Ársskýrsla 2017
á aðalfundi í Hannesarholti 4. mars 2018
Skýrsla formanns, Selmu Guðmundsdóttur, á 22. aðalfundi félagsins 4. mars 2018 í Hannesarholti.
Þetta er 22. aðalfundur Richard Wagner félagsins á Íslandi, en félagið var formlega stofnað 12. desember árið 1995 að undangengnum undirbúningsstofnfundi sama ár úti í Bayreuth.
Samkvæmt lögum félagsins er kosið í stjórn annað hvert ár og var það síðast gert fyrir tveim árum. Það verður því stjórnarkosning hér á eftir. Stjórnina skipa, auk mín sem formaður félagsins: Sólrún Jensdóttir varaformaður, Jón Ragnar Höskuldsson gjaldkeri, Egill Arnarson ritari og Jóhann J. Ólafsson í aðalstjórn. Í varastjórn Ásmundur Jakobsson, Ásdís Kvaran og Björn Bjarnason.
Ég ætla nú að rekja í stuttu máli starfsemi félagsins síðastliðið ár. Dagskrá félagsins 2017 hófst með aðalfundi félagsins 11. febrúar í Norræna húsinu en fundurinn skal skv. lögum félagsins, vera haldinn á tímabilinu janúar til mars. Að fundinum loknum hélt Árni Blandon erindi, sem bar heitið: Wagner og Nietzsche – Vinir og fjandvinir. Í erindinu var fjallað um það á hvaða forsendum vinátta tónskáldsins Wagners og heimspekingsins Nietsches byggðist þegar þeir kynntust og hvað olli því síðar að þeir sneru baki við hvor öðrum. Árni Blandon hefur kynnt óperur Wagners í Ríkisútvarpinu, Morgunblaðinu og hjá Endurmenntun Háskóla Íslands.
Á tímabilinu frá janúar til loka júní voru alls um 10 bíóútsendingar frá óperusviðum erlendis, aðallega frá Metropolitan óperunni í Kringlubíói en einnig frá Covent Garden í London í Háskólabíói. Auk þess kynnti félagið reglulega óperusýningar, sem sendar voru út á netinu úr ýmsum óperuhúsum, m.a. frá München og Vínarborg. Ég ætla ekki að rekja nánar um hvaða sýningar var að ræða, en við í stjórninni leggjum áherslu á að kynna þessar sýningar vel meðal félagsmanna enda njóta þær mikilla vinsælda og hafa mikið til leyst af hólmi okkar eigin sýningar á óperum í Norræna húsinu. Franska sjónvarpsstöðin mezzo.tv, sem er landsmönnum aðgengileg gegnum Símann eykur einnig mjög framboð á óperusýningum og tónleikum í sjónvarpi.
Í maí voru 10 félagsmenn í Stokkhólmi þar sem Stokkhólmsóperan hafði boðað tvær umferðir af Niflungahringnum og var þar á ferðinni 10 ára gömul uppfærsla Stefans Valdemars Holm. Söngstjarnan Nina Stemme fór með hlutverk Brynhildar og Katarina Dalayman söng Frigg. Sænskir söngvarar voru í öllum hlutverkum nema einu. Allir miðar á þessa 2 Hringi seldust upp á 20 mínútum en eftir að nokkrir félagsmenn hjá okkur höfðu látið í ljós áhuga tókst formanni að fá 10 miða gegnum Wagnerfélagið í Gautaborg, sem hafði pantað ríflega og var aflögufært. Þetta var ógleymanlegt ævintýri þeirra sem fengu að njóta.
Hið árlega þing Alþjóðasamtaka Wagnerfélaga var haldið dagana 7.–10. júní í hinni fögru Búdapest. Í boði voru m.a. Parsifalsýning í lítils háttar leikstýrðri konsertuppfærslu og óperan Kastali Bláskeggs eftir Béla Bartók. Auk þess voru tónleikar, fyrirlestrar og skoðunarferðir. Þetta var líka mikið ævintýri fyrir þá félagsmenn sem tóku þátt og bættu þeir framan við ferðina 4 dögum í Vínarborg, með Götterdämmerung í Vínaróperunni. Í lok ferðarinnar var komið við í Karlsruhe til að vera við frumsýningu á Siegfried í uppfærslu Þorleifs Arnar Arnarssonar, en hann er einn fjögurra ungra leikstjóra, sem skiptu á milli sín óperunum í þessum nýja Hring í Karlsruhe. Þetta var stórglæsileg sýning sem fékk mjög góðar viðtökur áheyrenda. Rúsínan í pylsuendanum var svo viðkoma í Hamborg og Elbphilharmonie, stórkostlegt tónleikahús, sem allir verða að sjá og upplifa.
Bayreuthhátíðin hófst að venju 25. júlí, með frumsýningu Meistarasöngvaranna í leikstjórn ástralska gyðingsins Barries Kosky og hljómsveitarstjórn Philips Jordan. Sýningin var mjög kraftmikil og lifandi og eins og við mátti búast var gert eins mikið úr gyðingaandúð Wagners og hægt var og jafnvel meir. Ánægjuefni var að félaginu buðust aftur miðar á hátíðina í gegnum Alþjóðasamtök Wagnerfélaga og fóru 8 manns og sáu Niflungahring Franks Castorf, sem gekk á sínu síðasta ári. Þar fyrir utan fengust tveir miðar á Meistarasöngvarana, tveir á Tristan og tveir á Valkyrjuna. Styrkþegi félagsins var sópransöngkonan Valdís Gregory, sem söng á árshátíð félagsins 2016.
Styrkþegatímabilið er að venju um miðja hátíðina, í 5 daga og er undir yfirumsjón
Styrkþegastofnunarinnar í Bayreuth í samvinnu við Alþjóðasamtök Wagnerfélaga en eitt af meginmarkmiðum samtakanna er að sjá til þess að Wagnerfélög í samtökunum fjármagni för ungs listamanns á Bayreuthhátíðina. Okkar félag hefur sent listamenn allt frá árinu 1998.
Strax í september hófust svo aftur óperusýningar í kvikmyndahúsum með frábærri uppfærslu á Normu eftir Bellini. Á haustmánuðunum voru svo 6 aðrar óperur sýndar í kvikmyndahúsunum frá Metropolitan Opera og Covent Garden.
Í september var formaður einnig boðinn að vera viðstaddur á frumsýningu á Siegfried í borginni Minden í Westfalen í Þýskalandi, sem á leikhús sem er ekki mikið stærra en Gamla bíó. Í þessum tiltölulega litla bæ er afar öflugt Wagnerfélag sem hefur beitt sér fyrir uppfærslum á óperum Wagners og hóf fyrir 3 árum sýningar á Niflungahringnum með því að sviðsetja Rheingold, en hinar óperurnar hafa svo fylgt í kjölfarið, með árs millibili. Á komandi sumri verður komið að Götterdämmerung og árið þar á eftir allur Hringurinn eins og hann leggur sig. Á pínulitlu sviði, sem þó hefur nógu mikla dýpt til að hljómsveitin er öll uppi á sviðinu, bak við söngvarana, hefur verið hægt að búa til mjög sannfærandi sýningar. Bæjaryfirvöld, Wagnerfélagið og óperuhús staðarins leggjast öll á eitt að koma þessu um kring og leggja stolt sitt í framkvæmdina.
Fyrsta samkoma vetrarins var árshátíð félagsins, sem haldin var föstudaginn 27. október. Heiðursgestur hátíðarinnar var Eva Wagner-Pasquier. Eins og áður hefur komið fram var Richard Wagner langafi Evu en Franz Liszt langalangafi. Eva á að baki mjög glæsilegan feril sem listrænn stjórnandi við óperuhús og listahátíðir. Í hitteðfyrra lauk 7 ára starfi hennar við Bayreuthhátíðina, sem hún stýrði frá því að Wolfgang faðir hennar hætti, ásamt Katarinu hálfsystur sinni. Í dag er hún m.a. listrænn ráðgjafi Metropolitan óperunnar. Hún er einnig tengiliður Bayreuthhátíðarinnar við Alþjóðasamtök Wagnerfélaga. Árshátíðin hófst með ávarpi Evu, sem sagði frá óvenjulegu lífi sínu sem meðlimur Wagnerfjölskyldunnar og störfum sínum víða um heim. Heimsókn Evu stóð yfir í 5 daga. Hún heimsótti Þjóðleikhúsið í boði Ara Matthíassonar Þjóðleikhússtjóra auk þess sem forsetaembættið var með mótttöku. Á föstudag á undan árshátíð sýndu þau Árni Björnsson og Sólrún Jensdóttir henni Þjóðminjasafnið og hún fór í Árnastofnun að skoða Edduhandritin. Þýski sendiherrann bauð auk þess í hádegisverð. Á laugardag keyrði formaður Evu Gullna hringinn með Árna Björnsson og Egil Arnarsson til leiðsagnar og liðveislu. Eva var afar ánægð og vill koma sem fyrst aftur. Henni var einnig boðið á tónleika Sinfóníuhljómsveitar Íslands og á Toscu hjá Íslensku óperunni.
Árshátíðin fór annars að venju vel fram. Undir fordrykknum söng sópransöngkonan Sigrún Björk Sævarsdóttir fyrir gesti, en hún hefur undanfarin ár stundað framhaldsnám úti í Leipzig og var styrkþegi sl. sumar í Bayreuth á vegum Wagnerfélagsins þar í borg. Með henni lék Eun Chong Park píanóleikari frá Suður Kóreu. Að loknum fordrykknum kom veislumáltíð að hætti Holts, og undir borðum voru frásagnir félagsmanna frá liðnu ári. Hafliði Pétur Gíslason sagði frá ferð sinni á Niflungahringinn í Stokkhólmi, en þangað fór 10 manna hópur í maí sl. Svana Helen Björnsdóttir og Gretar Ívarsson sögðu í máli og myndum frá Bayreuthferð sinni í ágúst en þangað fóru 8 félagsmenn og sáu Niflungahring Franks Castorf. Veislustjóri var Gunnar Snorri Gunnarsson sendiherra.
Dagana 9. til 12. nóvember sóttu 50 félagsmenn svokallaða Wieland Wagnerdaga í Berlín, sem Alþjóðasamtök Wagnerfélaga stóðu fyrir, með Wagnerfélagið í Berlín í fremstu línu. Þessa dagana var minnst 100 ára afmælis Wielands Wagner, sem var frá endurreisn Bayreuthhátíðarinnar eftir stríð stjórnandi hennar ásamt bróður sínum Wolfgang. Hann var einnig mikilvirkur leikstjóri og hafði sem slíkur mikil áhrif, en hann lést fyrir aldur fram árið 1966. Deutsche Oper var með í þessu verkefni og sýndi Lohengrin í leikstjórn Kaspers Holten og Tannhäuser í leikstjórn Kerstin Harms. Margt frábærra söngvara var með, m.a. Klaus Florian Vogt, Gunther Groissböck, Rachel Willis-Sörensen, Petra Lang, Andreas Schager, Markus Brück, Emma Bell etc. Deutsche Oper hýsti að auki symposium um leikstjórann og listamanninn Wieland Wagner. Vakti þar einna mesta athygli samtal Rainers Fineske, formanns Wagnerfélagsins í Berlín, við annars vegar söngkonuna frægu Önju Silju, sem var um árabil ástkona Wielands og hins vegar við Nike Wagner, dóttur hans.
Haldinn var glæsilegur galadinner sem hófst með píanótónleikum hinnar frönsku Florence Delagee.
Íslenski hópurinn sá báðar óperurnar og heimsótti einnig íslenska sendiráðið í boði sendiherrans, Martins Eyjólfssonar. Örfáir voru svo lánsamir að heyra tónleika Víkings Heiðars Ólafssonar í Piano Salon Christofori. Sýningarkvöldin tvö enduðu með máltíð á hinum huggulega veitingastað Don Giovanni, steinsnar frá Deutsche Oper.
26. nóvember var fyrirlestur Egils Arnarsonar í Norræna húsinu um Wagnerismann í Frakklandi. Hann fjallaði um hvað það var einkum í tónverkum Wagners sem hreif svo marga listamenn í Frakklandi á seinni hluta 19. aldar og fram yfir aldamót? Hvernig birtust áhrif hans í tónsmíðum þessa tíma? Og hvers vegna vöktu þau áhrif svo miklar deilur? Að því loknu var sýnd óperan Aríana og Bláskeggur (1907) eftir Paul Dukas en hann er einkum þekktur fyrir hljómsveitarverk sitt Lærisveinn galdrameistarans. Egill Arnarson (f. 1973) nam heimspeki, sögu og latínu á Íslandi, í Frakklandi og Þýskalandi. Hann hefur um árabil starfað sem ritstjóri hjá Háskólaútgáfunni en gegndi áður stöðu ritara þingmanna hjá skrifstofu Alþingis. Ýmsar þýðingar á sviði hugvísinda eru til eftir hann, s.s. á Heimspekibókinni sem Forlagið gaf út.
Félagið er, eins og oft hefur komið fram, áfram aðili að Alþjóðasamtökum Wagnerfélaga, og greiðir ákveðið árgjald til þeirra sem nemur 2 evrum fyrir hvern félagsmann. Í samtökunum eru samanlagt um 20.000 félagar í 125 Wagnerfélögum víða um heim og í -llum heimsálfum. Félagið okkar er númer 29 í röðinni að stærð en vafalaust langstærst miðað við höfðatölu og vekur stærð þess töluverða athygli.
Samtökin standa m.a. fyrir árlegu þingi. Á síðastliðnum árum hefur það verið haldið í Prag, Leipzig, Graz, Dessau, Strasbourg og Búdapest. Nú í ár verður það haldið í Innsbruck dagana 21. til 24. júní. Á næsta ári verður það í Feneyjum, 2020 í Bonn og 2021 í München. Önnur verkefni Alþjóðasamtakanna eru m.a. að standa fyrir Wagnersöngkeppni á þriggja ára fresti, næst á komandi hausti í Karlsruhe og einnig keppni fyrir unga leikstjóra og leikmyndahönnuði í Graz Auk þess hafa þau aðkomu að Wagnerþingi í Feneyjum í nóvember ár hvert. Eins og félagsmönnum mun kunnugt hefur formaður átt sæti í stjórn samtakanna frá því 2014, en stjórnin beitir sér nú mjög fyrir því að auka innbyrðis tengsl aðildafélaganna, sem eru hátt í 130 samtals, frá öllum heimsálfum. Fjórir stjórnarmeðlimir, þar með talið formaður, hafa myndað hóp sem gefur úr fréttabréf u.þ.b. þrisvar á ári og hefur það mælst mjög vel fyrir hjá aðildarfélögum.
Eitt af mikilvægustu verkefnum aðildafélaga alþjóðasamtakanna er að fjármagna starf Richard Wagner Styrkþegastofnunarinnar í Bayreuth sem hefur það markmið að styrkja unga tónlistar- og sviðslistamenn til að sækja Bayreuthhátíðina. Félagið okkar mun nú tuttugusta og fyrsta árið í röð senda styrkþega út til Bayreuth. Styrkþeginn næsta sumar mun sjá Lohengrin í nýrri uppfærslu Yuval Sharon. Christian Thielemann stjórnar hljómsveit en þau Roberto Alagna og Anja Harteros eru í aðalhlutverkum. Auk þess er sýning á Parsifal í leikstjórn Uwe Eric Laufenberg og hljómsveitarstjórn Semyon Bychkov. og að lokum Hollendinginn fljúgandi í leikstjórn Jan Philipp Gloger og hljómsveitarstjórn Axel Kober.
Eins og áður sagði hefur félagið okkar sent styrkþega frá 1998 og eru þeir orðnir 21 talsins.
Sjá: Styrkþegar félagsins
Fyrir utan sýningarnar eru í boðinu til styrkþegans leiðsögn um Festspielhaus, Franz Liszt safnið og heimsókn í Richard Wagner safnið, sem ern ú nýuppgert og endurbætt.. Framlag félagsins til þessa málefnis hefur hækkað ört síðustu ár og er nú 700 Evrur. Menntamálaráðuneytið hefur einnig frá upphafi styrkt félagið vegna þessa máls og hefur styrkur ráðuneytisins að mestu gengið til styrkþegans upp í ferðakostnað. Um 250 styrkþegar koma ár hvert á hátíðina, flestir þeirra frá Þýskalandi.
Fyrir ötula baráttu Alþjóðasamtakanna hafa réttindi Wagner félaga til að kaupa miða á Bayreuthhátíðina verið aftur tekin upp. Forsvarsmenn hátíðarinnar hafa viðurkennt að það hafi verið mistök að loka fyrir þennan hóp tryggra áskrifenda. Félagið fékk í fyrra 8 Hringmiða, sem gerir samanlagt 32 miða og að auk 8 miða á aðrar sýningar. Enn er ekki vitað hversu marga miða við fáum í ár en ellefu manns hafa sótt um miða. Miðunum verður úthlutað úr ákveðnum potti, sem Festspielhaus lét til ráðstöfunar og er úthlutað í samræmi við félagafjölda. Aðgöngumiðasala er að öðru leyti orðin mun aðgengilegri. Eftir því sem ég best veit hefst bein miðasala á netinu fyrir næsta sumar 18. mars, á þeim miðum sem enn kunna að vera óseldir.
Um starf félagsins að öðru leyti er það að segja að við erum enn að kanna möguleika á endurútgáfu Wagners og Völsunga, sem er nánast með öllu uppseld. Við könnuðum á síðasta ári hug félagsmanna á að styrkja útgáfuna annað hvort með beinu fjárframlagi eða með því að gerast kaupendur að komandi eintaki. Nokkrir gáfu sig fram en ekki nógu margir og væri gaman ef fleiri sæju sér fært að styrkja eða útvega styrki. Gjaldkeri og ritari félagsins hafa nú safnað miklu efni fyrir væntanlega heimasíðu félagsins sem stefnt er að því að koma á laggirnar innan tíðar. Stofnuð var Facebooksíða þar sem settar eru inn helstu upplýsingar auk þess sem ég held áfram að senda út reglulega til félagsmanna upplýsingar um áhugaverða atburði, hvort sem þeir eru beinlínis á vegum félagsins eða ekki. Allflestir félagsmenn eru nú búnir að gefa okkur upp tölvupóstfang og njóta því þessarar upplýsingamiðlunar.
Þeir sem enn hafa ekki látið okkur í té tölvupóstfang eða hafa breytt sínu fyrra eru endilega beðnir að láta vita.
Við megum enn bíða eftir áþreifanlegum áformum um uppsetningu á Wagneróperu hjá Íslensku óperunni, sem hefur aldrei haft frumkvæði að Wagnersýningu, þótt hún tæki tvisvar þátt í uppfærslum Listahátíðar og Þjóðleikhúss. Margir íslenskir söngvarar spreyta sig á Wagner erlendis. Bjarni Thor Kristinsson mun syngja Wotan og Wanderer í nýjum Niflungahring sem fer af stað í Kassel næsta haust, Sveinn Hjörleifsson syngur Frey við óperuna í Leipzig.Við erum að vonum langeygð eftir Wagnersýningu hérlendis en að sama skapi eykst ferðagleðin og eru sl 2 ár án efa mestu Wagnerferðaár félagsins frá upphafi. Í uppsiglingu er ferð nokkurra félagsmanna á Niflungahringinn í Odense í maí nk og á Niflungahring Roberts Lepage í New York í maí á næsta ári. Auk þess fara nokkrir félagsmenn til Baden-Baden í júlí og sjá Önnu Netrebko á frumsýningu óperunnar Adriana Lecouvreur og njóta þess um leið að hlusta á píanósnillinginn Daniil Trifonov fytja 2 píanókonserta Rachmaninoffs undir stjórn Valerys Gergiev. 19. maí nk verður dagskrá í Norræna húsinu í tengslum við 100 ára afmæli Birgit Nilsson sem Sveinn Einarsson mun annast
Að lokum vil ég geta þess að félagar í Wagnerfélaginu eru nú 204 talsins og bætast stöðugt nýir félagar í hópinn. Ekki er mikið um úrsagnir úr félaginu, en haft er að reglu að taka menn út af félagaskrá greiði þeir ekki félagsgjöld sín tvö ár í röð. Sem formaður vil ég nota tækifærið og þakka ánægjulegt samstarf við stjórn félagsins og varastjórn, svo og endurskoðendum félagsins, þeim Halldóri Halldórssyni og Guðrúnu Nordal og endurskðanda til vara, Guðbjarti Kristóferssyni.
Selma Guðmundsdóttir formaður.