Richard Wagner félagið á Íslandi

Ágætu félagar í Wagner.

Fyrst óvænt sorgarfregn. Píanóleikarinn og Wagnersérfæðingurinn Stefan Mickisch er látinn, öllum að óvörum, aðeins 58 ára að aldri. Hann hélt árum saman, með miklum glæsibrag, kynningarfyrirlestra um óperu dagsins í Bayreuth og munu margir félagsmenn hafa farið og hlýtt á hann. Við buðum honum til Íslands á sínum tíma en úr því gat ekki orðið. Hann hafði látið í sívaxandi mæli í sér heyra í þjóðmálaumræðu á síðustu misserum, m.a. gagnrýnt harkalega sóttvarnaraðgerðir stjórnvalda í Þýskalandi, m.a. með orðunum: “Beethoven hefði aldrei verið með grímu”. Umdeild orðræða hans  leiddi m.a. af sér “Hausverbot” í Bayreuth í lok síðasta árs.
https://klassik-begeistert.de/zum-tod-von-stefan-mickisch-klassik-begeistert-de/

Framundan:
Á morgun í hádeginu, 12.15  eru ókeypis Kúnstpásutónleikar Íslensku óperunnar. Mjög fín söngkona, Björk Níelsdóttir, syngur ásamt Evu Þyri Hilmarsdóttur. Þótt enginn sé aðgangseyririnn þarf engu að síður að tryggja sér miða gegnum miðasölukerfi Hörpu:
https://www.harpa.is/dagskra/vidburdur/kunstpasa-bjork-og-eva-thyri/

Á fimmtudag kl 20 syngur svo tengdasonur Íslands, Stuart Skelton ásamt Sinfóníuhljómsveit Íslands. Hann syngur Wesendonck ljóðin auk þess sem flutt verða atriði úr Tristan und Isolde. Á efnisskrá er einnig óbókonsert eftir Martinu. Ekkert hlé, ýtrustu sóttvarnir og hólfaskipt.
https://www.harpa.is/dagskra/vidburdur/martinu-og-sibelius-sinfoniuhljomsveit-islands/

27. febrúar er komið að Sonju Yonchevu í tónleikaröð Metropolitan óperunnar ” Met Stars Live”. (www.metopera.org). Hún er víðfræg díva og mun syngja þekktar óperuaríur. Hér er smá sýnishorn:
https://www.metopera.org/discover/video/?videoName=luisa-miller-tu-puniscimi-o-signore&videoId=5759058825001

6. mars kl 14 verður fyrirlestur Þórhalls Eyþórssonar um Tungumál Wagners í Safnaðarheimili Dómkirkjunnar.
Þórhallur Eyþórsson er prófessor í málvísindum við Háskóla Íslands. Hann lauk doktorsnámi í málvísindum frá Cornell-háskóla árið 1995 en meistaraprófi í indóevrópskri samanburðarmálfræði, grísku og latínu frá Ludwig-Maximilians háskóla í München árið 1986. Hann hefur starfað við Háskóla Íslands frá árinu 2005 en var áður við störf í Bandaríkjunum, Bretlandi og Noregi.

Sérsvið Þórhalls er söguleg málvísindi og hann rannsakar einkum breytingar í setningagerð íslensku og skyldra mála, t.d. þróun orðaraðar og fallakerfisins í íslensku og færeysku í samanburði við önnur norræn og germönsk mál. Hann hefur einnig ritað um endurgerð eldri málstiga, frumnorrænar rúnaristur og skáldamál í fornum kveðskap. Hann hefur stjórnað og tekið þátt í fjölmörgum vísindaverkefnum, innlendum og alþjóðlegum, m.a. um gerð sögulegs gagnagrunns fyrir eddukvæði og um fallakerfi indóevrópskra mála (með styrk frá Evrópska rannsóknaráðinu). Þórhallur hefur lengi haft áhuga á Wagner, ekki síst á sambandi tónlistar og texta í verkum hans. Hann átti um árabil sæti í stjórn Hátíðar ungs listafólks (Festival junger Künstler) sem jafnan er haldin í tengslum við Wagnerhátíðina í Bayreuth.“

20. mars verður svo fyrirlestur Reynis Axelssonar um Wagner og Schopenhauer og 24. apríl erindi Aðalheiðar Guðmundsdóttur um Völsunga í máli og myndum.

Reynir Axelsson fæddist á Bíldudal árið 1944. Að loknu stúdentsprófi frá Mennta­skól­anum í Reykjavík árið 1963 stundaði hann nám og kennslu í stærðfræði við háskólana í Göttingen, Princeton og Münster til ársins 1975, en frá því ári hefur hann starfað við Háskóla Íslands, fyrst sem sérfræðingur í stærðfræði á Raunvísindastofnun Háskólans, síðar sem háskóla­kennari, en eftir að hann komst á eftirlaunaaldur 2014 sem stundakennari. Sérgrein hans er fáguð rúmfræði. Frá 1995 til 1997 var hann ritstjóri Orðaskrár Íslenska stærðfræða­félagsins. Eitt helsta áhugamál Reynis utan stærðfræðinnar er tónlist, og einkum sönglög. Hann hefur þýtt um það bil hálft þriðja þúsund söngtexta úr tæplega 20 tungumálum á óbundið mál og skrifað fjölda ritgerða um tónlist, einkum fyrir efnisskrár tónleika; sjálfur hefur hann samið nokkur sönglög, en aðeins örfá þeirra hafa verið flutt opinberlega.  Hann hefur flutt mörg erindi fyrir Wagner-félagið. Frá árinu 1979 hefur hann setið í stjórn Hins íslenska bókmenntafélags.

Aðalheiður Guðmundsdóttir er prófessor í íslenskum bókmenntum fyrri alda við Háskóla Íslands (http://uni.hi.is/adalh/). Hún lauk B.A.-prófi í íslensku árið 1989, cand.mag.-prófi í íslenskum bókmenntum árið 1993 og doktorsprófi frá heimspekideild Háskóla Íslands árið 2002. Aðalheiður var áður dósent í þjóðfræði við sama skóla, auk þess sem hún gegndi rannsóknarstöðu Sigurðar Nordals við Stofnun Árna Magnússonar. Hún hefur verið gestaprófessor við erlenda háskóla og tekið þátt í alþjóðlegum samstarfsverkefnum. Hún leiðbeinir nú fjórum doktorsnemum við Háskóla Íslands, er meðleiðbeinandi við háskólann í Stavanger, og á sæti í nokkrum doktorsnefndum. Hún vann að auki með leikhópnum Öðru sviði að uppfærslu leikritsins Úlfhamssögu.Helstu áherslur Aðalheiðar í kennslu og rannsóknum eru norrænar miðaldabókmenntir, handritafræði, fornaldarsögur, rímur og kveðskapur frá síðmiðöldum. Eftir Aðalheiði liggja bækur á borð við Úlfhams sögu frá 2001 og Strengleika frá 2006, auk fjölda fræðigreina (https://hi.academia.edu/AðalheiðurGuðmundsdóttir). Aðalheiður vinnur nú m.a. að fjögurra binda ritverki um fornaldarsögur.

Bestu kveðjur
Selma Guðmundsdóttir
www.wagnerfelagid.is