Ársskýrsla 2013
Aðalfundur félagsins 29. mars 2014 í Norræna húsinu
Skýrsla formanns, Selmu Guðmundsdóttur, á 18. aðalfundi félagsins 29. mars 2014 í Norræna húsinu.
Þetta er 18. aðalfundur Richard Wagner félagsins á Íslandi, en félagið var formlega stofnað 12. desember árið 1995 að undangengnum undirbúningsstofnfundi sama ár úti í Bayreuth. Það eru því ákveðin tímamót hjá félaginu í lok næst árs, þegar það verður 20 ára gamalt.
Samkvæmt lögum félagsins er kosið í stjórn annað hvert ár og var það síðast gert fyrir tveim árum og mun því stjórnarkosning fara fram hér á eftir. Stjórnina skipa, auk mín sem formaður félagsins: Jóhann J. Ólafsson varaformaður, Jón Ragnar Höskuldsson gjaldkeri, Ásmundur Jakobsson ritari og Sólrún Jensdóttir í aðalstjórn. Í varastjórn Árni Björnsson, Björn Bjarnason og Þorkell Helgason.
Ég ætla nú að rekja í stuttu máli starfsemi félagsins síðastliðið ár, sem var mikið afmælisár Richards Wagner, 200 ár frá fæðingu hans 22. maí í Leipzig og 130 ár frá því að hann dó, þann 13. febrúar í Feneyjum:
Á tímabilinu frá janúar til loka maí voru alls níu útsendingar frá óperusviðum erlendis, aðallega frá Metropolitan óperunni í Kringlubíói en einnig frá Covent Garden í London í Háskólabíói. Ég ætla ekki að rekja nánar um hvaða sýningar er að ræða, en við í stjórninni leggjum áherslu á að kynna þessar sýningar vel meðal félagsmanna og njóta þær mikilla vinsælda og hafa mikið til leyst af hólmi okkar eigin sýningar á óperum hér í Norræna húsinu.
22. til 28. janúar var í tilefni afmælisársins efnt til hópferðar á vegum félagsins að sjá uppfærslu á Niflungahringnum hjá Bayerische Staatsoper í München. 15 félagsmenn sáu sýningarnar en leikstjóri þeirra var Þjóðverjinn Andreas Kriegenburg, en hljómsveitarstjóri Kent Nagano. Almennt ríkti mjög mikil ánægja með uppfærsluna, tónlistarlega var hún yfirleitt mjög sterk og fremur fátt sem hneykslaði í leikstjórn. Óperuhúsið í München er afar fallegt og glæsilegt hús af gamla skólanum, með mjög góðum hljómburði. Ferðahópurinn naut aðstoðar Münchendeildar félagsins okkar við að velja skemmtilega veitingastaði í lok sýninga og halda uppi öðru félagslífi. Konsúll Íslendinga bauð hópnum út að borða í Ratskeller og ekki spillti að sendiherra Íslands í Berlín var með í för. Sævar Karl Ólason bauð hópnum á sýningu á málverkum sínum sem stóð yfir í borginni.
Þann 24. febrúar var samkoma hér í Norræna húsinu undir heitinu Reynir Axelsson og Meistarasöngvararnir. Reynir Axelsson stærðfræðingur er án efa sá, sem mest hefur lagt af mörkum við að fræða og upplýsa félagsmenn um ýmis viðfangsefni tengd Wagner, í fjölmörgum erindum og fyrirlestrum. Uppáhalds Wagnerópera hans er Meistarasöngvararnir og sýndi hann okkur uppfærslu frá Glyndebourne hátíðinni. Á undan sýningunni fjallaði hann í erindi sérstaklega um það hvort einhver fótur sé fyrir því að í Meistarasöngvurunum komi fram birtingarmyndir Gyðingahaturs. Einstaka fræðimenn hafa talið sig merkja andúð Wagners á Gyðingum í óperum hans, einkum Meistarasöngvurunum. Flestir telja þó að áhersla hans á sammannleg yrkisefni, óháð tíma og rúmi, komi í veg fyrir samtímalegar tilvísanir. Fyrirlestur Reynis var gífurlega vel unninn og niðurstöðurnar stórmerkar og væri sannarlega verðugt að koma honum á framfæri á erlendum vettvangi, hann mun birtast fljótlega í Tímariti Máls og menningar.
Aðalfundur félagsins var haldinn 10. mars og að honum loknum sýnd heimildarmyndin Wagner’s Dream um uppsetningu Kanadamannsins Robert Lepage á Niflungahringnum í New York. Í upphafi myndarinnar lýsir Lepage því yfir hversu mikla þýðingu það hafi haft fyrir sig að koma til Íslands um það leyti sem hann tók verkið að sér og hitta hér fyrir rætur verksins og það umhverfi sem síðan veitti honum svo sterkan innblástur við uppsetninguna. Andstæður elds og íss, hið síkvika og breytilega í íslenskri náttúru og ekki síst flekaskilin, sem endurspeglast ótrúlega sterkt í leikmyndinni.
Sinfóníuhljómsveitin var með tónleika 5. apríl, þar sem Hanna Dóra Sturludóttir söng Wesendonckljóð Wagners. Þetta var hluti af framlagi hljómsveitarinnar til Wagnerársins og var það aðalstjórnandi hljómsveitarinnar, hinn ísraelski Ivan Volkov sem stjórnaði. Seinni helmingur tónleikanna var svo tileinkaður Mendelssohn og skoska sinfónían flutt. Verkefnavalið vakti nokkra furðu. Wesendonckljóðin eru eitt af fáum verkum Wagners sem ekki þarf sinfóníuhljómsveit til að flytja. Metnaðarfyllra hefði verið að flytja úr óperunum, fyrir nokkrum arum var t.d. þáttur úr Parsifal leikinn á tónleikum hljómsveitarinnar.
Efnt var til samkomu í Norræna húsinu 13. apríl og hélt Magnús Lyngdal Magnússon þar fyrirlestur um þá Wagner og Verdi í tilefni af afmælisári þeirra beggja og var hann vel unninn og fróðlegur eins og vænta mátti af Magnúsi.
Á 200 ára afmælisdegi Wagners, 22. maí, efndi félagið til hópferðar í Reykholt, til þess að halda þar upp á afmælið í návígi við Snorra Sturluson og þann bókmenntaarf, frá honum kominn, sem skipti Wagner svo miklu máli. Skoðuð var sýning um Snorra og forstöðumönnum Snorrastofu gefin veggmynd af Wagner í tilefni dagsins. Síðan var borðuð dýrindis máltíð í Fosshótelinu og undir borðum mælti m.a. Árni Blandon fyrir minni tónskáldsins en Árni Björnsson rifjaði upp mikilvægi íslenska bókmenntaarfsins fyrir Wagner. Árni var einnig fararstjóri í rútunni uppeftir, sem keyrði Dragann og rakti helstu söguslóðir Íslendingasagna sem farið var um. Stór hópur félagsmanna tók þátt og naut dagsins í glampandi sólskini.
Þann 6. júní var seinni hluti framlags Sinfóníuhlómsveitar Íslands vegna Wagnerársins og voru það tónleikar undir heitinu: Minn uppáhalds Wagner og var það Bjarni Thor Kristinsson sem söng þar atriði úr óperum tónskáldsins og leiknir voru hljómsveitarþættir. Petri Sakari stjórnaði hljómsveitinni.
Aðeins tveir stakir miðar fengust á Bayreuthhátíðina sl. sumar og voru boðnir út meðal félagsmanna. Formaður fékk á eigin vegum miða á opnunarsýninguna, sem var endurtekning á Hollendingurinn fljúgandi sýningunni frá árinu áður. Á opnunarsýningu hátíðarinnar er jafnan mikið af framáfólki í þýskum stjórnmálum, menningar- og listalífi. Að þessu sinni var stutt í kosningar og má heita að öll þýska ríkisstjórnin hafi verið þarna, en reyndar er Angela Merkel lengi búin að vera fastagestur hátíðarinnar. Mikið er einnig af formönnum þýsku Wagnerfélaganna. Að lokinni sýningu er boðið til ríkismóttöku í Nýju höllinni, ef maður er heppinn og er þá búið að reisa risastórt tjald út í garðinn bak við höllina fyrir gesti og veisluborð sem svigna undir veitingum. Oft eru forsvarsmenn hátíðarinnar og listamenn viðstaddir í þessum boðum en að þessu sinni var forsætisráðherra Bæjaralands, Horst Seehofer sá eini sem hafði orðið og bauð gesti velkomna. Þær systur, Katharina og Eva sáust ekki.
Á öðrum degi hátíðarinnar var lagður hornsteinn að nýrri byggingu við Villa Wahnfried þar sem vera á mikið safn. Villa Wahnfried verður eftir sem áður safn um líf og fjölskyldu Wagners, en nýja húsið verður tileinkað verkum hans. Athöfnin var mjög lifandi og skrautleg, farið var ofan í gryfju þaðan sem byggingin skyldi upp af reisa og þar voru ásamt fleirum allir helstu og mikilvægu meðlimir Wagnerfjölskyldunnar, m.a. bæði börn Wielands og Wolfgangs, þó ekki Gottfried Wagner.
Uppresinarseggurinn Nike Wagner vildi þó láta líta svo út að henni hefði ekki verið ætlað sæti meðal gesta, sem augljóslega var ekki rétt og stóð efst á stigapallinum, þar sem allir gátu séð hana og fór svo áður en athöfninni lauk.
Ég kynntist framkvæmdastjóra félagsins Freunde Bayreuths,Inu Besser-Eichler, þegar ég fór með henni í kvöldverð ásamt fleira fólki, en innganga í það félag er nú greiðasta leiðin til að verða sér út um miða á sýningarnar. Þeir bjóða líka upp á aðild fyrir félög og stofnanir og þarf að skoða hvort það er eitthvað fyrir okkur að athuga nánar. Aðgengi að miðum hefur þó orðið auðveldara, m.a. var sl haust opin sala á netinu og veit ég um amk einn félagsmann, sem fékk þannig miða á allan Hringinn
næsta sumar. Ég hygg einnig að fjöldi þess fólks, sem fór reglulega til Bayreuth, eins konar fastagestir, muni minnka. Bæði vegna óánægju með það hvernig skorið var á miða til ákveðinna hópa og eins hefur verið óánægja með gæði sýninga í húsinu undanfarin ár. Nýi Hringurinn, sem margir óttuðust mjög, vegna leikstjóravalsins, mun vera skárri en við var búist og tónlistarlega sterkur, ekki síst að þakka unga hljómsveitarstjóranum, Kyrill Petrenko. Ég notaði tækifærið í Bayreuth til að semja við Markgrafenbuchhandlung um að bók Árna Björnssonar yrði áfram til sölu í búðinni, en til þess þurfum við að útvega þeim bækur í gegnum Ísland. Ekki náðust samningar milli þýska útgáfufyrirtækisins Bouvier og verslunarinnar um sölu bókarinnar og kenndu báðir hinum aðilanum um. Við gátum náð nokkuð hagstæðum samningum við Bouvier um kaup á bókum, svo þær verða að fara löngu leiðina til Bayreuth eins og er. Sama gildir reyndar um ensku bókina, en báðar bækurnar eru fáanlegar á netinu.
Við sjáum hins vegar 12 Tónum í Hörpu fyrir eintökum á ensku og þýsku útgáfunni, sem þeir vilja gjarnan hafa fyrir erlenda ferðamenn.
Ekki var bein útsending á netinu frá Bayreuth í sumar á vegum Siemens en opnunarkvöldið með Hollendingnum var sýnt beint í bíóhúsum víða, ekki þó hér heima.
Upp úr miðjum september hófust svo aftur útsendingar frá Covent Garden og Metropolitan og voru alls 8 óperur sýndar fram að jólum.
Íslenska óperan sýndi óperuna Carmen og var frumsýning 19. október. Tveim vikum síðar, 2. nóvember, var árshátíð Wagnerfélagsins haldin á Hótel Holti, að venju. Heiðursgestur var þýski sendiherrann, Thomas Meister. Á undan borðhaldi var fyrst sýnd glæný heimildarmynd, Wagner in Exile um útlegðarár Wagners í Sviss. Bráðungur og efnilegur barytónsöngvari, Kristján Jóhannesson, söng fyrir veislugesti ásamt Snorra S. Birgissyni píanóleikara og kom á óvart með að syngja eingöngu Wagnerprógramm, sem er óvenjulegt fyrir svo ungan söngvara. Fólk var afar hrifið og formaður bauð honum á staðnum að verða næsti styrkþegi félagsins til Bayreuth, sem vonandi gengur eftir. Undir borðum voru frásagnir félagsmanna frá liðnu ári. Lárus S. Lárusson og Sævar Þór Jónsson sögðu frá Münchenferð á vegum félagsins í janúar sl. á Hringinn með meiru. Björn Bjarnason sagði frá Hringuppfærslu í París sem hann sá í júní sl. ásamt Rut Ingólfsdóttur eiginkonu sinni.
Fjórir meðlimir félagsins tóku þátt í ferð til Kúbu í nóvember, skipulagðri af Wagnerfélaginu í München. Þar var stofnað Wagnerfélag og Hollendingurinn fljúgandi sviðsettur.
Á árinu 2014 hefur félagið sem komið er staðið fyrir einni samkomu á undan þessum aðalfundi, en það var dagskrá 18. janúar hér í Norræna húsinu tileinkuð Siegfried Wagner. Reynir Axelsson fjallaði um þennan son Wagners og kom þar margt áhugavert fram um Siegfried, sem hætti við að verða arkitekt en varð í staðinn tónlistarmaður, tónskáld , hljómsveitarstjóri og stjórnandi Bayreuthhátíðarinnar.
Hann samdi um 20 óperur sem flestar voru fluttar meðan hann lifði en að honum látnum ákvað fjölskyldan að nóg væri að hafa einn Wagner sem tónskáld og stuðlaði frekar að því að verk hans væru ekki lengur flutt heldur en hitt. Á eftir fyrirlestri Reynis var sýnd upptaka af óperu Siegfrieds, Der Kobold.
Sá stórviðburður varð svo 1. mars að frumflutt var íslensk ópera á nýja óperusviðinu í Hörpu og var það óperan Ragnheiður eftir þá Gunnar Þórðarson og Friðrik Erlingsson. Sýningin hefur fengið afar góðar móttökur og þykir í alla staði mjög vönduð, sviðssetning, leikstjórn og söngvarar. Er þetta mikið ánægjuefni og er gaman til þess að vita að fjárhagur Íslensku óperunnar mun nokkuð hafa rétt sig við með þessari sýningu, sem ef til vill hefði síst verið spáð með íslenska uppfærslu. Alla vega er ljóst að það verður aftur óperuuppsetning í haust og herma heimildir að þar muni Kristinn Sigmundsson fara með stórt hlutverk. Hvort það verður Wagner veit ég ekki enn, en ég spái því að stutt verði í að Wagnersýning fari á fjalirnar í Eldborg.
Dagana 13. til 18. maí kemur stór hópur þýskra Wagnerista til landsins, meðlimir Wagnerfélaga aðallega í Bæjaralandi, München, Augsburg og Bayreuth. Þetta er ferð skipulögð af Wagnerfélaginu í München í samvinnu við þýsku ferðaskrifstofuna OperaViva og Iceland Travel. Hópurinn mun m.a. heimsækja Reykholt og hlýða þar á fyrirlestra um Wagner og Ísland. Þar verða haldnir þessir fjórir fyrirlestrar:
- Árni Björnsson: Island und der Ring des Nibelungen
- Oskar Gudmundsson:”Snorri Sturluson, Homer des Nordens, und Reykholt als Zentrum seiner Machtund Szene des Dramas”.
- Baldur Hafstað: ‘Konrad Maurer – ein bayerischer Wohltäter Islands’
- Arthúr Björgvin Bollason: “Deutsch-isländische Kulturbeziehungen – ganz anders betrachtet”.
17. maí verða tónleikar í Norðurljósum í Hörpu, þar sem ungir Bayreuthstyrkþegar frá Þýskalandi munu syngja í samvinnu við íslenska flytjendur. Á eftir máltíð í Kolabrautinni í Hörpu. Vonast eftir þátttöku okkar félagsmanna.
Í maílok fer 20 manna hópur félagsmanna til Genfar að sjá nýjan Niflungahring þar í uppsetningu Þjóðverjans Dieter Dorn. Hljómsveitarstjóri verður Ingo Metzmacher. Þetta verður ábyggilega mjög skemmtileg ferð. Til stóð að meiri hluti stjórnarinnar yrði með hópnum en því miður á formaðurinn ekki heimangengt eins og til stóð en fjórir úr aðal- og varastjórn fara.
Félagið er, eins og oft hefur komið fram, áfram aðili að Alþjóðasamtökum Wagnerfélaga, og greiðir félagið ákveðið árgjald til þeirra sem nemur 2 evrum fyrir hvern félagsmann. Samtökin standa m.a. fyrir árlegu þingi. 2011 var það haldið í Breslau í Póllandi, 2012 í Prag og á 200 ára fæðingarafmæli Wagners, í fyrra, í fæðingarborg hans, Leipzig. Nú í maílok verður það í Graz.
Önnur verkefni Alþjóðasamtakanna eru m.a. að standa fyrir Wagnersöngkeppni á nokkurra ára fresti og einnig keppni fyrir unga leikstjóra og leikmyndahönnuði. Auk þess standa þau fyrir Wagnerþingi í Feneyjum í nóvember ár hvert.
Eitt af mikilvægustu verkefnum aðildafélaga alþjóðasambandsins er að fjármagna starf Richard Wagner styrkþegastofnunarinnar í Bayreuth sem hefur það markmið að styrkja unga tónlistar- og sviðslistamenn til að sækja Bayreuthhátíðina. Félagið okkar mun nú sautjánda árið í röð senda styrkþega út til Bayreuth. Styrkþeginn næsta sumar mun sjá Lohengrin, Parsifal og Tannhäuser.
Styrkþegar til þessa hafa verið:
Sjá: Styrkþegar félagsins
Styrkþeginn fær yfirleitt að sjá þrjár óperusýningar, en fimmta hvert ár er boðið upp á allan Hringinn. Auk þess er m.a. í boðinu leiðsögn um Festspielhaus, Franz Liszt safnið og heimsókn í Richard Wagner safnið, sem reyndar er lokað um þessar mundir vegna enduruppgerðar. Framlag félagsins til þessa málefnis hefur hækkað ört síðustu ár og er nú 530 Evrur. Í ljósi stöðu krónunnar er þetta orðið félaginu nokkuð þungt og var um tíma álitamál hvort við héldum þessu áfram. Þess má geta að Menntamálaráðuneytið hefur einnig frá upphafi styrkt félagið vegna þessa máls og hefur styrkur ráðuneytisins að mestu gengið til styrkþegans upp í ferðakostnað. Sótt hefur verið til Menntamálaráðuneytisins vegna styrkþega næsta sumar og fengist styrkur. Um 250 styrkþegar koma ár hvert á hátíðina, flestir þeirra frá Þýskalandi en hinir frá öðrum Evrópulöndum.
Að lokum vil ég geta þess að félagar í Wagnerfélaginu eru nú 254 talsins og bætast stöðugt nýir félagar í hópinn. Ekki er mikið um úrsagnir úr félaginu, en haft er að reglu að taka menn út af félagaskrá greiði þeir ekki félagsgjöld sín tvö ár í röð. Sem formaður vil ég nota tækifærið og þakka ánægjulegt samstarf við stjórn félagsins og varastjórn, svo og endurskoðendum félagsins, þeim Halldóri Halldórssyni og Guðrúnu Nordal. Ég vil einnig þakka Menntamálaráðuneytinu fyrir fjárstuðning við styrkþegaverkefnið okkar og þýska sendiráðinu sömuleiðis. Loks vil ég fyrir hönd stjórnarinnar þakka öllum þeim félagsmönnum, sem hafa hjálpað til við að halda uppi starfi félagsins.
Selma Guðmundsdóttir
formaður Richard Wagner félagsins