París 30.11. til 6.12.2020
Áhugi á Parísarhring 2020 kannaður - 25.5.2019
Ágætu félagar.
Að nýlokinni Hringferð til New York var ekki meiningin að fara strax af stað með annan. Nú barst mér samt ábending um nýjan Hring sem verður hleypt af stokkunum í París næsta vetur og verður í tveim 6 daga lotum í lok nóvember 2020. Ég heyri að það sé ekki lengur hægt að panta miða, amk ekki sem einstaklingur, allt uppselt, hins vegar bauðst mér tækifæri að panta fyrir hóp og hef tekið frá 24 miða á sýningar 30.11-6.12 í Categoríu 2 (af 8) og er gjaldið fyrir allar sýningar 890 evrur og er í því verði innifalið snack og drykkir í hléum og á undan Rheingold.
Philippe Jordan stjórnar þessari sýningu en leikstjóri er Calixto Bieito. Nokkrir söngvarar: Jonas Kaufmann, Ian Patterson, Ekaterina Gubanova, Eva-Marie Westbroek, Martina Serafin, Andeas Schager.
Nú lýsi ég eftir áhuga félagsmanna, fyrstur kemur fyrstur fær. Ekki verða pantaðir fleiri miðar. Fyrirkomulagið verður þannig að þeir sem hyggjast fá Hringmiða ferðast til Parísar 29. nóv og tilbaka 7.des. Tekin verða frá sæti með Icelandair fyrir hópinn (amk þá sem búa á Íslandi) svo fólk kaupir ekki flugmiða á eigin vegum. Slíkt hópfargjald myndi í dag kosta 43.000, með tösku. Alltaf er hægt að biðja Icelandair um framlengingu og hægt er að nota punkta. Ekki er hægt að panta flugið fyrr en ári á undan, en ég mun gera það fyrir hópinn, hugsanlega líka hótel ef þeir hafa gott hótel nálægt óperunni.
Varðandi Feneyjaferðina á þing Alþjóðasamtakanna í lok nóvember í ár, þá er enn beðið eftir lokaútgáfu prógrammsins og mæli ég með að þátttakendur bíði með að panta flug þar til prógrammið liggur fyrir.
Bestu kveðjur
Selma
Eftirfylgni og þáttakendur
Ágætu Parísarfarar 2020
Aðeins nokkrar línur til að minna á að gjalddagi óperumiðanna er í næstu viku og mun ég senda út reikningsupplýsingar og upphæð 1. júlí og greiðslur þurfa að berast í síðasta lagi 3. júlí. Til að losna við gengismun er gott að greiðslur berist á ca sama tíma. Þið greiðið mér í íslenskum krónum.
Eins og ég greindi frá í félagsbréfi fyrir skömmu var ég í París í byrjun júní og ákvað þá að færa hópinn upp um einn verðflokk, sem þýðir 60 evrur í viðbót eða samanlagt 950 evrur fyrir Hringmiðana.Í því verði er innifalið snack og drykkir í hléum og á undan Rheingold. Philippe Jordan stjórnar uppfærslunni en leikstjóri er Calixto Bieito. Nokkrir söngvarar: Jonas Kaufmann, Ian Patterson, Ekaterina Gubanova, Eva-Marie Westbroek, Martina Serafin, Andeas Schager.
Flug: Ég mun panta hópfargjald frá Icelandair fyrir hópinn 29.nóv til 7.des. og eru allir beðnir um að taka þessi hópfargjöld, þar sem þau virka aðeins ef því sem næst allir taka þau (verð í dag væri 43.000). Undanþegnir eru þeir sem búa erlendis eða eru starfsmenn Icelandair. Hægt er að nota punkta og gjafabréf við greiðslu þessara fargjalda. Yfirleitt er hægt að framlengja ef óskað er. Þetta get ég ekki pantað fyrr en í nóv/des og mun þá biðja ykkur um kennitölur og það sem til þarf.
Gisting: Hver getur fyrir sig valið sér gistingu, en ég mun einnig biðja Icelandair um tillögur. Skoðaði tvö hótel beint á móti miðasölunni og skáhallt á móti óperunni við rue de Lyon: www.pavillonbastille.com og www.hotelbastille.com,
Það var ekki tímabært að panta en verð virtist nokkuð gott á þeim árstíma þegar við komum og staðsetning auðvitað frábær. Síðan má kanna með hvað Icelandair leggja til eða hvort þetta yrði pantað gegnum þá.
Í fylgiskjali eru nöfn þáttakendanna 40.
Með sólarkveðju
Selma