Ársskýrsla 2006
á 11. aðalfundi félagsins 11. febrúar 2007 í Norræna húsinu.
Skýrsla formanns, Selmu Guðmundsdóttur, á 11. aðalfundi félagsins 11. febrúar 2007 í Norræna húsinu.
Þetta er 11. aðalfundur Richard Wagner félagsins á Íslandi, en félagið var formlega stofnað 5. desember árið 1995 að undangengnum undirbúningsstofnfundi í ágúst sama ár úti í Bayreuth.
Samkvæmt lögum félagsins er kosið í stjórn annað hvert ár. Núverandi stjórn var endurkjörin á aðalfundi í fyrra og verður því ekki stjórnarkosning á þessum fundi. Ég hef frá upphafi verið formaður félagsins. Þau Jóhann J. Ólafsson varaformaður og Sólrún Jensdóttir meðstjórnandi hafa einnig setið í stjórn frá upphafi, sömuleiðis þeir Árni Björnsson og Árni Tómas Ragnarsson, sem eru í varastjórn. Jón Ragnar Höskuldsson gjaldkeri tók við af Barða Árnasyni 1998 og Halldór Halldórsson kom inn í stjórnina sem ritari árið 2000 í stað Jóhannesar Jónassonar heitins. Á aðalfundi 2002 tók síðan Jón Thoroddsen við sæti í varastjórn af Gretari Ívarssyni og hefur stjórnin verið óbreytt síðan þá.
Ég ætla nú að rekja í stuttu máli starfsemi félagsins síðastliðið ár:
Að loknum 10. aðalfundi félagsins í Norræna húsinu 5. mars í fyrra var sýnd ný leikin þýsk heimildamynd eftir Andreas Morell sem heitir Wagner und die Frauen. Í þessari heimildamynd var dregin upp mynd af konum þeim sem gegndu lykilhlutverki í lífi Wagners.
25. mars var Rínargullið sýnt hér í Norræna húsinu og var það uppfærsla frá óperuhúsinu í Stuttgart. Á undan sýningunni kynntu Selma Guðmundsdóttir og Reynir Axelsson leiðarstef Rínargullsins í máli og tónum og vörpuðu síðan heitum stefjanna upp á skjá samhliða sýningu óperunnar.
Um páskana var viðhaldið árlegri hefð hjá félaginu og horft á Parsifal. Sýnd var kvikmyndagerð óperunnar, sem gerð var af þýska kvikmyndagerðamanninum Hans-Jürgen Syberberg.
Dagana 22. til 25. maí var farin óperuferð til Kaupmannhafnar að sjá uppfærslu Niflungahringsins í nýja óperuhúsinu á Hólminum. 35 manns fóru utan og var ferðin öll hin ánægjulegasta og almennt gerður góður rómur að uppfærslu Dana þótt sumt orkaði tvímælis og ylli talsverðum titringi hjá þeim sem vel þekkja óperurnar fjórar. Fyrir utan óperusýningarnar gerði hópurinn margt annað sér til gamans. Farið var í rútuferð um Sjáland og skoðuð m.a. Louisiana myndlistarsafnið, Karen Blixen safnið og kastali Hamlets við Helsingör. Auk þess var hópurinn boðinn í Íslenska sendiráðið, skoðaði sýningu Louisu Matthíasdóttur á Bryggen og fór nokkrum sinnum saman út að borða.
Árlegt þing Alþjóðlegu Wagnersamtakanna var haldið 24. til 27. maí í Tallin í Eistlandi með smá útúrdúr til Helsinki, þar sem farið var að sjá Parsifal sýningu. Enginn félagsmaður sótti þingið að þessu sinni.
18 félagsmenn sáu sýningar í Bayreuth sl. sumar á vegum félagsins. Frumsýndur var nýr Niflungahringur í leikstjórn Þjóðverjans Tankred Dorst og hlómsveitarstjórn Christians Thielemann. Sýningin fékk blandaðar viðtökur gagnrýnenda einkum hvað varðar leikstjórn en sýningin var dálítið stirð og samskipti og hreyfingar söngvaranna á sviðinu oft klaufaleg. Þessi atriði standa þó vonandi til bóta, enda má segja leikstjóranum til varnar að fáir leikstjórar hafa haft jafn stuttan undirbúningstíma og Tankred Dorst en hann tók við uppfærslunni eftir að Lars von Trier hafði gengið úr skaftinu á seinustu stundu. Flestir voru sammála um að hljómsveitarstjórinn, Christian Thielemann frá Berlín, væri stjarna sýningarinnar. Aðrar sýningar í Bayreuth á liðnu sumri voru Hollendingurinn fljúgandi, Tristan og Isolde og Parsifal. Uppfærslan þýska leikstjórans Chrisoph Schlingensiefs á Parsifal hefur verið afar umdeild og hefur yfirstjórn Bayreuthhátíðarinnar nú ákveðið að sýna hana aðeins þann lágmarksfjölda ára sem þarf til að standa við samninga við leikstjórann eða í 4 ár og verður hún tekin af dagskrá eftir hátíðina á komandi sumri og nýr Parsifal frumsýndur 2008.
Vetrarstarf þessa starfsárs hófst 21. október með árlegum haustfagnaði félagsins á Hótel Holti. Heiðursgestur var að þessu sinni Bjarni Thor Kristinsson bassasöngvari, sem sagði veislugestum frá ferli sínum, m.a. af reynslu sinni af hlutverki Wotans í Karlsruhe og fleiri Wagnerhlutverkum. Ungur og bráðefnilegur tenórsöngvari, Egill Árni Pálsson söng fyrir gesti ásamt meðleikara sínum Kristni Erni Kristinssyni píanóleikara. Undir borðum fluttu þau Herdís Egilsdóttir og Friðrik Ólafsson afar skemmtilegar frásagnir frá óperuferðum síðasta árs til Kaupmannahafnar og Bayreuth. Veislustjóri var Jóhann J. Ólafsson.
12. nóvember sýndi félagið uppfærslu af Hollendingnum fljúgandi frá tónlistarhátíðinni í Savonlinna í Finnlandi. Tveim vikum síðar, eða 23. nóvember, voru Wagnertónleikar hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands. Þetta voru frábærir tónleikar og mjög lofsvert framtak hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands, en á dagskrá tónleikanna voru forleikur og Liebestod úr Tristan og Isolde og 3. þáttur úr Parsifal. Kolbeinn Ketilsson söng Parsifal og Kristinn Sigmundsson Gurnemanz en auk þeirra sungu þýsku söngvararnir Wolfgang Schöne og Ruth-Marie Nicolay og fjölmennur kór Fóstbræðra. Á undan tónleikunum hafði félagið samvinnu við Vinafélag Sinfóníunnar um tónleikakynningu á Hótel Sögu og var það Reynir Axelsson, sem talaði þar um Parsifal.
Í janúar hófst ný röð kynninga undir heitinu Samtímamenn Wagners, áhrifavaldar og keppinautar. Félagið hefur eignast nokkur myndbönd með óperum samtímamanna Wagners, bæði þeirra sem voru hans skæðustu keppinautar og annarra sem hann leit mjög til sem fyrirmynda. Ætlunin er að gefa félagsmönnum kost á að kynna sér þessar óperur og skoða þær í samanburði við verk Wagners. Fyrsta kynningin var á óperu Meyerbeers, Afríkustúlkan, uppfærsla frá óperuhúsinu í San Francisco. Á undan sýningunni hélt Reynir Axelsson mjög áhugavert erindi um Meyerbeer og samband þeirra Meyerbeers og Wagners.
Fyrir utan þessa atburði sem ég hef talið upp hefur verið unnið að ýmsum málum, m.a. áframhaldandi kynningu á rannsóknum Árna Björnssonar. Bókin Wagner og Völsungar er nú til sölu á þýsku og ensku í tveim helstu bókabúðunum í Bayreuth og hefur hlotið all góða kynningu, ekki þó hvað síst með birtingu greinar Árna í efnisskrá Bayreuthhátíðarinnar 2002. Í sumar bárust félaginu jákvæðir dómar um bókina úr þýska óperutímaritinu Opernwelt, en bókin hefur víða fengið jákvæða umfjöllun auk þess sem Árni hefur ferðast víða um heim með fyrirlestra um efni hennar. ´Nýlega bárust okkur fréttir af því að Oswald Georg Bauer hefði notað bókina sem kennsluefni við leiklistardeild Listaháskólans í München.
Félagið hefur einnig tekið þátt í að kynna á Norðurlöndunum nýtt Wagnertímarit, The Wagnerjournal, sem bresku Wagnersérfræðingarnir Barry Millington og Stewart Spencer eru að hleypa af stokkunum. Barry Millington, sem hefur skrifað merkar bækur um Wagner og er einn helsti sérfræðingur okkar tíma um tónskáldið, hefur tvívegis verið gestur félags okkar með fyrirlestra og er þetta nýja tímarit mikið fagnaðarefni öllum Wagneráhugamönnum. Stofnuð hefur verið heimasíða tímaritsins, þar sem hægt er að panta áskrift. (www.thewagnerjournal.co.uk.)
Félagið er áfram aðili að Alþjóðasamtökum Wagnerfélaga, og greiðir ákveðið árgjald til þeirra sem nemur um 13.000 kr. Samtökin standa m.a. fyrir árlegu þingi og gefa út tímaritið Wagner Weltweit. Á síðastliðnu ári var þing samtakanna haldið í Tallin, dagana 24. til 27.maí. Nú í ár verður þingið í Weimar og er fyrirhugað að formaður sæki það þing. Árið 2008 verður þingið í Genf, 2009 í Dresden og 2010 í London.
Eitt af mikilvægustu verkefnum aðildafélaga alþjóðasambandsins er að fjármagna starf Richard Wagner styrkþegastofnunarinnar í Bayreuth sem hefur það markmið að styrkja unga tónlistar- og sviðslistamenn til að sækja Bayreuthhátíðina. Félagið okkar mun nú tíunda árið í röð senda styrkþega út til Bayreuth. Í fyrra sendum við í fyrsta sinn tvo söngvara. Það voru sópransöngkonurnar Þóra Einarsdóttir og Elísa Vilbergsdóttir. Framlag félagsins til þessa málefnis eru um það bil 30.000 krónur, sem það greiðir Styrkþegastofnuninni í Bayreuth. Styrkþeginn fær yfirleitt að sjá þrjár óperusýningar, en fimmta hvert ár er boðið upp á allan Hringinn. Auk þess er m.a. í boðinu leiðsögn um Festspielhaus, Richard Wagner safnið og hið nýlega Franz Liszt safn. Á komandi sumri verður styrkþega boðið á sýningar á Meistarasöngvurunum, Parsifal og Tannhäuser. Þess má geta að Menntamálaráðuneytið hefur frá upphafi styrkt félagið vegna þessa máls og hefur styrkur ráðuneytisins gengið til styrkþegans upp í ferðakostnað. Sótt hefur verið til Menntamálaráðuneytisins vegna styrkþega í sumar og fengist styrkur upp á kr. 40.000. Um 250 styrkþegar koma ár hvert á hátíðina, flestir þeirra frá Þýskalandi eða nálægt 200 manns, en hinir aðallega frá öðrum Evrópulöndum.
Á dagskrá félagsins fram til vors er eftirfarandi. Hér á eftir, að loknum aðalfundinum, mun Jón Thoroddsen halda erindi um Wagner og þýska heimspekinginn Arthur Schopenhauer.
Í marsmánuði munum við í fyrsta sinn sýna allar Niflungahringsóperurnar á einum mánuði, fjóra sunnudaga í röð. Er það einstakt tækifæri fyrir félagsmenn og annað áhugafólk að kynnast verkinu. Þá er fyrirhugað að sýna Parsifal um páskana, en enn hefur ekki verið ákveðið hvaða uppfærsla verður sýnd.
Bayreuthhátíðin 2007: Allstór hópur mun sækja Bayreuthhátíðina á komandi sumri. 15 manns munu sjá Niflungahringinn dagana 9. til 14. ágúst. Auk þess fengust tveir miðar á sýningar á Parsifal, Tannhäuser og nýja uppfærslu af Meistarasömgvurunum í leikstjórn hinnar ungu Katharinu Wagner, dóttur þeirra Guðrúnar og Wolfgangs Wagner. Samanlagt fara 18 félagsmenn á hátíðina.
Að lokum vil ég geta þess að félagar í Wagnerfélaginu eru nú 193 talsins og bætast stöðugt nýir félagar í hópinn. Ekki er mikið um úrsagnir úr félaginu, en haft er að reglu að taka menn út af félagaskrá greiði þeir ekki félagsgjöld sín tvö ár í röð.
Sem formaður vil ég nota tækifærið og þakka ánægjulegt samstarf við stjórn félagsins og varastjórn, svo og endurskoðendum félagsins. Ég vil einnig þakka sérstaklega Menntamálaráðuneytinu fyrir fjárstuðning við styrkþegaverkefnið okkar og þýska sendiráðinu fyrir veittan styrk til starfsemi félagsins.
Síðast en ekki síst vil ég fyrir hönd stjórnarinnar þakka öllum þeim félagsmönnum, sem hafa hjálpað til við að halda uppi starfi félagsins með áhuga sínum, virkri þátttöku og góðum félagsskap.
Selma Guðmundsdóttir
Formaður Richard Wagner félagsins á Íslandi.