Ársskýrsla 2015

á aðalfundi í Norræna húsinu, 27. febrúar 2016

Skýrsla formanns, Selmu Guðmundsdóttur, á 20. aðalfundi félagsins, 27. febrúar 2016 í Norræna húsinu.

Þetta er 20. aðalfundur Richard Wagner félagsins á Íslandi, en félagið var formlega stofnað 12. desember árið 1995 að undangengnum undirbúningsstofnfundi sama ár úti í Bayreuth.

Samkvæmt lögum félagsins er kosið í stjórn annað hvert ár og var það síðast gert fyrir tveim árum. Það verður því stjórnarkosning hér á eftir. Stjórnina skipa, auk mín sem formaður félagsins: Sólrún Jensdóttir varaformaður, Jón Ragnar Höskuldsson gjaldkeri, Ásmundur Jakobsson ritari og Jóhann J. Ólafsson í aðalstjórn. Í varastjórn Árni Björnsson, Björn Bjarnason og Þorkell Helgason.

Ég vil í upphafi sérstaklega minnast látinna félagsmanna. Í nóvember á árshátíð minntust menn fráfalls Þórs Vilhjálmssonar hæstaréttardómara. Aðeins nokkrum mánuðum síðar hefur eiginkona hans Ragnhildur Helgadóttir líka kvatt okkur. Barði Árnason, einn af stofnendum félagsins og fyrsti gjaldkeri félagsins lést einnig fyrir örfáum vikum. Við minnumst þeirra allra með söknuði og virðingu.

Ég ætla nú að rekja í stuttu máli starfsemi félagsins síðastliðið ár.

Dagskrá félagsins 2015 hófst með aðalfundi félagsins 24. janúar, en fundurinn skal, skv. lögum félagsins, vera haldinn á tímabilinu janúar til mars. Að fundinum loknum var sýnd upptaka af öðrum þætti óperunnar Parsifal frá óperuhúsinu í Brüssel. Ástæðan fyrir því að sýna annan þátt óperunnar var að það er þáttur Klingsors, en það var Tómas Tómasson sem fór með hlutverk hans í sýningunni.

Á tímabilinu frá janúar til loka maí voru alls átta útsendingar frá óperusviðum erlendis, aðallega frá Metropolitan óperunni í Kringlubíói en einnig frá Covent Garden í London í Háskólabíói. Auk þess kynnti félagið reglulega ópersýningar, sem sendar voru út á netinu úr ýmsum óperuhúsum, m.a. frá München og Vínarborg. Ég ætla ekki að rekja nánar um hvaða sýningar var að ræða, en við í stjórninni leggjum áherslu á að kynna þessar sýningar vel meðal félagsmanna og njóta þær mikilla vinsælda og hafa mikið til leyst af hólmi okkar eigin sýningar á óperum hér í Norræna húsinu.

Í maí voru nokkrir félagsmenn í Dessau í Þýskalandi þar sem Niflungahringurinn var sýndur undir merkjum Wagnerþings Alþjóðasamtaka Wagnerfélaga. Var það óvenju metnaðarfullt framlag bæjarfélags, heldur minna en Reykjavíkur, að setja upp heilan Hring í takti við Wagnerfélag bæjarins, sem hafði tekist það á hendur að halda þetta árlega Wagnerþing. Fyrir þá sem sóttu þingið voru þar að auki í boði bæði fyrirlestrar og skoðunarferðir um Dessau, sem gjarnan er nefnd Bauhausborgin og nágrenni hennar. Eins og félagsmönnum er kunnugt situr formaður í stjórn Alþjóðasamtakanna frá því vorið 2014 en fyrsta starfsárið gekk brösugleika vegna samstarfserfiðleika við Thomas Krakow, sem kosinn hafði verið forseti samtakanna til 5 ára, líkt og stjórnin. Fyrir aðalfundinn í Dessau var staðan sú að 10 af 15 stjórnarmönnum höfðu lýst vantrausti á forsetann og einnig ritarann, en forsetinn hugðist sitja áfram og taldi nær að stjórnarmennirnir tíu létu af störfum. Til töluverðra átaka kom á fundinum sem margir lýstu eftir á sem æsispennandi og dramatískum. Málum lyktaði þannig á fundinum að forseti óskaði eftir stuðningi meirhluta aðalfundar, sem hann fékk ekki. Var þá kosinn nýr forseti og í kjölfarið einnig nýr ritari. Hafa stjórnarstörf í samtökunum verið með allt öðrum og notalegri blæ eftir þessa breytingu. Nýr forseti samtakanna er Bayreuthbúi, Horst Eggerz, vel tengdur í Festspielhaus, sem ekki var raunin með fyrri forsetann og hefur það þegar skilað sér m.a. í því að opnað hefur verið aftur fyrir miðaforrétttindi til Wagnerfélaga. En meir um Alþjóðasamtökin síðar í skýrslunni.

Á afmælisdegi Richards Wagner, 22. maí, efndu Sinfóníuhljómsveitin og Íslenska óperan til flutnings á óperu Benjamins Britten, Peter Grimes. Þetta var í raun konsertuppfærsla, þó með smá leiktilburðum og voru söngvararnir allir staðsettir fremst á sviðinu, fyrir framan hljómsveitarstjórann. Fyrir þá sem dreymir um Wagneróperur á Íslandi var það svolítið kaldhæðnislegt að upplifa Britten óperu á afmælisdegi Wagners meðan óperur hans eru nánast allar enn ófluttar á Íslandi, en vissulega var þetta samt ánægjulegt framtak og tókst að mörgu leyti vel.

Bayreuthhátíðin hófst að venju 25. júlí, en ekki var um hópferð að ræða að þessu sinni og formaður var ekki viðstaddur opnun hátíðarinnar eins og oft áður en sótti í staðinn styrkþegadagana 4. til 8. ágúst. Það bar helst til tíðinda í Bayreuth í sumar, fyrir utan frumsýningu á nýjum Tristan í leikstjórn Katharinu Wagner að Wagnersafnið var opnað á ný í Villa Wahnfried ásamt því að ný bygging við hlið Wahnfried hefur verið tekin í notkun. Styrkþegi félagsins sl sumar var afar vel að því kominn að fara í nafni félagsins á hátíðina, því það var Þorleifur Örn Arnarsson, sem starfar sem leikstjóri í Þýskalandi auk þess að setja upp sýningar hér heima. Hann hefur það m.a. á verðleikaskrá sinni að hafa sett upp Lohengrin í Augsburg 2014 og hafa verið ráðinn til að setja upp Siegfried í uppfærslu Niflungahringsins í Karlsruhe, sem mun hafa þá sérstöðu að fjórir ungir leikstjórar hafa verið ráðnir til verksins og taka að sér hver sína óperuna. Rheingold verður frumsýnt núna í sumar, Walküre í desember og Siegfried verður frumsýndur 10. júní á næsta ári og Götterdämmerung um haustið 2017.

Strax í september hófust svo aftur óperusýningar í kvikmyndahúsum með óvenjulegri sýningu í Háskólabíói frá Sydney í Ástralíu, þar sem óperan Aida var sett upp utanhúss við höfnina, rétt hjá óperuhúsinu fræga. Á haustmánuðunum voru svo 6 aðrar óperur sýndar í kvikmyndahúsunum.

Fyrsta haustsamkoman hjá Wagnerfélaginu var 10. október, en þá kvað nýr fyrirlesari sér hljóðs á vegum félagsins, en það var Egill Arnarson, sem flutti fyrirlesturinn : “Fegurð fjarlægs óms“, sem fjallaði um ævi og verk tveggja óperutónskálda frá öndverðri 20. öld, þeirra Franz Schreker og Alexanders Zemlinsky. Að erindinu loknu var svo sýnd óperan Der Zwerg eftir Zemlinsky frá 1922, en hún er byggð á smásögu Oscars Wilde.

Rúmum mánuði síðar, laugardaginn 8. nóvember, var árshátíð félagsins haldin á Hótel Holti að venju og mjög til hennar vandað vegna 20 ára afmælis félagsins. Frú Vigdís Finnbogadóttir heiðraði félagið með því að taka að sér veislustjórn, sem átti stóran þátt í að gera kvöldið sérlega hátíðlegt. Hinn glæsilegi, ungi baritónsöngvari Oddur Arnþór Jónsson kom og söng fyrir veislugesti ásamt píanóleikaranum Juliu Pujol. Auk þess að flytja lag eftir Schubert, aríu úr Falstaff og Sönginn til kvöldstjörnunnar úr Tannhäuser frumflutti Oddur lag Reynis Axelssonar Á slóð Völsungu. Reynir samdi lagið við ljóð Hannesar Péturssonar og færði félaginu það að gjöf á tvöhundruðasta afmælisdegi Wagners 22. maí 2013. Reynir lét meira til sín taka þetta kvöld því hann flutti í upphafi samkomunnar afar fróðlegan og skemmtilegan fyrirlestur um Wagner og Rossini. Að venju voru einnig erindi undir borðhaldi og sögðu þau hjónin Bjarni Gunnarsson og Dagbjört Gunnarsdóttir afar lifandi og skemmtilega frá ferð sinni á Niflungahringinn í Dessau og skoðunarferðum um svæðið. Formaður sagði svo frá ferð sinni á Bayreuthhátíðina sl. sumar og svo í beinu framhaldi af henni frá ferð til Torre del Lago á Ítalíu á Puccinihátíðina sem haldin er þar hvert sumar.

Efnt var til hópferðar til Berlínar dagana 12. til 17. nóvember í samvinnu við Wowferðir. Boðið var upp á sýningar á Tannhäuser og Manon Lescaut í Deutsche Oper og Hollendinginn fljúgandi í Staatsoper unter den Linden, sem enn er til bráðabrigða í Schillertheater. Gunnar Snorri Gunnarsson sendiherra bauð hópnum heim á undan sýningu á Tannhäuser og sýndi sendiherrabústaðinn fallega í Grunewald og sagði sögu hans. Auk þess lék hann fyrir gesti, ásamt formanni, tvö Wagnerverk fjórhent á píanóið.

Hinn eiginlegi 20. afmælisdagur félagsins var 12. desember og þann dag var efnt til samkomu í Norræna húsinu. Formaður flutti þar erindið „Tuttugu ár með Ríkharði“, sem byggði að miklu leyti á erindi sem hún hafði flutt í Listaháskólanum sl. vor. Þar rakti hún m.a. ítarlega forsöguna að stofnun félagsins, sagði frá afskiptum sínum og aðkomu að Litla Hringnum á Listahátíð 1994, sem varð upptakturinn að stofnun félagsins og þeim tengslum sem komust á við Bayreuth gegnum samstarf hennar fyrir hönd Listahátíðar við Wolfgang Wagner. Farið var yfir starf félagsins í tuttugu ár í máli og myndum. Árni Blandon flutti svo fróðlega fyrirlestur um Tristan og Isolde undir heitinu „Tristan og Isolde, listin að elska – vináttan og tryggðin“. Í víðfeðmu erindi fór hann m.a. yfir sköpunarferli óperunnar, kenningar um erótík og algleymi og eros og dauðann. Auk þess rakti hann ýmsar mismunandi útgáfur sögunnar og sagði m.a. frá Trístransrímum Sigurðar Breiðfjörð og gagnrýni Jónasar Hallgrímssonar á rímur Sigurðar. Að erindi Árna loknu var sýndur fyrsti þáttur Tristan og Isolde frá La Scalaóperunni í Mílanó í leikstjórn Patrice Chereau, þar sem Waltraud Meier fór eftirminnilega með hlutverk Isolde.

Það var von okkar í stjórninni að geta opnað heimasíðu félagsins á afmælisárinu og hefur gjaldkerinn okkar, hann Jón Ragnar, lagt í það töluverða undirbúningsvinnu, auk þess sem bæði ég og Ásmundur ritari söfnuðum ýmsum greinum og upplýsingum úr sögu félagsins sem gætu komið að gagni. Margir fyrirlesarar hafa gefið leyfi fyrir birtingu fyrirlestra á þessari framtíðarsíðu, sem ég vona að komist í gagnið á næstu mánuðum. Stofnuð var Facebooksíða þar sem settar eru inn helstu upplýsingar auk þess sem ég held áfram að senda út oft og reglulega til félagsmanna upplýsingar um áhugaverða atburði, hvort sem þeir eru beinlínis á vegum félagsins eða ekki. Allflestir félagsmenn eru nú búnir að gefa okkur upp tölvupóstfang og njóta því þessarar upplýsingamiðlunar. Þeir sem enn hafa ekki látið okkur í té tölvupóstfang eða hafa breytt sínu fyrra eru endilega beðnir að láta vita.

Stjórnin hefur einnig reynt að beita sér fyrir endurútgáfu á bók Árna Björnssonar, „Wagner og Völsungar“, en hún er orðin uppseld. Hafa viðræður farið fram við ýmsa aðila og möguleikar verið skoðaðir. Þótt bókin sé ekki eldri en frá árinu 2000, eru útgáfugögnin í rafrænu formi ekki lengur til og segja kunnugir að jafnvel þótt þau væru til, væru þau úrelt. Það kann því að vera eini möguleikinn að ljósprenta bókina, en kostnaður við slíkt liggur ekki fyrir. Þetta verður áfram í athugun. Þýsku og ensku útgáfuna er hægt að kaupa á netinu.

Það hefur lengi verið von okkar í stjórninni að Wagnerópera kæmist aftur á svið hér heima og hef ég reglulega farið á fund bæði óperustjóra og framkvæmdastjóra Listahátíðar til að vinna þeirri hugmynd fylgi, en okkur hefur ekki orðið að þeirri ósk enn sem komið er frá því Hollendingurinn fór á svið 2004 og þar áður Litli Hringurinn 1994. Nú hefur nýr óperustjóri tekið við og nýliðun orðið í stjórnum bæði óperunnar og vinafélagsins, og eru þar nú nokkrir stjórnarmenn, sem jafnframt eru meðlimir Wagnerfélagsins, svo ef til vill má vera bjartsýnni en áður. Óperurekstur á Íslandi mun þó aldrei verða til stórræðanna fyrr en komið hefur verið á samvinnu Óperunnar og Sinfóníuhljómsveitar Íslands, þannig að hljómsveitin taki þátt í amk tveim uppfærslum á ári í sínum vinnutíma. Það er það vinnulag sem tíðkast í flestum minni borgum erlendis og það jafnvel borgum sem eru miklu stærri en Reykjavík. Ég fæ mikið af fyrirspurnum erlendis frá vegna hópa, aðallega Wagnerfélaga, sem vilja koma til landsins og sjá óperusýningar en það er erfitt um vik að aðstoða, því öll plön ná svo skammt fram í tímann. Meðan Wagner er svona lítið sýndur hér, fer einnig töluverður kraftur í félagsstarfinu í að skipuleggja ferðir félagsmanna að sjá sýningar erlendis. M.a. fer 16 manna hópur til Dresden í lok maí að sjá Lohengrin, þar sem Anna Netrebko syngur Elsu. Í skoðun er miðapöntun til New York í haust þegar nýr Tristan verður frumsýndur á Metropolitan og 8 félagsmönnum var hægt að bjarga um miða á Niflungahringinn í Stokkhólmi í maí 2017.

Félagið er, eins og oft hefur komið fram, áfram aðili að Alþjóðasamtökum Wagnerfélaga, og greiðir ákveðið árgjald til þeirra sem nemur 2 evrum fyrir hvern félagsmann. Samtökin standa m.a. fyrir árlegu þingi. 2015 var það haldið í Dessau í Þýskalandi, á komandi vori verður það haldið í Strasbourg og 2017 í Búdapest. Árin þar á eftir hafa borgir eins og Innsbruck, Feneyjar, Bonn og München lýst yfir áhuga á að hýsa þingið. Á þessum þingum er yfirleitt reglan að flutt sé Wagnerópera á meðan þingið stendur, stundum allur Hringurinn eins og var í Dessau. Wagnerfélögin í viðkomandi bæjum vinna að því að fá óperuhús staðanna og aðrar stofnanir til að setja upp óperur og halda tónleika. Þess má geta að í Strasbourg í maí verður flutt æskuópera Wagners, Das Liebesverbot.

Önnur verkefni Alþjóðasamtakanna eru m.a. að standa fyrir Wagnersöngkeppni á nokkurra ára fresti, keppnin var haldin af miklum myndarbrag í Karlsruhe síðastlið haust og mun að líkindum verða áfram þar þriðja hvert ár. Formaður fór til Karlsruhe í október og fylgdist með keppninni og var hún á mjög háum gæðastaðli. Aðdáunarvert var að fylgjast með hve borgaryfirvöld, óperuhúsið í Karlsruhe og Wagnerfélag staðarins höfðu undirbúið þessa keppnisdaga vel. Hljómsveit óperuhússins lék með keppendum í síðustu lotu keppninnar og hélt auk þess sérstaka Wagnertónleika fyrir gesti. Annað dæmi um kröftugt starf þýsks Wagnerfélags er félagið í Minden sem er borg í Westfalen, talsvert minni en Reykjavík, sem á leikhús sem er ekki mikið stærra en Gamla bíó. Öflug forysta Wagnerfélagsins þar hefur beitt sér fyrir Wagneruppfærslum og hóf í september sl sýningar á Niflungahring með því að sviðsetja Rheingold, en hinar óperurnar eiga svo að fylgja í kjölfarið, með árs millibili. Á pínulitlu sviði, sem þó hafði nógu mikla dýpt til að hljómsveitin var öll uppi á sviðinu, bak við söngvarana, var hægt að búa til mjög sannfærandi sýningu. Formaður var viðstaddur frumsýninguna og upplifði þar sömu stemninguna og í Karlsruhe. Bæjaryfirvöld, Wagnerfélagið og óperuhús staðarins lögðust öll á eitt að koma þessu um kring og lögðu stolt sitt í framkvæmdina. Sem dæmi um önnur atorkusöm Wagnerfélög má nefna að Wagnerfélagið í München beitti sér fyrir því árið 2014 að farið var til Kúbu og þar sett upp Wagnerópera og stofnað Wagnerfélag. Það var Hollendingurinn fljúgandi sem var settur upp og var það í fyrsta sinn í meira en 60 ár, sem Wagnerópera var sett upp á Kúbu. Nú hefur Wagnerfélagið í Singapore einsett sér að þar verði sýnd Wagnerópera í fyrsta sinn og verður það Hollendingurinn fljúgandi í október á þessu ári. Leituðu forsvarsmenn félagsins til Alþjóðasamtakanna um stuðning sem þeir fengu,einkum með faglegri aðstoð við að manna sýningunna og munu flest aðalhlutverkin verða sungin af söngvurum sem hafa tekið þátt í og komist í verðlaunasæti í Wagnersöngkeppninni fyrrgreindu. Formaður hyggst fara til Singapore af þessu tilefni og hefur verið boðið að halda erindi í Tónlistarháskólanum þar um Niflungahringinn og Ísland, um Litla Hringinn 1994 og mikilvægi íslenskra bókmennta fyrir Wagner.

Undir hatti Alþjóðasamtakanna eru einnig árlegir Wagnerdagar í Feneyjum í nóvember, haldnir af Wagnerfélagi staðarins og sömuleiðis samkeppni ungra leikstjóra og sviðsmyndahönnuða ´sem er á þriggja ára fresti haldin í Graz, með Wagnerfélagið þar í forystu.

Hin nýja stjórn Alþjóðasamtakanna, sem formaður á sæti í, beitir sér nú mjög fyrir því að auka innbyrðis tengsl aðildafélaganna, sem eru hátt í 130 samtals, frá öllum heimsálfum. Fjórir stjórnarmeðlimir, þar með talið formaður, hafa myndað hóp sem gefur úr fréttabréf u.þ.b. þrisvar á ári og hefur það mælst mjög vel fyrir hjá aðildarfélögum. Dálítill urgur hefur verið undanfarin ár, eftir að Wagnerfélög hættu að njóta miðaforrétinda í Bayreuth, nokkur félög í Bandaríkjunum sögðu sig úr Alþjóðasamtökunum og var óttast að fleiri fylgdu í kjölfarið. Nú hefur stjórn samtakanna fengið stjórnendur Festpielhaus í Bayreuth, eins og áður greindi frá til að innleiða aftur ráðstöfun á ákveðnum fjölda miða til aðildarfélaga og fengust fyrir hátíðina í ár ca 1300 miðar. Aðferðir til að skipta þessu réttlátlega milli félaga hafa verið í skoðun, þess ber að geta að það voru aðallega félög utan Þýskalands sem nutu þessara fríðinda áður, eins og okkar félag. Gerð var í þetta skipti tilraun með að skipta miðum sem stæðu til boða í réttu hlutfalli við félagatölu. Eftir þeirri reglu átti okkar félag rétt á u.þ.b. 11 miðum í sumar. Ef eitthvað yrði eftir, þegar umsóknarfresti lauk, gátu félög keypt fleiri miða. Reynslan sýndi að það voru ekki nema um 60 félög sem sóttust eftir miðum og verður því reynt í framhaldinu að hafa allt að 30 miða pr. félag í boði fyrir aðildarfélög, óháð félagatölu. Formaður kynnti þessa möguleika á miðakaupum ítarlega í nóvember og 7 manns nýttu sér þetta og fara á hátíðina í sumar. Innleiðsla miðafríðindanna hafði í för með sér að nokkur af amerísku félögunum eru aftur gengin í samtökin, m.a. New York félagið. Mig langar líka að segja frá því hér að Alþjóðasamtökin sendu út hvatningu til aðildarfélaganna um að hjálpa til við fjármögnun á stórmerku riti, sem koma mun út á komandi sumri, en það er Saga Bayreuthhátíðarinnar, rituð af Dr. Oswald Georg Bauer. Oswald Georg Bauer er okkar félögum vel kunnur því hann hefur tvívegis komið hingað með fyrirlestra ásamt samstarfsmanni sínum, Peter Werth. Fyrir 25 árum fór Wolfgang Wagner þess á leit við Bauer, sem hafði verið hægri hönd hans í Festspielhaus um árabil, að hann tækist á hendur að rita sögu hátíðarinnar frá upphafi. Oswald er leikhúsfræðingur og hefur m.a. gefið út merkar bækur um Wagneruppfærslur. Hann kom hingað til lands með erindi fyrst árið 1994, þegar Listahátíð sýndi Litla Hringinn, og sýndi þá í fyrsta sinn opinberlega litmyndir úr frumuppfærslu Niflungahringsins ári 1876 þar sem Josef Hoffman vann leikmynd. Þá var Bauer nýbúinn að finna þessar myndir á ævintýralegan máta, en þær voru taldar glataðar og einungis til svarthvítar teikningar. Saga Bayreuthhátíðarinnar eftir Oswald Bauer mun vera um 1600 síður í tveim bindum, með yfir 1000 myndskreytingum, og hefur Peter Werth séð um uppsetningu mynda. Félagið okkar brást vel við hvatningu Alþjóðasamtakanna um að leggja málefninu lið, ekki síst í minningu Wolfgangs Wagner og ákvað stjórnin að leggja 500 evrur í bókaútgáfuna og mun félagsins verða getið í bókinni meðal stuðningsaðila.

Eitt af mikilvægustu verkefnum aðildafélaga alþjóðasambandsins er að fjármagna starf Richard Wagner styrkþegastofnunarinnar í Bayreuth sem hefur það markmið að styrkja unga tónlistar- og sviðslistamenn til að sækja Bayreuthhátíðina. Félagið okkar mun nú átjánda árið í röð senda styrkþega út til Bayreuth. Styrkþeginn næsta sumar mun sjá Hollendinginn, Götterdämmerung og Parsifal, en ný uppfærsla af þeirri óperu fer á fjalirnar í sumar. Styrkþegar til þessa hafa verið:

Sjá: Styrkþegar félagsins

Framlag félagsins til þessa málefnis er nú 580 Evrur. Menntamálaráðuneytið hefur einnig frá upphafi styrkt félagið vegna þessa máls og hefur styrkur ráðuneytisins að mestu gengið til styrkþegans upp í ferðakostnað. Sótt hefur verið til Menntamálaráðuneytisins vegna styrkþega næsta sumar og fengist styrkur. Oddur Arnþór Jónsson mun væntanlega verða styrkþegi félagsins á komandi sumri. Um 250 styrkþegar koma ár hvert á hátíðina, flestir þeirra frá Þýskalandi.

Að lokum vil ég geta þess að félagar í Wagnerfélaginu eru nú 226 talsins og bætast stöðugt nýir félagar í hópinn. Ekki er mikið um úrsagnir úr félaginu, en haft er að reglu að taka menn út af félagaskrá greiði þeir ekki félagsgjöld sín tvö ár í röð. Sem formaður vil ég nota tækifærið og þakka ánægjulegt samstarf við stjórn félagsins og varastjórn, svo og endurskoðendum félagsins, þeim Halldóri Halldórssyni og Guðrúnu Nordal. Ég vil einnig þakka Menntamálaráðuneytinu fyrir fjárstuðning við styrkþegaverkefnið okkar. Loks vil ég fyrir hönd stjórnarinnar þakka öllum þeim félagsmönnum, sem hafa hjálpað til við að halda uppi starfi félagsins.

Selma Guðmundsdóttir
formaður Richard Wagner félagsins