Styrkþegar félagsins
Richard Wagner reisti og hannaði, eins og kunnugt er sérstakt óperuhús, Festspielhaus í Bayreuth, til flutnings verka sinna. Þar er á hverju sumri haldin óperuhátíð og er gífurleg eftirspurn eftir miðum á hana, enda koma þarna fram fremstu listamenn heims á sviði tónlistar og óperusviðssetninga.
Það var í Bayreuth, sem hugmyndir Wagners fullkomuðust um óperuhús, sem skilað gæti verkum hans í þeirri umgjörð sem hann sá fyrir sér. Auk þess taldi hann að staðsetning hússins í þessum litla bæ, fjarri skarkala heimsins, veitti óperugestum þá ró og einbeitingu sem þyrfti til að geta notið verkanna og skilið þau til fulls.
Richard Wagner hafði í raun hugsað sér Bayreuthhátíðina sem hátíð fólksins eða almennings, líkt og tíðkaðist 2000 árum áður í Grikklandi. Í samræmi við þetta vildi hann ekki hafa neinn aðgangseyri að hátíðinni. Þegar þessi sýn hans gekk ekki upp, af augljósum fjárhagsástæðum, varð sú hugmynd til að a.m.k. fámennum hópi útvaldra yrði boðið frítt á hátíðina. Frá árinu 1882 hefur Richard Wagner Stipendienstiftung í Bayreuth, sem Wagner kom sjálfur á fót, haft það sem aðalmarkmið að stuðla að því að ákveðnum hópi ungra tónlistar- og sviðslistarmanna sé gert kleift að sækja Bayreuthhátíðina. Fjármögnun þessarar fallegu hugmyndar meistarans liggur nú að mestu hjá Wagnerfélögum víða um heim, en fyrrgreind stofnun heldur utan um fyrirtækið.
Á undanförnum árum hafa 250 styrkþegar sótt hátíðina heim. Flestir, eða nálægt 190, koma frá þýskum Wagnerfélögum, 36 frá öðrum félögum í V-Evrópu, en afgangurinn frá A-Evrópu eða annars staðar frá.
Richard Wagner félagið á Íslandi hefur í tuttugu ár styrkt ungan íslenskan tónlistar- eða leiklistarmann til að sækja Wagnerhátíðina í Bayreuth.
Styrkveiting félagsins felst í því að það leggur fram ákveðið framlag til Richard Wagner Stipendienstiftung í Bayreuth og fær í staðinn að senda Íslending á hátíðina. Sá sem fyrir valinu verður fær í sinn hlut án endurgjalds:
- Miða á sýningar á þrem Wagneróperum
- Ef til vill möguleiki á að syngja á sérstökum styrkþegatónleikum.
- Aðgang að undirbúningsfyrirlestrum á sýningarnar.
- Leiðsögn um Richard Wagner og Franz Liszt safnið í Bayreuth.
- Leiðsögn um Festspielhaus.
- Leiðsögn um borgina Bayreuth
- Sameiginlegan hádegisverð styrkþeganna alla dagana.
- Styrkþegaveisla.
Tekið skal fram að auk þess, sem styrkþegi fær að njóta án endurgjalds samkvæmt ofangreindu, þá er höfð milliganga um að útvega gistingu án endurgjalds.
Menntamálaráðuneytið hefur á undanförnum árum veitt Richard Wagner félaginu styrk, sem styrkþegar hafa fengið upp í ferðakostnað.
Styrkþegar hafa verið:
Ártal | Nafn | Listgrein |
---|---|---|
2012 | Herdís Anna Jónasdóttir | sópransöngkona |
2010 | Júlíus Karl Einarsson | baritónsöngvari |
2011 | Víkingur Heiðar Ólafsson | píanóleikari |
2009 | Daníel Bjarnason | hljómsveitarstjóri og tónskáld |
2008 | Þorvaldur Þorvaldsson | bassasöngvari |
2007 | Egill Árni Pálsson | tenórsöngvari |
2006 | Þóra Einarsdóttir | sópransöngkona |
2006 | Elísa Vilbergsdóttir | sópransöngkona |
2005 | Helga rós Indriðadóttir | sópransöngkona |
2004 | Jóhann Friðgeir Valdimarsson | tenórsöngvari |
2003 | Davíð Ólafsson | bassasöngvari |
2002 | Jónas Guðmundsson | tenórsöngvari |
2001 | Árni Heimir Ingólfsson | tónlistarfræðingur og píanóleikari |
2000 | Tómas Tómasson | baritónsöngvari |
1999 | Bjarni Thor Kristinsson | bassasöngvari |
1998 | Anna Margrét Magnúsdóttir | tónlistarfræðingur og semballeikari |
2013 | Guja Sandholt | messósópransöngkona |
2014 | Kristján Jóhannesson | baritónsöngvari |
2015 | Þorleifur Örn Arnarson | leikstjóri |
2016 | Oddur Arnþór Jónsson | baritónsöngvari |
2017 | Valdís Gregory | sópransöngkona |
2018 | Agnes Thorsteins | messósópransöngkona |
2018 | Hrafnhildur Árnadóttir Hafstað | sópransöngkona |
2019 | Bryndís Guðjónsdóttir | sópransöngkona |