Helstu heimildir Wagners

Úr efnisskrá Niflungahringsins 1994

Eddukvæði

Sextán hetjukvæði fjalla á einhvern hátt um skyldar persónur og atburði og Niflungahringurinn. Röð þeirra í Konungsbók eddukvada er þannig, að minnst er á Hunding konung í Helgakviðu Hundingsbana II, öðru nafni Völsungakviðu fornu. Næst er lausamál um dauða Sinfjötla, son Sigmundar og Signýjar, en síðan kemur kvæðið Grípisspá. Það er yfirlit um ævi Sigurðar þar sem móðurbróðir hans spáir fyrir honum. Næst koma Reginsmál og Fáfnismál þar sem segir frá uppruna hins bölvaða gulls, drápi Sigurðar á Regin og Fáfni og spásögn skógarfugla. Þá eru Sigurdrífumál. Það eru heilræði valkyrjunnar Sigurdrífu sem Sigurður finnur sofandi á Hindarfjalli umlokna vafurloga og ristir af henni brynju.

Í Sigurdrífumálum er fræg eyða (átta blöð) í Konungsbók eddukvæða sem nær allt aftur að Broti af Sigurðarkviðu. Þar segir frá vígi Sigurðar, bölbænum Guðrúnar, hlátri og gráti Brynhildar. Eftir það kemur Guðrúnarkviða fyrsta þar sem Guðrún situr harmþrungin yfir líki Sigurðar. Næsta kvæði heitir Sigurðarkviða skamma, en er þó næstlengst hetjukvæða og gæti nafnið því bent til að lengri Sigurðarkviða hefði verið í handritseyðunni. Aðalpersóna kviðunnar er reyndar ekki Sigurður, heldur Brynhildur. Sagan er rakin frá því Sigurður kvænist Guðrúnu, hvílir hjá Brynhildi í stað Gunnars, hefnd Brynhildar uns hún hyggst ganga á bál með honum látnum. Beint framhald þessa kvæðis er Helreið Brynhildar þar sem hún rekur ævi sína fyrir tröllkonu sem vill hindra för hennar. Síðust í Sigurðarkvæðum er Guðrúnarkviða forna. Þar rekur Guðrún æfi sína og Sigurðar frá æskuárum þar til hún er gift Atla Húnakonungi.

Næstu kvæði fjalla um atburði sem eiga að gerast eftir að Sigurður er veginn og snerta óperur Wagners aðeins óbeint. Guðrún Gjúkadóttir er þar aðalpersóna ásamt bræðrum sínum, Gunnari og Högna, Atla Húnakonungi, og börnum hennar með þrem eiginmönnum. Kvæðin heita Guðrúnarkviða þriðja, Atlakviða, Atlamál, Guðrúnarhvöt og Hamdismál. Að auki er Oddrúnargrátur, harmatölur Oddrúnar, sem ólikt Brynhildi systur sinni hafði elskað Gunnar Gjúkason og átt með honum barn í meinum.

Heiðin goð eru sjaldan nefnd í þessum hetjukvæðum. Wagner eykur mjög hlut þeirra í efnisþræði óperunnar og sækir efnivið úr goðakvæðum eins og Völuspá, Vafþrúðnismálum, Grímnismálum, Alvíssmálum, Baldurs draumum, Lokasennu og Svipdagsmálum.
ÁB

Völsunga saga

Völsunga saga er ein af svonefndum fornaldarsögum. Þær eiga að gerast löngu fyrir landnám Íslands og sögusvið þeirra er einhversstaðar utanlands.

Völunga saga virðist sett saman á Íslandi á síðara hluta 13. aldar, aðallega eftir sömu eddukvæðum og nefnd voru að framan. Þar er líka greint frá þeirn atburðum sem um mun hafa verið vélt á hinum týndu blöðum úr Konungsbók. Auk þess fjalla tólf fyrstu kaflar sögunnar um langfeðga Sigurðar sem raktir eru til Óðins, og má vera að einhverntíma hafi verið til samsvarandi kvæði.

Í Völsunga sögu er saga Sigurðar öll rakin og reynt að koma röklegri skipan á efni kvæðanna, en það tekst ekki ævinlega. Sagan er að sjálfsögðu miklu orðfleiri en kvæðin og á köflum nokkuð mærðarfull. Þar kemur og Óðinn nokkrum sinnum við sögu í dulargervi. Af öllum kveikjum Wagners að Niflungahringnum verður að telja að hann hafi sótt einna mest til Völsunga sögu.

Hér er rétt að nefna líka kafla úr Norna-Gests þætti, þar sem sagt er frá Sigurði á líkan hátt og í Völsunga sögu, en í miklu styttra máli. Ýmis skyld atriði er og að finna í Þiðreks sögu sem var sett saman eftir þýskum sögnum í Noregi um miðja 13. öld.
ÁB

Snorra Edda

Snorra Edda er upphaflega sett saman snemma á 13. öld til að vera kennslubók i notkun skáldamáls. Til að útskýra ýmis heiti og kenningar þurfti höfundur hennar að rekja fornar sögur af goðum og hetjum. Úr hluta goðsagnanna var smíðað heilt goðakerfi þar sem gerð er grein fyrir ásum, vönum, jötnum, dvergum og álfum. Sá partur Snorra Eddu heitir Gylfaginning. Hún er að talsverðu leyti byggð á goðakvæðum. Aðrar goðsagnir og allar hetjusagnir eru í þeim hluta sem kallast Skáldskaparmál. Þar er sagan um Sigurð, gullið og hringinn sögð á stuttan en snilldarlegan hátt.
ÁB

Niflungaljóð

Fyrri hluti Niflungaljóða (Nibelungenlied), þýskra söguljóða sem skrifuð voru um 1200, fjallar um örlög Siegfrieds, og stendur efni þeirra og eðli mjög fjarri norrænum fornritum. Siegfried er þar konungsson frá Xanten í Niðurlöndum, allra riddara glæstastur og prúðastur og riður burtreið öðrum betur. Hann vinnur margar hetjudáðir, og þegar þeir bræður Nibelung og Schilbung deila um fé sitt biðja þeir Siegfried að skipta. Þvi lýkur svo að hvorugur sættir sig við sinn hlut og hyggjast þeir þá drepa Siegfried. Falla þeir bræður báðir, en Siegfried hlýtur sjóðinn og nær einnig huliðsskikkju af Alberich, bryta þeirra.

Siegfried fréttir að í Worms í Borgundalandi sé fegurst kvenna, Kriemhild, systir Gunthers konungs. Hann gerist hirðmaður Gunthers og leggst með honum í hernað gegn óvinum hans. En Gunther vill biðja sér konu og líst að bestur kostur sé Brunhild, drottning af Íslandi, sem ekki er aðeins kvenna vænst álitum, heldur einnig afrennd að afli. Vill hún engan þýðast, nema hann sigri hana í þrennum aflraunum. Gunther heldur til Íslands og reynir þrautirnar, en það er Siegfried, klæddur huliðsskikkjunni, sem vinnur þær fyrir hann. Kvænist Gunther síðan Brunhild, en Siegfried fær Kriemhild. Brunhild er þó svo öflug að hún meinar Gunther ásta við sig, svo Siegfried verður enn verk að vinna. Eftir það er Brunhild ekki öðrum konum sterkari.

Eitt sinn taka þær drottningarnar að metast um bændur sína, og fer svo orðræða að lokum að Brunhild kemst að því að Siegfried var frumver hennar. Krefur hún bónda sinn hefnda, sæmdar sinnar vegna, og tekur kappinn Hagen af Troneck, helsti lénsmaður konungs, að sér verkið. Rekur hann Siegfried spjóti milli herðablaða, þegar hann gengur til lindar að svala þorsta sínum. Þegar lík Siegfrieds er borið heim, þá grætur kona hans hástöfum, en Brunhild hlær.

Eftir dauða Siegfrieds hverfur Brunhild úr sögunni, en af Kriemhild og endalokum þeirra Gjúkunga eru mikil tiðindi sögð.
JJ

Þiðreks saga af Bern

Þiðreks saga af Bern er líklega rituð í Noregi á fyrri hluta 13. aldar og „er saman sett eftir sögu þýskra manna, en sumt af þeirra kvæðum …“, eins og segir í formála verksins. Þetta er mikill sagnabálkur „af Þiðreki konungi og hans köppum, Sigurði Fáfnisbana og Niflungum, Vilkinamönnum og mörgum öðrum konungum og köppum, er koma við þessa sögu.”

Frásagnir af Sigurði og þeim Gjúkungum eru aðeins einn hluti af þessum bálki. Þarna er þýska gerðin af hinum miklu kappasögnum þjóðflutningatímans skráð niður á hrárri veg og frumstæðari en í Niflungaljóðum, og hinn alþýðlegi bragur frásögunnar er einmitt helsti styrkur hennar. Þarna heldur um pennann mun síðri maður (eða menn) en höfundur Völsungasögu, en áhrif þessarar bókar má þó sjá víða.

Það er ekki síst frásögn af uppruna Sigurðar og uppvexti, og af Mími smið sem hefur orðið Wagner fyrirmynd, en einnig fjöldi annarra atriða, svo sem útlit og uppruni Högna, Rínarmeyjar og margt fleira, sumt komið úr öðrum þáttum sögunnar. Af Brynhildi og fyrri kærleikum Sigurðar við hana eru næsta fáar sögur, en kvonbænir Gunnars ganga slétt fyrir sig, þar til kemur að brúðkaupsnótt. Þá leikur Brynhildur Gunnar bónda sinn hraklega, og verður Sigurður í dulargervi að svipta hana meydómi til að hún verði sem aðrar konur. Frásögn Þiðrekssögu er síðan helsta fyrirmynd Wagners að vígi Sigurðar. Brynhildur hverfur eftir það hljóðalaust úr sögunni, rétt eins og í Niflungaljóðum.

Wagner bekkti vel til efnis Þiðrekssögu, hafði bæði lesið hana sjálfa og eins Das Amelungenlied eða Ömlungaljóð, kvæðaflokk Simrocks upp úr sögunni, sem hann orti til að endurskapa fornkvæðin sem hún er rituð eftir. í Ömlungaljóði tekur hann að vísu upp nokkur minni úr hinni norrænu gerð sagnarinnar.
JJ

Handrit

Aðalhandrit eddukvæða er Konungsbók (Codex Regius), skrifuð um 1270. Hún er varðveitt í Árnastofnun í Reykjavík.

Völsunga saga er aðeins til í einu skinnhandriti frá um 1400, sem er varðveitt í Kaupmannahöfn.

Snorra Edda er varðveitt í fjórum aðalhandritum, og er aðeins eitt beirra, Konungsbók (Codex Regius), frá fyrri hluta 14. aldar, niðurkomið á isiandi.

Þiðreks saga af Bern er til í tveimur gerðum, annarri varðveittri í skinnhandriti frá síðari hluta 13. aldar, sem nú er í Stokkhólmi, og hinni í pappírshandriti frá 17. öld.

Útgáfur

Fjölmargar útgáfur eru til af nefndum fornritum. Auðfengnastar munu nú vera:

Eddukvæði. Útg. Ólafur Briem, Rv. 1968. Skálholtsútgáfan.

Snorra Edda. Útg. Árni Björnsson, Rv. 1975; útg. Heimir Pálsson, Rv. 1984. Mál og menning.

Völsunga saga. Útg. Örnólfur Thorsson, Rv. 1985. Mál og menning.

Niflungaljóðið hefur ekki verið þýtt á fslensku

Þiðreks saga af Bern. Útg. Guðni Jónsson. Íslendingasagnaútgáfan.

Árni Björnsson og Jóhannes Jónasson.