Ársskýrsla 2005

á 10. aðalfundi félagsins 5. mars 2006  í Norræna húsinu.

Skýrsla formanns á 10. aðalfundi félagsins 5. mars 2006  í Norræna húsinu.

Fyrir hönd stjórnarinnar býð ég ykkur velkomin til þessa fundar. Þetta er 10. aðalfundur Richard Wagner félagsins á Íslandi, en félagið var formlega stofnað hér á Hótel Holti 5. desember árið 1995 að undangengnum undirbúningsstofnfundi í ágúst sama ár úti í Bayreuth.

Samkvæmt lögum félagsins er kosið í stjórn annað hvert ár og var það síðast gert fyrir tveim árum og mun því stjórnarkosning fara fram hér á eftir. Ég hef frá upphafi verið formaður félagsins. Þau Jóhann J. Ólafsson varaformaður og Sólrún Jensdóttir meðstjórnandi hafa einnig setið í stjórn frá upphafi, sömuleiðis þeir Árni Björnsson og  Árni Tómas Ragnarsson, sem eru í varastjórn. Jón Ragnar Höskuldsson gjaldkeri tók við af Barða Árnasyni 1998 og Halldór Halldórsson kom inn í stjórnina sem ritari árið 2000 í stað Jóhannesar Jónassonar heitins. Á aðalfundi 2002 tók síðan Jón Thoroddsen við sæti í varastjórn af Gretari Ívarssyni og hefur stjórnin verið óbreytt síðan þá.

Ég ætla nú að rekja í stuttu máli starfsemi félagsins síðastliðið ár:

Að loknum 9. aðalfundi félagsins í Norræna húsinu 6. febrúar í fyrra var dagskrá, þar sem Árni Tómas Ragnarsson sýndi uppáhaldsatriði sín úr hinni annáluðu uppfærslu Frakkans Patrice Chéreau á Niflungahringnum, sem sett var upp í Bayreuth á 100 ára afmæli Niflungahringsins, árið 1976.

Þrem vikum síðar, 26. febrúar, sýndi félagið í samvinnu við Vinafélag Íslensku óperunnar uppfærslu frá Metropolitan óperunni í New York á Tristan og Isolde, með þeim Jane Eaglen og Ben Heppner í aðalhlutverkum. Júlíus K. Einarsson  kynnti óperuna á undan sýningunni.

Um páskana bar óvenju vel í veiði varðandi sýningu á Parsifal, þegar sýnd var í Ríkissjónvarpinu á annan í páskum glæný upptaka af Parsifal frá óperuhúsinu í Baden-Baden í Þýskalandi. Þessi sýning var samvinnuverkefni Óperunnar í Baden-Baden við ensku þjóðaróperuna (ENO) í London og óperuna í Chicago undir leikstjórn hins þekkta leikstjóra Nikolaus Lehnhoff. Af þessu tilefni var Kornhlaðan í Bernhöftstorfunni tekin á leigu svo félagar gætu notið sýningarinnar saman.

Þann 10. apríl var dagskrá í Norræna húsinu, þar sem Árni Heimir Ingólfsson flutti mjög áhugaverðan og skemmtilegan fyrirlestur um ítalska hljómsveitarstjórann Arturo Toscanini og tengsl hans við Wagner og Bayreuthhátíðina. Árni Heimir sýndi jafnframt myndbandsbrot frá ævi Toscaninis, m.a. upptökur frá tónleikum.

Dagana 23. til 27. apríl var farin óperuferð til Parísar undir leiðsögn Júlíusar Einarssonar. Sóttar voru sýningar á Tristan og Isolde og Boris Godunov. Til stóð að Kolbeinn Ketilsson færi með hlutverk Tristans á móti Waltraud Meier, sem var að mörgu leyti kveikjan að ferðinni, en úr því varð því miður ekki að þessu sinni og fór Ben Heppner í staðinn með hlutverk Tristans.

Dagana 4. til 8. maí var árlegt þing Alþjóðasamtaka Wagnerfélaga haldið í Leipzig með glæsilegri dagskrá. Ásmundur Jakobsson sótti þingið og sat stjórnarfund samtakanna fyrir hönd félagsins. Þar hitti hann m.a. gjaldkera Wagnerfélagsins í Kaupmannahöfn, Palle Schou, sem bauðst til að útvega þeim félagsmönnum okkar sem áhuga hefðu miða á Niflungahringinn í nýja óperuhúsinu í Kaupmannahöfn. Þessu boði var tekið fagnandi og það kynnt meðal félagsmanna og hafa nú hátt í 40 manns keypt miða og eru á leið út til Hafnar í maí. Enn frekari tengsl hafa myndast við félagið í Kaupmannahöfn. Varaformaður félagsins, Ann Terkelsen, var hér á ferð síðastliðið sumar og hitti nokkra úr stjórninni. Hún vinnur að því að auka tengsl milli Wagnerfélaga á Norðurlöndum, m.a. með því að skiptast á fréttabréfum, stuðla að gagnkvæmum heimsóknum o.s.frv.  Formaður notaði  tækifærið, þegar sambandinu við danska félagið hafði verið komið á, til að kynna rannsóknir Árna Björnssonar fyrir stjórn danska félagsins og stakk upp á því að honum yrði boðið til Kaupmannahafnar til fyrirlestrahalds. Af því varð svo í byrjun desember, þegar Árni hélt utan og hélt erindi um Wagner og Völsunga fyrir u.þ.b. 60 manns.

Um 20 félagsmenn sáu sýningar í Bayreuth sl. sumar á vegum félagsins. Þetta var Hringlaust ár, en sýndar voru áfram uppfærslur á Tannhäuser, Hollendingnum fljúgandi, Parsifal og Lohengrin auk þess sem frumsýnd var ný uppfærsla á Tristan og Isolde í leikstjórn Svisslendingsins Christoph Marthaler. Hljómsveitarstjóri sýningarinnar, Japaninn Eiji Oué, var reyndar fyrsti Asíumaðurinn, sem haldið hefur um tónsprotann í Bayreuth. Hann fékk óvenju slæma útreið hjá áheyrendum einkum og sér í lagi  fyrir að láta hljómsveitana spila allt of sterkt, þannig að hann oft nánast kaffærði söngvarana. Hann mun ekki stjórna aftur í Bayeruth í ár. Sýningin fékk annars mismunandi dóma gagnrýnenda, en nær allir voru sammála um frábæra frammistöðu sænsku söngkonunnar Ninu Stemme í hlutverki Isoldar og mun stjarna hennar vafalítið skína skært á komandi árum, ekki síst í Wagneróperum.

Vetrarstarf þessa starfsárs hófst 6. september með fyrirlestri Árna Björnssonar í Goethe Zentrum um Niflungahringinn og íslenskar bókmenntir. Fyrirlesturinn var haldinn á vegum Germaníu í samvinnu við okkar félag og var vel sóttur.

10 ára afmæli Wagnerfélagsins var haldið hátíðlega  á haustfagnaði félagsins á Hótel Holti 15. október sl. Af því  tilefni afmælisins var Oswald Georg Bauer boðið til landsins til fyrirlestrahalds, en hann er einn helsti Wagnersérfræðingur okkar tíma. Bauer er leikhúsfræðingur að mennt  og starfaði um árabil við Bayreuthhátíðina sem listrænn ráðgjafi og gegndi auk þess starfi fjölmiðlafulltrúa þar í áratug. Hann vinnur nú að ritun sögu hátíðarinnar frá upphafi til dagsins í dag. Oswald Bauer flutti tvo fyrirlestra fyrir félagið. Fyrri fyrirlestur hans nefndist „Ást og vor verða eitt.  Náttúran í Niflungahringnum“ og fjallaði um birtingarform náttúrunnar í uppsetningum Niflungahringsins frá upphafi til okkar dags. Seinni fyrirlesturinn var haldinn í samvinnu við Listaháskólann og nefndist „Tálvonir og listræn staðfesta – Wagner og Parísaróperan“ og fjallaði um það sem Wagner sá og lærði við Parísaróperuna, aðdáun hans á franska óperustílnum en jafnframt gagnrýni á þennan sama stíl.  Bauer  sýndi m.a. fram á hvernig Franski óperustíllinn, sem var svo ólíkur stíl helstu fyrirmynda Wagners, þeirra Mozarts, Beethovens og Glucks, varð undanfari að skemmtiiðnaði 20. aldar á Broadway og í Hollywood. Peter Werth , tæknilegur aðstoðarmaður Bauers,  kom með honum frá Þýskalandi, einnig í boði félagsins. Á haustfagnaðinn var einnig boðið sendiherra Þýskalands, Johann Wenzl og sendiráðsritara, Jens Eilers.

Samkvæmt venju var fenginn ungur upprennandi söngvari til að syngja fyrir veislugesti og var það að þessu sinni Hrólfur Sæmundsson barýtón, forsprakki Sumaróperunnar í Reykjavík, sem kom og söng mjög metnaðarfulla dagskrá, en Hrólfur mun syngja eitt af aðalhlutverkum í óperunni Töfraskyttunni  á Listahátíð nú í vor. Ræðumenn undir borðum voru þeir Árni Björnsson, sem sagði frá heimsreisu sinni á síðasta ári með fyrirlestrum sínum um Wagner og Völsunga og Guðbjartur Kristófersson sem sagði frá reynslu af fyrstu ferð sinni til Bayreuth. Veislustjóri var Reynir Axelsson.

Á næstu samkomu á vegum félagsins, í Norræna húsinu 5. nóvember, kynnti Reynir Axelsson  Meistarsöngvarana frá Nürnberg. Sýnd var upptaka óperunnar frá Metropolitan óperunni í New York.

Þann 28. janúar hélt Júlíus K. Einarsson mjög skemmtilega kynningu hér á Hótel Holti á Hetjutenórum í Bayreuth á árunum 1951 til 1970. Greindi hann frá öllum helstu tenórsöngvurum, sem fram komu á hátíðinni á þessu tímabili og lék tóndæmi af geisladiskum úr safni sínu, sem er alveg einstakt. Er mér til efs að nokkur maður í heiminum eigi annað eins úrval af geisladiskum með tónlist Wagners.

Fyrir utan þessa atburði sem ég hef talið upp hefur verið unnið að ýmsum málum. Þegar hefur komið fram að áframhald hefur orðið á fyrirlestrarferðum Árna Björnssonar erlendis. Bókin Wagner og Völsungar er nú til sölu á þýsku og ensku í tveim helstu bókabúðunum í Bayreuth og hefur hlotið all góða kynningu, ekki þó hvað síst með birtingu greinar Árna í efnisskrá Bayreuthhátíðarinnar 2002.

Félagið er áfram aðili að Alþjóðasamtökum Wagnerfélaga, og greiðir félagið ákveðið árgjald til þeirra sem nemur um 13.000 kr. Samtökin  standa m.a. fyrir árlegu þingi og gefa út tímaritið Wagner Weltweit. Á síðastliðnu ári var þingið haldið  í Leipzig, dagana 4.-8.maí.  Nú í ár verður það í Tallin í Eistlandi og að hluta til í Helsinki, þar sem sótt verður sýning á Parsifal. Árið 2007 verður þingið í Weimar, 2008 í Genf, 2009 í Dresden og loks 2010 væntanlega  í London.

Eitt af mikilvægustu verkefnum aðildafélaga alþjóðasambandsins er að fjármagna starf Richard Wagner Styrkþegastofnunarinnar í Bayreuth sem hefur það markmið að styrkja unga tónlistar- og sviðslistamenn til að sækja Bayreuthhátíðina. Félagið okkar mun nú níunda árið í röð senda styrkþega út til Bayreuth. Í fyrra fór sópransöngkonan  Helga Rós Indriðadóttir  utan og sá sýningar á Parsifal, Tristan og Isolde og Lohengrin. Helga Rós hefur átt glæsilegan söngferil í Þýskalandi, er fastráðin við óperuna í Stuttgart og hefur m.a.  farið með hlutverk í uppfærslu Niflungahringsins þar. Framlag félagsins til þessa málefnis eru um það bil 30.000 krónur, sem það greiðir Stipendienstiftung í Bayreuth. Styrkþeginn  fær venjulega  að sjá þrjár óperusýningar, en fimmta hvert ár er boðið upp á allan Hringinn. Auk þess er m.a. í boðinu leiðsögn um Festspielhaus, Richard Wagner safnið og hið nýja Franz Liszt safn. Í ár verður styrkþega boðið á sýningar á Tristan og Isolde, Parsifal og Hollendingnum fljúgandi. Þess má geta að Menntamálaráðuneytið hefur frá upphafi styrkt félagið vegna þessa máls, þó féll styrkveitingin niður síðastliðið ár, þar sem Helga Rós býr í Þýskalandi. Sótt hefur verið til Menntamálaráðuneytisins vegna styrkþega í sumar og fengist styrkur upp á kr. 30.000. Um 250 styrkþegar koma ár hvert á hátíðina, flestir þeirra frá Þýskalandi eða nálægt 200 manns, en hinir aðallega frá öðrum Evrópulöndum.

Á dagskrá félagsins fram til vors er eftirfarandi. Hér á eftir, að loknum aðalfundinum, munum við sýna nýja heimildamynd frá Þýskalandi, sem heitir Wagner und die Frauen.

Næsti atburður verður síðan  25. mars í Norræna húsinu, en þá verður Rínargullið sýnt af myndbandi í uppfærslu óperuhússins í Stuttgart og farið verður yfir leiðarfrymi eða leitmotiv í þessari fyrstu óperu Niflungahringsins. Þá er fyrirhugað að sýna Parsifal um páskana, en enn hefur ekki verið ákveðið hvaða uppfærsla verður sýnd.

Dagana 15. til 22. maí verður eins og áður hefur komið fram efnt til hópferðar til Kaupmannahafnar til að sjá hina nýja uppfærslu Niflungahringsins í nýja, fína óperuhúsinu á Hólminum. Fjöldi félagsmanna sem fara utan er nú orðinn vel á fjórða tug.

Nokkrum dögum síðar, eða dagana 24. til 27. maí verður síðan hið árlega þing Alþjóðasamtaka Wagner félaga haldið í Tallinn í Eistlandi og verður þar að venju spennandi dagskrá, m.a. dagsferð, þar sem siglt verður til Helsinki til að sjá sýningu á Parsifal.

Bayreuthhátíðin 2006 : Um það bil 15 manns fara á Bayreuth hátíðina í ár. Þar verður sett upp  ný uppfærsla á Niflungahringnum og fer þýskur leikhúsmaður, Tankred Dorst með leikstjórn, en hann varð fyrir valinu eftir að Lars von Trier sagði sig frá verkinu. Það verður Christian Thielemann, sem stjórna mun hljómsveitinni. Auk þess eru í boði sýningar á Hollendingnum, Parsifal og Tristan og Isolde. Vegna vinskapar okkar Árna Tómasar við Wolfgang og Guðrúnu Wagner hefur okkur árlega tekist að útvega miða, sem við höfum látið félagsmenn hafa forgang að. Auk þess fást keyptir tveir miðar í nafni félagsins á þær sýningar sem styrkþegar til Bayreuth fá að sjá. Mun þetta gilda fyrir öll Wagner félög sem senda styrkþega.

Að lokum vil ég geta þess að félagar í Wagnerfélaginu eru nú 181 talsins. Nokkrir hafa heltst úr lestinni, en stöðugt bætast nýir í hópinn, sem er mikið ánægjuefni. Ekki er mikið um úrsagnir úr félaginu, en haft er að reglu að taka menn út af félagaskrá greiði þeir ekki félagsgjöld sín tvö ár í röð.

Sem formaður vil ég  nota tækifærið og þakka ánægjulegt samstarf við stjórn félagsins og varastjórn, svo og endurskoðendum félagsins. Ég vil einnig sérstaklega þakka þýska sendiráðinu sem styrkti starf félagsins myndarlega með sérstöku tilliti til þýsku gestafyrirlesaranna.

Síðast en ekki síst vil ég fyrir hönd stjórnarinnar þakka öllum þeim  félagsmönnum, sem hafa hjálpað okkur  að halda uppi starfi félagsins með áhuga sínum, virkri þátttöku og góðum félagsskap.

Sérstaklega þakka ég þó Júlíusi K. Einarssyni, sem hefur veitt ómetanlega aðstoð á svo mörgum sviðum, allt frá því að vera ómissandi tæknimaður við fjölmörg tækifæri upp í að flytja lærða og stórskemmtilega fyrirlestra eða vera fararstjóri í óperuferðum erlendis.

Selma Guðmundsdóttir
formaður Richard Wagner félagsins á Íslandi.