Ársskýrsla 2008

á  13. aðalfundi félagsins 24. janúar 2009  í Norræna húsinu.

Skýrsla formanns, Selmu Guðmundsdóttur,  á  13. aðalfundi félagsins 24. janúar 2009  í Norræna húsinu.

Þetta er 13. aðalfundur Richard Wagner félagsins á Íslandi, en félagið var formlega stofnað 5. desember árið 1995 að undangengnum undirbúningsstofnfundi sama ár úti í Bayreuth.

Samkvæmt lögum félagsins er kosið í stjórn annað hvert ár. Núverandi stjórn var endurkjörin á aðalfundi í fyrra og verður því ekki stjórnarkosning á þessum fundi. Ég hef frá upphafi verið formaður félagsins. Þau Jóhann J. Ólafsson varaformaður og Sólrún Jensdóttir meðstjórnandi hafa einnig setið í stjórn frá upphafi, sömuleiðis þeir Árni Björnsson og  Árni Tómas Ragnarsson í varastjórn. Jón Ragnar Höskuldsson gjaldkeri tók við af Barða Árnasyni 1998 og Halldór Halldórsson kom inn í stjórnina sem ritari árið 2000 í stað Jóhannesar Jónassonar heitins. Á aðalfundi 2002 tók Jón Thoroddsen við sæti í varastjórn af Gretari Ívarssyni og 2008 tók Ásmundur Jakobsson við ritarasæti Halldórs Halldórssonar og hefur stjórnin verið óbreytt síðan þá þangað til í október síðastliðinn, er þeir Árni Tómas Ragnarsson og Jón Thoroddsen sögðu sig frá stjórnarstörfum í varastjórn og eru þeim hér og nú þökkuð ómetanleg störf í þágu félagsins.

Ég ætla nú að rekja í stuttu máli starfsemi félagsins síðastliðið ár:

Í janúar, að loknum 12. aðalfundi félagsins, var sýnt myndband með hljómsveitarstjóranum fræga, Hans Knappertbusch, þar sem hann stjórnaði fyrsta þætti Valkyrjunnar með Vínarfílharmoníunni árið 1963.

Í febrúar var  haldið áfram sýningum í sýningaröðinni „Samtímamenn Wagners, áhrifavaldar og keppinautar”. Sýnd var óperan „Húgenottarnir” eftir Meyerbeer.  Á undan óperunni nutu félagsmenn þess að hlýða á afar fræðandi erindi þeirra Þórðar Harðarsonar um Húgenotta og Sveins Einarssonar um sjálfa óperu Meyerbeers.

Í mars, laugardaginn fyrir páska, var hinn árvissi viðburður að sýna Parsifal af myndbandi, og var það gert á Hótel Holti líkt og undanfarin ár. Sýnd var uppfærsla Wolfgangs Wagner frá Bayreuth.

Formaður og ritari félagsins sóttu árlegt þing Alþjóðasamtaka Wagner félaga í Genf í byrjun maí. Var það mjög atburðaríkt þing, þar sem m.a. var frumsýndur nýr Lohengrin með glæsilegum flytjendum, m.a. Finnunum Juuha Uusitalo og Soili Isokovski og Leif Segerstam hljómsveitarstjóra. Á dagskrá voru einnig nokkrir tónleikar og mjög áhugaverður fyrirlestur um svissneska leikmyndahönnuðinn  Adolphe Appia, sem hafði byltingarkennd áhrif á sviðsuppsetningar síðustu aldar með kenningum sínum í orði og verki þar sem hið óræða og táknræna kom í stað endursköpunar raunverulegs umhverfis á sviðinu. Appia hafði m.a. mikil áhrif á Ný-Bayreuth stílinn og Wieland Wagner. Á formannafundi samtakanna, sem ávallt er haldinn samhliða  þinginu, voru miklar umræður um að breyta yrði lögum og uppbyggingu samtakanna, þannig að ekki eingöngu þýsk Wagnerfélög hefðu kosningarétt og rétt til stjórnarsetu í stjórn samtakanna eins og verið hefur. Hið alþjóðlega Wagnerfélag hefur vaxið óðfluga frá stofnun þess upp úr 1990 og eru nú í samtökunum 140 félög víðs vegar að úr heiminum. Af þeim eru um 49 félög frá þýskum borgum.  Á þessum fundi lét Josef Lienhart, formaður samtakanna frá upphafi, af störfum en í hans stað var kosin  Eva Märtson fyrrverandi söngkona og fráfarandi formaður Wagner félagsins í Hannover. Nýrri stjórn var falið að gera tillögur að breyttu fyrirkomulagi þar sem meira jafnræði væri með aðildarfélögum og hefur nú verið boðað til formannafundar í Bayreuth í febrúar til að vinna að þessum málum og reyna að ljúka þeim fyrir næsta Alþjóðaþing í Dresden í maí.

Á þriðja tug félagsmanna sáu sýningar í Bayreuth sl. sumar á vegum félagsins. 14 manna hópur sá Niflungahring þeirra Tankred Dorst og Christian Thielemanns og 10 manns aðrar sýningar. Styrkþegi félagsins var Þorvaldur Þorvaldsson bassasöngvari, sem hefur nýlokið námi frá Listaháskólanum og stundar nú framhaldssnám við Mozarteum í Salzburg. Hann sá þrjár sýningar, Parsifal, Meistarasöngvarana og Tristan og Isolde. Ný uppfærsla af Parsifal var frumsýnd á hátíðinni og leysti hún af hólmi hina umdeildu uppfærslu Christoph Schlingensiefs  sem aðeins var sýnd í 4 ár. Leikstjóri hins nýja Parsifal var Norðmaðurinn Stefan Herheim og var sýningin mjög metnaðarfull og unnin út frá þeirri grunnhugmynd að steypa sögu Parsifal saman við sögu þýsku þjóðarinnar frá keisaratímanum til dagsins í dag. Uppfærslan hlaut almennt mikið lof gagnrýnenda og leikhúsgesta en auðvitað voru ekki allir sáttir og fannst sumum allt of miklu hlaðið utan um einfaldleika verksins og skíran boðskap, sem kæmist vart lengur til skila eða týndist í ofhlæðinu.

Vetrarstarf þessa starfsárs hófst 25. október með hinum árlega haustfagnaði á Hótel Holti. Sérlegur gestur var Oswald Georg Bauer, leikhúsfræðingur og aðstoðarmaður hans Peter Werth. Þeir hlupu á síðustu stundu í skarðið fyrir Hermann Becht bassasöngvara, sem forfallaðist vegna veikinda. Á haustfagnaðinum flutti Bauer afar fróðlegan og vandaðan fyrirlestur á ensku um smíð Niflungahringsins og fyrirmyndir Wagners í gríska harmleiknum. Boðið var einnig upp á fyrirlestur fyrir almenning um sama efni og var hann haldinn í samvinnu við Listaháskólann í húsnæði hans við Sölvhólsgötu. Á haustfagnaðinum söng ungur og bráðefnilegur tenórsöngvari, Eyjólfur Eyjólfsson fyrir gesti ásamt Gerrit Schuil píanóleikara. Undir borðum fluttu þeir Stefán Baldursson og Halldór Björn Runólfsson afar greinagóðar frásagnir frá Bayreuthferð síðasta sumars.Veislustjóri með elegans var Þórunn Sigurðardóttir.

Í nóvember var 125 ára dánarafmælis Wagners og 195 ára fæðingarafmælis hans minnst með 9 klukkustunda kvikmyndasýningu á Hótel Holti. Horft var á bíómyndina „Wagner“ eftir breska kvikmyndagerðarmanninn Tony Palmer. Sýningin hófst kl. 9.30 að morgni,  gert var hlé um hádegi og snæddur hádegisverður á hótelinu en síðan haldið áfram fram undir kl. 6.

Fyrir utan þessa atburði sem ég hef talið upp hefur áfram verið unnið að kynningu á rannsóknum Árna Björnssonar. Bókin Wagner og Völsungar er nú til sölu á þýsku og ensku í tveim helstu bókabúðunum í Bayreuth og nýlega fékkst staðfest að ensku útgáfuna er hægt að kaupa á netinu hjá Amazon. Bókin hefur hlotið all góða kynningu, ekki þó hvað síst með birtingu greinar Árna í efnisskrá Bayreuthhátíðarinnar 2002. Jákvæðir dómar um bókina hafa birst í nokkrum blöðum og tímaritum, m.a. í þýska óperutímaritinu Opernwelt, auk þess sem Árni hefur ferðast víða um heim með fyrirlestra um efni hennar. Hún hefur einnig m.a. verið notuð sem kennsluefni við leiklistardeild Listaháskólans í München. Nokkur þýsk Wagner félög hafa lýst yfir áhuga á að fá Árna til að halda fyrirlestur og er vonast til að það geti orðið á þessu ári

Félagið er eins og komið hefur fram áfram aðili að Alþjóðasamtökum Wagnerfélaga, og greiðir ákveðið árgjald til þeirra sem nemur um 150 Evrum. Samtökin  standa m.a. fyrir árlegu þingi. Á síðastliðnu ári var þing samtakanna haldið  í Genf. Nú í ár verður þingið í Dresden 14. til 17. maí  og árið 2010 í Stralsund. Árið 2011 verður það í Breslau, 2012 í Prag og á 200 ára fæðingarafmæli Wagners 2013 í fæðingarborg hans, Leipzig.

Önnur verkefni Alþjóðasamtakanna eru m.a. að standa fyrir Wagnersöngkeppni á nokkurra ára fresti og einnig keppni fyrir unga leikstjóra og leikmyndahönnuði. Auk þess standa þau fyrir Wagnerþingi í Feneyjum í nóvember ár hvert. Eitt af mikilvægustu verkefnum aðildafélaga alþjóðasambandsins er að fjármagna starf Richard Wagner styrkþegastofnunarinnar í Bayreuth sem hefur það markmið að styrkja unga tónlistar- og sviðslistamenn til að sækja Bayreuthhátíðina. Félagið okkar mun nú tólfta árið í röð senda styrkþega út til Bayreuth. Ákveðið hefur verið að hinn bráðefnilegi hljómsveitarstjóri og tónskáld Daníel Bjarnason verði styrkþegi ársins 2009 og mun hann sjá allan Niflungahringinn. Styrkþegar til þessa hafa verið:

Sjá:

Styrkþeginn  fær yfirleitt  að sjá þrjár óperusýningar, en fimmta hvert ár er boðið upp á allan Hringinn. Auk þess er m.a. í boðinu leiðsögn um Festspielhaus, heimsókn í Richard Wagner safnið og hið nýlega Franz Liszt safn. Eins og áður hefur komið fram verður styrkþega á komandi sumri boðið á sýningar á öllum Niflungahringnum. Framlag félagsins til þessa málefnis hefur verið um 300 Evrur árlega en um 500 Evrur það ár sem Niflungahringurinn er í boði Í ár þyngdist mjög róðurinn með að taka þátt í verkefni þessu vegna stöðu krónunnar og stóð tæpt að við gætum haldið þessu áfram, þar sem kostnaður félagsins hefði verið nálægt 100.000 krónur  í stað helmingi lægri upphæðar. En þá lagðist okkur það til að velgjörðarmaður félagsins og félagi í New York, Klaus Vogt og kona hans Gesa, ákváðu að styrkja félagið sem næmi upphæðinni, til að við gætum haldið áfram að senda styrkþega. Eru þeim færðar bestu þakkir fyrir.  Þess má geta að Menntamálaráðuneytið hefur einnig frá upphafi styrkt félagið vegna þessa máls og hefur styrkur ráðuneytisins gengið til styrkþegans upp í ferðakostnað. Sótt hefur verið til Menntamálaráðuneytisins vegna styrkþega í sumar en enn hefur ekki borist svar. Um 250 styrkþegar koma ár hvert á hátíðina, flestir þeirra frá Þýskalandi eða nálægt 200 manns, en hinir aðallega frá öðrum Evrópulöndum.

Á dagskrá félagsins fram til vors er eftirfarandi. Hér á eftir verður sýnd nýútgefin heimildamynd, sem heitir Eldskírnin, gerð árið 2007 af kvikmyndagerðakonunni Dagmar Krauss um fyrsta leikstjórnarverkefni Katharinu Wagner á Bayreuthhátíðinni, Meistarasöngvarana. Katharina er eins og kunnugt er dóttir Guðrúnar og Wolfgangs Wagner og hefur nú tekið við stjórn hátíðarinnar ásamt hálfsystur sinni Evu Pasquier-Wagner.

Þriðjudaginn 3. febrúar kl. 20 mun franska tónskáldið Philippe Manoury kynna óperu sína „K“ , byggða á Réttarhöldunum eftir Kafka, sem frumsýnd var í Bastilluóperunni í París árið 2001. Philippe Manoury er eitt af þekktari tónskáldum Frakka í dag. Kynningin er í samvinnu við Íslensku óperuna, Myrka músíkdaga og Listaháskólann.

Í lok febrúar verður erindi Halldórs Björns Runólfssonar, forstöðumanns Listasafns Ísland undir yfirskriftinni „Wagner í myndlist“, sem upphaflega átti að vera í dag að loknum aðalfundinum en þurfti að fresta af óviðráðanlegum ástæðum.  Í erindinu mun hann segja frá merkri myndlistarsýningu í Genf fyrir 2 árum og sýna myndir af listaverkunum á skjá. Þar var í fyrsta sinn safnað saman verkum víðs vegar að sem orðið hafa til undir áhrifum frá Richard Wagner og verkum hans. Sýningin spannaði verk allt frá Auguste Renoir til samtímalistamanna eins og  til að mynda Anselm Kiefer.

7. mars verða tónleikar í Íslensku óperunni í samvinnu við óperuna og Vinafélag hennar. Þar munu koma fram píanósnillingurinn Albert Mamriev, sem lék Wagner-Liszt umritanir fyrir félagið fyrir 2 árum, ásamt mezzósópransöngkonunni Sophiyu Palamar. Yfirskrift tónleikanna er: Wagner og Wesendonck. Á efnisskrá eru m.a. Wesendonck ljóð Wagners og Wesendonck píanósónatan auk fleiri sönglaga og píanóverka Wagners.

15. mars verður haldið áfram að kynna óperur í sýningaröðinni „Samtímamenn Wagners, áhrifavaldar og keppinautar“ . Sýnd verður af mynddiski óperan „La Juive“ eða Gyðingakonan eftir franska tónskáldið Jacques Francois Halevy. Á undan sýningunni fjallar Reynir Axelsson um tónskáldið og óperuna

4. apríl verður svo Herbert von Karajan minnst, en nýverið voru 100 ár liðin frá fæðingu hans. Helgi Jónsson tónlistarfræðingur mun halda erindi um Karajan og sýnt verður Rínargullið frá sýningu sem hann setti upp og stjórnaði í Salzburg 1973.

Laugardaginn fyrir páska verður svo væntanlega sýning á  Parsifal eins og hefð er orðin hjá félaginu.

Bayreuthhátíðin 2009:

Allstór hópur mun sækja Bayreuthhátíðina á komandi sumri. 2 sjá Niflungahringinn en 14 manns munu sjá sýningar á Meistarasöngvurunum, Tristan og Isolde og Parsifal. Engin ný uppfærsla fer á fjalirnar í ár sem er frekar óvenjulegt, en árið 2010 verður frumsýndur nýr Lohengrin, 2011 nýr Tannhäuser, 2012 nýr Hollendingur og 2013, á því stóra afmælisári, nýr Niflungahringur. Einnig hefur spurst út að árið 2015 verði nýr Tristan í leikstjórn Katharinu Wagner og undir hljómsveitarstjórn Christian Thielemann.

Að lokum vil ég geta þess að félagar í Wagnerfélaginu eru nú 206 talsins og bætast stöðugt nýir félagar í hópinn. Ekki er mikið um úrsagnir úr félaginu, en haft er að reglu að taka menn út af félagaskrá greiði þeir ekki félagsgjöld sín tvö ár í röð.

Sem formaður vil ég  nota tækifærið og þakka ánægjulegt samstarf við stjórn félagsins og varastjórn, svo og endurskoðendum félagsins, þeim Halldóri Halldórssyni og Guðrúnu Nordal. Ég vil einnig þakka sérstaklega Menntamálaráðuneytinu fyrir fjárstuðning við styrkþegaverkefnið okkar og  þýska sendiráðinu fyrir veittan styrk vegna þýska fyrirlesarans. Síðast en ekki síst vil ég þakka Klaus og Gesu Vogt í New York, sem gerðu okkur kleift að senda áfram styrkþega til Bayreuth þrátt fyrir kreppu og hátt gengi evrunnar.

Að lokum vil ég fyrir hönd stjórnarinnar þakka öllum þeim  félagsmönnum, sem hafa hjálpað til við að halda uppi starfi félagsins með áhuga sínum, virkri þátttöku og góðum félagsskap.

Selma Guðmundsdóttir
formaður Richard Wagner félagsins