Ársskýrsla 2011
á 16. aðalfundi félagsins 22. janúar 2011 í Norræna húsinu.
Skýrsla formanns, Selmu Guðmundsdóttur, á 16. aðalfundi félagsins 22. janúar 2011 í Norræna húsinu.
Þetta er 16. aðalfundur Richard Wagner félagsins á Íslandi, en félagið var formlega stofnað 12. desember árið 1995 að undangengnum undirbúningsstofnfundi sama ár úti í Bayreuth.
Samkvæmt lögum félagsins er kosið í stjórn annað hvert ár og var það síðast gert fyrir tveim árum og mun því stjórnarkosning fara fram hér á eftir. Stjórnina skipa, auk mín sem formaður félagsins: Jóhann J. Ólafsson varaformaður, Jón Ragnar Höskuldsson gjaldkeri, Ásmundur Jakobsson ritari og Sólrún Jensdóttir í aðalstjórn. Í varastjórn Árni Björnsson, Björn Bjarnason og Þorkell Helgason.
Ég ætla nú að rekja í stuttu máli starfsemi félagsins síðastliðið ár:
Í janúar, að loknum aðalfundi félagsins, fjallaði Reynir Axelsson stærðfræðingur um Wagner og Berlioz. Fyrirlesturinn var í röðinni „Samtímamenn Wagners, áhrifavaldar og keppinautar“, en áður hafa verið sýndar og fluttir fyrirlestrar um Húgenottana og L’Africaine eftir Meyerbeer, Gyðingastúlkuna eftir Jaques Halevy og Freischütz eftir Carl Maria von Weber. Sýnd var kvikmynd Tony Palmers „Ég Berlioz“ frá árinu 2009. Rúmum mánuði síðar, eða 5. mars, var svo sýnd ópera Berlioz Trójumennirnir í upptöku frá Salzburgarhátíðinni.
Í lok mars var farið í helgarferð til Berlínar með Expressferðum í fararstjórn Lilju Hilmarsdóttur. Boðið var upp á sýningu á Tristan og Isolde í Deutsche Oper með Kristni Sigmundssyni í hlutverki Marke konungs. Einnig á sýningu á Ariadne auf Naxos. Á boðstólum voru líka Barenboim tónleikar í Schiller Theater, þar sem Staatsoper unter den Linden er nú til húsa til bráðabirgða. Gunnar Snorri Gunnarsson sendiherra bauð hópnum heim í sendiherrabústaðinn, þar sem hann fékk frábærar viðtökur. Mikil ánægja var með ferðina.
2. apríl flutti Magnús Lyngdal Magnússon fróðlegt erindi um hljóðupptökur á Hollendingnum fljúgandi og sýnd var að fyrirlestrinum loknum upptaka Hollendingsins í bíómynd, gerðri af Tékkanum Vaclav Kaslik. Þar fór Donanld McIntyre með hlutverk Hollendingsins. Hljómsveit Bayerischer Staatsoper og kór tóku þátt í uppfærslunni, hljómsveitarstjóri var Wolfgang Sawallisch.
Í byrjun júní var hið árlega Wagnerþing Alþjóðasamtaka Wagnerfélaga haldið í Breslau í Póllandi. Árni Björnsson hélt erindi á ráðstefnunni um Wagner og Völsunga. Auk þess sótti hann, fyrir hönd formanns, árlegan formannafund samtakanna, þar sem hæst bar átök innan stjórnar þeirra um valdssvið fyrsta varaforseta samtakanna.
Í lok júlí og ágúst fór hópur á Bayreuthhátíðina. Um 25 miðar fengust að þessu sinni og fóru 12 manns utan. Formaður sótti frumsýningu á Tannhäuser ásamt Gunnari Snorra Gunnarssyni sendiherra og Júlíusi Karli Einarssyni, einnig sáu þremenningarnir sýningu á Lohengrin, þar sem Tómas Tómasson þreytti frumraun sína í Bayreuth, fyrstur Íslendinga í aðalhlutverki. Styrkþegi félagsins var Víkingur Heiðar Ólafsson píanóleikari, sem mætti til leiks með Höllu Oddnýju Magnúsdóttur og Viðari Víkingssyni kvikmyndagerðarmanni og festu þau heimsókn sína á filmu. Frumsýning ársins var ný uppfærsla hins þýska leikstjóra, Sebastians Baumgartens, á óperunni Tannhäuser. Hljómsveitarstjóri var Thomas Hengelbrock. Sýningin var afar mikil vonbrigði að flestu leyti, meira að segja tónlistarlega, sem heyrir þó til undantekninga í Bayreuth. Leikstjórnin reyndi að troða verkinu inn í eitthvað konsept sem hafði ekkert með Tannhäuser að gera, leikmyndin var eins og lager í byggingarvöruverslun, Venus gjörsneydd kynþokka, svo nokkur dæmi séu tekin sem gerðu manni lífið leitt. Viðkvæði manna í umræðu eftir sýninguna var oftast, „ekki tala við mig um Tannhäuser“. Í frumsýningarboði var heldur dauflegt yfir forsvarsmönnum hátíðarinnar, þótt Katharina hefði farið í útlitsklössun og lést um amk 25 kíló. Angela Merkel fór ekki upp á svið til að tala eins og hún hafði gert árið áður og þá minnst Wolfgangs Wagners einkar fallega. Fyrir að óska hátíðinni til hamingju í ræðu þá hafði hún fengið bágt fyrir frá Niki Wagner, sem gagnrýndi Merkel opinberlega fyrir að gera upp á milli hátíða. Sjálf er Niki Wagner valdalaus í Bayreuth en með hátíð í Weimar. Merkel var Bayreuthhátíðinni trygg sem fyrr, en hún hefur sótt hana ásamt manni sínum árum saman. Sást til hennar á sýningum fyrstu dagana auk þess sem við Gunnar Snorri og Júlíus rákumst á hana að snæðingi á Bürgerreuth veitingastaðnum fyrir ofan Festspielhaus að lokinni Lohengrinsýninguni.
14. ágúst var Lohengrin sýndur í beinni útsendingu á netinu frá Bayreuth. Fjöldi fólks safnaðist saman á útitorginu í bænum en aðrir sátu við tölvurnar um heim allan. Í miðri útsendingu brast á mikið óveður í Bayreuth með úrhellisrigningu og stormi. Forsvarsmenn dreifðu regnstökkum og fólk lét sér hvergi bregða og horfði áfram á útsendingu við þessi kröppu skilyrði. Hér heima á Íslandi söfnuðust félagsmenn saman í Norræna húsinu og horfðu saman á sýninguna, alveg ótruflaðir af þessu óveðri.
Árni Blandon sótti hátíðina heim sem þáttagerðarmaður ríkisútvarpsins og flutti útvarpsþætti um sýningar þær, sem hann sá, nú í upphafi vetrar.
Fyrsta samkoma vetrarins hjá félaginu okkar var árshátíðin á Hótel Holti, sem var að þessu sinni haldin 29. október. Heiðursgestur var Eva Märtson, forseti Alþjóðasamtaka Wagnerfélaga, en koma hennar til landsins var styrkt af þýska sendiráðinu. Hermann Sausen sendiherra og kona hans Gabriele, voru meðal veislugesta. Húsfyllir var og komust færri að en vildu. Auk þess að vera með gestum á árshátíðinni kom Eva Märtson fram sem gestakennari við söngdeild Listaháskólans. Á árshátiðinni hélt Eva fróðlegt erindi sem hún nefndi Bayreuth hugmyndin eða The Bayreuth Idea, þar sem hún fjallaði um sögu og þróun Festpielhaus og aðkomu Wagnerfélaga að velgengni hátíðarinnar gegnum tíðina. Árni Björnsson hélt erindi þar sem hann greindi frá fyrirlestrarferðum sínum til Þýskalands og Póllands á liðnum misserum til að kynna rannsóknir sínar á tengslum íslenskra bókmennta og Niflungahringsins og bók sína Wagner og Völsunga. Á árshátíðinni sagði Víkingur Heiðar Ólafsson píanóleikari einnig frá ferð sinni sem styrkþegi til Bayreuth ásamt þeim Höllu Oddnýju Magnúsdóttur og Viðari Víkingssyni kvikmyndargerðarmanni og Viðar sýndi hluta af upptökum sínum, félagsmönnum til mikillar ánægju. Víkingur Heiðar lék einnig fyrir veislugesti útsetningu Franz Liszt á Isoldes Liebestod og hlaut fyrir mikið lof. Sólrún Bragadóttir sópransöngkona fór líka á kostum er hún söng fyrir veislugesti atriði úr Lohengrin, Tannhäuser og Tristan og Isolde við píanóleik Selmu Guðmundsdóttur formanns.
5. nóvember nutu félagsmenn beinnar útsendingar á sviðssetningu Kandamannsins Robert Lepage á Siegfried frá Metropolitan óperunni í New York. Þar bar helst til tíðinda að ungur Texasbúi, Jay Hunter Morris, stökk inn fyrir áður auglýstan Siegfried og leysti þetta vandasama verkefni með einstökum glæsibrag. Að sýningunni lokinni snæddu á þriðja tug félaga saman á Kringlukránni.
Dagana 16. til 19. Desember efndu Expressferðir enn á ný til óperuferðar til Berlínar, í þessu sinni var aðalaðdráttaraflið að sjá Kristin Sigmundsson syngja Landgreifann í Tannhäuser. Hópurinn naut sín vel og fékk eðalmóttökur í íslenska sendiráðsbústaðnum, hjá Gunnari Snorra sendiherra.
Fyrir utan þessa atburði sem ég hef talið upp höfum við áfram beitt okkur fyrir kynningu á rannsóknum Árna Björnssonar og reynt að sjá til að bókin væri fáanleg kaupendum. Bókin Wagner og Völsungar er nú til sölu á þýsku og ensku í Markgrafenbuchhabdlung í Bayreuth og ensku útgáfuna er hægt að kaupa á netinu hjá Amazon. 12 Tónar og Mál og menning hafa bókina einnig til sölu. Bókin hefur hlotið all góða kynningu, ekki þó hvað síst með birtingu greinar Árna í efnisskrá Bayreuthhátíðarinnar 2002. Jákvæðir dómar um bókina birtust á sínum tíma í nokkrum blöðum og tímaritum, m.a. í þýska óperutímaritinu Opernwelt, auk þess sem Árni hefur ferðast víða um heim með fyrirlestra um efni hennar. Í samvinnu með átaksverkefninu Ísland heiðursgestur á Bókamessunni í Frankfurt tókst að finna þýskan útgefanda, hið virta Bouvier forlag í Bonn, til að taka bókina til endurútgáfu og kom hún út sl. vor í mjög fallegum umbúðum. Árni fór á bókamessuna í Frankfurt til að fylgja bókarútgáfunni eftir. Okkur hefur einnig tekist í síauknum mæli að vekja áhuga þýskra Wagner félaga á að bjóða Árna til fyrirlestrahalds og var hann í maí og júní sl. í Frankfurt, München, Augsburg, Nürnberg og Karlsruhe . Síðast en ekki síst var honum boðið að vera með erindi á Alþjóðlega Wagnerþinginu í Breslau í Póllandi í byrjun júni.
Félagið er, eins og komið hefur fram, áfram aðili að Alþjóðasamtökum Wagnerfélaga, og greiðir félagið ákveðið árgjald til þeirra sem hefur numið um 150 Evrum á undanförnum árum, en á því varð nokkur hækkun á síðasta ári er samtökin fóru fram á að greiddar yrðu 2 evrur fyrir hvern félagsmann. Af því tilefni sá stjórnin sig knúna til hækkunar félagsgjalda, sem samþykkt var á síðasta aðalfundi. Samtökin standa m.a. fyrir árlegu þingi. Á síðastliðnu ári var það haldið í Breslau í Póllandi, í ár verður það í Prag og á 200 ára fæðingarafmæli Wagners, 2013, í fæðingarborg hans, Leipzig.
Önnur verkefni Alþjóðasamtakanna eru m.a. að standa fyrir Wagnersöngkeppni á nokkurra ára fresti og einnig keppni fyrir unga leikstjóra og leikmyndahönnuði. Auk þess standa þau fyrir Wagnerþingi í Feneyjum í nóvember ár hvert.
Eitt af mikilvægustu verkefnum aðildafélaga alþjóðasambandsins er að fjármagna starf Richard Wagner styrkþegastofnunarinnar í Bayreuth sem hefur það markmið að styrkja unga tónlistar- og sviðslistamenn til að sækja Bayreuthhátíðina. Félagið okkar mun nú fimmtánda árið í röð senda styrkþega út til Bayreuth. Styrkþeginn næsta sumar mun sjá Lohengrin, Parsifal og Tannhäuser.. Styrkþegar til þessa hafa verið:
Sjá: Styrkþegar félagsins
Styrkþeginn fær yfirleitt að sjá þrjár óperusýningar, en fimmta hvert ár er boðið upp á allan Hringinn. Auk þess er m.a. í boðinu leiðsögn um Festspielhaus, Franz Liszt safnið og heimsókn í Richard Wagner safnið, sem reyndar er lokað um þessar mundir vegna enduruppgerðar fyrir afmælisárið 2013. Framlag félagsins til þessa málefnis hefur hækkað ört síðustu ár og er nú 530 Evrur. Í ljósi stöðu krónunnar er þetta orðið félaginu nokkuð þungt og var um tíma álitamál hvort við héldum þessu áfram. Þess má geta að Menntamálaráðuneytið hefur einnig frá upphafi styrkt félagið vegna þessa máls og hefur styrkur ráðuneytisins að mestu gengið til styrkþegans upp í ferðakostnað. Sótt hefur verið til Menntamálaráðuneytisins vegna styrkþega næsta sumar en enn hefur ekki borist svar. Um 250 styrkþegar koma ár hvert á hátíðina, flestir þeirra frá Þýskalandi eða nálægt 200 manns, en hinir aðallega frá öðrum Evrópulöndum.
Á dagskrá félagsins fram til vors er eftirfarandi. Hér á eftir verður erindi Sveins Einarsonar um norræna Wagnersöngvara. Dagana 31. janúar til 5. febrúar verður óperuferð til New York með m.a. tveim sýningum á Metropolitan óperunni, Götterdämmerung og Önnu Bolena. 3. mars verður fyrirlestur Magnúsar Lyngdals Magnússonar um Beethoven og Wagner í röðinni Samtímamenn Wagners, keppinautar og áhrifavaldar. Sýnd verður óperan Fidelio með Leonard Bernstein sem hljómsveitarstjóra, upptaka frá Vínaróperunni. 25. mars fjallar Reynir Axelsson um Puccini og hugsanleg tengsl við Wagner. Sýnd verður myndin Puccini eftir Tony Palmer. 17. til 20. maí er árlegt þíng Alþjóðasamtaka Wagnerfélaga í Prag.
Bayreuthhátíðin 2012: Eins og fram hefur komið í þessari skýrslu höfum við verið að senda fólk til Bayreuth og hefur félagið notið þeirra forréttinda, ásamt fjölmörgum Wagnerfélögum í heiminum, að fá árlega nokkuð magn af miðum, sem nýst hefur félagsmönnum. Nú hefur orðið breyting þar á. Wolfgang Wagner heitinn ræktaði mjög sambandið við alla þá sem létu sig hátíðina varða og unnu að framgangi sköpunarverks afa síns með einum eða öðrum hætti. Því kynntist ég af eigin raun er ég, sem fulltrúi Listahátíðar í Reykjavík, átti við hann mín fyrstu samskipti sumarið 1993 og leitaði aðstoðar hans fyrir hönd hátíðarinnar. Í framhaldi af því lagði hann ómælt á sig til að liðsinna okkur Íslendingum við að koma Wagneróperu á svið í fyrsta sinn á Íslandi 1994. Hann studdi það verkefni með ráðum og dáð! Svo dæmi séu tekin voru Wagnertúburnar frá Bayreuth lánaðar hingað okkur að kostnaðarlausu! Hann veitti ráðgjöf um öll veigamestu listrænu álitamálin. Hann kostaði sjálfur ferðirnar hingað og gistingu fyrir sig og konu sína í tvígang. Var hérna seinast á frumsýningu Litla hringsins í Þjóðleikhúsinu 1994. Hann þakkaði fyrir sig með því að leyfa 30 Íslendingum að koma til Bayreuth á sýningar sumarið 1995. Í þeirri ferð voru lögð drög að stofnun þessa félags. Frá formlegri stofnun þess fengum við svo árlega dágóðan fjölda miða handa félagsmönnum, allt þar til nú.
Eftir að þær systur Katharina og Eva tóku við hafa orðið margvíslegar breytingar á hátíðinni. Sú alúð, sem Wolfgang og Guðrún sýndu vildarmönnum hátíðarinnar, er ekki lengur hin sama. Raunar ótrúlegt hvernig þau lögðu það á sig, svo dæmi séu tekin, að bjóða til sín á hverju sýningarkvöldi alla hátíðina, í fyrra hléi og seinna hléi, 10 til 20 manna hópum, sem nutu gestrisni þeirra og veitinga. Þetta var strax aflagt hjá systrunum. Það hefur síðan ríkt nokkur óvissa með hvernig tengslin við Richard Wagner félögin þróuðust og sömuleiðis við samtökin Freunde Bayreuths. Í fyrra fóru þær systur fram með nýtt stuðningsmannakerfi, sem m.a. fékk sem umbun að meðlimir fengu að sitja á stólum uppi á sviði, inni í sýningu. Það gerðist í Tannhäuser og var nokkuð sérstök sjón. Samhliða þessum áherslubreytingum hafa raddir orðið sífellt háværari sem heimtað hafa að biðtími eftir miðum á hátíðina styttist og að numin yrðu úr gildi forréttindi hópa og einstaklinga sem fengju miða ár hvert, á meðan aðrir væru á margra ára biðlista. Nú rétt fyrir jól gerðist það, að í stað þess að fá afgreiðslu um miða fyrir næsta ár, fékk fjöldi fólks og hópa,- þar á meðal ég f.h. félagsins, – bréf undirritað af þeim systrum, þar sem greint er frá því að fjármálayfirvöld Bæjaralands og fjársýslumenn hátíðarinnar hafi gert það að kröfu að hætt yrði að veita ákveðnum hópum forgang umfram aðra. Til að stytta biðtíma yrðu öll slík réttindi afnumin nú þegar. Þau réttindi Wagnerfélaga, er sent hafa styrkþega, sem fólust í því að það eitt að senda einn styrkþega gaf rétt til kaupa á 6 miðum, voru líka afnumin fyrirvaralaust og það gert eftir að félög voru þegar búin að binda sig vegna styrkþega 2012. Þessar ráðstafanir hafa mælst afar illa fyrir hjá Wagnerfélögum víða um heim. Svo dæmi séu tekin, þá hefur Wagnerfélagið í New York geta gengið að föstum fjölda miða ár hvert frá árinu 1984 og það með slíkri vissu að það hefur getað úthlutað fyrirfram. Amerísku félögin hafa skipulagt komu sína til Bayreuth í lok hátíðartímabilsins og ráðið sérstakan enskumælandi fyrirlesara til að vera með óperukynningar. Þetta var allt frágengið fyrir 2012 og margir búnir að bóka ferð sína til Bayreuth. Það hefur því verið mikil ólga og óánægja, ekki síst hjá Ameríkufélögunum, en einnig í Evrópu. Mikil bréfaskipti hafa verið í gangi milli félaganna og við hátíðina til að reyna að fá þessari ákvörðun breytt. Vitnað er til áralangs náins samstarfs Wagnerfélaganna og hátíðarinnar og þess mikilvæga hlutverks sem félögin hafa gengt, sem oft gegnum tíðina hafa skipt hátíðina og framtíð hennar sköpum. Þetta er auðvitað allt hið versta mál og ekki ólíklegt að hátíðin geti borið skaða af ef hún beinlínis reynir eða er þvínguð af yfirvöldum til að hrista af sér sína dyggustu bakhjarla um víða veröld. Á sama tíma keppast óperuhús og hátíðir um að eignast tryggan áheyrendahóp sem kemur aftur og aftur. Óljóst er hver endanleg niðurstaða verður, svo virðist sem möguleiki gæti orðið á að rétta eitthvað hag Wagnersamtakanna og aðildarfélaganna beinlínis í tengslum við sendingu styrkþega til Bayreuth. Forsvarsmenn samtakanna benda á það sem ljósa punktinn í þessu öllu, að eina hópdæmið um hátíðagesti, þar sem ekki var skorið niður, séu styrkþegamiðarnir, en þeir verða enn sem fyrr 750 talsins. Einhverjir miðar munu síðan aukreitis renna til samtakanna til að útdeila í tengslum við það, en alveg er óljóst með hvaða hætti.
Framundan er í sumar nýr Hollendingur og 2013, afmælisárið, nýr Niflungahringur í leikstjórn hins þýska Frank Castorfs, sem er gjarnan kallaður leikhúspróvókatör frekar en leikstjóri og gengur yfirleitt mjög fram af þorra áheyrenda og ofbýður með ýmsum hætti. Einnig hefur spurst út að árið 2015 verði nýr Tristan í leikstjórn Katharinu Wagner, undir hljómsveitarstjórn Christian Thielemann.
Að lokum vil ég geta þess að félagar í Wagnerfélaginu eru nú 254 talsins og bætast stöðugt nýir félagar í hópinn. Ekki er mikið um úrsagnir úr félaginu, en haft er að reglu að taka menn út af félagaskrá greiði þeir ekki félagsgjöld sín tvö ár í röð. Sem formaður vil ég nota tækifærið og þakka ánægjulegt samstarf við stjórn félagsins og varastjórn, svo og endurskoðendum félagsins, þeim Halldóri Halldórssyni og Guðrúnu Nordal. Ég vil einnig þakka Menntamálaráðuneytinu fyrir fjárstuðning við styrkþegaverkefnið okkar og þýska sendiráðinu sömuleiðis. Loks vil ég fyrir hönd stjórnarinnar þakka öllum þeim félagsmönnum, sem hafa hjálpað til við að halda uppi starfi félagsins.
Selma Guðmundsdóttir
formaður Richard Wagner félagsins