Richard Wagner (1813–83) var ókrýndur konungur þýskrar tónlistar á seinni hluta 19. aldar. Hann skapaði úr gömlum sögnum metnaðarfull listaverk auk þess sem hann kannaði þanþol tóntegundanna og setti þannig mark sitt á þróun tónlistar um áratuga skeið. Áhrifa hans gætti um álfuna alla og ekki aðeins í músíkheiminum heldur í bókmenntum, leiklist, myndlist og jafnvel stjórnmálum. Um leið var hann umdeildur fyrir list sína sem og skoðanir á mönnum og málefnum. Verk hans voru bæði dáð og hötuð af meiri ákafa en flest önnur – og svo er raunar enn þann dag í dag.
Árið 1851 fluttist silkikaupmaðurinn Otto Wesendonck frá New York til Zürich, þar sem hann settist í helgan stein ásamt Mathilde eiginkonu sinni. Nokkrum mánuðum síðar kynntust þau hjónin Wagner og Minnu eiginkonu hans, en Wagner hafði látið að sér kveða í byltingaröldunni sem gekk yfir Evrópu á árunum 1848–49 og var sakaður um landráð. Næstu ellefu ár var hann pólitískur flóttamaður og dvaldist þá í Sviss. Mikil vinátta tókst með Wesendonck- og Wagner-hjónunum og ekki leið á löngu þar til Otto tók að greiða niður skuldir tónskáldsins, sem voru umtalsverðar. Um þetta leyti vann Wagner að textum Niflungahringsins, en hann tók sér stöku sinnum hlé til að semja smærri verk, m.a. píanósónötu og lítinn polka handa hinni fögru Mathilde. Árið 1857 dró til tíðinda þegar Wesendonck-hjónin buðu Wagner að flytjast inn í gestahúsið við villu sína og þá varð ekki aftur snúið. Wagner og Mathilde áttu í sjóðheitu ástarsambandi og í kjölfarið lagði Wagner Niflungahringinn á hilluna um skeið en lagði í staðinn drög að óperu um forboðnar ástir Tristans og Ísoldar. Síðla árs 1857 og fram á næsta vor samdi Wagner fimm sönglög við kvæði eftir Mathilde. Wagner hafði samið allmörg sönglög á yngri árum sínum, m.a. lagaflokk við kvæði úr Fást eftir Goethe, en Wesendonck-söngvarnir eru þeir einu sem hann samdi sem fullþroska listamaður.
Ástarævintýrið varð ekki langlíft og Mathilde virðist aldrei hafa haft í hyggju að skilja við eiginmann sinn. Þegar Minna komst að hinu sanna 1858 hélt Wagner til Feneyja og hafði lítið af þeim Wesendonck-hjónum að segja eftir það. Söngvarnir sem hann samdi við kvæði Mathilde bera mjög keim af óperunni sem var að fæðast í huga hans um sama leyti. Wagner gaf sjálfur tveimur laganna undirtitilinn „Æfingar fyrir Tristan“ enda eru áhrifin auðheyrð. Söngurinn Träume snýr aftur sem miðhluti ástardúettsins í 2. þætti Tristans, og í Im Treibhaus heyrum við tónlist sem Wagner notaði síðar við upphaf 3. þáttar. Söngvarnir eru ástríðufullir og tónmálið víða mjög krómatískt og tilfinningaþrungið. Wagner samdi lögin fyrir söngrödd og píanó, en eru einnig oft flutt í hljómsveitarútsetningu eftir Felix Mottl.
1. Der Engel
In der Kindheit frühen Tagen
Hört’ ich oft von Engeln sagen,
Die des Himmels hehre Wonne
Tauschen mit der Erdensonne,
Daß, wo bang ein Herz in Sorgen
Schmachtet vor der Welt verborgen,
Daß, wo still es will verbluten,
Und vergehn in Tränenfluten,
Daß, wo brünstig sein Gebet
Einzig um Erlösung fleht,
Da der Engel niederschwebt,
Und es sanft gen Himmel hebt.
Ja, es stieg auch mir ein Engel nieder,
Und auf leuchtendem Gefieder
Führt er ferne jedem Schmerz,
Meinen Geist nun himmelwärts!
2. Stehe still!
Sausendes, brausendes Rad der Zeit,
Messer du der Ewigkeit;
Leuchtende Sphären im weiten All,
Die ihr umringt den Weltenball;
Urewige Schöpfung, halte doch ein,
Genug des Werdens, laß mich sein!
Halte an dich, zeugende Kraft,
Urgedanke, der ewig schafft!
Hemmet den Atem, stillet den Drang,
Schweiget nur eine Sekunde lang!
Schwellende Pulse, fesselt den Schlag;
Ende, des Wollens ew’ger Tag!
Daß in selig süßem Vergessen
Ich mög’ alle Wonnen ermessen!
Wenn Aug’ in Auge wonnig trinken,
Seele ganz in Seele versinken;
Wesen in Wesen sich wieder findet,
Und alles Hoffens Ende sich kündet;
Die Lippe verstummt in staunendem Schweigen,
Keinen Wunsch mehr will das Inn’re zeugen; —
Erkennt der Mensch des Ew’gen Spur,
Und löst dein Rätsel, heil’ge Natur!
3. Im Treibhaus
(Studie zu Tristan und Isolde)
Hochgewölbte Blätterkronen,
Baldachine von Smaragd,
Kinder ihr aus fernen Zonen,
Saget mir warum ihr klagt?
Schweigend neiget ihr die Zweige,
Malet Zeichen in die Luft,
Und der Leiden stummer Zeuge
Steiget aufwärts, süßer Duft.
Weit in sehnendem Verlangen
Breitet ihr die Arme aus,
Und umschlinget wahnbefangen
Öder Leere nicht’gen Graus.
Wohl, ich weiß es, arme Pflanze:
Ein Geschicke teilen wir,
Ob umstrahlt von Licht und Glanze,
Unsre Heimat ist nicht hier!
Und wie froh die Sonne scheidet
Von des Tages leerem Schein,
Hüllet der, der wahrhaft leidet,
Sich in Schweigens Dunkel ein.
Stille wird’s; ein säuselnd Weben
Füllet bang den dunklen Raum:
Schwere Tropfen seh’ ich schweben
An der Blätter grünem Saum.
4. Schmerzen
Sonne, weinest jeden Abend
Dir die schönen Augen rot,
Wenn im Meeresspiegel badend
Dich erreicht der frühe Tod;
Doch ersteh’st in aller Pracht,
Glorie der düstren Welt,
Du am Morgen neu erwacht,
Wie ein stolzer Siegesheld!
Ach, wie sollte ich da klagen,
Wie, mein Herz, so schwer dich sehn,
Muß die Sonne selbst verzagen,
Muß die Sonne untergehn?
Und gebieret Tod nur Leben,
Geben Schmerzen Wonnen nur:
O wie dank’ ich, daß gegeben
Solche Schmerzen mir Natur!
5. Träume
(Studie zu Tristan und Isolde)
Sag’, welch wunderbare Träume
Halten meinen Sinn umfangen,
Daß sie nicht wie leere Schäume
Sind in ödes Nichts vergangen?
Träume, die in jeder Stunde,
Jedem Tage schöner blüh’n,
Und mit ihrer Himmelskunde
Selig durch’s Gemüte ziehn!
Träume, die wie hehre Strahlen
In die Seele sich versenken,
Dort ein ewig Bild zu malen:
Allvergessen, Eingedenken!
Träume, wie wenn Frühlingssonne
Aus dem Schnee die Blüten küßt,
Daß zu nie geahnter Wonne
Sie der neue Tag begrüßt,
Daß sie wachsen, daß sie blühen,
Träumend spenden ihren Duft,
Sanft an deiner Brust verglühen,
Und dann sinken in die Gruft.
Mathilde Wesendonck
1. Engillinn
Á öndverðum bernskudögum
heyrði ég oft sagt frá englum
sem hafa skipti á dýrðlegri himinsælu
fyrir sólu þessarar jarðar,
svo að þá geti, hvar sem hjarta þjáist
af kvöl og þrá, hulið veröldinni,
þar sem því ætlar að blæða út
og það tortímast í táraflóði,
svo að þá, þar sem það grátbænir
aðeins um eitt, — endurlausn,
geti engillinn svifið niður til jarðar
og lyft því blíðlega til himins.
Já, það steig einnig engill niður til mín,
og á ljómandi fjaðurvængjum
ber hann nú anda minn burt
frá öllum sársauka til himna.
2. Nem staðar!
Þjótandi, hvínandi hjól tímans,
þú sem mælir eilífðina;
þér ljómandi hnettir í alheimsgeimi
sem umkringið jarðarhvelið;
æverandi sköpunarverk, nem staðar,
nóg er um verðandi, lát mig í friði!
Haf þig í skefjum, mótandi kraftur,
frumhugsun, sem skapar að eilífu!
Haltu andanum, sefaðu þrána,
hljóðnaðu aðeins eitt andartak!
Svellandi lífæðar, hemjið slögin,
endaðu, eilífi dagur viljans!
Svo að ég megi í ljúfu algleymi
skynja gjörvalla fagnaðarsælu!
Þegar sál sökkvir sér gjörsamlega í sálu
er þær drekka unaðssælar augliti til auglitis;
eðlismót finnur sjálft sig í eðlismóti,
og lokastund allrar vonar boðar komu sína;
varirnar hljóðna í agndofa þögn,
og hið innra á sér engar óskir framar; —
þá ber manneskjan kennsl á teikn eilífðarinnar
og ræður gátu þína, heilaga náttúra!
3. Í gróðurhúsinu
(Frumdrög að Tristan og Isolde)
Háhvelfdu blaðkrónur,
smaraðgsgræni tjaldhiminn,
þið afsprengi fjarlægra jarðbelta,
segið mér hvers vegna þið syrgið?
Þegjandi beygið þið greinar ykkar,
myndið teikn í loftinu,
og þögult vitni þjáninganna,
ljúfur ilmur, líður upp á við.
Í löngunarfullri þrá
breiðið þið út armana
og faðmið vitstola að ykkur
staðlausan hrylling auðnar og tóms.
Ég þekki það vel, vesalings jurt,
örlög okkar eru ein og söm,
þótt við séum umlukin birtu og ljóma
eru átthagar okkar ekki hér.
Og hversu glaðlega sem sólin segir skilið
við tómlegt skin dagsins
þá hjúpar sá sem að sönnu þjáist
sig í þagnarmyrkur.
Það hljóðnar; hvínandi gnauð
fyllir dimman salinn af beyg:
ég sé þunga dropa svífa
á grænum jaðri laufblaðanna.
4. Sársauki
Sól, á sérhverju kvöldi
grætur þú fögur augu þín rauð,
þegar þú deyrð fyrir aldur fram
baðandi í spegilsléttum haffleti;
en samt ríst þú í allri dýrð þinni,
dásemd þessa myrka heims,
nývöknuð að morgni
eins og hnarreist sigurhetja!
Æ, hvernig gæti ég þá volað,
hvernig má hjarta mitt vera svona þungt,
ef sólin sjálf verður að láta bugast,
ef sólin verður að slokkna?
Ef dauðinn elur af sér nýtt líf,
ef aðeins sársauki getur af sér sælu:
Ó hve ég þakka þá að náttúran
hefur gefið mér þvílíkan sársauka!
5. Draumar
(Frumdrög að Tristan og Isolde)
Seg mér, hve undursamlegir draumar
halda hug mínum svo föngnum,
að þeir hverfa ekki sem innantómt hjóm
inn í eyðilegt tómið?
Draumar, sem með hverri stundu
og hverjum degi blómstra fagurlegar,
og líða með himinboðskap sinn
í sælu gegnum hugann!
Draumar sem sökkva sér í sálina
eins og háleitir geislar
til að mála þar eilífa mynd:
Algleymi, innlifun!
Draumar eins og þegar vorsólin
kyssir blómin upp úr snjónum,
svo að dagurinn heilsar þeim
og býður til ófyrirséðrar sælu,
svo að þau vaxa og blómgast
og gefa dreymandi frá sér ilm sinn,
glóa ljúflega þér við brjóst
og sökkva síðan í gröf.
Reynir Axelsson þýddi