Ársskýrsla 2007

á  12. aðalfundi félagsins 27. janúar 2008  í Norræna húsinu.

Skýrsla formanns, Selmu Guðmundsdóttur,  á  12. aðalfundi félagsins 27. janúar 2008  í Norræna húsinu.

Þetta er 12. aðalfundur Richard Wagner félagsins á Íslandi, en félagið var formlega stofnað 5. desember árið 1995, en í ágúst sama ár var haldinn undirbúningsstofnfundur úti í Bayreuth af 30 manna hópi Íslendinga, sem fóru saman þangað til að sjá Niflungahringinn.

Samkvæmt lögum félagsins er kosið í stjórn annað hvert ár og var það síðast gert fyrir tveim árum og mun því stjórnarkosning fara fram hér á eftir. Ég hef frá upphafi verið formaður félagsins. Þau Jóhann J. Ólafsson varaformaður og Sólrún Jensdóttir meðstjórnandi hafa einnig setið í stjórn frá upphafi, sömuleiðis þeir Árni Björnsson og  Árni Tómas Ragnarsson, sem eru í varastjórn. Jón Ragnar Höskuldsson gjaldkeri tók við af Barða Árnasyni 1998 og Halldór Halldórsson kom inn í stjórnina sem ritari árið 2000 í stað Jóhannesar Jónassonar heitins. Á aðalfundi 2002 tók síðan Jón Thoroddsen við sæti í varastjórn af Gretari Ívarssyni og hefur stjórnin verið óbreytt síðan þá.

Ég ætla nú að rekja í stuttu máli starfsemi félagsins síðastliðið ár:

Í janúar hófst ný röð kynninga undir heitinu Samtímamenn Wagners, áhrifavaldar og keppinautar. Félagið hefur eignast nokkur myndbönd með óperum samtímamanna Wagners, bæði þeirra sem voru hans skæðustu keppinautar og annarra sem hann leit mjög til sem fyrirmynda. Ætlunin er að gefa félagsmönnum kost á að kynna sér þessar óperur og skoða þær í samanburði við verk Wagners. Fyrsta kynningin var á óperu Meyerbeers, Afríkustúlkan,  uppfærsla frá óperuhúsinu í San Francisco. Á undan sýningunni hélt Reynir Axelsson mjög áhugavert erindi um Meyerbeer og samskipti þeirra Meyerbeers og Wagners.

Í febrúar var 11. aðalfundur félagsins og að honum loknum hélt Jón Thoroddsen erindi  um þýska heimspekinginn Arthur Schopenhauer og þau áhrif sem kenningar hans og rit höfðu á Richard Wagner og tónlist hans.

Í mars var bryddað upp á þeirri nýjung að sýna allan Niflungahringinn á einum mánuði, fjóra sunnudaga í röð. Á undan sýningunum voru fluttar af geisladisk kynningar John Tomlinson á leiðarstefjum óperanna. Félagið á nú fimm mismunandi útgáfur Hringsins á myndbandi og varð að þessu sinni fyrir valinu uppfærsla Harry Kupfers og Daniel Barenboim frá Bayreuth í kringum 1990.

Laugardaginn fyrir páska var svo Parsifal sýndur af nýútkomnum mynddiski frá óperuhúsinu í Feneyjum en það er orðið að hefð hjá félaginu að sýna Parsifal um hverja páska.

Sinfóníuhljómsveit Íslands, sem í nóvember 2006 flutti síðasta þátt Parsifal, var áfram með margt á efnisskrá sinni, sem gladdi hjörtu Wagneraðdáenda. Wesendonck ljóðin voru á dagskrá í byrjun mars með söngkonunni Lilli Paasikivi og um miðjan mars stóð Wagnerstjarnan John Tomlinson á sviðinu í Háskólabíói og söng í 14. sinfóníu Sjostakovitsj.

Í maímánuði var svo fluttur kveðjusöngur Wotans úr Valkyrjunni og var það enginn annar en hinn margrómaði Donald McIntyre sem þá var mættur til leiks, en hann flutti Wotan ógleymanlega í Hring þeirra Patrice Chéreau og Pierre Boulez.

Árlegt þing Alþjóðlegu Wagnersamtakanna var haldið 17. til 20. maí í Weimar í Þýskalandi.  Formaður hefur reynt að sækja þingið annað hvert ár og hugðist fara utan en forfallaðist á síðustu stundu. Einn félagsmaður, Ásmundur Jakobsson, sótti þingið á eigin vegum.

18 félagsmenn sáu sýningar í Bayreuth sl. sumar á vegum félagsins. 15 manna hópur sá Niflungahring þeirra Tankred Dorst og Christian Thielemanns og átti ánægjulega vikudvöl saman úti undir forystu Sólrúnar Jensdóttur. Ný uppfærsla af Meistarasöngvurunum var frumsýnd og þreytti þar frumraun sína sem leikstjóri í Bayreuth Katharina Wagner, dóttir þeirra Guðrúnar heitinnar og Wolfgangs Wagner. Uppfærslan hlaut mjög misjafnar viðtökur gagnrýnenda og gekk nokkuð fram af ýmsum áhorfendum. Katharina er samt mjög öflugur persónuleiki og hefur hlotið gífurlega athygli fjölmiðla í tengslum við þessa sýningu auk þess sem augu beinast að henni sem hugsanlega væntanlegum yfirstjórnenda hátíðarinnar. Hún hefur formlega lýst yfir að hún gefi kost á sér sem partur af þríeyki, þar sem með henni verði við stjórnvölinn hinn virti hljómsveitarstjóri Christian Thielemann og tónskáldið Petr Rucyscka, fyrrverandi listrænn stjórnandi Salzborgarhátíðarinnar. Aðrar sýningar í Bayreuth á liðnu sumri voru Tannhäuser sýning franska leikstjórans Philippe Arlaud og  Parsifal uppfærsla þýska leikstjórans Chrisoph Schlingensiefs, en hún hefur verið afar umdeild og hefur yfirstjórn Bayreuthhátíðarinnar nú ákveðið að taka hana af fjölunum eftir aðeins 4 ár og nýr Parsifal verður frumsýndur nú á sumri komanda.

Vetrarstarf þessa starfsárs hófst 27. október með glæsilegum tónleikum í Salnum í Kópavogi, í samvinnu við Tíbrár tónleikaröðina. Þar flutti rússnesk-ísraelski píanóleikarinn Albert Mamriev efnisskrá með umritunum Franz Liszt á verkum Wagners. Þetta voru stórglæsilegir tónleikar, sem voru félaginu til mikils sóma og hlutu góða athygli. Á undan tónleikunum flutti Reynir Axelsson afar fróðlegt erindi um þá Wagner og Liszt.  Að tónleikunum loknum var haldinn hinn árlegi haustfagnaður félagsins á Hótel Holti og sat Albert Mamriev veisluna sem  heiðursgestur. Ungur og bráðefnilegur tenórsöngvari, Bragi Bergþórsson söng fyrir gesti ásamt meðleikara sínum Guðrúnu Dalíu Salómonsdóttur píanóleikara. Undir borðum fluttu þeir Sveinn Einarsson, Ásmundur Jakobsson og  Steinn Jónsson afar greinagóðar frásagnir frá óperuferðum síðasta árs til Bayreuth, Weimar og New York. Veislustjóri með bravúr var Herdís Egilsdóttir, fyrsti kvenmaðurinn í þessu hlutverki í sögu félagsins.

Í nóvember var svo síðasta myndbandssýning ársins á Hótel Holti. Sýnd var uppfærsla af Lohengrin frá Óperuhúsinu í Baden-Baden,  unnin í samvinnu við Óperuna í Lyon og Scalaóperuna í Mílano.  Hljómsveitarstjóri var Kent Nagano en leikstjóri Nikolaus Lehnhoff.

Í lok nóvember gerðist sá sorgaratburður í Bayreuth að frú Guðrún Wagner, eiginkona Wolfgangs Wagner, stjórnanda Bayreuthhátíðarinnar og hægri hönd hans við rekstur hátíðarinnar um margra áratuga skeið, lést óvænt í kjölfar minni háttar skurðaðgerðar. Hennar er minnst með mikilli eftirsjá enda var hún bæði persónulega mikill vinur minn og minnar fjölskyldu og eins afar vinveitt Íslandi og félagi okkar. Fjöldi félagsmanna nutu gestrisni hennar og Wolfgangs í heimsóknum til Bayreuth og þau komu tvívegis til Íslands. Wolfgang er nú orðinn háaldraður og heilsutæpur og mun því brátt draga til tíðinda um framtíðarstjórn hátíðarinnar, þar sem Guðrúnar nýtur ekki lengur við. Ég þáði boð um að vera viðstödd minningarathöfn um Gudrúnu úti í Bayreuth 13. desember og  var það afar falleg athöfn, sem einkenndist af fallegum tónlistarflutningi og látlausum, einlægum minningarorðum. Fyrir utan fjölskyldu, vini og fjölda listamanna og samstarfsmanna Guðrúnar og Wolfgangs sóttu athöfnina m.a. á fjórða tug formanna og forsvarsmanna Wagnerfélaga víða um heim.

Fyrir utan þessa atburði sem ég hef talið upp hefur áfram verið unnið að kynningu á rannsóknum Árna Björnssonar. Bókin Wagner og Völsungar er nú til sölu á þýsku og ensku í tveim helstu bókabúðunum í Bayreuth og hefur hlotið all góða kynningu, ekki þó hvað síst með birtingu greinar Árna í efnisskrá Bayreuthhátíðarinnar 2002. Jákvæðir dómar um bókina hafa birst í nokkrum blöðum og tímaritum, m.a. í þýska óperutímaritinu Opernwelt, auk þess sem Árni hefur ferðast víða um heim með fyrirlestra um efni hennar. Hún hefur einnig m.a. verið notuð sem kennsluefni við leiklistardeild Listaháskólans í München.

Félagið hefur einnig tekið þátt í að kynna á Norðurlöndunum nýtt Wagnertímarit, The Wagnerjournal, sem bresku Wagnersérfræðingarnir Barry Millington og Stewart Spencer hleyptu af stokkunum á síðast ári og hefur nú komið út í 3 eintökum.

Félagið er áfram aðili að Alþjóðasamtökum Wagnerfélaga, og greiðir ákveðið árgjald til þeirra sem nemur um 15.000 kr. Samtökin  standa m.a. fyrir árlegu þingi og gefa út tímaritið Wagner Weltweit. Á síðastliðnu ári var þing samtakanna haldið  í Weimar, dagana 17 til 20. maí.  Nú í ár verður þingið í Genf 1. til 4. maí  og árið 2009 í Dresden. Hætt hefur verið við að halda þingið í London árið 2010 og verður það í staðinn í Breslau. Árið 2013, á 200 ára fæðingarafmæli Wagners verður það haldið í Leipzig, fæðingarborg hans.

Eitt af mikilvægustu verkefnum aðildafélaga alþjóðasambandsins er að fjármagna starf Richard Wagner styrkþegastofnunarinnar í Bayreuth sem hefur það markmið að styrkja unga tónlistar- og sviðslistamenn til að sækja Bayreuthhátíðina. Félagið okkar mun nú ellefta árið í röð senda styrkþega út til Bayreuth. Í fyrra sendum við Egil Árna Pálsson tenórsöngvara utan.   Styrkþegar til þessa hafa verið:

Sjá:

Framlag félagsins til þessa málefnis eru um það bil 30.000 krónur, sem það greiðir Styrkþegastofnuninni í Bayreuth. Í staðinn fær félagið rétt á að kaupa 6 aðgöngumiða á hátíðina. Styrkþeginn  fær yfirleitt  að sjá þrjár óperusýningar, en fimmta hvert ár er boðið upp á allan Hringinn. Auk þess er m.a. í boðinu leiðsögn um Festspielhaus, Richard Wagner safnið og hið nýlega Franz Liszt safn. Á komandi sumri verður styrkþega boðið á sýningar á Meistarasöngvurunum, Parsifal og Tristan og Isolde. Þess má geta að Menntamálaráðuneytið hefur frá upphafi styrkt félagið vegna þessa máls og hefur styrkur ráðuneytisins gengið til styrkþegans upp í ferðakostnað. Sótt hefur verið til Menntamálaráðuneytisins vegna styrkþega í sumar og er vonast til að ráðuneytið leggi okkur áfram lið. Um 250 styrkþegar koma ár hvert á hátíðina, flestir þeirra frá Þýskalandi eða nálægt 200 manns, en hinir aðallega frá öðrum Evrópulöndum.

Bayreuthhátíðin 2008: Allstór hópur mun sækja Bayreuthhátíðina á komandi sumri. 14 manns munu sjá Niflungahringinn dagana 8. til 13. ágúst. Auk þess fékkst nokkuð af miðum á sýningar á Meistarasöngvurunum, Tristan og Isolde og nýrri uppfærslu af Parsifal  í leikstjórn ungs leikstjóra af norsk-þýskum ættum sem heitir Stefan Herheim. Hljómsveitarstjóri verður Daniele Gatti. 

Að lokum vil ég geta þess að félagar í Wagnerfélaginu eru nú 199 talsins og bætast stöðugt nýir félagar í hópinn. Ekki er mikið um úrsagnir úr félaginu, en haft er að reglu að taka menn út af félagaskrá greiði þeir ekki félagsgjöld sín tvö ár í röð.

Sem formaður vil ég  nota tækifærið og þakka ánægjulegt samstarf við stjórn félagsins og varastjórn, svo og endurskoðendum félagsins. Ég vil einnig þakka sérstaklega Menntamálaráðuneytinu fyrir fjárstuðning við styrkþegaverkefnið okkar og  þýska sendiráðinu fyrir veittan styrk til starfsemi félagsins.

Síðast en ekki síst vil ég fyrir hönd stjórnarinnar þakka öllum þeim  félagsmönnum, sem hafa hjálpað til við að halda uppi starfi félagsins með áhuga sínum, virkri þátttöku og góðum félagsskap.

Selma Guðmundsdóttir
Formaður Richard Wagner félagsins á Íslandi.