Ársskýrsla 2009

á  14. aðalfundi félagsins 13. mars 2010  í Norræna húsinu.

Skýrsla formanns, Selmu Guðmundsdóttur,  á  14. aðalfundi félagsins 13. mars 2010  í Norræna húsinu.

Þetta er 14. aðalfundur Richard Wagner félagsins á Íslandi, sem var formlega stofnað 5. desember árið 1995 að undangengnum undirbúningsstofnfundi í ágúst sama ár úti í Bayreuth.

Samkvæmt lögum félagsins er kosið í stjórn annað hvert ár. Núverandi stjórn skipa, auk mín sem formaður félagsins:  Jóhann J. Ólafsson varaformaður, Jón Ragnar Höskuldsson gjaldkeri, Ásmundur Jakobsson ritari og Sólrún Jensdóttir í aðalstjórn. Í varastjórn Árni Björnsson.

Ég ætla nú að rekja í stuttu máli starfsemi félagsins síðastliðið ár, en hún var afar umfangsmikil:

Þann 24. janúar, að loknum 13. aðalfundi félagsins í Norræna húsinu, var sýnd heimildarmyndin Eldskírn Katharinu Wagner eftir Dagmar Kraus og var þar fjallað um fyrstu sviðssetningu Katharinu Wagner, dóttur Wolfgangs og Guðrúnar í Festspielhaus í Bayreuth er hún setti Meistarasöngvarana þar á svið sumarið 2007. Eins og kunnugt er, hefur Katharina nú tekið við stjórn hátíðarinnar ásamt hálfsystur sinni, Evu Pasquier-Wagner.

Tveim vikum síðar, 3. febrúar, kynnti eitt helsta núlifandi tónskáld Frakka, Philippe Manoury, óperu sína K, byggða á Réttarhöldunum eftir Kafka. Óperan var frumflutt í Bastilluóperunni í París 2003. Þessi viðburður fór fram í Íslensku óperunni og var samstarfsverkefni við Óperuna, Listaháskólann og Myrka músíkdaga.

28. febrúar hélt Halldór Björn Runólfsson, forstöðumaður Listasafns Íslands, erindið Wagner í myndlist, og sagði þar frá merkri myndlistarsýningu í Genf fyrir 3 árum og sýndi myndir af listaverkunum á skjá. Á sýninguna í Genf var í fyrsta sinn safnað saman verkum víðs vegar að sem orðið hafa til undir áhrifum frá Richard Wagner og verkum hans. Sýningin spannaði verk allt frá Pierre Auguste Renoir til samtímalistamanna eins og til að mynda þýska myndlistarmannsins Anselm Kiefer. Þessi dagskrá fór fram í Listaháskóla Íslands.

7. mars efndi félagið til tónleika í Íslensku Óperunni í samstarfi við Vinafélag óperunnar. Yfirskrift tónleikanna var: Wagner og Wesendonck – Þetta liggur mér á hjarta. Þar fluttu þau Sophiya Palamar mezzosópransöngkona og Albert Mamriev píanóleikari dagskrá sönglaga og píanóverka eftir Richard Wagner. Sögumaður var Sólveig Arnarsdóttir leikkona.

Viku síðar, 15. mars, var haldið áfram sýningum í sýningaröðinni “Samtímamenn Wagners, áhrifavaldar og keppinautar”. Sýnd var í Norræna húsinu óperan “La Juive”  eða Gyðingakonan eftir franska tónskáldið Jacques Francois Halevy. Á undan sýningunni fjallaði Reynir Axelsson um tónskáldið.

4. apríl var svo dagskrá í tilefni af 100 ára afmæli Herbert von Karajan í Listaháskólanum. Helgi Jónsson tónlistarfræðingur flutti erindi um Karajan og sýnd var af mynddiski upptaka af Rínargullinu frá Salzburg 1973, þar sem Karajan fór bæði með leikstjórn og hljómsveitarstjórn.

Formaður og ritari félagsins sóttu árlegt þing Alþjóðasamtaka Wagnerfélaga í Dresden í byrjun maí. Formaður sat þar  aðalfund samtakanna og var þar ásamt tveim öðrum formönnum Wagnerfélaga heiðraður með gullmerki samtakanna, hinu gullna W.  Josef Lienhart, fyrrverandi forseti samtakanna var gerður að heiðursforseta, en hann lét af störfum 2008 og við tók Eva Märtson, sem verið hefur formaður Wagnerfélagsins í Hannover. Á þinginu var boðið upp á sýningu á Aidu í Semperóperunni glæsilegu, þar fyrir utan voru bæði spennandi tónleikar og fyrirlestrar í boði.

Bayreuthhátíðin sl. sumar var fyrsta hátíðin undir stjórn þeirra  hálfsystra  Evu Pasquier-Wagner og Katharinu Wagner. Engin ný frumsýning var á aðalsviðinu en þriggja ára gömul uppfærsla Christophe Marthaler á Tristan og Isolde var sýnd á opnunarkvöldinu. Sama dag var sýnd barnauppfærsla á Hollendingnum fljúgandi á einu af æfingasviðunum og markar sú uppsetning þá áherslu sem systurnar munu leggja á Wagner fyrir börn.

20 manna hópur félagsmanna  sá sýningar á Parsifaluppfærslu Norðmannsins Stefans Herheim, Meistarasöngvara Katharinu Wagner og Tristan og Isolde, en þrír sáu Niflungahringinn. Styrkþegi félagsins að þessu sinni var Daníel Bjarnason, hljómsveitarstjóri og tónskáld, sem fékk miða á Niflungahringinn. Sýning Tristan og Isolde þann 7. ágúst var sýnd í beinni útsendingu á netinu og er það í annað sinn sem slíkt er gert í Bayreuth. Fjöldi manns um allan heim sá sýninguna, tölvutengdur, auk þess sem 30.000 manns söfnuðust saman utanhúss í Bayreuth og fylgdust með útsendingunni á risastórum skjá.  Wagnerfélagar á Íslandi söfnuðust saman í Norræna húsinu, sem bauð upp á að sjá útsendinguna á stóra skjánum.

Næsta sumar verður frumsýndur nýr Lohengrin í leikstjórn Hans Neuenfels. Spurst hefur að tenórstjarnan Jonas Kaufmann muni syngja titilhlutverkið. Dagskrá hátíðarinnar til ársins 2014 liggur fyrir.  Nýr Tannhäuser verður sýndur 2011, Hollendingurinn fljúgandi 2012, nýr Niflungahringur á 200 ára fæðingarafmæli Wagners 2013 og loks nýr Tristan 2014.

Vetrarstarf þessa starfsárs hófst 25. október með hinum árlega haustfagnaði á Hótel Holti. Vonir höfðu staðið til að forseti Alþjóðasamtaka Wagnerfélaga, Eva Märtson, yrði heiðursgestur en af því gat ekki orðið af óviðráðanlegum ástæðum en stefnt er að því að það verði á komandi hausti á 15 ára afmæli félagsins. Haustfagnaðurinn  hófst með afar fróðlegum og ítarlegum fyrirlestri Björns Bjarnasonar undir heitinu Wagnerarfurinn og fjölskyldan. Að honum loknum var samkvæmt  hefðinni fordrykkur og síðan veislumáltíð.  Veislustjóri var Ólafur Egilsson, ræðumenn undir borðum Sigurður Steinþórsson og Þór Vilhjálmsson, sem voru með hugleiðingar út  frá Bayreuthferð sumarsins. Ung og bráðefnileg sópransöngkona, Lilja Guðmundsdóttir, sem boðið hafði verið að syngja fyrir veislugesti, forfallaðist en í hennar skarð hljóp enginn annar en unnusti hennar Bjarni Thor Kristinsson bassasöngvari og söng við góðar undirtektir áheyrenda.

Í nóvember var sýndur  glænýr DVD diskur með uppsetningu kvikmyndaleikstjórans Patrice Chéreau á óperunni Tristan og Isolde við La Scala óperuna í Mílanó árið 2007. Hljómsveitarstjóri sýningarinnar var Daniel Barenboim. Þessi frábæra uppfærsla var fyrsta aðkoma Patrice Chéreau að uppsetningu Wagneróperu frá því að hann setti upp hinn margrómaða aldarafmælis Hring í Bayreuth 1976. Sá Hringur var síðan sýndur í sjónvarpi víða um heim og átti ekki hvað síst þátt í stórauknum vinsældum Niflungahringsins á síðustu áratugum, þar sem flest óperuhús heims, stærri sem minni, keppast við að koma upp sínum eigin Hringum.

Fyrir utan þessa atburði sem ég hef talið upp hefur áfram verið unnið að kynningu á rannsóknum Árna Björnssonar á áhrifum íslenskra bókmennta á Wagner og Niflungahringinn. Bókin Wagner og Völsungar er nú til sölu á þýsku og ensku í tveim helstu bókabúðunum í Bayreuth og hefur hlotið all góða kynningu, ekki þó hvað síst með birtingu greinar Árna í efnisskrá Bayreuthhátíðarinnar 2002. Jákvæðir dómar um bókina hafa birst í nokkrum blöðum og tímaritum, m.a. í þýska óperutímaritinu Opernwelt, auk þess sem Árni hefur ferðast víða um heim með fyrirlestra um efni hennar. ´Hún hefur einnig m.a. verið notuð sem kennsluefni við leiklistardeild Listaháskólans í München. Nokkur þýsk Wagner félög hafa lýst yfir áhuga á að fá Árna til að halda fyrirlestur. Þar verða fyrstar borgirnar Berlín og Leipzig, þar sem Árna hefur verið boðið að vera með fyrirlestur í júní.  Verið er einnig að skoða með hvaða hætti megi kynna bókina og efni hennar sem best á bókamessunni í Frankfurt 2011, þar sem Ísland verður heiðursgestur.

Litli Hringurinn frá Listahátíð 1994, sem markaði upphaf Wagner félagsins á Íslandi, fékk óvænta upphefð í blaðagrein í New York Times í október sl. þar sem óperusérfræðingurinn Fred Plotkin talaði um uppfærsluna í Þjóðleikhúsinu sem eina af þeim bestu af 44 sem hann hefði séð. Ýtti þetta undir raddir þær sem gjarnan vilja sjá að þessi stytta gerð Hringsins, sem Wolfgang Wagner í Bayreuth hafði listræna yfirumsjón með, verði sett hér aftur á svið. Væri það að sjálfsögðu mikið ánægjuefni ef fyndist á því flötur. Tengsl Niflungahringsins og Íslands fengu líka óvænta uppsveiflu í viðtali við kanadíska leikstjórann Robert Lepage, sem setja mun upp næsta Niflungahring á Metropolitanóperunni í New York. Lepage segir að Ísland sé það sem veiti honum mestan innblástur við uppsetningu Hringsins, landið sjálft og jarðfræði þess. Wagner hafi notað íslensku bókmenntirnar til að rjúfa þau goðsöguleg tengsl sem Þjóðverjar höfðu myndað við Grikkland og Miðjarðarhafslöndin og færa þau tilbaka þangað sem norrænar rætur þeirra liggja. Ísland sé önnur pláneta, heimur út af fyrir sig. Hann lýsir fjálglega jarðfræðilegum sérkennum landsins sem séu forsenda þess að þegar maður komi til Íslands hugsi maður um Hringinn, maður geti aðeins hugsað um Hringinn í heimi sem sé allt öðruvísi en allt annað. Nú bíðum við spennt eftir að sjá hvernig Lepage tekst til með þennan nýja Hring. Rínargullið verður frumsýnt í september nk. Valkyrjan í mars á næsta ári, en allur Hringurinn á að verða tilbúinn 2012.

Félagið er eins og komið hefur fram áfram aðili að Alþjóðasamtökum Wagnerfélaga, og greiðir ákveðið árgjald til þeirra sem nemur um 150 Evrum. Samtökin  standa m.a. fyrir árlegu þingi. Á síðastliðnu ári var þing samtakanna haldið  í Dresden. Nú í ár verður þingið í Stralsund dagana 14. til 17. maí. Árið 2011 verður það í Breslau, 2012 í Prag og á 200 ára fæðingarafmæli Wagners 2013 í fæðingarborg hans, Leipzig.

Önnur verkefni Alþjóðasamtökanna eru m.a. að standa fyrir Wagnersöngkeppni á nokkurra ára fresti og einnig keppni fyrir unga leikstjóra og leikmyndarhönnuði. Auk þess standa þau fyrir Wagnerþingi í Feneyjum í nóvember ár hvert. Eitt af mikilvægustu verkefnum aðildafélaga alþjóðasambandsins er að fjármagna starf Richard Wagner styrkþegastofnunarinnar í Bayreuth sem hefur það markmið að styrkja unga tónlistar- og sviðslistamenn til að sækja Bayreuthhátíðina. Félagið okkar mun nú þrettánda árið í röð senda styrkþega út til Bayreuth.

Styrkþegar til þessa hafa verið:

Sjá:

Framlag félagsins til þessa málefnis hefur verið um 300 Evrur árlega en um 500 Evrur það ár sem Niflungahringurinn er í boði. Styrkþeginn  fær yfirleitt  að sjá þrjár óperusýningar en fimmta hvert ár er boðið upp á allan Hringinn. Auk þess er m.a. í boðinu leiðsögn um Festspielhaus, heimsókn í Richard Wagner safnið og hið nýlega Franz Liszt safn. Sl.ár  þyngdist mjög róðurinn með að taka þátt í verkefni þessu vegna stöðu krónunnar og stóð tæpt að við gætum haldið þessu áfram, þar sem kostnaður félagsins var nálægt 100.000 í stað helmingi lægri upphæðar áður. En þá lagðist okkur það til að velgjörðarmaður félagsins í New York, Klaus Vogt og kona hans Gesa, ákváðu að styrkja félagið sem næmi upphæðinni, til að við gætum haldið áfram að senda styrkþega. Eru þeim færðar bestu þakkir fyrir. Nú hefur styrkþegastofnunin hækkað árlegt framlag Wagnerfélaga vegna styrkþega úr 300 Evrum í 500 fyrir venjulegt þriggja sýninga ár. Stjórnin ákvað að halda áfram þáttöku í styrkþegaverkefninu en ljóst er að þetta er félaginu ekki auvelt eins og ástandið er með gengi íslensku krónunnar. Þess má geta að Menntamálaráðuneytið hefur einnig frá upphafi styrkt félagið vegna þessa máls og hefur styrkur ráðuneytisins gengið til styrkþegans upp í ferðakostnað. Sótt hefur verið til Menntamálaráðuneytisins vegna styrkþega 2010 og 50.000 kr. fengist úthlutað. Um 250 styrkþegar koma ár hvert á hátíðina, flestir þeirra frá Þýskalandi eða nálægt 200 manns, en hinir aðallega frá öðrum Evrópulöndum.

Árið 2010, sem er 15 starfsár félagsins, hefur farið vel af stað með m.a. tveimur atburðum hér í Norræna húsinu, annars vegar kynningu Reynis Axelssonar og sýningu á Freischütz eftir Weber í janúar og hins vegar erindi Árna Heimis Ingólfssonar um Franz Liszt og Wagner í febrúar. Auk  þess var að frumkvæði Lilju Hilmarsdóttur hjá Iceland Express farið í sérdeilis vel heppnaða hópferð á Wagnerdaga í Deutsche Oper í Berlín að sjá Kristin Sigmundsson í Lohengrin og Meistarasöngvurunum. Þetta voru góðar uppfærslur á þessum óperum, báðar settar á svið af Götz Friedrich og einvalalið söngvara í flestum hlutverkum. Farið var í stórskemmtilega skoðunarferð um Berlín undir leiðsögn Óttars Guðmundssonar. Hópurinn naut einstakrar gestrisni í hádegisverðarboði Gunnars Snorra Gunnarssonar, sem nýverið varð sendiherra í Berlín. Var almennt afar mikil ánægja með ferðina og standa vonir standa til frekari samstarfs við Expressferðir.

Laugardaginn fyrir páska verður svo væntanlega sýning á  Parsifal eins og hefð er orðin hjá félaginu.

Allstór hópur mun sækja Bayreuthhátíðina á komandi sumri. 2 sjá Niflungahringinn en 15 manns munu sjá sýningar á Meistarasöngvurunum, Lohengrin og Parsifal.

Að lokum vil ég geta þess að félagar í Wagnerfélaginu eru nú 211 talsins og bætast stöðugt nýir félagar í hópinn. Það sem af er þessu ári hafa um  20 manns gengið í félagið. Ekki er mikið um úrsagnir úr félaginu, en haft er að reglu að taka menn út af félagaskrá greiði þeir ekki félagsgjöld sín tvö ár í röð. Það er ljóst að á Íslandi er mikill áhugi á Wagner og er fjöldi félagsmanna til vitnis um það. Fyrir skömmu var staddur hér varaformaður Wagnerfélagsins í Frankfurt, sem verður 100 ára á þessu ári og þar eru félagsmenn 50 talsins. Gaman er að segja frá því að nú er í bígerð að fyrsta óperuuppfærsla Sinfóníuhljómsveitarinnar í Nýja tónlistarhúsinu verði  Götterdämmerung undir stjórn Kent Nagano.

Sem formaður vil ég  nota tækifærið og þakka ánægjulegt samstarf við stjórn félagsins og varastjórn, svo og endurskoðendum félagsins, þeim Halldóri Halldórssyni og Guðrúnu Nordal. Ég vil einnig þakka sérstaklega Menntamálaráðuneytinu fyrir fjárstuðning við styrkþegaverkefnið okkar.

Að lokum vil ég fyrir hönd stjórnarinnar þakka öllum þeim  félagsmönnum, sem hafa hjálpað til við að halda uppi starfi félagsins með áhuga sínum, virkri þátttöku og góðum félagsskap.

Selma Guðmundsdóttir
formaður Richard Wagner félagsins á Íslandi