Hringurinn greyptur

Hljóðritanir á Niflungahringnum

Úr efnisskrá Niflungahringsins 1994

Lorem ipsum dolor sit amet, consectetur adipiscing elit. Ut elit tellus, luctus nec ullamcorper mattis, pulvinar dapibus leo.

Það var His Masters Voice sem fyrst áformaði að hljóðrita allan Niflungahring Richards Wagner. Hafist var handa í Vínarborg árið 1954. Þá stjórnaði Wilhelm Furtwängler þar upptökum á Valkyrjunni. Hann hafði með sér traust og vant lið söngvara og árangurinn lofaði góðu um framhaldið. En þetta varð með því síðasta sem Furtwängler gerði fyrir framan hljóðnemann. Skömmu síðar var hann allur.

Þegar hátíðinni í Bayreuth var á ný hleypt af stokkum árið 1951 sendu bæði HMV og Decca upptökulið á vettvang. HMV hljóðritaði m.a. vígslutónleikana frægu með níundu hljómkviðu Beethovens, og Meistarasöngvarana undir stjórn Karajans, en keppinautar þeirra tóku upp Parsifal með Hans Knappertsbusch. Liðsmenn Decca hljóðrituðu reyndar einnig Niflungahringinn undir stjórn Knappertsbusch, en flutningurinn reyndist ekki hæfur til útgáfu.

Á næstu árum voru hljóðnemarnir iðulega í gangi í Bayreuth, þótt fæst af því kæmist þá á plötur. Árið 1955 var Hollendingurinn fljúgandi tekinn upp í stereó fyrir Decca og gefinn út, fyrst í mónó. Um leið var Hringurinn hljóðritaður á sama hátt undir stjórn Josephs Keilberth en þessi fyrsta stereóupptaka á verkinu liggur enn óútgefin í hirslum Decca í London.

Það var um þetta leyti að Decca gaf út Ragnarök, og lágu til þess sérkennilegar ástæður. Kirsten Flagstad hafði staðið fyrir upptöku norska ríkisútvarpsins á verkinu og sjálf sungið hlutverk Brynhildar á móti Set Svanholm sem Siegfried. Aðrir söngvarar voru norskir. Stjórnandi var Oivin Fjeldstad. Þetta áttu að vera lokin á ferli Flagstad á söngsviði og um leið tannfé til handa Norsku óperunni, sem hún tók við sem fyrsti listræni forstjórinn. John Culshaw, upptökustjóri hjá Decca, leitaði til hennar í von um að fá hana til að syngja inn á plötur og varð þess fljótt áskynja að hún yrði ekki fengin til verka nema þessi hljóðritun yrði gefin út. Það varð því úr, þótt ekki væri allt með besta móti, svo ekki sé meira sagt.

Flagstad gerði nokkrar hljóðritanir fyrir Decca, þar á meðal bæði af fyrsta og þriðja þætti Valkyrjunnar, ásamt feigðarboðunaratriðinu úr öðrum þætti. Hún fékkst hins vegar ekki til að taka þátt í heildarútgáfu Hringsins. Því voru tveir mismunandi stjórnendur að þessum tveimur þáttum, Knappertsbusch og Georg Solti. Þessar hljóðritanir ruddu brautina fyrir næsta verkefni, Rínargullið.

Brautryðjendurnir - Solti og Culshaw

Culshaw og félagar hans ruddu brautina á marga vegu, ekki síst þegar kom að sviðsetningu verka í hljóðritun. Reyndar gengu þeir svo djarft til verks að fáir hafa þorað að fylgja þeim eftir. Hljóðritun Decca á Rínargullinu í Vínarborg, undir stjórn Georgs Solti, var eitt mesta tímamótaverk í sögu grammófónsins. Þetta varð metsöluútgáfa og vakti mikinn áhuga manna á hljóðrituðum óperum, Richard Wagner og Niflungahringnum. Því lét Decca halda verkinu áfram, og var Siegfried hljóðritaður árið 1962, Ragnarök 1964 og Valkyrjan 1965. Allar þessar útgáfur fengu eindæma lof, sópuðu að sér verðlaunum og rokseldust. Orðstír Wagners hafði farið halloka frá hruni Þriðja ríkisins, en nú var hann orðinn með efstu mönnum á stalli.

Túlkun Soltis þótti hin glæsilegasta á allan hátt og hæfa vel hljóðrituninni. Síðar meir hefur mönnum þótt hún að vísu allvel dramatísk, en ef til vill um leið nokkuð yfirborðsleg. Söngvararnir eru flestir einvalalið. Kirsten Flagstad tók að sér hlutverk Fricku í Rínargullinu, sem hún hafði aldrei sungið á sviði, og hafði áformað að syngja fleiri hlutverk, en entist ekki aldur til. Birgit Nilsson söng Brünnhilde af þeim myndugleika sem henni einni er lagið. Það var Wolfgang Windgassen sem að lokum tók við hlutverki Siegfrieds, eftir mikið basl við að koma öðrum söngvara, Ernst Kozub, inn í hlutverkið. Windgassen var ekki glæstastur hetjutenóra, en kunni svo vel tökin á hlutverkinu að ekki hafa aðrir gert betur á seinni tímum. Fremstur meðal jafningja var þó ef til vill Gustav Neidlinger, sem túlkaði Alberich af fádæma djöfulskap.

Af öðrum söngvurum má sérstaklega nefna Christu Ludwig, sem tók við þeim hlutverkum sem Flagstad voru ætluð í seinni óperunum, Gerhard Stolze sem Mime og síðast en ekki síst Gottlob Frick í hlutverkum Hundings og Hagens. Hlutverk Wotans olli mönnum nokkrum vandræðum. George London söng Wotan í Rínargullinu, en það hlutverk liggur hæst. Þegar kom að því að hljóðrita Siegfried var Hans Hotter fenginn til verka, frægasti Wotan eftirstríðsáranna. Valkyrjan var svo tekin upp þremur árum síðar, og þá kom í ljós að rödd Hotters hafði hrakað mjög.

Engu að síður varð úr að hann söng hlutverkið, enda aðrir menn vart taldir hálfdrættingar á við hann í túlkun.

Fleiri Hringir – Karajan, Böhm og Goodall

Fáum árum fyrr hefðu fæstir búist við að Niflungahringurinn kæmist á plötur í bráð. Eftir vinsældir Deccaútgáfunnar vildu þó fleiri komast í leikinn, ekki síst Deutsche Grammophon. Þeir gerðu svo vel að það hálfa hefði verið nóg, og hljóðrituðu ekki einn Hring, heldur tvo. Starfsmenn þeirra tóku upp Niflungahringinn í Bayreuth árið 1967 undir stjórn Karls Böhm, en sú upptaka varð þó að bíða útgáfu. Stjörnufákur Deutsche Grammophon, sjálfur Herbert von Karajan, vildi nefnilega fá að hljóðrita Niflungahringinn.

Upptökurnar á Hringnum undir stjórn Karajans voru gerðar á fjórum árum, 1967—70, teknar upp í hljóðveri, en í tengslum við æfingar fyrir flutning hverrar óperu um sig á Salzburgarhátíðinni. Fyrst í röðinni kom Valkyrjan, og þótti með talsvert öðrum svip en hjá Solti. Þáttur hljómsveitarinnar var slípaðri undir stjórn Karajans og sumir söngvaranna áberandi raddsmærri en í útgáfu Decca. Aðdáendur Karajans töluðu um að hann meðhöndlaði tónlist Wagners sem kammermúsík. Öðrum þótti fágunin um of. Einhver kallaði þetta „Niflungahring með krómstuðara“. — Eins voru sumir söngvaranna settir í hlutverk sem voru þeim ofviða. Þannig var Regine Crespin of smágerð sem Brünnhilde í Valkyrjunni og Dietrich Fischer-Dieskau of bjartur og léttur sem Wotan í Rínargullinu. Þar breytti engu um að hann lagðist dýpra í túlkun textans en aðrir í því hlutverki. Verst kom þó Jess Thomas út sem Siegfried í samnefndri óperu. Aðrir söngvarar reyndust betur. Gerhard Stolze setti svip sinn á verkið með túlkun sinni bæði á Loge og Mime, Talvela og Ridderbusch voru eftirminnilegir jötnar, Thomas Stewart stóð sig vel sem Wotan, einkum í Siegflied, og Helga Dernesch var til mikillar prýði sem Brünnhilde í seinni hlutum verksins. Best heppnaða upptakan var sú síðasta, Ragnarök, flutningurinn samfelldari og vandaðri en hjá Solti, og hvergi snöggan blett að finna á söngvaraliðinu.

Nú gátu aðdáendur Wagners valið um tvær fyrirtaksútgáfur  af Hringnum, en fljótlega vandaðist valið ögn meir. Philips fékk útgáfuréttinn að Bayreuthuppfærslunni frá 1967 undir stjórn Karls Böhm. Söngvarar voru margir hinir sömu og hjá Solti, t.d. Nilsson, Windgassen, Neidlinger og James King, en bragurinn á hlutunum allt annar. Böhm var flestum öðrum Wagnerstjórnendum snaggaralegri, og þykir ýmsum að hann gefi ekki sumum fegurstu línum Wagners þann tíma og tóm sem þær þurfi. Hins vegar heldur Böhm verkinu betur gangandi en flestir. Söngvararnir standa sig flestir prýðilega, þótt um sviðsflutning sé að ræða, og Birgit Nilsson hefur aldrei dregið fjöður yfir það að hún sé ánægðari með túlkun sína hjá Böhm en á hljóðrituninni með Solti. Windgassen er ekki síðri, og hann gerir einnig prýðisgóða hluti sem Loge í Rínargullinu.

Fyrsti þáttur Valkyrjunnar hefur líklega hvergi tekist betur í hljóðritun en hjá Böhm, ekki einu sinni í hinni fornfrægu upptöku með Melchior, Lehmann og Bruno Walter, og hér fylgir einhver dýrðlegasti óperuskandall sem orðið hefur! James King söng hlutverk Sigmundar frábærlega vel og þó best, þegar honum var vísað á sverðið í stokknum. Þá tókst honum svo vel upp að Leonie Rysanek, sem söng Sieglinde á móti honum, gleymdi stund og stað og rak upp hátt hrifningaróp, um leið og hann dró sverðið út. Hún var skelfingu lostin að tjaldabaki í þáttarlok, og þó enn meir þegar Böhm og Wieland Wagner komu hlaupandi til hennar. Þá var hún viss um að búið væri með sig í Bayreuth, en þeir föðmuðu hana að sér í hrifningu. „Þetta var stórkostlegt“, sögðu þeir, „þetta verðurðu að gera aftur“. – Síðan hefur víst fleirum fundist eins og mér, að eitthvað vanti þegar aðrar söngkonur þegja á þessum stað.

Næsta nýja hljóðritunin kom úr óvæntri átt. EMI hafði gefið út gamla útvarpsupptöku af Hringnum frá Róm undir stjórn Furtwänglers, en bætti síðan við sviðsupptökum af verkinu á ensku. Þar var að verki Reginald Goodall, Breti sem ekki hafði náð mikilli frægð, en hann var alinn upp í hinni gömlu þýsku Wagnerhefð og stjórnaði á efri árum nokkrum frábærum Wagnersýningum, einkum fyrir Ensku þjóðaróperuna. Með honum var samvalið lið enskumælandi söngvara, sem hann hafði þjálfað vel og lengi. Hjá Goodall er tónlistin hæg og viðamikil, stundum firnahæg, en fáir virðast komast nær eðli verksins. Ef ekki kæmi til tungumálið, væri þessi útgáfa í fremstu röð.

Aldarafmælið — Boulez og Chereau

Næstu útgáfur voru tímamótaverk, tæknilega séð, hvor á sinn hátt. Pierre Boulez stjórnaði uppfærslunni í Bayreuth á aldarafmæli hátíðarinnar. Leikstjóri var Patrice Chereau. Báðir gengu til verks á mjög frumlegan hátt, Boulez reyndi að líta á tónlistina án tillits til hefðar og flutningsvenju. Sumir íhaldsmenn í hátíðarhljómsveitinni voru bæði reiðir og hneykslaðir, en túlkun Boulez þótti síðar meir með því besta sem heyrst hefur. Chereau varð þó enn meiri hneykslunarhella. Hann setti verkið upp á svipuðum forsendum og Bernard Shaw hafði túlkað það, í skugga iðnvæðingar og þjóðfélagsumbrota á 19. öld. Búningar og leikmynd voru færð til þess tíma, en síðan æfði Chereau söngvarana í leik og túlkun langt umfram það sem gerist og gengur.

Þessi uppfærsla var frumflutt við almenna hneykslan á aldarafmælinu. Þegar hún var síðast sýnd, fimm árum síðar, hafði hneykslan flestra fyrir löngu snúist upp í hrifningu. Margar uppfærslur hafa síðan farið sama veg eða annan enn djarfari, en sjaldan hefur tekist jafn vel.

Þessi var mynduð fyrir sjónvarp á sviðinu í Bayreuth, einn þáttur í senn, og verkið hljóðritað um leið. Söngvarar voru nú mistækari en þeir sem sungu nokkrum árum fyrr, en flestir þeirra prýðis leikarar. Þessa útgáfu er betra að horfa á, frekar en að hlusta eingöngu. Hún er til jafnt á venjulegum geislaplötum, myndplötum og myndböndum. Gwyneth Jones er mistæk sem Brünnhilde, en leikræn túlkun hennar er sterk, og Peter Hofmann sem Siegmund er glæstari á sviði en í söng. Donald Maclntyre í hlutverki Wotans ber þó höfuð og herðar yfir aðra í sýningunni. Hann hefur þó lítið af myndugleika Hans Hotters. Hjá Maclntyre er persónan myrkari og fláráðari, og túlkun hans stendur nær Óðni norrænna sagna en nokkurs annars manns.

Stafrænar upptökur

Marek Janowski varð fyrstur manna til að gera stafræna hljóðritun af Hringnum. Upptakan var gerð í Dresden með ríkishljómsveitinni, hinni gömlu hljómsveit Wagners. Flytjendur eru misgóðir, eins og í flestum upptökum frá seinni tíð, og virðist sífellt verða erfiðara að fá söngvara sem ráða vel við stærri Wagnerhlutverk. Jeanine Altmeyer syngur Brünnhilde, og hefði betur látið sér nægja hlutverk eins og Sieglinde eða Gutrune. Þeir Siegfried Jerusalem og Rene Kollo syngja hetjutenórhlutverkin og sleppa allvel frá sínu, en söngvarar á við Peter Schreier sem Loge og Mime, og Jessye Norman sem Sieglinde, eru þessarri upptöku til sóma. Theo Adam söng á sínum tíma Wotan fyrir Karl Böhm, traustur og skynsamur túlkandi, en söngröddin ekki spennandi. Hér var rödd hans farin að láta enn frekar á sjá. Hann lét ekki þar með afskiptum sínum af Hringnum lokið. Áratug síðar söng hann Alberich í hljóðritun Haitinks. Röddinni hafði þá hrakað enn meir, en á hlutverkinu tekið með allri kunnáttu hins reynda túlkanda. Janowski fer snyrtilega með tónsprotann en stundum vantar meiri merg í túlkun hans. Þetta er nothæf en ekki sérlega spennandi útgáfa, og þó drýgri en þær sem næstar komu.

Tvær útgáfur eru nýlega komnar fram frá stærri útgefendum með þekktum hljómsveitarstjórum við stýrisvöl. Þær eru hins vegar talsvert hnökróttar báðar, og verða víst ekki teknar fram yfir eldri útgáfur. Bernard Haitink hljóðritaði Hringinn fyrir EMI og er flest gott um hlut hans að segja. James Levine setti upp Hringinn á Metropolitan og hljóðritaði hann á sama tíma fyrir Deutsche Grammophon. Sú túlkun er mun grunnfærnari en söngvararnir hjá báðum eru misjafnir. Báðir láta James Morris syngja Wotan, og virðist hann ekki eiga mikið erindi í það hlutverk. Þetta er líklega mesta skapgerðarhlutverk óperubókmenntanna, en túlkun Morris er yfirborðskennd og söngurinn ekki sérlega góður. Eva Marton syngur Brünnhilde í útgáfu Haitinks. Hún mun hin mesta valkyrja á sviði, stór og raddmikil, en sambúð hennar við hljóðnemann hefur aldrei verið góð. Reiner Goldberg, sem syngur Siegfried fyrir Levine, er jafnstór blettur á þeirri útgáfu, en á gagnstæðan veg, strákur með hæfilega rödd fyrir Lohengrin, en alls enginn Fáfnisbani. Hljóðritun EMI hljómar mun betur, og hafa tæknimenn óvíða staðið sig betur í hljóðveri.

Uppfærsla Levines var tekin upp fyrir sjónvarp, og er sú uppfærsla til á myndplötum og böndum. Hlutverkaskipan er hér skárri en í hljóðrituninni, Siegfried Jerusalem kominn í stað Goldbergs, og leikmyndin er mikið ævintýraverk. Það verður þó að segja að túlkunin bliknar í samanburði við verk þeirra Boulez og Chereau.

Nýjast er að frétta að hin umdeilda uppfærsla Harrys Kupfer í Bayreuth var hljóðrituð árið 1991 undir stjórn Daniels Barenboim, og er hún nú að koma út hjá Teldec, jafnt á geislaplötum, myndplötum og myndböndum. Tvær fyrri óperurnar komu út í vor er leið og von er á hinum seinni nú um þessar mundir. Þessi útgáfa hefur hlotið allgóða dóma í breskum tímaritum, en hafa má í huga að tveir aðalsöngvararnir eru breskir. Ég hef aðeins heyrt glefsur úr Valkyrjunni í þessari útgáfu, og leist vel á túlkun Barenboims, en er ekki viss um að söngvararnir séu eins góðir og af er látið. Ég þekki fólk sem sá þessa uppfærslu á sviði og var ekki mjög hrifið af hlut leikstjórans.

Ein útgáfa hefur nokkra sérstöðu. EMI hefur gefið út nýlega sjónvarpsútgáfu frá München undir stjórn Wolfgangs Sawallisch, og er hún eingöngu á myndplötum og böndum. Ég hef ekki séð þessa útgáfu, en gagnrýnendur hafa talið hlut stjórnandans góðan, söngvaralið með því besta sem heyrst hefur í seinni tíð, en uppfærsluna í framúrstefnustíl, án þess að menn hafi þar erindi sem erfiði.

Aftur til fortíðar

Flestir hafa víst haldið, þegar geislaplatan kom til sögu, að hún myndi syngja líksönginn yfir eldri upptökum. Það hefur farið á annan veg. Eldri hljóðritanir hafa hlotið endurnýjun lífdaga og hljóma oft mun betur en fyrr. Ýmsar eldri hljóðritanir af Hringnum hafa litið dagsins ljós á ný, og sumar þeirra hinar merkustu.

EMI hafði fyrir tveimur áratugum gefið út útvarpsupptökur Wilhelms Furtwänglers, sem hann gerði í Róm haustið 1953. Þá var tekinn upp einn þáttur í einu í útvarpssal fyrir valinn hóp gesta, og hver þáttur hljóðritaður tvisvar. Hljómsveit ítalska útvarpsins var svo sem engin Vínarfílharmónía, en þeir gerðu sitt besta, og Furtwängler hafði með sér valið lið reyndra Wagnersöngvara. Martha Mödl sem Brünnhilde var ekki kvenna raddfegurst, en líklega hefur engin lagst dýpra í túlkun hlutverksins. Flestir aðrir gerðu mjög vel. Ludwig Suthaus var hinn kempulegasti sem Siegfried, en hljómar full karlalega. Þó verð ég að játa að einn maður veldur mér vonbrigðum. Það var Ferdinand Franz sem Wotan. Hann hafði mikla rödd, í dekkra lagi fyrir hlutverkið, og syngur það af sannfæringu. Hann hljómar hress og góðlátlegur, enda þekktur og vinsæll Hans Sachs í Meistarasöngvurunum, og mér dettur einhvern veginn sjálfur jólasveinninn í hug, þegar ég heyri þessa rödd!

Það er einnig til hljóðritum frá La Scala með Furtwängler frá 1949. Hún hljómar mun verr, en hér er sjálf Kirsten Flagstad sem Brünnhilde og Set Svanholm passar betur en Suthaus í hlutverk Siegfrieds. Furtwängler er hér enn innblásnari en í Róm, en upptakan stendur í vegi fyrir því að menn njóti verksins til fulls.

Það hafa einnig komið út tvær sviðshljóðritanir frá Bayreuth undir stjórn Hans Knappertsbusch. Ég hef aðeins heyrt hluta úr þeirri yngri, frá 1958, og hlýt að harma, eins og fleiri, að ekki tókst að vinna með honum vel undirbúna sviðshljóðritun á verkinu. Hann átti aldrei heima í hljóðveri, en magnaðist allur í leikhúsinu.

Árið 1953 var tekin upp í Bayreuth sýning á Hringnum undir stjórn Clemens Krauss. Hann hafði afburðalið söngvara með Hans Hotter og Astrid Varnay í fararbroddi, og þetta finnst mér vera besti flutningur verksins sem ég þekki. Meðal annarra flytjenda má nefna Ramon Vinay og Reginu Resnik sem systkinin Siegmund og Sieglinde, og Paul Kuen sem Mime. Þessi hljóðritun er til í tveimur útgáfum, og er önnur með því sérkenni að mismunandi efni er á hvorri rás. Verða menn því að spila fyrst vinstri rásina, skipta svo yfir á hægri rás og spila hana! Með þessu móti kemst verkið fyrir á aðeins sjö diskum. Krauss gengur snaggaralega til verks, eins og þeir Böhm og Boulez, og líklega hefði það verið gamla manninum að skapi ef marka má tímalengd einstakra þátta við frumflutning verksins í Bayreuth.