Er Gnitaheiði til?
Vésteinn Ólason
Vísindavefurinn 19. September 2001
Margir vilja sjálfsagt flokka þetta nafn með staðanöfnum goðsagna eins og Valhöll eða Ásgarði og gera ráð fyrir að staður þessi hafi aldrei verið til nema í sögnum og kvæðum. Gnitaheiði á að vísu að vera í mannheimum, enda Sigurður maður, en þar er einkum aðsetur drekans Fáfnis. Meðan kvæði um Sigurð Fáfnisbana voru alkunn hafa menn velt fyrir sér hvar þessi sögustaður væri og komist að niðurstöðu.
Í Leiðarvísi Nikulásar ábóta á Munkaþverá handa pílagrímum á suðurgöngu, sem hann hefur samið skömmu eftir miðja 12. öld en varðveittur er í AM 194 8vo, handriti sem er skrifað 1387, er getið um Gnitaheiði. Þar segir:
Þá er fjögurra daga för til Meginzo-borgar [Mainz], þar í milli er þorp, er Horus heitir, annað heitir Kiliandur, og þar er Gnita heiður, er Sigurður vó að Fáfni. (Alfræði íslensk I (1908), bls. 13.)
Staðurinn er sem sagt í Vestfalen í Þýskalandi. Margfróðir þýskir lærdómsmenn telja að eitthvert örnefni, sem hljómað hafi líkt og „Gnitaheiði“, hafi vakið þessa hugmynd og hafi hún styrkst af því að í þýskum Niflungasögnum gerast atvik nálægt Rín.
Af Atlakviðu mætti ráða að Gnitaheiði hafi verið í ríki Atla Húnakonungs og hefði hún þá verið sunnar.
Eina örugga svarið við spurningunni er því þetta: Gnitaheiði er til í skáldskap