Dagbækur Cosimu

Fyrri hluti – 1869 til 1877

Flutt í vefvarpi laugardaginn 7. nóvember 2020

Þetta skjal er unnið upp úr ensku þýðingunni á dagbókunum, og hér er haldið í enskar hefðir varðandi t.d. upphafstafi í tónverkum, sem sýnir virðingu fyrir sköpunarverkum; einnig er oftast haldið enskri kommusetningu sem stundum er skynsamlegri en íslensku reglurnar..

Fyrirlestur þessi er í þremur hlutum. Fyrsti hluti er Inngangsorð, sem hefjast von bráðar. Síðan taka við beinar tilvitnanir í Dagbók Cosimu, að mestu í réttri tímaröð en hér aðeins vitnað til mánaða en ekki mánaðadaga; annað væri of tafsamt og  endurtekningasamt.

Þriðji hlutinn er svo stuttur eftirmáli sem fjallar lauslega um líf Wagnerfjölskyldunnar eftir dauða Wagners en sá hluti tilheyrið síðari fyrirlestrinum sem samanstendur af úttekt á síðara bindinu af Dagbókunum.

Þessir tveir fyrirlestrar úr hinum tveimur bindum Dagbókanna verða svo birtir í valfrjálsri mætingu á heimsíðu Íslenska Wagnerfélagsins þar sem getið er allra blaðsíðutala þaðan sem tilvitnanir eru teknar og einnig er getið nákvæmra dagsetninga, ef einhver hefur áhuga á að fletta textanum nánar upp, og stundum, þar sem mér hefur gengið erfiðlega að snúa textanum á íslensku, er gefin upp enska útgáfan úr Dagbókunum.

Hefst nú lesturinn.

Hinar frægu Dagbækur Cosimu hefjast í ársbyrjun árið 1869; þá á Wagner eftir að ljúka við Hringinn og Parsifal. Lokafærslan í dagbókum Cosimu er árið 1883. Dagbækurnar eru í samtals níu bókum en eru jafnan gefnar út í tveimur bindum á þýsku og í ensku þýðingunni og eru samtals rúmlega 2000 bls. – þar af skýringar samtals upp á um það bil 200 blaðsíður og atriðaskrár upp á 40 bls. Í ensku þýðingunni er 16 blaðsíðna formáli eftir þýðandann Geoffrey Skelton þar sem hann fjallar meðal annars um líf Wagners og Cosimu fyrir daga Dagbókanna og í síðara bindinu er hann með þriggja blaðsíðna formála þar sem hann rifjar meðal annars upp nokkur atriði úr formála fyrra bindisins. Níu blaðsíðna tímatal (krónólógía) fylgir seinna bindinu. Auk þess er fimm blaðsíðna eftirmáli eftir þýðandann þar sem hann gerir grein fyrir dauða Wagners og lífi Cosimu og afkomenda þeirra eftir dauða Wagners. Það gefur augaleið að aðeins lítið brot af þessu mikla verki er hægt að kynna í stuttum fyrirlestrum. Þar af leiðir að skýringar, túlkanir og útaflagningar verða hér í lágmarki.

Cosima tileinkaði dagbækurnar börnum sínum, á saurblað fyrstu bókarinnar skrifaði hún: „Bók þessi tilheyrir börnum mínum. – Tribschen, nálæg Lucerne. Tileinkað Siegfried sérstaklega frá mömmu.“

Við þessa tileinkun má gera tvær athugasemdir: Wagner sagði Cosimu fyrir um ævi sína fram að því er hann hitti velgjörðamann sinn, Lúðvík II. kóng í Bæjaralandi; sú bók var skrifuð að beiðni Lúðvíks. Í einu af mörgum bréfum Wagners til Lúðvíks sagði hann að framhaldið á ævi hans yrði skráð af Cosimu í dagbókum hennar. Greinilegt var að Wagner átti við að ævi hans yrði þarna skráð á persónulegan hátt, sem hvorki væri ætluð til útgáfu né sem gjöf til Lúðvíks kóngs. Síðan varð nokkurra áratuga bið á því að aðdáendur Wagners fengju að kynnast ævi hans síðustu 16 árin, í gegnum dagbækur Cosimu.

Seinni athugasemdin við tileinkun Cosimu í dagbókum sínum, snýst um þann eðlilega hlut, þar sem um dagbækur er að ræða, að stundum trúir Cosima dagbókinni fyrir sínum eigin persónulegu erfiðleikum, eins og svo margir myndu gera ef þeir héldu dagbók.

Hvers vegna er Siegfried sérstaklega nefndur á nafn í tileinkuninni í dagbókinni, yngsta barn Cosimu af hinum fimm börnum hennar? Tvennt kemur þar líklega til: barnsfeður Cosimu voru tveir og fyrstu fjögur börn hennar voru stúlkur. Siegfried var sá sem átti að viðhalda nafni Wagners og orðstír hans. En atvikin höguðu því svo að Siegfried eignaðist aldrei þessar dagbækur, heldur varð eigandinn Eva, sem hafði gerst einkaritari Cosimu móður sinnar. Eva fullyrti að Cosima hefði gefið henni Dagbækurnar til varðveislu árið 1911. Það var síðan Evu að kenna að Dagbækurnar komu ekki fyrir almenningssjónir fyrr en rúmlega 90 árum eftir að Cosima lauk við þær. Samkvæmt ákvörðun Evu mátti ekki gefa þær út fyrr en 30 árum eftir andlát Evu. Þetta gerði hún til þess að tryggja að ákveðinn Wagnerfræðimaður kæmist ekki í Dagbækurnar, en þann mann hataði hún fyrir það að hann lét lögregluna vita að horfin væru úr Wahnfried-safninu bréf sem Wagner og Cosima skrifuðu hvort öðru. Eva varð að sverja eið að því árið 1934 að Siegfried hefði skipað Evu, rétt fyrir dauða sinn, að brenna bréf foreldra þeirra.

Blandine, elsta dóttir Cosimu átti, samkvæmt ákvörðun Cosimu, að fá sitt ákveðna hlutverk í lífinu en það var að þjóna föður sínum eftir bestu getu, fyrrverandi eiginmanni Cosimu – Hans von Bülow. Cosima hafði endalaust samviskubit yfir að hafa skilið við Hans, vegna ástar hennar á Wagner annars vegar og hins vegar vegna þess hlutverks sem hún taldi sig gegna með því að styðja við listrænt bak Wagners, ekki síst í því að hvetja hann áfram við að ljúka Niflungahringnum.

Til er þýsk útgáfa af dagbókum Cosimu frá árinu 2005, sem hefur verið stytt um það bil um 75%, bókin er ekki nema 440 blaðsíður að lengd, ásamt 30 blaðsíðna nafnalista. Slíkar styttingar hafa að sjálfsögðu sínar takmarkanir, en það sem hefur helst verið í huga ritstjóranna virðist vera að halda til haga best skrifuðu hlutum verksins. Sem er að sjálfsögðu eðlileg ákvörðun, en þá þarf að hafa í huga hverju er sleppt. Í þessari styttu útgáfu eru aðeins myndir á forsíðu og baksíðu en í þýsku og ensku heildarútgáfunum eru myndir upp á 32 blaðsíður.

Þegar dagbækur Cosimu hefjast er hin kaþólska Cosima með gífurlegt samviskubit yfir að hafa skilið við eiginmann sinn, sem var einhver færasti sérfræðingur í verkum Wagners og sá sem var fyrsti hljómsveitarstjórinn, sem ekki aðeins frumflutti Tristan og Ísold – verk sem segir hliðstæða sögu og saga Cosimu: kona er gift en elskar annan mann – en einnig var Bülow sá hljómsveitarstjóri sem frumflutti Meistarasöngvarana, en það gerðist þegar Cosima var flutt til Wagners með eldri dætur sínar, sem voru sannanlega dætur Bülows; hún var þá enn gift Bülow en bjó með Wagner.

Framan af virðist Cosima hafa talið að hugsanlega gengi það upp að tengjast þessum tveimur mönnum á þennan hátt: vera gift öðrum, en búa með hinum. En með tímanum kom í ljós að þetta fyrirkomulag hentaði öllum illa; sem dæmi má nefna að talið er víst að fjórða barn Cosimu, Eva, hafi verið barn Wagners, en lagalega séð var Bülow talinn faðirinn þar sem Cosima var gift honum þegar Eva fæddist. Eva var skírð Eva eftir aðalpersónunni í músikdrama Wagners, Meistarasöngvurunum sem hann vann að þegar drög voru lögð að barninu. Ísold var skírð Ísold vegna músikdrama Wagners, Tristan og Ísold og Siegfried var skírður eftir fjórðungnum af Niflungahringnum. Á fullorðinsárum, þegar Ísold vildi skilja sig frá hálfsystrum sínum og fá arf eftir Wagner, þá fékk hún það ekki, þrátt fyrir réttahöld, því hún var eins og áður sagði að áliti laganna, barn Bülows. Auk þess sem Cosima bað fyrrverandi eiginmann sinn, fljótlega eftir dauða Wagners, að gangast við því að vera faðir allra fjögurra dætranna, sem hann og gerði. Ísold virðist ekki hafa vitað um þessa ráðstöfun móður sinnar, sem líklega hefur verið hugsuð hjá Cosimu sem styrking við Siegfried, sem var þá eini löglegi afkomandi Wagners enda hugsaður sem andlegur erfðaberi fyrir list meistarans.

Í þessari samantekt hef ég stuðst við ensku þýðinguna á heildarútgáfunum á dagbókum Cosimu. Eins og flestir vita sem hér eru staddir, þá nefnir Cosima Wagner sjaldnast í dagbókunum sem Richard, heldur skammstafar hún nafn hans með stóru R-i og punkti á eftir. Í þessum lestri nefni ég því sjaldnast nafn Wagners fullum stöfum en fer að ráði Cosimu og kalla hann bara R. eins og hún gerði. Ég vandist slíkum sið á framhalds-námsárum mínum í New York borg, þar sem ég umgekkst mikið föðurbróður minn, Hallberg Hallmundsson, og eiginkonu hans, en hún var bandarískur gyðingur. Hún kallaði manninn sinn aldrei annað en H. sem á ensku kom út sem Eighs. Blessuð sé minning þeirra, sem ég hef stundum kallað fósturforeldra mína, á svipaðan hátt og Wagner gekkst við Adolf föðurbróður sínum.

Árið 1869

Dagbækur Cosimu hefjast svona:

Föstudagur, 1. janúar „Þessi dagbók átti að hefjast á jóladag, 31. afmælisdaginn minn; en ég fann enga hentuga bók í Lucerne. Þannig að fyrsti dagur ársins er þá byrjunin á þessari skýrslu minni fyrir ykkur, börnin mín.“ […].

Í færslunum hér á eftir blanda ég stundum saman beinni og óbeinni ræðu og dreg stundum saman nokkra daga til þess að slíta ekki of mikið í sundur með dagatalsupptalningum. Og Cosima heldur áfram með þessa fyrstu færslu:

Sérhver klukkustund lífs míns verður í dagbókinni, þið eigið að sjá mig eins og ég er; ef ég lifi lengi, mun ég líklega vilja þegja. […] R. sýndi mér fram á að ég hefði aldrei lifað. Ást mín á honum stuðlaði að endurfæðingu minni. Allt sem var léttvægt hvarf, og ég sór að helga mig þessu verkefni. „Það sem ástin hefur gert fyrir mig mun ég aldrei geta endurgoldið“. R. er Frelsari sálar minnar. […] „Ég yfirgaf ykkur, dýrmætu dætur mínar tvær, en ég sakna ykkar og hugsa til ykkar dag og nótt, því ég elska ykkur, ég myndi fórna öllu fyrir ykkur – öllu nema lífi þessarar einu persónu. Aðskilnaður okkar er tímabundinn. Vinsemd hans er mikil. Ég tárast gjarnan þegar ég er nærri honum“.

Laugardagur, 2. janúar „[…] Ég spyr hann hvort ég ætti að lesa Schopenhauer. Hann ráðleggur mér að gera það ekki: kona ætti að nálgast heimspeki í gegnum karlmann, ljóðskáld. Ég er fullkomlega sammála. […].“

8. janúar „Kæra Loulou og kæra Boni, [sem eru Daníela og Blandine Bülow] í dag er afmælisdagur föður ykkar. Mig langaði til að deyja. „Faðir ykkar vissi ekki af þjáningum mínum“ „Hann hefði aldrei tapað mér ef örlögin hefðu ekki gert það að verkum að ég kynntist manninum sem ég áttaði mig á, að væri skylda mín að lifa fyrir og deyja. Mikið hefur verið um svívirðingar og móðganir. En ég valdi, þegar ekki var um neitt val að ræða.

8. janúar kemur í ljós að Siegfried hreyfir sig á meðgöngunni.

Laugardagur, 23. janúar […] „Í dag sagði R. við mig að hann hefði tekið ákvörðun um að ljúka við Siegfried.“
3. febrúar […] hjarta mitt er uppfullt af bældum tárum. […]“

18. febrúar „[…] Eftir hádegismat leikur R. atriði úr Valkyrjunni (endinn) sem er yfirþyrmandi fyrir mig. Guð minn góður! Þetta verk! – Áhrifin af því gegnsýra allan daginn hjá mér […] allt sem lifir innra með mér eru þessir tónar og þessi orð. – […] í dag varð ég mér svo sterklega meðvituð um hversu mikið ég trúi á R., og erindi hans í lífi og listum, á snilld hans, á vinsemd hans [og] ást […]. Um kvöldið Júlíus Sesar. R. les upphátt fyrir mig á frábæran hátt, það hefur svo djúp áhrif á mig að ég geng til náða hálf lasin.“

Nietzsche taldi að mestu hæfileikar Wagner hefðu verið leikarahæfileikar. Þar með var hann ekki að gera lítið úr öðrum hæfileikum Wagners, en með því að leggja áherslu á snilld hans á þessu sviði, má sjá hversu miklir yfirburðahæfileikar Wagner hefur haft á leiklistarsviðinu.

28. febrúar „[…] Ég ver deginum með börnunum; það er sunnudagur, dagurinn þeirra […]. Því miður ákveður R. eftir máltíðina að spila eitthvað úr Siegfried. Loldi varð óróleg á meðan, R. varð óþolinmóður; til þess að koma í veg fyrir reiðikast fór ég með hana upp í herbergið mitt og lét Evu koma líka; R. varð þá mjög reiður, og því miður fyrir framan börnin, sem kvaldi mig mjög mikið. Ég veit ekki hvort ég hefði getað komið á einhvern hátt í veg fyrir það […] ég hef ofan af fyrir börnunum og hreinrita tvær blaðsíður með bleki. R. virðist ekki taka þetta mjög nærri sér, svo skaðinn er enginn. Góða nótt, börnin mín.“

Fimmtudagur, 1. apríl (bls. 81) „[…] Um kvöldið talar R. við mig um Ódysseifskviðu og Ilíonskviðu, hann reykir og drekkur bjór. Þar eð smiðirnir höfðu verið að lakka í næsta herbergi, blandast öll þessi lykt saman, svo mig fer að svima og fæ höfuðverk; ég fer að sjá og heyra illa. Þegar ég sagði R. frá ástandi mínu varð hann mjög reiður, fannst vera ásökun í því sem var bara útskýring. Hann sagði ýmislegt sem hefði verið betra fyrir hann að láta ósagt. Ég fór upp í herbergið mitt og var í uppnámi og grét. Nú velti ég fyrir mér hvað best sé að gera – hvort ég ætti að láta hann jafna sig á reiðikastinu eða að fara til hans, og útskýra aftur í rólegheitum hvað gerðist, og sefa hann. Vart hafði ég skrifað þetta þegar R. kom inn til að bjóða mér góða nótt. Ég fór svo niður til hans og róaði hugaróra hans.“

Laugardagur 17. apríl (bls. 87) „[…] Mamma hefur verið sett á geðveikrahæli! Þetta er erfiður mánuður. – […].“

Mánudagur, 3. maí (bls. 93) „[…] Ég get aldrei haldið aftur af tárunum og kem ekki upp neinu orði þegar ég heyri tónlistina hans. – […].“

Föstudagur 14. maí (bls. 95) „[…] Þegar hann leikur á píanóið um kvöldið, þyrmir svo yfir mig að ég fer að snökta […].“

Sunnudagur, 17. maí. (bls. 96) „Í hádegismat hjá okkur er málvísindamaðurinn, prófessor Nietzsche, sem R. kynntist hjá Brockhaus fólkinu; hann þekkir mjög vel til verka Rs og vitanar meira að segja í Óperu og drama í fyrirlestrum sínum […],“

Miðvikudagur, 19. maí (bls. 97) „Fer seint á fætur, mjög þreytt og áhyggjufull, er eins og venjulega með börnunum og sauma út. Áður en að hádegismatnum kemur, spilar R. fyrir mig það sem hann er búinn að semja og er ánægður með að ýmis þemu sem eru frá „Starnberg dögunum“ og sem hann hafði í gríni eyrnamerkt fyrir kvartetta og sinfóníur, hafa núna fundið sinn stað („Ewig war ich, ewig bin ich“). Mikil gleði yfir því að líf og list komi saman á þennan hátt. Börnin úti að prófa sendiboða-búningana. Ég er ein í húsinu og geri mér grein fyrir að vinnu minni verður ekki lokið fyrir afmælisdaginn. […].“

Fimmtudagur, 20. maí „[…] Fékk bréf á pósthúsinu frá Claire, hún hitti móður mína, dapurleg lýsing, en geðveikin er þó horfin. […].“

Föstudagur, 21. maí „[…] Richter og Parísar-kvartettinn eru komnir. […] Það var grimmilegt að ég skyldi þurfa að yfirgefa Hans, en þá verð ég að spyrja mig fyrir hvern sú grimmd átti sér stað; ég finn greinilega að inni í mér ræður einhver heilagleiki, sem ákvað mína stefnu – það var ekki ég sem óskaði eða valdi. […] – en þjáningarnar sem Hans verður að þola, ræna mig allri gleði. Góða nótt, góðu börnin mín.“

Laugardagur, 22. maí (bls. 98) „Um nóttina stilli ég upp brjóstmyndinni af R., blóm allt í kring. Snemma morguns blés Richter kall Siegfrieds; síðan var börnunum stillt upp sem friðar-sendiboðum, og að lokum, klukkan 10:30 Parísar-kvartettinn. R. mjög hissa og himinlifandi. Að deginum til spila þeir B moll, A moll og Cís moll kvartettana. Mig langaði að gráta. Skeyti frá konunginum og Ungverjalandi. Dagurinn líður eins og í draumi.“

Þetta var sem sé afmælisdagur Wagners.

Föstudagur 28. maí (bls. 100) „[…] R. segir að hann þekki hönd mína og að hann viti að ég geti reist hvern sem er til lífsins úr dauðadái með snertingum mínum[…].”

6. til 12. júní (bls. 103) skrifar Cosima ekki í dagbókina. Samt sem áður er dagbókin skrifuð þessa daga; það er tónskáldið sjálft sem skrifar í nafni Cosimu. 6. júní skrifar Wagner: „Klukkan 1 fer ég niður til Richards til að segja honum að ekki megi gera neitt uppistand, farið verði að hefðbundnum reglum hversdagsins og að Nietzsche verði í hádegismat með börnunum. R. leggur morgunsloppinn sinn yfir mig og fylgir mér upp á loft og í rúmið. Verkirnir verða tíðari; klukkan 2 læt ég vekja Vreneli og sent er eftir ljósmóðurinni. […] Ég óttast frestunina sem gerði það að verkum að Eva fæddist seint. R. mjög áhyggjufullur við rúmið mitt. Ljósmóðirin kemur eftir klukkan 3, hún bíður í næsta herbergi því ég vil ekki tala við neinn.“ […]

Og Wagner heldur áfram að lýsa þessu ferli sem fer mjög vel að lokum þegar einkasonur þeirra, Siegfried, lítur dagsins ljós.

Mánudagur, 28. júní (bls. 116) „[…] R. vinnur, en með semingi: „Þegar ég hugsa til þess að ég muni aldrei heyra eina nótu af verkum mínum, og að Rínargullið sé að fara á svið án mín, hvaðan ætti mér þá að koma löngun til að búa til tónlist? Ég geri það einungis fyrir þig.“ […].“

Cosima gat bæði verið hörð af sér, en einnig mikill diplómat. Hún hallmælti aldrei fyrri eiginmanni sínum og fór óbeina leið að því að lýsa erfiðleikum úr fyrra hjónabandi sínu:

Sunnudagur, 11. júlí (bls. 124) „[…] Börnin drekka kakódrykk, ég spilaði Beethoven kvartett með R., fór svo í göngutúr með honum. Ég er sorgbitin vegna Hans – minnist þó aldrei á það – en R. getur upp á því, og hann verður hnugginn. Hann rifjar upp atburð sem hann var viðstaddur, þegar Hans sló mig, og segir að hann hafi verið skelfingu lostinn yfir því hvað ég hefði tekið þessu með tómlátu æðruleysi. Mjög sárar tilfinningar. – […].“

Fimmtudagur, 5. ágúst […] (bls. 134) „– Ég þori varla að viðurkenna það fyrir sjálfri mér hversu mikið mig langar til að deyja. – […].“

Föstudagur, 6. ágúst […] „R. samdi Tristan fyrir ítalska söngvara (en að sjálfsögðu ekki fyrir heimskingjana sem eru að syngja núna). […].“

Sunnudagur, 8. ágúst (bls. 135) „[…] Serovshjónin í hádegismat; hann hefur góða og sjálfstæða persónu, en hún er ljót sem nóttin, hefur áhuga á kvenfrelsi; einmitt í gær vorum við R. að lýsa fyrirlitningu okkar á þessu samtíma kjaftæði. […].“

Mánudagur, 16. ágúst (bls. 137) „[…] {R.:} Mitt sérsvið er sambland af ljóðskáldi og tónlistarmanni; sem hreinræktaður tónlistarmaður væri ég ekki sérlega mikilsverður. […]“

Fimmtudagur, 23. september (bls. 149) „[…] – Mamma er aftur orðin geðveik! … […].“

Föstudagur, 29. október (bls. 159) „[…] – Miklar áhyggjur yfir því að R. datt úr stiganum þegar hann var að endurraða bókunum sínum. […].“

Þriðjudagur, 2. nóvember (bls. 161) „– Hugsaði um Hans og dapurlegu síðustu dagana okkar saman; ég er ánægð með að skuli aldrei gleyma þjáningum hans!”

Laugardagur, 6. nóvember ( bls. 162) „[…] ég keypti 20 hluti í nýju eimskipafélagi. […].“

Mánudagur, 15. nóvember […] (bls. 165) „R. hefur mest gaman af því þegar ég klæðist nýjum fötum. […].”

Sunnudagur, 28. nóvember (bls. 168) „[…] Í dag fyrir sex árum síðan átti R. leið í gegnum Berlín, og þá gerðist það að við urðum ástfangin; […] við skálum fyrir þessum degi […]. Þegar hann er að vinna að Brynhildi, er ég stöðugt fyrir augum hans.“

Þriðjudagur, 7. desember […] (bls. 170) „Talaði við R. um Mendelssohn. Samanburður við kristal: Hebridges forleikurinn svo hreinn, svo hnökralaus, svo melódískur, formið eins afdráttarlaust og í kristal, en á sama hátt jafn kalt; svona gífurlegir hæfileikar eins og hjá Mendelssohn vekja skelfingu […].“

Laugardagur, 11. desember […] (bls. 171) „R. er að vinna og er ánægður; í atriðinu með Brynhildi og Siegfried í Götterdämmerung eru ekki endurtekin þemun úr ástaratriðinu, vegna þess að allt þróast út frá hugarástandinu, ekki undirliggjandi hugsunum, og hugarástandið hér er annað en í hetju sælunni í Siegfried. – […] Ég þjáist sífellt vegna Hans! Ég myndi vilja deyja á undan honum, til þess að hann áttaði sig á því, að á hverri einustu stundu þjáðist ég með honum, gegnum alla hamingjuna og blessunina. – “

Sunnudagur, 12. desember (bls. 172) „[…] R. lýkur bið blýants-útgáfuna af Forleiknum að Götterdämmerung. […].“

Miðvikudagur, 15. desember „[…] Ég þarf að passa vel upp á það að R. sjái aldrei hversu þróttlítil ég er. […].“

Fimmtudagur, 16. desember „R. vinnur að uppkastinu að intermezzóinu; þegar hann er svona ánægður með gott ástand hugar og hjarta, þá hef ég áhyggjur af því að ég gæti gleymt þjáningum Hans, þá minni ég mig ævinlega á það. – […].“

Mánudagur, 20. desember (bls. 174) „[…] hugsunin um einmanalega tilveru Hans rænir mig allri rósemd […] Loulou, barnið mitt, taktu að þér að lifa fyrir föður þinn til þess að bæta honum upp allt sem hann hefur misst! – […].

Um kvöldið, þegar við horfum á Fidi, segir R. að hann sé með augnljóma [e. glittering] Völsunganna; þetta leiðir okkur yfir í umræður um Edduna, og síðan að Götterdämmerung; hann sýnir mér nokkrar línur í tónlistar minnisbókinni, það sem Brynhildur á að syngja í staðinn fyrir „Selig in Leid und Lust,“ og kórinn á að taka þátt í; […].“

Árið 1870

Miðvikudagur, 19. janúar (bls. 181) „[…] R. segir mér hve hamingjusamur hann sé með mér, hamingjusamur vegna mín. […] {C:} Hvað ég þakka Guði fyrir þessa hamingju! […].“

Fimmtudagur, 3. mars (195) „Ég ræði nokkra atburði úr fortíðinni við Heinrich Porges. Ég verð afar hamingjusöm þegar hann segir mér að hann hafi aldrei séð R. svona yfirvegaðan og líflegan eins og hann er núna, að R. hefði aldrei ráðist í að halda áfram með Niflungana ef þessi mikla breyting í lífi hans hefði ekki átt sér stað. Þetta hefur svo sterk áhrif á mig að ég næ ekki að halda aftur af tárunum. Þegar ég segi R. þetta segir hann.: „Ekkert, ekki ein einasta ný nóta hefði komið frá mér ef ég hefði ekki fundið þig. Nú á ég líf til að lifa.“

Sunnudagur, 3. apríl (bls. 206) „[…] Í dagblaðinu er frétt frá Flórens, þar segir að Hans hafi leikið og stjórnað á mjög vel heppnaðan hátt þar og konungurinn á Ítalíu hafi sæmt hann orðunni Corona d´Italia. […]“

Miðvikudagur, 29. júní (BLS. 239) „[…] R. […] spilar dúetta með Richter: sinfóníur Haydns – sem minnir mig á þá tíma þegar ég spilaði þessi verk með Blandine systur minni. […], mín dapurlega, föðurlausa og móðurlausa, en þó sæluríka æska! […].“

Miðvikudagur, 27. júlí (bls. 249) „[…] Richter réttir mér bréf, það er frá Hallwachs og segir að 18. júlí hafi lögskilnaður gengið í gegn.
Það er engin hamingja til á þessari jörð, börnin mín, því við þessa frétt gat ég ekki annað en grátið.“

(Bls 261) …poetic veil, triviality, Wesendonck [óheilbrigt samband, til að trekkja upp sköpunargáfu?].

(bls. 263) „Fimmtudagur, 25. ágúst Klukkan 8 giftumst við; megi ég vera verðug þess að bera nafn R.s! Bænir mínar hverfðust um tvö atriði: farsæld R.s, að ég megi alltaf stuðla að henni; og hamingju Hans – að hann megi öðlast hana án mín, að hann megi lifa góðu lífi. […]“

Föstudagur, 25. nóvember (bls. 299) „[…] Í hádegismatnum minnist R. þess, hvernig hann var einu sinni að kvarta yfir verkjum í líkamanum, og þá hefði faðir minn tekið upp Niflungana, horft á hann og sagt, „Hann kvartar um verk í maganum og skrifar verk eins og þetta.“ R. heldur áfram og segir að án efa sé faðir minn mesti frumlegi snillingurinn sem hann hafi nokkru sinni kynnst, og á eftir honum komi Hans, vegna þess að í honum býr eldur. […]“

Sunnudagur, 25. desember (bls. 312) „Afmælisdagur Cosimu. Triebschen Idyll frumflutt. [1]

Árið 1871

Laugardagur, 7. janúar (bls.) „[…] „Á ég að gleðjast“ segir R. „yfir því að það sem ég samdi fyrir 20 árum er nú loksins að fá skilning, þegar ég hef núna náð miklu lengra en þetta – […]?“

Sunnudagur, 22. janúar (bls. 325) „Við lifum eins og guðir, það er ekkert fleira um það að segja“ segir R. við mig um morguninn og syngur laglínu úr La Straniera, sem minnir okkur enn einu sinni á áhrifamáttinn í slíkum verkum. „Skýr frásögn – áhugaverður söngvari – en allt hið sígilda látið lönd og leið. Þá er nauðsynlegt að setja inn sterkt drama. Ég er ekkert skáld og mér stendur á sama þó fólk gagnrýni mig fyrir orðanotkun; í verkum mínum er atburðarásin [e. action] aðalatriðið. Að sumu leyti skiptir það mig engu máli hvort fólk skilur ljóðin mín, vegna þess það skilur örugglega atburðarásina.

Ljóðskáld skipta miklu minna máli en tónlistarmenn, málarar og höggmyndasmiðir – einungis leikskáldin geta keppt við tónlistarmennina. Frakkar hafa forskot að því leytinu til að þeir eru með góð leikskáld, sem skapa verk sín út frá eigin lífi; þetta eru leikrit sem líkja eftir lífinu. Það á eftir að koma í ljós hvort Þjóðverjar séu færir um að búa til leikhús sem lýsir óhemjuskapnum [e. wildness] í eðli þeirra.“–“

Í skýringunum aftan við dagbækur Cosimu segir stuttlega við þennan sunnudag: „La Straniera: ópera eftir Bellini.“

Í þessari lýsingu Wagners á stöðunni í dramatískri tjáningu í Frakklandi og Þýskalandi, þarf að hafa í huga að Wagner var hér að lýsa aðstæðum fyrir konu sinni, hvers fyrsta mál var franska. Ef Cosima hefði verið ensk, hefði Wagner væntanlega haft þennan samanburð á milli Þjóðverja og uppáhalds leikritaskálds síns, Shakespeares, en í Hamlet lýsti Shakespeare svipaðri áherslu og Wagner á raunsæi í leikhúsi, eða natúralisma.

Systir Cosimu, Blandine, dó í kjölfar barnsfæðingar 11. september árið 1862 … Daníel bróðir þeirra dó 13. desember 1859, tvítugur að aldri og kenndu systurnar ekki síst sambýliskonu föður þeirra um dauða hans, en madam Wittgenstein hafði ráðið því að Daníel var sendur til náms í Vínarborg þar sem hann veiktist. Leiði hans er í Berlín.

Mánudaginn 8. maí skrifar Cosima í dagbók sína: (bls. 364) „Fór snemma morguns […] að leiði Daníels í kirkjugarðinum. […] Hann var fórnarlamb hugsunarleysis foreldra minna og grimmilegs tómlætis Wittgenstein prinsessu; á þeim tíma var ég of ung og reynslulaus til þess að mótmæla þeim af festu og taka á ákveðinn hátt á málunum. Með mikinn verk fyrir brjóstinu, standandi þarna við gröfina; […] Þú lifir áfram í sál minni bróðir; […]“

Laugardagur, 13. maí (bls. 365) „[…] Klukkan 8 í Frankfurt […] upp í hugann kom dagurinn (í ágúst 1862) þegar ég jánkaði því við R. að ég væri til í að sitja í hjólbörum [2] ef hann mundi keyra þær, […].“

Mánudagur, 22. maí (blas. 367) „Vakandi alla nóttina hugsandi um R.: hve líf mitt væri óhugsandi án hans, hve lítið ég get látið af mér leiða til að auka hamingju hans, hve mér þætti vænt um að geta aflétt öllum sársauka hjá honum. Nóttina áður hafði Hans birst mér gráhærður og með skegg, grátandi; það snerti mig mjög djúpt, en ég verð að helga mig R. – Guð gefi að ég megi gera það svo að það gagnist honum sem best! […]“

Þriðjudagur, 30. maí (bls. 371) „Við morgunverðarborðið hefur R glaðlega orð á því hvað ég líti vel út. Hann segir: „Þú ert yndislegri núna en þú varst: áður fyrr var andlit þitt einlægt og strangt, núna er í augum þínum gleðileiftur sem ég hef aðeins séð í fáum andlitum. Faðir þinn er góðviljaður, vingjarnlegur og innilegur, en hann skortir gleði, sem er guðdómlegasta einkennið í mannlegum andlitum. Ég hef aðeins séð slíkt einu sinni á sviði, hjá Schröder-Devrient.“ […]“ 

Sunnudagur, 23. júlí (bls. 395) „Þegar ég skrifa þetta kallar R. niður til mín af efri hæðinni þar sem hann er að vinna, „Cosima, hvar ertu?“ „Hérna niðri – ég er að skrifa í dagbókina mína.“ „Ertu að skrifa eitthvað fallegt?“ „Auðvitað, en hvers vegna ertu að hugsa til mín núna?“ „Kjáni! Um hvað annað hugsa ég nokkurn tíma? Hvaðan ætti ég að fá viljann til að halda áfram að vinna nema í gegnum þessa hugsun. Mér þætti gaman að vita hvað hefði orðið um mig hefði ég ekki fundið þig. Glataður, eftir að hafa framið hver heimskupörin á fætur öðrum. Mornaður í volæði.“ […]“

Árið 1872

Föstudagur, 1. mars (bls. 463) „R. kallar til mín: ,Hver er munurinn á Wotan og Siegfried? Wotan giftist Minnu og Siegfried Cosimu.ʻ […].“

Mánudagur, 21. október (bls. 543) „R. afbrýðisamur út í Liszt vegna Cosimu.

Árið 1873

Miðvikudagur, 29. janúar […] (bla. 589) „Í nótt dreymdi R. um hamingjuna með mér – mig dreymdi að ég sá Hans grátandi og ég grét með honum.“

Mánudagur, 3. febrúar (bls. 591) „Þegar ég hlustaði á Forleikinn að Tannhäuser varð mér hugsað til fyrstu uppfærslunnar á verkinu í Berlín, árið 1856, Hans var hljómsveitarstjóri; það var mikið púað, það leið yfir Hans; ég bjó í húsi móður hans og vakti fram eftir þar til hann kom, svo að hann gerði sér grein fyrir að það væri ein mannleg sál sem þakkaði honum fyrir fyrirhöfnina. Þetta þakklæti var fræið, sem samband okkar spratt upp af – […].“

Miðvikudagur, 12. febrúar (bls. 594) „Gott vetrarveður, hádegisverður hjá fjölskyldunni. Óhlýðni Daníelu gerir það að verkum að ég missi stjórn á skapi mínu, sem ég sé þeim mun meira eftir þegar R. áfellist mig og segir að hann sé hræddur um að ég sé ekki alltaf sanngjörn. […].“

Föstudagur, 21. mars (bls. 612) „[…] Um kvöldið vill svo til að í hendur okkar koma ritgerðir eftir Carlyle um Goethe og Schiller og við gleðjumst er við lesum hin fögru orð hans þar sem hann lofar Goethe; Carlyle skrifaði þetta þegar Goethe er nýlega dáinn. Orð Carlyles um það hversu lítið fólk veit um mikilsháttar menn og í hve miklum skugga orðstír þeirra birtist samtímanum, gera það að verkum að ég fer að velta fyrir mér þessum dagbókarskrifum mínum; ég leitast þar við að lýsa kjarnanum í eðli R. fyrir börnunum mínum á sem skýrastan hátt, með því að skrásetja allt sem hann segir, jafnvel það sem hann segir um mig, og sleppa þannig allri auðmýkt svo myndin verði sem skýrust fyrir þau – þrátt fyrir þetta hef ég á tilfinningunni að þessi tilraun misheppnist; hvernig get ég gert hljómnum í rödd hans skil, hljómfallinu, hreyfingum og tjáninguna í augum hans. En kannski er þetta betra en ekki neitt, þannig að ég held áfram þessum ófullkomnu tilraunum.

Ég er mjög hrifin af lofi Carlyles um Goethe sem passar reyndar líka fullkomlega við R. – hreinlyndið, sannleiksþörfin, hugrekkið, góðleikinn, spádómsgáfan. [3] R. er ánægður með Carlyle, hann segir að þrátt fyrir marga galla og algjörlega óheimspekilega hugsun hans, sjái maður í honum mann með frumlegar hugmyndir og tilfinningu fyrir því sem er ekta og mikilfenglegt. (Um tíma hugleiðir hann að senda Carlyle verk sitt um Beethoven.). […]“

Miðvikudagur, 26. mars (bls. 614) „[…] Mörkin sem ég set mér þegar ég er að skapa standast aldrei; þá kemur yfir mig einskonar andagiftar-ofsakast, og þá verður til allur sá árangur sem ég næ.“ […].“

Laugardagur, 3. maí (bls. 629) „[…] Í dag er 3. maí; í gær fyrir 9 árum síðan, dó Meyerbeer, í dag fyrir 9 árum kom Pfistermeister til R., og á morgun þann fjórða [maí] var hann [R.] kynntur fyrir konunginum. […].“

Fimmtudagur, 22. maí (bls. 638) „[…] Um miðjan dag er skálað. Ég spyr: „Hver mun lengi lifa, Daníela?“ „Tryggasti verndari okkar“ – hún rís á fætur með glas í hönd. „Hver mun lengi lifa, Blandine?“ „Besti vinur okkar.” „Hver mun lengi lifa, Ísold? “Faðir okkar, bestur allra.” „Hver mun lengi lifa, Fidi?“ „Pabbi minn”, – síðan lék herhljómsveitin forleikinn að þriðja þætti Lohengrin. Og við grétum öll gleðitárum. […]“

Fimmtudagur, 31. júlí (bls. 661) „Faðir minn býður okkur út að borða, öll börnin eru við borðið, mjög skemmtilegt; en því miður brjótast út leiðinleg átök á milli barnanna þegar þau koma heim, sem beinast, eins og venjulega, gegn Evu, og ég verð að kalla á R. til að hjálpa, við að refsa eldri stúlkunum; ég segi honum hvað gerist stundum á milli barnanna og að það hafi safnast upp, og bið hann að sýna föðurlegt vald sitt á strangan hátt; í fyrsta sinn löðrungar hann Daníelu og Blandine; þær eru mjög slegnar. – […].“

Laugardagur, 20. september (bls. 678) „Um kvöldið lesum við Uhland og síðan Egils sögu. Ólíkar skoðanir okkar R. í sambandi við börnin; vegna þess hvað þau eru kærulaus hef ég látið útbúa drykkjarkönnur fyrir þau úr tini; R. þolir ekki refsingarnar; ég gef eftir, en er döpur vegna þess. […].“

Mánudagur, 22. september (bls. 679) „R. skilur ekki að ég skuli telja mikilvægt að viðhalda refsingu sem eitt sinn hefur verið beitt gagnvart börnunum. […] Um kvöldið leikum við tónlist úr Meistarasöngvurunum, og R. segir að hann hafi það alltaf á tilfinningunni að hann hafi skrifað þetta verk innan sviga. Áður en við förum í háttinn sagði hann við mig, „Ég hef svo margt að þakka þér fyrir, ég var að hugsa um Meistarasöngvarana, og fann þá hvað ég stend í mikilli þakkarskuld við þig.“

Föstudagur-Laugardagur, 26.-27. september (bls. 680) „[…] Um miðjan dag kemur herhljómsveit frá Meiningen og heiðrar R., þeir leika afar vel, og ég er mjög snortin vegna þessarar vísbendingar um stuðning almennings við R. En því miður eyðileggst stemningin þegar kemur að lokahlutanum á fyrsta þættinum á Lohengrin, hljóðfæraleikararnir hægja á og herða á röngum stöðum. R. sýnir þeim hvernig þetta á að vera, stýrir hljómsveitinni sjálfur fyrir utan stofugluggann, og þeir skilja hann strax; hann drekkur með þeim úr stórri bjórkrús með loki á (e. tankard) og er himinsæll með þetta indæla, líflega fólk. […].“

Laugardagur, 4. október (bls. 682) „[…] R. vinnur, og meðan á vinnunni stendur kemst hann að eftirfarandi niðurstöðu: „Það má líta á hljómsveitina út frá tveimur sjónarmiðum: sem heildrænt fyrirbæri þar sem eitt hljóðfæri getur komið í stað annars; eða eins og ég lít á málin, þar sem hvert hljóðfæri er einstaklingur á eigin forsendum; þess vegna er ég svo gramur þegar vantar ákveðna nótu í hljóðfærið.“ […].“

Þetta skýrir væntanlega hvers vegna Wagner lét smíða Wagner túburnar, sem Íslendingar fengu lánaðar þegar Íslenski Hringurinn var sýndur í Þjóðleikhúsinu. Hann lét líka smíða eins konar mandólín fyrir Meistarasöngvarana og fjögurra nótna hljómborð fyrir kirkjuklukkurnar í Parsifal.

Þetta sama kvöld lesa þau svo Söguna af Hrólfi kraka og daginn eftir Friðþjófs sögu. Tveim dögum síðar lesa þau Starkaðar sögu og söguna um Harald hilditönn.

Mánudagur, 13. október (bls. 687) „[…] R. spilar Tristan (3ja þátt), sem veldur því að hjartað í mér gefur sig næstum því af tilfinningaálaginu“.

Laugardagur, 18. október (bls. 688) „[…] R. vinnur svo reglulega og af svo mikilli einbeitingu að hann er utan við sig þegar kemur að hversdagslegum hlutum.“

Miðvikudagur, 19. nóvember (bls. 700) „ R. er að vinna, ég er langar stundir með börnunum. Dapurlegur draumur um Hans. Rifja upp með R. erfiða tíma – það eru núna 5 ár síðan ég flutti til hans, hann segir að næsta morgunn hafi ég sagt við hann, „Byrjaðu núna á Siegfried.“ […].“

Árið 1874

Suma dagana er færsla Cosimu í dagbókina örstutt, en varpar þó skýru ljósi á persónuleika Wagners þó ekki sé nema í tveimur línum:

Þriðjudagur, 7. apríl (bls. 750) „Allir veikir, meira að segja ég með hæsi og hausverk. R. guðdómlega yndislegur, tekur yfir alla ábyrgð á heimilinu og er kátur og í góðu skapi.“

Þarna þarf að hafa í huga að Wagner hafði verið í löngu og barnlausu hjónabandi með Minnu; að vísu átti Minna dóttur sem hún eignaðist á táningsárum en lét alltaf líta út fyrir að dóttir hennar væri systir hennar. Wagner þráði að eignast börn og með Cosimu rættist sá draumur, auk þess sem hann eignaðist þá einnig tvær stjúpdætur, sem hann mat jafn mikils og blóðdæturnar sínar tvær. Stoltastur var hann þó af yngsta barninu, einkasyni þeirra, Siegfried.

Tíu dagar: 19-28. apríl (bls. 752) „Flutningar [Wahnfried], ekki dagbókarskrif. „R. dreymdi skrítinn draum um Mendelssohn, sem vildi ekki skrifa neitt fyrir Schröder-Devrient, þar sem hún hafði ekki sungið við jarðarförina hans.“

Wagner virðist hafa litið svo á að Mendelssohn hafi verið langrækinn maður, því Mendelssohn var á þessum tíma búinn að liggja rúman aldarfjórðung í gröf sinni; hann dó 38 ára gamall.

Þriðjudagur, 12. maí (bls. 757) „[…] Seint um kvöldið segi ég við R., „Ég mundi vilja vera með þér á eyðieyju.“ „En við erum það,“ segir R. „Ég lifi núna eftir dauða minn – það er nokkuð sem maður verður að afreka. Það átti sér stað hjá okkar góða Haydn, sem var sprelllifandi þegar Mozart kom fram en eftir dauða Mozarts skrifaði Haydn sín bestu verk og naut lífsins. Þannig er það líka hjá mér, allur heimurinn er dauður fyrir mér! Ég hef enga tilfinningu fyrir heimi þar sem Freytag og Gutzkow eru stjörnurnar.

Guð á himnum, þegar ég hugsa til Adolfs frænda! Mikið hefði ég verið stoltur af að kynna hann fyrir þér, að segja við þig: Það er af þessum stofni sem ég kem. Hinn fíngerði, blíði tónn í rödd hans, hið göfuga og frjálsa form huga hans: hann var skilgetið afkvæmi viðhorfa Goethes.“

Líklega eru flestir Þjóðverjar hvað stoltastir af landa sínum Goethe, en greindarvísitala hans hefur verið áætluð hærri en flestra annarra manna.

Föstudagur, 24. júlí (bls. 776) „Á meðan ég var að sinna ýmsum hlutum utanhúss, varð R. að sinna ýmsu innandyra, sem gerði það að verkum að eftir hádegi fórum við að ræða ýmislegt í sambandi við heiminn og listamanninn. Í því sambandi segir hann mér frá því þegar hann var eitt sinn í göngutúr með Dr. Wille og Herweg í Swiss þá varð hann svo þreyttur að hann bað hina, að fara á undan sér; Dr. Wille hélt í skilningsleysi sínu að R. væri bara latur, sló í bakið á honum og skipaði honum að halda áfram að ganga; R. hélt þá magnþrunginn reiðilestur með grófum blótsyrðum, og þegar það átti sér stað vitraðist honum ræða Loka yfir Rínardætrunum (bæði orð og tónlist), sem hann hafði alls ekki verið með í huga. „Hvernig þetta flýgur bara inn í hugann – ómögulegt að segja á hvaða hátt það gerist!

Þegar ég sest niður við píanóið, þá er það bara til að hressa upp á minnið, ekkert nýtt kemur til mín þá, ég er bara að reyna að finna það sem kom í huga mér á gremjulegustu stundunum. Þetta fór í taugarnar á Minnu, fyrri eiginkonu minni – hvernig ég var hinn rólegasti þegar hún fór kollsteypu í rifrildisham, en þá datt mér kannski svolítið í hug fyrir Tristan eða Valkyrjuna.“

Hann telur að orkan sem eflist í reiðinni beini sönnu eðli viðkomandi í framkvæmdaátt; það er aðeins síðar þegar verið er að vinna úr hugmyndunum að það er nauðsynlegt að hafa ró og næði og búa við líkamlega vellíðan, listræn úrvinnsla þarf á slíku að halda, en andagift hlær að öllum erfiðleikum og einnig þægindum. Hann minnir mig á að hann hafði ekki verið ánægður með kvintettinn í Meistarasöngvurunum og ég, sem hafði komið inn til hans þegar hann var að semja kvintettinn, hafði beðið hann um að halda honum inni. Óánægja hans hafði komið til vegna þess að hann hafði haft það á tilfinningunni að upprunalega andagiftin hefði verið öðruvísi, en svo hafði hann áttað sig á því að hún var eins og hann hafði útfært hana. Að semja tónverk er leit að fyrirbærum sem hafa komið áður inn í hugann, Guð má vita hvernig, hvar og hvenær.“ […].“ Notað í fyrirlestri um Rínargullið í DC (ÁB).

Laugardagur, 21. nóvember (bls. 806) „[…] Cosima þjáist, grætur, rænd hinni mestu gleði. R. afbrýðisamur út í Liszt. Lokið við Hringinn. „Börnin sjá mig gráta, gráta með mér….. R. fer til hvílu með bitrum orðum, ég sæki dapra Tristaníska hljómahuggun í slaghörpuna… dagur mikilla atburða…. dagurinn þegar miklir draumar rættust; ef snillingurinn þarf að fljúga svona hátt, hvað gerir þá hin auma eiginkona? Hún grætur sælum þjáningartárum.“

Getur ekki skrifað í dagbókina í eina og hálfa viku vegna vanlíðunar.

Árið 1875

Þriðjudagur, 9. mars (bls. 831) „[…] Faðir minn gagntekur okkur fullkomlega með túlkun sinni á Beethoven konsertinum – yfirþyrmandi hughrif. Töfrar sem eiga sér engan líka – þetta er ekki spilamennska, þetta er ómengaður hljómblær. R. segir að þetta afmái allt annað. […].“

Föstudagur, 23. apríl (bls. 842) „[…] „Þú ert alltaf í huga mér, vegna þess að það varst þú sem vaktir allt í mér upp aftur – ást, sköpunarkraft, allt.“

Sunnudagur 10. október (bls. 869) „Í dag eru 22 ár síðan ég sá R. í fyrsta skipti. […].“

Að vísu segir Cosima að það hafi verið 23 ár, en ritstjórar Dabókanna leiðrétta þetta.

Sunnudagur, 31. október (bls. 873) „Dapurlegar hugsanir særa mig – í fyrsta sinn stödd hér [München] síðan fyrir sjö árum; hugsanir um Hans! – […] erum komin á lestarstöðina kl. 8 um kvöldið, sömu stöð sem ég fór frá fyrir sjö árum!“

Þriðjudagur, 2. nóvember „[…] Um kvöldið [Vínarborg] Requiem eftir Verdi, langbest að segja ekki neitt um það. […]“

Miðvikudagur, 3. nóvember „[…] Um kvöldið Carmen, nýtt franskt verk, áhugavert út frá glossaleikanum í frönskum samtíma.“

Föstudagur, 5. nóvember (bls. 874) „Þjáningar R. hefjast, það er að segja, æfingar. Ég fer í margar heimsóknir; fór um kvöldið með börnunum að sjá ballettinn Brahma.“

[Meira skrifar Cosima ekki þann daginn].

Laugardagur, 6. nóvember „[…] Sá Carmen um kvöldið með R, ég fór síðan í boð hjá listamönnunum. Mikil smekkleysa.“

Fimmtudagur, 18. nóvember (bls. 876) „[…] – Kvöldboð [e. (f.) soirée] með Hellmesberger kvartettinum; ég er kynnt fyrir herra Brahms, sem leikur píanó kvartett eftir sjálfan sig – rauð-birkinn, óheflaður í útliti, ópusinn hans er mjög þurr og tilgerðarlegur. [4]“ 

Laugardagur, 20. nóvember „[…] [5] Richter þakkar R. fyrir hönd hljómsveitarinnar, kyssir hönd hans, þakkar honum síðan persónulega fyrir aðstoðina við sig… […].“

22. nóvember […] (bls. 877) „R. í framkallinu með söngvurunum á sviðinu í lokin, eitthvað sem veldur alltaf óþægilegum tilfinningum hjá mér [6]“.

22. nóvember (bls. 877) „Tannhäuser. [Notes:] Frábærir dómar, ræða Wagners: vel heppnað eins og Lohengrin á sama stað, Wagner heyrði verkið í fyrsta sinn þar fyrir 15 árum áður (1860). (bls. 1135).

Liszt frumflutti Lohengrin tíu árum áður (1850) í Weimar, þannig að Wagner varð að bíða í 10 ár eftir að heyra verkið, vegna útlegðarinnar.

Árið 1876

Fimmtudagur, 2. mars (bls. 896) „Fór í heimsóknir [7], fékk heimsóknir, um klukkan hálf sjö Lohengrin, töfrum líkust hljómsveitarstjórnun R.s er frábær, hljómsveitin spilar forleikinn á þann hátt sem ég hef aldrei heyrt fyrr, kórinn er stórfenglegur, einstaka söngvarar þó vart meðalfærir listamenn. […]“

Fimmtudagur, 24. ágúst (bls. 920) „Hertoginn af Meiningen í kvöldverð hjá okkur, […]; um kvöldið fjölmenn veisla hjá okkur, Saint-Saёns spilar á píanóið. […].“

Árið 1877

Miðvikudagur, 17. janúar (bls. 941) „Mér til mikillar gleði heyrði ég R. hlæja hátt; fljótlega eftir það færði hann mér bókina eftir Nohl, þar sem er lýsing á heimsókn Tomascheks til B[eethovens] og lýsing B.s á Meyerbeer – B. sagði að megin einkenni M.s væri skortur á hugrekki. [8] Um kvöldið lásum við Þúkidítes af vaxandi vitsmunalegri ánægju.“

Laugardagur, 20. janúar „Þolanleg nótt hjá R., hann dreymdi notalegan draum um gamla páfagaukinn sinn, sem kom fljúgandi til hans og kallaði „Richard, Richard!,“ og söng fyrir hann úr verkum hans.“ […].“

Fimmtudagur, 25. janúar (bls. 943) „Hann segir við mig: „Það er svolítið sem ég vil ekki segja þér.“ „Ó, segðu það.“ „Ég byrja á Parzival og læt hann ekki úr augsýn fyrr en honum verður lokið“, – sem fær mig til að ég hlæja hátt af gleði.“ […].“

Miðvikudagur, 31. janúar „Hann minnist þess að það eru 15 ár frá því að hann skrifaði síðast nýjan texta, Meistarasöngvarana í París; á þeim tíma var ekkert sem hélt honum á lífi nema sköpunarþörfin, núna eru það ég og börnin sem halda sköpunarþörfinni lifandi.“ […].“

Þriðjudagur, 30. janúar (bls. 944) „[…] R. minnist á að enginn hafi glaðst neitt yfir því að hann lét Wotan breytast í förumann. – […].“

Mánudagur, 19. febrúar (bls. 948) […] Mig langaði að biðja fyrir Hans með Siegfried, en ég óttaðist um áhrifin sem það hefði á barnið, sem horfir oft á mig djúpt hugsi og faðmar mig afar blíðlega, eins og hann skilji allt – og skilji líka að maður verður að þegja. „Mesta ógæfan er samviskubitið“ – ég áfellist ekkert og engan, finn bara hina óforbetranlegu synd að hafa fæðst. Ó, ef ég heyrði bara að Hans blómstraði, að hann væri við góða heilsu og lifði friðsælu lífi – hvað það mundi gleðja mig! – ég legg mig fram við að lesa upp um kvöldið, R. tekur eftir því að röddin mín er daufleg og spyr mig hvort ég vilji að hver sinni sínu; ég samsinni því þakklát og skrifa þessar línur núna – en fyrir hvern er ég að skrifa? Til hvers? Ef minn elskulegi Siegfried kemst að því hvað ég hef þjáðst, setti þá ekki að honum hroll? En hann skal fá að vita að í gegnum allar mínar þjáningar, hef ég blessað hann og föður hans og hef hatað einungis sjálfa mig, formælt aðeins sjálfri mér – nei, ekki bara það, líka þjáðst ómælanlega.“

Miðvikudagur, 14. mars (bls.952) „R. er að skrifa víxlu-leikritið; […] Hann á að heita Parsival [ekki Parzifal]. Um kvöldið les hann fyrir mig atriðin [9] þar sem J. Sesar birtist, og R. segir að það eigi að túlka hann sem sérvitran, þreyttan mann, eins og honum er lýst hjá Plútark; þegar hann segir einu sinni að Brútus þurfi hið minnsta að bíða “until the tired flesh fell away“ hjá honum – svipar það dálítið til Cromwells. Ó, bara ef leikarar gætu farið í skólann hjá R., til að heyra túlkun hans á Brútusi, sem er hreinskilinn og þungbúinn, túlkun hans á Sesari, sem er látlaus og þreyttur. Hann les um Brútus hjá Plútark.“

Fimmtudagur, 12. júlí (bls. 971) […] Átta hamingjudagar! [London] […].“
973 „Miðvikudagur, 18. júlí […] R. segir mér að hann sé alltaf leiður yfir því að við skyldum ekki hafa náð saman 15 árum áður: „Hvað ég hefði þá sloppið við mikinn þvætting“.

Mánudagur, 23. júlí (bls. 974) „Fórum að skoða Hieronymus Holzschuher [10] í G[ermanic] safninu [11], þessi frábæra mynd fellur líka R. vel í geð. „Ég hefði þurft að kynnast þessum manni,“ segir hann, „hann hefði skilið mig.“ – Leggjum af stað til Weimar. […].“

Laugardagur, 25. ágúst (bls. 979) Giftingardagurinn okkar. […].“

Fimmtudagur, 27. september (bls. 984) „[…] R. harmar þá staðreynd að við skyldum ekki hafa fundið hvort annað og sameinast fyrir 20 árum; ég bendi á að það sé þó af hinu góða að við skyldum sameinast fyrir 13 árum. – […].“

Föstudagur, 19. október (bls. 988) „[…] Fyrir 22 árum heyrði ég Forleikinn að Tannhäuser í fyrsta sinn – það voru allra fyrstu kynni mín af verkum R.s fyrir hljómsveit. Þar með réðust örlög mín, trúlofun mín og Hans, og allar þær sorgir og gleði sem urðu hlutskipti okkar!“

Maður spyr sig: Hvers vegna ákvað hún að giftast hljómsveitarstjóranum en ekki tónskáldinu? Það er eins og sagt er um rómantíkina: nálægðin skiptir máli – Hans var nálægt henni, en Wagner var einhversstaðar langt í burtu.

Miðvikudagur, 24. október (bls. 989) […] R. líður ekki vel […] hann vill að ég sé nálægt honum. „Ég vona að það séu ekki nein vandamál í hjartanu,“ segir hann. […] Um kvöldið les R. fyrir okkur úr Alexander eftir Pfaffe Lamprecht; ekki mikil ljóðræna í því verki og lítil list – hversu miklu listrænni hetjusögurnar eru, vegna þess að skáldin þar vissu hvað þau voru að gera! […].“

Sunnudagur, 18. nóvember (bls. 997) „[…] Um kvöldið Hamlet. Lestur R.s er óumræðilega átakanlegur, hann sjálfur mikilfenglegur, mjög göfugur bæði persónulega og listrænt. […].“

Sunnudagur, 2. desember (bls. 1000) „[…] R. er að vinna, en eftir hádegismat segir hann, „Ég er að skrifa Parsifal einungis fyrir eiginkonu mína – ef ég þyrfti að reiða mig á þýska andann, hefði ég ekkert meira að segja.“ […].“

Miðvikudagur, 5. desember (bls. 1002) „[…] R. segir mér að hann hafi soðið saman fína blöndu [e. (f.) mélange] fyrir skjaldsveinana þegar þeir fara burt með dauða svaninn: þema Amfortasar, þema Herzeleide [12] og svanaþemað úr Lohengrin.“

Laugardagur, 29. desember (bls. 1010) „[…] Þegar ég spurði hann að því hvort hann hefði ekki komið sér upp aðferð til að framkvæma töfrabrögð, að láta mig hætta að verða til, og verða hluta af honum, þá benti hann í átt að legstaðnum okkar. – “

Við höfum nú skoðað nokkrar tilvitnanir í fyrra bindið af Dagbókum Cosimu. Þá bók er erfitt að yfirgefa án þess að minnast á örfáar sundurlausar en safaríkar skýringar sem fylgja bókinni; skýringarnar fylla raunar 150 blaðsíður.

Skýringar

1035 „9. desember 1869 Wilhelmine Schröder-Devrient (1804-60) dramatískur sópran, einn mesti listræni áhrifavaldurinn í lífi Wagners frá því að hann heyrði og sá hana, árið 1829, þegar hann var sextán ára gamall, þá söng hún Leonóru í Fidelio eftir Beethoven; það voru hinir miklu leikhæfileikar hennar, fremur en röddin, sem kveiktu í ímyndunarafli hans; hún var hluti af óperuhópnum í Dresden þegar hann bættist í þann hóp sem hljómsveitarstjóri og hún var hans fyrsta Adriano í Rienzi, Senta í Hollendingnum fljúgandi, og Venus í Tannhäuser.“

1055 „25. desember 1870. The Tribschen Idyll: seinna þekkt sem Siegfried Idyll.“ Fyrsta hugmynd að þemanu1864 í Starnberg (bls. 1059). Verkið tileinkað Cosimu. Henni sárnaði að Wagner gerði það síðan að almannaeign og notaði það í Hringnum.

1062 Jóhanna Wagner (stjúpdóttir Alberts, elsta bróður Wagners).

1075 Píanóútsetning Wagners, 1830, á 9. sinfóníu Beethovens.

1076 Kaspar Hauser. 16 ára, kom fram í Nuremberg. Stunginn til bana 1833 (21 árs).
(Bls. 1104: um hann voru skrifaðar þrjár bækur, Cosima vitnar í eina þeirra.) [13]

1077 Jósef Rubinstein píanóleikari. [14] Gerði snilldar píanóútsetningar á Siegfried Idyll og hlutum úr Hringnum. Jósef var um tíma heimilis-píanóleikari Wagner-hjónanna í Wahnfried.

1079 Karl Devrient, mjög myndalegur, giftur stór-leikkonunni/sópraninum Wilhelmine 1823-28. Bróðir leikaranna Edvards og Emils.

1081 Cosima kom með Hans í heimsókn til Wagners í Zurich, í september 1857. Wagner byrjar að semja Tristan skömmu síðar, 1. okt.

1082 Darwin: Uppruni tegundanna, 1859.

1085 Lilli Lehmann (1848-1929), rómaður Wagner sópran (mamma hennar þjálfaði systurnar, hún var sjálf í Kassel þar sem Spohr var hljómsveitarstjóri).

1088 Friðþjófs saga. Íslendingasaga.

1090 Magdeburg. Wagner hljómsveitarstjóri þar 1834-36. Þar hreifst Wilhelmine Schröder-Devrient af Wagner sem hljómsveitarstjóra og bauðst til að syngja á tónleikum hans árið 1835 (sem hún og gerði). Wagner giftist Minnu í Magdeburg.

1093 Tannhäuser fyrst á svið 1845. [15]
Í Riga (höfuðborg Lettlands): Þaðan flúði Minna í maí 1837 með verslunarmanninum Dietrich. Wagner elti hana til Dresden en hún kom ekki með honum til baka; kom reyndar seinna.

1095 Völsungasaga Íslendingasaga.
Meistarsöngvararnir fyrst á svið 1868 í München.
1096 Carlyle um Goethe. Fraser‘s Magazine, no. 26 (1832). Mynd eftir Stieler af Goethe, undir myndinni stendur: „Lesandi góður, í þessu höfði rúmast spegilmynd af öllum heiminum, í svo himnesku samræmi að ekki verður til jafnað við nokkurn nema Shakespeare frá því að hann yfirgaf okkur.“

1097 Þegar Goethe dó árið 1832, var Wagner 19 ára.

1124 Bruckner í heimsókn.

1126 Liszt og Wagner komu aðeins í tvö skipti fram báðir á konsert. [16] Í síðara skiptið var það í Pest í Ungverjalandi, 10 mars árið1875. Á efnisskrá voru verk eftir Liszt, Wagner og Beethoven.
Natalie Planer, óskilgetin dóttir Minnu, sem hún eignaðist 17 ára, áður en hún kynntist Wagner. Minna lét líta svo út sem Natalie væri systir hennar til að forðast hneyksli.

1127 Duke of Meiningen. Meiningen leikhópurinn var einn besti leikhópur sem fram hefur komið: Sterkur í hópleik, búningum og sviðsmyndum. Ferðaðist um Evrópu í 16 ár (1874-1890).

1127 Lokatónar Götterdämmerung ekki sungnir, (enginn texti); tónar í stað orða. Áhrif frá heimspekingnum Schopenhauer.

1133 10. október 1853. Liszt í París með börn sín. Þetta var í fyrsta skipti sem Cosima sá Wagner. 22 árum síðar, á þessum sama degi, minnist hún þessarar dagsetningar.

1134 Í nóvember 1875, frumflutningur á Carmen eftir Bizet í mars 1875 í París. Þessa óperu taldi Nietzsche, eftir að hann fór að gagnrýna Wagner, betri heldur en verk Wagners.

1135 Glimrandi dómar um Tannhäuser í Vín, Wagner viðstaddur, nóvember 1875. 15 árum áður í Vín, heyrði Wagner loksins Lohengrin í fyrsta sinn, 10 árum eftir frumsýningu á verkinu. Hvað tafði: refsing gegn honum vegna þátttöku í byltingartilrauninni í Dresden 1849.

1136 Wieck faðir Klöru Schumann heimsótti Beethoven, sem spann fyrir hann í klukkutíma á píanóið.

1138 Eina skiptið sem Wagner stjórnaði hljómsveitinni í Lohengrin var í mars 1876 í Vínarborg.

1141 Glasenapp semur fyrstu ævisögu Wagners: Vol. 1 1876; 1877: Vol. 2; 1911: Vol. 6.
Hlutverkaskipan í fyrsta Hringnum.

1142 Pedro II, keisari í Brasilíu mætti á frumuppfærslu á Hringnum. Fór ókynntur á hótel, skráði sig í móttökubókina sem keisara.
– Wagner hélt ræðu, benti á Liszt og sagði að fólk hefði ekki heyrt nein verk eftir hann ef Liszt hefði ekki stutt við bakið á honum.
– Bréf frá Bæjarakóngi: Mesta hamingja sem kóngurinn hafði upplifað, að sjá Hringinn.

1144 Síðasta sinn sem Wagner og Nietzsche hittast: Sorrento í nóvember 1876.

1154 Meistarasöngvararnir frumfluttir í München 1868. Síðasta borgin í Þýskalandi sem sýndi Meistarsöngvarana var Nuremberg (en verkið gerist þar).

Tilvísanir

[1] Tileinkað Cosimu, ekki Siegfried eins og segir ranglega í ævisögu Cosimu (haft eftir dóttur Siegfrieds í ævisögu hennar). Síðar gert opinbert og kallað Siegfried´s Idyll og sett inn í Hringinn. Cosimu sárnaði þessi opinberun vegna þess að verkið var samið sem persónuleg og sjálfstæð afmælisgjöf til hennar.

Samkvæmt Wagner var þetta eina verk hans sem rekja mátti til ævisögu hans, lið fyrir lið. Eitt frægasta atriðið í ævisögu Wagner var frumflutningur verksins.

[2] Annars staðar lýsti Cosima því að þetta hjólböruævintýri stæði í huga hennar sem tákn um frelsi og það hvernig Wagner væri til í að bera hana á höndum sér.

[3] Sjá Skýringar bls. 1096.

[4] C-moll kvartettinn Ópus 60, saminn á árinu.

[5] Í Vínarborg.

[6] Sjá 2. maí 1878, bls. 68 (Síðara bindi). [Tengist frægð – og þá væntanlega vegna föður hennar sem hún missti að miklu leyti af sem barn vegna frægðar hans. Liszt varð síðan leiður á frægðinni, eins og flestir].

[7] Í Vínarborg.

[8]  Hugrekki Beethovens kemur kannski ekki síst fram í Variasjónum hans, t.d. á stuttu verki eftir Mozart.

[9]  Shakespeare.

[10] Dürer.

[11] Nuremberg

[12] Herzeleide: móðir Parsifals. Herze: hjarta, leide: sorg. Herzeleide: hjartasorg.

[13] Nokkrar kvikmyndir hafa verið gerðar um Kaspar Hauser, kannski sú frægasta eftir Werner Herzog (1974).

[14] Ekki skyldur Anton Rubinstein.

[15] Í Dresden.

[16] Í Skýringum við Dagbækur Cosimu segir að Liszt og Wagner hafi aðeins einu sinni komið fram saman á tónleikum. Hið rétta er að þeir gerðu það tvisvar; fyrra skiptið var í St. Gallen 16. nóvember árið 1856; sjá bls. 203 í bókinni Richard and Cosima Wagner, Biography of a Marriage, (1982) eftir Geoffrey Skelton, sem þýddi Dagbækur Cosimu á ensku.

[17] 1868-1869: München, Karlsruhe, Dresden, Mannheim, Dessau, Weimar; 1870: Berlin.