Wagner á marxíska vísu

Morgunblaðið 20. október 1974

Meðan Bretar barma sér undan yfirvofandi kreppu í efnahagslífinu, ræðst Konunglega óperan í Covent Garden í það stórvirki að flytja allan Niblungahring Wagners, eitthvert viðamesta verkefni sem óperufyrirtæki getur ráðist í — bæði í fjárhagslegu og listrænu tilliti. Slíkt þykir í sjálfu sér alveg nægileg dirfska á þessum síðustu og verstu tímum, en Covent Garden lætur ekki þar við sitja heldur hefur ráðið alræmdan aðkomumann til að setja Hringinn á svið, mann sem hefur orð á sér fyrir að fara ekki troðnar slóðir í sviðsetningum sínum á óperum og er sóttur austur fyrir járntjald í þokkabót. Bendir ýmislegt til þess, að þessi óperuflutningur geti orðið með hinum sögulegri í brezku leikhús- og tónlistarlífi hin síðari ár.

Raunar hefur flutningur á Hringnum verið alllengi á döfinni hjá Konunglegu óperunni. Upphaflega stóð til að Peter Hall, hinn kunni brezki leikhúsmaður, yrði ráðinn þar óperustjóri ásamt Colin Davis, hljómsveitarstjóra, og vitað var að Niblungahringurinn var efstur á blaði á verkefnaskrá þeirra, þar sem Hall hugðist setja óperuna á svið en Davis stjórnaði tólistarflutningnum. Á elleftu stundu hætti Hall við að taka að sér starfann og leit þannig um tíma illa út með að nokkuð yrði af flutningi á Hringnum, sem er sem kunnugt er í reynd fjórar sjálfstæðar óperur — Rínargullið, Valkyrjan, Siegfried og Ragnarök.

John Tooley, framkvæmdastjóra óperunnar, var þannig töluverður vandi á höndum er hann leitaði að staðgengli fyrir Hall til að færa Hringinn á svið en fyrir valinu varð síðan austurþýzkur óperumaður að nafni Götz Friedrich, sem vakið hefur mikla athygli fyrir mjög djarfa en umdeilda sýningu á Tannhäuser í Bayreuth fyrir tveimur árum rúmum. 

Colin Davis and Götz Friedrich during rehearsals for he Ring Cycle 1975-Royal Opera House Covent Garden
Colin Davis og Götz Friedrich

Þykir mörgum Tooley harla hugaður í þessari ráðningu sinni í ljósi þess að Friedrich er töluvert kynlegur kvistur í röðum óperumanna. Er sýnt, að Covent Garden tekur þarna umtalsverða áhættu, sem er afar óalgengt meðal svo útgjaldafrekra óperufyrirtækja á borð við Covent Garden, því að yfirleitt tefla þau ekki á tvær hættur í verkefnavali sínu. Óperan hefði sennilega sloppið án verulegra skakkafalla frá hefðbundinni sviðsetningu Hringsins, en hér getur vissulega brugðið til beggja vona — allt eftir því hvort áhorfendum gezt að frumleika Friedrich. 

Götz Friedrich hlaut menntun sína hjá Komische Oper í Austur-Berlín, en á síðustu árum hefur hann getið sér góðan orðstír við vestræn óperuhús. Marxískt uppeldið speglast í sviðsetningum hans, sem komið hafa vestrænum óperugestum dálítið í opna skjöldu og um leið borið með sér ferskan andblæ inn í fremur staðnað óperulíf Vesturlanda.

Friedrich hefur nú sagt skilið við ættland sitt um sinn að minnsta kosti — þar sem yfirvöld þar vildu hindra hann í að starfa svo mikið á Vesturlöndum sem hann sjálfur vildi.

Skoðanir Friedrich á hlutverki óperunnar í nútímanum eru um margt óvenjulegar. Hann heldur því fram, að unnendur óperunnar verði að leita eftir meiru í óperum en skemmtanagildinu einu, því að óperur séu alltof kostnaðarsamt fyrirtæki til að réttlæta svo mikla sóun fjármuna í þeim tilgangi einum, „Ef óperan hefur engu þjóðfélagslegu hlutverki að gegna, þá er engin ástæða til að halda lífinu í þess háttar hljómasafni og hrella almenning með aukinni skattheimtu til að standa undir kostnaðinum af rekstri þeirra. Við verðum ætíð að huga að þessu hlutverki, við sem túlkum þær, þið sem gagnrýnið þær, fólkið sem sækir þær. Þessi hugsunarháttur er enn ekki ríkjandi, en viljinn fyrir því að gera þetta, sem við aðhöfumst á sviðinu, að einhverju meiru en leik í fílabeinsturni”, lét Friedrich hafa eftir sér nýlega í brezku blaði.

Friedrich vill líta á Niblungahringinn sem epískan ævintýraleik um endalok mannfélagsins, um endalok mannfélags okkar tíma, ef menn kjósa að skoða Wagner sem spámann um framvindu nútímans. Hringurinn sé dæmisaga um hvað gerzt geti, viðvörun, þótt hann á ytra borði líkist helzt nítjándualdar skáldsögudoðranti. Mestu skipti þó að hinir fjórir hlutar séu í reynd fjögur ólík verk og kveðst Friedrich ætla að láta þennan mismun millum óperanna fjögurra njóta sín sem bezt í sviðsetningu þeirra á Covent Garden.

,,Það er í mínum augum meginatriði”, segir Friedrich ennfremur, ,,að Hringurinn greinir frá bölvun valdsins. Sá sem ber hringinn hverju sinni er spilltur og afbrigðilegur. Svo lengi sem valdið helzt á fárra höndum og er notað til að kúga aðra, mun þetta helgivald, ef við getum nefnt það svo, spilla öllum mannlegum samskiptum. Aðallega vekur það þó áhuga minn á efninu, að Hringurinn er saga mannkynsins um leið og hann er saga um menn. Sú saga gerist á leiksviði og þar með gefst færi á að segja sögu leiksviðsins um leið og sögu mannsins”. Telur hann túlkun óperunnar nái bezt til áhorfenda í formi líkinga, en er með því að höfða í túlkuninni til veruleikaskyns áhorfandans. Því að hvar gerist Hringurinn? spyr Friedrich. Ekki á Íslandi, ekki í Noregi né í Þýzkalandi nítjándu aldar. Hann gerist á leiksviði Covent Garden. Og Friedrich vitnar til Peter Brooks, að umgjörðin sé leiksviðið og leiksviðið sé veröldin. Sögusvið Hringsins er einmitt öll veröldin.

Og af því að hér í upphafi var lítillega drepið á Tannhäusersýningu Friedrich í Bayreuth, er ekki óviðeigandi að nota tækifærið og minnast með örfáum orðum Wolfang Windgassen, sem lézt í síðasta mánuði, en hann var einn af máttarstólpum tónlistarhátíðarinnar í Bayreuth og einn fremsti Wagnersöngvari veraldar síðustu áratugina. Hann var sextugur að aldri.

Windgassen var búsettur í Stuttgart og fjögur síðustu árin var hann aðalstjórnandi óperunnar þar í borg. Framaferill hans hófst þó ekki að ráði fyrr en upp úr 1950, en síðustu tvo áratugina eða svo hefur hann verið talinn fremsti túlkandi Wagners í röðum tenórsöngvara og arftaki þeirra Lauritz Melcior og Max Lorenz. Á þessu skeiði hefur Windgassen verið talinn ómissandi söngkraftur við allar meiriháttar Wagnersýningar í helztu borgum Evrópu og hann var eins og áður getur, ein helzta driffjöður Bayreuth tónlistarhátíðarinnar, þar sem hann söng 159 sinnum á árunum 1951-66.

Wagnersöngkonan kunna Birgit Nilsson ritar nýlega eftirmæli um Windgassen í New York Times og þar segir hún að það hafi verið tvö „W“ sem mikil áhrif höfðu á söngferil hennar — Wieland Wagner óperuleikstjóri, og Wolfang Windgassen tenór. „Nú eru þeir báðir horfnir af sjónarsviðinu og með þeim er farinn stór hluti þess er ég álít ákjósanlegasta háttinn til að flytja óperur Richard Wagners. Það var Wieland sem sló Wolfang mestu gullhamrana er hann sagði eitt sinn: „Þegar Windgassen hættir að syngja, getum við allt eins lokað „Das Festspielhaus “… Sjálf er ég þakklát fyrir að hafa verið uppi á sama tíma og Windgassen og vegna hans hefur líf mitt orðið svo miklu ríkara, bæði hinu listræna og mannlega sviði”.