Ársskýrsla 2003
á 8. aðalfundi félagsins 27. mars 2004 í Norræna húsinu.
Skýrsla formanns á 8. aðalfundi félagsins 27. mars 2004 í Norræna húsinu.
Ágætu fundargestir.
Fyrir hönd stjórnarinnar býð ég ykkur velkomin til þessa fundar. Þetta er níundi aðalfundur Richard Wagner félagsins á Íslandi, en félagið var stofnað 5. desember árið 1995 að undangengnum undirbúningsstofnfundi, sem haldinn var sumarið á undan á sögufræga veitingastaðnum Eule úti í Bayreuth. Félagið verður því tíu ára seinni hluta þessa árs.
Samkvæmt lögum félagsins er kosið í stjórn annað hvort ár og var það síðast gert fyrir tveim árum. Ég hef frá upphafi verið formaður félagsins. Þau Jóhann J. Ólafsson varaformaður og Sólrún Jensdóttir meðstjórnandi hafa einnig setið í stjórn frá upphafi, sömuleiðis þeir Árni Björnsson og Árni Tómas Ragnarsson, sem eru í varastjórn. Jón Ragnar Höskuldsson gjaldkeri tók við af Barða Árnasyni 1998 og Halldór Halldórsson kom inn í stjórnina sem ritari árið 2000 í stað Jóhannesar Jónassonar heitins. Á aðalfundi 2002 tók síðan Jón Thoroddsen við sæti í varastjórn af Gretari Ívarssyni.
Ég ætla nú að rekja í stuttu máli starfsemi félagsins síðastliðið ár:
Að loknum 7. aðalfundi félagsins 1. mars flutti formaður erindi um Lúðvík II og Wagner og sýnt var af myndbandi úr kvikmynd hins þekkta ítalska kvikmyndargerðarmanns Luchino Visconti, LUDWIG II .
22. mars var fjórði og síðasti fyrirlestur Reynis Axelssonar í fyrirlestrarröðinni Æskuverk Wagners. Þar fjallaði Reynir um óperuna Rienzi og sýndi af myndbandi brot úr uppfærslu óperunnar frá Prag.
Í aprílmánuði var efnt til hópferðar til Parísar til að sjá Parsifal í Bastilluóperunni, þar sem þeir Kristinn Sigmundsson og Guðjón Óskarsson fóru með hlutverk Gurnemanz og Titurel. Það var stór viðburður að upplifa frábærar bassaraddir þessar tveggja Íslendinga í sömu sýningu í þessu stóra húsi. Þeir stóðu sig stórkostlega vel í afar sannfærandi uppfærslu, en hlutverk Gurnemanz er eins og Wagneristum er kunnugt eitt stærsta hlutverk óperulistarinnar. Það voru 36 manns sem fóru utan, nokkrir þeirra komu frá Vinafélagi Íslensku óperunnar, sem var boðið að slást í för. Auk Parsifal var í boði óperan Eugene Onegin eftir Tchaikovsky, afar hrífandi sýning. Hópurinn naut í ferðinni leiðsagnar Laufeyjar Helgadóttur, fararstjóra Flugleiða í París, í ýmsar ferðir, m.a. til Versala, og þáði boð íslenska sendiherrans í París, Sigríðar Snævar í sendiherrabústaðnum. Snæddur var kvöldverður á sögufrægum veitingastað, Bláu lestinni. Einnig fór hópurinn í vinsæla gönguferð undir leiðsögn Sveins Einarssonar.
22. maí, á 190. afmælisdegi Richards Wagner, efndi Sinfóníuhljómsveit Íslands til Wagnertónleika í Háskólabíói. Með hljómsveitinni söng sópransöngkonan Magnea Tómasdóttir, sem var fyrir tveim árum styrkþegi félagsins í alþjóðlegri keppni Wagnersöngvara og naut þar góðs gengis. Tónleikarnir vöktu að vonum mikla ánægju hjá félagsmönnum Wagnerfélagsins sem fjölmenntu og skáluðu svo á Mímisbar á Hótel Sögu í lok tónleikanna. Sérstakt hátíðarefni á þessum afmælisdegi Wagners var útkoma þýskrar þýðingar bókar Árna Björnssonar, Wagner og Völsungar, sem Mál og Menning gaf út.
Dagana 28. maí – 1. júní héldu Alþjóðasamtök Wagnerfélaga sitt árlega þing, að þessu sinni í Kaupmannahöfn. Átta félagsmenn lögðu land undir fót á þingið. Þar hafði verið sett upp mikil viðhafnardagskrá. Í Konunglega leikhúsinu var m.a. boðið upp á óperusýningar á Valkyrjunni, Tristan og Isolde og Salome eftir Strauss. Auk þess var haldin glæsileg kvöldveisla, þar sem fjölmargir danskir listamenn komu fram og heiðursgestur var sænska stórsöngkonan Birgit Nilsson, sem átti stórafmæli sl. ár. Auk þessara dagskrárliða var þarna haldinn formannafundur aðildafélaga alþjóðasamtakanna, sem formaður sat fyrir hönd félagsins og notaði þar tækifærið og kynnti nýútkomna bók Árna Björnssonar á þýsku.
Síðastliðið sumar fóru óvenju margir Íslendingar á Bayreuthhátíðina eða um 30 manns. Um helmingur þeirra sá Niflungahringinn í uppfærslu Jürgens Flimm, sem nú er á síðasta ári en hinir sáu Tannhäuser, síðustu sýninguna á Lohengrin og nýju uppfærsluna á Hollendingnum fljúgandi.
Vetrarstarf þessa starfsárs hófst svo með haustfagnaði félagsins á Hótel Holti 4. október. Heiðursgestur var Kristinn Sigmundsson, sem deildi með gestum reynslu sinni af löngum og glæstum söngferli sínum. Ung og upprennandi sópransöngkona, Hallveig Rúnarsdóttir söng fyrir gesti ásamt Árna Heimi Ingólfssyni píanóleikara. Boðið var upp á þríréttaða veislumáltíð undir þrautþjálfaðri veislustjórn Þórs Vilhjálmssonar. Ræðumaður kvöldsins Herdís Egilsdóttur kennari flutti eftirminnilegt erindi sem hún nefndi: „Leið okkar til Wagners“, þar sem hún sagði frá því hvernig hún og Anton Sigurðsson fv. skólastjóri Ísaksskóla urðu Wagneristar. Júlíus Einarsson sagði svo frá Bayreuthhátíðinni síðastliðið sumar og sýndi myndir úr uppfærslunum, sem varpað var á skjá.
8. nóvember var haldin dagskrá í Norræna húsinu um sænsku söngkonuna Birgit Nilsson, en hún varð 85 ára á sl. ári. Árni G. Stefánsson rakti æviferil söngkonunnar og rifjaði upp minningar frá námsárum sínum í Svíþjóð er hann upplifði söngkonuna í návígi á fjölum Stokkhólmsóperunnar. Júlíus Einarsson sýndi af myndbandi og DVD valin brot með söng hennar úr ýmsum uppfærslum og frá tónleikum og loks var sýnt myndband frá Vínarborg með viðtali við Birgit. Stjórnin hafði boðið Birgit Nilsson að koma til landins af þessu tilefni, en því miður treysti hún sér ekki til að þiggja boðið, en bað fyrir bestu kveðjur til félagsmanna.
Síðasta samkoma ársins 2003 var svo dagskrá um hljóðritanir á Niflungahringnum í umsjá þeirra Júlíusar Einarssonar og Reynis Axelssonar. Þar var m.a. sýnd heimildarmynd BBC „The Golden Ring“ frá 1965 um hljóðritun Niflungahringsins í Vín undir stjórn Sir Georg Solti.
Frá 25. janúar til 7. mars á þessu ári stóð félagið á tveggja vikna fresti fyrir myndbandssýningum á Niflungahringsóperunum fjórum. Er þetta í þriðja sinn frá stofnun félagsins sem Hringurinn er sýndur í heild sinni, en það hefur ekki áður verið gert með svona þéttu millibili. Sýnd var hin hrífandi uppfærsla Patrice Chéreau og Pierre Boulez frá Bayreuth, en þetta var hátíðaruppfærsla árið 1976 í tilefni af 100 ára afmæli Festspielhaus og frumsýningu Niflungahringsins í Bayreuth. Upptakan var gerð árið 1980 og sýnd í sjónvarpi víða um heim á 100 ára dánarafmæli Wagners 1983.
Fyrir utan þessa atburði sem ég hef talið upp hefur verið unnið að ýmsum málum.
Einkum er það mikið ánægjuefni að bókin Wagner og Völsungar kom út bæði í enskri og þýskri þýðingu á árinu. Það hefur verið mikið metnaðar- og baráttumál stjórnarinnar að koma rannsóknarniðurstöðum Árna Björnssonar á framfæri erlendis. Við fjármögnun þessa verkefnis á undanförnum árum hefur félagið notið styrkja m.a. frá menntamálaráðuneytinu auk þess sem Jóhann J. Ólafsson varaformaður útvegaði fjármagn í sérstakan þýðingarsjóð. Rúmlega 50 félagsmenn lögðu málinu einnig lið á árið 2002 með því að greiða upphæð sem nam 3.500 krónur í þennan sama sjóð.
Öllum þessum aðilum er þakkaður sérstaklega stuðningur við málefnið. Það var Mál og menning sem gaf út þýsku útgáfu bókarinnar, en breska forlagið „Viking Society“ gaf út þá ensku. Frá því bókin kom út hefur stjórnin reynt að beita sér fyrir dreifingu og kynningu erlendis, m.a. var hún til sölu í helstu bókabúðum Bayreuth í sumar á meðan á hátíðinni stóð. Einnig hefur hún verið kynnt öllum aðildarfélögum Alþjóðasamtaka Wagnerfélaga og hefur sú kynning m.a. haft í för með sér að ýmis félög erlendis hafa sýnt áhuga á að fá Árna Björnsson til fyrirlestrahalds um efni bókarinnar. Í lok apríl mun Árni halda fyrirlestur í Bandaríkjunum, í New York, Boston og Chicago. Það er einkum félagið í New York, sem hefur sýnt málinu mikinn áhuga og unnið að framgangi ferðar Árna til fleiri borga Bandaríkjanna. Formaður þess Natalie Wagner er mikil dugnaðarforkur og svo á félagið okkar mikinn velgjörðarmann í New York, Klaus Vogt, sem einnig er félagsmaður í okkar félagi. Klaus Vogt lagði fjárframlag til New York félagsins til að greiða fyrir hótelgistingu Árna Bjönrssonar í vikutíma í New York.
Í tímariti N.Y. félagsins og á vefsíðu þess hefur verið birt mjög jákvæð umsögn um bókina. Fyrirlestur Árna í N.Y. verður á svokölluð Rheingold málþingi, sem félagið efnir til í upphafi annarrar lotu sýninga Niflungahringsins á Metropolitan óperunni, sem nú eru að fara af stað. Fleiri ferðir eru í skoðun, en áhugi er m.a. fyrir hendi að fá Árna til fyrirlestrarhalds bæði á Írlandi og svo í Ástralíu. Þess má einnig geta að Árni hefur þegar verið í Helsinki með erindi fyrir Wagnerfélagið þar. Áform eru einnig uppi um að hafa norræna tónlistardaga á Festival Junger Künstler, sem haldið er árlega í Bayreuth í júlí og ágúst. Skipuleggjandi þessara norrænu daga er Guðmundur Emilsson og yrði stærsta verkefnið á þessum dögum frumflutningur óperunnar Grettir eftir Þorkel Sigurbjörnsson. Jafnhliða yrði haldið málþing um menningartengsl Norðurlanda og Mið-Evrópu í ljósi áhrifa norrænna bókmennta á Richard Wagner. Til hefur staðið að Árni Björnsson og formaður yrðu þarna með erindi en þetta er ekki enn staðfest.
Félagið er áfram aðili að Alþjóðasamtökum Wagnerfélaga, og greiðir félagið ákveðið árgjald til þeirra sem nemur um 13.000 kr. Samtökin standa m.a. fyrir árlegu þingi og gefa út tímaritið Wagner Weltweit. Á síðastliðnu ári var þingið haldið í Kaupmannahöfn dagana 28. maí til 1. júní eins og áður hefur verið greint frá. Í maí nk. verður þingið haldið í Augsburg. Á næsta ári verður það í Leipzig, 2006 í Tallin. 2007 í Weimar, 2008 í Genf, 2009 í Dresden og loks 2010 í London
Eitt af mikilvægustu verkefnum aðildafélaga alþjóðasambandsins er að fjármagna starf Richard Wagner Styrkþegastofnunarinnar í Bayreuth sem hefur það markmið að styrkja unga tónlistar- og sviðslistamenn til að sækja Bayreuthhátíðina. Félagið okkar mun nú sjöunda árið í röð senda styrkþega út til Bayreuth. Í fyrra fór Davíð Ólafsson bassasöngvari utan og sá allan Niflungahringinn. Í ár mun styrkþegi verða tenórsöngvarinn Jóhann Friðgeir Valdimarsson, sem hefur getið sér mjög gott orð og starfar nú í Wiesbaden en var áður um stutt skeið fastráðinn við Íslensku óperuna. Hann söng m.a. fyrir félagsmenn á árshátíð Wagner félagsins fyrir 3 árum og gerði mikla lukku. Framlag félagsins til þessa málefnis eru um það bil 30.000 krónur, sem það greiðir Stipendienstiftung í Bayreuth. Styrkþeginn fær venjulega að sjá þrjár óperusýningar, og auk þess m.a. leiðsögn um Festspielhaus, Richard Wagner safnið og hið nýja Franz Liszt safn. Í ár fær styrkþeginn að sjá Hollendinginn, Parsifal og Tannhäuser. Þess má geta að Menntamálaráðuneytið hefur frá upphafi styrkt félagið vegna þessa máls. Í ár nemur upphæðin 30.000 krónur sem styrkþegi fær í ferðastyrk.
Um 250 styrkþegar koma ár hvert á hátíðina, flestir þeirra frá Þýskalandi eða nálægt 200 manns, en hinir aðallega frá öðrum Evrópulöndum.
Á dagskrá félagsins fram til vors er eftirfarandi niðurneglt. Hér á eftir, að loknum fundinum, mun Jón Thoroddsen halda erindi sem hann kallar Wagner og endurnýjun goðsögu í nútímasamfélagi. Laugardaginn fyrir páska, 10. apríl, verður
Parsifal sýndur á Hótel Holti af DVD mynddiski. Þetta er upptaka frá Metropolitan óperunni í New York, sem áður hefur verið sýnd hjá félaginu fyrir allnokkrum árum.
Loks hefur okkur boðist fyrirlestur bandaríkjamannsins Ed Haymes frá Cleveland um Hringsögur annars vegar Tolkiens og hins vegar Wagners og mun þessi fyrirlestur að öllum líkindum verða 6. júní. Ed Haymes er prófessor í Germönskum bókmenntum og þýddi m.a. Þiðrekssögu á ensku. Hann er einnig mikill áhugamaður um Wagner og hefur verið með Wagnernámskeið í Cleveland.
Bayreuthháíðin 2003 :
Um það bil 20 manns fara á Bayreuth hátíðina í ár. 11 manns sjá Niflungahringinn en auk þess eru í boði sýningar á Hollendingnum, Tannhäuser og ný uppfærsla á Parsifal. Vegna vinskapar okkar Árna Tómasar við Wolfgang og Guðrúnu Wagner hefur okkur árlega tekist að útvega miða, sem við höfum látið félagsmenn hafa forgang að. Auk þess hafa árlega fengist keyptir fjórir miðar í nafni félagsins á þær sýningar sem styrkþegar til Bayreuth fá að sjá. Mun þetta gilda fyrir öll Wagner félög sem senda styrkþega, en á Wagnerþinginu í Kaupmannahöfn sl. vor var tilkynnt sú ákvörðun að framvegis yrðu þetta bara tveir miðar fyrir hvert félag.
Að lokum vil ég geta þess að félagar í Wagnerfélaginu eru nú 185 talsins. Nokkrir hafa heltst úr lestinni, en stöðugt bætast nýir í hópinn, sem er mikið ánægjuefni. Sem formaður vil ég nota tækifærið og þakka ánægjulegt samstarf við stjórn félagsins og varastjórn, svo og endurskoðendum félagsins þeim Helgu Ingólfsdóttur og Guðjóni Magnússyni Ég vil einnig sérstaklega þakka þýska sendiráðinu sem styrkti starf félagsins um 130.000 krónur og Menntamálaráðuneytinu, sem veitti 300.000 króna styrk vegna þýsku bókaútgáfunnar auk 30.000 kr.styrks vegna Bayreuthstyrkþegans. Nú hefur ráðuneytið einnig veitt Árna Björnssyni fararstyrk vegna fyrirlestrarferðarinnar til Ameríku í næsta mánuði.
Síðast en ekki síst vil ég fyrir hönd stjórnarinnar þakka öllum þeim félagsmönnum, sem hafa hjálpað okkur að halda uppi starfi félagsins með áhuga sínum og virkri þátttöku.
Selma Guðmundsdóttir