Ársskýrsla 2022
Aðalfundur 4. mars 2023 í Safnaðarheimili Neskirkju
Skýrsla formanns á 27. aðalfundi félagsins 4. mars 2023 í Safnaðarheimili Neskirkju.
Þetta er 27. aðalfundur Richard Wagner félagsins á Íslandi, en félagið var formlega stofnað 12. desember árið 1995, að undangengnum undirbúningsstofnfundi sama sumar úti í Bayreuth.
Samkvæmt lögum félagsins er kosið í stjórn annað hvert ár og var það síðast gert í fyrra og því verður ekki kosning að þessu sinni. Stjórnina skipa, auk mín sem formaður félagsins: Sólrún Jensdóttir varaformaður, Jón Ragnar Höskuldsson gjaldkeri, Egill Arnarson ritari og Friðrik R. Jónsson í aðalstjórn. Í varastjórn Gunnar Snorri Gunnarsson, Ólöf Jónsdóttir og Þórhallur Eyþórsson.
Að loknum fundinum, kl 14, verður svo erindi Kolfinnu Jónatansdóttur: Þá er regin deyja: ragnarök í Snorra-Eddu og eddukvæðum.
Starfsárið í fyrra hófst í mars, einmitt með aðalfundinum en að honum loknum var erindi Árna Blandon: Wagner í Ameríku
Wagner kom aldrei til Ameríku en um tíma leit út fyrir að hann flytti þangað og hafði honum verið boðið að koma á fót skóla til að mennta söngvara og tónlistarmenn í Minnesota. Saga Wagneruppfærslna í Bandaríkjunum nær langt til baka og voru Bandaríkjamenn jafnan fljótir til að frumsýna nýjar óperur Wagners, Parsifal strax árið 1903 á jólunum, í óþökk Bayreuth. Wagner hafði líka gífurleg áhrif m.a. í amerískum bókmenntum enda dáður ef ekki dýrkaður af stórum hópi rithöfunda, listamanna og annarra. Um þetta er ítarlega fjallað í nýlegri bók Alex Ross, Wagnerism, Art and Politics.
Næsta samkoma félagsins var svo 30. apríl, en þá var Egill Arnarson með fyrirlestur um Wagner og Rússland: Í fyrirlestrinum var fjallað um viðtökur á verkum Wagners í Rússlandi á tímabilinu 1860–1940. Tónskáld þar í landi voru almennt á varðbergi gagnvart þessum erlenda tískustraumi en urðu þó fyrir áhrifum hans á meðan hrifning var mikil meðal skálda í kringum aldamótin. Greint var frá ýmsum misþekktum dæmum um þá listrænu togstreitu sem verk Wagners ollu og allbreytilegri pólitískri þýðingu þeirra á tuttugustu öld.
Valkyrjusýning Íslensku óperunnar í samvinnu við Sinfóníuhljómsveit Íslands og Listahátíð, sem upphaflega átti að vera í maí 2020 hafði verið sett á dagsetningar í febrúar, en vegna ástandsins út af faraldrinum var hún felld niður og ekkert heyrst um mögulegt framhald.
Félagið hafði ráðgert Alþjóðlega Wagnerdaga í kringum Valkyrjusýninguna 2020. Þegar sýningin var ekki lengur í sigti en Sinfóníuhljómsveitin og Listahátíð höfðu boðað tónleika með söngkonunni og hljómsveitarstjóranum Barböru Hannigan, sem er orðin mjög stór stjarna alþjóðlega, ákvað stjórn félagsins að halda áður boðaða Wagnerdaga í kringum tónleika Hannigan. Við upprunalegt prógramm Wagnerdaga, var af hálfu félagsins bætt Wagnertónleikum Kammersveitar Reykjavíkur, þeim fyrstu í sögu sveitarinnar. Á tónleikunum söng Hanna Dóra Sturludóttir Wesendonck ljóð Wagners í útsetningu fyrir rödd og strengjakvintett. Auk þess flutti Kammersveitin Siegfried Idyll í upprunalegri gerð. Síðan söng Hanna Dóra Isolde Liebestod úr Tristan og Ísolde. Flutt var sérstök umritun þýska fiðluleikarans Martinu Trumpp, sem hefur útsett atriði úr Tristan og Isolde fyrir strengjaseptett og rödd, en nokkrar þeirra útsetninga voru einnig fluttar ásamt Liebestod. Martina Trumpp var fengin til landsins og leiddi kammersveitina á tónleikunum.
Alþjóðlega málþingið undir yfirskriftinni Wagner og Ísland – Norrænu uppspretturnar og áhrif þeirra á Richard Wagner var svo haldið 4. júní í Veröld, Húsi Vigdísar, sem lagði okkur til húsnæðið. Fyrirlesarar voru dr. Árni Björnsson, dr.Árni Heimir Ingólfsson, dr. Þórhallur Eyþórsson og Selma Guðmundsdóttir. Málþingið var tvískipt, fyrir hádegi á þýsku, eftir hádegi á ensku. Síðdegis voru svo tónleikar hinnar frábæru Barböru Hannigan og að þeim loknum var gala-kvöldverður í La Primavera í Hörpu. Á tónleikum 5. júní lék rússnesk-ísraelski píanósnillingurinn Albert Mamriev verk eftir Beethoven og Wagner. Albert Mamriev hélt einnig píanónámskeið fyrir langt komna nemendur á vegum Epta. Tónleikar Mamrievs voru í Salnum í Kópavogi. Um það bil 60 manns komu erlendis frá og voru erlendu gestirnir afar ánægðir. Í hópnum voru blaðamenn, sem fóru mjög lofsamlegum orðum um Wagnerdagana, bæði í óperutímaritinu Der Merker í Vín og frá blaðamanni frá Deutschland-Funk.
Bayreuthhátíðin hófst að venju 25. júlí með frumsýningu á Tristan und Isolde, sem var í raun aukasýning til viðbótar við nýjan Hring og þrjár aðrar óperur, sem venjulega er fullur skammtur á hátíðinni. Ástæðan var sú að hafa vaðið fyrir neðan sig ef einhver afföll yrðu vegna Covid, og þyrfti að hagræða dagskránni. Geta þá gripið til Tristan und Isolde, sem er án kórs. Reyndar hitti covid hátíðina illa þegar Pietari Inkinen, finnski hljómsveitarstjórinn, sem stjórna átti Hringnum, veiktist illa af pestinni á lokaæfingum Hringsins. Þá voru góð ráð dýr en Cornelius Meister, sem var mættur til leiks til að stýra Tristan, hljóp í skarðið fyrir Inkinen og fórst það vel, en Markus Poschner var fenginn til að taka við Tristanuppfærslunni af Meister, og var sýningin afar áhrifarík og vakti mikla hrifningu. Sama er ekki að segja um Hringuppfærsluna, hvað snertir uppsetningu og leikstjórn. Leikstjóri Valentin Schwarz. Féll hún mjög í grýttan jarðveg og uppskar mótmælahróp, sem varla áttu sér sinn líka í Bayreuth, þar sem oft gengur þó mikið á. 14 manns sáu Hringinn að þessu sinni og nokkrir sáu fleiri sýningar. Það vakti mikla ánægju í hve stóru hlutverki Ólafur Kjartan Sigurðarson var á hátíðinni, því hann fór með hlutverk Alberichs í þrem af Hringóperunum og var auk þess í hlutverki Biterolfs í Tannhäuser og Melots í Tristan und Isolde. Hann stóð sig feykilega vel og var íslenski hópurinn fullur af stolti og hrifningu, sem von er. Ferill Ólafs er í miklu uppsvingi, hann hendist á milli la Scala, Prag og Covent Garden og verður í Bayreuth amk til 2026. Formaður var einnig viðstaddur styrkþegadagana frá 17.-21.ágúst. Styrkþegi félagsins að þessu sinni var Karin Björg Torbjörnsdóttir mezzosópran.
Í september var formaður viðstaddur hátíðarhöld vegna 30 ára afmælis Wagnerfélagsins í Helsinki og Turku í Finnlandi. Á hátíðardagskrá voru m.a. hljómsveitartónleikar í Turku með „Der Ring ohne Worte“, eða Hringur án orða, rúmlega klukkutíma prógramm, þar sem hljómsveitarstjórinn Lorin Maazel hafði á sínum tíma valið og skeytt saman helstu tónlistarhápunktum Hringsins. Svo var frumsýning á Valkyrjunni í Finnsku þjóðaróperunni í Helsinki, en Finnar eru að smíða Hring og er Siegfried frumsýndur verður í þessum mánuði.
Árlegt þing Alþjóðasamtaka Wagnerfélaga sem vera átti í Madrid í október var fellt niður vegna ónógrar þátttöku.
Vetrarstarfið hófst á 15. okt. með sýningu á nýrri heimildarmynd, Global Wagner-From Bayreuth to the World. Stjórnandi myndarinnar er Axel Brüggemann. Þetta er um margt óvenjuleg heimildamynd með mjög skemmtilega nálgun. Rætt var m.a. við Alex Ross, Christian Thielemann, Valery Gergiev, Placido Domingo og Barrie Kosky. Einnig Evu í Hotel Goldener Anker, sem margir muna eftir og hjón sem reka kjötbúð í Bayreuth. Sýningin var í Háskóla Íslands, fyrir milligöngu Kesöru Jónsson, prófessors emeritus og félagsmanns okkar.
Laugardaginn 5. nóvember var árshátíð félagsins á Hótel Holti. Hún hófst kl. 18 í Þingholti með erindi Árna Blandon sem bar heitið Richard Wagner, leikarinn og leikhúsmaðurinn.
Að erindinu loknu var fordrykkur og sælustund á barnum. Bryndís Guðjónsdóttir sópransöngkona söng fyrir gesti ásamt Ingunni Hildi Hauksdóttur.
Síðan var þríréttuð máltíð og undir borðum frásagnir félagsmanna frá liðnu ári. Gunnar Snorri Gunnarsson, Júlíus Karl Einarsson og Friðrik R. Jónsson sögðu frá Bayreuthhátíðinni sl. sumar. Egill Arnarson frá Meistarasöngvurunum í Berlín. Veislustjóri var Sólrún Jensdóttir.
Í byrjun desember var boðið upp á aðventuferð til Vínar, með sýningum á Andrea Chenier eftir Giordano, þar sem Jónas Kaufmann átti að syngja titilhlutverkið en forfallaðist á síðust stundu. Svo var frumsýning á Meistarasöngvurunum frá Nürnberg í leikstjórn Keiths Warner og var Philippe Jordan hljómsveitarstjóri. Sýningin var afar áhrifamikil og valinn söngvari í hverju hlutverki, m.a. Michael Volle sem Sachs. Philippe Jordan var ráðinn til Vínaróperunnar eftir að hann hætti hjá Parísaróperunni. Þar ætlaði hann að enda með Niflungahringssýningu sem er okkur minnisstætt, því 40 félagsmenn höfðu keypt miða. Uppfærslan fór í Covidvaskinn en Jordan er frábær stjórnandi. Það hafði verið kunngert skömmu fyrir sýninguna að samningur Jordans yrði ekki framlengdur í Vín og voru áheyrendur greinilega ekki sáttir og fögnuðu honum afar heitt og innilega.
Félagið hefur verið meðlimur í Alþjóðasamtökum Wagnerfélaga í meir en tvo áratugi, árgjaldið nemur 2 evrum fyrir hvern félagsmann. Í samtökunum eru samanlagt yfir 20.000 félagar í 125 Wagnerfélögum víða um heim og í öllum heimsálfum. Félagið okkar var fyrir skömmu númer 29 í röðinni að stærð en vafalaust langstærst miðað við höfðatölu. Samtökin standa fyrir árlegu þingi með glæsilegri dagskrá. Árið 2020 átti það að vera í Bonn í september en féll niður. Á sl árum hefur það verið haldið í Prag, Leipzig, Graz, Dessau, Strasbourg, Búdapest, Innsbruck, Feneyjum og München. Nú í ár átti þingið að vera í Madrid í febrúar en var frestað þar til í október, en þá þurfti að aflýsa því vegna ónógrar þátttöku. Dagskrá þinganna má nálgast á heimasíðu Alþjóðasamtakanna, www.richard-wagner.org. Stefnt er að þingi í Brüssel 2023, í London 2024 og í Stokkhólmi 2025.
Önnur verkefni Alþjóðasamtakanna fyrir utan þessi árlegu þing eru m.a. að standa fyrir Wagnersöngkeppni á þriggja ára fresti og hefur keppnin í all nokkur undanfarin skipti verið haldin í Karlsruhe af miklum myndarbrag en nú er leitað að nýjum stað. Samtökin standa einnig að keppni fyrir unga leikstjóra og leikmyndahönnuði í Graz. Tobias Kratzer sem leikstýrir Tannhäuser sýningunni í Bayreuth núna er einmitt sigurvegari úr þessari keppni, sömuleiðis Valentin Schwarz, sem leikstýrir Niflungahringnum í Bayreuth. Auk þessa hafa samtökin einnig aðkomu að Wagnerdögum í Feneyjum í nóvember ár hvert. Eins og félagsmönnum er kunnugt hefur formaður átt sæti í stjórn samtakanna frá því 2014 og var endurkjörin á aðalfundinum í Feneyjum 2019 til næstu fimm ára. Forseti er Rainer Fineske frá Berlín.
Eitt af mikilvægustu verkefnum aðildafélaga alþjóðasamtakanna er sennilega að fjármagna starf Richard Wagner Styrkþegastofnunarinnar í Bayreuth sem hefur það markmið að styrkja unga tónlistar- og sviðslistamenn til að sækja Bayreuthhátíðina. Félagið hefur frá 1998 sent styrkþega á hátíðina og tvisvar fleiri en einn. Sl. sumar fór söngkonan Karin Björg Torbjörnsdóttur en á komandi sumri mun Jóhann Kristinsson fara. Honum var áður boðið árið 2020 en þá féll þetta niður vegna Covid. Fyrir styrkþegana eru í boði, auk þriggja sýninga, leiðsögn um Festspielhaus, heimsókn í Franz Liszt safnið og í Richard Wagner safnið. Framlag félagsins til þessa málefnis hefur hækkað ört síðustu ár og er nú um 800 Evrur. Menntamálaráðuneytið hefur einnig frá upphafi styrkt félagið vegna þessa máls, en í ár fengum við því miður synjun. Um 250 styrkþegar koma ár hvert á hátíðina, flestir frá Þýskalandi.
Eins og áður hefur komið fram hafa fyrir ötula baráttu Alþjóðasamtakanna réttindi Wagner félaga til að kaupa miða á Bayreuthhátíðina verið aftur tekin upp. Það hefur gengið vel undanfarin ár að mæta óskum félagsmanna. Miðunum er úthlutað úr ákveðnum potti, sem Alþjóðasamtökin hafa til ráðstöfunar og er úthlutað í samræmi við félagafjölda og halda formenn félaganna utan um að skila umsóknum. Úthlutun er lokið fyrir komandi sumar og fengu allir óskir sínar uppfylltar, samanlagt 14 manns. Þar af fara 8 manns að sjá Niflungahringinn. Aðgöngumiðasala er að öðru leyti orðin mun aðgengilegri og oft hægt að kaupa afgangsmiða beint á netinu.
Eins og kynnt hafði verið stóð loksins til að setja upp Wagneróperu á Íslandi í augsýn með Valkyrjunni, sem vera átti samstarfsverkefni Íslensku óperunnar, Sinfóníuhljómsveitar Íslands og Listahátíðar í lok maí 2020. Áformunum var frestað tvisvar en virðast vera dottin upp fyrir. Stjórnin er nú í samtali við Sinfóníuhljómsveit Íslands um hvaða möguleikar gætu verið fyrir hendi með aðkomu hljómsveitarinnar. Enn sem fyrr reynum við að stofna til óperuferða erlendis og fara 35 félagsmenn til Napolí í apríl að sjá Valkyrjuna, með Jónasi Kaufmann sem Siegmund. Nú er í skoðun haustferð til Bæjaralands að sjá Hollendinginn fljúgandi með Bjarna Thor Kristinssyni sem Daland og skoða glæsihallir Lúðvíks 2. í leiðinni.
Að lokum vil ég geta þess að félagar í Wagnerfélaginu eru nú 230 talsins og bætast stöðugt nýir félagar í hópinn. Ekki er mikið um úrsagnir úr félaginu, en haft er að reglu að taka menn út af félagaskrá greiði þeir ekki félagsgjöld sín tvö ár í röð. Sem formaður vil ég nota tækifærið og þakka ánægjulegt samstarf við stjórn félagsins og varastjórn, svo og endurskoðendum félagsins, þeim Halldóri Halldórssyni og Guðrúnu Nordal og endurskoðanda til vara, Guðbjarti Kristóferssyni. Ég þakka fyrirlesurunum síðasta árs, Árna Björnssyni, Árna Blandon, Agli Arnarsyni, Árna Heimi Ingólfssyni og Þórhalli Eyþórssyni og sérstaklega þakka ég Jóni Ragnari Höskuldssyni fyrir framlag sitt til heimasíðu félagsins og umsjón og tæknilausnir á samkomum félagsins.
Selma Guðmundsdóttir