Richard Wagner og verk hans í dagbókum Cosimu

Síðari hluti 1878 til 1883

Flutt í vefvarpi laugardaginn, 21. nóvember 2020

Árið 1878

30 janúar „[…] R. segir, „Þú ert gjöf af himnum ofan; það er vegna þín sem ég trúi á Guð.“ – “

12. febrúar „[… Cosima:] Ó, harmur, minn gamli félagi, komdu aftur og dveldu í mér; við þekkjumst vel – […]“

Hvaða harm er Cosima að tala um þarna? Það var víst ekkert minna en framhjáhald bóndans með Judith Gautier, en að því komst Cosima seint og um síðir. Það átti sér stað eftir sýningarnar á Hringnum og staðfestast í bréfum sem Wagner skrifaði Judith, til dæmis 2. september 1876, (sem sé) næstum einu og hálfu ári áður en Cosima ávarpar Félaga Harm. Í þessu bréfi Wagners til Judithar segir meðal annars: „[…] Faðmaði ég þig í síðasta sinn í morgun? Nei! – ég mun sjá þig aftur – mig langar það! Vegna þess að ég elska þig! […].“ Það var árið 1964 sem þetta bréf Wagners var birt almenningi í bréfabók sem kom út í París: Bréf til Judith Gautier frá Richard og Cosimu Wagner. [1]

19. febrúar „Hver er Titurel“ spyr hann mig. Ég hugsa. Hann segir: „Wotan“. „Eftir að Titurel yfirgefur heiminn, öðlast hann sáluhjálp, honum er trúað fyrir því allra dýrmætasta og nú gætir hann þess eins og dauðlegur guð“ […].“

6. mars „[…] R. segir að Berlín verði núna umkringd, eins og Plevna [2] var: Hamborg, Schwerin, Brunswick, Leipzig, Vínarborg, München, í öllum þessum borgum er verið að setja upp Hringinn. – “
Mánudagur, 11. mars „[…] Við endum þennan dag í ljúfri nálægð, með djúpri tilfinningu fyrir hamingju okkar, óvitandi um heiminn, dveljum í hvort öðru. […].“

15. mars „[…] R. segir að Mozart hafi aldrei fengið neinar greiðslur fyrir Töfraflautuna […].“

19. mars „Wagner vill útsetja fyrsta kafla Es-dúr kvartetts Beethovens með samskonar hljóð¬færaskipan eins og í Idyll. Þemun yrðu þá skýrari með hornunum; jafnvel í bestu túlkunum tapast svo mikið, hlutirnir eru ekki aðgreindir.

20. mars „[…] Við ákveðum að láta Fidi lesa einungis Schopenhauer sem inngang að heimspeki, síðan Platon og þá Kant. – […].“

Þetta er nokkuð vel í lagt, miðað við það að Siegfried reyndist ekki mikill námsmaður.

21. mars „[…] Hann hlær að því að vera kallaður endurreisnarmaður. „[…] Lýsingin á við Lúter, ég hef einungis ræktað út frá sáðkornum sem voru þegar fyrir hendi […].“

Laugardagur, 23. mars „Góð nótt hjá R.; um morguninn veltir hann Tristan og Ísold fyrir sér og segir: „Hvernig fór ég að því að ná upp sæluvímunni í öðrum þætti? Ég veit hvernig, – það var út frá því, að sjá Schröder-Devrient sem Rómeó [3], það er góð hugmynd að setja konu í það hlutverk, vegna þess að þessi smámenni, ekki síst tenórar, geta aldrei sýnt þessi yndislegu, villtu faðmlög; […].“

25. mars „R. þurfti að fara á fætur um nóttina; ég hef áhyggjur vegna þess að hann drekkur núna meira koníak en hann hefur verið vanur, og ég tala um það við hann. – […]“

1. apríl „[…] Um kvöldið fer hann í gegnum Forleikinn að Olimpie eftir Spontini með herra Seidl, sem þekkir ekki verkið: „Frábært verk,“ segir R. […] Það má staðsetja það einhversstaðar á milli Gluck og Rossini, […] formið alveg eins og hjá Gluck og mjög margar endanótur sem enginn hafði notað á þann hátt fyrr en Rossini gerði það, fyrir utan Cherubini. […] Allt saman mjög dramatískt ef maður ber það saman við til dæmis Brahms.“ […].“

12. apríl „[…] Um kvöldið Parsifal fyrir föður minn, frá því að farið er inn í Helgidóminn og áfram. Mjög svo sérstakt, ógleymanleg sjón: R. og faðir minn, stórfeng-leiki lífsins, […].“

26. apríl „[…] Þegar ég er með honum er allt í lagi, en svo þyrmir yfir mig og ég er haldin ólýsanlegri löngun til að deyja!“

2. maí „[…] Allt sem tengist frægð gerir mig dapra; […].“

3. maí „[…] tenórinn herra Jäger er í Wahnfried; hann syngur fyrir R. frásögn Lohengrins með góðri rödd, en með öllum þeim villum í tjáningu sem tíðkast í þýskum óperuhúsum. R. syngur þetta síðan fyrir hann með hinum göfuga einfaldleika sem gerir sálinni kleift að tala beint við áheyrendur […].“

15. maí „[…] Um kvöldið leikur herra Rub. píanóútsetningu sína af „Brynhildur vaknar,“ okkur líður vel að heyra þessa tóna aftur. R. segist hafa gaman af þessum hýrlega heiðna andblæ og hann bætir við, „Hversu ólíkt Parsifal!“ […] R. segist alltaf hafa verið góður í hljómsveitarút¬setn¬ingum.“

29. maí „[… R.:] „Ó, hjartans fjársjóðurinn minn, þú dregur fram allt það besta í mér – síðan verður ekkert eftir nema það slæma!“ […].

4. júní „[…] R. sér líkindi á milli Wotans og Kundry: bæði þrá þau hjálpræði og bæði berjast gegn því, Kundry í atriðinu með Parsifal, Wotan í atriðinu með Siegfried. […]“ „[…] R. harmar það að hann skuli ekki hafa látið eftir sig neina nemendur. […].“ […] R. skrifar Malwidu og segir að þar sem allir tónlistarmenn í dag séu Schumanns-sinnar, hafi Beethoven lifað til einskis. […].“
18. júlí „[… R.] „Veistu, að stundum þegar koma til mín hugmyndir af tónlistarlegu tagi, þá tek ég eftir því að ég er með munninn á mér í sömu stellingu eins og Beethoven á dauðagrímunni hans?“ – […]“

Flestar færslur Cosimu í dagbókina byrja á greinargerð um það hvernig Wagner hafi sofið um nóttina. En það á ekki við um færsluna mánudaginn 22. júlí sem við heyrum hér í heild sinni og lýsir atburði sem margir dagbókarritarar hefðu kosið að þegja um. Færslan er svona:

„Mikill og velkominn hiti, R. upptekinn, eins og hann segir, af trúarbragðafræðum. Í hádegismatnum gerist nokkuð leiðinlegt [e. dismal]; Fidi hagar sér illa gagnvart föður sínum; sú kvíðvænlega hugsun nær tökum á mér að hann muni ekki reynast verðugur föður sínum og þessi hugsun, í stað þess að hún beinist að mér, snýst öndverð inni í mér og beinist gegn barni mínu og ég slæ hann svo fast að það kemur fram marblettur. Engin orð, ekki heldur ekkinn hjá mér, geta lýst fyrirlitningunni sem ég hef á sjálfri mér – ó, þeir heppnu aðilar sem voru uppi á tímum friðþæginga [e. atoned]! Í þessu tilviki, eins og alltaf, er R. himneskur gagnvart mér. En, því miður, engin elskulegheit geta hjálpað mér í þessari stöðu, og ég spyr ég sjálfa mig kvíðafull hvaða demón búi í manni, sem geri það að verkum að persóna sem er að öllu jöfnu yfirveguð, missir tökin á öllu samræmi [e. proportion]. Þetta var í fyrsta skipti – mun það verða í það síðasta? Ég er hrædd, og í örvæntingu minni reyni ég að koma mér aftur upp þeirri sjálfsstjórn sem einkennir mig að jafnaði. Nú er það ekki lífið sem ég hræðist, held ég, og það er heldur ekki dauðinn eða annað fólk, heldur ég sjálf! . . . Við ökum til Waldhütte, förum á bakaleiðinni framhjá Fantasie hótelinu, öllum börnunum líður vel og eru stillt. Ó, Guð, R. sagði við mig að ég sé göfug að öllu leyti, en þrátt fyrir það hlýt ég að fyrirlíta sjálfa mig óendanlega!“

12. ágúst „[… Cosima]: vinstra augað á mér neitar að virka. […].“

Tengdadóttir Cosimu, Winifred, gat verið kuldaleg og um augnvandamál Cosimu sagði hún: „Cosima er svo hégómleg að hún vill ekki nota gleraugu.“ Aðeins einu sinni er minnst á gleraugu Cosimu í dagbókum hennar og það er í draumi Wagners þar sem hann heldur á gleraugum Cosimu og segir að hún sé nærsýn. (Bls. 805, Fyrra bindi. Föstudagur, 20. nóv. 1874).

16. ágúst „[…] Ég segi við R. að kraftmikil, nánast ofbeldisfull tjáning hans, sem hann er oft ávítaður fyrir, sé í mínum huga aðeins merki um eðlisávísun hans í grein¬ingu á falsinu og lygunum í heiminum, og að hann eigi það oft til, ómeðvitað, að hlusta ekki á aðra vegna þess að hann vilji ekki að sannleikurinn verði óljós – í slíkum tilvikun sé sannleikur¬inn næstum alltaf í hættu.

21. ágúst „Um morguninn fjölyrðir R. um hinn einstaka, fyrir¬mann¬lega [e. aristocratic] persónuleika föður míns, allt í fari hans sé fágað, eins og hjá prinsi, og stórbrotið, en líka uppfullt af listrænni snilld. […]“ […] Yfir kvöldmatnum er mikið rætt um Berlioz og hversu illkvittinn hann var í garð föður míns. […].“

8. september „[…] R. talar um Minnu, smám saman höfðu slæmar hliðar hennar komið í ljós sem orsökuðust áreiðanlega af takmarkaðri greind hennar; í eðli sínu var hún góðhjörtuð, orkumikil og hjálpsöm, en síðan varð hún tortryggin vegna þess að hún gat ekki fylgt R. eftir. […] Hin gamla vitra leikkona Frl. Hacker reyndi að vara hann við Minnu, […].“

Í einu af bréfum Minnu til Wagners kemur fram að þegar hann var að semja greinina gegn gyðingum, sem hann birti fyrst undir dulnefni, hafi hann lesið greinina fyrir Minnu áður en greinin birtist. Þau voru ósammála um efni greinarinnar, fóru líklega í gegnum eitt af sínum mörgu rifrildum vegna þess; eftir það las Wagner aldrei fyrir Minnu neina af þeim greinum sem hann samdi.

Miðvikudagur, 18. september „[…] Nístandi áhyggjur af því að Siegfried verði kannski ekki föðurbetrungur! […].“

22. september „[…] R. segir að Händel hafi verið Rossini síns tíma. […].“

Eins og þekkt er var Wagner ekki að öllu leyti ánægður með frum-uppfærsluna á Hringnum í Bayreuth. Þetta var uppfærsla í hans eigin leikstjórn og sú eina sem hann sá um ævina. Helstu gallana talar hann um við Cosimu sunnudaginn 29. september (1878) og segir uppfærsluna hafa verið mjög fallega og óviðjafnanlega:

„En okkar á milli verðum við að viðurkenna að margt var ekki eins og það hefði átt að vera; til dæmis […] var fjallið of hátt – ég mun breyta því dag nokkurn þegar ég set Valkyrjuna á svið á Himnum við hægri hönd Guðs, og við, ég og sá gamli, horfum á hana saman –
leiksvæðið var of þröngt, […] í Siegfried var ekki nægilegt rými fyrir bardagann; […] of lítið pláss var fyrir Rínardæturnar, […] Búningarnir voru lélegir, næstum allir.

Á heildina litið var uppfærslan einstök [e. extraordinary], en ekki góð hvað varðaði nokkur smáatriði.“ R. talar um hve mikið hann þjáðist á þessum tíma og þolinmæðina sem hjálpaði honum við að þegja um það allt saman.“

Þetta er nú reyndar staða blessaðs leikstjórans: endalaus þolinmæði og endalaus vinna. Í fyrsta skipti sem ég gerði mér grein fyrir hvílíkur vandi það er að vera leikstjóri, var þegar ég lék í Kertalogi eftir Jökul Jakobsson undir leikstjórn Stefáns Baldurssonar og Jökuls Jakobssonar í Iðnó; þetta var í leikhússtjóratíð fyrrverandi frönskukennarans míns í MH, Vigdísar Finnbogadóttur. Á miðju æfingatímabilinu spurði ég Stefán að því hvort hann ætlaði ekki að laga ákveðið atriði sem mér sýndist auðvelt að laga og Stefán svaraði: „Ekki alveg strax“. Annarskonar diplómatískra viðbragða leikstjóra minnist ég úr Þjóðleikhúsinu þegar Sveinn Einarsson var að setja Oresteiu Æskýlosar á svið, þar sem ég lék sendiboðann, sem Illugi Jökulsson var ósáttur við. Einn daginn spurði Sveinn eina kvenstjörnuna: „Ertu kannski tilbúin að fara í nokkrar sviðshreyfingar núna?“

1. október „[…] R. talar um þörf sína á þeim tíma [Tristan] fyrir að reyna á takmörk sín tónlistarlega, vegna þess að í Niflungunum var áherslan á dramað svo mikil að það neyddi hann til að takmarka tónlistarlega tjáningu. […]. R. leikur Forleikinn að Parsifal […] og talar um einfaldleikann í Forleiknum: „Það eru bara þarna nokkur andstæð þemu.“

10. október „Þennan dag fyrir nákvæmlega tuttugu og fimm árum sá ég R. í fyrsta skipti! […].“ [París].

Daginn eftir skrifar Cosima:

„[…] Þegar ég spyr hann hvort hann elski mig, svarar hann, ,Allt líf mitt, vinnan, og verund mín bera þér vitni um það.ʻ“

15. október „[…] Fyrir hádegi skrifar hann bréf til Konungsins og les það fyrir mig […] ég les orð hans um að sál hans tilheyri að eilífu honum (Konunginum); það nístist inn í hjarta mitt eins og höggormstönn og ég er ekki viss um hvað ég vil. Ég vil ekki að þetta sé sannleikur […] ég þjáist og læt mig hverfa til að fela sársaukann. Eins og alltaf er það hin heillandi sátt við sársaukann sem hjálpar mér. […]. R. segir mér, að ég sé núna með kaþólska svipinn – […].“

17. október „[…] R. er að hugsa um að endurskoða ballöðu Sentu, honum finnst byrjunin vera í of miklum þjóðlagastíl en ekki í anda Hollendingsins […] Mjög djúpar, raunar bitrar tilfinningar bærast í mér varðandi það, að ég verðskuldi ekki þessa aðstöðu, eftir því sem ég næ betur að skilja persónu hans og hamingju mína. […].“

Persónuleiki Wagners var óvenjulegur og flókinn, svo það var bara eðlilegt að það tæki Cosimu tíu ár að reikna hann út.

22. október „[…] Hann skammar mig fyrir að vera með áhyggjur. […].“ […] R. hlær að mér vegna þess hversu hlýðin ég er. Það minnir hann á hjólbörurnar í Frankfurt. […] Ó, hvernig má það vera að mér hafi hlotnast það að verða milliliður í dýrð hans?!“

7. nóvember „[… Cosima:] ég vil vera Dante [ekki Beatrice], vera algjörlega mótuð af honum, egói mínu útrýmt, vera algjörlega hluti af honum. […].“

10. nóvember „[…] Skeyti frá Vínarborg, […] Siegfried hefur sigrað hér á sviðinu! R. finnst það meir en lítið merkilegt þar sem verkið er einungis millispil [e. intermezzo], hinn raunverulegi sorgarleikur er Götterdämmerung.“
14. nóvember „[… R.:] eina sanna listin í dag er tónlistin […].“

16. nóvember „Fyrir tíu árum síðan, upp á dag, flutti ég til R. […] Hann minnist þess að ég hafi verið mjög formleg og hátíðleg fyrst í stað – og eins og Kundry, vildi ég bara þjóna, þjóna … […] „Mozart samdi aldrei neitt heimskulegt,“ segir hann. Hann lætur senda eftir hálfri flösku af kampavíni og við drekkum til heiðurs lífi okkar saman sem sífellt verður hamingjuríkara. „Nema hvað ég er of gamall,“ segir R. „Ég þyrfti að vera 15 árum yngri.“ […].“

30. nóvember „[…] það sem hann skrifaði í forleiknum að Parsifal innihélt allt sem forleikurinn þarfnaðist […] [R:]„forleikurinn að Meistarasöngvurunum, var einn merkilegasti innblástur sem ég hef fengið.“ […].“

11. desember „Hér höfum við ágætt dæmi um samtal Wagners og Cosimu:

R. segir: „Tristan getur aldrei orðið vinsælt verk.“ Ég er ekki sammála og segi að það hafi fyrst og fremst verið Tristan og Ísold sem færði honum sína sönnu aðdáendur og að það sé einmitt þessi spunakennda tónlistarlega kenndavakning ástarinnar sem færir fólki galdurinn sem fólk sækist ómeðvitað eftir í leikhúsinu. „Já“ segir R., „ef um fyrsta flokks uppfærslu er að ræða á verkinu.“ Síðan segir hann: „Verkið sýnir ástarpar glóandi á efsta stigi hrösunar: þau játa það ekki gagnvart hvort öðru en þau finna að það er aðeins ein flóttaleið – í gegnum dauðann; fyrst spyrja þau hvort annað, „Hvernig gerðist það, fyrst við elskuðum hvort annað frá upphafi, að við fórum frá hvort öðru?“ Síðan vill hún ekki hugleiða dauðann sem hann hefur afráðið fyrir þau, þar til hann sannfærir hana, og bæði finna þau síðan æðstu tegund af hamingju, í þessari ákvörðun. Hver getur fylgt öllu þessu?“ [Cosima]: Ég held því fram að allir sem hafi verið ástfangnir, jafnvel þó um hafi verið að ræða falska eða heimskulega ást, hljóti að hafa upplifað sorg í ástinni og lífinu, og muni bregðast við galdrinum; viðkomandi upplifir sig meira og meira frelsaðan frá þungum byrgðum sínum, umbreyttur vegna innri hughrifa sem hafa kraumað innra með honum, vaknar til meðvitundar og siðbætir hann.“ R. hlær og segir, „Ég verð að segja þér hverju Meyerbeer svaraði mér þegar ég lýsti fyrir honum tilfinningu minni um að sviðssetningin á atriðinu þar sem stúlkurnar baða sig (í Húgenottunum) passaði ekki við tónlistina: „Má vera, herra Wagner, en það eru ekki allir með jafn sterkt ímyndunarafl og þér.“ […]
Seinna segir hann að hann hafi haft löngun til að tjá sig á sinfónískan hátt og það hafi leitt til Tristans.“

Skemmtileg færsla.

12. desember „[…] The Idyll er eina verk mitt sem kemur beint úr mínu eigin lífi; ég gæti lýst hverju einasta efnisatriði í því í réttri röð.“ [e. I could write a program for it down to the last t.].

25. desember Mikil afmælistóna-veisla, Meiningen hljómsveitin.

26. desember „[…] R. segir að Fidi, […] líkist föður hans Geyer. Ég: „Geyer faðir þinn hefur klárlega verið faðir þinn.“ R.: „Ég hef ekki trú á því.“ „Hvers vegna þá líkindin?“ R.: „Á þeim tíma var móðir mín ástfangin af honum – andlegur skyldleiki [e. elective affinities].“


Skýringar […] [4]

27. desember „R. segir mér að hann hafi skoðað forleiki Mendelssohns, sem ég hafði komið fyrir á meðal jólagjafanna hans; hann er ánægður með Lygnan sjó, hann var góður tónlistarmaður. – […].“

1879

13. janúar „[… R.:] enginn hefur blandað jafn vel saman strengjum og tréblásturshljóðfærum eins og Beethoven., […].“

17. febrúar „[…] hann rifjar upp laglínuna í „Verðlauna söngnum“ [í Meistarasöngvurunum] sem varð til á undan ljóðinu, […].“

Þetta er mikið undantekningaratriði hjá Wagner, sem skrifaði nánast alltaf ljóðin á undan tónlistinni. Að vísu uppástóð hann að ef efni verkanna kæmi ekki til hans upphaflega í tónum, væri ekki þess virði að vinna það yfir í óperu.

7. mars „[…] Þegar ég horfi á R. þar sem hann er að spila, fæ ég einkennilega tilfinningu; mig langar til að faðma hann og fara með hann til himna og vernda hann gegn öllum þjáningum – mér finnst að þetta sé hlutverk mitt. […].“

10. mars „Þolanleg nótt hjá R., og hann er að vinna „Hversu gjörólík vinnubrögðin eru hjá manni núna!“ segir hann og rifjar upp að hann lauk við tónlistar-uppkastið að Lohengrin á einungis 6 vikum. […] Ég hef það alltaf sterkar og sterkar á tilfinningunni að ást og löngun eftir dauðanum séu eitt og hið sama, eins og í Tristan; lífið kallar einungis fram kvalir og áhyggjur.“ […] Um kvöldið, tónlist úr Siegfried [„Skógar niður“] og úr Götterdämmerung („Brottför“). „Mér líkar vel við Niflungana,“ segir R., „Þeir eru svo heiðnir; ekki vottur af Kristni nokkurs staðar.“ – […].“

25. apríl „[…]. R. heilsar mér með þeim fréttum að hann hafi lokið við [handritið að] Parsifal, […].“

3. maí „[…] hann sendir skeyti til konungsins til minningar um fyrsta fund þeirra fyrir 15 árum. […].“

6. maí „[…]. Hann er svo þreyttur að hann sofnar í hálftíma í baðinu. […].“

10. maí „[…]. Hann spyr mig hvort ég muni halda áfram að vera góð við hann þrátt fyrir að hann sé alltaf að kvarta! […].“ „[…] hann talar um karlmenn sem giftast snemma, segir að þeir séu týndar sálir, Frú Schröder-Devrient fyrirleit hann fullkomlega að þessu leytinu til og sakaði hann um að vera tjóðraðan við pilsfald eiginkonu sinnar. […].“

26. júní „[…] í þessum mánuði, fyrir 15 árum, kom ég til hans í Starnberg til að vera með honum. […].“

17. júlí „[…] R. minnist þess þegar hann sá Weber leika við son sinn úti á svölum á húsinu hans og námumennirnir gengu framhjá; á markaðstorginu stóð maður fyrir framan auglýsingaskilti og söng, „Ný morðsaga til að segja ykkur, lesendur mínir.“ Nokkrum árum síðar heyrir R. fagott-konsert eftir Weber í Gewandhaus og ber kennsl á sömu laglínuna sem hann hafði heyrt sungna á svo groddalegan hátt á markaðstorginu, nema hvað nú var hún orðin ljúflingsþema leikin á óbó! […].“

18. júlí „[…] Fínn dagur; börnin fara til Eremitage. Yfirþyrmandi þunglyndi hellist yfir mig, sem lýsir sér í fossandi táraflóði. Getur verið að samskipti við ytri heiminn séu að verða mér ofviða? Eða að kennsla [barnanna] hafi þreytt mig of mikið og endurskoðunin á heimilisbók¬haldinu? Að fréttirnar af Claire hafi beint athygli minni um of að æsku minni og heimili sem var horfið úr minni mínu? Eða er ég stundum of meðvituð um ruddaskapinn í ytra umhverfinu? Ég veit það ekki, en víst er að ég missti allan mátt og hönd mín leitaði uppi De imitatione Christi; [5] ég las nokkra kafla, og líf í klaustri, sem höfðaði sterkt til mín á yngri árum, eins og til allra annarra, virtist mér aftur vera freistandi möguleiki! Ég braust í gegnum glundroðann innra með mér og um kvöldið náði ég að hlæja með fjölskyldunni yfir því hvað „augun í mér voru bólgin“!“

23. júlí „[…] Við fáum fréttir af því að garðyrkjumaðurinn okkar, frábær maður, hafi skotið sjálfan sig til bana. Ungur, hress og virkur, virtist áhyggjulaus, vinalegur og hjálpsamur maður – en hann breyttist; dularfullt, […].“

30 júlí „[…] hann kvartar aftur yfir þrengslum fyrir brjóstinu. „Þú ert veik á sálinni,“ segir hann, „ég í brjóstinu, ég er mjög slappur og verð að þvinga mig til að geta unnið eitthvað. […].“

2. ágúst „[…] við töluðum um Þýskaland, sem er svo erfitt að skilja. – Systir mín, sem var svo hæfileikarík, var aldrei hrifin af Þýskalandi, en ég hreifst af því í gegnum Tannhäuser, og bænina í Lohengrin. Leitt að það skyldi þurfa að vera í gegnum Hans sem ég kom til R.; R. […] heldur að ef ég hefði verið með Oliver hjónunum í París 1859, þá hefðum við náð saman á þeim tíma. […].“

5. ágúst „[…] hann segir frá Marie Tudor og einnig Angelo, þar sem Minna hafði leikið á mjög hjartnæman hátt. – […].“

7. ágúst „[…] Hann segir að hann ætli nú að semja tónlistina [Parsifal] og geyma hana í öryggisskáp þar til veröldin verðskuldi sýningu á verkinu. – […].“

8. ágúst „[…] hann sagði, „Blómatímabil ástarinnar og krafturinn sem í henni býr, hafa aldrei verið túlkuð áður í tónlist eins og í Brynhildi og Ísold.“ […].“

20. ágúst „[…] Um kvöldið spann R. fyrir mig [á flygilinn] „í anda Chopins“; þetta var spaug hjá honum, en samt sem áður mjög indælt.“

2. september „[…] „Það hafa ekki verið margir jákvæðir forverar [e. comforters] í veröldinni – Beethoven, Mozart, Bach, Weber, eru þeir sem ég kalla frumlega laglínumenn.“ […].“

1. október „[…] Hann les eitthvað úr bók Herra v. Hagens, ég tek eftir tilvitnun í Nietzsche og ég tárast yfir því hvað við höfum tapað miklu í honum. […].“

29. október „[…] minningar frá hinu demónska kvöldi í janúar, fyrir næstum tveimur árum; eldur hafði verið tendraður […] og kveikt í pappír […] hann var hissa á því að ég skyldi spyrja hvort eitthvað hefði verið að brenna – .“ [6]

17. nóvember „[… R.:] „Ég hef aldrei heimsótt listasöfn í borgum – ég hafði aldrei tíma til þess; ég hef aldrei farið í Grænu hvelfinguna [7]; ég var aðeins einu sinni staddur í Louvre, og þá með fröken Leplet, sem ég vonaði að mundi styrkja mig peningalega – Kietz hafði sagt mér frá henni.“

18. nóvember „[…] R. biður herra Rubinstein að leika fúgu eftir Bach. Rubinstein velur B-mollinn (fyrir orgel), okkur til mikillar gleði. „Þessi verk eru frumkraftar, eins og pláneturnar, uppfull af sálrænni orku.“ „Þetta er tónlistarmaður par excellence,“ segir hann líka. – […].“

21. desember „[…] Um kvöldið kemur herra Rub. og leikur fyrir okkur sónötu eftir Beethoven, Ópus 110 – sem við erum ekki sem ánægðust með, en það er himnesk stund þegar R., sem situr á móti mér (á litla sófanum við píanóið), skríður allt í einu eftir gólfinu yfir til mín og reynir að kyssa löppina á mér, ég tek um höfuð hans, og hann fer aftur í sætið sitt og hvíslar, „Hann tók ekki eftir neinu.“ […].“

22. desember „Þegar við heilsumst í dag á okkar venjulega hátt, segir R., „Við töpuðum 15 árum, því verður ekki neitað, og við getum ekki unnið þau upp.“ Ég: „Þú vildir mig ekki þá.“ Hann: „Þér vesalingnum (e. wretch), var svo mikið í mun að eignast eiginmann að þú gast ekki beðið.“ […].“

1880

14. janúar „R. dreymdi að Beethoven kæmi til að bjóða honum að vera viðstaddur flutning á sinfóníu. „Guð minn góður, er hann þá ekki dáinn, eftir allt saman? Nei, það var draumur að hann væri dáinn.“ Hann gekk til Beethovens, og báðir reyndu að krjúpa fyrir hvor öðrum, og þeir stóðu þarna fastir í knéföllum. Þá kom ég inn, klædd bleikum og rauðum morgunkjól, og Beeth. sagði, í anda Goethes, en hann bjó yfir mikilleik hans, „Ah, falleg kona!“ R. fór þá að útbúa sæti fyrir hann með því að breyta svefnsófa í legubekk og fela sængurfötin, en vaknaði við þessa hégómlegu tilburði. […].“

3. febrúar „[…] Um kvöldið leikur R. rólega kaflann úr C-Moll Sinfóníunni og „Vorsönginn“ úr Valkyrjunni, hvort tveggja yndislega fallegt. – Og þegar ég tala um það við hann, segir hann, „Ég held því alltaf fram að við, Beethoven og ég, séum tvíbura laglínuhöfundar, við erum báðir með skörulegan tjáningarhátt [e. grand line].“

3. apríl „R. svaf vel, en hann dreymdi Meyerbeer, sem hann hitti í leikhúsi og Meyerbeer sagði við hann, „Já, ég veit það – langa nefið á mér,“ rétt eins og R. hefði verið að gera grín að nefinu á honum, og R. myndaðist þá til að biðja hann afsökunar; þá fögnuðu áhorfendur sættum þeirra. – […].“

7. maí „Í gærkvöldi rifjaði R. upp hugmyndina um að stytta Tristan; hann segir að verkið geri of miklar kröfur til áhorfenda og söngvaranna, og hann myndi stytta bæði annan og þriðja þátt, og sýna verkið einungis í Bayreuth, […].“

19. júlí „[…] Um klukkan 11 göngum við til náða, eftir að R. er búinn í kola-tjöru baðinu, en hann fer strax fram úr, og þar sem hann snýr ekki til baka, fer ég á eftir honum; við sitjum í þögn á veröndinni […] svo röltum við um garðinn fyrir framan dyrnar, skiptumst á nokkrum orðum og gleymum okkur í hugleiðingum. Kannski yndislegasta nótt sem við höfum upplifað! […].“

21. ágúst „[…] – Komum til Siena um klukkan 10 […] förum í dómkirkjuna! R. tárast, hefur aldrei orðið fyrir svo sterkum áhrifum af byggingu. Gaman væri að heyra forleikinn að Parsifal undir þessari hvelfingu! […].“

Stundum setti Cosima blaðagreinar, póstkort og annað slíkt inn á milli blaðsíðna í dagbókunum. Eitt póstkort sem borist hafði frá Hamborg, setti hún á milli 28. og 29. ágústs. Í skýringum aftan við dagbækurnar er þetta póstkort birt í heild sinni, en sendandinn var H.v.Leesen, formaður í Club „Freundschaft“. Póstkortið er svona:

„Ég er formaður leiklistarklúbbs í Chicago og myndi geta sett á svið fyrri verk yðar þar; en ég hef ekki á mínum snærum neina ljóshærða söngvara í hlutverkin, en eiginlega bara dökkhærða gyðinga, sem eru þó mjög hrifnir af list yðar. Mynduð þér ráðleggja mér að taka áhættuna með slíkum mannskap fyrir framan þýska áhorfendur?“

7. september „[…] R. er í góðu skapi, og margar minningar frá æskuárum koma upp í huga hans, þar á meðal frumraun Alberts bróður hans á sviði og hvernig Marcus læknir, sem var að gera hosur sínar grænar fyrir systur hans Cäcilie, trúði honum fyrir því grátandi þegar þeir voru í göngutúr að hann gæti ekki gifst henni, þar sem hann væri gyðingur og starf hans byggðist á þjónustu við gyðinga. […].“

9. september „[…] Um kvöldið lesum við Werther [8] til enda, ég út að Ossian og R. það sem eftir er […].“

Daginn eftir segir Wagner: […] „Þú ert bæði Werther og Lotta, ástríðufull eins og hann og skynsöm eins og hún!“

24. september „[…] R. er ekki í sínu besta skapi og kemur ekki í kvöldmat – en, faðir minn minnist á Parsifal og þá vaknar löngun hjá honum til að spila eitthvað úr verkinu og eftir kvöldmat spilar faðir minn næstum allan þriðja þáttinn og R. syngur með á guðdómlegan hátt. […].“

4. nóvember Góð nótt hjá R. [… München]. Um kvöldið sýning á Hollendingnum fljúgandi, R. djúpt snortinn þrátt fyrir galla í sýningunni, hann tárast oft.“

7. nóvember „[…] Tristan um kvöldið, líklega aldrei upplifaður í jafn mikilli sorg; R. mjög hrifinn, segir okkur að hann finni til með hverri persónu, með Marke, með Kurvenal, honum finnst hann vera sérhver þeirra. – Hljómsveitin mjög góð. Annar þáttur kóróna verksins.“

30. nóvember „[…] R. segir að best skrifaði partítúr hans sé Lohengrin. […].“

17. desember „R. svaf betur […]. Í morgunmatnum rifjar hann upp hljóm-sveitarútsetningar sínar og segist aldrei hafa misreiknað sig á áhrifunum sem hann vildi ná fram – hann gæti hafa ofhlaðið undirspilið fyrir söngvarana áður fyrr, en hann gerði engin mistök varðandi hljóðfærasamsetninguna. […].“

1881

3. janúar „[…] – Þegar hann horfir á börnin í kringum sig, segir R., „Að hugsa sér, eftir 30 ófrjósemisár, að nú skuli allt í einu vera fimm börn í kringum mig!“

28. janúar „[…] Í samtali okkar minnist hann þess þegar ég flutti til hans í Triebschen og að ég sagði við hann, „Sestu nú niður og ljúktu við Siegfried,“ og hvernig hann að lokum lauk verkinu eftir langt hlé […].“

9. febrúar „[…] „Keisaramarsinn er líklega besta verk mitt sem er samið fyrir hljóðfæri.“ […].“
„15. febrúar […] Við komum aftur að Meistarasöngvurunum; um Forleikinn að þriðja þætti segir hann, „Það er það fegursta sem ég hef nokkurn tíma samið.“

23. mars „[…] Spilum vist um kvöldið, R. er heppinn, svo hann er ánægður. Svo les hann úr Hamlet með svo áhrifamiklum hætti að maður hefur á tilfinningunni að enginn í öllum heiminum gæti, betur en hann, tjáð hlýjuna, virðuleikann, biturleikann, háðið, tómlætið og hinn valdsmannslega tón hetjunnar, […].“

Þegar Cosima hafði búið með Wagner í 13 ár, tókst henni loks að átta sig á hinni óvenjulegu og flóknu samsetningu sem var Richard Wagner. Þá færði hún skilning sinn til bókar:

2. apríl „R. svaf vel. […] Ég geri mér sífellt betur grein fyrir því að þegar hann (R.) segir stundum eitthvað sem virkar móðgandi og særandi, þá gerir hann það í mesta sakleysi, og að hann býr yfir demónsku innsæi í að hafa rétt fyrir sér. Sú staðreynd að maður er svo varnarlaus gagnvart því, gerir það að verkum að manni líður illa. […]“

Samanber máltækið: Sannleikurinn er sagna sárastur. Eða eins og Ibsen orðar það í einu af leikritum sínum: Meðalmaðurinn þolir ekki sannleikann.

27. júní „[…] Í hádeginu ræðum við um hverja skuli ráða í kórinn. Síðan ýmislegt frá R. um líf hans, meðal annars þetta: „Ég var aldrei ástfanginn. Þegar demóninn mikli fer af stað,“ segir hann og snýr sér að mér, „það er allt annað mál – það er ekki að vera ástfanginn, […].“

En þegar maður les bréf Wagners til Minnu á sokkabandsárum þeirra, sértaklega bréfin sem Cosima náði ekki að farga, þá kemur nú allt annað í ljós; að vísu lítur úr fyrir að ást hans hafi á þeim tíma borið nokkurn keim af ástsýki.

11. júlí „[…] Hans segir mér að hann viti ekki hvenær hvítt sé hvítt eða svart svart, hann hefur ekki lengur neina leiðarstjörnu. Hann þjáist af taugarykkjum; við kveðjumst. Ég fer að sækja Danielu, vildi gjarnan tala við hann aftur, en hann vill það ekki. Græt á heimferðinni með Daníelu. […].“

28. júlí „[…] – Raddskráin að Der Freischütz liggur á píanóinu, og R. segir, „Ég náði í hana til að sýna þér hver hafi verið meistari minn,“ og hann sýnir mér tvo hljómsveitartakta áður en aría Agötu „Wie nahte mir der Schlummer“ hefst – hversu mikil breiddin er hjá blásturhljóðfærunum – „Hann var sá fyrsti til að skrifa svona; það kemur fyrir hjá öðrum en bara örstutt, en hann gerði þetta á meðvitaðan hátt.“ –

Um 5 leytið, er fundur með framkvæmdanefndinni; þegar mennirnir eru búnir að funda nokkra hríð kemur R. að sækja mig, segir mér að hann viti ekki hvað hann eigi að segja við þá. Við ræðum smíðina á stúku konungsins, fjölritarana, og einnig mál N[athalíu] Planer (sem fær R. til að brosa tortryggnislega vegna fyrri eiginkonu sinnar sem fékk sig til að leyna dóttur sinni því að hún væri móðir hennar!). Seinna grínumst við með það hvað honum líkar illa að vera innan um annað fólk ef ég er ekki með. Ég segi honum að það sé vegna þess að honum finnist ekki skemmtilegt að tala bull, sem ég á svo auðvelt með. […]“

1. ágúst „[…] Ég leik þætti úr Götterdämmerung, útsetningu fyrir fjórhent píanó með Loldi. R. segist vera ánægður með verkið. En því miður eru í þessari útgáfu margar viðbætur þar sem segir „wanderlust mótíf,“ „ógæfu mótíf,“ o.s.frv. R. segir, „Og fólk kemur kannski til með að halda að öll sú vitleysa hafi verið sett inn að minni beiðni!“

3. ágúst „[…] – Í gestastofunni [e. salon] tökum við aftur til við Tristan und I., hann talar og syngur út að endinum á fyrsta þætti; honum finnst að hann hafi ekki þjappað þessum hluta nægilega vel saman þegar Tr. og I., standa andspænis hvort öðru, nema þegar verulega færir stórleikarar fara með hlutverkin; […].“

8. ágúst „[…] – Steingräber kom í heimsókn til að fá leiðbeiningar um smíðina á „kirkjuklukku píanóinu.“ [9]

12. ágúst „[…] R. talar um grein sína Leikarar og söngvarar, […] hann telur sig hafa verið sannsýnan þar gagnvart söngvurum og leikurum. […].“

13. ágúst „[…] Bréf berst frá herra Vogl varðandi hlutverk Kundrýar fyrir eiginkonu hans, sem minnir R. óþyrmilega á leiðindin í kringum leikhúsheiminn, og hann harmar að þurfa að vinna með fólki sem er svo hégómlegt. Hann segir að eftir Parsifal ætli hann einung¬is að skrifa sinfóníur.“

16. ágúst „[…] R. leggur sig, er mjög þreyttur […] ég segi honum að mig langi líka til að leggja mig, og þar sem við liggjum þarna, förum við að hugsa til Egils og dóttur hans, sem vildu deyja en gerðu það ekki. Við förum á fætur, hlæjandi; […].“

Að vísu var það bara Egill sem vildi deyja.

4. september „[…] um kvöldið veltir hann því fyrir sér hvort hann muni gleymast, verði að víkja fyrir einhverjum sem geri hlutina auðveldari fyrir áheyrendur. En hann kemst að niðurstöðu, „það verður ekki auðvelt að gera það auðvelt.“ – “

19. september „R. segir mér í annað sinn að hann telji að Parsifal muni falla fólki vel í geð, og hann segir að verkið sé það lang athyglisverðasta sem hann hafi samið. […].“

21. september „[…] – Í kaffitímanum töluðum við mikið um Minnu, geng¬umst bæði við fegurð hennar og þeirri staðreynd að rétt eðlisávísun leiddi R. til hennar: ,Á þann hátt slapp ég við alls konar heimskupör og einbeitti mér einungis að vinnunni minni.ʻ – Hann vorkennir henni fyrir að hafa gifst honum.“

27. september „[…] Hann vinnur og límir yfir tvo takta þar sem Parsifal svarar Kundry, honum fannst þeir vera of Meyeerberískir – […].“

29. september „[…] Á gönguferð okkar ræddum við þann forvitni¬lega og demónska ávana hans að særa fólk án þess að nokkur illska liggi þar að baki; í dag til dæmis, þegar hann var órólegur, sagði hann að ef hann væri kóngur, myndi hann deila út alls konar ráðuneytum, svo sneri hann sér að Joukowsky og segir, „A vous celui de la chétiveté [fyrir þig vesældar ráðuneytið].“ Þar sem Joukowsky er mjög vesældarlegur – sem er einnig ástæðan fyrir því að hæfileikar hans munu aldrei fá að njóta sín til fullnustu – var Joukowsky mjög sár, þar til ég útskýrði fyrir honum að það væri alltaf merki um innri óróleika hjá R. þegar hann stingur klónum út á þennan hátt, en hann hefði að vísu demónska og óskeikula hæfileika til að hitta á veikustu blettina hjá manni. – […].“

30. september „R. var eirðarlaus í nótt, meðferð læknisins [gegn gigtinni] hefur aðeins gert ástandið verra. Þrjár blóðsugur eru settar á hann – R. kallar þær þokkasældirnar þrjár – honum er gert að halda sig í rúminu […]“.

4. október „Í sendibréfi frá vinkonu segir að ef heimurinn færist mundi hún aðeins bjarga Tristan, R. segist vel skilja það, vegna þess að í Tristan hafi hann helgað sig tónlistinni algjörlega; í öðrum verkum hefði leikræni þátturinn þrengt að flæði tónlistarinnar. […].“

6. október „[…] Um kvöldið koma nokkrir gestir; faðir minn leikur tilbrigði eftir Beethoven á þann hátt að R. spyr hvort hægt sé að trúa því að Beeth. sjálfur hafi getað leikið þau þannig, hann heldur ekki; og hann dásamar einfaldleikann sem gerir það að verkum að hver laglína heyrist eins og sjálfstæður einstaklingur. […].“

10. október „[…] Klukkan 7 eru nákvæmlega 28 ár frá því að ég sá R. í fyrsta sinn. Ég gef honum lítinn áttavita, og hann gefur mér hringinn sem hann ætlaði fyrir jólagjöf, með yndislega fallegum ópalsteini! Við rifjum upp minningar, hann minnist eiginkonu sinnar Minnu og hvernig hún yfirgaf hann í Dresden! […].“

13. október „[…] R. vinnur, og um kvöldið lesum við í Uhland söguna af Starkardr, [sic] sem kemur á eftir sögunni um Egil sem R. las fyrir okkur í gærkvöldi, og skemmtum okkur hið besta. – Í tengslum við þær leikur R. fyrstu taktana í C-Moll Sinfón¬íunni! – Við töluðum um sónötur; það sem R. hælir í þessum síðustu verkum Beethovens, ekki síst í kvartettunum, er að allt óviðkomandi efni er horfið, og aðeins þematísk atriði eru eftir. – Um Bach sagði hann nýlega, ,Eins og heimurinn áður en maðurinn kom fram.ʻ – “ [10]

Margir hafa velt því fyrir sér hvað Wagner hafi átt við þegar hann sagði að hann skuldaði heiminum Tannhäuser. Svarið birtist að einhverju leyti –

19. október „[…] R. segist vera mjög sáttur við Lohengrin, en í Tannhäuser myndi hann gagnrýna nokkrar leyfar sem finna má af gömlu óperuhefðinni (til dæmis í dúettinum á milli Elísabetar og T. þurfa söngvararnir nánast að víxla hlutverkum). Hann virðist einnig telja að það sé ósamræmi á milli nýju atriðanna og verksins í heild. […].“

Færslan þennan sama dag endar svona, (og þar er eitt hnitmiðaðasta þankastrikið í Dagbókunum):

„[…] „Ég minnist þess að 26 ár eru liðin frá því að ég heyrði Forleikinn að Tannhäuser í fyrsta sinn og – trúlofaðist.“

Þetta leiðir hugann að því hvort samtímafólk Wagners, sem heyrði verk hans í fyrsta sinn, hafi ekki upplifað einhverja magnaða töfra, sem samtímafólk okkar fer hugsanlega á mis við. Eða í það minnsta hef ég ekki heyrt um neina samtímakonu eða mann sem hefur trúlofað sig strax eftir að hafa heyrt forleikinn að Tannhäuser í fyrsta sinn.

18. nóvember „[…] – Í hádegismatnum talar hann um Parsifal, segir að verkið muni vekja furðu okkar allra; hann minnist sérstaklega á bænina sem opinberar allt, sem ekki er hægt að setja fram í orðum, því orð eru hugtök og verður að líta á sem slík. Hann segir mér að ég geti ekki ímyndað mér hvernig þessi bæn sé. Ég bendi honum á að ég viti það nú þegar: „Ó, já, á píanóið, en það er ekki neitt, það er hljóðfæraútsetningin sem skiptir öllu máli.“ – “

20. nóvember „Fyrsta umræða okkar var um Shakespeare, R. segir að hetjurnar, ,sem varla er raunar hægt að lýsa sem hetjum,ʻ séu mjög líkar gömlu Víkingunum, og þær minni á Egil; […].“

Sumir hafa velt því fyrir sér innan Wagnerfræðanna hvernig standi á því að Wagner hafi unnið með ýmsum gyðingum, þrátt fyrir að vera ekki mikill aðdáandi gyðinga. Svarið kemur fram í einu bréfi Wagners til Lúðvíks II sem Cosima minnist á í Dagbókinni þriðjudaginn 22. nóvember (1881): „ –

Um morguninn lýkur hann við bréfið til konungsins og segir mér að hann hafi fjallað sérstaklega um Gyðinga, sagt honum að þeir hafi varðveitt í sér tilfinningu fyrir því sem er einlægt og ósvikið [e. genuineness] sem Þjóðverjar hafi gersamlega glatað, þess vegna sé það að margir þeirra halli sér að honum. – “

27. nóvember „[…] Ég fer í fyrsta göngutúrinn um borgina [Napolí] og tala í hádeginu um upplifunina. Þegar minnst er á Etnu, talar R. um Heklu og Ísland og líf Víkinganna þar. […].“

31. desember „[…] Hann segir, „Guð einn veit, að stundum þá finnst mér ekkert vera raunverulegt nema tónlist“ – […]; við förum inn í nýja árið sofandi.“

1882

3. janúar „[…] R. þykir leitt að þegar honum líður illa, freistist hann til þess að vera hrjúfur, eða öllu heldur að særa aðra. […]
Við ræðum um Schopenhauer og ég grínast með það að hann sé vondur maður, fyrst að hann sá Tannhäuser og „þó að sýningin hafi verið slæm“ þá hafi hann ekki fundið neitt bitastætt í verkinu, ekki heldur í textanum. – […].“

13. janúar „[…] „Dýrðlegir ómar frá marsinum í Tannhäuser heyrast, svo kemur hann inn og – hann hefur lokið við Parsifal. […]. Hann segir mér að A-moll hljómurinn (þegar Kundry fellur til jarðar) komi til með að valda sterkum hughrifum hjá mér; […].“

14. janúar „[…] Við ræðum um portrett, andlitsmyndir og hann segir í glaðlegum tón að einhver ætti að mála hann þar sem ég væri að freista hans með epli í anda grænmetisæta. Ég segi honum að frá því að hann varð svo reiður við Nietzsche vegna umfjöllunar um grænmetisætur þá hafi ég ekki haft hugrekki til að gerast grænmetisæta. R. segir: „Já, þegar hann kom til okkar, borðaði hann ekkert og sagði, „Ég er grænmetisæta,“ þá sagði ég við hann, ,Þú ert asni!ʻ […]. – “

Spurning hvort Nietzsche hafi byrjað að snúast gegn Wagner á þessu augnabliki.

21. febrúar „[…] (Um kvöldið spilar Rub. forleikinn að Msöngvurunum og lokin á Tristan og Ísold, en R. er ekki ánægður með spilamennskuna – hann segir að leyndarmálið við þetta sé að það eigi að láta tempóið algjörlega eiga sig en leggja þess í stað áherslu á andlega frelsið.) […].“

27. febrúar „[…] R. segir: „Til þess að maður hafi einhverja hugmynd um sjálfan sig, þarf maður að vera elskaður – vald lífsgjafarinnar er kvenlegt. – Hlutirnir byrjuðu að virka aftur hjá mér þegar þú komst til mín – fólk var farið að segja að ég myndi aldrei gera neitt meira, en þá fór allt af stað aftur. Maður getur lifað um stund á sínum eigin styrk, en síðan þarf að sýna manni mynd af sjálfum sér í spegli til þess að maður viti hvað maður er í raun og veru.“ […].“

Að sýna manni eins og Wagner með sinn feiknasterka persónuleika mynd af sjálfum sér í spegli, hefur ekki verið áhlaupaverk hjá Cosimu. Nietzsche reyndi að gera það, en það var of sterkur sannleiki fyrir Wagner. Nietzsche var heldur ekki að fara neinar mjúkar leiðir á þeirri vegferð. Það er því ekki að ófyrirsynju að Wagner líkir Cosimu við fyrsta íslenska sálfræðinginn Þorgerði Egilsdóttur, sem bjargaði lífi föður síns, Egils Skallagrímssonar, með því að láta hann tyggja söl, þegar hann ætlaði að svelta sig til bana.

2. mars „[…] R. gengur um á veröndinni og í garðinum, síðan heyri ég að hann fer að spinna á flygilinn niðri, hann skrifar niður laglínu, síðan sýnir hann mér hana og segir að hann hafi loksins fundið laglínuna sem hann var að leita að. […].“

Í skýringunum sem fylgja Dagbókum Cosimu segir (bls. 1132): „Laglína: Porrazzi Laglínan,“ lokaútfærsla (e. rounding off) á hugmynd sem Wagner fékk á meðan hann var að semja annan þáttinn í Tristan og Ísold.“ [11]

Cosima heldur áfram með færsluna þennan dag og skrifar: „[…]

Ég upplifi þessa opinberun sem eins konar endurnýjun á blessun tilveru minnar – ef til vill gæti ég kallað þetta umbun fyrir að hafa aldrei leyft vonum mínum að þverra – þessir tónar blómstra fyrir mér eins og vatnalilja rótfest í dýpstu kimum verundar okkar – hvernig get ég, kæri Guð, þakkað þér? […].“

Tuttugu og fimm dögum síðar, eða mánudaginn 27. mars, þegar Wagner spinnur Porrazzi laglínuna áður en hann fer að sofa, skrifar Cosima:

[…] „Enn og aftur opinberar þessi laglína mér allra leyndustu kima sálar minnar og ég geng alsæl til náða. […].“ [12]

5. mars „[…] Í kvöldmatnum segir hann okkur á mjög ákveðinn hátt að hann þurfi að stytta þriðja þáttinn í Tristan vegna þess að enginn komi til með að geta sýnt hann eins og Schnorr gerði, sem var svo áhrifaríkt að það var langt handan þess sem maður gat ætlast til að fá að upplifa á sviði. Það þarf líka að stytta annan þátt í þeim hluta þar sem hið „gervilega og frumspekilega andríki“ er ráðandi; þrátt fyrir að það sé uppfullt af tilfinningum er stór hluti áhorfenda sem ekki er fær um að tengja við það. ,Ég leyfði mér þetta í Lucerne, á þeim tíma þegar ég var slippur og snauður.ʻ – Þegar hann rís upp við dogg í rúminu segir hann „Ég elska þig mjög mikið – það var það sem ég vildi segja þér,“ og við lognumst út af inn í nóttina.“

Það var mikið áfall fyrir Wagner þegar Schnorr dó, en Schnorr var einn af þessum góðu söngvurum sem var snilldar leikari. Það sem Wagner fannst svo frábært við Schnorr var hversu djúpan skilning hann hafði á þeim persónum sem hann túlkaði og á hverju drama fyrir sig.
En að mínu mati var það alltaf Wilhelmine Schröder-Devrient sem var viðmiðið hjá Wagner þegar hann skóp nýjar persónur. Hann sá hana í hlutverki Rómeós, sem þýðir að hvort sem hann var að skapa karl- eða kvenpersónur, þá miðaði hann alltaf við bestu leiktúlkunargæði sem hugsanleg voru. Á síðari árum var rödd Vilhelmínu farin að gefa sig en hennar djúpu og breiðu dramatísku hæfileikarnir voru óskertir. [13]

31. mars „[…] R. skrifar [Amalie] Materna um hlutverk Kúndrýjar og segir að hún skuli ekki hafa áhyggjur af lágu nótunum, þar sem það þurfi síður mikla rödd fyrir hlutverkið en gott hjartalag, og það hafi hún sýnt í öðrum þætti Valkyrjunnar. Fyrir Klingsor finnst honum þurfa meiri illmennsku en rödd. […].“

5. apríl „Góð nótt hjá R., þrátt fyrir að hann vaknaði upp einu sinni og segði ,Ég er að deyja – ó, þvílík fegurð.ʻ […].“

Þegar Wagner talar þarna upp úr svefni átti hann tæpt ár eftir ólifað.

21. apríl „[…] við förum á Markúsartorgið [Feneyjar]; R. biður herhljómsveitina að spila Forleikinn að Gazza Ladra,[Rossini] sem þeir gera, og það mjög fallega. […].“

25. apríl „[…] Á meðan börnin eru í Sankti Markúsar kirkjunni fer ég í Belle Arti, og á þar unaðslega klukkustund, og R. finnur mig fyrir framan Kvöldmáltíðina í Emmaus eftir M. Marziale, þar sem maðurinn með stóra hattinn hefur djúp áhrif á hann, og líka reyndar öll myndin, […] við stöldrum við fyrir framan Assunta, og hún vekur dásamleg hughrif. Þegar ég segi að hún myndi heild [e. totality] svona svipað og 9. Sinfónían, segir R., „Ó, við eigum ekkert svo fullkomið í tónlist – þar er allt einungis tilraunir.“ […].“

26. apríl „[…] – Í gær sagði R. að eina fullkomna meistaraverkið sé Oresteia […].“

Ég átti því láni að fagna að leika í uppfærslu Sveins Einarssonar í Þjóðleik¬húsinu á Oresteiu fyrir 37 árum eða árið 1983. Það eftirminnilegasta í mínum huga við þá uppfærslu var röggsöm og hrynörugg forysta Herdísar Þorvaldsdóttur í kórnum. Æskílos var elstur grísku leikritahöfundanna og þeirra mestur, síðan kom Sófókles sem var ljóðrænastur. Síðastur var svo Evripídes, sem Nietzsche sagði að hefði eyðilagt gríska sorgarleikinn með Sókratískri rökspeki og máttlítilli dramatík. Verið gæti að Nietzsche hafi komist að þessari niðurstöðu í samræðum við Wagner.

27. apríl „[…] Við tölum um innkomu konungsins í líf hans; áður en það kom til hafði líf hans (Rs) verið algjörlega rótlaus tilvera, segir hann. […].“
Wagner dó í febrúar 1883. Færsla Cosimu á síðasta afmælisdegi hans, mánudaginn 22. maí hefst svona: „Vöknum hamingjusöm; en svo, því miður, brjóstkrampi, svo að börnin þurfa að bíða með að færa honum hamingjuóskir. […].“

27. maí „Um Sh. segir R., „Hann er eini andlegi vinur minn.“ […] R. er í góðu skapi og dásamar hamingju sína, en bætir alltaf við að hún hafi komið 15 árum of seint. […].“

29. maí „[…] R. segir að Tristan sé hans tragískasta verk, vegna þess að þar er náttúran hindruð í sínu æðsta hlutverki. –“

Þetta minnir á það að Wagner skrifaði Schopenhauer bréf þar sem hann gagnrýndi heimspekinginn fyrir að gleyma líkamsþættinum í ástinni. Bréfið sendi hann að vísu aldrei, enda hefði Schopenhauer væntanlega ekki skilið hvað Wagner átti við.

Föstudagur, 2. júní „[…] Í dag er dagur Heilags Blandines, R. gefur Boni [Blandine] fallegan blævæng – fyrsti kaþólski hátíðisdagurinn sem við höfum haldið upp á! [14] – […] R. segir: Enska er tilbúið mál (undir H. VII), þar á undan var töluð franska, Shakespeare gat unnið á skapandi hátt með tungumál sem var í mótun, svipað og Dante; en þegar mixtum compositum var endanlega lokið var ljóðlistin orðin lífvana. – Um kvöldið spilar R. fyrir gestina hið fallega Andante úr D-Moll Sinfóníu Mozarts, síðan eitthvað úr Es-Dúrnum, og enn síðar úr Euryanthe og „Lutzows wilde Jagd.“ Hann segist vorkenna Weber fyrir að hafa neyðst til að fórna öllum sínum frábæru hugmyndum á óperuformið. Ég hafði það á tilfinningunni að mikið samlyndi hefði ríkt um kvöldið, en seinna heyri ég R. kvarta yfir því að hann sé ,skyldugur til að skemmta þessum öpum.ʻ Ég bið hann um að gera einungis það sem veitir honum ánægju.“

Sunnudagur, 4. júní „[…] R. ber Kawi-Sprache [15] saman við verk sitt Ópera og Drama og segir, „Slík verk eru rannsóknarfræði, könnunarverk sem maður semur fyrir sjálfan sig, en ætti ekki að gefa út.“ Honum finnst þó að Ópera og Drama búi yfir betri skilgreiningum. […] Um Shakespeare segir R., „Hann var sá frábærasti [e. the greatest] þeirra allra.“ […] Hann sýndi okkur veröldina eins og hún var, en opinberaði aldrei sjálfan sig.“

Nú kemur hér smá uppbrot, að því leyti til að hér er á ferð svolítið langur pistill af hugleiðingum frá mér

Wagner var víðlesinn maður sem átti stórt bókasafn, þegar hann segir að Shakespeare hafi aldrei opinberað sjálfan sig, þá kemur í ljós gat í bókmenntun Wagners, því hann las aldrei Sonnettur Shakespeares, en þar kemur í ljós ást Shakespeares á konu [The Dark Lady] og svo ást hans á karlmanni; síðan gerði Shakespeare þau mistök að kynna þau tvö fyrir hvort öðru og missti þau þannig bæði frá sér því þau tóku saman. Þannig opinberaði Shakespeare sig. En á hinn bóginn var það rétt hjá Wagner að Shakespeare opinberaði sig aldrei í leikritum sínum. Shakespeare lék föður Hamlets, sem er kannski lýsandi fyrir hann, því Shakespeare var maðurinn á bak við leikritin, en faðir Hamlets er jú draugur.

Shall I compare thee to a Summers day? Það er sárt fyrir aðdáendur Wagners að vita til þess að Wagner naut ekki snilldar Shakespeares í sonnettunum, en ástæðan var líklega fyrst og fremst sú að Wagner las leikrit Shakespeares í þýskum þýðingum og var ekki mikill enskumaður. Það hamlaði honum þegar Viktoría Englandsdrottning heiðraði Wagner með heimboði í Windsor kastala. Cosima var hins vegar betur skólamenntuð en Wagner og gat bjargað sér vel á ensku.
Það er talsvert menningarlega rétt að Viktoría drottning og Wagner skyldu ekki geta ræðst mikið við. Viktoríanski tíminn, sem kenndur er við hinn langa valdatíma Viktoríu, er tímabil bælingarinnar en þetta tímabil er líka tímabil Wagners, sem er megin fulltrúi hinnar fullkomnu andstæðu við bælingar Viktoríusinna, þó ekki sé samanborið við annað en Tristan og Ísold og síðan ævi Wagners. Væri hægt að ímynda sér að Viktoría hefði notið þess að upplifa Tristan og Ísold? Varla, konan sem var spurð: „Hvernig eiga konur að fjölga Englendingum ef þær mega ekki njóta kynlífs? Og svar kerlingar var svona:„Þú liggur á bakinu, og hugsar um England.“ Og svo er það mótsögnin: Hver unni eiginmanni sínum heitar en Viktoría, samanber Viktoria og Albert Museum og minnismerkið um Albert í Hyde Park og svo Royal Albert Hall, þar sem Wagner stjórnaði verkum sínum en Viktoría hlýddi ekki á.

Shakespeare var sem sé að mati Wagners besta skáld í heimi og Wagner hefði gjarnan viljað vera Shakespeare no. 2, en vissi ósköp vel að hann var það ekki; Shakespeare var helsta fyrirmynd Wagners í dramatískum skrifum. Númer tvö af leikritaskáldum var Æskylos með meðal annars þríleik sinn Oresteu, eina þríleikinn sem varðveist hefur frá gömlu leikskálda-Grikkjunum.
Daginn eftir að Wagner tjáði aðdáun sína á Shakespeare, hélt Cosima því til haga að sá næst besti í bókmenntaskrifum hafi verið Cervantes, en þau hjón höfðu mjög gaman af að lesa Don Kíkóta fyrir hvort annað. Þar nutu leiktúlkunarhæfileikar og upplestrarsnilld Wagners sín til fulls.

10. júní „[…] R. les fyrir okkur tvær Íslendingasögur úr Lachmann safninu, sögurnar um skáldið í Ameríku, sem gaf Íslendingum hring og sverð, án þess að láta í ljós hver hann væri; við erum gagntekin af stórfengleik þessara sagna.

„11. júní […] R. leikur fyrir okkur ýmsa hluta úr [Ópus] 111 og allan fyrsta þátt af 101 (A-dúr) sem við hrífumst af; við erum öll sammála honum þegar hann lýsir því yfir af mikilli ástríðu að með þessum verkum hefði Beethoven opnað algjörlega nýjan heim, þar sem allt byggðist á laglínu, þar sem hann töfraði fram fyrirbæri sem ekkert auga gat séð. „En tónlistin er búin að vera,“ segir hann sorgmæddur, „og ég veit ekki hvort mín dramatísku áhlaup ná að fresta endalokunum. Þetta hefur verið mjög stutt tímabil. […]

Hann lýsir þeirri von sinni að faðir minn muni spila eitthvað fyrir okkur, hann sé sá eini sem hann geti flutt tónlist með. […].“

27. júní „[…] Í kvöldmatnum ræðum við uppstillingu hljómsveitar¬innar og R. mælir enn og aftur af eldmóði gegn þeirri hefð að láta strengi og blásturhljóðfæri vera hlið við hlið; hann segir að hljómsveitin þurfi að mynda fullkomna heild, blásturhljóðfærin gefi áhrif ljóss; honum hafði tekist að mynda frábæran hljómblæ hjá hljómsveitinni í París með uppstillingunni sem hann hafði lært af Spontini. Það þarf líka að skipta strengjunum upp, til þess að ná fram meiri „points de départ“ [upphafs stigi, eða skýrleika], eins og Berlioz kallaði það. […].

26. september „[…] Í gær, þegar R. var að tala um Weber, sagði hann, „Þegar ég heyrði fyrst laglínur eftir hann, hætti Mozart að hafa nokkra merkingu fyrir mig.“ […].“

10. nóvember „R. hafði það þolanlegt í nótt, en um morguninn fær hann hjartakrampa, alls fjórum sinnum í dag! . . .“

17. nóvember [16] „[…] R. segir: „Fyrst kom faðir þinn, síðan konungurinn og svo þú – þú stilltir allt af, sameinaðir þá báða.“ […].“

18. nóvember […] Hann kemur aftur inn á þá hugmynd sína að við hefðum átt að sameinast árið 1858: „En þú varst of ung, og ég var ekki í góðu jafnvægi [e. upset].“ […].“

22. nóvember „R. segir mér um morguninn að um nóttina hafi hann ruglast á lyfjunum og tekið 5 pillur af þeirri sortinn sem hann eigi bara að taka 1. Til að vinna á móti því tekur hann núna aftur ópíum dropa! […].

23. nóvember „[…] R. telur að hann hafi aldrei hagnýtt sér neitt af því sem hann hafi lært. Hugmyndirnar bara settust að í huga hans. “Söngur sjómannsins” í Tristan, til dæmis – birtist bara í huga hans; hann gaf því hvorki neinn sérstakan gaum né sagði við sjálfan sig að hann þyrfti að gera þetta eða hitt, og þetta er líklega það sem gefur verkum hans sakleysi og tilgerðarleysi sem mun halda þeim á lífi. – […] Í dag vaknaði ég við þema úr Tristan, og dagurinn endar á sama hátt; þegar við ferðuðumst um í gondólnum, rifjaði hann upp hversu auðvelt okkur reyndist að elska hvort annað, en hversu erfitt okkur hafði reynst að sameinast; og um kvöldið upplifum við svo ríkulega útrás að þó ég hefði ekki verið til áður, gæti ég dáið með þá tilfinningu að ég hefði lifað algjörlega og fullkomlega! Sambönd mín við alla aðra, þurrausa mig, en hér upplifi ég algjöra sælu! Mig langar mjög mikið að segja honum þetta, en hvað eru orð svo sem? Ég umvef hugsanir mínar þögn, með þeirri ósk að þær muni vitrast honum í blessun næturinnar!“

24. nóvember „[…] Um klukkan 7 spilar faðir minn ýmislegt fyrir okkur, E-Dúr Sónötuna og „Ständschen“ eftir Schubert, síðara verkið spilar hann svo dásamlega að það gleður R. einstaklega mikið. Um kvöldið spilum við vist, og í stuttu hléi sem R. fær, vegna þess að hann spilar blinda hönd í vistinni – þá leikur hann „Porrazzi laglínuna“ sína; eftir tvo fyrstu taktana hættir faðir minn að spila vist til að hlusta og segir, „Þetta er fallegt.“ R. verður svo hissa að hann heldur að ég hafi sagt föður mínum frá þessari laglínu. Þegar ég neita því, verður hann ákaflega glaður og hælir föður mínum fyrir næmleika og innsýn.“

20. desember „[…] Í kvöldmatnum hælir R. bréfum föður míns, segir að hann tjái sig alltaf fallega í skrifum sínum. „Ég get það ekki,“ bætir hann við. „Til þess að geta það þarftu að hafa noblesse, mikla siðfágun, sem ég hef ekki.“

1883

23. janúar „[…] R. segir að hann skuldi heiminum Tannhäuser. […].“

1. febrúar „[…] R. kvartar um eyrnaverk og ég set nokkra dropa af volgri mjólk í eyrað. […].“

11. febrúar „R. sá [Wilhelmine] Schröder-Devrient í draumum sínum; hann segir, „Allar konurnar mínar birtast mér núna.“ […].“

Þriðjudagur, 13. febrúar Wagner deyr.

Eftirmáli

Dauði Wagners var mikið áfall fyrir Cosimu sem hafði svo oft talað um að hún vildi deyja um leið og hann. Hún kom því ekki nálægt Parsifal sýningum í Festspielhaus 1883 og 1884. En 1886 bar hún ábyrgð á því að Tristan og Ísold komst þar á svið og svo Meistarasöngvararnir árið 1888. Með þeirri uppfærslu gerðist Cosima einn fyrsti kvenleikstjóri í heiminum. Síðan voru verkin sviðsett í röð: Tannhäuser 1891, Lohengrin 1894 (og Tannhäuser), Hringurinn 1896 og Hollendingurinn 1901. Parsifal var sýndur á öllum þessum hátíðum, nema árið 1896 þegar Hringurinn var í gangi 20 árum eftir að Wagner setti verkið á svið. Þetta ár markaði þau tímamót á hátíðinni að Siegfried Wagner var í fyrsta sinn hljómsveitarstjóri ásamt tveimur kennurum sínum í hljómsveitarstjórn: Richter og Mottl. Frá árinu 1908 bar Siegfried ábyrgð á hátíðinn allt til dauðadags (1930). Nokkrum mánuðum eftir að Cosima dó, andaðist Siegfried. Öll börn Cosimu aðstoðuðu við hátíðina nema Blandine sem flutti frá Bayreuth, hún eignaðist fjögur börn með eiginmanni sínum, en hann batt enda á líf sitt vegna þunglyndis. [17]

Daníela giftist en eignaðist ekki börn og hjónabandið endaði með skilnaði árið1914. Ísold giftist og eignaðist son; samkvæmt lögum var hún dóttir Hans Bülow en ekki Wagners, þannig að hún fór með mál sitt fyrir dómstóla árið 1914, líklega til að sonur hennar fengi arf eftir Wagner, en hún tapaði málinu; hún dó árið1919, 54 ára að aldri. [18] Eva giftist rúmlega fertug Houston Stewart Chamberlain, sem var mikill stuðningamaður nasista, eins og tengdadóttir Wagnrs. Eva og Chamberlain eignuðust ekki börn.

Evu var umhugað um framtíð Wagner fjölskyldunnar og hvatti Siegfried bróður sinn, hinn 46 ára piparsvein til að kvænast. Brúðurin, hin enska Winifred, var átján ára og eignuðust þau fjögur börn, þar á meðal Wieland og Wolfgang sem skiptu báðir mjög miklu máli varðandi listrænan metnað í Festspielhaus.

Cosima bjó alltaf í Wahnfried en eftir árið 1906 tók hún ekki þátt í undirbúningi hátíðar¬innar vegna heilsubrests og sá ekki uppfærslurnar samkvæmt læknisráði, því tónlistin setti hana í tilfinningalegt ójafnvægi. Árið 1909 var Cosimu og Siegfrieds getið í riti um þýska milljónera og árið 1913 var ríkidæmi Wagnerfjölskyldunnar metið á 6 milljónir marka sem samsvaraði um það bil 5,000 almennum árslaun.

Árið 1869 hafði Wagner verið gerður að félaga í Konunglegu listaakademíunni í Berlín. Þrjátíu og einu ári síðar sæmdi Friedrich Wilhelm háskólinn í Berlín Cosimu heiðursdoktorstitli.

Cosima dó árið 1930 á sínu 93. aldursári. Siegfried dó 61 árs að aldri úr svipuðum kvilla og faðir hans, eða hjartaáfalli. Eiginkona hans, sem aldrei hafði kynnst Richard Wagner, tók þá við stjórn hátíðarinnar.

Tilvísanir

[1] Ritstjóri: Léon Guichard. Sjá einnig 29. október 1879 hér á eftir.

[2] Um að ræða uppgjöf Tyrkja gagnvart Rússum árið áður í Plevna.

[3] I Capuletti ed i Montecchi eftir Bellini, byggt á leikriti Shakespeares Rómeó og Júlíu.

[4] Viðbætur Cosimu við síðustu viku ársins.

[5] Bók eftir Thomas à Kempis frá því snemma á 15. öld.

[6] Hafði Wagner verið að brenna bréf frá Judith Gautier? Sjá 12. febrúar 1878.

[7] Stærsta listasafnið í Dresden.

[8] Þjáningar unga Werthers eftir Goethe.

[9] Fjórar djúpar nótur. Píanóframleiðslu-fyrirtækið „Steingräber og synir“ starfar enn í Bayreuth. Óhætt er að mæla með píanótónleikum sem þeir efna til, þar sem spilað er á flygil frá þeim. Fyrir ofan píanóborðið er stór skáhallandi spegill sem gerir áheyrendum kleift að sjá vel hendurnar á píanóleikaranum. Auk þess bjóða þeir upp á skoðunar¬ferð í píanóverksmiðjuna.

[10] Vert að minna á, að það var Liszt sem kenndi Wagner að meta Bach.

[11] Wagner bjó þá í húsi við Porrazzi torgið í Palermo.

[12] Árið 1931 gaf Eva dóttir Cosimu, Toscanini þessa 14 takta Porrazzi þemans eftir að hann hafði stjórnað Parsifal í Festspielhaus. Eva sagði að Wagner hefði gefið Cosimu stefið, sem tileinkun við Parsifal.

[13] Það var engin tilviljun að Wagner skyldi velja Vilhelmínu sem fyrirmynd fyrir hið sígilda drama á sgraffito verkinu sem prýðir Wahnfried á norðurhlið. Hún stendur við hægri hlið Schnorrs sem er í hlutverki Wotans (þó hann hefði aldrei sungið Wotan, bara Tristan). Hrafnar Óðins bera honum tíðindin um framtíðina, ekki síst hvað varðar tón¬list¬ina og á vinstri hönd Wotans er Cosima, sem tákn tónlistarinnar. Óðinn skýrir Vilhelmínu og Cosimu frá boðskap hrafnanna á myndinni yfir innganginum í Friðarhúsi Wagners. Verndari hússins er svo nokkrum metrum fyrir framan útidyrnar, Lúðvík II, Bæjarakóngur (skúlptúr af höfði hans er á háum standi).

[14] Cosima hafnaði kaþólskunni tíu árum áður en þetta gerist eða árið 1872, hún tók þá Lútherstrú að ósk Wagners.

[15] Kawi er elsta útgáfan af tungumáli sem er talað á Jövu og Bali. Talsverður hluti þess var fenginn að láni úr Sanskrít.

[16] Fjölskyldan hefur verið næstum ár í burtu frá Wahnfried en er nú aftur komin heim.

[17] 19. október 1912 skrifaði Blandine í sendibréfi: „Mamma kærði sig aldrei neitt um mig“. Heimild: Bls. 281 Cosima Wagner, The Lady of Bayreuth eftir Oliver Hilmes. Yale University Press, 2010 (2007 á þýsku).

[18] Hún dó ellefu árum á undan móður sinni. Í dabókarfærslu 13. maí 1878 (bls. 71) kallaði Cosima hana vandræðabarn.