Ágætu félagar.

Formaður kom í gær heim úr 12 daga ferð til Þýskalands. Síðasta deginum varði hún í München og horfði þá í heimahúsi á beina útsendingu af Tristan og Isolde frá Bayerische Staatsoper. Stórfengleg sýning með Jonas Kaufmann og Anja Harteros og öðrum stórsöngvurum og hinn óviðjafnanlegi Kirill Petrenko stjórnaði hljómsveitinni í síðasta sinn. Hann er að taka við Berliner Philharmoniker. Í framkalli Petrenkos í lok sýningar kom hljómsveitin Petrenko á óvart og söng og lék þýska lagið þekkta „muss i denn“. Petrenko og fleiri urðu klökkir enda mjög fallegt.

Ég var fyrir all nokkru búin að segja frá þessari útsendingu í félagsbréfi, en hafi einhver misst af er hægt að sjá hana frá 17 í dag í sólarhring, frítt, á opera on Demand:
https://www.staatsoper.de/en/on-demand.html?no_cache=1

Formaður var 6 daga í Bayreuth, ásamt Gunnari Snorra, og upplifði m.a. fyrsta kvenstjórnandann í Bayreuth, Oksönu Lyniv frá Úkraníu sem stóð sig vel þótt hún fengi ekki eingöngu fagnaðarlæti í lokin. Áheyrendur í Bayreuth búa gjarnan ef þeim líkar miður. Mesta athygli á þessari sýningu og yfirhöfuð þessa daga vakti litháiska söngkonan Asmik Grigorian, sem söng Sentu á hrífandi máta og með miklum leiktilþrifum. Síðasta kvöldið í Bayreuth var Valkyrjan flutt konsertant með m.a. Lise Davidsen, Irene Theorin, Christu Mayer (þær tvær síðastnefndu munu syngja hér heima í Valkyrjunni í febrúar). Günter Groissböck var skipt út á síðustu stundu með hinum flámælta Pólverja, Tomas Komiecny, sem vakti litla gleði hjá formanni þótt mörgum öðrum líkaði betur. Gjörningalistamaðurinn Hermann Nitsch hafði verið fenginn til að framkvæma einhver uppátæki við sýninguna og fólst það aðallega í að láta málningu í miklu litaívafi leka niður stóran hvítan bakvegg og skvetta málningu á gólfflötinn úr tugum málningardolla á bak við söngvarana. Nitsch er þekktur fyrir að ganga fram af áhorfendum, m.a. með blóðslettum, dýraslátrun og innyflum, en þetta var allt fremur pent að þessu sinni þótt Katharina Wagner gæfi honum algjörlega frjálsar hendur. Átta aðstoðarmenn Nitsch framkvæmdu verknaðinn og var þeim mætt með miklum búhrópum í lokin. Því miður var líka mikið baulað á unga finnska hljómsveitarstjórann Pietari Inkinen, sem var að þreyta sína frumraun þetta kvöld og á að stjórna öllum Hringnum næsta ár.

Mesta gleðiefni heimsóknarinnar var að sjá og kynnast Ólafi Kjartani Sigurðarsyni, sem kom fram í fyrsta sinn á hátíðinni, en hann hefur áður unnið undir leikstjórn Katharinu Wagner í Prag og Barcelona. Ólafur söng hlutverk Biterolfs í Tannhäuser og stóð sig afar vel, bæði í leik og söng. Ferill hans sem Wagnersöngvara hefur farið ört vaxandi frá 2009. Hann er nú kominn með samning til nokkurra ára í Bayreuth og mun, auk Biterolfs, syngja Alberich í nýja Hringnum 2022. Á þessum link er viðtal við Ólaf á RÚV
https://www.ruv.is/frett/2021/07/28/tiu-ara-gamall-draumur-raettist-a-wagner-hatidinni?fbclid=IwAR107tD2DkfyRcGrewAQn5aLehany2oJ6gtTtd-36JG9EUNPez5HqZqzWoY

Auk þess er við hann heilsíðuviðtal í Morgunblaðinu 31. júlí, hér smá bútur:
https://www.mbl.is/frettir/innlent/2021/07/31/spennandi_taekifaeri/?fbclid=IwAR2Mj2uVid6UOpdGi-SQi2NeduVuPHbjHy_3WOxZrvRREgZbJy3RVUaXTKY

Framundan hjá Ólafi er m.a. að syngja titilhlutverkið í Hollendingnum í Leipzig og munu Hringfarar til Berlínar í nóvember eflaust geta farið á sýninguna 13. nóv. og kannske fleiri. Það er í skoðun. 12. nóv er Tosca sýnd í Leipzig óperunni og 14. nóv bernskuópera Wagners Liebesverbot.

Þrjár myndir fylgja, frá framíkalli eftir Walküre Nitsch, frammíkalli eftir Tannhäuser  (Ólafur þriðji frá hægri) og íslenski aðdáendahópur Ólafs á hátíðinni. Foreldrar, eiginkona og dóttir auk okkar Gunnars.

Bestu kveðjur
Selma Guðmundsdóttir
formaður RW félagsins,
www.wagnerfelagid.is