sýningin hófst svo klukkan 18.30 og var afar mikilfengleg, einkum tónlistarlega séð, með Sir Simon Rattle við sprotann og þau Ninu Stemme, Stuart Skelton og Rene Pape í stærstu hlutverkunum. Komið hafði nýlega í ljós að Stuart Skelton er orðinn tengdasonur Íslands og birtist hann hópnum á Café Fiorello eftir sýningu ásamt ísfirskri kærustu sinni, Geirþrúði Ásu Guðjónsdóttur fiðluleikara. Formaður notaði tækifærið og átti stuttan fund í ferðinni með formanni Wagnerfélagsins í New York, Nathalie Wagner.

Upp úr miðjum október fór formaður til Singapore eftir að hafa þegið boð Wagnerfélagsins á staðnum um að vera viðstödd fyrstu sviðsetningu Wagneróperu í þessu litla en fjölmenna borgríki. Þetta var sýning á Hollendingnum fljúgandi og það var Wagnerfélagið í Singapore sem átti allan heiðurinn af því að gera þessa sýningu að veruleika. Fjáröflun fór mest fram innanlands, enda er mikill auður í Singapore, en Alþjóðasamtök Wagnerfélaga gátu veitt ýmsa faglega aðstoð, m.a. valið söngvara í flest aðalhlutverkin úr hópi ungra söngvara, sem verið höfðu vinningshafar í Wagnersöngkeppninni, sem haldin er á vegum samtakanna þriðja hvert ár. Formaður Wagnerfélagsins í Feneyjum og einn af varaforsetum samtakanna, Alexandra Pugliese, sem er fyrrverandi söngkona og mikilsvirtur raddþjálfi, dvaldist í nokkrar vikur í Singapore og aðstoðaði. Farin var sú leið, sem mér finnst mjög til fyrirmyndar, að manna sýninguna tvöfalt, með alþjóðlegum söngvurum annars vegar og hins vegar heimasöngvurum.Frumsýningin og tvær aðrar sýningar voru með evrópsku söngvurunum en tvær með Asíubúunm, sem auðvitað hafa ekki gert mikið af að syngja Wagner, en þessi leið skilur auðvitað miklu meir eftir af reynslu í heimalandinu. Eva Wagner-Pasquier var fulltrúi Wagnerfjölskyldunnar á staðnum en auk þess var þarna forseti Alþjóðasamtakanna Horst Eggers og tveir aðrir stjórnarmeðlimir, auk mín.

Árshátíð félagsins fór fram við húsfylli á Hótel Holti 5. nóvember. Að vanda var mjög góð stemmning. Gunnar Snorri Gunnarsson var veislustjóri með glæsibrag og þau Björn Bjarnason, Sólrún Jensdóttir og Jón Ragnar Höskuldsson sögðu undir borðhaldi frá ferðum félaga til Dresden, New York og Sofíu í Búlgaríu. Frábær ung söngkona, Valdís Gregory, flutti nokkur lög ásamt Guðríði Sigurðardóttur píanóleikara. Heiðursgestur var Dr. Oswald Georg Bauer, sem hóf kvöldið með frásögn sinni af skrifum hinnar nýútkomnu bókar, Die Geschichte der Bayreuther Festspiele eða Sögu Bayreuthhátíðarinnar. Bókin hefur hlotið mikla viðurkenningu nú þegar og er nánast uppseld auk þess að vera á lista yfir tíu bestu fræðibækur ársins í Þýskalandi. Bent er á að hægt er að kaupa bókina á Amazon eða gegnum Dussman bókaverslunina í Berlín. Daginn fyrir árshátíð heimsótti Bauer, ásamt fylgdarliði, Guðna Th. Jóhannesson forseta á Bessastaði, þar sem forseta var afhent eintak bókarinnar. Hann þáði líka boð þýska sendiherrans, Herberts Beck í hádegisverð sama dag.

Sunnudaginn 6. nóv hélt Bauer svo fyrirlestur erindi í Kaldalóni, Hörpu um Wagner og Feneyjar: Ást og dauði í Feneyjum var yfirskriftin. Fyrirlesturinn var á vegum Íslensku óperunnar, í samvinnu við okkar félag og Listaháskólann.

Í tilefni af sýningu Íslensku óperunnar á Jevgenij Onegin eftir Tchaikovsky í haust fékk félagið Reyni Axelsson stærðfræðing og tónskáld til að halda erindi um Wagner og Tchaikovsky sunnudaginn 20. nóvember. Tchaikovsky var einmitt viðstaddur opnun Bayreuthhátíðarinnar og frumsýningu Niflungahringsins árið 1876 en þangað flykktust tónlistarmenn að hvaðanæva. Meðal þeirra var einnig Edward Grieg en þeir Tchaikovsky sögðu hvor um sig frá hátíðinni í röð af greinum sem birtust í dagblöðum í heimalandi þeirra. Byggði fyrirlestur Reynis að verulegu leyti á þessum frásögnum en einnig sagði hann frá hvernig tónskáldin kynntust síðar. Að loknum fyrirlestrinum svar sýnd mynd um ævi Tsjajkovskíjs, sem hét einfaldlega “Tchaikovsky”. Hún var frá árinu 1971 og var tilnefnd til Óskarsverðlauna sama ár.Leikstjóri var Dimitri Tiomkin.” Nemendur Tónlistardeildar Listaháskólans efndu þennan sama dag til Wagnermaraþons sunnudaginn 20. nóvember og sýndu allan Niflungahringinn frá því kl. 8 um morguninn fram á kvöld. Fyrir valinu varð uppsetning Patrice Chéreau og Pierre Boulez frá Bayreuth 1976, á hundrað ára afmæli Hringsins. Sú uppsetning er tæpir 15 tímar. Formaður hafði heitið því að þeir sem kláruðu þá eldraun að sjá allan Hringinn í einni lotu yrðu boðnir velkomnir í félagið með frítt árgjald fyrsta árið. Forsprakki þessa maraþons var Gylfi Guðjohnsen, lágfiðluleikari og tónsmíðanemi. Hann var einnig sá eini sem horfði frá upphafi til enda og afhenti formaður honum viðurkenningarskjal, ásamt efnisskrá Litla Hringsins 1994, og bauð hann velkominn í félagið.

Félagið er, eins og oft hefur komið fram, áfram aðili að Alþjóðasamtökum Wagnerfélaga, og greiðir félagið ákveðið árgjald til þeirra sem nemur 2 evrum fyrir hvern félagsmann.

Samtökin standa m.a. fyrir árlegu þingi. Á síðastliðnum árum hefur það verið haldið haldið í Prag, Leipzig, Graz, Dessau og Strasbourg en næsta þing verður 7. til 11. júní í Búdapest og munu nokkrir félagsmenn fara þangað, auk formanns. Önnur verkefni Alþjóðasamtakanna eru m.a. að standa fyrir Wagnersöngkeppni á nokkurra ára fresti og einnig keppni fyrir unga leikstjóra og leikmyndahönnuði. Auk þess hafa þau aðkomu að Wagnerþingi í Feneyjum í nóvember ár hvert. Eins og félagsmönnum mun kunnugt hefur formaður átt sæti í stjórn samtakanna frá því 2014, en stjórnin beitir sér nú mjög fyrir því að auka innbyrðis tengsl aðildafélaganna, sem eru hátt í 130 samtals, frá öllum heimsálfum. Fjórir stjórnarmeðlimir, þar með talið formaður, hafa myndað hóp sem gefur úr fréttabréf u.þ.b. þrisvar á ári og hefur það mælst mjög vel fyrir hjá aðildarfélögum.

Eitt af mikilvægustu verkefnum aðildafélaga alþjóðasambandsins er að fjármagna starf Richard Wagner styrkþegastofnunarinnar í Bayreuth sem hefur það markmið að styrkja unga tónlistar- og sviðslistamenn til að sækja Bayreuthhátíðina. Félagið okkar mun nú nítjánda árið í röð senda styrkþega út til Bayreuth. Styrkþeginn næsta sumar mun sjá Meistarasöngvarana frá Nürnberg í nýrri uppfærslu, Barrys Kosky og hljómsveitarstjórans Philippe Jordans. Auk þess Tristan og Isolde, sem Katharina Wagner leikstýrir og Christian Thielemann stjórnar hljómsveit. og að lokum Valkyrjuna úr Niflungahring Franks Castorf, en hljómsveitinni þar sttjórna Marek Janowski.

Sjá: Styrkþegar félagsins

Auk þess er í boðinu til styrkþegans leiðsögn um Festspielhaus, Franz Liszt safnið og heimsókn í Richard Wagner safnið, sem ern ú nýuppgert og endurbætt.. Framlag félagsins til þessa málefnis hefur hækkað ört síðustu ár og er nú 700 Evrur. Menntamálaráðuneytið hefur einnig frá upphafi styrkt félagið vegna þessa máls og hefur styrkur ráðuneytisins að mestu gengið til styrkþegans upp í ferðakostnað. Um 250 styrkþegar koma ár hvert á hátíðina, flestir þeirra frá Þýskalandi

Fyrir ötula baráttu Alþjóðasamtakanna hafa réttindi Wagner félaga til að kaupa miða á Bayreuthhátíðina verið aftur tekin upp. Forsvarsmenn hátíðarinnar hafa viðurkennt að það hafi verið mistök að loka fyrir þennan hóp tryggra áskrifenda. Félagið fékk í ár 8 Hringmiða, sem gerir samanlagt 32 miða og að auk 8 miða á aðrar sýningar. Aðgöngumiðasala er að öðru leyti orðin mun aðgengilegri. Eftir því sem ég best veit hefst bein miðasala á netinu fyrir næsta sumar á morgun kl. 13, á þeim miðum sem enn kunna að vera óseldir.

Um starf félagsins að öðru leyti er það að segja að við erum að kanna möguleika á endurútgáfu Wagners og Völsunga, sem er með öllu uppseld og munum á næstunni kanna hug félagsmanna á að styrkja útgáfuna annað hvort með beinu fjárframlagi eða með því að gerast kaupendur að komandi eintaki. Gjaldkeri og ritari félagsins hafa nú safnað miklu efni fyrir væntanlega heimasíðu félagsins sem vonandi lítur bráðum dagsins ljós. Stofnuð var Facebooksíða þar sem settar eru inn helstu upplýsingar auk þess sem ég held áfram að senda út oft og reglulega til félagsmanna upplýsingar um áhugaverða atburði, hvort sem þeir eru beinlínis á vegum félagsins eða ekki. Allflestir félagsmenn eru nú búnir að gefa okkur upp tölvupóstfang og njóta því þessarar upplýsingamiðlunar. Þeir sem enn hafa ekki látið okkur í té tölvupóstfang eða hafa breytt sínu fyrra eru endilega beðnir að láta vita. Enn megum við bíða eftir áþreifanlegum áformum um uppsetningu á Wagneróperu hjá Íslensku óperunni, sem aldrei hefur haft frumkvæði að Wagnersýningu, þótt hún tæki tvisvar þátt í uppfærslum Listahátíðar og Þjóðleikhúss. Við erum að vonum langeygð, en að sama skapi eykst ferðagleðin og er sl ár án efa eitt mesta Wagnerferðaár félagsins frá upphafi. Í því sambandi vil ég enn á ný geta þess, sem ég hef áður kynnt í bréfum að í júní næst komandi mun íslenskur leikstjóri í fyrsta sinn leikstýra heilli óperu úr Niflungahringnum, en það er Þorleifur Örn Arnarsson, sem setur upp Siegfried í Karlsruhe 10. júní. Það var einmitt móðir hans, Þórhildur Þorleifsdóttir sem leikstýrði Litla Hringnum í Þjóðleikhúsinu 1994.Við höfum miða til ráðstöfunar fyrir áhugasama. Fyrir utan þetta fer átta manna hópur til Stokkhólms í maílok og sér allan Hringinn í leikstjórn Stefans Valdemars Holm.

Að lokum vil ég geta þess að félagar í Wagnerfélaginu eru nú 234 talsins og bætast stöðugt nýir félagar í hópinn. Ekki er mikið um úrsagnir úr félaginu, en haft er að reglu að taka menn út af félagaskrá greiði þeir ekki félagsgjöld sín tvö ár í röð. Sem formaður vil ég nota tækifærið og þakka ánægjulegt samstarf við stjórn félagsins og varastjórn, svo og endurskoðendum félagsins, þeim Halldóri Halldórssyni og Guðrúnu Nordal.

Selma Guðmundsdóttir
formaður Richard Wagner félagsins á Íslandi