Ársskýrsla 2010
á 15. aðalfundi félagsins 22. janúar 2011 í Norræna húsinu.
Skýrsla formanns, Selmu Guðmundsdóttur, á 15. aðalfundi félagsins 22. janúar 2011 í Norræna húsinu.
Þetta er 15. aðalfundur Richard Wagner félagsins á Íslandi, en félagið var formlega stofnað 12. desember árið 1995 að undangengnum undirbúningsstofnfundi sama ár úti í Bayreuth.
Samkvæmt lögum félagsins er kosið í stjórn annað hvert ár. Núverandi stjórn var kjörin á aðalfundi í fyrra og verður því ekki stjórnarkosning í dag. Stjórnina skipa, auk mín sem formaður félagsins: Jóhann J. Ólafsson varaformaður, Jón Ragnar Höskuldsson gjaldkeri, Ásmundur Jakobsson ritari og Sólrún Jensdóttir í aðalstjórn. Í varastjórn Árni Björnsson, Björn Bjarnason og Þorkell Helgason.
Ég ætla nú að rekja í stuttu máli starfsemi félagsins síðastliðið ár:
Í janúar fjallaði Reynir Axelsson stærðfræðingur um óperuna Freischütz og sýnt var myndband með uppfærslu Ruth Berghaus af þessari óperu Webers frá óperuhúsinu í Zürich. Fyrirlesturinn var í sýningarröðinni „Samtímamenn Wagners, áhrifavaldar og keppinautar“, en áður hafa verið sýndar og fluttir fyrirlestrar um Húgenottana og L’Africaine eftir Meyerbeer og Gyðingastúlkuna eftir Jaques Halevy.
Í febrúar flutti Árni Heimir Ingólfsson, tónlistarstjóri Sinfóníuhljómsveitarinnar erindi um Franz Liszt. Þar var fjallað um stöðu Liszts í tónlistarsögu 19. aldar, samband Liszts og Wagners og þýðingu hins fyrrnefnda fyrir Wagner og verk hans. Að erindinu loknu var sýnd ameríska verðlaunakvikmyndin A Song without End frá árinu 1958. Leikstjóri þeirrar myndar er Charles Vidor og er Franz Liszt í myndinni leikinn af Dirk Bogarde.
Í febrúar var einnig, að frumkvæði Lilju Hilmarsdóttur hjá Iceland Express, farið í sérdeilis vel heppnaða hópferð á Wagnerdaga í Deutsche Oper í Berlín að sjá Kristin Sigmundsson í Lohengrin og Meistarasöngvurunum. Þetta voru góðar uppfærslur á þessum óperum, báðar settar á svið af Götz Friedrich og einvalalið söngvara í flestum hlutverkum. Farið var í skemmtilega skoðunarferð um Berlín undir leiðsögn Óttars Guðmundssonar. Hópurinn naut einstakrar gestrisni í hádegisverðarboði Gunnars Snorra Gunnarssonar, sendiherra.
Í mars var aðalfundur félagsins haldinn í Norræna húsinu og að honum loknum var sýnd uppsetning hins þekkta kvikmyndaleikstjóra Werners Herzogs af óperunni Lohengrin frá Bayreuth 1993. Hljómsveitarstjóri var Peter Schneider.
Í apríl, á laugardag fyrir páska, var sýnd á Hótel Holti ný upptaka af Parsifal frá óperuhúsinu í Zürich. Leikstjóri Hans Hollman og hljómsveitarstjóri Bernard Haitink.
11. apríl var haldin í Bayreuth minningarathöfn um Wolfgang Wagner, sem var stjórnandi Bayreuthhátíðarinnar í nær 60 ár. Wolfgang Wagner lést 21. mars á heimili sínu, 80 ára gamall. Formanni var boðið að vera viðstaddur minningarathöfnina, sem fór fram í Festspielhaus, þar sem saman voru komnir hátt á annað þúsund boðsgestir. Athöfnin var afar falleg. Öll hljómsveitin og kórinn voru á sviðinu og ávörp flutt af Horst Seehofer, forsætisráðherra Bæjaralands, Michael Hohl, borgarstjóra Bayreuthborgar, hljómsveitarstjóranum Christian Thielemann og lækni Wolfgangs, Joachim Thierry. Athöfnin hófst á forleik úr Lohengrin en lauk á forleik úr Meistarasöngvarunum, með kór. Á milli minningarorða voru flutt Sigfrieds Rheinfahrt úr Ragnarökum og mótetta eftir Mendelssohn. Eftir að Wolfgang Wagner er horfinn af sjónarsviðinu er æ oftar fjallað á jákvæðum nótum í fjölmiðlum um gríðarmikið og ómetanlegt framlag hans til Wagnerhátíðarinnar í Bayreuth. Wolfgang tileinkaði líf sitt nánast alfarið lífsverki afa síns og hugsjónum hans um Bayreuthhátíðina. Oft naut hann þó ekki sannmælis fyrir mikilvægt starf sitt, einkum í þýskum og breskum fjölmiðlum.
Árlegt þing Alþjóðasamtaka Wagnerfélaga var haldið í Stralsund 13. til 16. maí, en enginn úr stjórninni sótti það að þessu sinni. Þar var áhugaverð dagskrá eins og yfirleitt einkennir þessi þing.
Í ágúst fór hópur á Bayreuthhátíðina, 18 manns að þessu sinni, auk styrkþega félagsins, sem var Júlíus Karl Einarsson, barýtónsöngvari, í námi í Vínarborg. Frumsýning ársins var ný uppfærsla hins umdeilda þýska leikstjóra, Hans Neuenfels, á óperunni Lohengrin. Í titilhlutverki var ein skærasta tenórstjarna heimsins í dag, hinn þýski Jonas Kaufmann. Hljómsveitarstjóri var hinn bráðungi Andris Nelsson frá Lettlandi. Tónlistarlega gekk sýningin afar vel upp, og uppskar Jonas Kaufmann og aðrir söngvarar sýningarinnar, ásamt hljómsveit og kór, mikið lof og góðar viðtökur, en búið á leikstjóra var með allra lengsta móti að þessu sinni og vóg þar sennilega þyngst að allir kórmeðlimir sýningarinnar, hvort sem voru hermenn eða eðaldömur, íklæddust rottubúningum, sem mörgum fannst truflandi! Ekki fannst leikstjóranum sjálfum viðtökurnar truflandi, heldur reyndi að draga mótmælabaulið á langinn eins og hann mögulega gat með því að ílengjast á sviðinu í uppklappinu. Formaður var viðstaddur frumsýninguna og í frumsýningarboði eftir sýninguna gerðist það í fyrsta sinn amk á seinni tímum að kanslari Þýskalands ávarpaði samkomuna og þakkaði listamönnum. Fór Angela Merkel afar hlýlegum orðum um störf Wolfgangs Wagner fyrir hátíðina og auk þess óskaði hún m.a. Hans Neuenfels, leikstjóra Lohengrin, til hamingju með árangurinn við að framkalla bú-hróp! Það var afar létt yfir Angelu, en gárungarnir sögðu í tilefni ræðu hennar að nú notaði hún hvert tækifæri til að halda ræður þar sem vinsældir hennar væru í sögulegu lágmarki.
21. ágúst var í þriðja sinn bein útsending á netinu frá Bayreuthhátíðinni. Var þar um að ræða sýningu á Valkyrjunni úr Niflungahring Tankreds Dorst og Christians Thielemann, en sá Hringur hefur nú gengið sitt síðasta sumar á fjölunum í Bayreuth. Ekki var gott um vik að horfa á útsendinguna beint, þar sem hana bar upp á menningarnótt í Reykjavík, en það var horft á hana tveim vikum síðar í Norræna húsinu. Nýr Hringur verður næst í Bayreuth á 200 ára afmæli meistarans 2013.
Á liðnu ári bættist félaginu öflugur liðsmaður en það er Árni Blandon, sem hefur verið mjög atorkusamur við að kynna Wagner og verk hans á liðnum mánuðum. Er þar fyrst að telja námskeið hans fyrir Endurmenntun undir heitinu Wagner og Rínargullið í október. Auk þess var Árni með 7 útvarpsþætti um Wagner og óperurnar, sem sendir voru út vikulega frá og með miðjum september. Árni var einn af þeim sem fór á vegum félagsins til Bayreuth sl. sumar og er óhætt að segja að sú ferð hafi borið ríkulegan ávöxt í þágu Wagners á Íslandi.
Í upphafi starfsárs sl. haust voru liðin 15 ár frá stofnun þess og hefur verið haldið upp á afmælið með ýmsu móti.
9. október nutu félagsmenn beinnar útsendingar á afar hrífandi sviðssetningu Kandamannsins Robert Lepage á Rínargullinu frá Metropolitan óperunni í New York. Stjórn félagsins kynnti Wagnerfélagið í anddyri Sambíóa á undan sýningu og að henni lokinni snæddu á fjórða tug félaga saman á Kringlukránni
13. til 18. október stóð félagið fyrir tónleikahaldi þar sem þau Albert Mamriev og Selma Guðmundsdóttir formaður léku efnisskrá, sem að stærstum hluta samanstóð af verkum fyrir píano, fjórhent. Tónleikarnir voru haldnir í samvinnu við Tónlistarfélögin á Akureyri og Ísafirði, en lokatónleikarnir í samstarfi við Norræna húsið og var þar húsfyllir. Sama efnisskrá var síðan flutt úti í Berlín 14. desember á vegum íslenska sendiráðsins þar í samvinnu við Wagner félagið í Berlín.
6. nóvember var haldin afar vel heppnuð árshátíð félagsins á Hótel Holti. Þar var einnig húsfyllir. Nýskipaður sendiherra Þýskalands Hermann Sausen og kona hans heiðruðu samkomuna með nærveru sinni. Í minningu Wolfgangs Wagner var í upphafi horft á Bayreuthheimildarmynd Werners Herzog, The Transformation of the World into Music. Sópransöngkonan Herdís Anna Jónasdóttir vakti mikla lukku með söng sínum fyrir veislugesti ásamt Tinnu Þorsteinsdóttur píanóleikara. Og óvænt leyninúmer var flutningur Reynis Axelssonar stærðfræðings ásamt formanni á verki Gabriels Fauré fyrir píano fjórhent, sem hann samdi að lokinni Bayreuthferð 1888 og kallaði „Souvenirs de Bayreuth”. Undir borðum fluttu þau Árni Blandon og Erla Þórarinsdóttir frásagnir frá Bayreuthferðum sumarsins, en Þorkell Helgason sá um veislustjórn.
Í nóvember tók formaður þátt í hátíðarhöldum vegna 100 ára afmælis Wagner félagsins í Frankfurt og sá sýningu á Valkyrjunni úr Hring, sem óperan í Frankfurt er að smíða saman. Að lokinni sýningunni hélt Wagner félagið hóf þar sem Sebastian Weigle, hljómsveitarstjóri og óperustjóri í Frankfurt var sæmdur heiðursmerki félagsins, Rheingoldverðlaununum.
5. desember var sýnd í Norræna húsinu uppfærsla af síðustu Niflungahringsóperunni, Götterdämmerung. Þetta var upptaka frá Bayreuth úr hinum svokallaða Rosalie-Hring, sem var frumsýndur árið 1994 og kenndur við myndlistarkonuna Rosalie, sem hannaði sviðsmynd og búninga. 30 manna hópur Íslendinga sá þennan Niflungahring sumarið 1995, í aðdraganda stofnun félagsins, en eingöngu Götterdämmerung verður gefin út á mynddiski.
Fyrir utan þessa atburði sem ég hef talið upp hefur áfram verið unnið að kynningu á rannsóknum Árna Björnssonar. Bókin Wagner og Völsungar er nú til sölu á þýsku og ensku í tveim helstu bókabúðunum í Bayreuth og ensku útgáfuna er hægt að kaupa á netinu hjá Amazon. Bókin hefur hlotið all góða kynningu, ekki þó hvað síst með birtingu greinar Árna í efnisskrá Bayreuthhátíðarinnar 2002. Jákvæðir dómar um bókina birtust á sínum tíma í nokkrum blöðum og tímaritum, m.a. í þýska óperutímaritinu Opernwelt, auk þess sem Árni hefur ferðast víða um heim með fyrirlestra um efni hennar. Hún hefur einnig m.a. verið notuð sem kennsluefni við leiklistardeild Listaháskólans í München. Stjórnin hefur beitt sér fyrir að bókin verði kynnt á bókamessunni í Frankfurt sienna á þessu ári og með sameiginlegu átaki tókst að finna þýskt forlag, hið virta Bouvier forlag í Bonn, til að taka bókina upp á arma sína. Kemur hún út hjá þeim í næsta mánuði í nýjum búningi, ekki síður falleg en fyrri útgáfan. Okkur hefur einnig tekist í síauknum mæli að vekja áhuga þýskra Wagner félaga á að bjóða Árna til fyrirlestrahalds um efnið og var hann í júní sl. í Berlín, Leipzig og Hannover í þeim erindagjörðum og tókst afar vel til. Nú hafa verið festar dagsetningar fyrir fyrirlestra í Frankfurt, München, Augsburg, Nürnberg og Stuttgart næsta vor og áhugi er á enn fleiri stöðum.
Félagið er eins og komið hefur fram áfram aðili að Alþjóðasamtökum Wagnerfélaga, og greiðir félagið ákveðið árgjald til þeirra sem hefur numið um 150 Evrum á undanförnum árum. Samtökin standa m.a. fyrir árlegu þingi. Á síðastliðnu ári var þing samtakanna haldið í Stralsund. Nú í ár verður þingið í Breslau í Póllandi, 2012 í Prag og á 200 ára fæðingarafmæli Wagners, 2013, í fæðingarborg hans, Leipzig. Alþjóðasamtökin hyggjast nú auka umsvif sín og vilja hækka gjöld aðildarfélaga í sem svarar 2 evrur fyrir hvern félagsmann, sem þýðir umtalsverða hækkun fyrir mannmörg félög eins og okkar.
Önnur verkefni Alþjóðasamtakanna eru m.a. að standa fyrir Wagnersöngkeppni á nokkurra ára fresti og einnig keppni fyrir unga leikstjóra og leikmyndahönnuði. Auk þess standa þau fyrir Wagnerþingi í Feneyjum í nóvember ár hvert.
Eitt af mikilvægustu verkefnum aðildafélaga alþjóðasambandsins er að fjármagna starf Richard Wagner styrkþegastofnunarinnar í Bayreuth sem hefur það markmið að styrkja unga tónlistar- og sviðslistamenn til að sækja Bayreuthhátíðina. Félagið okkar mun nú fjórtánda árið í röð senda styrkþega út til Bayreuth. Styrkþeginn næsta sumar mun sjá Tristan og Isolde, Meistarasöngvarana og Tannhäuser.. Styrkþegar til þessa hafa verið:
Sjá:
Styrkþeginn fær yfirleitt að sjá þrjár óperusýningar, en fimmta hvert ár er boðið upp á allan Hringinn. Auk þess er m.a. í boðinu leiðsögn um Festspielhaus, heimsókn í Richard Wagner safnið og hið nýlega Franz Liszt safn. Framlag félagsins til þessa málefnis hefur hækkað ört síðustu ár og er nú 530 Evrur. Í ljósi stöðu krónunnar er þetta orðið félaginu nokkuð þungt og var um tíma álitamál hvort við héldum þessu áfram. En í október sl. ákvað Félag íslenskra söngkennara að styrkja okkur um 40.000 kr. vegna þessa verkefnis og er okkur því bæði ljúft og skylt að halda áfram. Þess má geta að Menntamálaráðuneytið hefur einnig frá upphafi styrkt félagið vegna þessa máls og hefur styrkur ráðuneytisins að mestu gengið til styrkþegans upp í ferðakostnað. Sótt hefur verið til Menntamálaráðuneytisins vegna styrkþega næsta sumar en enn hefur ekki borist svar. Um 250 styrkþegar koma ár hvert á hátíðina, flestir þeirra frá Þýskalandi eða nálægt 200 manns, en hinir aðallega frá öðrum Evrópulöndum. Það er ánægjulegt að segja frá því að einn styrkþega okkar, Tómas Tómasson, mun nú á komandi sumri verða fyrstur Íslendinga til að syngja aðalhlutverk á sviðinu í Festspielhaus, en hann mun syngja Telramund í Lohengrin Neuenfels.
Á dagskrá félagsins fram til vors er eftirfarandi. Hér á eftir verður sýnd óperan Trójumennirnir eftir Berlioz. 5. Mars verður svo á dagskrá mynd Tony Palmers „I. Berlioz“ auk fyrirlesturs Reynis Axelssonar um Berlioz og Wagner í röðinni Samtímamenn Wagners, keppinautar og áhrifavaldar. Í marslok hafa Expressferðir boðið upp á spennandi ferð til Berlínar til að sjá m.a. Kristin Sigmundsson spreyta sig á hlutverki Marke konungs í Tristan og Isode. Í apríl mun svo Magnús Lyngdal Magnússon fjalla um Hollendinginn fljúgandi og sýnd verður upptaka af óperunni.
Bayreuthhátíðin 2011: Orðið var við umsókn um miða á Bayreuthhátíðina í samræmi við óskir, en óvenju fáir sóttu um að þessu sinni. Frumsýnd verður ný uppfærsla á Tannhäuser í leikstjórn Sebastians Baumgarten en auk þess verða sýningar á Lohengrin, Meistarasöngvurunum, Tristan og Isolde og Parsifal. Framundan eru 2012 nýr Hollendingur og 2013, á því stóra afmælisári, nýr Niflungahringur. Einnig hefur spurst út að árið 2015 verði nýr Tristan í leikstjórn Katharinu Wagner og undir hljómsveitarstjórn Christian Thielemann.
Að lokum vil ég geta þess að félagar í Wagnerfélaginu eru nú 246 talsins og bætast stöðugt nýir félagar í hópinn. Ekki er mikið um úrsagnir úr félaginu, en haft er að reglu að taka menn út af félagaskrá greiði þeir ekki félagsgjöld sín tvö ár í röð.
Sem formaður vil ég nota tækifærið og þakka ánægjulegt samstarf við stjórn félagsins og varastjórn, svo og endurskoðendum félagsins, þeim Halldóri Halldórssyni og Guðbjarti Kristóferssyni, sem hlóp í skarðið í fjarveru Guðrúnar Nordal. Ég vil einnig þakka sérstaklega Menntamálaráðuneytinu fyrir fjárstuðning við styrkþegaverkefnið okkar. Síðast en ekki síst vil ég þakka Félagi íslenskra söngkennara, sem gerir okkur kleift að senda áfram styrkþega til Bayreuth þrátt fyrir kreppu og hátt gengi evrunnar.
Að lokum vil ég fyrir hönd stjórnarinnar þakka öllum þeim félagsmönnum, sem hafa hjálpað til við að halda uppi starfi félagsins með áhuga sínum, virkri þátttöku og góðum félagsskap.
Selma Guðmundsdóttir