Faust eftir Gounod frá London í kvöld

Ágætu óperuvinir

Upptaka af Faust eftir Gounod frá 2019 verður í ókeypis netsýningu frá Royal Opera House, Covent Garden, í

kvöld frá kl. 18:00 að íslenskum tíma. Sýningin er aðgengileg næstu tvær vikur á Facebook eða YouTube. Ef þið eigið snjallsjónvarpstæki á að vera vandræðalaust að sjá hana á YouTube.  Sýningin er nokkuð löng. Þættir 1-3 taka um 110 mínútur, en þættir 4 og 5 taka um 75 mín. Veit ekki með hlé.

Leikstjóri er David McVicar, en Bruno Ravella stýrir endursýningunni. Sviðsetningin er frá 2004, og atburðarásin er flutt til ársins 1870, þegar styrjöld Frakka og Prússa geisar. Hljómsveitarstjóri er Dan Ettinger. Michael Fabiano er Faust og Erwin Schrott er Mefistófeles. Upphaflega átti Diana Damrau að syngja hlutverk Grétu, en hún veiktist (fékk brjósklos) og Irina Lungu tók hlutverkið að sér. Lungu var forfölluð á fyrstu sýningunni og ung þýsk söngkona, Mandy Fredrich, söng hlutverkið  með nær engum fyrirvara. Flugvél hennar lenti á Heathrow rúmum tveimur tímum áður en sýning hófst! Hún fékk leiðbeiningar í bíl frá flugvellinum. Á þessari sýningu syngur Lungu hlutverk Grétu. Sýningin var á tjaldinu í Háskólabíói í apríl 2019 og áður í september 2011.

Það viðrar vel fyrir innipúka og menningaráhorf í kvöld, og dagskrá RÚV segir mér að horfa á eitthvað annað en efnið þar, t.d. Faust.

Sjá nánar í áframsendu skeyti frá ROH hér að neðan. En farið á þessa slóð þegar þar að kemur.

https://www.roh.org.uk

Í tveimur viðhengjum er söguþráður á ensku með leturstærð sem hentar þeim sem eru í einhverju ungmennafélagi, og hlutverkaskipan er í öðru.

Góða skemmtun,

Baldur

Faust ROH – Söguþráður – Júlí 2020

Faust júlí 2020 – Cast & Credits