Ársskýrsla 2004

á 9. aðalfundi félagsins 6. febrúar 2005  í Norræna húsinu.

Skýrsla formanns á 9. aðalfundi félagsins 6. febrúar 2005  í Norræna húsinu.

Fyrir hönd stjórnarinnar býð ég ykkur velkomin til þessa fundar. Þetta er níundi aðalfundur Richard Wagner félagsins á Íslandi, en félagið var stofnað hér í Reykjavík 5. desember árið 1995 að undangengnum undirbúningsstofnfundi í ágúst sama ár úti í Bayreuth, á hinum sögufræga veitingastað Eule. Félagið verður því tíu ára seinni hluta þessa árs.

Samkvæmt lögum félagsins er kosið í stjórn annað hvert ár og var það síðast gert í fyrra og mun því stjórnin sitja óbreytt áfram. Ég hef frá upphafi verið formaður félagsins. Þau Jóhann J. Ólafsson varaformaður og Sólrún Jensdóttir meðstjórnandi hafa einnig setið í stjórn frá upphafi, sömuleiðis þeir Árni Björnsson og  Árni Tómas Ragnarsson, sem eru í varastjórn. Jón Ragnar Höskuldsson gjaldkeri tók við af Barða Árnasyni 1998 og Halldór Halldórsson kom inn í stjórnina sem ritari árið 2000 í stað Jóhannesar Jónassonar heitins. Á aðalfundi 2002 tók síðan Jón Thoroddsen við sæti í varastjórn af Gretari Ívarssyni og hefur stjórnin verið óbreytt síðan.

Ég ætla nú að rekja í stuttu máli starfsemi félagsins síðastliðið ár:

Að loknum 8. aðalfundi félagsins 27. mars í fyrra  hélt Jón Thoroddsen fróðlegt erindi undir heitinu : Wagner og endurnýjun goðsögu í nútímasamfélagi. Þetta var annar fyrirlestur Jóns fyrir félagið, en áður hélt hann erindi um Wagner, Nietzsche og Tomas Mann.

10. apríl var hin hefðbundna páskasýning félagsins á Parsifal haldin á Hótel Holti. Sýnd var upptaka frá Metropolitan óperunni í New York.

6. júní fékk félagið í heimsókn fyrirlesara frá Bandaríkjunum, Ed Haymes að nafni. Haymes er prófessor í germönskum bókmenntum við háskólann í Cleveland og þýddi m.a. Þiðrekssögu á ensku. Fyrirlestur Haymes var í Norræna húsinu og bar heitið: „Hringirnir tveir: Niflungahringur Wagners og Hringadróttinssaga Tolkiens”. Þar greindi hann frá niðurstöðum á skoðun  sinni á tengslum verka Tolkiens og Wagners og því  á hve margvíslegan hátt þessi verk varpa ljósi hvort á annað.

Um 20 félagsmenn sáu sýningar í Bayreuth sl. sumar á vegum félagsins. Á efniskránni úti var Niflungahringur Jürgens Flimm, sem gekk sitt síðasta ár og áframhaldandi sýningar á Tannhäuser, Hollendingnum og Lohengrin. Frumsýnd var ný uppfærsla á Parsifal í leikstjórn þýska leikstjórans og fjöllistamannsins Christoph Schlingensiefs, en hann tók við leikstjórn Parsifal með aðeins árs fyrirvara eftir að sá sem hafði verið ráðinn til verksins hætti við. Ráðning Schlingensiefs til Bayreuthhátíðarinnar þótti all djarft tiltæki. Þetta var fyrsta óperuuppfærsla hans, en hann hefur sett upp fjölda leikhússýninga og gert kvikmyndir sem hafa verið mjög umdeildar. Margir spáðu því fyrirfram að Shlingensief myndi á einn eða annan hátt ganga fram af fólki og sýningin var, vægast sagt, afar óhefðbundin. Í fjölmiðlum fékk hún bæði góða dóma og slæma og  margir áhorfenda voru bæði sárir og hneykslaðir, og létu það skýrt í ljós. Það sást m.a. til fólks sem breiddi dúk fyrir andlitið og hlustaði bara á frábæran flutning hljómsveitar og söngvara undir stjórn Frakkans gamalreynda, Pierre Boulez.  

Á sama tíma og Wagnerhátíðin í Bayreuth er haldin í ágúst ár hvert hefur um árabil verið í gangi önnur hátíð sem ber nafnið  Festival junger Künstler. Á þeirri hátíð voru sl. sumar sérstakir norrænir dagar undir ensku yfirskriftinni „Icelandic Myths – Richard Wagner’s Nordic Inspiration”.  Haldið var m.a. málþing þar sem Árni Björnsson hélt erindi um bók sína Wagner og Völsunga og rannsóknarniðurstöður sínar og formaður félagsins hélt erindi sem hét: Wagner’s Ring back to its roots, og fjallaði um sýningu Listahátíðar í Reykjavík 1994 á Niflungahring Wagners í styttri útgáfu og eftirmála sýningarinnar. Hápunktur þessara norrænu daga í Bayreuth var frumflutningur íslensku kammeróperunnar Grettis eftir Þorkel Sigurbjörnsson, sem sett var upp af íslenskum flytjendum undir leikstjórn Sveins Einarssonar. Hljómsveitarstjóri sýningarinnar og jafnframt skipuleggjandi þessarra norrænu daga var Guðmundur Emilsson.

Vetrarstarf þessa starfsárs hófst með haustfagnaði félagsins á Hótel Holti 2. október. Heiðursgestur var Þorkell Sigurbjörnsson tónskáld, sem sagði gestum frá óperu sinni um Gretti. Ung og upprennandi sópransöngkona, Lára Bryndís Eggertsdóttir söng fyrir gesti ásamt Jónasi Ingimundarsyni píanóleikara. Boðið var upp á þríréttaða veislumáltíð undir veislustjórn Gunnars Snorra Gunnarssonar ráðuneytisstjóra. Ræðumenn kvöldsins voru Jón Eyjólfur Jónsson læknir og Davíð Ólafsson söngvari og styrkþegi félagsins til Bayreuth 2003, sem báðir vitnuðu um fyrstu Bayreuth-reynslu sína. Þetta var fjölmennasta árshátíð félagsins til þessa og var hvert sæti skipað. Árshátíðin hefur átt síauknum vinsældum að fagna enda leggja margir félagsmenn þar hönd á plóginn með virkri þátttöku, frábærri veislustjórn, skemmtilegum ræðum og góðum félagsskap. Fyrir hönd stjórnarinnar vil ég láta í ljós þakklæti til allra þeirra sem hafa hjálpað til við að gera þessa haustfagnaði félagsins að því sem þeir eru.

Dagana 22. –25. október fór tólf manna hópur félagsmanna undir forystu Júlíusar Einarssonar í óperuferð til Þýskalands. Megintilefnið var að sjá frumsýningu Rínargullsins í Karlsruhe, þar sem Bjarni Thor Kristinsson fór með hlutverk Wotans, fyrstur Íslendinga. Auk þess var m.a. horft á Brottnámið úr kvennabúrinu í Frankfurt og nokkrir úr hópnum fóru til Stuttgart og sáu Tristan og Isolde.

Í lok október var fyrsta myndbandssýning vetrarins í Norræna húsinu. Var það sýning á Tannhäuser og var sýnd uppfærsla verksins frá Metropolitan óperunni í New York. Reynir Axelsson flutti inngangsorð að sýningunni þar sem hann leitaðist við að útskýra orð Wagners skömmu fyrir andlát hans, þegar hann sagði: „Ég skulda enn heiminum Tannhäuser“. 

21. nóvember var svo á Hótel Holti dagskrá tileinkuð þýska bass-baritón söngvaranum Hans Hotter. Dagskrá þessi var í umsjón Júlíusar Einarssonar, sem flutti mjög greinargott og skemmtilegt erindi um söngvarann með fjölda tóndæma. Þetta var síðasta samkoma félagsins á liðnu ári.

Fyrsta samkoma ársins 2005 var hér í Norræna húsinu 16. janúar, en þá var Jón Thoroddsen með þriðja erindi sitt á vegum félagsins. Að þessu sinni var viðfangsefnið Wagner og Adorno. Undirtitill erindisins var. “Má draga Wagner til ábyrgðar fyrir  fjöldamenninguna?” Í erindinu gaf Jón lauslegt yfirlit um kenningar þýska þjóðfélagsgagnrýnandans Theodor Wiesengrund Adornos og skoðanir hans á list Richards Wagner. Erindi Jóns var mjög fróðlegt og spunnust allnokkrar umræður meðal félagsmanna að því loknu.

Fyrir utan þessa atburði sem ég hef talið upp hefur verið unnið að ýmsum málum.

Eins og félagsmönnum er eflaust kunnugt er bók Árna Björnssonar Wagner og Völsungar komin út bæði í enskri og þýskri þýðingu. Það hefur verið mikið metnaðar- og baráttumál stjórnarinnar að koma hinum merku rannsóknarniðurstöðum Árna á framfæri erlendis.  Það var því mikið ánægjuefni að síðastliðið vor bauðst Árna að halda  fyrirlestur um Wagner og Völsunga á vegum Wagner félagsins í New York á málþingi, sem félagið efndi til í tengslum við sýningu Niflungahringsins við Metropolitan óperuna. Formaður New York félagsins, Natalie Wagner,  undirbjó ferð Árna af mikilli alúð og nákvæmni og var milligöngumaður um fyrirlestra hans annars staðar í Bandaríkjunum, en í þessari sömu ferð hélt Árni einnig fyrirlestra í Boston, Minneapolis og Chicago.  Íslenska konsúlatið í N.Y. efndi til móttöku til heiðurs Árna í tilefni af fyrirlestrinum. Ferð Árna styrktu m.a. Menntamálaráðuneytið með 150.000 kr. styrk og Klaus og Gesa Vogt í New York, sem greiddu hótelgistingu Árna á meðan á vikudvöl hans í New York stóð, en Árni gat notað tækifærið og séð amerísku Hringuppfærsluna í leiðinni. Mjög jákvæðir dómar birtust um bók Árna í tímariti Wagnerfélagsins í N.Y., Wagner Notes. Er dómurinn nú á heimasíðu félagsins, sem er:  www.wagnersocietyny.org undir tenglinum “Wagner Notes”. Formaður Wagnerfélagsins í Amsterdam hefur einnig sent okkur jákvæðan dóm um bókina.

Í desember sl. tók svo við önnur fyrirlestraferð hjá Árna, er honum bauðst að halda fyrirlestur í Adelaide í Ástralíu í tengslum við sýningu Niflungahringsins þar. Einnig þáði hann boð um og hélt fyrirlestra í Perth og í Sydney. Þýðingarsjóður  Wagnerfélagsins styrkti Ástralíuferð Árna með 100.000 kr. auk þess sem Utanríkisráðuneytið styrkti Árna með sömu upphæð. Einnig styrkti Björgúlfur Guðmundsson ferðina mjög myndarlega. Áður hefur verið greint frá fyrirlestri þeim, sem Árni hélt í Bayreuth sl. sumar, en félagið okkar styrkti Festival junger Künstler í Bayreuth með því að greiða samtals 50.000 kr. upp í ferðakostnað Árna og formanns félagsins vegna fyrirlestranna þar.

Félagið er áfram aðili að Alþjóðasamtökum Wagnerfélaga, og greiðir félagið ákveðið árgjald til þeirra sem nemur um 13.000 kr. Samtökin  standa m.a. fyrir árlegu þingi og gefa út tímaritið Wagner Weltweit. Á síðastliðnu ári var þingið haldið  í Augsburg í maí.  Næsta þing verður í fæðingarborg Wagners, Leipzig, dagana 4.-8.maí nk. Árið 2006 verður það í Tallin, 2007 í Weimar, 2008 í Genf, 2009 í Dresden og loks 2010 í London.

Eitt af mikilvægustu verkefnum aðildafélaga alþjóðasambandsins er að fjármagna starf Richard Wagner Styrkþegastofnunarinnar í Bayreuth sem hefur það markmið að styrkja unga tónlistar- og sviðslistamenn til að sækja Bayreuthhátíðina. Félagið okkar mun nú áttunda árið í röð senda styrkþega út til Bayreuth. Í fyrra fór tenórsöngvarinn Jóhann Friðgeir Valdimarsson utan og sá sýningar á Parsifal, Hollendingnum fljúgandi og Tannhäuser. Framlag félagsins til þessa málefnis eru um það bil 30.000 krónur, sem það greiðir Stipendienstiftung í Bayreuth. Styrkþeginn  fær venjulega  að sjá þrjár óperusýningar, en fimmta hvert ár er boðið upp á allan Hringinn. Auk þess er m.a. í boðinu leiðsögn um Festspielhaus, Richard Wagner safnið og hið nýja Franz Liszt safn. Í ár verður styrkþega boðið á sýningar á Tristan og Isolde, Parsifal og Lohengrin. Þess má geta að Menntamálaráðuneytið hefur frá upphafi styrkt félagið  vegna þessa máls. Sl. ár nam upphæðin 30.000 krónur, sem styrkþegi fékk í ferðastyrk. Sótt verður enn um til Menntamálaráðuneytisins vegna styrkþega í sumar, en enn hefur ekki verið ákveðið hver hann verður. Um 250 styrkþegar koma ár hvert á hátíðina, flestir þeirra frá Þýskalandi eða nálægt 200 manns, en hinir aðallega frá öðrum Evrópulöndum

Á dagskrá félagsins fram til vors er eftirfarandi niðurneglt.  Hér á eftir, að loknum fundinum, mun Árni Tómas Ragnarsson sýna valin brot úr ýmsum óperum Wagners og bera saman mismunandi uppfærslur. 

26. febrúar verður myndbandssýning á Tristan og Isolde í umsjón Júlíusar Einarssonar og verður sýningin að þessu sinni í Íslensku óperunni. Júlíus verður einnig með stutt erindi um óperuna á undan sýningunni, en Júlíus hefur verið óþrjótandi hjálparhella í starfi félagsins og á miklar þakkir skyldar fyrir framlag sitt.

Laugardaginn fyrir páska, 26. mars verður hin hefðbundna sýning félagsins á Parsifal og verður hún á Hótel Holti, líkt og í fyrra. Sýnd verður væntanlega kvikmynd þýska kvikmyndagerðarmannsins Hans Jürgen Syberberg af óperunni.

Sunnudaginn 10.apríl verður dagskrá í Norræna húsinu um Toscanini og Wagner í umsjón Árna Heimis Ingólfssonar.

Dagana 22.-27. apríl verður efnt til hópferðar til Parísar undir forystu Júlíusar Einarssonar af því ánægjulega tilefni að Kolbeinn Jón Ketilsson syngur Tristan í Bastillu óperunni 24. apríl. Þar syngur hann á móti Waltraut Meier í nýrri uppfærslu. Ben Heppner syngur frumsýninguna og fimm aðrar sýningar en Kolbeinn syngur þessa eina sýningu. Auk þess mun hópurinn, sem verður um 20 manns, sjá óperuna Boris Godunov eftir Modest Mussorgsky.

Bayreuthhátíðin 2005 : Um það bil 20 manns fara á Bayreuth hátíðina í ár. Þetta verður Hringlaust ár, en frumsýning sumarsins verður á óperunni Tristan og Isolde. Auk þess eru í boði sýningar á Hollendingnum, Tannhäuser, Parsifal og Lohengrin. Vegna vinskapar okkar Árna Tómasar við Wolfgang og Guðrúnu Wagner hefur okkur árlega tekist að útvega miða, sem við höfum látið félagsmenn hafa forgang að. Auk þess fást keyptir tveir miðar í nafni félagsins á þær sýningar sem styrkþegar til Bayreuth fá að sjá. Mun þetta gilda fyrir öll Wagner félög sem senda styrkþega.

Að lokum vil ég geta þess að félagar í Wagnerfélaginu eru nú 175 talsins. Nokkrir hafa heltst úr lestinni, en stöðugt bætast nýir í hópinn, sem er mikið ánægjuefni. Ekki er mikið um úrsagnir úr félaginu, en haft er að reglu að taka menn út af félagaskrá greiði þeir ekki félagsgjöld sín tvö ár í röð.

Sem formaður vil ég  nota tækifærið og þakka ánægjulegt samstarf við stjórn félagsins og varastjórn, svo og endurskoðendum félagsins þeim Helgu Ingólfsdóttur og Guðjóni Magnússyni. Ég vil einnig sérstaklega þakka þýska sendiráðinu sem styrkti starf félagsins um 76.800 krónur, Menntamálaráðuneytinu, sem veitti Árna Björnssyni 150.000 króna styrk vegna Ameríkuferðarinnar, auk 30.000 kr.styrks vegna Bayreuthstyrkþegans og  Utanríkisráðuneytinu sömuleiðis fyrir 100.000 kr. fararstyrk til Árna vegna fyrirlestrarferðarinnar til Ástralíu í desember. Einnig eru þeim Klaus og Gesu Vogt og Björgúlfi Guðmundssyni færðar sérstakar þakkir vegna stuðnings við kynningu á rannsóknum Árna. 

Síðast en ekki síst vil ég fyrir hönd stjórnarinnar þakka öllum þeim  félagsmönnum, sem hafa hjálpað okkur  að halda uppi starfi félagsins með áhuga sínum, virkri þátttöku og góðum félagsskap.

Selma Guðmundsdóttir,