Velkomin heim – Dúplum Dúó: Björk Níelsdóttir og Þóra Margrét Sveinsdóttir

Dúplum dúó, skipað Björk Níelsdóttur söngkonu og Þóru Margréti Sveinsdóttur víóluleikara flytur ferska, splunkunýja og spennandi dagskrá sem fléttast af söngljóðum eftir Sóleyju Stefánsdóttur, Svein Lúðvík Björnsson, Aart Strootman, Greg Sanier og Björk Níelsdóttur en ljóðin m.a. sótt í sjóð skáldanna Maya Angelou, Daniil Kharms og Shakespeare. Öll verkin á efnisskránni eru samin sérstaklega fyrir Dúplum Dúó.

Dúplum dúó, sem hefur verið starfandi frá 2017, leitast við að draga fram það hráa og viðkvæma í tónlistinni með túlkun sinni og hljóðfæraskipan þar sem mannsröddin og víólan njóta sín til jafns. Björk og Þóra Margrét kynntust í Tónlistarháskólanum í Amsterdam og hafa báðar starfað með fjölbreyttum hópi tónlistarmanna og hljómsveita svo sem Björk, Sigur Rós, Florence and the Machine og Stargaze. Dúóið hefur komið fram á tónlistarhátíðum í Hollandi og á Íslandi og vinnur nú að sinni fyrstu hljómplötu.

Efnisskrá:

Björk Níelsdóttir / Maya Angelou
Ljóðaflokkur nr. 1
– Sounds Like Pearls
– Recovery
– The Gamut

Aart Strootman / Daniil Kharms
Blue Notebook nr. 2
frumflutningur á Íslandi

Sveinn Lúðvík Björnsson / William Shakespeare
Sonnetta nr. 39

Sóley Stefánsdóttir
Parasite

Björk Níelsdóttir
Allt er ömurlegt – örljóð um daglegt amstur
Greg Sanier
Life is a Bus
Bows at the End of Death
Heimsfrumflutningur

Björk Níelsdóttur er söngkona, tónskáld og trompettleikari, búsett í Amsterdam í Hollandi. Verkefnasvið hennar er fjölbreytt og litríkt þar sem saman fléttast gamalt og nýtt. Hún kemur reglulega fram sem einsöngvari með virtum tónlistarhópum (s.s. New European Ensemble og Doelen Ensemble) og hefur farið með hlutverk í nýjum og framsæknum óperum og tónleikhúsi hjá Silbersee, Holland Opera og Het Houten Huis. Björk tekur aukinheldur virkan þátt í jazz- og spunaverkefnum með hópum svo sem Kaja Draksler Octet og Jasper Stadhouders Polyband, hefur túrað með vinsælum poppstjörnum og hljómsveitum á borð við Björk og Florence and the Machine og er einn stofnenda og meðlima kammerhópanna Stirni Ensemble, Dúplum dúó og Gadus Morhua. Björk var valin Bjartasta vonin á Íslensku tónlistarverðlaununum 2019.

Þóra Margrét Sveinsdóttir stundaði nám við Tónlistarskólann í Reykjavík, Prins Klaus-tónlistarháskóli í Groningen í Hollandi, Konservatoríið í Amsterdam og Konunglega Tónlistarháskólann í Den Haag þar sem hún lauk meistaragráðu vorið 2015. Þóra hefur leikið með fjölmörgum hjómsveitum og kammerhópum í Hollandi. Hér heima hefur hún komið fram með Sinfóníuhljómsveit Íslands, Caput og barrokksveitinni Brák og leikið einleik og kammertónlist, m.a. á Tectonics-hátíðinni í Hörpu.

[INSERT_ELEMENTOR id=”5392″]