Wagner og heimspekin

Flutt á vegum Stofnunar Sigurðar Nordals í Norræna húsinu 22. maí 1995

Segir ekki yfirskrift þessa erindis, Wagner og heimspekin, sitt, og betur en margt annað, um þá sérstöðu sem Richard Wagner hefur meðal tónskálda, jafnt þeirra sem samið hafa söngleiki sem annarra? Er ekki hætt við, ef við breyttum henni á þann veg að nafn einhvers annars af meisturum þessarar listar yrði sett í stað hans við hlið orðsins heimspeki, að það yrði nánast hjákátlegt – enda ætla ég ekki að nefna hér nein nöfn – og bæri jafnvel vott um hvimleiða hnýsni höfundar erindisins um alger einkamál, sem sé það hvort þeir hafi dútlað eitthvað við lestur heimspekirita í frístundum sínum í stað þess að eyða þeim á annan hátt, svo sem með því að spila billjarð. Hefði annars nokkru öðru tónskáldi en Wagner dottið í hug það sem fjandvinur hans, gárunginn Nietzsche, sakaði hann um á einum stað: að láta aðalkvenhetjuna í einum söngleikja sinna halda fyrirlestur um heimspeki yfir ástvini sínum föllnum, nánar tiltekið sjálfa Brynhildi valkyrju yfir líki Sigurðar Fáfnisbana. Ber ekki slíkt, ef satt er, vott um ofuráhuga á því að koma á framfæri heimspekilegum skoðunum, og hljóta ekki allir að vera sammála um það að til sé heppilegri vettvangur fyrir slíkt en óperusviðið, og það jafnvel þótt hljómsveitin sé djúpt niðri í gryfju eins og í hátíðaleikhúsinu í Bayreuth?

Nú er það kunnara en frá þurfi að segja hér að Richard Wagner var með afbrigðum fjölhæfur maður og lagði ekki einungis gjörva hönd á tónsmíðar af ýmsu tagi og hljómsveitarstjórn heldur og margvísleg ritstörf, svo sem skáldskap jafnt lýrískan sem dramatískan, ritgerðasmíð jafnt um fagurfræðileg málefni sem þjóðfélagsleg, leikmyndahönnun, leikhúshönnun og leikhússtjórn, að ógleymdri pólitískri ráðgjöf til konungmanna, svo eitthvað sé upp talið, svo það virðist varla gera til né frá hvort heimspekin eða afskipti hans af henni fái að fljóta með sem liður í úttekt á lífsstarfi hans. Það sakar þó ekki að geta þess í leiðinni að heimspekiiðkun virðist ekki hafa verið eins mikið tiltökumál meðal manna, jafnvel skálda og listamanna, í heimalandi Wagners á hans tímum og hún er eða væri hér á Íslandi í dag. Þar var enginn maður með mönnum nema hann væri einhverskonar ,,-aner“ eða áhangandi einhvers þeirra djúphuglu spekinga sem allt var krökkt af í landinu um þær mundir, nema hann hefði þá sitt eigið alyfirtæka kerfi á takteinum sjálfur. Wagner var að þessu leyti síður en svo nein undantekning, og hlýtur raunar sá sem hyggst gera afskiptum hans af heimspeki einhver skil að gera það í þrennu lagi, ef vel á að vera. Í fyrsta lagi því hver skyldu hafa verið kynni hans af þeim heimspekingum er hæst bar á hans tímum og hvaða afstöðu hann tók til þeirra, og í öðru lagi þyrfti að rekja hvernig Wagner vinnur úr hugmyndum annarra eða beitir sjálfur eigin í þeim fjölmörgu ritum og ritstúfum sem eftir hann liggja um fagurfræðileg og þjóðfélagsleg efni, og að lokum eða í þriðja lagi hvernig hann varð á endanum áhrifavaldur í sögu heimspekinnar, fyrst sem einskonar lærifaðir og átrúnaðargoð en síðar viðfangsefni og skotspónn eins stórmenna hennar, sem þegar hefur verið minnst á hér og gerði talsverðan usla í evrópsku menningarlífi undir lok 19. aldar og það langt út fyrir svið heimspekinnar í þrengri merkingu.

Öllu þessu verða af skiljanlegum ástæðum ekki gerð nema lausleg skil hér, því við viljum fyrir alla muni halda okkur innanvið wagnersk lengdarmörk. En það er mikilvægt að hafa í huga þegar frá öndverðu að hin áðurnefnda fjölhæfni Richards Wagner þarf ekki endilega að hafa orðið til að veikja krafta hans með því að dreifa þeim í allar og jafnvel gagnstæðar áttir — nær væri að segja að ofurmáttur listar hans felist öðru fremur í því hve vel honum tókst að sameina marga ólíka hæfileika sína undir ægivaldi síns öfluga „Égs“ og beina þeim að miklu og háleitu marki sem mætti kallast „Verkið“ með stórum staf, verkefnið mikla sem hann nefndi allsherjarlistaverk eða Gesamtkunstwerk — og það jafnvel fleiri en eitt. Þetta verkefni virðist hafa svifið yfir höfði hans stöðugt, jafnt um nýtan dag sem um andvökunætur, og gefið lítil grið og átt sinn þátt í að gera hann oft svo óþolandi og krefjandi sem sögur herma í samskiptum við kunningja, sem kannski álpuðust til að setjast með honum að kaffiborði í mesta sakleysi, en fengu svo ekki að standa upp fyrr en eftir að hafa hlustað á hann raula heilu þættina úr verkum sem hann var með í smíðum. Við sköpun téðs allsherjarlistaverks nægði Wagner vitaskuld ekki að fara troðnar slóðir í listinni eða fylgja viðteknum hugmyndum um hana, og því er ekki furða að sú stefna sem hann vildi marka hafi einkum verið kennd við framtíð og nýlist. En ef betur er að gáð þá beindi Wagner sjónum talsvert aftur í tímann og sótti fyrirmyndir sínar að allsherjarverkinu aftur í forneskju, eða til þess tíma er harmleikurinn forngríski var í mótun og bar enn sterk einkenni uppruna síns í helgihaldi og sameinaði ólíka þætti eins og hið talaða orð, jafnt í formi samræðu sem ljóðs, danslistar, söngs og hljóðfæraleiks. Í verkum Æskýlosar, þess sem nefndur hefur verið „faðir harmleiksins“ mynduðu þessir þættir einkar magnaða heild, auk þess sem þau miðluðu á ljóðrænan hátt mikilli visku, en með tímanum hafði hins vegar allt þetta splundrast illu heilli þannig að á síðari tímum stóðu menn uppi annars vegar með leikrit, sem byggðu eingöngu á orðræðu og rökræðu og tónlist var úthýst úr nema kannski til skrauts, og hinsvegar söngleiki eða óperur þar sem textinn, svonefnt librettó var aðallega tilefni til að semja röð sætlegra aría sem lutu sjálfstæðum lagrænum lögmálum en höfðu næsta lítið gildi fyrir verkið í heild. Þessari stöðu gerir Wagner grein fyrir í ritum sínum um þessi efni, og sem orsök eða sökudólg þessarar öfugþróunar (að hans mati) þá sófísku rökhyggju sem fer vaxandi er á líður í Aþenuborg og hlýtur á endanum að slíta menn úr tengslum við hina goðsögulegu eða „mýtísku“ heimsmynd, sem listirnar spretta úr, og raska þannig innra jafnvægi dramans, er þessi rökhyggja heldur fyrir alvöru innreið sína á fjalirnar. Þá er ekki langt í að heimspekingar eins og Sókrates og Platon þykist geta hæðst að skáldunum fyrir að yrkja í einskonar innblásinni vímu eitthvað sem þau botni ekkert í sjálf og sé í rauninni bæði siðspillandi og barnalegt, og ekki tekur betra við fyrir skáldskapinn þegar guðfræðin fylgir á hælana með tilkalli sínu til einkaréttar á sannleikanum, þannig að bæði list og heimspeki verða að setja sig í þjónsstellingar.

Sá sem hugðist endurvekja hið forna drama í stíl Æskýlosar hlaut því að þurfa að snúa við straumi tímans og komst varla hjá því að ganga á hólm við heimspekina sjálfa og samherja hennar guðfræðina og þar var auðvitað nærtækast að snúa sér að heimspeki samtímans sem, eins og áður sagði, stóð í talsverðum blóma í heimalandi Wagners, einkum eftir að Immanuel Kant hafði lagt grundvöll að því sem í heimspekisögunni gengur undir nafninu þýska hughyggjan. Þótt hughyggja þessi hafi átt ýmislegt sameiginlegt með þeirri sem kennd er við Platon, gerði hún þó skáldskap og list sýnu hærra undir höfði en hann og gat þannig orðið ein meginstoð hinni rómantísku stefnu í skáldskap í krafti þeirrar áherslu sem hún lagði á sköpunarmátt hugans eða hugverunnar sem uppsprettu alls og samsvörun, ef þá ekki samsömun, náttúru og anda. Þó er ekki laust við að heimspekingarnir hafi þar eins og annars staðar haft tilhneigingu til að skipa sér ofar listamönnum, ekki síst ef þeir í ofanálag við visku sína gátu flíkað lærdómstitlum og embættisframa. Þannig þótti Fichte t.d ekki mikið til koma er rómantísku skáldin vildu flykkjast undir merki hans, og Hegel, sem þó gerði listinni býsna góð og rækileg skil, er í litlum vafa um að hún sé tveim þrepum neðar en heimspekin í stigveldi andans og tilheyri frekar bernsku en fullorðinsárum í þroskasögu hans. En það var einmitt kerfi Hegels sem var ríkjandi heimspeki á uppvaxtarárum Wagners, og því ekki ófróðlegt að heyra kafla úr lýsingu eins kunningja Wagners á því hvernig tónskáldið brást við þeim fræðum á sínum fyrri árum í Dresden: „Dag nokkurn er ég heimsótti Wagner var hann uppi í skýjunum út af Fyrirbrigðafræði andans eftir Hegel sem hann var þá að lesa, og með þeirri ákefð sem honum var eiginleg lýsti hann yfir því að þetta væri sú besta bók er nokkru sinni hefði birst á prenti. Þessu til sönnunar las hann uppþátt málsgrein sem heillaði hann sérstaklega, en þar sem ég náði ekki alveg merkingunni, bað ég hann að endurtaka lesturinn, hvað hann og gerði. Það varð til þess að hvorugur botnaði lengur neitt í téðri málsgrein. Þá las hann hana í þriðja og fjórða sinn, og á endanum horfðum við hvor á annan og skelltum upp úr. Þar með var fyrirbrigðafræðin afgreidd”. [1] 

Þetta kann að vísu að virðast nokkuð snautleg afgreiðsla á svo merkri fræðigrein sem fyrirbrigðafræði andans, en vissulega hafa fleiri afgreitt fræði Hegels á svipaðan hátt, það er með útúrsnúningum og hártogunum, og má þar nefna jafnaldra Wagners í Danmörku, Søren Kierkegaard. Í Þýskalandi var um þær mundir heldur enginn hörgull á hugsuðum sem tóku svipaða afstöðu og vildu tæta í sig kerfi Hegels, þótt þeir væru kannski ekki andsnúnari vissum þáttum þess en svo að þeir gengu undir nafninu „Vinstri-Hegelssinnar“, en sumir þeirra kölluðu sig þó fremur „Unga Þýskaland“ og vildu gjarna líta á sig sem boðbera nýrrar aldar. Það sem þessir hugsuðir fundu Hegel einkum til foráttu var það sem bar keim af íhaldssemi, hughyggja hans og tilhneiging til að skoða heiminn í yfirmáta víðu sögulegu samhengi þar sem barátta lifandi einstaklinga á líðandi stund hvarf sjónum, og á þeim nótum var einnig gagnrýni Ludwigs Feuerbach, sem var áberandi í þeirra hópi og Wagner gerði að meistara sínum eins og kemur fram í því að hann tileinkaði honum rit sitt, Listaverk framtíðarinnar, sem út kom árið 1849, með tilhlýðilegum viðurkenningarorðum. Feuerbach var einkar uppsigað við allt sem bar keim af guðfræði og vildi að eigin sögn draga heimspekina ofan úr draugheimi hugtakanna niður til þess er hann nefndi raunveruleika og beina henni að lífi fólks af holdi og blóði. Í stað guðfræði skyldi koma mannfræði, í stað þess að líta á manninn sem sköpunarverk guðs verður guð sköpunarverk mannsandans, og í stað guðssambands kemur samband manna innbyrðis og það nær hámarki þar sem einstaklingurinn getur helst brotist út úr einangrun sinni og eigingirni, það er í ástarsambandi milli karls og konu. Það eru vitaskuld þessar skoðanir Feuerbachs sem heyra má óminn af í löngu bréfi Wagners frá Zürich til vinar síns Augusts Röckel, dagsettu 25.-26. janúar 1854 og kunna að hljóma sem árás á heimspekina sem slíka: „Frumspekingnum, sem lætur hið óáþreifanlega ganga fyrir hinu raunverulega, sem leiðir skynveruleika út frá frummynd […] er vitaskuld frjálst að hugsa sem svo að hugtakið ást sé til á undan raunverulegri ást, og að hin raunverulega holdlega ást opinberi einhverja ólíkamlega ást sem sé til fyrir: þá getur hann einnig fyrirlitið þá ást á sama hátt og hann yfirleitt fyrirlítur skynjanir. Hvað sem því líður má þá ganga út frá því að hann hafi aldrei elskað né verið elskaður eins og mennskir menn geta elskast […] Eigingirnin finnur æðstu fullnægingu er hún gefur sér lausan tauminn, og það gerist aðeins í ástinni […] aðeins í sambandi karls og konu er hinn raunverulegi maður til, aðeins í ástinni verða bæði karl og kona — að manni […] Það er hættulegur misskilningur að kalla endurtekningar- og endurnýjunargetu ástarinnar veikleika og líta á óhlutstæða og aðeins upphugsaða ást sem beinist að guð-veit-hverju sem hina sönnu, með því að hún sé varanleg“.[2]  Í framhaldi af þessu kemur fram að hann telur ástina, sem tengsl milli „mín“ og „þín“, eitthvað sem samtími hans fari á mis við og þurfi að endurvekja sem einskonar leið til endurlausnar, jafnt honum sjálfum sem öllu mannkyni. Orðið „endurlausn“ sem hann notar í bréfinu er raunar einskonar lykilorð, ekki einungis til skilnings á lífsviðhorfum heldur og á verkum hans. Í þeim verkum sem hann hafði þegar samið er bréfið var skrifað, Hollendingnum fljúgandi, Tannhäuser og Lohengrin, er þessi endurlausn, eða möguleikinn á henni, æ tengd ást milli einstaklinga, karls og konu. Við fyrstu sýn virðist þetta orð og trúarleg merking þess samrýmast illa þeirri veraldarhyggju sem Wagner játast undir á þessu skeiði og eins það að hann skuli leita aftur til hinna kristnu miðalda, í stað til að mynda heiðinnar fornaldar, eftir yrkisefni, og taka til meðferðar, á rómantískan hátt, hrjáða og einmana sæfara, riddara og pílagríma en ekki sællegar gyðjur eða hjarðsveina á rósavöllum. Að sjálfsögðu má segja að hann vinsi úr þessum sögum frá miðöldum einhvern mannlegan kjarna í stíl Feuerbachs um hið „hreinmennska“, en þó er eins og grunur um einhverjar víddir liggi í þessum sögum, einhver vitund um framandleika mannsins á jörðinni og ósættanlegar andstæður lífsins sem um síðir hljóta að leita út fyrir mannhyggju og skynhyggju Feuerbachs.

Og þar kom reyndar að lokum að Wagner leit ekki lengur á Feuerbach sem meistara sinn, og tilkynnti það með pomp og prakt, líkt og í uppsagnarbréfi. Það var reyndar ekki fyrr en árið 1856, en þá hafði gengið á ýmsu, bæði í innra sem ytra lífi Wagners og ýmsir áhrifavaldar komið til. Í rauninni var kannski Feuerbach ekki sérlega vel til þess fallinn að verða einhvers konar heimspekileg endastöð leitandi sálar og í því sambandi má minnast þess að hann hefur í fræðum marxista þann heiður aðallega að vera milliliður milli risanna Hegels og Marx, það er milli algerrar hughyggju hins fyrrnefnda og ökónómískrar efnishyggju hins síðarnefnda, og honum þá legið á hálsi af marxistum fyrir að hafa staðnað í borgaralegri mannhyggju í stað þess að stíga skrefið til enda og fella manninn sem afurð þjóðfélagshátta inn í ferli sögunnar. Og það var einmitt í svonefndum „Greinum um Feuerbach“ þar sem Marx lætur fjúka hina fleygu setningu sína að það sem skipti máli sé ekki að útskýra hvernig veruleikinn sé eins og heimspekingar fram að þeim tíma, að Feuerbach meðtöldum, hefðu gert, heldur að breyta honum. Og á árunum fyrir 1850, þegar þórdunur pólitísks óróa kváðu við víða um lönd, er Richard Wagner svo sannarlega í óða önn við að breyta heiminum þegar hann gekk í lið með byltingarmönnum í uppreisninni í Dresden árið 1849 með þeim afleiðingum að hann varð að hrökklast úr stöðu konunglegs hirðhljómsveitarstjóra og gerast landflótta reikunarmaður sem þurfti einatt að leita sér ásjár víða um lönd. Hugmyndirnar sem lágu að baki þess að Wagner lagði frá sér tónsprotann til að hampa gunnfána byltingarinnar kunna að vera margvíslegar og að hafa borist honum eftir ýmsum leiðum og miskrókóttum frá mönnum á borð við skoska sagnfræðinginn Carlyle, sem leit á frönsku stjórnarbyltinguna sem upphaf sem boðaði surtarloga hins gamla heims og upphaf að betri tíma, sem og franska sósíalistann Proudhon en mest þó fyrir orðræður vinar hans í Dresden, Augusts Röckel, sem hann átti löng samtöl við og var þá aldrei þessu vant fremur sá sem hlustaði en talaði. Í uppreisninni sjálfri féll það í hans hlut að útbreiða þessar hugmyndir af eldlegri mælsku svo sem í nafnlausri grein undir yfirskriftinni „Byltingin“ er birtist í svonefndum Volksblätter eða Alþýðublöðum sem Röckel gaf út á árunum 1848—49, og mælir þar fyrir munn byltingarinnar persónugerðrar:

„Ég vil brjóta niður ríkjandi skipulag sem skiptir öllu mannkyni í tvær óvinafylkingar, í volduga og veika, í forréttindafólk og réttlausa, í ríka og snauða, því það færir þeim öllum aðeins óhamingju. Brjóta vil ég niður það skipulag sem gerir milljónir að þrælum fárra og þessa fáu að þrælum eigin valds, eigin auðæfa. Brjóta vil ég niður það skipulag sem skilur nautnina frá vinnunni, sem gerir vinnuna að byrði en nautnina að lesti, sem gerir einn mann vesælan vegna skorts en annan vegna allsnægta. Brjóta vil ég niður það skipulag sem slítur kröftum manna við að þjóna yfirráðum lífvana efnis sem heldur helmingi mannkyns í iðjuleysi eða gagnslausri iðju, sem neyðir hundruð þúsunda til að helga æskukrafta sína viðhaldi þessa spillta ástands í iðjuleysisstörfum sem hermenn, embættismenn, braskarar og fjárplógsmenn, meðan hinn hlutinn verður að leggja alla sína krafta fram og fórna allri lífsnautn til þess að halda uppi allri þessari svívirðu [… ] Brotið skal niður allt sem ykkur þjakar og þjáir, og úr rústum þessa gamla heims rís nýr, fullur af hamingju, sem enginn hefur áður haft grun um. Ekki hatur, ekki öfund, ekki illvilji eða fjandskapur skal framvegis ríkja ykkar á meðal, sem bræður eigið þið allir sem eruð á lífi að þekkja hverjir aðra, og frjálsir, frjálsir í vilja, frjálsir í athöfnum, frjálsir í nautnum eigið þið að meta gildi lífsins”. [3]

Með þessum eldlegu orðum hlýtur Wagner að skipa sér á bekk með hinum róttækustu byltingarsinnum, og spurningin er kannski aðallega sú hvort við eigum að telja hann til stjórnleysingja eða sameignarsinna. Reyndar hafði hann um þessar mundir talsvert álit á höfuðforkólfi hinna fyrrnefndu, Rússanum Bakúnín, sem var samherji hans í uppreisninni í Dresden, en eftir ummælum Bakúníns að dæma þar sem hann lýsir Wagner „óraunsæjan draumóramann“ virðist það álit ekki hafa verið gagnkvæmt. Á sama hátt virðist höfundur hins „vísindalega sósíalisma“, Karl Marx, sem Wagner kynntist lítillega, ekki heldur hafa litið á Wagner sem sinn sálufélaga, og sannleikurinn er sá að byltingarhugsjónin hefur ekki rist mjög djúpt hjá Wagner, þótt hann hafi hrifist af henni í hita leiksins, enda fljótur að snúa við henni baki eftir að hann er kominn til Sviss, hvað þá síðar sem borðnautur konunga í Bæjaralandi. Og stóran þátt í hans róttækni um þessar mundir á draumurinn um þjóðfélag þar sem listin yrði sett í öndvegi — og það að sjálfsögðu sú list sem hann sjálfur var að ryðja braut, allsherjarlistaverkið.

Það er hins vegar vandalaust að finna merki þessarar þjóðfélagslegu róttækni í því mikla verki sem hann var að vinna að um sama leyti og byltingaraldan reið yfir Evrópu um miðja síðustu öld, Niflungahringnum, enda vill svo skemmtilega til að hinir fornu höfundar Eddukvæða hafa haft ekki ósvipaðar hugmyndir um bölvun auðs og auðhyggju og róttæklingar 19. aldar. Vitaskuld er Rínargullið bölvaldur, „rógmálmur skatna“, og hægur vandi að sjá í hinum fornu ásum, sem ríghalda í völd sín, endurspeglast yfirstétt Evrópu á árunum eftir Vínarfundinn, í Álfreki dvergi og mengandi Niflungasmiðjum niðri í Rínarfljóti fulltrúa kapítalisma og stóriðju, í  hinni óhlýðnu valkyrju Brynhildi og náttúrubarninu Sigurði nýja og djarfa kynslóð sem kollvarpar gömlum gildum og skipulagi og endurreisir hið náttúrlega ástand í anda Rousseaus eða umhverfisverndarsinna með því að skila Rínargulli, en vitaskuld er varasamt að fella verk svo auðugt af skírskotunum í allar áttir eins og Niflungahringinn undir þröngar formúlur þjóðfélagslegrar hugmyndafræði. En um hugmyndafræði hringsins væri annars fróðlegt að heyra hvað náinn vinur Wagners um tíma, áðurnefndur Nietzsche, átti eftir að skrifa:

„Hálfa ævina trúði Wagner á byltinguna eins og aðeins Frakkar geta trúað á hana. Hann leitaði hennar í rúnaletri goðsögunnar, hann þóttist hafa fundið í Sigurði Fáfnisbana dæmigerðan byltingarmann. – „Af hverju stafar hið illa í heiminum?“ spurði Wagner sjálfan sig. „Af fornum hömlum”, svaraði hann eins og allir byltingarsinnar. Með öðrum orðum: af venjum, lagasetningum, siðferði, stofnunum, af því sem hinn gamli heimur, hið gamla siðferði er reist á. „Hvernig getur heimurinn losnað við hið illa? Hvernig má afnema hið gamla þjóðskipulag?” Aðeins með því að segja þessum hömlum (hefðinni, siðferðinu) stríð á hendur. Og þetta er það sem Sigurður gerir. Hann byrjar snemma á því, mjög snemma, uppruni hans er þegar stríðsyfirlýsing gegn siðferði — hann er í heiminn borinn við hórdóm, við sifjaspell … það er ekki fornsagan heldur Wagner sem átti þessa róttæku hugmynd, hann betrumbætti söguna um þetta atriði … Sigurður heldur uppteknum hætti, hann hlýðir aðeins fyrstu hvötum og kollvarpar öllu viðteknu, allri lotningu, öllum ótta. Allt sem honum mislíkar brýtur hann niður. Hann sýnir fornum guðum ekki minnstu virðingu. En höfuðdáð hans er sú að frelsa konuna úr ánauð — „að endurleysa Brynhildi“ … Sigurður og Brynhildur; sakramenti frjálsrar ástar; dögun gullaldar, ragnarök hins forna siðferðis – böli heimsins hefur verið aflétt … Langa hríð sigldi fley Wagners eftir þessari stefnu. Enginn vafi á því að Wagner leitaði í þessa átt að sínu æðsta takmarki. – En hvað gerðist? Honum hlekktist á. Skipið steytti á skeri; Wagner sat fastur. Skerið var heimspeki Schopenhauers; Wagner festist í andstœðri lífsskoðun. Hvað hafði hann túlkað í hljómlistinni? Bjartsýni. Wagner skammaðist sín […] Hann hugsaði sig lengi um, aðstaða hans virtist vonlaus … Loks rann það upp fyrir honum hvernig hann gæti losnað: skerið sem hann hafði strandað á, hvernig væri þá að líta á það sem lokaáfangann, sem dulinn tilgang ferðarinnar. Að stranda hér, það var líka takmark hans. Bene navigavi, cum naufragium feci … og hann túlkaði Hringinn í anda heimspeki Schopenhauers. Allt fer illa, allt hrynur, nýi heimurinn er eins slæmur og hinn fyrri […] Brynhildur, sem samkvæmt fyrri hugmyndum átti að kveðja með lofsöng um sameignardraumaland, þar sem allt yrði harla gott, hefur nú öðru að sinna. Hún verður nú að kynna sér Schopenhauer, hún verður að setja fjórðu bók verksins Heimurinn sem vilji og hugmynd í bundið mál. Wagner var endurleystur …“ [4]

 Í þessari litskrúðugu frásögn Nietzsches er það kannski ekki alls kostar rétt að hórdómur og blóðskömm í kyni Völsunga hafi verið algerlega uppfundning Wagners, því það er auðvitað fótur fyrir henni í Völsungasögu, og auk þess er í meira lagi hæpið að rekja hinn harmsögulega endi Niflungahringsins til áhrifa frá bölsýnisheimspeki Schopenhauers, þar sem hann er auðvitað fyrir í hinum fornu heimildum, sem og í öllum öðrum hetjulegum bókmenntum, hvort heldur þær eru forngrískar, keltneskar eða germanskar. Og fyrsta gerð hins mikla verks bar einmitt nafnið Dauði Sigurðar sem er einnig nafnið á fyrri hluta Niflungakvœðisins þýska: Siegfrieds Tod. Raunar hafði Wagner lokið við texta Hringsins þegar hann kemst í tæri við heimspeki Schopenhauers, en þá hafði góður vinur hans að nafni Herwegh gaukað að honum eintaki af höfuðriti Schopenhauers, Heiminum sem vilja og hugmynd, sem hafði legið í þagnargildi í hálfan fjórða áratug eða frá því að það kom fyrst út árið 1818 og þar til það komst beinlínis í tísku á sjötta áratugnum. Í bréfi sem Wagner ritar vini sínum og síðar tengdaföður, Franz Liszt, í desember 1854 nefnir hann þessi fyrstu kynni sín af Schopenhauer „sanna himnasendingu”, og af framhaldinu má ráða að það sem höfðar til Wagners eru kenningar Schopenhauers um afneitun hins blinda lífsvilja sem hann nefnir svo, það er lífshvatar sem þrumir að baki heims sýndarinnar sem kjarni hans og uppspretta, og knýr áfram þá hringrás eymdar og þjáninga sem við nefnum líf og erum ánetjuð, nema okkur takist í krafti skynseminnar að brjótast undan ofurvaldi hinna eigingjörnu hvata og afneita þeim. Þótt hann líki kenningum Schopenhauers við himnasendingu er ekki þar með sagt að þær komi yfir hann sem þruma úr heiðskíru lofti, því hann bætir því við – á nokkuð platonskan hátt — að Schopenhauer hafi í rauninni aðeins sagt sér eitthvað sem hann vissi fyrir og hafi geymt í sér en heimspekingurinn hins vegar gert sér ljósara og staðfest. Vera má að sú forþekking hafi birst á einhvern hátt í fyrri verkum Wagners, en víst er að afneitun lífsviljans eða kannski öllu heldur viðsnúningur hans upp í rómantíska dauðaþrá, samtvinnaða leit að endurlausn í ástinni, verður öllu meira áberandi í þeim seinni, og þegar hann í sama bréfi klykkir út með því að tala um dýpstu og innilegustu þrá sína eftir dauðanum, fullkomnu öngviti, algeru tilvistarleysi, útslokknun allra drauma, hinni einustu og hinstu frelsun, þá má þar kenna manninn sem er þegar tekinn til við að semja Tristan og Isold. Og í Parsífal er sem afneitunarsiðfræði Schopenhauers renni saman við kristinn boðskap um miskunnsemi og meinlætahugsjón miðalda, enda segir Wagner einhvers staðar að Schopenhauer hafi opnað sér skilning á trúarbrögðum.

En það er ekki nóg með að Schopenhauer hafi lokið upp fyrir Wagner leyndardómum tilverunnar og lagt honum grundvöll trúar og siðfræði, heldur hefur hann fram að færa kenningar um eðli tónlistarinnar sem Wagner getur fallist á og gert að sínum, ekki síst það að tónlistin sé æðst allra lista. Ólíkt fornum spekingum, svo sem Pýþagóringum, sem tengdu tónlistina stærðarhlutföllum og vitrænu skipulagi alheimsins, sér Schopenhauer í henni tjáningu frumkjarna alls, hins myrka og óræða afls að baki hins skynjanlega, lífsviljans sjálfs í hreinleika sínum, og því sé hún æðst og áhrifamest allra lista, þar sem aðrar eru bundnar við ytri ásýnd. Wagner orðar þetta svo að tónlistin tjái ekki ást, þrá eða ástríður tiltekins einstaklings við tilteknar aðstæður heldur þrána, ástríðurnar og ástina sjálfa sem slíka. Þetta kann að hljóma einkennilega úr penna Wagners, sem sjálfur átti erfitt með að semja tónlist öðruvísi en að hafa einmitt í huga tilteknar persónur við tilteknar aðstæður, eins og söngleikir hans bera vitni um, og áleit raunar í sínum fyrri skrifum tónlistina gegna þjónandi hlutverki fremur en hún hefði sjálfstætt gildi. En það er freistandi að hugsa sér að skilgreining Schopenhauers á tónlist hafi orkað hvetjandi á Wagner til að brjótast úr viðjum hefðbundins stíls og inn á ný svið hljómrænnar tjáningar þar sem tónlistin fær það hlutverk að draga það fram sem ekki verður tjáð með orðum og kafa niður í djúp hins hálfmeðvitaða og óræða, eða með öðrum orðum leita á slóðir lífsviljans sjálfs. Og það gæti hvarflað að fleirum en djúpsálarfræðingum af skóla Freuds eða Jungs að ímynda sér, er þeir heyra upphaf Rínargullsins, að þar niði ekki einungis straumur fljótsins heldur birtist eitthvert upphaf sem allt sprettur úr og taki á sig ytra form í sýnilegri veröld.

Hvað sem því líður var dálæti Wagners á Schopenhauer slíkt að honum þótti ekki nóg að lesa rit hans heldur vildi hann kynnast honum í eigin persónu og gerði tilraun til að fá hann í heimsókn til sín frá Frankfurt am Main til Sviss. Því tók heimspekingurinn fálega, og þótt honum litist ekki illa á texta Niflungahringsins fann tónlistin ekki náð fyrir augum hans og stóð að hans dómi langt að baki tónlist Mozarts og Rossinis sem hann átti til að leika á flautu í einveru sinni. Það átti þó ekki fyrir Wagner að liggja að vera með öllu fjarri samneyti við heimspekinga, því einn góðan veðurdag, það var reyndar á annan í hvítasunnu árið 1869, bar að einn slíkan, sem alls ekki þurfti að láta dekstra sig til að koma og var nokkur hvalreki á fjörur Wagners og tíður gestur þau sjö ár sem vinátta þeirra entist. Þetta var auðvitað Friedrich Nietzsche sem þá var aðeins 25 ára gamall en hafði hlotið skjótan embættisframa, nýorðinn professor extraordinarius í klassískum fornfræðum við háskólann í Basel.

Hér var sem sagt önnur himnasending úr ríki heimspekinnar og sjálfsagt miklu skemmtilegri og líflegri félagsskapur en Schopenhauer mundi hafa verið. Þó ekki væri nema sakir þrjátíu ára aldursmunar hlaut Nietzsche fremur að vera þiggjandi en gefandi og fremur lærisveinn en meistari. Þetta kemur glöggt fram í fyrstu bók Nietzsches, Fæðing harmleiksins úr anda tónlistarinnar, sem er tileinkuð Wagner og raunar fremur einskonar lofköstur um list hans en fræðileg úttekt á þróun harmleiksins og ekki síður hnignun hans, enda eru þær kenningar sem þar eru settar fram, svo sem um apollonska og díonýsíska list, að mörgu leyti í framhaldi af því sem Wagner hafði ritað um þessi efni og þegar hefur verið minnst á, nema hvað Nietzsche kveður fastar að orði um þá sem hann telur bera mesta ábyrgð á hnignun harmleikjalistarinnar, svo sem Evrípídes og Sókrates.

Að sjálfsögðu kunni Wagner vel að meta þessi skrif, en hið sama verður ekki sagt um þá lærdómsmenn sem vógu það á vogarskál fræðilegrar nákvæmni. Þar gaf Nietzsche vissulega höggstað á sér, enda var honum annað betur gefið en dygðir fræðimennskunnar, hlutleysi og smásmygli, og hið mikla og skapandi hugarflug hans, hömluleysi og dirfska til að hugsa til enda allar hugsanir, jafnt mögulegar sem ómögulegar, hlaut að leiða hann á aðrar brautir. En hin sögulegu vinslit þeirra Wagners og Nietzsches árið 1876 er hinn síðarnefndi laumaðist burt og lét sig hverfa á opnunardögum hátíðarinnar í Bayreuth, einmitt í þann mund er sól velgengninnar reis sem hæst yfir Wagner og hugsjónir hans virtust hafa ræst, hljóta að vekja spurningar um ástæður. Um persónulegar ástæður verður ekki fjallað hér, en þær sem Nietzsche lætur í veðri vaka og geta talist heimspekilegar eru í stuttu máli einkum á þá leið, eins og reyndar þegar hefur komið fram, að Wagner hafi brugðist væntingum hans með því að víkja af braut veraldlegrar bjartsýni í anda Feuerbachs og byltingarhugsjóna, afvegaleiddur af bölmóðsspeki Schopenhauers, og hafi ánetjast æ meir smáborgaralegum lífsviðhorfum, þjóðernisstefnu og gyðingaandúð, uns hann að lokum hafi „kropið niður við krossinn“, eins og Nietzsche orðar það í ljóði og taldi hann hafa gert með óperunni um Parsífal. Þegar svo er komið verður Wagner ekki lengur skurðgoð heldur skotspónn í ritum Nietzsches og það jafnvel í einhverskonar heiðursflokki með þeim Sókratesi og Jesú frá Nazaret. En ádrepur Nietzsches segja kannski oft meir um hann sjálfan og glímu hans við samtíma sinn en þá sem hann beinir skeytum gegn og verða því ekki til umræðu hér. Vera má þó að kúvendingin hafi verið hans megin fremur en Wagners, er hann snýst gegn hinu fyrra átrúnaðargoði þeirra beggja, það er að segja Schopenhauer og teflir díonýsiskri lífsupphafningu gegn búddískri lífsafneitun, drottnunarvilja gegn lífshvötinni og svonefndri herrasiðfræði gegn því sem hann kallar þrælasiðfræði og þar fram eftir götunum. Og braut Wagners kann að hafa verið beinni en hún virðist í fljótu bragði og Nietzsche vill vera láta, þótt hann hafi haft viðkomu hér og þar og slangrað milli guðlausrar byltingarhyggju og trúarlegrar heimsafneitunar í leit sinni að lífsskoðun, því að, eins og áður hefur vikið að, fylgir honum á enda líkt og leiðarhnoða hugmyndin um endurlausn, hvort sem hún birtist í ástarsambandi einstaklinga, þjóðfélagsbyltingu eða trúarlegri sjálfsafneitun. Þetta birtist í verkum hans ekki sem hugmynd einber heldur sem djúp tilfinning, og kjarni málsins er auðvitað sá að hann er listamaður en ekki kenningasmiður, og sem slíkur nær hann inn á svið dýpri sanninda en vitsmunir fá greint – og hér eiga við orð skáldsins: „Heilinn greinir skemmra en nemur taugin“. Og sem listamaður getur Wagner, líkt og Álfrekur Niflungi, brugðið yfir sjálfan sig huliðshjálmi og breytt sér í allra kvikinda líki, góðra sem illra, stórra sem smárra – en þó aldrei svo að hann verði auðveldlega fangaður af rökspekingum. Ef til vill kemur kjarninn í heimsskoðun hans best fram í orðum sem hann skrifaði í áðurnefndu bréfi til Röckels til útskýringar á eigin verki Niflungahringnum meir en ári áður en hann komst í tæri við heimspeki Schopenhauers og því vel fallin til að verða hér að lokaorðum: „Gangur leiksins sýnir nauðsyn þess að sættast við og hlíta hverfulleika, óstöðugleika, fjölbreytileika og sífelldri endurnýjun veruleikans og lífsins. Óðinn nær svo langt að vilja sína eigin tortímingu. Þetta er hið eina sem við getum lært af mannkynssögunni, að vilja hið óumflýjanlega og framkvæma það sjálf. Holdgerving þessa æðsta vilja til sjálfstortímingar er hinn óttalausi, síástfangni maður sem að lokum kemur fram á sjónarsviðið: Sigurður Fáfnisbani. – Þetta er allt og sumt“.

Tilvísanir

[1] F. Pecht: Aus meiner Zeit, München 1894, bls. 294. tilvitnun tekin úr A Documentary Study, ed. by H. Barth, D. Mack & E. Voss, London 1975, bls. 167.
[2] Richard Wagner: Briefe, Reclam: Stuttgart 1995, bls. 259.
[3]  A Documentary Study, bls. 172.
[4] Friedrich Nietzsche: „Der Fall Wagner”. í Werke III, hg. von Karl Schlechta, Ullstein 1972, bls. 356-57 (eða: Werke in drei Bänden, II, 910-11).