Ársskýrsla 2014
á aðalfundi í Norræna húsinu, 24. janúar 2015
Skýrsla formanns, Selmu Guðmundsdóttur, á 19. aðalfundi félagsins 24. janúar 2015 í Norræna húsinu.
Þetta er 19. aðalfundur Richard Wagner félagsins á Íslandi, en félagið var formlega stofnað 12. desember árið 1995 að undangengnum undirbúningsstofnfundi sama ár úti í Bayreuth. Það eru því ákveðin tímamót hjá félaginu í lok þessa árs, þegar það verður 20 ára gamalt.
Samkvæmt lögum félagsins er kosið í stjórn annað hvert ár og var það síðast gert í fyrra og því engin stjórnarkosning hér á eftir. Stjórnina skipa, auk mín sem formaður félagsins: Sólrún Jensdóttir varaformaður, Jón Ragnar Höskuldsson gjaldkeri, Ásmundur Jakobsson ritari og Jóhann J. Ólafsson í aðalstjórn. Í varastjórn Árni Björnsson, Björn Bjarnason og Þorkell Helgason.
Ég ætla nú að rekja í stuttu máli starfsemi félagsins síðastliðið ár. Á tímabilinu frá janúar til loka maí voru alls ellefu útsendingar frá óperusviðum erlendis, aðallega frá Metropolitan óperunni í Kringlubíói en einnig frá Covent Garden í London í Háskólabíói. Ég ætla ekki að rekja nánar um hvaða sýningar er að ræða, en við í stjórninni leggjum áherslu á að kynna þessar sýningar vel meðal félagsmanna og njóta þær mikilla vinsælda og hafa mikið til leyst af hólmi okkar eigin sýningar á óperum hér í Norræna húsinu.
Laugardaginn 18. janúar var dagskrá tileinkuð Siegfried Wagner, syni Ríkharðs. Reynir Axelsson flutti mjög fróðlegt erindi um Siegfried, sem var bæði tónskáld og hljómsveitarstjóri og tók við rekstri Bayreuthhátíðarinnar af Cosimu móður sinni árið 1908 og gegndi því hlutverki til dauðadags, árið 1930. Sýnd var af myndbandi óperan hans, Der Kobold, ein af 18 óperum sem hann samdi.
Laugardaginn 29. mars var aðalfundur félagsins haldinn hér í Norræna húsinu, með stjórnarkosningu, þar sem öll stjórnin var endurkjörin. Að honum loknum var sýnd nýleg heimildarmynd Tonys Palmer, The Wagner Family, þar sem Wagner en þó einkum afkomendur hans fá mismunandi góða dóma samtíðarmanna og eigin skyldmenna.
Dagana 13. til 18. maí kom hópur þýskra Wagnerista til landsins, aðallega frá München og Bæjaralandi. Frumkvæði að ferðinni lá hjá Wagnerfélaginu í München, en einnig komu hópar frá m.a. Bayreuth og Augsburg. Samanlagt um 120 manns. Félagið okkar undirbjó heimsóknina í samvinnu við skipuleggjendur ytra. Í samvinnu við okkur voru haldnir tónleikar í Norðurljósum í Hörpu 17. maí kl. 17, við lögðum til tvo píanista, sem báðir eru félagsmenn, auk mín var það Richard Simm píanóleikari. Þjóðverjarnir komu með þrjá unga söngvara, sem allir hafa verið styrkþegar í Bayreuth og auk þess bættist einn þýskur píanisti til viðbótar í hóp flytjenda.
Aðgangur að tónleikunum var ókeypis og sóttu þá um 300 manns og vöktu þeir mikla ánægju hjá áheyrendum. Eftir tónleikana snæddi hópurinn í Hörpu. Dagana á undan höfðu Þjóðverjarnir ferðast um landið og við höfðum m.a., í samvinnu við Snorrastofu í Reykholti, skipulagt heimsókn þeirra þangað og fengið fjóra íslenska fyrirlesara, til að halda erindi á þýsku fyrir hópinn. Erindin voru sem hér segir:
- Árni Björnsson: Island und der Ring des Nibelungen
- Oskar Gudmundsson:”Snorri Sturluson, Homer des Nordens, und Reykholt als Zentrum seiner
- Macht und Szene des Dramas”.
- Baldur Hafstað: ‘Konrad Maurer – ein bayerischer Wohltäter Islands’
- Arthúr Björgvin Bollason: “Deutsch-isländische Kulturbeziehungen – ganz anders betrachtet”.
Þjóðverjarnir snæddu hádegisverð í Reykholti, auk íslensku fyrirlesaranna fóru nokkrir félagsmenn upp í Reykholt til að hlýða á erindin og hitta hópinn.
Dagana 19. til 27. maí hélt um 20 manna hópur félagsmanna út til Genfar, til að sjá sýningu á Niflungahringnum í uppfærslu Dieters Dorn og hljómsveitarstjórn Ingos Metzmacher. Formaður hafði valið að panta miða á þennan hring vegna góðrar reynslu af leikstjórn Dieters Dorn, en hann setti m.a. upp nafntogaðan Hollending í Bayreuth upp úr 1990. Dorn brást ekki bogalistin og voru þátttakendur afar ánægðir með uppfærsluna. Eins sáu þau Sólrún Jensdóttir varaformaður og Gunnar Snorri Gunnarsson sendiherra um að skipuleggja dvölina að öðru leyti, ferðir á veitingastaði og aðra samveru og fórst það vel úr hendi eins og vænta mátti. Formaður varð því miður að vera fjarri góðu gamni vegna vinnu sinnar.
Í lok maí var þing Alþjóðasamtaka Wagnerfélaga haldið í Graz í Austurríki. Þar var metnaðarfull dagskrá, fyrirlestrar, myndlistarsýning og sýning á Lohengrin auk þess sem samhliða þinginu fór fram samkeppni ungra sviðslistamanna um bestu sviðsmyndina og bestu hugmynd að leikrænni óperuuppfærslu. Keppni þessi er haldin þriðja hvert ár í samvinnu Wagnerfélagsins í Graz og óperuhússins þar, með stuðningi alþjóðasamtakanna. Formaður sótti þingið og sat þar aðalfund samtakanna ásamt 70 atkvæðisbærum fulltrúum Wagnerfélaga auk annarra gesta. Við stjórnarkosningu var formaður kosinn í stjórn samtakanna en hana skipa 15 manns. Alþjóðasamtökin voru stofnuð 1991 af Josef Lienhart í Freiburg. Í þeim eru 137 félög víðs vegar í heiminum og félagsmenn þeirra samanlagt yfir 20.000 talsins. Íslenska Wagnerfélagið hefur verið meðlimur frá 1996. Í stjórninni eru, auk forseta, fjórir varaforsetar, ritari, gjaldkeri og 8
meðstjórnendur. Fjórir meðstjórnenda skulu vera þýskir en hinir fjórir frá öðrum löndum. Það var í þeim flokki, sem stungið hafði verið upp á mér og atti ég þar kappi við 6 aðra frambjóðendur, 2 frá Frakklandi, einn frá London, Stokkhólmi, Milano og Graz. Auk mín komust inn af þessum 7 þau Andrea Buchanan frá London, Heinz Weyringer frá Graz og Charles Ducros frá Frakklandi. Formaður samtakanna var kjörinn Thomas Krakow frá Leipzig og var all hörð og óvægin kosningabarátta milli hans og Ungverjans Andras Bajai.
Formaður var við opnun Bayreuthhátíðarinnar í sumar þegar sá óvænti atburður gerðist, í fyrsta sinn í sögu hátíðarinnar, að stöðva þurfti sýningu á Tannhäuser vegna þess að lyftubúnaður bilaði og gerði það að verkum að búr, sem var á leið upp á sviðið, brotnaði að hluta og járnstangir féllu á sviðið með tilheyrandi hávaða. Á sýningunni var, að venju, stór hópur þekktra Þjóðverja, úr pólitíkinni, kvikmynda- og sjónvarpsiðnaðinum og alls konar annað fínt folk, sem finnst það ómissandi við svona uppákomur. Gert var hlé í rúman klukkutíma í kjölfarið og áheyrendur beðnir að fara út. Sem betur fer var veðrið gott og það var létt yfir fólki þegar það gekk um grundir utan hússins. Var þetta líklega eina skiptið sem Tannhäuser er sýndur með þrem hléum, en það tókst að koma sýningunni aftur á stað og sem betur fór slasaðist enginn. Í Staatsempfang eða ríkismóttöku að lokinni sýningu tók forsætisráðherra Bæjaralands, Horst Seehofer, í ræðu sinni létt á þessu. Sagðist hafa sent Angelu Merkel, sem aldrei þessu vant var ekki viðstödd, sms og hún svarað um hæl og spurt hvort sýningunni hefði verið hætt en Seehofer svarað um hæl að sýningum í Bayreuth yrði aldrei hætt svo lengi sem það kæmu peningar frá Berlín. Þá kom sms frá Merkel með broskalli! Í framhaldi af opnuninni fór formaður til Leipzig, þar sem haldinn var fyrsti stjórnarfundur Alþjóðasamtakanna í Ermlitz höll fyrir utan bæinn, þar sem Wagner var sem ungur maður tíður gestur húsráðenda. Þar bjó jafnaldri hans Theodor Apel og voru þeir miklir vinir.
Parsifal fyrir fjórar hendur í Norræna húsinu 8. ágúst kl. 18. 2 píanistar frá Þýskalandi, Michael Hagemann og Shoko Hayashizaki, komu færandi hendi með 12 útsetningar Engelbert Humperdincks fyrir píanó fjórhent, úr óperunni Parsifal. Norræna húsið lagði okkur til húsið frítt en áður hafði Harpa synjað sama erindi. Aðgangur var ókeypis og eini kostnaðurinn sem lagðist á félagið var vegna píanóstillingar. Þetta voru mjög glæsilegir tónleikar og flutningur áhrifamikill. Aðsókn var einnig góð.
18. október var Don Carlo frumsýndur hjá Íslensku óperunni. Mikil eftirvænting var fyrir þessari uppsetningu á einni af umfangsmestu óperum Verdis, Don Carlo, sem aldrei hafði verið sviðssett á Íslandi áður. Eingöngu íslenskir söngvarar tóku þátt í sýningunni og ber þar fyrstan að nefna þekktasta óperulistamann Íslands um þessar mundir, bassasöngvarann Kristinn Sigmundsson, sem tók þátt í óperuuppfærslu hjá Íslensku óperunni í fyrsta sinn í 12 ár og fór með eitt voldugasta bassahlutverk tónbókmenntanna, Filippus konung, föður Don Carlo. Formaður hefur reynt að leggja sitt af mörkum til að stuðla að því að Wagnerópera yrði sett upp hjá Óperunni og vissulega er áhugi fyrir hendi þar á bæ, en horft er til mikils kostnaðar og vonast til að slík uppfærsla gæti orðið í samvinnu við Listahátíð í Reykjavík og Sinfóníuhlómsveitina til að dreifa kostnaði. Árshátíð Wagner félagsins á Hótel Holti laugardag 8. nóvember kl. 18.
Árshátíðin var að venju haldin á Hótel Holti. Mjög góð mæting var eins og undanfarin ár. Á undan fordrykknum sögðu þau Selma Guðmundsdóttir og Árni Blandon frá Bayreuth 2014 en Júlíus Karl
Einarsson talaði um Wieland Wagner og óperuuppfærslur hans. Fjölnir Ólafsson barýtónsöngvari söng fyrir gesti ásamt Steinari Loga Helgasyni. Undir borðum sögðu þau Guðbjörg Edda Eggertsdóttir og Eyjólfur Haraldsson frá Kúbuferðinni, sem félagsmönnum stóð til boða og fjórir meðlimir tóku þátt í. Á Kúbu var m.a. stofnað Wagnerfélag og Hollendingurinn fljúgandi settur upp í amvinnu við Wagnerfélagið í München. Wagnerópera hafði ekki verið á sviði á Kúbu í yfir 60 ár. Hafliði Gíslason sagði frá hópferðinni á Niflungahringinn í Genf í maí, sem gerði mikla lukku, eins og áður var sagt frá.
Dagana 28. til 30. nóv voru hinir árlegu Wagnerdagar í Feneyjum. Wagnerfélaginu í Feneyjum hefur, undir forystu hjónanna Giuseppe (nú látinn) og Alexandra Althoff Pugliese tekist að koma á fót mjög merkilegri hátíð, sem haldin er árlega með fyrirlestrum, tónleikum og óperusýningum í óperuhúsinu, La Fenice. Það sem skiptir þar mestu er að Pugliese hjónunum hefur tekist að ná samningum við Casino di Venezia, Spilavítið í Palazzo Vendramin, þar sem Wagner bjó mánuðina áður en hann lést, um aðgang að herbergjunum í höllinni þar sem Wagner bjó. Þar er nú smám saman verið að koma upp safni, sem enn er ekki opið almenningi, en ráðstefnugestir að þessu sinni fengu að skoða fimm herbergi, þar af herbergið, þar sem Wagner lést, fyrirvaralítið, af hjartaslagi, 13. febrúar 1883. Josef Lienhart, fyrrum forseti Alþjóðasamtakanna, hefur gegnum tíðina safnað saman fjölmörgum hlutum, myndum, bókum og handritum, tengdum Wagner og hefur gefið þessa hluti til verðandi safns. Það var mjög sterk tilfinning sem fylgdi því að koma í Vendraminhöllina. Wagner hafði komið til Feneyja um haustið 1882 og fundið húsnæði, við hæfi, til leigu. Það var í höll við Canale Grande, með miðstöðvarkyndingu og samanlagt 28 herbergi, þar sem fjölskyldan og aðstoðarfólk gat komið sér vel fyrir. Wagner hafði þrjú herbergi, eingöngu fyrir sig, sem enginn fékk að koma inn í nema til þess kvaddur af honum sjálfum. Þarna fór vel um fjölskylduna og varð ekki þröngt um þau, fyrr en tengdapabbi, Franz Liszt, kom í heimsókn, síðla árs 1882. Hann var að sjálfsögðu með eigin hljóðfæri með sér, stóran flygil, og erfitt að koma honum fyrir með því nógu langt frá vistarverum Wagners enda dvaldist honum ekki lengi. Í þessari höll, við Canale Grande, hafði fjölskylda að sjálfsögðu eigin gondóla með ræðara. En dvölin varð endaslepp er Wagner veiktist skyndilega og lést. Wagner var í miklum metum hjá Ítölum, þegar hann lést var í undirbúningi sýning á Niflungahringnum vorið 1883 og fór hún fram eins og til stóð. Í þessum vísi af safni í Vendramin höllinni voru m.a. sýnd plaköt og bréfaskipti, sem óperan La Fenice hafði gefið Pugliese hjónunum árið 1996, skömmu áður en óperuhúsið brann, allt þetta hefði annars glatast, hefði það enn verið í
óperunni þegar kviknaði í. Óperuhúsið var endurbyggt í sinni upprunalegu mynd og á Wagnerdögunum voru sýndar þar að þessu sinni tvær Verdióperur, La Traviata og Simone Boccanegra. Mjög fallegar sýningar. Auk þess voru fyrirlestrar um Wagner, Verdi og Strauss og píanótónleikar með verkum Strauss. Þingið sótti, ásamt formanni, Anna Áslaug Ragnarsdóttir félagsmaður, sem býr í München. Félagið er, eins og oft hefur komið fram, áfram aðili að Alþjóðasamtökum Wagnerfélaga, og greiðir félagið ákveðið árgjald til þeirra sem nemur 2 evrum fyrir hvern félagsmann. Samtökin standa m.a. fyrir árlegu þingi. 2012 var það haldið í Prag og á 200 ára fæðingarafmæli Wagners 2013, í fyrra, í fæðingarborg hans, Leipzig. Í maí var það, eins og áður sagði, haldið í Graz í Austurríki , í maí nk. verður það í Dessau í Þýskalandi og 2016 í Strasbourg.
Önnur verkefni Alþjóðasamtakanna eru m.a. að standa fyrir Wagnersöngkeppni á nokkurra ára fresti, m.a. á komandi sumri í Karlsruhe og einnig keppni fyrir unga leikstjóra og leikmyndahönnuði. Auk þess hafa þau aðkomu að Wagnerþingi í Feneyjum í nóvember ár hvert. Eitt af mikilvægustu verkefnum aðildafélaga alþjóðasambandsins er að fjármagna starf Richard Wagner styrkþegastofnunarinnar í Bayreuth sem hefur það markmið að styrkja unga tónlistar- og sviðslistamenn til að sækja Bayreuthhátíðina. Félagið okkar mun nú átjánda árið í röð senda styrkþega út til Bayreuth. Styrkþeginn næsta sumar mun sjá Lohengrin, Siegfried og Tristan og Isolde, en ný uppfærsla af þeirri óperu fer á fjalirnar í sumar. Katharina Wagner leikstýrir og Christian Thielemann stjórnar hljómsveit.
Sjá: Styrkþegar félagsins
Styrkþeginn fær yfirleitt að sjá þrjár óperusýningar. Auk þess er í boðinu leiðsögn um Festspielhaus, Franz Liszt safnið og heimsókn í Richard Wagner safnið, sem reyndar er lokað um þessar mundir vegna enduruppgerðar. Framlag félagsins til þessa málefnis hefur hækkað ört síðustu ár og er nú 530 Evrur. Menntamálaráðuneytið hefur einnig frá upphafi styrkt félagið vegna þessa máls og hefur styrkur ráðuneytisins að mestu gengið til styrkþegans upp í ferðakostnað. Sótt hefur verið til Menntamálaráðuneytisins vegna styrkþega næsta sumar og fengist styrkur. Um 250 styrkþegar koma ár hvert á hátíðina, flestir þeirra frá Þýskalandi. Vonir eru bundnar við að sérréttindi Wagner félaga til að kaupa miða á Bayreuthhátíðina verði aftur tekin upp. Forsvarsmenn hátíðarinnar hafa viðurkennt að það hafi verið mistök að loka fyrir þennan hóp tryggra áskrifenda. Aðgöngumiðasala er nú orðin mun aðgengilegri og m.a. verða mikill miðafjöldi seldur á netinu í febrúar.
Í desember nk eru 20 ár frá stofnun Wagnerfélagsins. Stjórnin vinnur nú úr hugmyndum um hvernig best verði haldið upp á afmælið. Vonast er til þess að fá gestafyrirlesara frá Þýskalandi í heimsókn í haust. Hugað verður að endurútgáfu Wagner og Völsungar. Unnið er að gerð heimasíðu félagsins og ýmsar aðrar hugmyndir í skoðun. Reynt verður að safna saman greinum og erindum, sem haldin hafa verið á vegum félagsins. Þess má geta að í vor birtist stórmerk grein Reynis Axelssonar, Wagner og Gyðingar í TMM, en greinin er byggð á erindi sem hann hélt fyrir félagið. Að lokum vil ég geta þess að félagar í Wagnerfélaginu eru nú 224 talsins og bætast stöðugt nýir félagar í hópinn. Ekki er mikið um úrsagnir úr félaginu, en haft er að reglu að taka menn út af félagaskrá greiði þeir ekki félagsgjöld sín tvö ár í röð. Sem formaður vil ég nota tækifærið og þakka ánægjulegt samstarf við stjórn félagsins og varastjórn, svo og endurskoðendum félagsins, þeim Halldóri Halldórssyni og Guðrúnu Nordal. Ég vil einnig þakka Menntamálaráðuneytinu fyrir fjárstuðning við styrkþegaverkefnið okkar og þýska sendiráðinu sömuleiðis. Loks vil ég fyrir hönd
stjórnarinnar þakka öllum þeim félagsmönnum, sem hafa hjálpað til við að halda uppi starfi félagsins.
24. janúar 2015
Selma Guðmundsdóttir