Ágætu félagar í Wagner.
Fyrst óvænt sorgarfregn. Píanóleikarinn og Wagnersérfæðingurinn Stefan Mickisch er látinn, öllum að óvörum, aðeins 58 ára að aldri. Hann hélt árum saman, með miklum glæsibrag, kynningarfyrirlestra um óperu dagsins í Bayreuth og munu margir félagsmenn hafa farið og hlýtt á hann. Við buðum honum til Íslands á sínum tíma en úr því gat ekki orðið. Hann hafði látið í sívaxandi mæli í sér heyra í þjóðmálaumræðu á síðustu misserum, m.a. gagnrýnt harkalega sóttvarnaraðgerðir stjórnvalda í Þýskalandi, m.a. með orðunum: “Beethoven hefði aldrei verið með grímu”. Umdeild orðræða hans leiddi m.a. af sér “Hausverbot” í Bayreuth í lok síðasta árs.
https://klassik-begeistert.de/zum-tod-von-stefan-mickisch-klassik-begeistert-de/
Framundan:
Á morgun í hádeginu, 12.15 eru ókeypis Kúnstpásutónleikar Íslensku óperunnar. Mjög fín söngkona, Björk Níelsdóttir, syngur ásamt Evu Þyri Hilmarsdóttur. Þótt enginn sé aðgangseyririnn þarf engu að síður að tryggja sér miða gegnum miðasölukerfi Hörpu:
https://www.harpa.is/dagskra/vidburdur/kunstpasa-bjork-og-eva-thyri/
Á fimmtudag kl 20 syngur svo tengdasonur Íslands, Stuart Skelton ásamt Sinfóníuhljómsveit Íslands. Hann syngur Wesendonck ljóðin auk þess sem flutt verða atriði úr Tristan und Isolde. Á efnisskrá er einnig óbókonsert eftir Martinu. Ekkert hlé, ýtrustu sóttvarnir og hólfaskipt.
https://www.harpa.is/dagskra/vidburdur/martinu-og-sibelius-sinfoniuhljomsveit-islands/
27. febrúar er komið að Sonju Yonchevu í tónleikaröð Metropolitan óperunnar ” Met Stars Live”. (www.metopera.org). Hún er víðfræg díva og mun syngja þekktar óperuaríur. Hér er smá sýnishorn:
https://www.metopera.org/discover/video/?videoName=luisa-miller-tu-puniscimi-o-signore&videoId=5759058825001
6. mars kl 14 verður fyrirlestur Þórhalls Eyþórssonar um Tungumál Wagners í Safnaðarheimili Dómkirkjunnar.
Þórhallur Eyþórsson er prófessor í málvísindum við Háskóla Íslands. Hann lauk doktorsnámi í málvísindum frá Cornell-háskóla árið 1995 en meistaraprófi í indóevrópskri samanburðarmálfræði, grísku og latínu frá Ludwig-Maximilians háskóla í München árið 1986. Hann hefur starfað við Háskóla Íslands frá árinu 2005 en var áður við störf í Bandaríkjunum, Bretlandi og Noregi.
Sérsvið Þórhalls er söguleg málvísindi og hann rannsakar einkum breytingar í setningagerð íslensku og skyldra mála, t.d. þróun orðaraðar og fallakerfisins í íslensku og færeysku í samanburði við önnur norræn og germönsk mál. Hann hefur einnig ritað um endurgerð eldri málstiga, frumnorrænar rúnaristur og skáldamál í fornum kveðskap. Hann hefur stjórnað og tekið þátt í fjölmörgum vísindaverkefnum, innlendum og alþjóðlegum, m.a. um gerð sögulegs gagnagrunns fyrir eddukvæði og um fallakerfi indóevrópskra mála (með styrk frá Evrópska rannsóknaráðinu). Þórhallur hefur lengi haft áhuga á Wagner, ekki síst á sambandi tónlistar og texta í verkum hans. Hann átti um árabil sæti í stjórn Hátíðar ungs listafólks (Festival junger Künstler) sem jafnan er haldin í tengslum við Wagnerhátíðina í Bayreuth.“
20. mars verður svo fyrirlestur Reynis Axelssonar um Wagner og Schopenhauer og 24. apríl erindi Aðalheiðar Guðmundsdóttur um Völsunga í máli og myndum.
Reynir Axelsson fæddist á Bíldudal árið 1944. Að loknu stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1963 stundaði hann nám og kennslu í stærðfræði við háskólana í Göttingen, Princeton og Münster til ársins 1975, en frá því ári hefur hann starfað við Háskóla Íslands, fyrst sem sérfræðingur í stærðfræði á Raunvísindastofnun Háskólans, síðar sem háskólakennari, en eftir að hann komst á eftirlaunaaldur 2014 sem stundakennari. Sérgrein hans er fáguð rúmfræði. Frá 1995 til 1997 var hann ritstjóri Orðaskrár Íslenska stærðfræðafélagsins. Eitt helsta áhugamál Reynis utan stærðfræðinnar er tónlist, og einkum sönglög. Hann hefur þýtt um það bil hálft þriðja þúsund söngtexta úr tæplega 20 tungumálum á óbundið mál og skrifað fjölda ritgerða um tónlist, einkum fyrir efnisskrár tónleika; sjálfur hefur hann samið nokkur sönglög, en aðeins örfá þeirra hafa verið flutt opinberlega. Hann hefur flutt mörg erindi fyrir Wagner-félagið. Frá árinu 1979 hefur hann setið í stjórn Hins íslenska bókmenntafélags.
Aðalheiður Guðmundsdóttir er prófessor í íslenskum bókmenntum fyrri alda við Háskóla Íslands (http://uni.hi.is/adalh/). Hún lauk B.A.-prófi í íslensku árið 1989, cand.mag.-prófi í íslenskum bókmenntum árið 1993 og doktorsprófi frá heimspekideild Háskóla Íslands árið 2002. Aðalheiður var áður dósent í þjóðfræði við sama skóla, auk þess sem hún gegndi rannsóknarstöðu Sigurðar Nordals við Stofnun Árna Magnússonar. Hún hefur verið gestaprófessor við erlenda háskóla og tekið þátt í alþjóðlegum samstarfsverkefnum. Hún leiðbeinir nú fjórum doktorsnemum við Háskóla Íslands, er meðleiðbeinandi við háskólann í Stavanger, og á sæti í nokkrum doktorsnefndum. Hún vann að auki með leikhópnum Öðru sviði að uppfærslu leikritsins Úlfhamssögu.Helstu áherslur Aðalheiðar í kennslu og rannsóknum eru norrænar miðaldabókmenntir, handritafræði, fornaldarsögur, rímur og kveðskapur frá síðmiðöldum. Eftir Aðalheiði liggja bækur á borð við Úlfhams sögu frá 2001 og Strengleika frá 2006, auk fjölda fræðigreina (https://hi.academia.edu/AðalheiðurGuðmundsdóttir). Aðalheiður vinnur nú m.a. að fjögurra binda ritverki um fornaldarsögur.
Bestu kveðjur
Selma Guðmundsdóttir
www.wagnerfelagid.is