Wagnerisminn á Norðurlöndum

Mynd: Dauði Hervarðar, einnar aðalpersónu óperunnar Tirfing. Peter Nicolai Arbo (1831-1892).

Fyrsta samkoma vetrarins verður 27. september kl 14:00 í Safnaðarheimili Neskirkju. Egill Arnarson, ritari félagsins, verður með erindi um Wagnerismann á Norðurlöndum og sýnir stutta óperu eftir Stenhammar:

Áhrif Wagners á tónsköpun Norðurlandabúa birtust með ýmsum hætti. Sum tónskáld stældu hann t.d. með óperum um víkinga þar sem sótt var í fornsagnaarfinn, en önnur höfðu hann að fyrirmynd við listræna nýsköpun. Sjónum er hér einkum beint að fimm tónskáldum og hvernig þau sóttu í Wagner: Andreas Hallén, Wilhelm Peterson-Berger, Victor Bendix, August Enna og Paul von Klenau. Verk þeirra hafa verið flestum gleymd en á seinustu árum hafa nokkur þeirra verið flutt á ný og hljóðrituð. Fyrir vikið fæst fyllri mynd af tónlistarsögu Norðurlanda í lok nítjándu aldar og upphafi þeirrar tuttugustu.

Að erindi loknu verður sýnd upptaka Óperunnar í Malmö af Tirfing eftir Wilhelm Stenhammar.