
Wagner og Schopenhauer
Fyrirlestur Reynis Axelssonar um Wagner og Schopenhauer verður í Safnaðarheimili dómkirkjunnar þann 20. mars. Á undan honum, kl 14, munum við halda aðalfund félagsins, sem oftast er fljótlega aflokið (ekki stjórnarkosning) og reikna má því með að Reynir hefji mál sitt klukkan 14.30.
Safnaðarheimilið er í Lækjargötu 14a, á horninu við Vonarstræti og við Tjörnina, gengið inn og upp á aðra hæð um inngang andspænis Iðnó (lyfta).
Fyrirlestrinum verður streymt en hann er um leið opinn öllum, sem vilja mæta, meðan húsrúm og fjarlægðarmörk leyfa. Grímuskylda.
Hér á eftir nokkur orð um Reyni:
Reynir Axelsson fæddist á Bíldudal árið 1944. Að loknu stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1963 stundaði hann nám og kennslu í stærðfræði við háskólana í Göttingen, Princeton og Münster til ársins 1975, en frá því ári hefur hann starfað við Háskóla Íslands, fyrst sem sérfræðingur í stærðfræði á Raunvísindastofnun Háskólans, síðar sem háskólakennari, en eftir að hann komst á eftirlaunaaldur 2014 sem stundakennari. Sérgrein hans er fáguð rúmfræði. Frá 1995 til 1997 var hann ritstjóri Orðaskrár Íslenska stærðfræðafélagsins.
Eitt helsta áhugamál Reynis utan stærðfræðinnar er tónlist, og einkum sönglög. Hann hefur þýtt um það bil hálft þriðja þúsund söngtexta úr tæplega 20 tungumálum á óbundið mál og skrifað fjölda ritgerða um tónlist, einkum fyrir efnisskrár tónleika; sjálfur hefur hann samið nokkur sönglög, en aðeins örfá þeirra hafa verið flutt opinberlega. Hann hefur flutt mörg erindi fyrir Wagner-félagið. Frá árinu 1979 hefur hann setið í stjórn Hins íslenska bókmenntafélags.