Undirkaflar

Eiginlega ætti að skrifa óperu
um Wagner-fjölskylduna

Undirtitill

Óperublaðið ??????

Meðal þeirra fjölmörgu sem gerðu sér ferð á Wagner-hátíðina í Bayreuth ágúst síðastliðnum var Árni Heimir Ingólfsson, doktorsnemi í tónvísindum við Harvardháskóla, en hann var í hópi 252 styrkþega Wagner-stofnunarinnar sem boðið var á hátíðina að þessu sinni.

Wagner-félög eru starfandi víðsvegar um heim og að sögn Árna Heimis má hvert félag senda einn styrkþega á hátíðina á ári hverju. Richard Wagner félagið á Íslandi hefur milligöngu um að senda fulltrúa héðan. Að þessu sinni sóttu hátíðina tæplega 200 styrkþegar frá Þýskalandi og rúmlega 50 frá öðrum löndum. Hópurinn var á hátfðinni í þrjá daga, 4.- 6. ágúst en alls stendur hátíðin yfir rúman mánuð, 25. júlí – 28. ágúst.

Fín föt og flottir skartgripir

„Hver styrkþegi fékk miða á þrjár óperusýningar, mat, ódýra gistingu, ókeypis aðgang að öllum söfnum og fyrirlestrum“ segir Árni Heimir. „Þetta var í rauninni mjög stíf dagskrá. Við byrjum á þvf að fara á söfn kl. 9 á morgnana, svo var fyrirlestur kl. 10.30, þá hádegismatur og svo byrjuðu óperusýningarnar kl. 16. Og þá þurftu allir að vera búnir að koma sér í sitt fínasta púss og komast á staðinn, sem er jú svolítið fyrir utan bæinn.“ Gerð eru tvö klukkutfma hlé á sýningunum, „enda eins gott, því sætin eru ansi óþægileg“, segir Árni Heimir. Hléin eru kapítuli út af fyrir sig. „Þar má sjá mikið af fínum fötum og flottum skartgripum,” segir hann.

Með söguna á herðunum

Húsinu hefur sáralítið verið breytt síðan Richard Wagner lét byggja það en fyrsta hátíðin var haldin þar árið 1876. „Þetta var mikið hátíðarár að þessu sinni, vegna þess að nú eru liðin 125 ár frá þvf að hátíðin var haldin fyrst og 50 ár frá því að hátíðin var haldin í fyrsta skipti eftir stríð en þá voru það þeir bræður, Wieland og Wolfgang Wagner, sonarsynir Wagners, sem tóku upp þráðinn og byggðu allt upp aftur. Á þeim tíma var orðsporið í rúst vegna tengslanna við Hitler,“ segir Árni Heimir. Hann segir það hafa verið mjög sérkennilega upplifun að sitja og horfa á Lohengrin sem Adolf Hitler sá og hreifst af í þessu sama húsi árið 1936. „Maður er svolítið með söguna á herðunum þegar maður situr í þessu gamla húsi,“ segir hann.

Meistarasöngvararnir frá Nürnberg var sú sýning sem Árni Heimir heillaðist mest af á Wagner-hátíðinn í Bayreuth.
Meistarasöngvararnir frá Nürnberg var sú sýning sem Árni Heimir heillaðist mest af á Wagner-hátíðinn í Bayreuth.

„Það var mjög gaman og sérkennilegt að vera þarna einmitt núna, vegna þess að það hefur allt verið á suðupunkti í þessari fjölskyldu vegna spurningarinnar um hver eigi að taka við af Wolfgang Wagner sem stjórnandi hátíðarinnar. Eiginlega ætti nú einhver að taka sig til og semja óperu um Wagner-fjölskylduna og allt hennar líf!“

Hljómburðurinn hannaður fyrir Wagner og af Wagner

Árni Heimir og félagar sáu þrjár óperur á þremur dögum; Lohengrin, Meistarasöngvarana frá Nürnberg og Parsifal en daginn eftir að hann hélt heimleiðis kom hópur frá Richard Wagner félaginu á Íslandi til þess að sjá Niflungahringinn. „Mér þótti uppfærslan á Meistarasöngvurunum alveg rosalega skemmtileg, af óperum Wagners er þetta er eiginlega gamanóperan. Ég hafði aldrei heyrt þessa óperu áður og þess vegna var hún kannski mesta uppgötvunin. Það var líka mjög sérstakt að sjá Parsifal í húsinu sem sýningin var hugsuð fyrir. Parsifal er reyndar eina óperan sem Wagner samdi eftir að hann byggði húsið og upphaflega hafði hann víst hugsað sér að hún yrði bara sýnd í Bayreuth. Og það var blátt bann við því að flytja hana annars staðar en þar, alveg fram til ársins 1913, að ég held.“

Árni Heimi og Barbara

Það var Wolfgang Wagner sjálfur sem leikstýrði Meistarasöngvurunum og Parsifal. „Eiginlega kom það mér á óvart hvað þessar uppfærslur hans voru góðar, en fyrirfram hafði ég ekki gert mér neitt sérlega mildar væntingar. Versta uppfærslan af þessum þremur sem ég sá fannst mér hins vegar vera Lohengrin, en hún var eftir mann sem heitir Keith Warner. Hún var svo dimm og drungaleg og einkenndist af þessari að mínu mati neilkvæðri þróun í óperuleikstjórn, þegar leikstjórinn fer að upphefja sjálfan sig á kostnað verksins. Það var margt að gerast á sviðinu sem var ekki í neinu samræmi við tónlistina sjálfa. Uppfærslur Wolfgangs voru tiltölulega hefðbundnar en þær virkuðu einstaklega vel. Músíkalskt gekk allt vel upp og var mjög vel heppnað. Bæði Meistarasöngvurunum og Parsifal stjórnaði Christian Thielemann, sem er einn helsti óperustjórnandinn Þýskalandi núna. Söngvararnir voru heldur ekki af verri endanum, t.d. Andreas Schmidt, sem söng bæði í Meistarasöngvurunum og Parsifal. Eins var þarna söngkona sem heitir Violeta Urmana og söng i Parsifal. Hún sló gjörsamlega í gegn, þannig að músíkalskt var þetta alveg einstakt. Og virkar líka allt öðru vísi út af hljómburðinum í þessu húsi sem er náttúrulega hannaður fyrir Wagner og af Wagner,“ segir Árni Heimir.