Undirkaflar

Wagner og Völsungar

Morgunblaðið 11. mars 2001

Rannsóknir Árna eru afar þýðingarrniklar fyrir áhugafólk um íslenskar fornbókmenntir, segir Jóhann J. Ólafsson, og ekki síður fyrir unnendur verka Richards Wagners.

Það verður seint fullmetið hvílíkur fjársjóður (eða auðlind eins og nú er í tísku að segja) fornbókmenntaarfur okkar er. Hann er endalaus uppspretta vitneskju og fræðslu um mannlegt eðli. Hann er uppspretta hugmynda í listum, vísinda og þjóðfélagsgerða enn þann dag í dag og líklega um alla framtíð meðan fagrar listir eru í hávegum hafðar.

Fyrir meira en 150 árum gekk einn mesti listamaður síns tíma, tónskáldið Richard Wagner, í þennan fjársjóð, sem hafði afgerandi áhrif á gerð fjögurra ópera tónskáldsins, Rínargullsins, Valkyrjanna, Sigurðar Fáfnisbana og Ragnaraka, sem ganga undir nafninu Niflungahringurinn. En menn vissu ekki í hversu miklum mæli Wagner hafði teygað úr Mímisbrunni íslenskra fornbókmennta.

Íslensk fornrit voru helstu heimildir Wagners

Í bókinni Wagner og Völsungar, sem gefin var út af Máli og menningu sl. haust, fjallar dr. Árni Björnsson um niðurstöður rannsókna sinna á því hvernig Richard Wagner nýtti fornar íslenskar heimildir til að skapa viðburðarás og texta Niflungahringsins. Útkoma bókarinnar er mikið fagnaðarefni fyrir Richard Wagner félagið á Íslandi, sem átti frumkvæðið að rannsóknum Árna og stuðlaði að framgangi þeirra. Rannsóknir Árna eru afar þýðingarmiklar fyrir áhugafólk um íslenskar fornbókmenntir og ekki síður fyrir unnendur verka Richards Wagners því í ljós kemur að Wagner sótti mun meira til íslenskra fornrita en áður hefur verið talið.

Þótt kynning Árna á niðurstöðum rannsókna hans sé megintilgangur bókarinnar, kemur hann þó víðar við í bók sinni. M.a. rekur hann aðdragandann að áhuga Þjóðverja á íslenskum fornritum á 18. og 19. öld og segir frá tengslum Íslendinga við tónlist Wagners í gegnum tíðina. Árni segir m.a. frá fjölmörgum íslenskum listamönnum, sem hafa tekið þátt í flutningi á verkum Wagners og frá ferðum Íslendinga á tónlistarhátiðina í Bayeruth.

Aðfengið efni Wagners 80% íslenskt

Í grófum dráttum má segja að niðurstöður rannsókna Árna sýni að af aðfengnum hugmyndum Wagners við gerð Niflungahringsins megi rekja um 80% til forníslenskra heimilda, um 15% hugmyndanna eru fornum íslenskum og þýskum heimildum sameiginlegar, en aðeins fáein brot eða um 5% af efni og atburðum Niflungahringsins, eru eingöngu ættuð frá þýskum heimildum.

Í bókinni leggur Árni áherslu á að Eddurnar og aðrar fornar heimildir Wagners hafi verið skrifaðar á Íslandi, á íslensku og af Íslendingum og því eigi ekki að kenna þessar heimildir við aðrar tungur eða menningarsvæði með orðum sem Norse, nordic, altgermanisch, altnordisch, Scandinavian o.s.frv. eins og oftast hefur verið gert til þessa. Höfundur rökstyður mál sitt með því að benda á það sem vitað er um tilurð og varðveislu heimildanna á Íslandi. Hann setur fram kenningu sína um það af hverju þessar bókmenntir voru eingöngu skrifaðar á Íslandi á tímabilinu 1200-1400 og þá á íslensku, en ekki á latínu, sem þá var aðalritmálið í Evrópu. Tilgáta höfundar er sú að íslenskir bændur hafi á þeim öldum átt kirkjurnar sjálfir og verið tiltölulega frjálsir og vel efnaðir. Því gátu þeir haft geistlega menn í vinnu við að skrifa sögur fyrir sig og varð söguefnið því að henta eigin þörfum og smekk bændanna sjálfra og vera á máli, sem þeir skildu.

Þýsk þjóðernisvitund efld

Í bókinni er rakin þróun þýskrar þjóðernisvitundar, en á 16. og 17. öld hófu Þjóðverjar að halda á lofti tungu sinni og menningu til að fá mótvægi við hin yfirþyrmandi frönsku og ítölsku menningaráhrif, sem réðu ríkjum í Evrópu. Á síðari hluta 18. aldar litu þeir í þessu skyni mjög aftur til forns norræns (einkum íslensks) menningararfs, sem þeir gerðu loks meira eða minna að sínum. Greint er frá þeim fjölmörgu þýsku fræðimönnum, sem stunduðu þýðingar og rannsóknir á íslenskum fræðum í Þýskalandi frá því um miðja 18. öld og m.a. sagt frá því að Grimmsbræður hafi talið öll hetjuljóð eddukvæða í raun vera þýsk og að svipuðu máli hafi gegnt um goðafræðina, sem Jacob Grimm kallaði reyndar „Deutsche Mythologie“.

Í bókinni er listi yfir bækur með íslenskum heimildum fornum, sem talið er víst eða mjög líklegt að Wagner hafi lesið eða haft aðgang að áður en hann tók til við að semja texta Niflungahringsins. Að sögn Wagners sjálfs kveikti hið þýska Niflungaljóð (Nibelungenlied) ekki í honum til að skrifa óperu um Niflunga heldur var það fyrst þegar hann kynntist hinum fornu (íslensku) heimildum, sem hann fékk löngun til að takast verkið á hendur. Wagner varð fyrir miklum áhrifum af bragfræði eddukvæða og notaði svipaða ljóðstafasetningu í texta Niflungahringsins og er hugsanlegt að bragfræðin hafi einnig í einhverjum mæli haft áhrif á sjálfa tónsköpunina.

Rannsókn frá íslenskum sjónarhóli

Fram kemur að þetta mál hafi aldrei áður verið rannsakað frá íslenskum sjónarhóli, sem geti þó haft sérstaka þýðingu af því að fáir gjörþekkja svo hinar forníslensku heimildir Wagners sem Íslendingar. Höfundur leggur áherslu á að ekki skipti meginmáli hvort Wagner hafi fengið hugmyndir sínar beint af lestri íslenskra bókmennta eða í endurgerð og endursögn þýskra skálda og fræðimanna á 19. öld, því kveikjuna að hvoru tveggja hafi verið að finna í íslenskum fornritum.

Til að kynna niðurstöður rannsókna sinna fer höfundur þá leið að taka fyrir hverja hinna fjögurra ópera Niflungahringsins. Þar er texti Wagners í samhliða dálki borinn saman við íslenskar frumheimildir þar sem þær eru fyrir hendi og bent á samsvaranir. Í lok hverrar óperu er í töflu birt yfirlit yfir helstu persónur og minni verksins og sýnt í hvaða heimildum hvert þeirra megi finna.

Árni Björnsson leggur áherslu á að Richard Wagner hafi aldrei ætlað sér að tónsetja hinar fornu sögur og kvæði í óbreyttri mynd, heldur notað forníslensku heimildirnar til að skapa sína eigin sögu. Niflungahringurinn er því algerlega sjálfstætt skáldverk Wagners sjálfs þó svo að þar komi ríkulega fram hugmyndir og persónur úr öðrum verkum. Höfundur bendir á að höfuðskáld Íslendinga á 20. öld, Halldór Kiljan Laxness, hafi einmitt viðhaft svipaðar aðferðir við gerð stærstu skáldverka sinna. Höfundur bendir einnig á hvernig heildarsýn eða boðskapur Niflungahringsins endurspegli vel þá sýn sem fram kemur í eddukvæðinu Völuspá, m.a. um bölvun gullsins, svik og meinsæri, endalok og fall guðanna og alls heimsins, en um leið komi í verkinu fram óljós von um endurlausn. Niflungahringurinn sé því að stofni til alls ekki saga stríðskappa eða hetjudýrkunar.

Íslenskum bókmenntaarfi gert hátt undir höfði

Höfundur bendir á að þótt texti Wagners sjálfs að Niflungahringnum skipti höfuðmáli, þá sé stöðugt verið að gefa út rit um verkið og rætur þess. Því sé rík ástæða fyrir okkur Íslendinga að koma því á framfæri hvaðan og í hversu ríkum mæli Wagner sótti hugmyndir sínar við gerð verksins og gera því fullnægjandi skil út frá íslenskum sjónarhóli. Sú þörf er ekki síst brýn vegna þess að til þessa hafa flestir áhugamenn um Wagner talið að bakgrunn Niflungahringsins væri helst að finna í hinu þýska miðaldaljóði Nibelungenlied, en eins og fram kemur er fátt eitt þaðan í verkinu. Á hinn bóginn leiða rannsóknir Árna í ljós að hlutur íslenskra fornrita er enn meiri en fræðimenn höfðu áður gert sér ljóst. Niflungahringurinn er stórbrotnasta tónverk allra tíma og eru niðurstöður Árna því sérlega mikilvægar og áhugaverðar fyrir okkur Íslendinga. Fyrirhugað er að gefa verkið út á ensku og þýsku á þessu ári, en rannsóknir Árna eru líklegar til að vekja mikinn áhuga Wagnerunnenda víða um heim og þá um leið verða til þess að efla áhuga á íslenskum fornbókmenntum meðal erlendra þjóða.

Nýlega barst undirrituðum bréf frá Joseph Harris, prófessor við tungumáladeild Harvardháskóla í Bandaríkjunum, þar sem prófessorinn segist muni með ánægju nota bókina „Wagner og Völsungar“ í haust nk. á námskeiði um „Eddu og Sögurnar“.

Höfundur er stórkaupmaður.