Ársskýrsla 2020

á aðalfundi í Safnaðarheimili Dómkirkjunnar 20. mars 2021

 

Þetta er 25. aðalfundur Richard Wagner félagsins á Íslandi, en félagið var formlega stofnað 12. desember árið 1995, að undangengnum undirbúningsstofnfundi sama sumar úti í Bayreuth.

Samkvæmt lögum félagsins er kosið í stjórn annað hvert ár og var það síðast gert 2020 og því
ekki núna. Stjórnina skipa, auk mín sem formaður félagsins: Sólrún Jensdóttir varaformaður, Jón
Ragnar Höskuldsson gjaldkeri, Egill Arnarson ritari og Jóhann J. Ólafsson í aðalstjórn. Í varastjórn Ásmundur Jakobsson, Ásdís Kvaran og Þórhallur Eyþórsson.

Ég ætla nú að rekja í stuttu máli starfsemi félagsins síðastliðið ár. Fyrsta samkoman á árinu var
22. febrúar í Hannesarholti með sýningu á Rínargullinu ásamt fyrirlestri Árna Blandon um óperuna eins og fjallað er um hana í Dagbókum Cosimu. Fyrirhugað var að sýna allar Niflungahringsóperurnar fjórar í uppfærslu Patrice Chéreau og Pierre Boulez. Þann 7. mars var Valkyrjan sýnd, í samvinnu við hópinn Rabb um klassíska tónlist, en ekki urðu fleiri sýningar á árinu. Í Kringlubíó náði Metropolitan óperan að sýna þrjár óperur fyrir lokun, það voru Wozzeck, Porgy og Bess og Agrippina. Sýna átti Hollendinginn fljúgandi 14. mars en þá var búið að loka. Það náðist þó að frumsýna Hollendinginn úti og er hann aðgengilegur á heimasíðu Met.

Starf félagsins lá svo niðri margar vikur fyrir utan að miðla fréttum af streymisútsendingum
víða að utan úr heimi, en mörg óperuhús sýndu mikinn stórhug í að gera sýningar sínar aðgengilegar á netinu og fór þar Metropolitan óperan fremst í flokki með daglegum sýningum í streymi. Uppfærsla Valkyrjunnar í lok maí í Hörpu og alþjóðlegt málþing ásamt píanótónleikum sem félagið hugðist standa fyrir, allt þetta féll niður en um 200 manns höfðu ætlað að koma erlendis frá. Í júní rofaði aðeins til og okkur tókst að halda aðalfund félagsins laugardaginn 27. júní. Stjórnarkosning fór fram og lét Björn Bjarnason af störfum í varastjórn en í stað hans kom Þórhallur Eyþórsson.

Á fundinum var nýr vefur félagsins opnaður en hann hafði verið í þróun um all nokkuð skeið og
inniheldur hann mjög mikið af upplýsingum og fræðsluefni, m.a. mikið af fyrirlestrum sem haldnir hafa verið á vegum félagsins, greinum úr blöðum og tímaritum og bók Árna Björnssonar, Wagner og Völsungar eins og hún leggur sig. Það er gjaldkeri félagsins, Jón Ragnar Höskuldsson sem á mestan heiður af gerð vefsins.

Flest af því sem til stóð sl sumar féll niður, þar á meðal Bayreuthhátíðin. Fengist hafði
allnokkuð af miðum, m.a. á nýjan Hring, sem var í uppsiglingu, en þeir fengust endurgreiddir.
Stjórnandi hátíðarinnar, Katharina Wagner, var alvarlega veik frá því síðastliðið vor og fram á haust en virðist nú hafa náð sér að fullu. Hópur félagsmanna hafði ætlað að sjá sýningu hennar á Lohengrin í Barcelona í mars, þar sem Ólafur Kjartan Sigurðsson átti að syngja Telramund, en hætta varð við sýninguna á elleftu stundu vegna Covid.

Eins og allir vita hefur ástandið haldið áfram út árið og fram til dagsins í dag. Hætta þurfti við hópferð fjörutíu félagsmanna til að sjá Niflungahringinn í París í byrjun desember.

Í nóvember ákvað stjórnin að efna til þriggja fyrirlestra í streymi, sem teknir voru upp og sendir út á heimili gjaldkera. Það voru fyrst tveir fyrirlestrar Árna Blandon um Wagner og verk hans í Dagbókum Cosimu, sem voru 7. og 21. nóvember og svo fyrirlestur Árna Björnssonar um Wagner og Íslendinga, sem haldinn var á 25 ára afmælisdegi félagsins 12. desember.

Félagið hefur verið meðlimur í Alþjóðasamtökum Wagnerfélaga í meir en tvo áratugi, árgjaldið nemur 2 evrum fyrir hvern félagsmann. Í samtökunum eru samanlagt yfir 20.000 félagar í 125 Wagnerfélögum víða um heim og í öllum heimsálfum. Félagið okkar var fyrir skömmu númer 29 í röðinni að stærð en vafalaust langstærst miðað við höfðatölu. Samtökin standa fyrir árlegu þingi með glæsilegri dagskrá. 

Síðastliðið ár átti það að vera í Bonn 24.-28. september en féll niður. Á síðastliðnum árum hefur það verið haldið í Prag, Leipzig, Graz, Dessau, Strasbourg, Búdapest, Innsbruck og Feneyjum. Nú í ár verður þingið í München dagana 14.-18. október og á næsta ári í Madrid í febrúar. Í Madrid verður m.a. boðið upp á sýningu á Götterdämmerung. Dagskrá þinganna má nálgast á heimasíðu
Alþjóðasamtakanna, www.richard-wagner.org. Stefnt er að þingi í Brüssel 2023 og í London 2024. Í nóvember ætla Alþjóðasamtökin að bjóða upp á Wagnerdaga í Berlín í tilefni af 70 ára afmæli Neu Bayreuth, eins og tímabilið var kallað þegar Wieland og Wolfgang Wagner opnuðu hátíðina aftur eftir seinni heimsstyrjöldina, en það var árið 1951. Boðið hefur verið upp á Niflungahringspakka en Deutsche Oper er að koma sér upp nýjum Hring í leikstjórn Norðmannsins Stefans Herheim. Hafa nokkrir félagsmenn skráð sig á lista fyrir þetta. Einnig bíða á annan tug félagsmanna eftir svörum um miða á Óperuhátíðina í München í júlí, þar sem m.a. verða sýndir Meistarasöngvararnir og Tristan og Isolde.

Önnur verkefni Alþjóðasamtakanna fyrir utan þessi árlegu þing eru m.a. að standa fyrir Wagnersöngkeppni á þriggja ára fresti og hefur keppnin í all nokkur undanfarin skipti verið haldin í Karlsruhe af miklum myndarbrag en nú er leitað að nýjum stað og hefur Genf verið nefnd til sögunnar. Samtökin standa einnig fyrir keppni fyrir unga leikstjóra og leikmyndahönnuði í Graz. Tobias Kratzer sem leikstýrir Tannhäuser sýningunni í Bayreuth núna er einmitt sigurvegari úr þessari keppni, sömuleiðis Valentin Schwarz, sem leikstýra átti nýjum Niflungahring í Bayreuth á komandi sumri en því hefur verið frestað til 2022. Auk þessa hafa samtökin einnig aðkomu að Wagnerdögum í Feneyjum í nóvember ár hvert. Eins og félagsmönnum mun kunnugt hefur formaður átt sæti í stjórn samtakanna frá því 2014 og var endurkjörin á aðalfundinum í Feneyjum í fyrra til næstu fimm ára. Nýr forseti er Rainer Fineske frá Berlín. Stjórnin hefur beitt sér mjög fyrir því að fá tilbaka forréttindi aðildafélaganna til að kaupa miða á Bayreuthhátíðina. Auk þess m.a. að auka innbyrðis tengsl aðildarfélaganna. 

Eitt af mikilvægustu verkefnum aðildafélaga alþjóðasamtakanna er sennilega að fjármagna
starf Richard Wagner Styrkþegastofnunarinnar í Bayreuth sem hefur það markmið að styrkja unga tónlistar- og sviðslistamenn til að sækja Bayreuthhátíðina. Félagið okkar ætlaði í fyrra í tuttugusta og þriðja árið í röð að senda styrkþega út til Bayreuth og hafði valið til þess barítónsöngvarinn Jóhann Kristinsson, sem starfar í Þýskalandi og hefur náð miklum árangri í nokkrum keppnum og uppfærslum í óperum. Styrkþeginn átti að sjá Tannhäuser, Siegfried og Meistarasöngvarana. Þessu var aflýst, þar sem hátíðin féll niður. Nú í sumar stendur til að hafa Styrkþegadaga en þó hefur þurft að skera verulega niður og fær ekkert félag að senda fleiri en einn styrkþega. Geti styrkþegi, sem valinn hafði verið í fyrra, ekki nýtt sér að koma er ekki hægt að senda annan í staðinn. Þar sem Jóhann kemst ekki nú í sumar fer því miður enginn frá okkur. Fyrir styrkþegana eru í boði, auk þriggja sýninga, leiðsögn um Festspielhaus, heimsókn í Franz Liszt safnið og í Richard Wagner safnið, sem er nú nýuppgert og endurbætt. Framlag félagsins til þessa málefnis hefur hækkað ört síðustu ár og er nú um 700 evrur. Menntamálaráðuneytið hefur einnig frá upphafi styrkt félagið vegna þessa máls. Um 250 styrkþegar koma ár hvert á hátíðina, flestir frá Þýskalandi.

Eins og áður sagði hafa fyrir ötula baráttu Alþjóðasamtakanna réttindi Wagner félaga til að kaupa miða á Bayreuthhátíðina verið aftur tekin upp. Forsvarsmenn hátíðarinnar hafa viðurkennt að það hafi verið mistök að loka fyrir þennan hóp tryggra áskrifenda eins og gert hafði verið. Félagið fékk árið 2017 átta Hringmiða, sem gerir samanlagt 32 miða og að auki 8 miða á aðrar sýningar. 2018 báðu 12 manns um miða og var hægt að verða við ósk þeirra allra. 2019 báðu færri um miða en það sem beðið var um fékkst. Miðunum er úthlutað úr ákveðnum potti, sem Alþjóðasamtökin hafa til ráðstöfunar og er úthlutað í samræmi við félagafjölda og halda formenn félaganna utan um að skila umsóknum. Aðgöngumiðasala er að öðru leyti orðin mun aðgengilegri og oft hægt að kaupa afgangsmiða beint á netinu. Í ljósi Covid hefur ekki verið boðið upp á að panta miða á hátíðina í ár. Beðið er átekta með að reyna að fá á hreint hversu margir áheyrendur megi koma í húsið. Festspielhaus er ekki það auðveldasta
hvað snertir sóttvarnir. Þegar þessi mál fara að skýrast munu þeir hafa forgang á miðum, sem höfðu fengið miða 2020 og óskað eftir að eiga inneign en ekki fá endurgreiðslu. Verði afgangs miðar hefur hátíðin sagt að þeir muni fara í netsölu 6. júní. Til þess að vera gjaldgengur í þann slag er mikilvægt að 3 hafa skráð sig inn sem notanda undir My Festival á heimasíðu hátíðarinnar. Hátíðin hefur birt dagskrána fyrir sumarið og er hún ekki eins umfangsmikil og venjulega. Það verður frumsýnd ný uppfærsla af Hollendingnum, í leikstjórn Rússans, Dmitri Tcherniakov, sem m.a. hefur unnið mikið með Barenboim í Staatsoper í Berlín. Tíðindum sætir að fyrsta konan mun stjórna Bayreuthhljómsveitinni í Hollendingnum en það er Oksana Lyniv frá Úkraníu, sem á nokkuð glæstan feril að baki þótt hún sé enn ung að árum, eða rétt rúmlega fertug. Fyrir utan Hollendinginn verða endurfluttar sýningar á Meistarasöngvurunum og Tannhäuser. Nýnæmi er, að boðið verður upp á tvenna hljómsveitartónleika, annars vegar konsertuppfærsla á Parsifal, undir stjórn Thielemanns, hins vegar útdrættir úr nokkrum óperum undir stjórn Andris Nelsons. Það verða þrjár sýningar á Valkyrjunni, ekki leikuppfærslur en settar í hendur gjörningalistamannsins Hermann Nitsch, sem mun fara höndum sínum um verkið,
sjálfsagt á nýstárlegan hátt. Einvalalið söngvara er teflt fram. Það er sérlega ánægjulegt að segja frá því að Ólafur Kjartan Sigurðsson mun fara með hlutverk Biterolf í Tannhäuser og er þetta í annað sinn sem Íslendingur fer með hlutverk í Bayreuth en áður söng Tómas Tómasson hlutverk Telramunds í Lohengrin í nokkrum sýningum. Ólafur Kjartan hefur unnið nokkuð með Katharinuu Wagner, m.a. í Prag og Barcelona og er þetta vonandi upphaf á áframhaldandi ferli í Festspielhaus. 

Eins og kynnt hefur verið var loks uppsetning á Wagneróperu á Íslandi í augsýn. Setja átti upp
Valkyrjuna, semi-konzertant, sem samstarfsverkefni Íslensku óperunnar, Sinfóníuhljómsveitar Íslands og Listahátíðar dagana 27. og 29. maí. Tímasetningin hentaði einkar vel til að lokka að erlenda gesti, en mikill áhugi hefur verið hjá mörgum í langan tíma á Íslandsferð í tengslum við Wagnersýningu. Í tengslum við sýningarnar höfðum við í félaginu ákveðið að halda Wagnerdaga í Reykjavík undir hatti Alþjóðasamtaka Wagnerfélaga, með alþjóðlegu málþingi á ensku og þýsku og tónleikum píanósnillingsins Alberts Mamriev. Hátt í tvö hundruð erlendra gesta voru væntanlegir. Við höfðum fengið styrk frá samtökunum og Veröld, hús Vigdísar ákveðið að koma til samstarfs við okkur og hýsa málþingið. Stjórn Alþjóðasamtaka Wagnerfélaga var öll á leiðinni hingað og ætlaði að funda hér. Valkyrjan hefur nú verið flutt til febrúarloka 2022 og er enn í skoðun hjá stjórninni hvað verður um málþingið og píanótónleikana.

Varðandi Valkyrjuna átti upphaflega eini íslenski söngvarinn í aðalhlutverki átti að vera Ólafur
Kjartan Sigurðarson, í hlutverki Wotans. Valkyrjurnar áttu að vera íslenskar. Nú hefur orðið
smábreyting eftir að dagsetningum var breytt og mun m.a. Kristinn Sigmundsson syngja Hunding.
Margir íslenskir söngvarar hafa sungið Wagner erlendis. Aðallega karlmenn. Bjarni Thor Kristinsson söng m.a. Wotan í Rheingold í nýjum Niflungahring í Kassel, Sveinn Hjörleifsson hefur sungið Frey við óperuna í Leipzig. Tómas Tómasson söng Wotan og Wanderer í Genf við góðan orðstír og hefur einnig sungið Hans Sachs og Telramund auk Klingsors úr Parsifal og nú nýverið einnig Amfortas. Ólafur Kjartan Sigurðarson hefur sungið Hollendinginn í Helsinki og Alberich í nýjum Hring í Gautaborg, þar sem hann fékk frábæra dóma. Hann hefur einnig sungið m.a. Telramund og Wotan er handan við hornið. Þá eru ónefndir þeir Kolbeinn Ketilsson, Viðar Gunnarsson og Kristinn Sigmundsson, sem farið hafa með mörg Wagnerhlutverk.

Að lokum vil ég geta þess að félagar í Wagnerfélaginu eru nú 230 talsins og bætast stöðugt nýir
félagar í hópinn. Ekki er mikið um úrsagnir úr félaginu, en haft er að reglu að taka menn út af
félagaskrá greiði þeir ekki félagsgjöld sín tvö ár í röð. Sem formaður vil ég nota tækifærið og þakka
ánægjulegt samstarf við stjórn félagsins og varastjórn, svo og endurskoðendum félagsins, þeim
Halldóri Halldórssyni og Guðrúnu Nordal og endurskoðanda til vara, Guðbjarti Kristóferssyni. Einnig Menntamálaráðuneytinu fyrir veittan styrk fyrir Styrkþega til Bayreuth. Ég þakka fyrirlesurunum okkar, Árna Blandon, Árna Björnssyni, Þórhalli Eyþórssyni og Reyni Axelssyni og sérstaklega þakka ég Jóni Ragnari Höskuldssyni fyrir framlag sitt til heimasíðu félagsins og umsjón og tæknilausnir við streymisútsendingar.

20.3.2021
Selma Guðmundsdóttir