Ársskýrsla 2019
á aðalfundi í Safnaðarheimili Dómkirkjunnar 27. júní 2020
Skýrsla formanns, Selmu Guðmundsdóttur, á 24. aðalfundi félagsins 27.6. 2020 í Safnaðarheimili Dómkirkjunnar.
Þetta er 24. aðalfundur Richard Wagner félagsins á Íslandi, en félagið var formlega stofnað 12. desember árið 1995, að undangengnum undirbúningsstofnfundi sama sumar úti í Bayreuth.
Samkvæmt lögum félagsins er kosið í stjórn annað hvert ár og var það síðast gert 2018. Það verður því stjórnarkosning hér á eftir. Stjórnina skipa, auk mín sem formaður félagsins: Sólrún Jensdóttir varaformaður, Jón Ragnar Höskuldsson gjaldkeri, Egill Arnarson ritari og Jóhann J. Ólafsson í aðalstjórn. Í varastjórn Ásmundur Jakobsson, Ásdís Kvaran og Björn Bjarnason.
Ég ætla nú að rekja í stuttu máli starfsemi félagsins síðastliðið ár. Fyrsta samkoman á árinu var 17. mars í Hannesarholti. Þar fór fyrst fram aðalfundur félagsins og að honum loknum erindi Árna Blandon: Wagner og Thomas Mann.
Dagana 22.-24. mars sótti formaður málþing í München undir merkjum Alþjóðasamtaka Wagnerfélaga og Wagnerfélagsins í München um Wagner og trúarbrögð með fjölda fyrirlestra og sýningu á Parsifal í Bayerische Staatsoper.
Í apríl fóru nokkrir félagsmenn utan í dymbilvikunni, fyrst til Baden-Baden á páskatónlistarhátíðina þar, en þar voru Berliner Philharmoniker mættir til leiks og fluttu m.a. Verdi Requiem undir stjórn Ricardo Muti og Otelló eftir Verdi, með Stuart Skelton í titilhlutverkinu. Leikuppfærslan var í höndum Roberts Wilson en Daniel Gatti stjórnaði hljómsveit. Síðan lá leiðin til Berlínar, á Festtage eða hátíðardaga Daníels Barenboims og var þar farið á Meistarasöngvarana og óperu Prokofieffs, Trúlofun í klaustrinu. Auk þess átti Anna Netrebko að syngja Verditónleika með Barenboim en var forfölluð og fékk staðgengil.
Í maí fóru fimmtán félagsmenn til New York að sjá Niflungahring Roberts Lepage í Metropolitanóperunni, en hann var sýndur þrisvar sinnum og var alveg uppselt á þennan síðasta Hring, sem við sáum frá 6.-11. maí. Þetta var endurupptaka þessarar uppfærslu, sem var frumsýnd í heild 2012. Meðal söngvara núna voru Eva Marie Westbroek, Michael Volle, Günter Groissböck, Stuart Skelton o.fl.
Bayreuthhátíðin hófst 25. júlí, með frumsýningu á nýrri uppfærslu á Tannhäuser í leikstjórn Tobias Kratzer. Kvöldið áður var haldin minningarhátíð með ræðum og tónleikum í Festspielhaus í tilefni þess að 100 ár voru liðin frá fæðingu Wolfgangs Wagner. Formaður var viðstaddur frumsýninguna á Tannhäuser og minningartónleikana ásamt Gunnari Snorra Gunnarssyni sendiherra. Á styrkþegadögunum 14.-18. ágúst var 6 manna hópur félagsmanna á sýningum, sem félagið hafði getað útvegað miða á. Að þessu sinni var styrkþegi félagsins Bryndís Guðjónsdóttir sópransöngkona, sem er að ljúka námi við Mozarteum í Salzburg og hefur getið sér gott orð víða, m.a. á tónleikum með Sinfóníuhljómsveit Íslands.
Formaður þáði í september boð um að vera viðstaddur sýningar á Siegfried og Götterdämmerung í bænum Minden í Westfalen, en þar hafði á fjórum árum verið lokið uppsetningu nýs Niflungahrings í þessum 80.000 manna bæ og var nú allur Hringurinn sýndur. Uppsetningarnar hafa verið í litlu leikhúsi, þar sem hljómsveitin verður að vera á sviðinu, en þetta er allt unnið af miklum metnaði undir forystu formanns Wagnerfélagsins þar í bæ og hefur verið mjög gaman að fylgjast með þessu ævintýri.
Vetrarstarfið sl haust hófst 13. október með myndbandssýningu á Lohengrin með Önnu Netrebko og Piotr Becsala í Hannesarholti. Miklar væntingar höfðu verið sl sumar eftir að kunngert var að Anna Netrebko myndi syngja Elsu í Lohengrin í Bayreuth á nokkrum sýningum. Anna aflýsti hins vegar og hefur því enn ekki sungið í Bayreuth. Hún söng hins vegar Elsu í Dresden fyrir nokkrum árum undir stjórn Christians Thielemann og sáu nokkrir félagsmenn þá sýningu í ógleymanlegri ferð árið 2017. Einmitt sú uppfærsla, sem var sýnd.
Árshátíð félagsins var 2. nóvember á Hótel Holti. Hún hófst með erindi formanns, um Wolfgang Wagner, stjórnanda Bayreuthhátíðarinnar í hátt í 60 ár, sem hefði orðið 100 ára 30. ágúst sl. Þess var minnst víða á sl ári. Wolfgang lést árið 2008. Það var Wolfgang Wagner, sem færði Íslendingum Litla Niflungahringinn árið 1994 og var sú saga sögð í erindi formanns. Fyrirlesturinn var svo endurunninn og styttur til birtingar í Tímariti Máls og Menningar nú í vor en mun svo vera á heimasíðu félagsins í fullri lengd ásamt miklu af myndefni. Að erindinu formanns loknu var barinn opnaður fyrir fordrykk og meðan á honum stóð söng Eyrún Unnarsdóttir sópransöngkona fyrir félagsmenn ásamt Hrönn Þráinsdóttur. Eyrún gat sér gott orð sem greifafrúin í Brúðkaupi Figarós í Þjóðleikhúsinu sl. haust. Að loknum fordrykknum var veislumáltíð að hætti Holts inni á veitingastaðnum og undir borðum frásagnir félagsmanna frá liðnu ári. Sif Ormarsdóttir og Þórhallur Þráinsson sögðu frá ferð sinni á Niflungahringinn í New York í maí. Jón Ragnar Höskuldsson og Jakobína Ólafsdóttir sögðu frá ferð sinni á Wagnerdaga í Búdapest. Veislustjóri var Steinn Jónsson.
Laugardag 16. nóvember var Júlíus K. Einarsson með tónlistarkynningu í Safnaðarheimili Dómkirkjunnar. Hann sagði frá því er upptökulið Decca mætti á Bayreuthhátíðina 1955 og tók upp í stereó í fyrsta skiptið í sögu Bayreuth. Tækifæri gafst til að heyra marga af frægustu Wagnersöngvurum sögunnar “live” í frábærum hljómgæðum.
Hið árlega þing Alþjóðasamtaka Wagnerfélaga var haldið dagana 28. nóv–2.des í Feneyjum. Í boði var glæsileg dagskrá tónleika, óperusýninga, fyrirlestra og skoðunarferða, m.a. Wagner galatónleikar og sýning á óperunni Don Carlo eftir Verdi í Teatro La Fenice. Auk þess var málþing tileinkað minningu Wolfgangs Wagner, þar sem bæði Katharina Wagner og Oswald G. Bauer tóku þátt. Þá var formleg opnun á Richard Wagner safninu í Villa Vendramin, höllinni þar sem Richard Wagner bjó síðustu mánuði ævi sinnar, þar sem nú er rekið spilavíti, en tekist hafa samningar um þetta safn í hluta af vistarverum Wagners, m.a. í herberginu, þar sem hann lést. 6 félagsmenn sóttu þingið.
Um miðjan desember fóru þrír félagsmenn til Gautaborgar að sjá Valkyrjuna í nýjum Hring, sem er í smíðum í Gautaborg og á að verða tilbúinn í heild sinni til sýningar, sem hluti af hátíðarhöldum vegna 400 ára afmælis borgarinnar. Wagnerfélagið í Gautaborg hafði boðið norrænum Wagnerfélögum til sýningarinnar.
Frá janúar til desember voru á annan tug bíóútsendinga frá óperusviðum erlendis, aðallega frá Metropolitan óperunni í Kringlubíói en einnig frá Covent Garden í London í Háskólabíói. Því miður lögðust sýningar frá Covent Garden af á síðari hluta árs. Félagið kynnti einnig reglulega óperusýningar, sem sendar voru út á netinu úr ýmsum óperuhúsum, m.a. frá München og Vínarborg. Við í stjórninni leggjum áherslu á að kynna sýningar í boði vel meðal félagsmanna enda njóta þær mikilla vinsælda og hafa mikið til leyst af hólmi okkar eigin sýningar á óperum í Norræna húsinu. Franska sjónvarpsstöðin mezzo.tv, sem er landsmönnum aðgengileg gegnum Símann eykur einnig mjög framboð á óperusýningum og tónleikum í sjónvarpi. Baldur Símonarson hefur verið afar hjálplegur við kynningar og á fyrir það þakkir skilið.
Félagið er áfram aðili að Alþjóðasamtökum Wagnerfélaga, og greiðir ákveðið árgjald til þeirra sem nemur 2 evrum fyrir hvern félagsmann. Í samtökunum eru samanlagt yfir 20.000 félagar í 125 Wagnerfélögum víða um heim og í öllum heimsálfum. Félagið okkar var fyrir skömmu númer 29 í röðinni að stærð en vafalaust langstærst miðað við höfðatölu og vekur stærð þess töluverða athygli.
Samtökin standa m.a. fyrir árlegu þingi með glæsilegri dagskrá. Á síðastliðnum árum hefur það verið haldið í Prag, Leipzig, Graz, Dessau, Strasbourg, Búdapest, Innsbruck og Feneyjum. Nú í ár átti að halda það í Bonn dagana 24. – 28. september, en því hefur verið aflýst vegna Covid. Í stað þessa þings og til þess að halda aðalfund Alþjóðasamtakanna eru fyrirhugaðir Wagnerdagar í lok janúar í Berlín, með m.a. sýningu á Siegfried, en Deutsche Oper er að koma sér upp nýjum Hring í leikstjórn Norðmannsins Stefans Herheim. Á næsta ári verður þingið í München dagana 14.-18. október og 2022 í Madrid í febrúar. Önnur verkefni Alþjóðasamtakanna eru m.a. að standa fyrir Wagnersöngkeppni á þriggja ára fresti og hefur keppnin í all nokkur undanfarin skipti verið haldin í Karlsruhe af miklum myndarbrag en nú er leitað að nýjum stað og hefur Genf verið nefnd til sögunnar. Samtökin standa einnig fyrir keppni fyrir unga leikstjóra og leikmyndahönnuði í Graz. Tobias Kratzer sem leikstýrir Tannhäuser sýningunni í Bayreuth núna er einmitt sigurvegari úr þessari keppni, sömuleiðis Valentin Schwarz, sem leikstýra átti nýjum Niflungahring í Bayreuth á komandi sumri en því hefur verið frestað til 2022. Auk þessa hafa samtökin einnig aðkomu að Wagnerdögum í Feneyjum í nóvember ár hvert. Eins og félagsmönnum mun kunnugt hefur formaður átt sæti í stjórn samtakanna frá því 2014 og var endurkjörin á aðalfundinum í Feneyjum til næstu fimm ára. Nýr forseti er Rainer Fineske frá Berlín. Stjórnin beitir sér nú mjög fyrir því að fá tilbaka forréttindi aðildafélaganna til að kaupa miða á Bayreuthhátíðina. Auk þess m.a. að auka innbyrðis tengsl aðildarfélaganna. Formaður hefur verið í hópi, sem gefur úr fréttabréf u.þ.b. þrisvar á ári og hefur það mælst mjög vel fyrir hjá aðildarfélögum og hefur því verið dreift til allra félagsmanna aðildarfélaganna.
Eitt af mikilvægustu verkefnum aðildafélaga alþjóðasamtakanna er að fjármagna starf Richard Wagner Styrkþegastofnunarinnar í Bayreuth sem hefur það markmið að styrkja unga tónlistar- og sviðslistamenn til að sækja Bayreuthhátíðina. Félagið okkar ætlaði nú í tuttugusta og þriðja árið í röð að senda styrkþega út til Bayreuth og hafði valið til þess barítónsöngvarinn Jóhann Kristinsson, sem starfar í Þýskalandi og hefur náð miklum árangri í nokkrum keppnum og uppfærslum í óperum. Styrkþeginn átti að sjá Tannhäuser, Siegfried og Meistarasöngvarana. Þessu hefur verið aflýst, þar sem hátíðin féll niður og er frestað um ár.
Eins og áður sagði hefur félagið okkar sent styrkþega frá 1998 og eru þeir orðnir 24 talsins.
Sjá: Styrkþegar félagsins
Fyrir styrkþegana eru auk sýninganna í boði leiðsögn um Festspielhaus, Franz Liszt safnið og heimsókn í Richard Wagner safnið, sem er nú nýuppgert og endurbætt. Framlag félagsins til þessa málefnis hefur hækkað ört síðustu ár og er nú 700 Evrur. Menntamálaráðuneytið hefur einnig frá upphafi styrkt félagið vegna þessa máls og hefur styrkur ráðuneytisins að mestu gengið til styrkþegans upp í ferðakostnað. Styrkveitingin féll niður í fyrra en nú fengum við aftur styrk í ár. Um 250 styrkþegar koma ár hvert á hátíðina, flestir frá Þýskalandi.
Fyrir ötula baráttu Alþjóðasamtakanna hafa réttindi Wagner félaga til að kaupa miða á Bayreuthhátíðina verið aftur tekin upp. Forsvarsmenn hátíðarinnar hafa viðurkennt að það hafi verið mistök að loka fyrir þennan hóp tryggra áskrifenda eins og gert hafði verið. Félagið fékk árið 2017 átta Hringmiða, sem gerir samanlagt 32 miða og að auki 8 miða á aðrar sýningar. 2018 báðu 12 manns um miða og var hægt að verða við ósk þeirra allra. 2019 báðu færri um miða en það sem beðið var um fékkst. Miðunum er úthlutað úr ákveðnum potti, sem Alþjóðasamtökin hafa til ráðstöfunar og er úthlutað í samræmi við félagafjölda. Hugmyndir voru uppi sl haust um að félagsmenn sæktu sjálfir beint til hátíðarinnar en frá því var fallið og þetta gerist áfram eins og hingað til gegnum formenn félaganna . Aðgöngumiðasala er að öðru leyti orðin mun aðgengilegri og oft hægt að kaupa afgangsmiða beint á netinu.
Hér á eftir verður heimasíða félagsins formlega opnuð. Jón Ragnar Höskuldsson gjaldkeri á mestan heiður af tilkomu vefsins og hefur hann lagt gífurlega vinnu í það auk þess sem ritari og formaður hafa reynt að leggja lið. Félagið er einnig með Facebooksíðu þar sem settar eru inn helstu upplýsingar auk þess sem formaður heldur áfram að senda út reglulega til félagsmanna upplýsingar um áhugaverða atburði, hvort sem þeir eru beinlínis á vegum félagsins eða ekki. Allflestir félagsmenn eru nú búnir að gefa okkur upp tölvupóstfang og njóta því þessarar upplýsingamiðlunar. Þeir sem enn hafa ekki látið okkur í té tölvupóstfang eða hafa breytt sínu fyrra eru beðnir að láta vita.
Eins og kynnt hefur verið var loks uppsetning á Wagneróperu á Íslandi í augsýn. Setja átti upp Valkyrjuna, semi-konzertant, sem samstarfsverkefni Íslensku óperunnar, Sinfóníuhljómsveitar Íslands og Listahátíðar dagana 27. og 29. maí. Sýningarnar áttu að vera upptaktur að Listahátíð, sem sjálf átti að hefjast 6. júní en þeim hefur nú verið frestað vegna Covid. Í tengslum við sýningarnar ætluðum við í félaginu okkar að halda Wagnerdaga í Reykjavík undir hatti Alþjóðasamtaka Wagnerfélaga, með alþjóðlegu málþingi á ensku og þýsku og tónleikum píanósnillingsins Alberts Mamriev. Hátt í tvö hundruð erlendra gesta voru væntanlegir. Talað hefur verið um að Valkyrjan verði í febrúar en það er enn ekki staðfest. Eini íslenski söngvarinn í aðalhlutverki átti að vera Ólafur Kjartan Sigurðarson, í hlutverki Wotans. Valkyrjurnar áttu að vera íslenskar. Margir íslenskir söngvarar hafa sungið Wagner erlendis. Bjarni Thor Kristinsson söng Wotan í Rheingold í nýjum Niflungahring í Kassel, Sveinn Hjörleifsson hefur sungið Frey við óperuna í Leipzig. Tómas Tómasson söng Wotan og Wanderer í Genf við góðan orðstír og hefur einnig sungið Hans Sachs og Telramund auk Klingsors úr Parsifal og nú nýverið einnig Amfortas. Ólafur Kjartan Sigurðarson hefur sungið Hollendinginn í Helsinki og Alberich í nýjum Hring í Gautaborg, þar sem hann fékk frábæra dóma. Þá eru ónefndir þeir Kolbeinn Ketilsson, Viðar Gunnarsson og Kristinn Sigmundsson, sem farið hafa með mörg Wagnerhlutverk. Ekki hefur dregið úr ferðagleði félagsmanna því 41 manns ætluðu að fara til Parísar í lok nóvember að sjá Niflungahring Calexto Bieito í Parísaróperunni með Philippe Jordan á stjórnendapallinum. Margir afar þekktir Wagnersöngvarar áttu að fara með hlutverk svo sem Jonas Kaufmann, Andreas Schager, Ian Patterson, Ekaterina Gubanova, Eva-Marie Westbroek. Þessi Hringur er nú í óvissu. Þær upplýsingar komu frá óperunni að það kynni að verða Hringur í desember, en hann yrði væntanlega í konsertuppfærslu. Um miðjan júlí er frekari frétta að vænta.
Að lokum vil ég geta þess að félagar í Wagnerfélaginu eru nú 230 talsins og bætast stöðugt nýir félagar í hópinn. Ekki er mikið um úrsagnir úr félaginu, en haft er að reglu að taka menn út af félagaskrá greiði þeir ekki félagsgjöld sín tvö ár í röð. Sem formaður vil ég nota tækifærið og þakka ánægjulegt samstarf við stjórn félagsins og varastjórn, svo og endurskoðendum félagsins, þeim Halldóri Halldórssyni og Guðrúnu Nordal og endurskoðanda til vara, Guðbjarti Kristóferssyni. Einnig Menntamálaráðuneytinu fyrir veittan styrk fyrir Styrkþega til Bayreuth.
27. júní 2020,
Selma Guðmundsdóttir