Tristan og Ísold

Listin að elska – vináttan og tryggðin

Erind flutt á 20 ára afmæli Wagner-félagsins á Íslandi 12. desember 2015

Inngangur

Hvers vegna að fjalla um Tristan og Ísold núna? Ástæðan er aðallega sú að upp er komin ný sviðsetning á verkinu í Bayreuth, í leikstjórn Katharinu Wagner; ég kem ekki til með að fjalla um þá uppfærslu hér sérstaklega, því það hef ég þegar gert, þ.e.a.s. í grein sem birtist í Morg­un­blaðinu þriðjudaginn 11. ágúst s.l.; greinin heitir „Tristan og Ísold í fangelsi“.

Undirtitillinn á þessu erindi „listin að elska“, er fenginn úr samnefndri bók sálgreinandans  Erics Fromm, en Tristan og Ísold í útgáfu Wagners er jú ein makalausasta pæling um ástina sem sett hefur verið saman. Og eins og venjulega gerði Wagner úr gömlum efniðvið eitthvað sem stendur ofar en allt annað sem samið hefur verið um þessi skötuhjú, en útgáfurnar á sögu þessa pars skipta tugum ef ekki hundruðum og kem ég til með að vitna í nokkrar þeirra hér á eftir. Eric Fromm fjallaði á heimspekilegan og sálfræðilegan hátt um ástina, sem sé ást í raun­veru­leikanum, ekki ást milli persóna í skáldverkum og því er nærtækt í tengslum við verk Wagners að reyna að kynna sér líka ástina eins og Wagner sjálfur stundaði hana, ekki síst með þeim þremur konum, sem skiptu mestu máli í lífi hans.

Hinn hlutinn af undirtitli þessa erindis – „vináttan og tryggðin,“ eru þættir sem að sjálf­sögðu eru hluti af ástinni en líka sjálfstæð fyrirbæri, eins og vinátta Marks og Tristans, þar sem Tristan fær samviskubit yfir því að svíkja Mark, þegar ást Tristans á Ísold fær forgang fram yfir vináttuna við eiginmann hennar. Ísold heimtar ást Tristans og Mark krefst vináttu Tristans og þolir engin svik, svo Tristan klemmist þarna á milli þessara tveggja persóna og þessara tveggja siðvelda: Annars vegar siðveldis ástarinnar sem hefur yfirleitt forgang í hugum fólks þegar um sanna ást er að ræða og hins vegar er það vináttan sem þarf að vera flekklaus og hreinlynd.

Ísold er hins vegar ekki í sömu klemmu og Tristan, því hún vill ekki Mark, segir hann gamlan, hún sjálf er jú í sumum útgáfum verksins aðeins 18 ára, en Mark á fertugsaldri; og líklega hefur Mark lítið haft til málanna að leggja hvað ástina varðar í þeirra hjónalífi – fyrst og fremst er það vinátta sem hann metur og virðir. Í verki Wagners er samband Marks við Ísold á platónsku vináttusviði.

Varðandi vináttuna þá er nærtækt að kynna sér hvernig sá þáttur kom út, ekki bara eins og Wagner lýsir honum í verkum sínum, heldur líka að skoða raunveruleikann sem Wagner stóð frammi fyrir. Fræg er vinátta Wagners og Nietzsches, sem endaði í óvináttu, svipað og getur komið fyrir í ástinni líka, en þegar um ástina er að ræða er sjaldan talað um óvináttu, heldur er gjarnan notað annað orð þegar illa fer um ástina, en það er orðið hatur. Slíkt dæmi setur Wagner einmitt upp í byrjuninni á Tristan og Ísold, nema hvað hatrið kemur á undan ástinni hjá Ísold.

Sköpunarferlið - Heimildir - Persónur

Mikið hefur verið gert úr því að Mathilde Wesendonck hafi haft áhrif á vinnu Wagners við Tristan og Ísold. Þegar Wagner kynntist þeim hjónum, Otto og Matthildi, höfðu þau verið gift í fimm ár. Fimm ára samvera þýðir gjarnan í hjónaböndum að mestur glansinn sé farinn af sambandinu og eins og fólk veit er tilhugalífið yfirleitt þá, langt í fjarska.

Árið 1956 birti sálfræðingurinn George A. Miller grein sem mikið er vitnað í. Hún heitir „Töfratalan 7, plús eða mínus 2“. Talan sjö kemur ótrúlega oft fyrir í sálfræðilegum þáttum hjá mannfólkinu eins og til dæmis í tengslum við skammtímaminnið, sem hjá fullorðnu fólki er í kringum töluna 7. Hjónaband Wesendonck hjónanna var sem sé á þessum viðkvæma stað: 7 mínus 2. Og það sem meira er: hjónaskilnaður á sér oftar en ekki stað eftir fjögurra ára hjónaband; þetta virðist vera að einhverju leyti hjálplegt náttúrulögmál, til að útkoman í afkomenda-kvótanum verði sem hagkvæmust: meiri fjölbreytni afkomenda og væntanlega betur heppnuð yngri börn þegar fráskyldir foreldrar hafa fundið sér betri eða hentugri maka eða hafa kannski þroskast meira sjálf og lært af ástarreynslunni eða ástarraununum og eignast síðan með börn með síðari maka eða mökum sínum. Wagner og Cosima eru ágætt dæmi um þetta: þau voru bæði tvígift og afkomendurnir af síðari hjónaböndum þeirra hafa síðan mynd­að hið mikla, svokallaða Wagner-veldi.

Og frá Kína berast þær fréttir að Kínverjar séu orðnir svo velmegandi og vestrænir í hugsun að það sér ekki fyrir endann á aukningu á hjónaskilnuðum. Og hvað ber þá að gera? Auðvitað breyta reglunum, miða við sjö ára kláðann og láta hjónabönd gilda í sjö ár. Síðan gæti fólk endurnýjað samninginn til annarra sjö ára ef báðir aðilar eru samþykkir.

Staðan hjá Matthildi Wesendonck var sem sé þessi þegar hún kynntist Wagner, hún var á viðkvæmu skeiði í hjónabandinu og því tilbúin að verða ástfangin af snillingi sem átti sér þá sterku hlið að vera ómótstæðilegur þegar best lét. Wagner sjálfur var á sérdeilis vondum stað í sínu hjónabandi og fræg er sprengjan sem Minna, eiginkona Wagners, setti af stað þegar hún komst yfir eitt bréf af mörgum sem Wagner skrifaði Matthildi. Þessi sprengja olli því að Wagner og Minna urðu að flytja úr griðastaðnum, húsinu sem Ottó Wesendonck hafði út­vegað þeim og eftir þetta bjuggu Wagner og Minna aldrei saman aftur, en áttu þó eftir að dvelja, eins og frægt er, tíu daga í helvíti. Wagner var á þessum tíma í miðju kafi að semja Tristan og Ísold þegar bréfa-sprengjan sprakk og varð því að ljúka verkinu hér og þar um Evrópu.

Ef Wagner var einhvern tíma í vafa um það hvaða konu hann ætti að velja ef hann skildi við Minnu, sem hann reyndar þurfti ekki að gera, því Minna bara dó af hjartveiki og heilsu­leysi – þá kom upp merkilegur Tristan-prófsteinn í því máli. Eitt sinn þegar Wagner var að lesa upp úr handriti sínu, (librettói eða ljóði) um Tristan og Ísold, voru allar þrjár mikilvæg­ustu konurnar í lífi hans meðal áheyrenda. Hann lagði fyrir þær próf áður en hann lauk við að lesa endinn á verkinu og sú eina sem stóðst prófið var Cosima: hún var ákveðin í því að elsk­endurnir ættu að deyja í lokin. Enginn ætlaðist til að Minna svaraði rétt, Minna var jú bara lagleg leikkona, en maður hefði búist við að Matthildur félli ekki á prófinu, en ástæðan fyrir því hefur líklega verið sú að hún var trú sínum manni, eins og henni hefur sjálfsagt fundist að Ísold ætti líka að vera, gagnvart sínum eiginmanni.

En hvers konar hjónaband var þetta þá eiginlega hjá Ísold? Það má lesa út úr handriti Wagners að Ísold hafi hreinlega verið hrein mey þegar hún dó, en hún deyr jú til þess að sam­einast Tristan í handanheimi. Í sumum útgáfum verkins er Ísold alls ekki hrein mey, en það var ekki Mark sem átti með henni brúkaupsnóttina, heldur Brangene, til þess að Mark kæmist ekki að því að Tristan hefði verið að dugla við Ísold. Rómeó og Júlía gerðu nú betur, en Tristan og Ísold hjá Wagner,  því Rómeó og Júlá áttu jú eina leyninótt saman, eða það sem kallað er upp á ensku „one night stand“, og þessa nótt áttu Rómeó og Júlía í fullkomnu næði, án nokkurra truflana.

Matthildur Wesendonck var sterkur persónuleiki sem var ákveðin í því að viðhalda hjóna­bandi sínu, þar af leiðandi var samband hennar og Wagners líklega aldrei neitt á líkamlega planinu. Það sem Matthildur, og reyndar Otto líka, græddu á vináttunni við Wagner, var persónulegur ódauðleiki á listasviðinu, ekki síst vegna sönglaganna sem Wagner samdi við ljóð Matthildar – „Wesendonck Lieder“, sem eru nátengd tónlistarlega við tónlistina í Tristan og Ísold – en einnig eru þau hjón vel metin í menningarsögunni vegna fjárhagslegs styrks frá Ottó til Wagners, ásamt húsaleigustyrk; en hversu mikið örlæti var þessi lága leiga sem Wagner borgaði fyrir að fá að vera í Griðastaðnum í túnjaðrinum hjá Ottó? Ástæðan fyrir því að Ottó keypti þetta griðahús, var nú ekki göfugri en svo, að það átti að innrétta þessa eign sem geðveikrahæli og einhverra hluta vegna kærði Ottó sig ekki um að hafa geðsjúklinga sem nágranna. Auk þess hefði hann hugsanlega aldrei losnað við þá úr nágrenninu, en Minna sá hins vegar til þess að dvöl Wagnerhjónanna þar, var sjálfhætt, vegna afbrýðisemi hennar.

Meðan friður ríkti í Griðastaðnum græddi síðan Wagner á vináttunni við Wesendonck hjónin á þann hátt að hann fékk ekki bara veraldlegar þóknanir frá þeim, heldur líka ríkulegan andlegan og vitsmunalegan stuðning og mjög svo örvandi listrænan skilning hjá Matthildi, þegar hann var að semja Tristan og Ísold. Þetta sést vel í bréfaskrifum þeirra (þó ekki sé þar allt varðveitt, þökk eða skömm sé Cosimu og afbrýðisemi hennar, sem lét farga mörgum af bréfum þeirra). Ísold er gift eins og Matthildur og getur þess vegna í ljósi þjóðfélagshefða ekki átt í ástarsambandi við þann sem hún óskar sér, en það er ekki eiginmaðurinn. Wagner elskaði Matthildi og hefði líklega viljað giftast henni, hefði hún (og hann) verið á lausu. Matthildur var 15 árum yngri en Wagner. Í Matthildi fékk Wagner þá skilningsríku og hjálp­legu hvatningu sem örvaði listtjáningu hans, en slíkan skilning fékk hann alls ekki frá Minnu, eiginkonu sinni, þvert á móti; Minna vildi að Wagner fengist við einfaldari og seljanlegri hluti í listinni. Þennan stuðning fékk Wagner síðan síðar hjá seinni eiginkonu sinni Cosimu Lizst Bülow Wagner; en ástríðan, hin Tristaníska löngunarástríða hins smávaxna Wagners, var kannski ekki eins sterk til hinnar hávöxnu og nefstóru Cosimu eins og hún hafði verið til hinnar íðilfögru Matthildar; en í Cosimu eignaðist Wagner einhvern magnaðasta einkaritara sem sögur fara af; svo dæmi sé tekið, þá hafði Cosima þann háttinn á, (þegar hún var að lesa nýjustu verk Nietzsches fyrir Wagner, meðan þeir voru enn vinir, og verkin þá nýkomin úr prentsmiðjunni), að ef Wagner varð það á að segja eitthvað meðan á lestrinum stóð, þá hætti Cosima að lesa, og skrifaði strax niður gullkornið frá Wagner; síðan hélt lesturinn áfram, þar til Wagner opnaði munninn aftur. Þannig komst Wagner upp með það, að skrifa alltaf stutt bréf til Nietzsches, en tilkynnti gjarnan í sínum bréfum að Cosima væri að semja bréf til hans, þeas til Nietzsches, og bréf Cosimu voru talsvert löng og að sjálfsögðu uppfull af  kórréttri Wagnerísku. Þannig skrifaði Cosima bréf fyrir hönd Wagners, en gerði það í eigin nafni. Við getum þó ekki yfirgefið Minnu án þess að minnast á mikinn stuðning sem hún sýndi Wagner, því hún barðist eins og ljón fyrir því að Wagner fengi að koma aftur til Þýskalands eftir margra ára pólitíska útlegð, svo Minnu var ekki alls varnað.

Cosima var ekki bara frábær einkaritari og bréfritari, heldur líka dagbókaritari. Frá árunum 1869 til ársins 1883, hélt hún dagbækur sem eru u.þ.b. 2,400 blaðsíður að lengd og fjalla mest um Wagner og hugsanir hans; þetta eru líklega með mest ívitnuðu dagbókum í veröldinni. Ár­ið 1869 er árið sem Siegfried Wagner fæddist og árið 1883 er árið sem Richard Wagner dó í Feneyjum, nánar tiltekið 13. febrúar. Fimm dögum síðar fékk hann sína endanlegu hvíld við Friðarhúsið sitt í Bayreuth. Og Cosima fékk þar líka sína endanlegu hvíld við hlið eiginmanns síns, 47 árum síðar. Þau 47 ár skrifaði hún ekki dagbækur.

Með hinum frábæra einkaritara sínum eignaðist Wagner þrjú börn þannig að sköpunar­kraftur hans einskorðaðist ekki einungis við mótun listaverka; en kannski má segja að börn Wagners og Cosimu hafi verið eins konar hluti af listaverkum Wagners því þau hétu jú öll eftir persónum í verkum Wagners: fyrst Ísold, þá Eva og svo Siegfried. Hversu lík börnin voru persónunum í verkum Wagners er ekki gott að segja, en þó er óhætt að fullyrða að Siegfried og Siegfried voru mjög ólíkir. Sem leiðir hugann að þeirri merkilegu tölfræði að yngstu börn aldinna hjóna, verða stundum fyrir því að vera ekki með þann kynhormónakraft sem einkennir meirihlutann, nánast eins og æskukraftur hjónanna sé ekki til staðar til að fylla út í öll form hjá afkvæmunum þegar aldurinn hefur færst yfir hjónin. Shakespeare orðaði þetta svo í Lé konungi að slík börn væru getin í letibóli; það er Edmund í konungi sem tjáir sig á þennan hátt í afbrýðisemi sinni út í bróður sinn Edgar sem er skilgetinn, en Edmund var bastarður, óskilgetinn – en getinn í mikilli ástríðu og af miklum krafti. Sem minnir okkur á það hvað Wagner fór svipaða leið í sinni listsköpun og fyrirmynd hans Shakespeare, en millisagan af Edmund og Edgar í Lé konungi er eini þátturinn í höfundaverki Shakespeares sem hann samdi sjálfur frá rótum, öllum hinum söguþráðunum stal hann hvar sem hann fann þá og breytti þeim, eins og Wagner gerði líka.

En aftur að Matthildi Wesendonck. Lítum á eitt dæmi um það sem gerðist á milli Wagners og Matthildar þegar hann var að semja tónlist við verk sín. Matthildur skrifar í minningum sín­um um Wagner:

Wagner: A Documentary Study, bls. 188

The rest is silence: Lokaorð Hamlets.

Ást og dauði eru órjúfanlegir þættir í sögunum af Tristan og Ísold. En þegar Wagner dó, hvers konar dauðdagi var það? Var það ástardauði eins og hinn frægi dauði Ísoldar í lok Tristan í útgáfu Wagners af sögunni, sem að vísu, samkvæmt Wagner, var ekki ástardauði hjá Ísold, heldur umbreyting: ferðalag úr okkar heimi yfir í handanheim þar sem skötuhjúin geta loks sameinast óáreitt. Ástardauðinn í Tristan og Ísold sagði Wagner að væri í  upphafi verks­ins, í forleiknum.

Dauði Wagners, var bæði ástardauði og einnig, ekki ástardauði, því dauði hans í Feneyjum var nánast, hatursdauði. Þess vegna syrgði Cosima hann svo sárt, því hún, eins og Ísold, hafði að einhverju leyti valdið dauða Wagners, eða Tristans. Nú flækjast málin að vísu talsvert í hinum ýmsu útgáfum af sögu turtildúfanna, því Tristan og Ísold Wagners, sem að sjálfsögðu er frægasta og magnaðasta útgáfa sögunnar, er ekki nema ein af meira en hundrað birtingar­myndum verksins. Í sumum útgáfunum eru Ísoldirnar hreinlega þrjár og það er aðeins ein þessara þriggja sem veldur dauða Tristans, það er að segja eiginkona hans, Ísold hin svarta. Það er því ekki úr vegi að við lítum á brot úr nokkrum útgáfum verksins, til dæmis hinni ís­lensku, færeysku, þýsku og svo frv. En komum að því síðar.

Sem sagt: Wagner dó ástardauða, því þessi harðgifti maður með magnaðasta einkaritara sögunnar, var orðinn svolítið leiður á einkaritaranum sínum, enda búinn að hanga með honum, þeas henni í þrisvar sinnum 7 ár, plús eða mínus 1. Og þó hann væri ekki með neina óperu á prjónunum og þyrfti þar af leiðandi ekki endilega á mjúsu að halda, það er að segja örvunar­aðila andagiftar – hann var jú nýbúinn að koma frá sér sínu síðasta verki, Parsifal, sem fjallar um þennan dýrðling hreinleikans, sem er án allra holdlegra og ástartengdra langana, hafnandi Kundry, sem er náttúrulega ein stærsta synd ástarsögunnar, þ.e.a.s. sögu ástarinnar. En Wagner tókst ekki að læra nægilega mikið í siðfræði af Parsifal, enda skóp Wagner hann ekki frá rótum heldur umbreytti riddarasögunni um Parival eftir eigin hentugleikum. Það var jú háttur hans eins og fyrirmyndar hans Shakespeares, að aðlaga hugmyndir frá öðrum. Og menn átta sig ekki alltaf á því að Shakespeare var mjög langt frá því að vera frumlegur, Wagner var miklu frumlegri, en þar hafði Wagner það forskot að vera að vinna í öðrum miðli en leik- og ljóðskáldið. Wagner náði að slá í gegn með verkum sínum ekki síst vegna tónlistarinnar, sem Shakespeare átti ekkert við. Hvað væri Tristan og Ísold Wagners án tónlistar? Og minnumst þess að ein fyrsta ópera Wagners, Ástarbannið, byggði beint á verki eftir sjálfan Shakespeare það er  Measure for Measure, eða Líku líkt. Þeir voru því báðir, Wagner og Shakespeare, sál­fræðilegir forverar Freuds því þetta verk, Measure for Measure er ein stór og útþanin lýsing á einum af varnarháttum sálarlífsins sem Freud greindi fyrstur manna á fræðilegan hátt; þetta er varnarhátturinn andhverfing – þú mótmælir hvað harðast því sem þú ert að basla við að bæla sem mest í eigin sálarlífi en gerir þér ekki grein fyrir að fyrirbærið hefur grafið um sig í undir­vitund þinni. Ástardrykkurinn í Tristan og Ísold, þjónar þannig hlutverki sálgreinanda, sem beinir einstaklingum niður á þann sannleika sem býr í undirvitundinni og sálgreiningin sjálf og meðferð sjúklingsins opnar dyrnar að. Sálgreinandinn segir: „Tristan minn, gerðu þér grein fyrir því að þú ert ástfanginn af konunni sem þú ætlar að færa frænda þínum. Hvað ætlarðu að gera í málunum?“ Sem sé: Wagner var sálgreinandi, hann sá þennan möguleika í gömlu ástar­sögunni um Tristan og Ísold og samdi  síðan til hina ódauðlegu tónlist undirmeðvitundarinnar.

Ástardauði Wagners já. Wagner hefði semsagt líklega náð að lifa nokkrum dögum lengur en hann gerði, ef græna skrímslið, sem Shakespeare útfærði í Óþelló, það er að segja afbrýði­semin, sem þjáði Minnu og ekki síður Cosimu, sem sé, ef þetta græna skrímsli hefði ekki mætt til leiks, í hjónabandi Wagners og Cosimu. Þannig að hið illskeytta hjónarifrildi, sem var síðasta samtal Wagners og Cosimu, var afbrýði- og hatursatburður, og því má segja að Wagner hafi dáið hatursdauða, en þá er að gæta þess að hatrið getur jú verið magnað merki um mikla, en stundum öfugsnúna ást, það er að segja eigingjarna ást sem skortir umhyggju fyrir hinum elskaða og sýnir skort á hæfileikum til að setja sig í spor hins aðilans á örlátan hátt. Svo er það annar þáttur sem skiptir máli í þessu sambandi en það eru hin svokölluðu mörk: hvað leyfist öðrum aðila í ástarsambandi að gera á sínum eigin eigingjörnu forsendum án þess að eiga það á hættu að særa hinn aðilann? Það er ekki síst sársaukinn sem ástin getur vakið sem gerir hinar mörgu útgáfur af sögunni um Tristan og Ísold svo áhugaverðar: mega Tristan og Ísold ekki elskast í friði? Þau er jú haldin hinni sönnu ástríðufullu og lifandi ást. Því fær hin sanna ást ekki að blómsta? Svarið við því er að sjálfsögðu einfalt: lífið er ekki full­komið. Lífið er flókið; að mörgu er að gæta, og svo framvegis.

Hvað var það sem olli afbrýðisemi Cosimu, sem hugsanlega að hluta til leiddi til endaloka Wagners eða hjartaáfalls hans? Hafði hinn aldni eiginmaður Cosimu ekkert frelsi? Mátti hann ekki hitta það fólk sem hann vildi hitta? Mátti hann ekki hitta Carrie Pringle, sem með vináttu sinni við Wagner kom sér á spjöld menningarsögunnar með því að eiga hugsanlega þátt í dauða hans í Feneyjum?

Minnumst þess að Cosima var jú 24 árum yngri en Wagner, fædd árið 1837. Það sem olli  afbrýðisemi Cosimu var sem sé Carrie Pringle, ein blómasrósin í Parsifal en hún dansaði og söng í frumuppfærslu verksins í Festspielhaus í Bayreuth og þau Wagner höfðu myndað vin­áttusamband. Hún tilkynnti að hún mundi koma að heimsækja Wagner í Feneyjum og þá  brjálaðist Cosima. Ætli Cosima hafi brjálast af litlu tilefni? Ég held ekki; ég held, þó ég geti ekki sannað það, að Wagner hafi, fyrir daga viagra, verið að reyna að yngja sig upp með sambandinu við þetta blómabarn. Blómabarnið hefur kannski verið hans viagra, og hugsan­lega miklu mun skemmtilegra viðfangs en viðverustundir í vana- og letibóli með Cosimu.

Svo má, í öllum þessum ástarflækjum, ekki gleyma aumingja von Bülow. Í öllu þessu ástarkrulli, hvers átti hann að gjalda að missa eiginkonu sína, Cosimu til snillingsins Wagners – Bülow sem dáði og þjónaði Wagner og list hans af svo mikilli tryggð og vináttu? Hvers átti hann að gjalda að þurfa síðan að stjórna hljómsveitinni við heims-frumflutninginn á Tristan og Ísold, verki sem fjallar um Tristan (eða Wagner) sem stingur undan vini sínum Mark (eða Bülow), að vísu með tilstuðlan ástardrykks. En hvað var Wagner svo sem, ef ekki hreinn og ómengaður, ástardrykkur? Richard Strauss sagði að Tristan og Ísold væri lokaverk rómantísku stefnunnar. Og mikið var nú heppilegt að Wagner, þessi ástarinnar maður, skyldi einmitt ná í skottið á rómantísku stefnunni. Hvað hefði orðið um hann, ef hann hefði þurft að skrifa tólf tóna tónlist? Maður getur bara ekki til þess hugsað. Enda hélt hann ekkert áfram með þróun á Tristan-hljómnum í Parsifal, því Tristanhljómurinn var ekki hugsaður hjá Wagner sem um­bylt­ing dúr- og mollkerfisins í tónlist, heldur afbrigði af diabolus in musica, eða tónskratt­anum, sem í Tristan og Ísold Wagners mætti kannski kalla ástar-skratta.

Já hvers átti von Bülow að gjalda? Eða á hinn bóginn, hvers átti Cosima að gjalda að vera gift Bülow, því ekki hafði hún valið hann til að giftast, ekki fremur en Ísold valdi Mark. Það var faðir Cosimu, hinn mikli og náni vinur Wagners og bjargvættur, Franz Lizst píanó­leik­arinn undursamlegi og tónskáldið, sem valdi þennan uppáhalds píanó-nemanda sinn, von Bülow, handa Cosimu. Og þegar Wagner stakk svo undan Bülow, varð Lizst reiður út í Wagner: hin mikla vinátta þeirra, þar sem örlæti og endalaus stuðningur Liszts við listina og snilld Wagners hafði haft forgang árum saman, þessi vinátta breyttist í óvináttu, eins og hendi væri veifað – sem að vísu endaði að lokum vel og gröf Lizsts er raunar í Bayreuth enda dvaldi hann löngum síðustu mánuði lífs síns hjá tengdasyni sínum og dóttur. Lizst var tveimur árum eldri en Wagner, þess vegna hefði hann aldrei getað séð það fyrir, þegar hann var að hjálpa Wagner að flýja frá Þýskalandi eftir byltingarbrölt Wagners, að þarna væri hann að hjálpa tilvonandi tengdasyni sínum.

Fyrir framan Festspielhaus í Bayreuth er stór andlitsstytta, eða höfuðstytta af Wagner á háum stalli; hún var gerð af einum vinsælasta höggmyndasmið nazista. Styttunni er þannig fyrir komið að Wagner, eða öllu heldur styttan af honum, horfir í vestur, nánast eins og hann horfi á samskonar styttu, sem er líklega í um 50 metra fjarlægð frá styttunni af Wagner, en þar er um að ræða styttu af Cosimu, sem horfir í suður. Þessar styttur kannast flestir við sem hlusta á og sjá verk Wagners í höfuðstöðvum hans í Bayreuth. Færri gera sér grein fyrir því að ein stytta til viðbótar er þarna í grendinni, eftir sama höggmyndasmið og í sama stíl. Hún er staðsett, líklega í svona 50 metra fjarlægð í norðurátt frá styttu Wagners; persónan sem styttan er af, horfir í suður, svo sem eins og hún horfi á Wagner. Sú stytta er af Lizst. Sem sé: Lizst horfir á tengdason sinn og Wagner horfir á dóttur Lizts; en á hvað er Cosima að horfa þar sem hún mænir í suðurátt, eins og pabbi hennar? Hún er að horfa á áhorfendurna/áheyrendurna sem koma upp brekkuna í áttina að Hátíðaleikhúsi þeirra hjóna, enda tók Cosima við óperu­stjórastöðunni af Wagner, kona á besta aldri, og ekkja í 47 ár.

Þetta var sem sé smá kafli um vináttu og óvináttu og síðan vináttu Lizsts og Wagners. En hvernig var vináttu Bülows og Wagners háttað? Bülow var frábær hljómsveitarstjóri og hann gerði kraftaverk með því að útbúa píanó-útgáfu af Tristan og Ísold og hann stjórnaði hljóm­sveitinni í fyrstu uppfærslunni á Tristan og Ísold frábærlega árið 1865, enda kunni hann þetta flókna verk utan að; og svo stjórnaði  Bülow einnig hljómsveitinni í frumuppfærslunni á Meist­arasöngvurunum þremur árum síðar.

Enn ein mikilvæg vináttan í lífi Wagners gerði það að verkum að þessar uppfærslur gátu átt sér stað, en það var vináttan við Lúðvík II Bæjarakóng: hann var framleiðandinn, eða produsent þessara sýninga og alhliða styrktaraðliði Wagners; hann kostaði meðal annars villuna sem Wagner byggði sér í Bayreuth, sem Wagner kallað Wahnfried, eða friðarhús. Og fyrir framan húsið er enn ein styttan sem ekki horfir í vestur eins og styttan af Wagner og heldur ekki í suður, eins og stytturnar af Cosimu og pabba hennar, heldur horfir þessi stytta í austur, nánast eins og hana langi til að horfa á styttuna af Wagner. Þetta er styttan af Lúðvík II sem vaktar Wagner safnið í Wahnfried alla daga. En það er engin stytta af Siegfried Wagner. En nú er hins vegar búið að opna húsið sem Siegfried bjó í og það er orðið hluti af Wagner­safninu í Bayreuth, við hliðina á Wahnfried. Og ber er hver að baki nema sér bróður eigi og hvað skyldi vera á bak við húsið hans Siegfrieds, sem margir hafa hneykslast á hvað kostaði mikið að gera upp svo Wagneristar fengju að valsa um húsið. Bak við húsið hans Siegfrieds er safnið hans afa, afa Siegfrieds: Lizst safnið.  Mikil fjölskylda, Wagner fjölskyldan.

Sem sagt: Lúðvík útvegaði peningana, Wagner útvegaði listina og Bülow sá um túlkunina. Fullkomin samvinna og vinátta í listinni. En einkalífið hins vegar, var á allt annan hátt. Lúð­vík var lítið gefinn fyrir konur og hefði sjálfsagt viljað að Wagner yrði ástmaður hans, en þeim var ekki skapað nema að skilja. Wagner varð að gera sér það að góðu að sitja tímunum saman fyrir farman Lúðvík og leyfa honum að horfa á sig og dást að snillingnum. Og Bülow varð að gera sér það að góðu að Wagner barnaði eiginkonu hans og barnið fengi síðan ættar­nafn von Bülows þó hann ætti ekkert í barninu. Sem sé: Lífið er flókið.

Málið með Bülow er í hnotskurn þannig, að hann var frábær píanóleikari og hljómsveitar­stjóri, en afspyrnu leiðinlegur eiginmaður, þannig að Cosima var fegin að losna við hann. Og líklega hefðu Wagner og Nietzsche aldrei orðið vinir ef Nietzsche, ungur að árum, og hans jafnaldrar í þriggja manna listvinafélagi, hefðu ekki keypt sér píanóútgáfu Bülows af Tristan og Ísold, því þetta var jú fyrir daga hljóðritana og mörg ár í það að óperan yrði frumflutt. Þegar setja átti verkið á svið í Carlsruhe, fjórum árum áður en heimsfrumsýningin átti sér stað í München, var niðurstaðan sú að ekki væri hægt að setja þetta verk á svið, álagið væri of mikið á söngvarana og hljóðfæraleikarana. Og eftir margar  æfingar á verkinu í Vínarborg var niðurstaðan sú sama og í Carlsruhe, svo það var bara hætt við allt saman eftir 77 æfingar. Þetta var mikið vatn á myllu þeirra sem voru á móti tónlist framtíðarinnar.

Það gleymist stundum í sambandi við Nietzsche, að hann var 31 ári yngri en Wagner, en hins vegar aðeins sjö árum yngri en Cosima, enda voru þau mestu mátar. Og líklega var ekki laust við að Nietzsche væri afbrýðisamur út í Wagner fyrir að eiga svona trausta og hjálpsama eiginkonu; Nietzsche eignaðist aldrei neina slíka, hann hafði bara systur sína sér til halds og trausts.

Þessi mikli aldursmunur á Wanger og Nietzsche þýddi að vinátta þeirra byggðist í fyrstu, á dýrkun Nietzsches á snilld Wagners, svipað og samband Lúðvíks II og Wagners, en Lúðvík var árinu yngri en Nietzsche. Nietzsche varð því að gera sér það að góðu framan af, að vera eins konar skósveinn Wagners, vera innkaupasendill í jólagjafafárinu fyrir Cosimu og svo framvegis. Framan af varð Nietzsche að aðlaga hin heimspekilegu verk sín að smekk og hugmyndum Wagners til að styggja ekki snillinginn, og þegar Nietzsche hafði síðan náð þeim sjálfstæða þroska að skrifa verk sín á eigin forsendum, sagði Wagner upp vináttunni: Allur vinskapur Wagners við aðra, skyldi þjóna listgyðjunni sem Wagner þjónaði. Þannig er sem sé skilgreiningin á Wagnerískri vináttu. Og þegar Wagner fékk ekki að fá vinkonu sína í heim­sókn á gamals aldri, vegna frekjunnar í Cosimu, þá hefndi hann sín heiftarlega á henni með því að deyja bara. Cosima varð svo sakbitin að hún faðmaði lík Wagners dögum saman, til að bæta fyrir frekjukastið og eigingirnina. Já, eins og ég sagði: lífið er flókið.

Svo er það ástardrykkurinn, ekki má gleyma honum þegar fjallað er um Tristan og Ísold. Þýski rithöfundurinn, Nóbelsverðlaunahafinn og Wagneristinn Thomas Mann gerði sig breið­an með því að segja að Tristan og Ísold hefðu eins getað verið að drekka vatn þegar þau drekka ástardrykkinn, því tilhugsunin um það að þau væru að deyja og væru að drekka eitur, hefði gert það að verkum að þau fleygðu öllum hömlum til hliðar og þorðu þá að tjá innstu og sönnustu tilfinningar sínar áður en þau myndu deyja. Freud sem sé aftur mættur með annan varnarhátt, það er að segja bælinguna.

Úr hverju var þessi ástardrykkur? Það veit víst enginn, en víst er að ýmsar útgáfur eru til af verkan hans. Í hinni frægu frönsku útgáfu af Tristan og Ísold eftir Beroul, sem heitir Riddara­kvæðið um Tristan, sitja turtildúfurnar að tafli áður en þau drekka drykkinn, og drykkurinn virkar afskaplega vel þannig að þau geta bara alls ekki haldið aftur af sér á nokkurn hátt hvorki andlega né líkamlega. En með tímanum dofna áhrif drykkjarins í þessari blöndu af sögunni og eftir nákvæmlega þrjú ár, upp á dag, umbreytist parið gjörsamlega því drykkju­víman endist ekki lengur. Og hvað gerist þá? Ja, þá gerist það, að þau halda bara áfram að elskast. Var þá drykkurinn nauðsynlegur? Spyr sá sem ekki veit.

—————–

Pistilinn skrifaði Thomas Mann, óþarfi að rísa úr sætum. Ég les niðurlag áttunda kafla í smá­sögunni Tristan, kaflafjöldinn í sögunni er postulatalan. Kona spilar á lélegt píanó Tristan og Ísold eftir Wagner í útsetningu Bülows. Sagan kom út í íslenskri þýðingu hjá Máli og menn­ingu árið 1970 í smásagnasafninu Maríó og töframaðurinn, Ingólfur Pálmason þýddi:

Bls. 108-110
(Erótík og algleymi)

Einn frægasti hlutinn í bréfaskrifum Wagners og Matthildar Wesendonck eru orð Wagners þegar hann skrifar eftirfarandi um miðjan apríl árið 1859; hann er þá að ljúka við að semja tón­listina við Tristan og Ísold: „Barn! Þessi Tristan er að snúast upp í eitthvað hræðilegt!“ (Og orðið hræðilegt er undirstrikað). „Þessi síðasti þáttur!!!“ (Hér eru þrjú upphrópunarmerki) . . . „ ég óttast að óperan verði bönnuð – nema að léleg uppfærsla virki sem skopstæling – : einungis meðalgóð uppfærsla gæti bjargað mér! Eitt er víst að frábærar uppfærslur á verkinu munu gera fólk geðbilað, – ég get ekki ímyndað mér annað. Svona langt er ég leiddur!! Æ og ó.“

Við sjáum þarna nokkuð óræka sönnun fyrir hinni Platónsku ást sem Wagner bar til Matt­hildar, í ávarpsorði þessarar tilvitnunar: „Barn“. Slíkt orð nota karlmenn held ég aldrei yfir ást­konur sínar.

En hvað átti Wagner við með því að segja að áheyrendur yrðu geðveikir af að upplifa þriðja þáttinn af atburðarásinni í Tristan og Ísold. Opinberlega vildi Wagner ekki kalla verkið óperu, þó hann geri það í bréfinu til Matthildar, heldur vildi hann kalla verkið Eine Handlung, eða atburðarás. Ég botnaði aldrei í því hvers vegna fólki yrði hætta á að vera geðveikt af því að upplifa ástardauða Ísoldar, eða umbreytingu hennar, fyrr en ég eignaðist bókina Vocal Victories: Wagner´s Female Characters from Senta to Kundry eftir danska doktorinn Nilu Parly, er verk þetta er byggt á doktorsritgerð hennar. Bókin kom út í enskri þýðingu árið 2011.

Bls. 280
Hér koma næst nokkur dæmi um lýsingar á erótík í Tristan og hjá Wagner:

Í bók sinni, eða bæklingi, The Perfect Wagnerite, frá árinu 1898, lýsti breska leikrita­skáld­ið Bernhard Shaw forleik Wagners að Tristan og Ísold sem „einstaklega ástríðufullri og sannri lýsingu í tónum, á þeim tilfinningum, sem leysast úr læðingi þegar elskendur sameinast.“ (til­vitnun lýkur).

Christian von Ehrenfels var virtur á sínum tíma sem prófessor í heimspeki í Prag, en er helst minnst í dag fyrir að tengja saman tvö orð á þýsku: „Gestalt gæði“, eða heildar gæði. Gestalt sálfræðingar í Þýskalandi tóku síðan upp annað orðið af þessum tveimur og uppskáru heila kenningu innan sálfræðinnar að launum: Gestalt sálarfræði sem er ein af nokkrum kenn­ingum innan hinnar svokölluð Fyrirbærafræði eða Phenomenólógíu í sálfræðinni. Christian þessi var einn af forkólfunum í því að lyfta bælingar-pottlokinu af bullsjóðandi ástríðum homo sapiens, eftir að fólki á Viktoríanska tímanum hafði tekist svo vel að tjóðra þetta pottlok niður. Við munum hvað Viktoría Englandsdrottning (sem hið viktoríanska bælingartímabilið er kennt við), hvað Viktoría sagði þegar kona spurði hana að því hvernig hún ætti að fara að, þar sem konur máttu að sjálfsögðu ekki njóta kynlífs, en yrðu samt að standa í því striti að fjölga Englendingum. Sú gamla, fræga eðal-ekkja svaraði þá konunni á eftirfarandi hátt: „Þú leggst á bakið, og hugsar um England.“ Við munum líka að þegar Wagner var að snapa pen­ing í London með því að halda tónleika þar, þá hitti hann Viktoríu, og hann var bara ánægður með kerlinguna. En væntanlega hafa þau ekki rætt neitt saman um samskipti kynjanna.

Christian von Ehrenfels, heimspekiprófessorinn í Prag, var sem sé ekkert hrifinn af þessari lausn Viktoríu á kynlífsvanda kvenna, fyrir daga pillunnar. Árið 1931 fullyrti hann, að Wagner, hefði verið, hvorki meira né minna en „kraftmesti erótíker sem fæðst hefði á jörð­inni.“ (tilvitnun lýkur).

Og líklega hefur Christian verið fyrst og fremst að hugsa um verk Wagners, Valkyrjuna og Tristan og Ísold þegar hann skrifaði að „opinberunar-verk“ Wagners (eins og hann orðaði það) skipuðu honum við hlið Heinrichs Heine og Sigmundar Freud. Það er sjálfsagt ekki tilviljun að fornafn Freuds var Sigmund, eins og Siegmund, elskhuginn mikli í Valkyrjunni sem var svo mikill elskhugi að hann framdi meira að segja sifjaspell til að koma genum sínum og litningum áfram. Og það var enginn auli sem af honum fæddist við þetta, það er að segja stór-hetjan Sigurður fáfnisbani, eða Siegfried. Þegar hinn kraftmikli erótíker Richard Wagner eignaðist loksins son, var hann að sjálfsögðu skírður Siegfried; þegar Siegfried Wagner fædd­ist var erótíkerinn mikli 59 ára gamall.

En áfram með skoðanir heimspekingsins Christians von Ehrenfels; hann taldi að í öðrum þætti Tristans kæmi greinilega fram kynferðisleg fullnæging og það ekki bara einu sinni, held­ur tvisvar og með tilheyrandi „detumesce“, (ditjú-Mess) eins og hann orðar það, eða rislægð. Af þessari lýsingu Christians sést, að það var ekki nema von að Christian hafi verið vinsæll og virtur sem heimspekikennari á sínum tíma. Aldrei minntust mínir heimspeki­kenn­arar, þó góðir væru, á fullnægingar og rislægðir. Eftir á að hyggja, segi ég nú bara, sem betur fer.

Örlítið innskot hér um kynferðisstuðul; allir vita hvað það er. Að sjálfsögðu var kynferðis­stuðullinn í Tristan Wagners miklu ógnvænlegri árið 1865 heldur en hann er í dag. Til dæmis var það svo að hin tvítuga og gifta hertogaynja, Sophie af Bæjaralandi, sem fæddist árið 1845, mátti ekki vera viðstödd heims-frumsýninguna á Tristan og Ísold í München árið 1865 „af siðferðilegum ástæðum“ eins og það var orðað.

Og talandi áfram um Christian: Christian Thielemann í þetta skiptið; sá eðal Wagneristi og að mínu mati bjargvættur Bayreuth-hátíðarinnar þessi árin, hann hýrist þar við erfiðar aðstæð­ur ofan í hjómsveitargryfjunni og sveiflar tónsprotanum í Festspielhaus – hann hefur nú gefið út æviminningar sínar sem hafa verið þýddar yfir á ensku og komu út fyrr á þessu ári. Heiti bókarinnar er: Líf mitt með Wagner. Kafli Thielemans um Tristan og Ísold heitir „Lífsstreng­urinn“. Að mínu mati er það forleikurinn sem er það besta við uppfærsluna á Tristan og Ísold í Bayreuth þessi árin, undir stjórn Thielemanns. Í bókinni biður Christian um að fá að hafa meira að segja, varðandi túlkun og uppfærslur á óperum, í stað þess að leikstjórinn sé einráður um slíkt. Og eitt er víst, að Thielemann hefur fengið að ráða því, að dökkgræna og góða tjaldið í Festspielhaus er vandlega dregið fyrir, allan forleikinn að Tristan og Ísold. Mikið létti mér þegar ég upplifði þetta, og þurfa ekki að horfa á yfirborðslegan mímuleik úr hugskoti ein­hvers meðaljóns sem titlar sig leikstjóra.

Hvaðan kemur Thielmann það sjálfstraust að vilja fara að skipta sér af leikstjórn? Mig grun­ar að það komi frá hinum firnasterka kennara hans í hljómsveitarstjórn, Herbert von Karajan. Það eru kannski ekki margir sem hafa séð Rínargullið á mynddiski í leikstjórn Karajans, en að mínu mati var það synd að Karajan skyldi ekki leikstýra öllum Hringnum. Þessi útfærsla Karajans er til á DVD formi og ég veit til þess að það er að minnsta kosti eitt eintak til af henni hér á landi.

Pistilinn skrifaði Christian Thielemann:

Bls. 187
Sem sagt: andstæðurnar í einstaklingnum togast á: viðkomandi á í erfiðleikum en sigrast á þeim en lokar ekki augunum fyrir því að hann hafi átt í erfiðleikum.

(Eros og handanheimur [dauðinn])

Helsta heimildin sem Wagner studdist við þegar hann samdi ljóð sitt og handrit um Tristan og Ísold, var þýsk ljóðaútgáfa af verkinu eftir snillinginn Gottfried von Strassburg, en gæði þessa verks jafnast á við gæði Íslendingasagnanna úr bókmenntaarfi síð-miðalda. Talið er að Gottfried hafi dáið í kringum árið 1210 eða um það bil 30 árum á undan Snorra Sturlusyni. Formið á kvæði Gottfrieds er þannig að yfirleitt er um að ræða 8 atkvæða línur í ljóðinu með endarími milli tveggja samliggjandi lína. Lengd kvæðisins er 250 blaðsíður í ensku lausamáls-þýðingunni en höfundurinn dó áður en honum tókst að ljúka verkinu; tvö önnur ljóðskáld luku því síðan. Kvæðið er fært yfir á nútíma þýsku af Hermann Kurtz og Wolfgang Mohr.

Tristan freistar þess að hugga Ísold. (Afsakið þýska framburðinn).

Bls. 24
Talið er að það hafi verið árið 1860, þegar hann var í París, sem Wagner skrifaði niður stutta lýsingu á söguþræðinum í Tristan og Ísold. Þýtt yfir á ensku, af hinum duglega þýðanda Ashton Ellis, hljóma orð Wagners svona:

Bls. 386-387
Wagner orðar það svo að gróðurinn hafi læst sig saman yfir gröf Tristans og Ísoldar. Skemmti­legri útgáfu af þessu stefi má finna í síðustu versunum í hinu frábæra íslenska verki „Kvæðinu um Tristram og Ísodd“ frá 14. eða 15. öld. Í þeirri útgáfu er Tristram giftur Ísodd hinni myrku, en það er persóna sem Wagner sleppir í sinni útgáfu. Niðurlag íslenska kvæð­isins, frá versi no. 26 til 37, er svona:

Bls. 132 EÓS
Sem sagt, gróðurinn teygir sig ekki yfir grafir turtildúfnanna eins og Wagner orðar það, heldur alla leið yfir kirkjuna. Færeyska útgáfan af Tístram og Ísin er með skemmtilegt og bjartsýnt lokaerindi:

Sprakk af harmi eftir hans deyða
Ísin hin ríka frú;
eg svörji tann eið á mín trú;
tað hendir ongan nú!

Nú vendi ég mínu kvæði í kross, yfirgef Wagner og fer yfir á Íslandsmið. Mér þykir sem sé rétt að nota þetta tækifæri til að rétta aðeins hlut íslensks skálds sem hafði, eins og Richard Wagner, gaman af sögunni um Tristan og Ísold og þeir áttu þennan áhuga á þessum persónum sameiginlegan með milljónum manna. Wagner átti sér ýmsa hatursmenn og þetta vinsæla íslenska skáld átti sér einn slíkan, en það var nóg, því hann var afar voldugur og skrifaði frægan dóm um Tístransrímur sem ég vil kalla frægan ritdóm að endemum.

Þegar Sigurður Breiðfjörð bjó hjá móðurbróður sínum, séra Jóhanni Bjarnasyni, að Helgafelli á Snæfellsnesi árið 1829 bað Jóhann hann að yrkja rímur fólki til skemmtunar. Sigurður var þá orðinn mjög frægur og vinsæll fyrir rímnakveðskap, hafði ort heilan tug rímnaflokka. Á heimili Jóhanns var til dönsk saga um persónurnar Tistran och Indiane sem Breiðfjörð kallar Tístran og Indíönu.

Tístransrímur Breiðfjörðs eru í 14 köflum, eða rímum, og hver kafli um sig með ólíkt brag­ar­formi; tveir kaflarnir eru í nýjum háttum, það er 5. ríma, sem er skammhend hringhenda og 13. ríma sem hlaut nafnið nýhenda.

Í eftirfarandi dæmum sem ég tek, sting ég út rímsnilld Breiðfjörðs.

Í fjórðu rímu, þar sem formið er stikluvik, þríhent – er sorg Indíönu lýst svo:

Harma sáran kenndi keim
klæða fríða tróða
vífið klára vafið seim
vot af tárum sneri heim.

Sorgarstafurinn Ð kemur fyrir fimm orðum af sjö í línum tvö og þrjú. Ég les aftur.

Og í fimmtu rímu, í skammhendri hringhendu er sorg Indíönu lýst á þennan hátt:

Vífið klára vill ei láta
um vota báru hlíð
hugarsára gremju gráta
gyðjan tárafríð.

Miðrímið í þessu erindi er: klára, báru, sára, tára –  eða klár, bár, sár, tár; endarímið: láta, gráta og hlíð – fríð. Ég les aftur.

Í þessari sömu rímu, hinni fimmtu, er svo lýsing á erfiðleikum Tístrans og Indíönu í hinni forboðnu ást þeirra:

Leggst nú hann við frúar fætur
fleira bannað er
hvort í annars örmum grætur
elskan sanna sker.

Miðrímið er þarna hann, bann(að), ann(ars), sann(a), sem sé hann, bann, ann, sann – endarím­ið er  fætur-grætur og er-sker. Ég les aftur.

Í sjöttu rímu er veisluhöldum lýst svo:

Una slyngir öls við þing
Illar þvingast lundir
staupin klingja hvell í hring
höldar syngja undir.

Þetta vers í sjöttu rímu er oddhenda eins og allur sá kafli. Miðrímið er slyngir, þvingast, klingja, syngja eða slyng, þving, kling, syng. Endarímið er þing og hring, og einnig lundir-undir. Ég les aftur.

Í sjöttu rímu einnig, er þessi lýsing á skipi á hafi:

Ragnahari rótar mar
Rifna skarir boða
Byrinn snari þandi þar
Þunnar spjarir gnoða.

Þið eruð farin að átta ykkur á rímsnilldinni, miðrími og endarími, en nú er spurt: Hvað voru mörg R í þessum þrettán orðum sem mynda vísuna? Ég les hana aftur.

Jú rétt, 14 R. Þrjú orð eru án R-a: boða, þandi, gnoða, tvö þeirra, ríma í endarími. Ég les aftur.

Þetta var 16 vers í sjöttu rímu. 18 vers fjallar um svipað efni:

Stundi röng við strauma þröng,
stormar göng um voga
háðu söng við seglin löng
svignar stöng í boga.

Við höfum nú skoðað nokkur dæmi þar sem versin eru fjórar línur. Í sjöundu rímu, sem er stuðlafall mishent, eru línurnar í hverju versi þrjár:

Nú hefur drengur nógu lengi að sinni
konungs blíða faðmað frú
fær að bíða vinnan sú.

Eins og bent er á þarna, er það afar tímafrekt starf að vera ástfanginn. Innrímið er hér drengur- lengi eða dreng-leng. Miðrímið er blíða-bíða. Endrímið er frú-sú. Ég les aftur.

Nú færist hiti í leikinn, það þarf að sanna það, að um framhjáhald sé að ræða hjá turtil­dúf­unum:

Keypti mann sem kúra vann í leyni
oft í húmi æruspar
undir rúmi drottningar.

Kauðinn bað hann blauður það að vakta
hvort ei fýsti faðma sprund
frægan Tístran næturstund.

Framhaldið er skothenda í áttundu rímu:

Eftir ráðum Rauðreks þá
reifaður svika skýlu
auli smáður undir lá
Indíönu hvílu.

Og nú er það ekki bara hiti sem færist í leikinn heldur líka hætta:

Indíana vakna vann
vífablómið trúa
blíð að vana beiddi mann
burtu aftur snúa

En nær fleina Óðinn hýr
aftur stóð á fætur
fram úr leyni þrælar þrír
þustu í skugga nætur

Og nú á að taka skötuhjúin af lífi:

Tístran leiddur út svo er
álma frægstur þórinn
klæði breiddi svört að sér
samlitur var jórinn.

Indíana fór í fat
farfa meður hvítum
líka á grana ljósum sat
leið svo reið með ýtum.

Indíana biðst nú fyrir, í anda Hallgríms Péturssonar:

Öndu minni fáðu frið
faðir í náðar hendi
ambátt þinni ljáðu lið
lífið glöð svo endi.

Ætli það geti verið að Jónas Hallgrímsson hafi haft rétt fyrir sér, að þetta sé allt saman „ein­hver lygisaga“? Auðvitað eiga sögur ekki að vera lygisögur samanber til dæmis „Legg og skel“, ekki er sagan sú nú aldeilis lygisaga.

Níunda ríma í Tístransrímum Sigurðar Breiðfjörðs er á sléttubandaformi. Þar fáum við bardaga:

Þrífur skálma Sigtýr sverð
sýnist friður bíða
klýfur hjálma, manna mergð
mundi niður sníða.

Tíunda ríma er braghenda baksneidd. Þar er Breiðfjörð orðinn nokkuð dasaður enda er þetta erindi númer 582 í Tístransrímum:

Læt ég því með flýti fljóta fræðið kennda
nenni ekki vel að vanda
vantar stundum glaðan anda.

Þarna verður að taka tillit til þess að Tístransrímur voru samdar í heilsubótarskyni. Frændi Breiðfjörðs sá hvert stefndi með þunglyndi Sigurðar og fékk honum þetta verkefni til að létta lund hans. Þegar kvæðið er rúmlega hálfnað sígur lund skáldsins aftur niður. Þetta nýtti Jónas Hallgrímsson sér og kallaði Tístransrímur vesælar og byggðar á danskri sögu sem sé „…auð­sjáanlega […] einskisverð og heimskulega ljót og illa samin […] – – – Af Tístranssögu er ekkert að læra. Hún er ekki til neins nema til að kvelja lesandann og láta hann finna til hversu það er viðbjóðslegt að hlýða á bull og vitleysu – -“. (Tilvitnun lýkur). Jónas tekur fram að hann hafi ekki lesið dönsku söguna en hann fullyrðir samt að hún sé „auðsjáanlega […] einskisverð og heimskulega ljót og illa samin.“ Það er nú músik í þessu hjá Jónasi: „auð­sjá­anlega […] einskisverð og heimskulega ljót og illa samin.“

     Ætli það geti verið að Jónas hafi verið í glasi þegar hann setti þennan illskutexta saman? Kannski að hann hafi verið aðeins of fljótfær þegar hann ýtti á send-takkann á tölvunni sinni, eins og gerist svo oft þessa dagana á twitter og face-book. Og kannski að Jónas hefði lifað lengur, hefði hann ekki verið svona reiður, það fer illa með blóðþrýstinginn, og svo var hann náttúrulega drykkfelldur. Áfram heldur Jónas: „Hortittirnir eru óþrjótandi, þeir úa og grúa svo enginn getur talið þá.“ Þetta er sjálfsagt rétt hjá Jónasi, að enginn geti talið þá, enda ekki búið að finna upp lesblindu á þessum tíma, hvað þá talnablindu.

Bjarni Thorarensen kallaði Jónas Hallgrímsson „hið drambsamasta dýr“. Dæmi hver fyrir sig.

Sigurður Breiðfjörð dó árið 1845, árið sem Wagner lauk við að semja Tannhaüser, en Jónas Hallgrímsson þraukaði ári lengur. Skyldi Breiðfjörð hafa sent Hallgrímssyni sendingu? Ég veit til þess að Sigurður er enn mjög magnaður. Þegar ég fór í fornbókaverslunina Bókina á Hverfisgötu fyrir hálfum mánuði síðan, búð sem ég vil kalla Bobby Fischer búðina, enda heita nú flestar búðir á Íslandi erlendum nöfnum. Já, Bobby Fischer búðin ætti hún að heita, því þar sat ameríski skáksnillingurinn Fischer löngum tímum eftir að við Íslendingar vorum búnir að bjarga honum úr japönsku fangelsi og Sæmi Rokk búinn að syngja afmælissöng fyrir Fischer fyrir utan klefadyrnar í japanska fangelsinu.

Ég fer sem sé inn í Bókina og spyr afgreiðslumanninn hvort hann eigi Tístransrímur Sig­urðar Breiðfjörðs. Ég átti ekki von á jákvæðu svari enda ekki mikið um flokkun á bókum í bókahafinu í þessari búð. Þá gengur til mín maður, viðskiptavinur, og segir: „Hér er bókin, ég var að blaða í henni“; hann réttir mér bókina og mér var síðan gefin hún, því ég hafði gert afgreiðslumanninum greiða nokkru áður. Þegar þessi viðskiptavinur hafði rétt mér Tístrans­rímur gengur hann burt og ég spyr hann: „Hver ert þú?“ En hann gengur rakleiðis út og segir ekki til nafns. Hvers vegna? Jú, ég er viss um að hann heitir Sigurður Breiðfjörð. Þannig að þið sjáið að Breiðfjörð er magnaður. Og þess vegna hef ég eytt svona miklu púðri í það núna að rétta hlut skáldsins.

Mér var kennt það í Menntaskólanum í Hamrahlíð af Jóni Böðvarssyni, þeim mikla bókmenntakennara, að hata Tístransrímur en dýrka Jónas Hallgrímsson og verk hans. Þess vegna hafði ég aldrei lesið Tístransrímur Breiðfjörðs, fyrr en ég fór að semja þetta erindi til heiðurs íslenska Wagnerfélagsins. Ég hafði að vísu heldur aldrei lesið dóm Jónasar um Tíst­ransrímur, fyrr en fyrir viku síðan. Og það kom mér á óvart að Jónas skyldi segja eitthvað jákvætt um Tístransrímur, það er að segja hann hælir einu lýsingarorði í rímunum, reyndar aðeins einu, en telur öll hin ómöguleg og hann telur þau upp í miklum romsum. Þetta eina góða orð er orðið tárafríð, en Jónas getur að sjálfsögðu ekki staðið við hólið því hann bætir við: „…fallegra er samt grátfögur…“

Og hvernig hefði þá vísan þá hljómað:

Vífið klára vill ei láta
um vota báru hlíð
hugarsára gremju gráta
gyðjan grátfögur.

Þarna hefur Jónas líklega séð fyrir hvert stefndi í atómkveðskap framtíðarinnar, til dæmis í anda tímamóta-ljóðabókarinnar Þokur.

     Fljótlega eftir að hafa misst út úr sér eitthvað jákvætt um Tístransrímur kemst þó Jónas aftur í essið sitt með orðunum „gjörsamlega spillt og saurgað ímyndunarafl“, „vanbrúkun á skáldskaparlistinni“ „hirðuleysi um sjálfan sig og aðra“, „einskisvirði rímna“, „skömm“ „óþverri og viðbjóður“. Og síðan: „Leirskáldunum á ekki að vera vært;“. Hann er þá búinn að nota hin fallegu orð „ósómi“, „ljótt og viðbjóðslegt“ og líka „ljótt og heimskulegt“… Þetta er að sjálfsögðu afar kraftmikið hjá honum, að tvinna saman orðið „ljótt“ við önnur orð: Ljótt þetta og ljótt hitt.

Og Jónas líkir rímunum við dýr: „…með merarhálsi og hvalshöfði og hræðilega afturmjótt, með halakorni, og allt saman þakið skeljum“. Þarna er ég nú sammála Jónasi, rímur eru miklu fegurri ef þær eru frammjóar og frekar með hanaháls en merarháls.

Sál og vit Breiðfjörðs fá þennan dóm hjá listaskáldinu góða, sál og vit Sigurðar: „…öfl sálarinnar [eru] illa vanin og vitið of lítið…“. Og áfram heldur Jónasinn: „…allt er látið fjúka sem heimskum manni getur dottið í hug: hortittir og bögumæli og alls konar skrípi og ófreskjur sem lítið eða ekkert vit er í…“ Og meira af svo góðu: „Allur þessi tíningur er […] látinn þýða þrennt eða réttara að segja tvennt og ekki neitt.“ Þessi rökfræði var víst kennd í Hafnarháskóla á sínum tíma: Ekkert er samasem þrennt, eða réttara sagt tvennt.

Og orðfærið hjá Breiðfjörð er „afllaust og tuddalegt“, kenningarnar eru samkvæmt lista­skáldinu góða svo vitlausar að þær líkjast hraungrýti sem gæti brotið úr manni tennurnar ef menn nefndu þær. Þetta var víst einn uppáhaldsiðja Jónasar, að bryðja kenningar, þegar hann var búinn að tyggja allan þann harðfisk sem hann átti.

Jónas byrjar grein sína um Tístransrímur á því að benda á hvað rímnaskáldin hafi „fimbul­fambað“ mikið „til ævarandi spotts og athláturs um alla veröldina“. Þarna ber að geta þess að Jónas hafði fengið nákvæmar upplýsingar frá öllum helstu heimsálfum, um það hve mikið hafði verið hlegið að þessum íslensku vísum, enda t.d. í Afríku hefur alltaf annar hver maður þar kunnað íslensku.

Já, þetta var nú innskot, þetta með Jónas Hallgrímsson. Nú er sem sé komið að uppáhalds kaflanum mínum í Tístransrímum Breiðfjörðs, kafla sem Jónas hefur líklega ekki lesið. Við sáum í tíundu rímu hvernig Breiðfjörð var að missa flugið, falla aftur niður í þunglyndið og eins og við vitum eru góð ljóðskáld þunglyndari en aðrir listamenn enda helstu kandídatar í sjálfsmorðadeildinni innan listageirans.

Tíunda ríma er braghenda baksneidd. Ég les frá 21. erindi til þess 56. og sleppi nokkrum erindum þar á milli:

Bls. 82-85
Richard Wagner gerði frægustu og bestu útgáfuna af sögunni um Tristan og Ísold. Íslendingar, eins og aðrar Evrópuþjóðir, gerðu sínar eigin útgáfur en fyrsta þýðingin af sögunni um Tristan og Ísold á norræna tungu var þó unnin af breskum manni. Hann kynnir þýðinguna á þennan hátt:

Riddarasögur bls. 3
Bróðir Róbert þýddi yfir í laust mál ljóðaflokk um Tristan og Ísold sem Tómas skáld frá Bretagne hafði ort. Þessi útgáfa Róberts birtist meðal annars í Riddarasagnaútgáfunni árið 1949. Síðan tók Einar Ólafur Sveinsson sig til og þýddi lausamálsútgáfu Josephs Bédier af Tristan og Ísold á íslensku, en þýðingin var gefin út árið 1955. Bédier fæddist árið 1864 og byggði sína gerð af sögunni á fornum kvæðum. Og til eru enn fleiri útgáfur á íslensku af þessu fræga ástarpari, en þær eru sjaldséðar.

Lorem ipsum dolor sit amet, consectetur adipiscing elit. Ut elit tellus, luctus nec ullamcorper mattis, pulvinar dapibus leo.

Tilvitnair í réttri röð

  1. Documentary
  2. Thomas Mann
  3. Thielemann
  4. Gottfried 24
  5. Jesus
  6. EÓS 132
  7. Breiðfjörð 82-3, 108, 117
  8. Riddarasögur 3
  9. Vocal Victories 280, 272