Undirkaflar

Á farandsfæti

Undirtitill

2014-11 Feneyjar

Hinir árlegu Wagnerdagar  voru haldnirí Feneyjum. Wagnerfélaginu í Feneyjum hefur, undir forystu hjónanna Giuseppe (nú látinn) og Alexandra Althoff Pugliese tekist að koma á fót mjög merkilegri hátíð, sem haldin er árlega með fyrirlestrum, tónleikum og óperusýningum í óperuhúsinu, La Fenice. Það sem skiptir þar mestu er að Pugliese hjónunum hefur tekist að ná samningum við Casino di Venezia, Spilavítið í Palazzo Vendramin, þar sem Wagner bjó mánuðina áður en hann lést, um aðgang að herbergjunum í höllinni þar sem Wagner bjó. Þar er nú smám saman verið að koma upp safni, sem enn er ekki opið almenningi, en ráðstefnugestir að þessu sinni fengu að skoða fimm herbergi, þar af herbergið, þar sem Wagner lést, fyrirvaralítið, af hjartaslagi, 13. febrúar 1883. Josef Lienhart, fyrrum forseti Alþjóðasamtakanna, hefur gegnum tíðina safnað saman fjölmörgum hlutum, myndum, bókum og handritum, tengdum Wagner og hefur gefið þessa hluti til verðandi safns.

Það var mjög sterk tilfinning sem fylgdi því að koma í Vendraminhöllina. Wagner hafði komið til Feneyja um haustið 1882 og fundið húsnæði, við hæfi, til leigu. Það var í höll við Canale Grande, með miðstöðvarkyndingu og samanlagt 28 herbergi, þar sem fjölskyldan og aðstoðarfólk gat komið sér vel fyrir. Wagner hafði þrjú herbergi, eingöngu fyrir sig, sem enginn fékk að koma inn í nema til þess kvaddur af honum sjálfum. Þarna fór vel um fjölskylduna og varð ekki þröngt um þau, fyrr en tengdapabbi, Franz Liszt, kom í heimsókn, síðla árs 1882. Hann var að sjálfsögðu með eigin hljóðfæri með sér, stóran flygil, og erfitt að koma honum fyrir með því nógu langt frá vistarverum Wagners enda dvaldist honum ekki lengi. Í þessari höll, við Canale Grande, hafði fjölskylda að sjálfsögðu eigin gondóla með ræðara. En dvölin varð endaslepp er Wagner veiktist skyndilega og lést.

Wagner var í miklum metum hjá Ítölum, þegar hann lést var í undirbúningi sýning á Niflungahringnum vorið 1883 og fór hún fram eins og til stóð. Í þessum vísi af safni í Vendramin höllinni voru m.a. sýnd plaköt og bréfaskipti, sem óperan La Fenice hafði gefið Pugliese hjónunum árið 1996, skömmu áður en óperuhúsið brann, allt þetta hefði annars glatast, hefði það enn verið í óperunni þegar kviknaði í. Óperuhúsið var endurbyggt í sinni upprunalegu mynd og á Wagnerdögunum voru sýndar þar að þessu sinni tvær Verdióperur, La Traviata og Simone Boccanegra. Mjög fallegar sýningar. Auk þess voru fyrirlestrar um Wagner, Verdi og Strauss og píanótónleikar með verkum Strauss. Þingið sótti, ásamt formanni, Anna Áslaug Ragnarsdóttir félagsmaður, sem býr í München.

 

2014-07 Bayreuth

Formaður var við opnun Bayreuthhátíðarinnar þegar sá óvænti atburður gerðist, í fyrsta sinn í sögu hátíðarinnar, að stöðva þurfti sýningu á Tannhäuser vegna þess að lyftubúnaður bilaði og gerði það að verkum að búr, sem var á leið upp á sviðið, brotnaði að hluta og járnstangir féllu á sviðið með tilheyrandi hávaða. Á sýningunni var, að venju, stór hópur þekktra Þjóðverja, úr pólitíkinni, kvikmynda- og sjónvarpsiðnaðinum og alls konar annað fínt folk, sem finnst það ómissandi við svona uppákomur. Gert var hlé í rúman klukkutíma í kjölfarið og áheyrendur beðnir að fara út. Sem betur fer var veðrið gott og það var létt yfir fólki þegar það gekk um grundir utan hússins. Var þetta líklega eina skiptið sem Tannhäuser er sýndur með þrem hléum, en það tókst að koma sýningunni aftur á stað og sem betur fór slasaðist enginn. Í Staatsempfang eða ríkismóttöku að lokinni sýningu tók forsætisráðherra Bæjaralands, Horst Seehofer, í ræðu sinni létt á þessu. Sagðist hafa sent Angelu Merkel, sem aldrei þessu vant var ekki viðstödd, sms og hún svarað um hæl og spurt hvort sýningunni hefði verið hætt en Seehofer svarað um hæl að sýningum í Bayreuth yrði aldrei hætt svo lengi sem það kæmu peningar frá Berlín. Þá kom sms frá Merkel með broskalli! Í framhaldi af opnuninni fór formaður til Leipzig, þar sem haldinn var fyrsti stjórnarfundur Alþjóðasamtakanna í Ermlitz höll fyrir utan bæinn, þar sem Wagner var sem ungur maður tíður gestur húsráðenda. Þar bjó jafnaldri hans Theodor Apel og voru þeir miklir vinir.

2014-05 Graz

Þing Alþjóðasamtaka Wagnerfélaga var haldið í Graz í Austurríki. Þar var metnaðarfull dagskrá, fyrirlestrar, myndlistarsýning og sýning á Lohengrin auk þess sem samhliða þinginu fór fram samkeppni ungra sviðslistamanna um bestu sviðsmyndina og bestu hugmynd að leikrænni óperuuppfærslu. Keppni þessi er haldin þriðja hvert ár í samvinnu Wagnerfélagsins í Graz og óperuhússins þar, með stuðningi alþjóðasamtakanna. Formaður sótti þingið og sat þar aðalfund samtakanna ásamt 70 atkvæðisbærum fulltrúum Wagnerfélaga auk annarra gesta. Við stjórnarkosningu var formaður kosinn í stjórn samtakanna en hana skipa 15 manns. Alþjóðasamtökin voru stofnuð 1991 af Josef Lienhart í Freiburg. Í þeim eru 137 félög víðs vegar í heiminum og félagsmenn þeirra samanlagt yfir 20.000 talsins. Íslenska Wagnerfélagið hefur verið meðlimur frá 1996. Í stjórninni eru, auk forseta, fjórir varaforsetar, ritari, gjaldkeri og 8 meðstjórnendur. Fjórir meðstjórnenda skulu vera þýskir en hinir fjórir frá öðrum löndum. Það var í þeim flokki, sem stungið hafði verið upp á mér og atti ég þar kappi við 6 aðra frambjóðendur, 2 frá Frakklandi, einn frá London, Stokkhólmi, Milano og Graz. Auk mín komust inn af þessum 7 þau Andrea Buchanan frá London, Heinz Weyringer frá Graz og Charles Ducros frá Frakklandi. Formaður samtakanna var kjörinn Thomas Krakow frá Leipzig og var all hörð og óvægin kosningabarátta milli hans og Ungverjans Andras Bajai.

2014-05 Genf

Um 20 manna hópur félagsmanna hélt út til Genfar, til að sjá sýningu á Niflungahringnum í uppfærslu Dieters Dorn og hljómsveitarstjórn Ingos Metzmacher. Formaður hafði valið að panta miða á þennan hring vegna góðrar reynslu af leikstjórn Dieters Dorn, en hann setti m.a. upp nafntogaðan Hollending í Bayreuth upp úr 1990. Dorn brást ekki bogalistin og voru þátttakendur afar ánægðir með uppfærsluna. Eins sáu þau Sólrún Jensdóttir varaformaður og Gunnar Snorri Gunnarsson sendiherra um að skipuleggja dvölina að öðru leyti, ferðir á veitingastaði og aðra samveru og fórst það vel úr hendi eins og vænta mátti

2014-05 Gestir frá Þýskalandi

Dagana 13. til 18. maí kom hópur þýskra Wagnerista til landsins, aðallega frá München og Bæjaralandi. Frumkvæði að ferðinni lá hjá Wagnerfélaginu í München, en einnig komu hópar frá m.a. Bayreuth og Augsburg. Samanlagt um 120 manns. Félagið okkar undirbjó heimsóknina í samvinnu við skipuleggjendur ytra. Í samvinnu við okkur voru haldnir tónleikar í Norðurljósum í Hörpu 17. maí kl. 17, við lögðum til tvo píanista, sem báðir eru félagsmenn, auk mín var það Richard Simm píanóleikari. Þjóðverjarnir komu með þrjá unga söngvara, sem allir hafa verið styrkþegar í Bayreuth og auk þess bættist einn þýskur píanisti til viðbótar í hóp flytjenda. Aðgangur að tónleikunum var ókeypis og sóttu þá um 300 manns og vöktu þeir mikla ánægju hjá áheyrendum. Eftir tónleikana snæddi hópurinn í Hörpu. Dagana á undan höfðu Þjóðverjarnir ferðast um landið og við höfðum m.a., í samvinnu við Snorrastofu í Reykholti, skipulagt heimsókn þeirra þangað og fengið fjóra íslenska fyrirlesara, til að halda erindi á þýsku fyrir hópinn.

Erindin voru sem hér segir:

    • Árni Björnsson: Island und der Ring des Nibelungen
    • Oskar Gudmundsson:”Snorri Sturluson, Homer des Nordens, und Reykholt als Zentrum seiner Macht und Szene des Dramas”.
    • Baldur Hafstað: ‘Konrad Maurer – ein bayerischer Wohltäter Islands’
    • Arthúr Björgvin Bollason: “Deutsch-isländische Kulturbeziehungen – ganz anders betrachtet”.

Þjóðverjarnir snæddu hádegisverð í Reykholti, auk íslensku fyrirlesaranna fóru nokkrir félagsmenn upp í Reykholt til að hlýða á erindin og hitta hópinn.

2013-11 Kúba

Fjórir meðlimir félagsins tóku þátt í ferð til Kúbu, skipulagðri af Wagnerfélaginu í München. Þar var stofnað Wagnerfélag og Hollendingurinn fljúgandi sviðsettur.

2013-07 Bayreuth

Aðeins tveir stakir miðar fengust á Bayreuthhátíðina sl. sumar og voru boðnir út meðal félagsmanna. Formaður fékk á eigin vegum miða á opnunarsýninguna, sem var endurtekning á Hollendingurinn fljúgandi sýningunni frá árinu áður. Á opnunarsýningu hátíðarinnar er jafnan mikið af framáfólki í þýskum stjórmálum, menningar- og listalífi. Að þessu sinni var stutt í kosningar og má heita að öll þýska ríkisstjórnin hafi verið þarna, en reyndar er Angela Merkel lengi búin að vera fastagestur hátíðarinnar. Mikið er einnig af formönnum þýsku Wagnerfélaganna. Að lokinni sýningu er boðið til ríkismóttöku í Nýju höllinni, ef maður er heppinn og er þá búið að reisa risastórt tjald út í garðinn bak við höllina fyrir gesti og veisluborð sem svigna undir veitingum. Oft eru forsvarsmenn hátíðarinnar og listamenn viðstaddir í þessum boðum en að þessu sinni var forsætisráðherra Bæjaralands, Horst Seehofer sá eini sem hafði orðið og bauð gesti velkomna. Þær systur, Katharina og Eva sáust ekki.

Á öðrum degi hátíðarinnar var lagður hornsteinn að nýrri byggingu við Villa Wahnfried þar sem vera á mikið safn. Villa Wahnfried verður eftir sem áður safn um líf og fjölskyldu Wagners, en nýja húsið verður tileinkað verkum hans. Athöfni var mjög lifandi og skrautleg, farið var ofan í gryfju þaðan sem byggingin skyldi upp af reisa og þar voru ásamt fleirum allir helstu og mikilvægu meðlimir Wagnerfjölskyldunnar, m.a. bæði börn Wielands og Wolfgangs, þó ekki Gottfried Wagner. Uppresinarseggurinn Nike Wagner vildi þó láta líta svo út að henni hefði ekki verið ætlað sæti meðal gesta, sem augljóslega var ekki rétt og stóð efst á stigapallinum, þar sem allir gátu séð hana og fór svo áður en athöfninni lauk.

2013-05 Reykholt

Félagið efndi til hópferðar í Reykholt, til þess að halda þar upp á afmælið í návígi við Snorra Sturluson og þann bókmenntaarf, frá honum kominn, sem skipti Wagner svo miklu máli. Skoðuð var sýning um Snorra og forstöðumönnum Snorrastofu gefin veggmynd af Wagner í tilefni dagsins. Síðan var borðuð dýrindis máltíð í Fosshótelinu og undir borðum mælti m.a. Árni Blandon fyrir minni tónskáldsins en Árni Björnsson rifjaði upp mikilvægi íslenska bókmenntaarfsins fyrir Wagner. Árni var einnig fararstjóri í rútunni uppeftir, sem keyrði Dragann og rakti helstu söguslóðir Íslendingasagna sem farið var um. Stór hópur félagsmanna tók þátt og naut dagsins í glampandi sólskini.

2013-01 München

Efnt var til hópferðar á vegum félagsins að sjá uppfærslu á Niflungahringnum hjá Bayerische Staatsoper í München. 15 félagsmenn sáu sýningarnar en leikstjóri þeirra var Þjóðverjinn Andreas Kriegenburg, en hljómsveitarstjóri Kent Nagano. Almennt ríkti mjög mikil ánægja með uppfærsluna, tónlistarlega var hún yfirleitt mjög sterk og fremur fátt sem hneykslaði í leikstjórn. Óperuhúsið í München er afar fallegt og glæsilegt hús af gamla skólanum, með mjög góðum hljómburði. Ferðahópurinn naut aðstoðar Münchendeildar félagsins okkar við að velja skemmtilega veitingastaði í lok sýninga og halda uppi öðru félagslífi. Konsúll Íslendinga bauð hópnum út að borða í Ratskeller og ekki spillti að sendiherra Íslands í Berlín var með í för. Sævar Karl Ólason bauð hópnum á sýningu á málverkum sínum sem stóð yfir í borginni.

2012-08 Bayreuth

Félagið sendi styrkþega á Bayreuthhátíðina úr hópi íslenskra söngvara og var það sópransöngkonan Herdís Anna Jónasdóttir sem fór að þessu sinni og sá þrjár sýningar.

2012-05 Prag

Hið árlega Wagnerþing Alþjóðasamtaka Wagnerfélaga var haldið í Prag í Tékklandi.  Formaður sótti þingið og sat ársfund formanna Wagnerfélaga. Á dagskrá þingsins voru meðal annars áhugaverð erindi, til að mynda um sögu og viðtökur Wagners og verka hans í Tékkóslóvakíu. Tónskáld þar í landi skiptust á sínum tíma alveg í tvo flokka, með og á móti Wagner og var mikill rígur þar á milli. Sýnd var tékknesk sviðssetning á Parsifal og kom það formanni skemmtilega á óvart að söngkonan Þóra Einarsdóttir fór þar með hlutverk einna blómameyjanna. Á formannafundinum var heitasta málið hin nýlega ákvörðun Bayreuthhátíðarinnar að hætta að láta Wagnerfélög í heiminum fá forgang að aðgöngumiðum. Með þetta hefur verið gífurleg óánægja, ekki síst hjá félögum utan Þýskalands og þá sérstaklega í Bandaríkjunum, þar sem komin er áratuga hefð fyrir heimsóknum félagsmanna á Bayreuthhátíðina. Telja gagnrýnendur úr  röðum þessara félaga að þetta muni skaða starf þeirra, fækka félögum og þegar til lengdar lætur einnig skaða Bayreuthhátíðina sem átt hefur í Wagnerfélögum um víðan heim eins konar sendiráð sem unnið hafa að kynningu og viðgangi hátíðarinnar. Hart var deilt á forseta Wagnersamtakanna fyrir að hafa ekki beitt sér nægilega til að gera þessa ákvörðun afturræka, en Eva Märtson varðist nokkuð vel. Ákvarðanatakan virðist liggja hjá fjármálavaldinu í Berlín. Allir eru þó sammála um að þetta hefði aldrei orðið meðan Wolfgang Wagner stjórnaði hátíðinni af þeim styrk og myndugleika sem nú er liðin saga í Bayreuth.

2012-01 New York

30 manna hópur Wagnerfélagsmanna fór til New York, þar sem þeir sáu m.a. sýningu á Götterdämmerung í hinni nýu Hringuppfærslu Kanadamannsins Robert Lepage auk Önnu Bolenu eftir Donizetti í ógleymanlegri túlkun Önnu Netrebko á titilihlutverkinu. Ferðin var frábærlega heppnuð og báðar sýningarnar mjög áhrifaríkar. Í febrúar hefur New York að meðaltali 15 sólardaga, en hópurinn naut blessunar 5 slíkra eða allan tímann. Ef til vill verður New York okkar Neu-Bayreuth! Mikil stemmning fylgir því að fara á sýningar í Metropolitan óperunni og borgin verður stöðugt vinalegri og betri heim að sækja, með óendanlegum möguleikum til dægrastyttingar.

Auk heimsókna á Metropolitan óperuna fóru margir að hlusta á tónleika Susan Graham í Carnegie Hall og á tónleika ungra píanóleikara í Juillardskólanum. Myndlistarsöfn og etnísk hverfi voru skoðuð, svo og Ground Zero með nýopnuðu safni. Greta Gunnarsdóttir sendiherra bauð í sendiherrabústaðinn í Olympic Tower við Rockefeller Center. Farið var út að borða í View Lounge, snúningsveitingastað á 48. hæð Marriott hótelsins við Times Square.

Lokadaginn var hópnum boðið á Götterdämmerung Seminar hjá Wagnerfélaginu í New York, þar sem á dagskrá voru ýmis erindi fræðimanna auk hringborðsumræðna flytjenda úr Götterdämmerung. Áður hafði formaður Wagnerfélagsins, Nathalie Wagner og David Cline, formaður Wagnerfélagsins í Minneapolis, boðið formanni og Ásmundi Jakobssyni ritara til hádegisverðar á sérstökum veitingastað í Metropolitan Museum fyrir þá sem eru meðlimir! Á seminari New York félagsins komu m.a. fram Hans-Peter König (Hagen), Katharina Dalayman (Brünhilde), Wendy Bryn Harmer (Gutrune) og Jay Hunter Morris (Siegfried). Á samkomunni var boðið upp á ýmsan varning, barmmerki með mynd Wagners, víkingahjálma og fjölda bóka. Auk þess var happdrætti með geisladiskum og aðgöngumiðum á bíóútsendingu á Götterdämmerung í verðlaun. Mjög margir gestir voru mættir og kaffi og kökur á boðstólum. Gaman að kynnast félagsandanum hjá þessu stóra félagi.

2011-12 Berlín

Expressferðir efndu til óperuferðar til Berlínar, í þessu sinni var aðalaðdráttaraflið að sjá Kristin Sigmundsson syngja Landgreifann í Tannhäuser. Hópurinn naut sín vel og fékk eðalmóttökur í íslenska sendiráðsbústaðnum, hjá Gunnari Snorra sendiherra.

2011-07 Bayreuth

12 manna hópur fór á Bayreuthhátíðina. Um 25 miðar fengust að þessu sinni. Formaður sótti frumsýningu á Tannhäuser ásamt Gunnari Snorra Gunnarssyni sendiherra og Júlíusi Karli Einarssyni, einnig sáu þremenningarnir sýningu á Lohengrin, þar sem Tómas Tómasson þreytti frumraun sína í Bayreuth, fyrstur Íslendinga í aðalhlutverki. Styrkþegi félagsins var Víkingur Heiðar Ólafsson píanóleikari, sem mætti til leiks með Höllu Oddnýju Magnúsdóttur og Viðari Víkingssyni kvikmyndagerðarmanni og festu þau heimsókn sína  á filmu. Frumsýning ársins var ný uppfærsla hins  þýska leikstjóra, Sebastians Baumgartens, á óperunni Tannhäuser. Hljómsveitarstjóri var Thomas Hengelbrock. Sýningin var afar mikil vonbrigði að flestu leyti, meira að segja tónlistarlega, sem heyrir þó til undantekninga í Bayreuth. Leikstjórnin reyndi að troða verkinu inn í eitthvað konsept sem hafði ekkert með Tannhäuser að gera, leikmyndin var eins og lager í byggingarvöruverslun, Venus gjörsneydd kynþokka, svo nokkur dæmi séu tekin sem gerðu manni lífið leitt. Viðkvæði manna í umræðu eftir sýninguna var oftast, „ekki tala við mig um Tannhäuser“.  Í frumsýningarboði var heldur dauflegt yfir forsvarsmönnum hátíðarinnar, þótt Katharina hefði farið í útlitsklössun og lést um amk 25 kíló. Angela Merkel fór ekki upp á svið til að tala eins og hún hafði gert árið áður og þá minnst Wolfgangs Wagners einkar fallega. Fyrir að óska hátíðinni til hamingju í ræðu þá hafði hún fengið bágt fyrir frá Niki Wagner, sem gagnrýndi Merkel opinberlega fyrir að gera upp á milli hátíða. Sjálf er Niki Wagner valdalaus í Bayreuth en með hátíð í Weimar. Merkel var Bayreuthhátíðinni trygg sem fyrr, en hún hefur sótt hana ásamt manni sínum árum saman. Sást til hennar á sýningum fyrstu dagana auk þess sem við Gunnar Snorri og Júlíus rákumst á hana að snæðingi á Bürgerreuth veitingastaðnum fyrir ofan Festspielhaus að lokinni Lohengrinsýninguni.

2011-03 Berlín

Farin var helgarferð til Berlínar með Expressferðum í fararstjórn Lilju Hilmarsdóttur. Boðið var upp á sýningu á Tristan og Isolde í Deutsche Oper með Kristni Sigmundssyni í hlutverki Marke konungs. Einnig á sýningu á Ariadne auf Naxos. Á boðstólum voru líka Barenboim tónleikar í Schiller Theater, þar sem Staatsoper unter den Linden er nú til húsa til bráðabirgða. Gunnar Snorri Gunnarsson sendiherra bauð hópnum heim í sendiherrabústaðinn, þar sem hann fékk frábærar viðtökur. Mikil ánægja var með ferðina

2010-08 Bayreuth

18 manna hópur fór á Bayreuthhátíðina, auk styrkþega félagsins, sem var Júlíus Karl Einarsson, barýtónsöngvari, í námi í Vínarborg. Frumsýning ársins var ný uppfærsla hins umdeilda þýska leikstjóra, Hans Neuenfels, á óperunni Lohengrin. Í titilhlutverki var ein skærasta tenórstjarna heimsins í dag, hinn þýski Jonas Kaufmann. Hljómsveitarstjóri var hinn bráðungi Andris Nelsson frá Lettlandi. Tónlistarlega gekk sýningin afar vel upp, og uppskar Jonas Kaufmann og aðrir söngvarar sýningarinnar, ásamt hljómsveit og kór, mikið lof og góðar viðtökur, en búið á leikstjóra var með allra lengsta móti að þessu sinni og vóg þar sennilega þyngst að allir kórmeðlimir sýningarinnar, hvort sem voru hermenn eða eðaldömur, íklæddust rottubúningum, sem mörgum fannst truflandi! Ekki fannst leikstjóranum sjálfum viðtökurnar truflandi, heldur reyndi að draga mótmælabaulið á langinn eins og hann mögulega gat með því að ílengjast á sviðinu í uppklappinu. Formaður var viðstaddur frumsýninguna og í frumsýningarboði eftir sýninguna gerðist það í fyrsta sinn amk á seinni tímum að kanslari Þýskalands ávarpaði samkomuna og þakkaði listamönnum. Fór Angela Merkel afar hlýlegum orðum um störf Wolfgangs Wagner fyrir hátíðina og auk þess óskaði hún m.a. Hans Neuenfels, leikstjóra Lohengrin, til hamingju með árangurinn við að framkalla bú-hróp! Það var afar létt yfir Angelu, en gárungarnir sögðu í tilefni ræðu hennar að nú notaði hún hvert tækifæri til að halda ræður þar sem vinsældir hennar væru í sögulegu lágmarki.

2010-04 Bayreuth

Í Bayreuth var haldin minningarathöfn um Wolfgang Wagner, sem var stjórnandi Bayreuthhátíðarinnar í nær 60 ár. Wolfgang Wagner lést 21. mars á heimili sínu, 80 ára gamall. Formanni var boðið að vera viðstaddur minningarathöfnina, sem fór fram í Festspielhaus, þar sem saman voru komnir hátt á annað þúsund boðsgestir. Athöfnin var afar falleg. Öll hljómsveitin og kórinn voru á sviðinu og ávörp flutt af Horst Seehofer, forsætisráðherra Bæjaralands, Michael Hohl, borgarstjóra Bayreuthborgar, hljómsveitarstjóranum Christian Thielemann og lækni Wolfgangs, Joachim Thierry. Athöfnin hófst á forleik úr Lohengrin en lauk á forleik úr Meistarasöngvarunum, með kór.  Á milli minningarorða  voru flutt Sigfrieds Rheinfahrt úr Ragnarökum og mótetta eftir Mendelssohn.  Eftir að Wolfgang Wagner er horfinn af sjónarsviðinu er æ oftar fjallað á jákvæðum nótum í fjölmiðlum um gríðarmikið og ómetanlegt framlag hans til Wagnerhátíðarinnar í Bayreuth. Wolfgang tileinkaði líf sitt nánast alfarið lífsverki afa síns og hugsjónum hans um Bayreuthhátíðina. Oft naut hann þó ekki sannmælis fyrir mikilvægt starf sitt, einkum í þýskum og breskum fjölmiðlum.

2010-02 Berlín

Að frumkvæði Lilju Hilmarsdóttur hjá Iceland Express var farið í sérdeilis vel heppnaða hópferð á Wagnerdaga í Deutsche Oper í Berlín að sjá Kristin Sigmundsson í Lohengrin og Meistarasöngvurunum. Þetta voru góðar uppfærslur á þessum óperum, báðar settar á svið af Götz Friedrich og einvalalið söngvara í flestum hlutverkum. Farið var í stórskemmtilega skoðunarferð um Berlín undir leiðsögn Óttars Guðmundssonar. Hópurinn naut einstakrar gestrisni í hádegisverðarboði Gunnars Snorra Gunnarssonar, sem nýverið varð sendiherra í Berlín.

2009-08 Bayreuth

20 manna hópur félagsmanna  sá sýningar á Parsifaluppfærslu Norðmannsins Stefans Herheim, Meistarasöngvara Katharinu Wagner og Tristan og Isolde, en þrír sáu Niflungahringinn. Styrkþegi félagsins að þessu sinni var Daníel Bjarnason, hljómsveitarstjóri og tónskáld, sem fékk miða á Niflungahringinn. Sýning Tristan og Isolde þann 7. ágúst var sýnd í beinni útsendingu á netinu og er það í annað sinn sem slíkt er gert í Bayreuth. Fjöldi manns um allan heim sá sýninguna, tölvutengdur, auk þess sem 30.000 manns söfnuðust saman utanhúss í Bayreuth og fylgdust með útsendingunni á risastórum skjá.  Wagnerfélagar á Íslandi söfnuðust saman í Norræna húsinu, sem bauð upp á að sjá útsendinguna á stóra skjánum.

2009-05 Dresden

Formaður og ritari félagsins sóttu árlegt þing Alþjóðasamtaka Wagnerfélaga í Dresden. Formaður sat þar  aðalfund samtakanna og var þar ásamt tveim öðrum formönnum Wagnerfélaga heiðraður með gullmerki samtakanna, hinu gullna W.  Josef Lienhart, fyrrverandi forseti samtakanna var gerður að heiðursforseta, en hann lét af störfum 2008 og við tók Eva Märtson, sem verið hefur formaður Wagnerfélagsins í Hannover. Á þinginu var boðið upp á sýningu á Aidu í Semperóperunni glæsilegu, þar fyrir utan voru bæði spennandi tónleikar og fyrirlestrar í boði.

2008-08 Bayreuth

Á þriðja tug félagsmanna sáu sýningar í Bayreuth sl. sumar á vegum félagsins. 14 manna hópur sá Niflungahring þeirra Tankred Dorst og Christian Thielemanns og 10 manns aðrar sýningar. Styrkþegi félagsins var Þorvaldur Þorvaldsson bassasöngvari, sem hefur nýlokið námi frá Listaháskólanum og stundar nú framhaldssnám við Mozarteum í Salzburg. Hann sá þrjár sýningar, Parsifal, Meistarasöngvarana og Tristan og Isolde. Ný uppfærsla af Parsifal var frumsýnd á hátíðinni og leysti hún af hólmi hina umdeildu uppfærslu Christoph Schlingensiefs  sem aðeins var sýnd í 4 ár. Leikstjóri hins nýja Parsifal var Norðmaðurinn Stefan Herheim og var sýningin mjög metnaðarfull og unnin út frá þeirri grunnhugmynd að steypa sögu Parsifal saman við sögu þýsku þjóðarinnar frá keisaratímanum til dagsins í dag. Uppfærslan hlaut almennt mikið lof gagnrýnenda og leikhúsgesta en auðvitað voru ekki allir sáttir og fannst sumum allt of miklu hlaðið utan um einfaldleika verksins og skíran boðskap, sem kæmist vart lengur til skila eða týndist í ofhlæðinu.

2007 Bayreuth

18 félagsmenn sáu sýningar í Bayreuth sl. sumar á vegum félagsins. 15 manna hópur sá Niflungahring þeirra Tankred Dorst og Christian Thielemanns og átti ánægjulega vikudvöl saman úti undir forystu Sólrúnar Jensdóttur. Ný uppfærsla af Meistarasöngvurunum var frumsýnd og þreytti þar frumraun sína sem leikstjóri í Bayreuth Katharina Wagner, dóttir þeirra Guðrúnar heitinnar og Wolfgangs Wagner. Uppfærslan hlaut mjög misjafnar viðtökur gagnrýnenda og gekk nokkuð fram af ýmsum áhorfendum. Katharina er samt mjög öflugur persónuleiki og hefur hlotið gífurlega athygli fjölmiðla í tengslum við þessa sýningu auk þess sem augu beinast að henni sem hugsanlega væntanlegum yfirstjórnenda hátíðarinnar. Hún hefur formlega lýst yfir að hún gefi kost á sér sem partur af þríeyki, þar sem með henni verði við stjórnvölinn hinn virti hljómsveitarstjóri Christian Thielemann og tónskáldið Petr Rucyscka, fyrrverandi listrænn stjórnandi Salzborgarhátíðarinnar. Aðrar sýningar í Bayreuth á liðnu sumri voru Tannhäuser sýning franska leikstjórans Philippe Arlaud og  Parsifal uppfærsla þýska leikstjórans Chrisoph Schlingensiefs, en hún hefur verið afar umdeild og hefur yfirstjórn Bayreuthhátíðarinnar nú ákveðið að taka hana af fjölunum eftir aðeins 4 ár og nýr Parsifal verður frumsýndur nú á sumri komanda.

2006-08 Bayreuth

18 félagsmenn sáu sýningar í Bayreuth á vegum félagsins. Frumsýndur var nýr Niflungahringur í leikstjórn Þjóðverjans Tankred Dorst og hlómsveitarstjórn Christians Thielemann. Sýningin fékk blandaðar viðtökur gagnrýnenda einkum hvað varðar leikstjórn en sýningin var dálítið stirð og samskipti og hreyfingar söngvaranna á sviðinu oft klaufaleg. Þessi atriði standa þó vonandi til bóta, enda má segja leikstjóranum til varnar að fáir leikstjórar hafa haft jafn stuttan undirbúningstíma og Tankred Dorst en hann tók við uppfærslunni eftir að Lars von Trier hafði gengið úr skaftinu á seinustu stundu. Flestir voru sammála um að hljómsveitarstjórinn, Christian Thielemann frá Berlín, væri stjarna sýningarinnar. Aðrar sýningar í Bayreuth á liðnu sumri voru Hollendingurinn fljúgandi, Tristan og Isolde og Parsifal. Uppfærslan þýska leikstjórans Chrisoph Schlingensiefs á Parsifal hefur verið afar umdeild og hefur yfirstjórn Bayreuthhátíðarinnar nú ákveðið að sýna hana aðeins þann lágmarksfjölda ára sem þarf til að standa við samninga við leikstjórann eða í 4 ár og verður hún tekin af dagskrá eftir hátíðina á komandi sumri og nýr Parsifal frumsýndur 2008.

2006-05 Kaupnannahöfn

Farin var óperuferð til Kaupmannhafnar að sjá uppfærslu Niflungahringsins í nýja óperuhúsinu á Hólminum. 35 manns fóru utan og var ferðin öll hin ánægjulegasta og almennt gerður góður rómur að uppfærslu Dana þótt sumt orkaði tvímælis og ylli talsverðum titringi hjá þeim sem vel þekkja óperurnar fjórar. Fyrir utan óperusýningarnar gerði hópurinn margt annað sér til gamans. Farið var í rútuferð um Sjáland og skoðuð m.a. Louisiana myndlistarsafnið, Karen Blixen safnið og kastali Hamlets við Helsingör. Auk þess var hópurinn boðinn í Íslenska sendiráðið, skoðaði sýningu Louisu Matthíasdóttur á Bryggen og fór nokkrum sinnum saman út að borða.

2005-12 Kaupmannahöfn

Árni Björnsson fór til Kaupmannahafnar og hélt erindi um Wagner og Völsunga fyrir u.þ.b. 60 manns á vegum danska Wagnerfélagsins

2005-08 Bayreuth

Um 20 félagsmenn sáu sýningar í Bayreuth á vegum félagsins. Þetta var Hringlaust ár, en sýndar voru áfram uppfærslur á Tannhäuser, Hollendingnum fljúgandi, Parsifal og Lohengrin auk þess sem frumsýnd var ný uppfærsla á Tristan og Isolde í leikstjórn Svisslendingsins Christoph Marthaler. Hljómsveitarstjóri sýningarinnar, Japaninn Eiji Oué, var reyndar fyrsti Asíumaðurinn, sem haldið hefur um tónsprotann í Bayreuth. Hann fékk óvenju slæma útreið hjá áheyrendum einkum og sér í lagi  fyrir að láta hljómsveitana spila allt of sterkt, þannig að hann oft nánast kaffærði söngvarana. Sýningin fékk annars mismunandi dóma gagnrýnenda, en nær allir voru sammála um frábæra frammistöðu sænsku söngkonunnar Ninu Stemme í hlutverki Isoldar og mun stjarna hennar vafalítið skína skært á komandi árum, ekki síst í Wagneróperum.

2005-05 Leipzig

Árlegt þing Alþjóðasamtaka Wagnerfélaga var haldið í Leipzig með glæsilegri dagskrá. Ásmundur Jakobsson sótti þingið og sat stjórnarfund samtakanna fyrir hönd félagsins. Þar hitti hann m.a. gjaldkera Wagnerfélagsins í Kaupmannahöfn, Palle Schou, sem bauðst til að útvega þeim félagsmönnum okkar sem áhuga hefðu miða á Niflungahringinn í nýja óperuhúsinu í Kaupmannahöfn. Þessu boði var tekið fagnandi og það kynnt meðal félagsmanna og  keyptu hátt í 40 manns miða og fóru Hafnar í maí 2006.

2005-04 París

Farin var óperuferð til Parísar undir leiðsögn Júlíusar Einarssonar. Sóttar voru sýningar á Tristan og Isolde og Boris Godunov. Til stóð að Kolbeinn Ketilsson færi með hlutverk Tristans á móti Waltraud Meier, sem var að mörgu leyti kveikjan að ferðinni, en úr því varð því miður ekki að þessu sinni og fór Ben Heppner í staðinn með hlutverk Tristans

2004-12 Ástralía

Árna Björnssyni bauðst að halda fyrirlestur í Adelaide í Ástralíu í tengslum við sýningu Niflungahringsins þar. Einnig þáði hann boð um og hélt fyrirlestra í Perth og í Sydney. Þýðingarsjóður  Wagnerfélagsins styrkti Ástralíuferð Árna með 100.000 kr. auk þess sem Utanríkisráðuneytið styrkti Árna með sömu upphæð. Einnig styrkti Björgúlfur Guðmundsson ferðina mjög myndarlega.

2004-10 Karlsruhe og Stuttgart

Tólf manna hópur félagsmanna fór undir forystu Júlíusar Einarssonar í óperuferð til Þýskalands. Megintilefnið var að sjá frumsýningu Rínargullsins í Karlsruhe, þar sem Bjarni Thor Kristinsson fór með hlutverk Wotans, fyrstur Íslendinga. Auk þess var m.a. horft á Brottnámið úr kvennabúrinu í Frankfurt og nokkrir úr hópnum fóru til Stuttgart og sáu Tristan og IsoldeHafnar í maí 2006.

2004-vor

Árna Björnssyni bauðst að halda  fyrirlestur um Wagner og Völsunga á vegum Wagner félagsins í New York á málþingi, sem félagið efndi til í tengslum við sýningu Niflungahringsins við Metropolitan óperuna. Formaður New York félagsins, Natalie Wagner,  undirbjó ferð Árna af mikilli alúð og nákvæmni og var milligöngumaður um fyrirlestra hans annars staðar í Bandaríkjunum, en í þessari sömu ferð hélt Árni einnig fyrirlestra í Boston, Minneapolis og ChicagoÍslenska konsúlatið í N.Y. efndi til móttöku til heiðurs Árna í tilefni af fyrirlestrinum. Ferð Árna styrktu m.a. Menntamálaráðuneytið með 150.000 kr. styrk og Klaus og Gesa Vogt í New York, sem greiddu hótelgistingu Árna á meðan á vikudvöl hans í New York stóð, en Árni gat notað tækifærið og séð amerísku Hringuppfærsluna í leiðinni. Mjög jákvæðir dómar birtust um bók Árna í tímariti Wagnerfélagsins í N.Y., Wagner Notes. Var dómurinn á heimasíðu félagsins, sem er:  www.wagnersocietyny.org undir tenglinum “Wagner Notes

2004-08 Bayreuth

Um 20 félagsmenn sáu sýningar í Bayreuth á vegum félagsins. Á efniskránni úti var Niflungahringur Jürgens Flimm, sem gekk sitt síðasta ár og áframhaldandi sýningar á Tannhäuser, Hollendingnum og Lohengrin. Frumsýnd var ný uppfærsla á Parsifal í leikstjórn þýska leikstjórans og fjöllistamannsins Christoph Schlingensiefs, en hann tók við leikstjórn Parsifal með aðeins árs fyrirvara eftir að sá sem hafði verið ráðinn til verksins hætti við. Ráðning Schlingensiefs til Bayreuthhátíðarinnar þótti all djarft tiltæki. Þetta var fyrsta óperuuppfærsla hans, en hann hefur sett upp fjölda leikhússýninga og gert kvikmyndir sem hafa verið mjög umdeildar. Margir spáðu því fyrirfram að Shlingensief myndi á einn eða annan hátt ganga fram af fólki og sýningin var, vægast sagt, afar óhefðbundin. Í fjölmiðlum fékk hún bæði góða dóma og slæma og  margir áhorfenda voru bæði sárir og hneykslaðir, og létu það skýrt í ljós. Það sást m.a. til fólks sem breiddi dúk fyrir andlitið og hlustaði bara á frábæran flutning hljómsveitar og söngvara undir stjórn Frakkans gamalreynda, Pierre Boulez.  

Á sama tíma og Wagnerhátíðin í Bayreuth er haldin í ágúst ár hvert hefur um árabil verið í gangi önnur hátíð sem ber nafnið  Festival junger Künstler. Á þeirri hátíð voru sl. sumar sérstakir norrænir dagar undir ensku yfirskriftinni “Icelandic Myths – Richard Wagner’s Nordic Inspiration”.  Haldið var m.a. málþing þar sem Árni Björnsson hélt erindi um bók sína Wagner og Völsunga og rannsóknarniðurstöður sínar og formaður félagsins hélt erindi sem hét: Wagner’s Ring back to its roots, og fjallaði um sýningu Listahátíðar í Reykjavík 1994 á Niflungahring Wagners í styttri útgáfu og eftirmála sýningarinnar. Hápunktur þessara norrænu daga í Bayreuth var frumflutningur íslensku kammeróperunnar Grettis eftir Þorkel Sigurbjörnsson, sem sett var upp af íslenskum flytjendum undir leikstjórn Sveins Einarssonar. Hljómsveitarstjóri sýningarinnar og jafnframt skipuleggjandi þessarra norrænu daga var Guðmundur Emilsson.

 

2003-08 Bayreuth

30 Íslendingar fóru á Bayreuthhátíðina. Um helmingur þeirra sá Niflungahringinn í uppfærslu Jürgens Flimm, sem þá var á síðasta ári en hinir sáu Tannhäuser, síðustu sýninguna á Lohengrin og nýju uppfærsluna á Hollendingnum fljúgandi.

2003-05 Kaupmannahöfn

Alþjóðasamtök Wagnerfélaga héldu sitt árlega þing, að þessu sinni í Kaupmannahöfn, 28. maí til 1. júní. Átta félagsmenn lögðu land undir fót á þingið. Þar hafði verið sett upp mikil viðhafnardagskrá. Í Konunglega leikhúsinu var m.a. boðið upp á óperusýningar á  Valkyrjunni, Tristan og Isolde og Salome eftir Strauss. Auk þess var haldin glæsileg kvöldveisla, þar sem fjölmargir danskir listamenn komu fram og heiðursgestur var sænska stórsöngkonan Birgit Nilsson, sem átti stórafmæli skömmu fyrr.

2003-04 París

Efnt til hópferðar til Parísar til að sjá Parsifal í Bastilluóperunni, þar sem þeir Kristinn Sigmundsson og Guðjón Óskarsson fóru með hlutverk Gurnemanz og Titurel. Það var stór viðburður að upplifa frábærar bassaraddir þessar tveggja Íslendinga í sömu sýningu í þessu stóra húsi. Þeir stóðu sig stórkostlega vel í afar sannfærandi uppfærslu, en hlutverk Gurnemanz er eins og Wagneristum er kunnugt eitt stærsta hlutverk óperulistarinnar.   Það voru 36 manns sem fóru utan, nokkrir þeirra komu frá Vinafélagi Íslensku óperunnar, sem var boðið að slást í för. Auk Parsifal var í boði óperan Eugene Onegin eftir Tchaikovsky, afar hrífandi sýning. Hópurinn naut í ferðinni leiðsagnar Laufeyjar Helgadóttur, fararstjóra Flugleiða í París, í ýmsar ferðir, m.a. til Versala, og þáði boð íslenska sendiherrans í París, Sigríðar Snævar í sendiherrabústaðnum. Snæddur var kvöldverður á sögufrægum veitingastað, Bláu lestinni. Einnig fór hópurinn í vinsæla gönguferð undir leiðsögn Sveins Einarssonar.

2002-08 Bayreuth

Nokkrir félagsmenn sáu sýningar í Bayreuth og voru þá á fjölunum Niflungahringurinn, Lohengrin, Tannhäuser og Meistarasöngvararnir.

Hátíðarinnar það sumar verður ef til vill helst minnst fyrir það, að í lok hennar var síðasta sýning Meistarasöngvaranna frá Nürnberg í leikstjórn Wolfgangs Wagner. Er ferli hans sem leikstjóra þar með lokið og því 51 árs tímabili sem þeir sonarsynir Wagners, Wieland og Wolfgang hafa í meira eða minna mæli verið leikstjórar sýninganna í Bayreuth. Þetta ár er því  fyrsta ár í sögu hátíðarinnar frá upphafi, þar sem enginn afkomandi fjölskyldunnar leikstýrir.

2002-03 Berlín

7 félagsmenn sóttu Wagnerdaga í Berlín og sáu allar óperur meistarans á tveimur vikum í Staatsoper unter den Linden. Allar sýningarnar voru í leikstjórn Harry Kupfers og hljómsveitarstjóri var Daniel Barenboim. 3 félagsmenn til víðbótar fóru og sáu bara Niflungahringinn.

2001-08

16 félagsmenn fóru á sýningar Bayreuthhátíðarinnar, sáu  ýmist Niflungahringinn eða sýningar á Lohengrin, Parsifal og Meistarasöngvurunum. Nýr hljómsveitarstjóri, Adam Fischer, fékkst með stuttum fyrirvara til að taka við hljómsveitarstjórn Hringsins eftir skyndilegt og óvænt fráfall Giuseppe Sinopoli. Leysti Fischer þessa þraut af mikilli prýði enda áður stjórnað óperunum í Mannheim.

2000-?? Helsinki

Lorem ipsum dolor sit amet, consectetur adipiscing elit. Ut elit tellus, luctus nec ullamcorper mattis, pulvinar dapibus leo.

2000-08 Bayreuth

16 félagsmenn heimsóttu Bayreuth hátíðina og sáu þar m.a. nýja uppsetningu Niflungahringsins í leikstjórn Jürgens Flimm og hljómsveitarstjórn Giuseppi Sinopoli, auk sýninga á Meistarasöngvurunum, Parsifal og Tristan og Isolde.

1999-08 Bayreuth

Um 20 félagsmenn til Bayreuth.  Þetta var Hringlaust ár, en hins vegar var ný uppfærsla á Lohengrin frumsýnd í leikstjórn Englendingsins Keith Warner og hljómsveitarstjórn Antony Pappano. Auk þess voru í gangi eldri sýningar á Hollendingnum, Parsifal, Meistarasöngvurunum og Tristan og Isolde.

1998-sumar

Árni Björnsson dvaldist í Bayreuth og hafði aðstöðu  í Wagnerbókasafninu við rannsóknir sínar á áhrifum íslenskra bókmennta á Niflungahringinn.

1998-08 Bayreuth

22 félagsmenn fóru á Bayreuthhátíðina og sáu sýningar ýmist á Niflungahringnum eða á óperunum Hollendingurinn fljúgandi, Meistarasöngvararnir og  Parsifal.

Einnig fór í fyrsta skipti styrkþegi á vegum félagsins út til Bayreuth og sá 3 sýningar. Það var Anna M. Magnúsdóttir semballeikari og tónlistarfræðingur sem var fyrsti styrkþegi félagsins

1996-08 Bayreuth

Tíu manns fóru til Bayreuth að sjá Tristan og Isolde og Parsifal