Á Operavision í nóvember – Fuglarnir í München

Kæru óperuvinir

Í viðhengi er skrá um netsýningar á OperaVision í nóvember. Af nýju eða nýlegu efni má nefna sýningu á Fidelio frá Garsington-óperunni og Der Kaiser von Atlantis eftir Viktor Ullmann sem lét lífið í útrýmingarbúðum Þjóðverja í Auschwitz.

Ég hafði mjög gaman af Fuglunum eftir Braunfels, netsýningu bæversku þjóðaróperunnar í München á laugardag. Æ, en ég verð samt að játa að mér finnst notkun nasistabúninga fyrir Hoffegut og Ratefreund vera fyrir löngu orðin kasúldin klisja. Ég verð að játa að Braunfels er mér ókunnur eða mjög lítið kunnur, eins og Viktor Ullmann.

Neðarlega á þessari síðu (Social Wall) sjáið þið viðbrögð áhorfenda.

Ég tók eftir þessu sem er skáletrað og hef límt það í skeytið.

The usual boo visitors were obviously not in the audience tonight at Bay. Staatsoper. Not a single boo for Castorf, who seemed to be disappointed…
Púarar voru víðs fjarri, enda ekki nema um 50 manns sem sátu grímuklæddir, mest á svölum, ekki í sal. Ég efast um að það sé markaður nú í Þýskalandi fyrir púgrímur, en sérstakar sönggrímur munu vera til.
Ef þið misstuð af sýningunni, verður hún aðgengileg á netinu frá og með 5. nóv. Sólarhringspassi kostar tæpar tíu evrur sem setur varla nokkurn mann á hausinn.

Umsagnir í þýskum netmiðlum eru yfirleitt mjög jákvæðar. Einhver þessara gagnrýnenda nefndi einnig að ekkert hefði verið púað.

Góða skemmtun,
Baldur