Tungumál Wagners

Safnaðarheimili Dómkirkjunnar, 6. mars 2021

Tónlist og tungumál fléttast saman á undraverðan hátt í verkum Wagners. Í þessu erindi verður sérstaklega fjallað um skáldamálið í Niflungahringnum. Eins og Árni Björnsson hefur rakið leitaði Wagner í þessu mikla verki fyrirmynda í forníslenskum kveðskap, ekki aðeins í efni og söguþræði heldur nýtti hann sér líka formlega þætti eins og bragarhætti, hrynjandi, stuðla og höfuðstafi. Venjulega fylgdi Wagner íslensku heimildunum býsna nákvæmlega þótt raunar megi greina ákveðna innri þróun í textanum þar sem tökin á formlegum þáttum verða sífellt traustari. Þegar vikið er frá fyrirmyndunum, t.d. með ofstuðlun, er það iðulega gert í meðvituðum listrænum tilgangi. Sérstæð fyrirbæri í texta Wagners eru m.a. endurtekning á tilteknum hljóðum og notkun hljóðlíkingarorða sem ætlað er að laða fram ákveðnar kenndir, góðar eða slæmar, í huga áheyrenda. Í erindinu verður enn fremur rifjuð upp íslensk þýðing Þorsteins Gylfasonar á atriðum úr Niflungahringnum og sýnt fram á að hún sé vel heppnuð málamiðlun milli frumtextans og íslensku heimildanna.

Þórhallur Eyþórsson er prófessor í málvísindum við Háskóla Íslands. Hann lauk doktorsnámi í málvísindum frá Cornell-háskóla árið 1995 en meistaraprófi í indóevrópskri samanburðarmálfræði, grísku og latínu frá Ludwig-Maximilians háskóla í München árið 1986. Hann hefur starfað við Háskóla Íslands frá árinu 2005 en var áður við störf í Bandaríkjunum, Bretlandi og Noregi. Sérsvið Þórhalls er söguleg málvísindi og hann rannsakar einkum breytingar í setningagerð íslensku og skyldra mála, t.d. þróun orðaraðar og fallakerfisins í íslensku og færeysku í samanburði við önnur norræn og germönsk mál. 

Þórhallur Eyþórsson
Þórhallur Eyþórsson

Hann hefur einnig ritað um endurgerð eldri málstiga, frumnorrænar rúnaristur og skáldamál í fornum kveðskap. Hann hefur stjórnað og tekið þátt í fjölmörgum vísindaverkefnum, innlendum og alþjóðlegum, m.a. um gerð sögulegs gagnagrunns fyrir eddukvæði og um fallakerfi indóevrópskra mála (með styrk frá Evrópska rannsóknaráðinu). Þórhallur hefur lengi haft áhuga á Wagner, ekki síst á sambandi tónlistar og texta í verkum hans. Hann átti um árabil sæti í stjórn Hátíðar ungs listafólks (Festival junger Künstler) sem jafnan er haldin í tengslum við Wagnerhátíðina í Bayreuth.nsku og færeysku í samanburði við önnur norræn og germönsk mál.