Ársskýrsla 2012
Á aðalfundi 10. mars 2013 í Norræna húsinu
Skýrsla formanns, Selmu Guðmundsdóttur, á 17. aðalfundi félagsins 10. mars 2013 í Norræna húsinu.
Þetta er 17. aðalfundur Richard Wagner félagsins á Íslandi, en félagið var formlega stofnað 12. desember árið 1995 að undangengnum undirbúningsstofnfundi sama ár úti í Bayreuth.
Samkvæmt lögum félagsins er kosið í stjórn annað hvert ár og var það síðast gert í fyrra og verður því engin stjórnarkosning í þetta skipti. Stjórnina skipa, auk mín sem formaður félagsins: Jóhann J. Ólafsson varaformaður, Jón Ragnar Höskuldsson gjaldkeri, Ásmundur Jakobsson ritari og Sólrún Jensdóttir í aðalstjórn. Í varastjórn Árni Björnsson, Björn Bjarnason og Þorkell Helgason.
Ég ætla nú að rekja í stuttu máli starfsemi félagsins síðastliðið ár:
Í janúar, að loknum aðalfundi félagsins, fjallaði Sveinn Einarsson leikstjóri um norræna Wagnersöngvara með sérstakri áherslu á Wagneruppfærslur hjá Stokkhólmsóperunni á sjötta og sjöunda áratugnum og lék fjölda tóndæma úr safni sínu.
Dagana 31. janúar til 5. febrúar fór 30 manna hópur Wagnerfélagsmanna til New York, þar sem þeir sáu m.a. sýningu á Götterdämmerung í hinni nýu Hringuppfærslu Kanadamannsins Robert Lepage auk Önnu Bolenu eftir Donizetti í ógleymanlegri túlkun Önnu Netrebko á titilihlutverkinu. Ferðin var frábærlega heppnuð og báðar sýningarnar mjög áhrifaríkar. Í febrúar hefur New York að meðaltali 15 sólardaga, en hópurinn naut blessunar 5 slíkra eða allan tímann. Ef til vill verður New York okkar Neu-Bayreuth! Mikil stemning fylgir því að fara á sýningar í Metropolitan óperunni og borgin verður stöðugt vinalegri og betri heim að sækja, með óendanlegum möguleikum til dægrastyttingar.
Auk heimsókna á Metropolitan óperuna fóru margir að hlusta á tónleika Susan Graham í Carnegie Hall og á tónleika ungra píanóleikara í Juillardskólanum. Myndlistarsöfn og etnísk hverfi voru skoðuð, svo og Ground Zero með nýopnuðu safni. Greta Gunnarsdóttir sendiherra bauð í sendiherrabústaðinn í Olympic Tower við Rockefeller Center. Farið var út að borða í View Lounge, snúningsveitingastað á 48. hæð Marriott hótelsins við Times Square.
Lokadaginn var hópnum boðið á Götterdämmerung Seminar hjá Wagnerfélaginu í New York, þar sem á dagskrá voru ýmis erindi fræðimanna auk hringborðsumræðna flytjenda úr Götterdämmerung. Áður hafði formaður Wagnerfélagsins, Nathalie Wagner og David Cline, formaður Wagnerfélagsins í Minneapolis, boðið formanni og Ásmundi Jakobssyni ritara til hádegisverðar á sérstökum veitingastað í Metropolitan Museum fyrir þá sem eru meðlimir! Á seminari New York félagsins komu m.a. fram Hans-Peter König (Hagen), Katharina Dalayman (Brünhilde), Wendy Bryn Harmer (Gutrune) og Jay Hunter Morris (Siegfried). Á samkomunni var boðið upp á ýmsan varning, barmmerki með mynd Wagners, víkingahjálma og fjölda bóka. Auk þess var happdrætti með geisladiskum og aðgöngumiðum á bíóútsendingu á Götterdämmerung í verðlaun. Mjög margir gestir voru mættir og kaffi og kökur á boðstólum. Gaman að kynnast félagsandanum hjá þessu stóra félagi.
Laugardaginn 18. febrúar var sýnd hér í Norræna húsinu ópera Beethovens, Fidelio. Þetta var uppfærsla frá Vínaróperunni undir stjórn Leonard Bernstein og í leikstjórn Austurríkismannsins Otto Schenk. Fyrirhugaður hafði verið fyrirlestur Magnúsar Lyngdals Magnússonar sagnfræðings um Beethoven og Wagner á undan sýningunni en honum þurfti að fresta þangað til síðar.
Sunnudaginn 25. Mars flutti Reynir Axelsson erindi um Wagner og Puccini. Að því loknu var sýnd kvikmynd Tony Palmers: Puccini, sem varpar ljósi á lítt þekkt atriði úr ævi hans og er að mestu tekin upp í Torre del Lago, þar sem hann bjó lengi. Óperan Turandot kemur mikið við sögu í myndinni.
Í maí, nánar tiltekið 17. – 20. maí var hið árlega Wagnerþing Alþjóðasamtaka Wagnerfélaga haldið í Prag í Tékklandi. Formaður sótti þingið og sat ársfund formanna Wagnerfélaga. Á dagskrá þingsins voru meðal annars áhugaverð erindi, til að mynda um sögu og viðtökur Wagners og verka hans í Tékkóslóvakíu. Tónskáld þar í landi skiptust á sínum tíma alveg í tvo flokka, með og á móti Wagner og var mikill rígur þar á milli. Sýnd var tékknesk sviðssetning á Parsifal og kom það formanni skemmtilega á óvart að söngkonan Þóra Einarsdóttir fór þar með hlutverk einna blómameyjanna. Á formannafundinum var heitasta málið hin nýlega ákvörðun Bayreuthhátíðarinnar að hætta að láta Wagnerfélög í heiminum fá forgang að aðgöngumiðum. Með þetta hefur verið gífurleg óánægja, ekki síst hjá félögum utan Þýskalands og þá sérstaklega í Bandaríkjunum, þar sem komin er áratuga hefð fyrir heimsóknum félagsmanna á Bayreuthhátíðina. Telja gagnrýnendur úr röðum þessara félaga að þetta muni skaða starf þeirra, fækka félögum og þegar til lengdar lætur einnig skaða Bayreuthhátíðina sem átt hefur í Wagnerfélögum um víðan heim eins konar sendiráð sem unnið hafa að kynningu og viðgangi hátíðarinnar. Hart var deilt á forseta Wagnersamtakanna fyrir að hafa ekki beitt sér nægilega til að gera þessa ákvörðun afturræka, en Eva Märtson varðist nokkuð vel. Ákvarðanatakan virðist liggja hjá fjármálavaldinu í Berlín. Allir eru þó sammála um að þetta hefði aldrei orðið meðan Wolfgang Wagner stjórnaði hátíðinni af þeim styrk og myndugleika sem nú er liðin saga í Bayreuth.
Félagið sendi eftir sem áður styrkþega á Bayreuthhátíðina úr hópi íslenskra söngvara og var það sópransöngkonan Herdís Anna Jónasdóttir sem fór að þessu sinni og sá þrjár sýningar. Áður fyrr gat hvert félag sem sendi styrkþega keypt 2 miða á 3 sýningar eða samanlagt 6 miða. Í fyrra hafði þetta verið skorið niður í einn miða á þrjár sýningar og í ár eru einn miði á tvær sýningar í boði. Þrír félagsmenn nutu góðs af þessu í fyrra. Í fyrrasumar var ekki sent beint út á netinu eins og nokkur ár þar á undan þar sem Siemens hætti að fjármagna þær útsendingar.
Fyrsta samkoma vetrarins hjá félaginu okkar var árshátíðin á Hótel Holti, sem var að þessu sinni haldin 3. nóvember. Árshátíðin hófst með afar fróðlegu og skemmtilegu erindi Magnúsar Lyngdals Magnússonar um Wagner og Beethoven, sem vera hafði átt fyrr á árinu. Wagner virti Beethoven einna mest allra tónskálda og sá óperur sínar sem beint framhald og arftaka sinfónía Beethovens, einkum þeirrar níundu! Að venju kom ungur söngvari í heimsókn undir fordrykknum og var það Lilja Guðmundsdóttir sópransöngkona, sem söng fyrir gesti við píanóleik Helgu Bryndísar Magnúsdóttur. Veislustjóri var Árni Blandon sem sagði jafnframt frá sumarferð sinni á Bayreuth hátíðina. Sveinn Einarsson og Sólrún Jensdóttir sögðu frá þátttöku sinni í ferð félagsins til New York.
Síðasta samkoma ársins var svo 2. desember í Norræna húsinu er sýnd var heimildamynd breska leikarans Stephen Fry, Wagner and Me, sem var ákaflega vel heppnuð könnunarferð leikarans um æviskeið Wagners sem leiddi hann til flestra þeirra staða sem skiptu máli í lífi tónskáldsins. Í myndinni er m.a. hrakinn sá orðrómur að í útrýmingarbúðum nasista hefði Wagner verið spilaður frá morgni til kvölds. Talað er í myndinni við aldraða tónlistarkonu, sem lifði helförina af en hafði spilað á selló í fámennum hljóðfærahópi í fangabúðunum. Hún sagði að augljóslega hefðu þessir fámennu hópar tónlistarmanna sem spiluðu á hljóðfæri sín í fangabúðunum ekki spilað Wagner. Ástæðan einfaldlega að hann skrifaði nánast ekkert fyrir slíkar hljóðfærasamsetningar, enga kammertónlist.
Fyrir utan þessa atburði sem ég hef talið upp höldum við áfram að beita okkur fyrir kynningu á rannsóknum Árna Björnssonar og reynum að sjá til að bókin hans sé fáanleg kaupendum. Wagner og Völsungar hefur verið til sölu á þýsku og ensku í Markgrafenbuchhandlung í Bayreuth og ensku útgáfuna er hægt að kaupa á netinu hjá Amazon. 12 Tónar og Mál og menning hafa bókina einnig til sölu. Þegar Robert Lepage, sem setti upp nýja Hringinn í New York, lýsti því yfir í Wall Street Journal fyrir nokkrum árum að hann leitaði til Íslands um innblástur fyrir sviðssetningu sína gladdi það okkur sannarlega. Hann bætti um betur í heimildarmyndinni um þessa uppsetningu, Wagner’s Dream, þar sem hann útskýrir hvernig ferð til Íslands færði honum upp í hendurnar algjörlega nýja sýn á Hringinn, sem hefði haft mikil áhrif á uppsetninguna. Það hafi haft mikil áhrif á sig að kynnast rótum Niflungahringsins á Íslandi, Edduhandritunum í Þjóðmenningarhúsi o.s.frv. en 85% af efni Hringsins komi frá Eddukvæðunum. Náttúra landsins hafi einnig haft mikil áhrif á sviðsmyndina, sem einkenndist af hreyfanlegum flekum sem tóku á sig ýmsar myndir og endurspegluðu í senn síbreytileika íslenskrar náttúru og landslags en einnig flekaskilin milli Ameríku og Evrópu. Ég tel víst að Lepage hafi lesið bók Árna sem ég sendi honum fyrir rúmum tveim árum og þessi umfjöllun hans í Wagner’s Dream er einhver besta kynning á mikilvægi íslenskra bókmennta fyrir Wagner sem ég hef séð á erlendum vettvangi.
Félagið er, eins og komið hefur fram, áfram aðili að Alþjóðasamtökum Wagnerfélaga, og greiðir félagið ákveðið árgjald til þeirra sem er nú sem svarar 2 evrum fyrir hvern félagsmann. Samtökin standa m.a. fyrir árlegu þingi. Á síðastliðnu ári var það haldið í Prag, í ár á 200 ára fæðingarafmæli Wagners, verður það í fæðingarborg hans, Leipzig. 2014 verður þingið í Graz og 2015 í Dessau.
Önnur verkefni Alþjóðasamtakanna eru m.a. að standa fyrir Wagnersöngkeppni á nokkurra ára fresti og einnig keppni fyrir unga leikstjóra og leikmyndahönnuði. Auk þess standa þau fyrir Wagnerþingi í Feneyjum í nóvember ár hvert.
Eitt af mikilvægustu verkefnum aðildafélaga alþjóðasambandsins er að fjármagna starf Richard Wagner styrkþegastofnunarinnar í Bayreuth sem hefur það markmið að styrkja unga tónlistar- og sviðslistamenn til að sækja Bayreuthhátíðina. Félagið okkar mun nú sextánda árið í röð senda styrkþega út til Bayreuth. Styrkþeginn næsta sumar mun sjá Lohengrin, Tannhäuser og Rheingold og er það í fyrsta sinn sem stök Hringópera er í boði fyrir styrkþega.
Styrkþegar til þessa hafa verið:
Sjá: Styrkþegar félagsins
Styrkþeginn fær yfirleitt að sjá þrjár óperusýningar, en fimmta hvert ár hefur verið boðið upp á allan Hringinn. Auk þess er m.a. í boðinu leiðsögn um Festspielhaus, Franz Liszt safnið og heimsókn í Richard Wagner safnið. Framlag félagsins til þessa málefnis hefur hækkað ört síðustu ár og er nú 540 Evrur. Í ljósi stöðu krónunnar er þetta orðið félaginu nokkuð þungt og var um tíma álitamál hvort við héldum þessu áfram. Þess má geta að Menntamálaráðuneytið hefur einnig frá upphafi styrkt félagið vegna þessa máls og hefur styrkur ráðuneytisins að mestu gengið til styrkþegans upp í ferðakostnað. Sótt hefur verið til Menntamálaráðuneytisins vegna styrkþega næsta sumar og fengist jákvætt svar um 60.000 kr. styrk. Um 250 styrkþegar koma ár hvert á hátíðina, flestir þeirra frá Þýskalandi eða nálægt 200 manns, en hinir aðallega frá öðrum Evrópulöndum.
Bayreuthhátíðin 2013: Eins og er liggja ferðir á Bayreuthhátíðina að mestu niðri að því undanteknu að við sendum enn styrkþega þangað. Okkar félag, eins og mörg önnur Wagnerfélög í heiminum, átti þess kost árum saman að fá úthlutað miðum hátíðina. Fóru héðan hópar allt frá 10 manns upp í 30 þegar flestir voru. Áður gafst þeim Wagnerfélögum sem sendu einn styrkþega kostur á að kaupa 6 miða, 2 miða á þrjár sýningar, sem kom þá til viðbótar hinum miðunum. Það hefur einnig verið skorið niður en í fyrra voru okkur sendir þrír stakir miðar ásamt reikningi, sem tókst sem betur fer að koma út. Í ár komu tveir miðar með sama hætti, einn á Tannhäuser og annar á Rheingold. Þeir eru nú gengnir út en klárlega er fólk síður að fara eitt utan heldur vill vera í félagsskap. Þetta hentar því ekki allt of vel þótt þetta sé betra en ekkert! Þessar ráðstafanir hafa mælst afar illa fyrir hjá Wagnerfélögum víða um heim. Svo dæmi séu tekin, þá hafði Wagnerfélagið í New York geta gengið að föstum fjölda miða ár hvert frá árinu 1984 og það með slíkri vissu að það hafði getað úthlutað fyrirfram. Amerísku félögin hafa skipulagt komu sína til Bayreuth í lok hátíðartímabilsins og ráðið sérstakan enskumælandi fyrirlesara til að vera með óperukynningar. Þetta var allt frágengið fyrir 2012 og margir búnir að bóka ferð sína til Bayreuth. Það hefur því verið mikil ólga og óánægja, ekki síst hjá Ameríkufélögunum, en einnig í Evrópu. Mikil bréfaskipti hafa verið í gangi milli félaganna og við hátíðina til að reyna að fá þessari ákvörðun breytt. Vitnað er til áralangs náins samstarfs Wagnerfélaganna og hátíðarinnar og þess mikilvæga hlutverks sem félögin hafa gengt, sem oft gegnum tíðina hafa skipt hátíðina og framtíð hennar sköpum. Þetta er auðvitað allt hið versta mál og ekki ólíklegt að hátíðin geti borið skaða af ef hún beinlínis reynir eða er þvínguð af yfirvöldum til að hrista af sér sína dyggustu bakhjarla um víða veröld. Á sama tíma keppast óperuhús og hátíðir um að eignast tryggan áheyrendahóp sem kemur aftur og aftur. Óljóst er hver endanleg niðurstaða verður en eins og ere r ekki ástæða til mikillar bjartsýni.
Nokkur spenna er í lofti vegna Niflungahringsins sem fer á fjalirnar í sumar í leikstjórn Franks Castorf, en leiksýningar hans hafa gjarnan þótt fram úr hófi ögrandi og gengið fram af fólki. Hann hefur lítið komið að uppsetningu á óperum áður og eru margir ósáttir með val hans. Ekki dregur úr óánægjunni að heyra að samningaviðræður við Wim Wenders hefðu verið langt komnar en það hefði óneitanlega geta orðið spennandi kostur. Rússneski hljómsveitarstjórinn Kirill Petrenko mun stjórna Hringnum, sem vekur þó ákveðnar væntingar. Hann tekur í haust við sem aðalstjórnandi Bæversku óperunnar í München af Kent Nagano. Það hefur spurst út að árið 2015 verði nýr Tristan í leikstjórn Katharinu Wagner, undir hljómsveitarstjórn Christian Thielemann.
Á dagskrá félagsins það sem liðið er af þessu ári var ferðalag til München í lok janúar með 15 félagsmönnum að sjá Niflungahringinn. 24. febrúar var Reynir Axelsson með fyrirlestur um Wagner út frá sjónarhóli Gyðingarandúðar Wagners og hvort hennar sæjust merki í verkum hans. Sýnd var svo sviðssetning Meistarasöngvaranna frá Nürnberg frá óperuhátíðinni í Glyndebourne. Framundan er erindi Magnúsar Lyngdals um Wagner og Verdi. Þessu verða þó gerð betur skil í næstu ársskýrslu. Við verðum ekki með sérstök hátíðarhöld út af 200 ára afmæli Wagners 22 maí nk. En munum gera okkur glaðan dag og skála eftir Wagnertónleika Sinfóníuhljómsveitarinnar 6. júní nk.
Það er ljóst að við rekum nú félagið í allt öðru umhverfi en var þegar það var stofnað árið 1995. Þá var sjaldgæft að eiga þess kost að sjá óperuuppfærslur á stórum skermi líkt og við gátum gert með óperukynningar hér í Norræna húsinu. Nú eru hátt á annan tug ópera sýndar árlega í bíóhúsum, meir og minna í beinni útsendingu, frá New York og London. Einnig er töluvert framboð af óperusýningum í beinni útsendingu á netinu og jafnvel hægt að sjá heilu uppfærslunnar á Youtube. Það leiðir því af sjálfu sér að starf félagsins fer í nýjan farveg, áherslan verður meir á kynningar og fyrirlestra og að halda félagsmönnum vel upplýstum um það sem í boði er. Óperuferðir færast einnig stöðugt í vöxt. Því miður verður maður að horfa upp á að íslenskum óperuuppfærslum fækkar frekar en fjölgar. Óperunni en þrengri stakkur búinn en nokkru sinni áður. Eftir vel heppnuð búsetuskipti og flutning í Hörpu er svo komið að megnið af fjárframlögum til óperunnar fer í húsaleigu. Skilningur Sinfóníuhljómsveitarinnar á að koma óperunni til aðstoðar og sinna þörfum fjölmenns hóps óperuunnenda er í lágmarki. Það er alveg óviðunandi að ekki sé komið upp þannig fyrirkomulagi að Sinfóníuhljómsveitin þjóni amk 2 óperuuppfærslum á ári. Til þess þyrfti kannske að fækka öðrum tónleikum sveitarinnar eitthvað, en hver myndi harma það ef óperunni væri í staðinn gert kleift að starfa með þeim glæsibrag sem Eldborgarsalurinn getur boðið upp á og óperuunnendur eiga svo sannarlega skilið! Það er einnig ljóst að með tilkomu Hörpunnar hefur áhugi erlendra ferðamanna aukist mjög á að koma hingað og á þetta líka við um Wagnerfélög erlendis. Þau vilja auðvitað gjarnan geta komið þegar óperuuppfærslur eru í gangi en þar hefur verið erfitt að hjálpa upp á því vegna bágrar stöðu óperunnar liggur sjaldnast fyrir nema með afar stuttum fyrirvara hvert verður næsta verkefni.
Wagnerfélagið í Würzburg mun þó vera á leið hingað nú í júní, í kringum Wagnertónleikana og í maí á næsta ári er væntanlegur stór hópur undir forystu Wagnerfélagsins í München. Snorrastofa í Reykholti er full áhuga að hjálpa okkur að taka á móti svona hópum og standa fyrir málstofum um þá Snorra og Wagner og mikilvæg tengsl þeirra.
Að lokum vil ég geta þess að félagar í Wagnerfélaginu eru nú 254 talsins. Ekki er mikið um úrsagnir úr félaginu, en haft er að reglu að taka menn út af félagaskrá greiði þeir ekki félagsgjöld sín tvö ár í röð. Sem formaður vil ég nota tækifærið og þakka ánægjulegt samstarf við stjórn félagsins og varastjórn, svo og endurskoðendum félagsins, þeim Halldóri Halldórssyni og Guðrúnu Nordal. Ég vil einnig þakka Menntamálaráðuneytinu fyrir fjárstuðning við styrkþegaverkefnið okkar. Þorvaldi Gylfasyni þakka ég fyrir að gefa félaginu myndband með leiðsögn um verk Wagners, The Music of Richard Wagner, Course Guidebook eftir Prófessor Robert Greenberg. Jóhanni J. Ólafssyni fyrir myndböndin Wagner and me og Wagner’s Dream. Loks vil ég fyrir hönd stjórnarinnar þakka öllum þeim félagsmönnum, sem hafa hjálpað til við að halda uppi starfi félagsins
Selma Guðmundsdóttir
formaður Richard Wagner félagsins á Íslandi