Ársskýrsla 2002

Aðalfundur 1. mars 2003 í Norræna húsinu

Skýrsla formanns á 7. aðalfundi félagsins 1. mars 2003  í Norræna húsinu.

Þetta er sjöundi aðalfundur Richard Wagner félagsins á Íslandi. Fundirnir hafa allir verið haldnir í Norræna húsinu þar sem stærstur hluti starfsemi félagsins hefur einnig átt sér stað.

Samkvæmt lögum félagsins er kosið í stjórn annað hvort ár og var það síðast gert fyrir einu ári og mun því stjórnin sitja óbreytt áfram.  Ég hef frá upphafi verið formaður félagsins. Þau Jóhann J. Ólafsson varaformaður og Sólrún Jensdóttir meðstjórnandi hafa einnig setið í stjórn frá upphafi, sömuleiðis þeir Árni Björnsson og Árni Tómas Ragnarsson, sem eru í varastjórn. Jón Ragnar Höskuldsson gjaldkeri tók við af Barða Árnasyni fyrir 5 árum og Halldór Halldórsson kom inn í stjórnina sem ritari fyrir 3 árum í stað Jóhannesar Jónassonar heitins. Í fyrra tók svo Jón Thoroddsen sæti Gretars Ívarssonar í varastjórn.

Ég ætla nú að rekja í stuttu máli starfsemi félagsins síðastliðið ár:

Að loknum 6. aðalfundi félagsins 17.  febrúar í fyrra hélt Viðar Pálsson sagnfræðingur afar áhugaverðan fyrirlestur undir heitinu: “Wagner og nasisminn – fortíðardraugurinn í Bayreuth.”

16. mars í fyrra kynnti Sveinn Einarsson óperuna Meistarasöngvarana frá Nürnberg og sýnd var af myndbandi uppfærsla frá Deutsche Oper í Berlín.

9 manna hópur fór til Berlínar um páskana til að sjá allar óperur Wagners, en stjórninni hafði tekist að útvega 10 miða. Þessi Wagnerveisla var í Staatsoper unter den Linden og voru allar sýningarnar í leikstjórn Harry Kupfers og hljómsveitarstjóri Daniel Barenboim. Þetta var í fyrsta sinn sem unnt hefur verið  að sjá allar óperurnar á sama stað á svona skömmum tíma.

Í apríl hélt dagskrá félagsins áfram með fyrirlestri númer tvö í kynningaröð Reynis Axelssonar á æskuóperum Wagners og var að þessu sinni fjallað um óperuna Das Liebesverbot eða Ástarbannið. Wagner lauk við að semja óperuna árið 1835 og var hún byggð á gamanleikriti Shakespeares Measure for Measure eða Líku líkt, eins og það heitir á íslensku í þýðingu Helga Hálfdánarsonar.

Snemma í maí efndi félagið til kynningar á Hollendingnum fljúgandi í samvinnu við Félag háskólakvenna í tilefni þess að óperan var sett á svið í Þjóðleikhúsinu á Listahátíð. Reynir Axelsson hélt kynningarfyrirlestur og sýnd var af myndbandi uppfærsla á óperunni frá Bayerische Staatsoper í München.  Uppsetning Hollendingsins var samvinnuverkefni Þjóðleikhúss, Listahátíðar, Íslensku óperunnar og Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Sýning þessi var stór viðburður í íslenskri óperusögu. Þetta var fyrsta Wagneróperan sem sviðsett var í heild sinni hérlendis og útkoman var afar heilsteypt og falleg sýning. Óperan var sýnd fimm sinnum fyrir fullu húsi. Hljómsveitarstjóri var Þjóðverjinn Gregor Bühl, leikstjórinn Saskia Kuhlman og leikmyndahönnuðurinn Heinz Hauser komu einnig frá Þýskalandi. Einsöngvarar, sem voru allir íslenskir nema Hollendingurinn stóðu sig með mikilli prýði.

Síðastliðið sumar sáu að venju  nokkrir félagsmenn sýningar í Bayreuth og voru þá á fjölunum Niflungahringurinn, Lohengrin, Tannhäuser og Meistarasöngvararnir.

Hátíðarinnar sl. sumar verður ef til vill helst minnst fyrir það, að í lok hennar var síðasta sýning Meistarasöngvaranna frá Nürnberg í leikstjórn Wolfgangs Wagner. Er ferli hans sem leikstjóra þar með lokið og því 51 árs tímabili sem þeir sonarsynir Wagners, Wieland og Wolfgang hafa í meira eða minna mæli verið leikstjórar sýninganna í Bayreuth. Þetta ár er því  fyrsta ár í sögu hátíðarinnar frá upphafi, þar sem enginn afkomandi fjölskyldunnar leikstýrir. Dóttir Wolfgangs og Guðrúnar Wagner, Katrín, er þó um þessar mundir að hasla sér völl sem leikstjóri og setti upp Hollendinginn fljúgandi hjá óperunni í Würzburg sl haust og þótti sýningin mjög athyglisverð.

Næsta samkoma á vegum félagsins var hinn árlegi haustfagnaður, sem samkvæmt hefð var haldinn á Hótel Holti laugardaginn 26. október sl. Fagnaðurinn hófst með afar áhugaverðum og skemmtilegum fyrirlestri Jóns Thoroddsen um Richard Wagner, Thomas Mann og Friedrich Nietzsche. Sópransöngkonan Valgerður Guðnadóttir söng fyrir gesti ásamt Kristni Erni Kristinssyni og gerði mikla lukku. Síðan var snæddur veislumatur undir veislustjórn Sveins Einarssonar. Undir borðum sögðu þeir Halldór Halldórsson og Börkur Aðalsteinsson frá ferðinni á Wagner Zyklus í Berlín, Var frásögn þeirra félaga af þessari einstæðu lífsreynslu bæði mjög fróðleg og skemmtileg.

Í nóvembermánuði var óperan Lohengrin sýnd af myndbandi hér í Norræna húsinu og var þar um að ræða uppfærslu frá Metropolitan óperunni í New York.

Í lok janúar á þessu ári var svo óperan Tristan og Isoldeeinnig sýnd af myndbandi hér í Norræna húsinu í áhrifaríkri uppsetningu frá Bayerische Staatsoper í München.

Fyrir utan þessa atburði sem ég hef talið upp hefur ýmislegt annað verið að gerast.

Það var sérstakt ánægjuefni og heiður fyrir okkur Íslendinga að í leikskrá Bayreuth hátíðarinnar sl. sumar birtist fallega myndskreytt grein eftir Árna Björnsson um íslenskan bakgrunn Niflungahringsins. Greinin og þýðingar hennar á ensku og frönsku spönnuðu samanlagt um 40 síður í skránni og var yfirskrift hennar „Island und der Ring des Nibelungen”.

Eins og ykkur öllum er kunnugt hefur það verið sérstakt metnaðar og baráttumál stjórnarinnar að koma rannsóknarniðurstöðum Árna úr bókinni Wagner og Völsungar á framfæri erlendis og var þetta afar mikilvægt skref í þá átt. Áður hafði félagið fjármagnað þýðingar bæði á ensku og þýsku og verið að reyna að finna útgefendur erlendis. Nú hafa þau ánægjulegu tíðindi gerst  að hið virta breska forlag  „Viking Society” mun gefa út enska þýðingu bókarinnar. Félagið lagði í fjáröflunarátak síðastliðið haust meðal félagsmanna og víðar í því skyni að auðvelda útgáfu hennar á þýskum markaði. Milli 50 og 60 félagsmenn tóku jákvætt undir þessa söfnun og greiddu sem svaraði 3.500 krónum og munu í staðinn fá eintak af bókinni á þýsku þegar hún kemur út og afsláttarkjör á fleiri eintökum.  Menntamálaráðuneytið hefur nú einnig gefið fyrirheit um framlag.

Náðst hefur samkomulag við Mál og menningu um prentun, útgáfu og dreifingu bókarinnar og  mun félagið í krafti þeirra styrkja sem fengist hafa, geta lagt um hálfa milljón til að hjálpa þarna upp á. Er vinnsla bókarútgáfunnar hafin og stefnt að því að hún komi út fyrir sumarið. Öllum þeim sem lagt hafa málinu lið eru færðar bestu þakkir.

Félagið er áfram aðili að  Alþjóðasambandi Wagnerfélaga, sem m.a. stendur fyrir árlegu þingi. Á síðastliðnu ári var það haldið  í Sevilla á Spáni, en á þessu ári  verður þetta árlega þing haldið hjá nágrönnum okkar í Kaupmannahöfn dagana 28.-31. maí. Þangað munu fara átta félagsmenn, þar á meðal formaður og sækja þar formannafund samtakanna. Þar verður m.a. boðið upp sýningu á Valkyrjunni og sérstaka hátíðarsýningu á Tristan og Isolde í Konunglega leikhúsinu. Auk þess er óperur Richards Strauss “Capriccio” og Salóme á dagskrá þessa daga.

Eitt af mikilvægustu verkefnum aðildafélaga alþjóðasambandsins er að fjármagna starf Richard Wagner Styrkþegastofnunarinnar í Bayreuth sem hefur það markmið að styrkja unga tónlistar- og sviðslistamenn til að sækja Bayreuthhátíðina . Félagið okkar mun nú sjötta árið í röð senda styrkþega út til Bayreuth. Í fyrra fór þangað ungur og efnilegur tenórsöngvari, Jónas Guðmundsson, en í ár mun væntanlega fara Davíð Ólafsson bassasöngvari, sem nýlega hefur verið fastráðinn hjá íslensku óperunni og getið sér afar gott orð. Framlag félagsins til þessa málefnis eru 650 þýsk mörk, sem það greiðir Stipendienstiftung í Bayreuth. Styrkþeginn  fær venjulega  að sjá þrjár óperusýningar, og auk þess m.a. leiðsögn við að  skoða bæði Festspielhaus, Richard Wagner safnið og hið nýja Franz Liszt safn. Í ár verður styrkþegum þó boðið að sjá allan Hringinn. Þess má geta að Menntamálaráðuneytið hefur frá upphafi styrkt félagið árlega um 25.000 krónur vegna þessa máls.

Nú í ár verða 250 styrkþegar á hátíðinni, 190 koma frá þýskum Wagnerfélögum, 36 frá öðrum félögum í V.- Evrópu og 24 frá félögum í A. – Evrópu.

Sjá: Styrkþegar félagsins

Á dagskrá félagsins fram til vors er eftirfarandi niðurneglt.  Hér á eftir, að loknum fundinum verður fjallað um Lúðvík II, konung af Bæjaralandi og samband þeirra Wagners, og sýnd bíómynd um Lúðvík eftir ítalska kvikmyndaleikstjórann Luchino Visconti.

Laugardaginn 22. mars verður þriðji fyrirlestur Reynis Axelssonar um Æskuverk Wagners hér í Norræna húsinu. Þar mun Reynir kynna óperuna Rienzi og sýna brot úr uppfærslu óperunnar í Prag, sem forseti Alþjóðasamtaka Wagner félaga, Josef Lienhart, hefur góðfúslega lánað okkur.

Árleg sýning á Parsifal mun að þessu sinni fara fram í París sunnudaginn 13. apríl kl.  14.30 í Bastillu óperunni. Þar verða tveir íslenskir söngvarar í stórum hlutverkum. Kristinn Sigmundsson mun syngja Gurnemanz og Guðjón Óskarsson Titurel. 36 manns munu hjá sýninguna og fljúga þeir flestir utan 11. apríl. Margir úr hópnum munu einnig sjá Eugene Onegin 14. apríl.

Fimmtudaginn 22. maí, á 190. afmælisdegi Richards Wagner, vill svo ánægjulega til að Sinfóníuhljómsveit Íslands verður með sérstaka Wagner tónleika. Þeim stjórna Gregor Bühl, sá sem stjórnaði Hollendingnum í vor. Einsöngvari verður Senta frá í vor, hin glæsilega söngkona Magnea Tómasdóttir.

Bayreuthháíðin 2003 :

Um það bil 30 manns fara á Bayreuth hátíðina í ár. Fjórir félagsmenn munu sjá Niflungahringinn II,  6.-11. ágúst. 12 manns verða á sýningum á Lohengrin, Hollendingum og Tannhäuser 12.-14. ágúst og álíka stór hópur á Niflungahring III, 20.-25. ágúst. Vegna vinskapar þeirra Wolfgangs og Guðrúnar Wagner við okkur Árna Tómas hefur okkur árlega tekist að útvega miða, sem við höfum látið félagsmenn hafa forgang að. Auk þess fást nú árlega keyptir fjórir miðar í nafni félagsins á þær sýningar sem styrkþegar til Bayreuth fá að sjá. Mun þetta gilda fyrir öll Wagner félög sem senda styrkþega.

Að lokum vil ég geta þess að félagar í Wagnerfélaginu eru nú 170 talsins. Nokkrir hafa heltst úr lestinni, en aðrir bæst í hópinn. Sem formaður vil ég  nota tækifærið og þakka ánægjulegt samstarf við stjórn félagsins og varastjórn. Ég vil einnig sérstaklega þakka þýska sendiráðinu sem styrkti starf félagsins ríflega í ár. Ásdís Kvaran færði félaginu gjöf frá Færeyjum Það er Sjúrdarkvida í flutningi færeyskra listamanna og færi ég henni bestu þakkir. Einnig styrkti Menntamálaráðuneytið félagið vegna ferðar styrkþega til Bayreuth eins og komið hefur fram og hefur gefið fyrirheit um mjög ríflegan styrk vegna útgáfu Wagner og Völsungar á þýsku.

Síðast en ekki síst vil ég fyrir hönd stjórnarinnar þakka öllum þeim  félagsmönnum, sem hafa hjálpað okkur  að halda uppi starfi félagsins með áhuga sínum og virkri þátttöku.

Selma Guðmundsdóttir