Ársskýrsla 2018
á aðalfundi í Hannesarholti, 17. mars 2019
Skýrsla formanns, Selmu Guðmundsdóttur, á 23. aðalfundi félagsins 17. mars 2019 í Hannesarholti.
Þetta er 23. aðalfundur Richard Wagner félagsins á Íslandi, en félagið var formlega stofnað 12. desember árið 1995 að undangengnum undirbúningsstofnfundi sama sumar úti í Bayreuth.
Samkvæmt lögum félagsins er kosið í stjórn annað hvert ár og var það síðast gert í fyrra. Það verður því ekki stjórnarkosning á þessum fundi. Stjórnina skipa, auk mín sem formaður félagsins: Sólrún Jensdóttir varaformaður, Jón Ragnar Höskuldsson gjaldkeri, Egill Arnarson ritari og Jóhann J. Ólafsson í aðalstjórn. Í varastjórn Ásmundur Jakobsson, Ásdís Kvaran og Björn Bjarnason.
Ég ætla nú að rekja í stuttu máli starfsemi félagsins síðastliðið ár. Fyrsta samkoman á árinu var 4. mars í Hannesarholti. Þar var fyrst á dagskrá aðalfundur með hefðbundnum aðalfundarstörfum, þar með talið kosningu stjórnar og var stjórnin öll endurkjörin til tveggja ára. Að fundinum loknum var erindi Árna Blandon undir heitinu Wagner og Liszt: Vináttaóvinátta-vinátta. Mjög fróðlegt erindi þar sem sambandi þessara tveggja tónjöfra var gerð góð skil, en þeir höfðu lengi þekkst áður en Wagner tók upp samband við Cosimu og varð tengdasonur Liszts.
Í maí var Sveinn Einarsson leikstjóri með afar áhugaverðan fyrirlestur og kynningu á stórsöngkonunni Birgit Nilsson í tilefni af 100 ára afmæli hennar, sem haldið var hátíðlega víða um heim.
Í lok maí fóru nokkrir félagsmenn og sáu Niflungahringinn í Odense, en Odense er þriðja borgin í Danmörku sem setur upp Niflungahring og þótti uppfærslan ágætlega heppnuð, með alþjóðlegum söngvarahópi. Hafliði Pétur Gíslason sagði frá upplifun af ferð sinni á árshátíð félagsins í lok október.
Dagana 21.-24. júní var árlegt þing Alþjóðasamtaka Wagnerfélaga haldið í Innsbruck en það sótti að þessu sinni eingöngu formaður. Í boði var glæsileg dagskrá tónleika, óperusýninga, fyrirlestra og skoðunarferða, m.a flutningur á Rienzi og ferð til Erl, þar sem unnt var að vera viðstaddur æfingu á Götterdämmerung og auk þess voru þar Wagner galatónleikar undir stjórn Gustavs Kuhn.
Í júlí lögðu nokkrir félagsmenn og aðdáendur Önnu Netrebko land undir fót og fóru til Baden-Baden þar sem Netrebko átti að debutera í í titilhlutverki óperunnar Adriana Lecouvreur eftir Cilea og maður hennar Yusif Eyvazov að syngja aðalkarlhlutverkið. Sýningin var í samvinnu við Marinsky leikhúsið í St.Pétursborg undir stjórn Valerys Gergiev. Ekki fór betur en svo að hjónin voru bæði forfölluð með nokkurra daga fyrirvara, en ágætis söngvarar komu í þeirra stað. Eyvazov er mun umdeildari en Netrebko og ekki allir hrifnir af honum. Nýlega var haft eftir honum í viðtali að þau hjónin dreymdi um að syngja Tristan og Isolde, sem lagðist misjafnlega í fólk.
Bayreuthhátíðin hófst 25. júlí, með frumsýningu á nýrri uppfærslu á Lohengrin. Kvöldið áður var í tengslum við hátíðina sýnd splunkuný ópera eftir austurríska tónskáldið Klaus Lang, en stjórnendur legga sig nú fram um að gefa nýsköpun tækifæri við hliðina á Wagnersýningunum. Formaður var viðstaddur frumsýninguna ásamt Gunnari Snorra Gunnarssyni sendiherra. Á styrkþegadögunum 5.-10. ágúst var 12 manna hópur félagsmanna á sýningum, sem félagið hafði getað útvegað miða á. Að þessu sinni voru styrkþegar félagsins tveir, þær Agnes Tanja Þorsteins og Hrafnhildur Árnadóttir Hafstað.
Formaður þáði boð um að vera viðstaddur sýningu á Götterdämmerung í bænum Minden í Westfalen, og lauk þar með fjórða árinu í uppsetningu nýs Hrings í þessum 80.000 manna bæ. Uppsetningarnar eru í litlu leikhúsi þar sem hljómsveitin verður að vera á sviðinu en þetta er allt unnið af miklum metnaði undir forystu formanns Wagnerfélagsins þar í bæ og hefur verið mjög gaman að fylgjast með. Á komandi haust verða svo allar Hringóperurnar sýndar tvisvar í Minden.
Á vegum Alþjóðasamtaka Wagnerfélaga, sem félagið okkar er meðlimur í var haldin Wagnersöngkeppni í Karlsruhe 27. september til 1. október, en keppni þessi er haldin þriðja hvert ár í samvinnu Alþjóðasamtakanna við Óperuhúsið í Karlsruhe og hljómsveitina þar. Hátt í 100 umsækjendur höfðu sótt um þátttöku, þar af voru nokkrir tugir boðnir í undankeppni í Bayreuth sl sumar en sextán komust áfram og sungu í undanúrslitum og lokakeppni í Karlsruhe. Sigurvegarinn var ung sænsk stúlka, sem er tiltölulega nýbyrjuð í óperuskólanum í Stokkhólmi en afar efnileg, Jessica Elevant að nafni.
Vetrarstarfið hófst 13. október í Hannesarholti með frábærum fyrirlestri Árna Heimis Ingólfssonar undir heitinu: „Andmæli gegn Wagner“: Jón Leifs og endurheimt norræns menningararfs. Í þessum fyrirlestri Árna Heimis bar hann saman ólíkar aðferðir þeirra Jóns Leifs og Richards Wagner í að meðhöndla Edduna í tónverkum sínum og lýsti því hvernig Jón Leifs vildi hafa hlutina.
Árshátíð félagsins var haldin á Hótel Holti laugardag 3. nóvember kl. 18. og hófst með söngvarakynningu Júlíusar K. Einarssonar, þar sem hann kynnti Wagnersöngkonuna Astrid Varnay, sem líkt og Birgit Nilsson átti 100 ára afmæli í fyrra. Eftir kynningu Júlíusar var barinn opnaður fyrir fordrykk og meðan á honum stóð söng annar styrkþeginn okkar til Bayreuth sl. sumar, Hrafnhildur Árnadóttir Hafstað fyrir gesti ásamt Matthildi Önnu Gísladóttur. Að loknum fordrykknum var svo veislumáltíð að hætti Holts, sem að þessu sinni var borin fram á veitingastaðnum, sem var tímabundið lokaður almenningi sl. haust. Undir borðum voru frásagnir félagsmanna frá liðnu ári. Hafliði Pétur Gíslason sagði frá ferð sinni á Niflungahringinn í Odense í maílok. Björn Bjarnason, Anna Júlíana Sveinsdóttir og Rafn Alexander Sigurðsson sögðu frá Bayreuthferð sinni í ágúst en þangað fóru 12 félagsmenn og sáu nokkrar óperur. Veislustjórn var í góðum höndum Sveins Einarssonar.
Dagana 10.-12. nóvember blés Wagnerfélagið í Berlín aftur til Wagnerdaga líkt og í fyrra, þegar haldið var upp á 100 ára afmæli Wielands Wagner. Nú var haldið upp á afmæli þriggja annarra meðlima Wagnerfjölskyldunnar, Cosima Wagner hefði orðið 180 ára, Siegfried Wagner 150 ára og Friedelind Wagner 100 ára. Haldið var málþing þar sem fjallað var um þessa þrjá einstaklinga og þýðingu þeirra fyrir hátíðina í Bayreuth og Wagnersamfélagið.
Á Wagnerdagana 2017 fór 50 manna hópur félagsmanna út, enda voru þá í boði bæði frábær sýning á Lohengrin og Tannhäuser. Að þessu sinni fór einungis formaður, enda var stjórnarfundur í Alþjóðasamtökunum haldinn samhliða dagskránni en ekki voru nýjar Wagneróperur í boði heldur Lohengrin endurtekinn og auk þess boðið á sýningu á óperu Janaceks, “The Makropolos Case, með Evelyn Herlitzius í aðalhlutverki og kom hún einnig fram í listamannaspjalli fyrir gesti. Nú í ár er komið að Wolfgang Wagner sem hefði orðið 100 ára og stefnir í Wagnerdaga í Berlín þriðja árið í röð á komandi hausti.
Frá janúar til desember voru alls um 20 bíóútsendingar frá óperusviðum erlendis, aðallega frá Metropolitan óperunni í Kringlubíói en einnig frá Covent Garden í London í Háskólabíói. Auk þess kynnti félagið reglulega óperusýningar, sem sendar voru út á netinu úr ýmsum óperuhúsum, m.a. frá München og Vínarborg. Við í stjórninni leggjum áherslu á að kynna þessar sýningar vel meðal félagsmanna enda njóta þær mikilla vinsælda og hafa mikið til leyst af hólmi okkar eigin sýningar á óperum í Norræna húsinu. Franska sjónvarpsstöðin mezzo.tv, sem er landsmönnum aðgengileg gegnum Símann eykur einnig mjög framboð á óperusýningum og tónleikum í sjónvarpi. Baldur Símonarson hefur verið afar hjálplegur við kynningar.
Félagið er, eins og oft hefur komið fram, áfram aðili að Alþjóðasamtökum Wagnerfélaga, og greiðir ákveðið árgjald til þeirra sem nemur 2 evrum fyrir hvern félagsmann. Í samtökunum eru samanlagt um 20.000 félagar í 125 Wagnerfélögum víða um heim og í öllum heimsálfum. Félagið okkar er númer 29 í röðinni að stærð en vafalaust langstærst miðað við höfðatölu og vekur stærð þess töluverða athygli.
Samtökin standa m.a. fyrir árlegu þingi með glæsilegri dagskrá. Á síðastliðnum árum hefur það verið haldið í Prag, Leipzig, Graz, Dessau, Strasbourg, Búdapest og Innsbruck. Nú í ár verður það haldið í Feneyjum dagana 28. nóv. til 2. des. Á næsta ári verður það í Bonn og 2021 í München og 2022 að öllum líkindum í Madrid. Önnur verkefni Alþjóðasamtakanna eru m.a. að standa fyrir Wagnersöngkeppni á þriggja ára fresti og einnig keppni fyrir unga leikstjóra og leikmyndahönnuði í Graz. Tobias Kratzer sem leikstýrir Tannhäuser sýningunni á Bayreuth á komandi sumri er einmitt sigurvegari úr þessari keppni. Auk þess hafa samtökin aðkomu að Wagnerþingi í Feneyjum í nóvember ár hvert. Eins og félagsmönnum mun kunnugt hefur formaður átt sæti í stjórn samtakanna frá því 2014, en stjórnin beitir sér nú mjög fyrir því að auka innbyrðis tengsl aðildarfélaganna. Fjórir stjórnarmeðlimir, þar með talið formaður, hafa myndað hóp sem gefur úr fréttabréf u.þ.b. þrisvar á ári og hefur það mælst mjög vel fyrir hjá aðildarfélögum og er því dreift til allra félagsmanna aðildarfélaganna.
Eitt af mikilvægustu verkefnum aðildafélaga alþjóðasamtakanna er að fjármagna starf Richard Wagner Styrkþegastofnunarinnar í Bayreuth sem hefur það markmið að styrkja unga tónlistar- og sviðslistamenn til að sækja Bayreuthhátíðina. Félagið okkar mun nú tuttugusta og annað árið í röð senda styrkþega út til Bayreuth og verður styrkþeginn sópransöngkonan Bryndís Guðjónsdóttir, sem er langt komin í námi við Mozarteum í Salzbur. Styrkþeginn mun sjá Tannhäuser í nýrri uppfærslu ungs leikstjóra, Tobias Kratzer með Valery Gergiev í fyrsta sinn með hljómsveitarsprotann. Í boði er einnig Lohengrin í uppfærslu Yuvals Sharon. Christian Thielemann stjórnar hljómsveit. Auk þess er sýning á Parsifal í leikstjórn Uwe Eric Laufenberg og hljómsveitarstjórn Semyon Bychkov. Eins og áður sagði hefur félagið okkar sent styrkþega frá 1998 og eru þeir orðnir 23 talsins.
Sjá: Styrkþegar félagsins
Fyrir utan sýningarnar eru í boði til styrkþegans leiðsögn um Festspielhaus, Franz Liszt safnið og heimsókn í Richard Wagner safnið, sem er nú nýuppgert og endurbætt. Framlag félagsins til þessa málefnis hefur hækkað ört síðustu ár og er nú 700 Evrur. Menntamálaráðuneytið hefur einnig frá upphafi styrkt félagið vegna þessa máls og hefur styrkur ráðuneytisins að mestu gengið til styrkþegans upp í ferðakostnað. Því miður kom synjun í ár á þessari styrkveitingu, í fyrsta sinn í 22 ár, en vonandi verður þar bragarbót. Um 250 styrkþegar koma ár hvert á hátíðina, flestir frá Þýskalandi.
Fyrir ötula baráttu Alþjóðasamtakanna hafa réttindi Wagner félaga til að kaupa miða á Bayreuthhátíðina verið aftur tekin upp. Forsvarsmenn hátíðarinnar hafa viðurkennt að það hafi verið mistök að loka fyrir þennan hóp tryggra áskrifenda. Félagið fékk árið 2017 átta Hringmiða, sem gerir samanlagt 32 miða og að auki 8 miða á aðrar sýningar. Í fyrra báðu 12 manns um miða og var hægt að verða við ósk þeirra allra. Í ár báðu færri um miða en væntanlega fæst það sem beðið var um. Miðunum er úthlutað úr ákveðnum potti, sem Alþjóðasantökin hafa til ráðstöfunar og er úthlutað í samræmi við félagafjölda. Aðgöngumiðasala er að öðru leyti orðin mun aðgengilegri. Eftir því sem ég best veit hefst bein miðasala á netinu fyrir næsta sumar 7. apríl, á þeim miðum sem enn kunna að vera óseldir.
Um starf félagsins að öðru leyti er það að segja að við erum enn að kanna möguleika á endurútgáfu Wagners og Völsunga, sem er nánast með öllu uppseld. Við könnuðum á síðasta ári hug félagsmanna á að styrkja útgáfuna annað hvort með beinu fjárframlagi eða með því að gerast kaupendur að komandi eintaki. Nokkrir gáfu sig fram en ekki nógu margir. Gjaldkeri og ritari félagsins hafa nú safnað miklu efni fyrir væntanlega heimasíðu félagsins sem stefnt er að því að koma á laggirnar innan tíðar. Stofnuð var Facebooksíða þar sem settar eru inn helstu upplýsingar auk þess sem ég held áfram að senda út reglulega til félagsmanna upplýsingar um áhugaverða atburði, hvort sem þeir eru beinlínis á vegum félagsins eða ekki. Allflestir félagsmenn eru nú búnir að gefa okkur upp tölvupóstfang og njóta því þessarar upplýsingamiðlunar. Þeir sem enn hafa ekki látið okkur í té tölvupóstfang eða hafa breytt sínu fyrra eru endilega beðnir að láta vita.
Það er ánægjulegt að segja frá því að nú eru loksins áform um uppsetningu á Wagneróperu á Íslandi í augsýn. Listahátíð hefur staðfest að Valkyrjan muni verða sett upp sem samstarfsverkefni Íslensku óperunnar, Sinfóníuhljómsveitar Íslands og Listahátíðar á næsta ári, nánar tiltekið 27. og 29. maí. Sýningarnar verða eins konar upptaktur að Listahátíð, sem sjálf hefst ekki fyrr en 6. júní. Margir íslenskir söngvarar spreyta sig á Wagner erlendis. Bjarni Thor Kristinsson söng Wotan í Rheingold í nýjum Niflungahring í Kassel sl haust, Sveinn Hjörleifsson syngur Frey við óperuna í Leipzig. Tómas Tómasson syngur Wotan og Wanderer í Genf og Ólafur Kjartan Sigurðarson hefur sungið Hollendinginn í Helsinki og Alberich í nýjum Hring í Gautaborg, þar sem hann fékk frábæra dóma. Ekki hefur dregið úr ferðagleði félagsmanna því 16 manns fara til New York í maí að sjá Niflungahring Roberts Lepage. Þar verður tengdasonur Íslands, Stuart Skelton í hlutverki Siegmunds í Valkyrjunni. Í lok nóvember fara svo á annan tug félagsmanna á Wagnerþing Alþjóðasamtakanna í Feneyjum. Um næstu helgi er málþing á vegum samtakanna í München undir heitinu Wagner og trúarbrögð, með fjöldra fyrirlestra sem endar svo á Parsifal sýningu í Bæversku ríkisóperunni undir stjórn Kirill Petrenko og leikstjórans Pierre Audi. Þar mun sænska söngkonan Nina Stemme fara með hlutverk Kundry og René Pape með hlutverk Gurnemanz.
Hér á eftir mun Árni Blandon enn á ný leggja okkur lið með fyrirlestri undir heitinu: Wagner og
Thomas Mann. Árni Blandon hefur ötullega kynnt óperur Wagners í Ríkisútvarpinu, Morgunblaðinu og hjá Endurmenntun Háskóla Íslands.
Að lokum vil ég geta þess að félagar í Wagnerfélaginu eru nú 216 talsins og bætast stöðugt nýir félagar í hópinn. Ekki er mikið um úrsagnir úr félaginu, en haft er að reglu að taka menn út af félagaskrá greiði þeir ekki félagsgjöld sín tvö ár í röð. Sem formaður vil ég nota tækifærið og þakka ánægjulegt samstarf við stjórn félagsins og varastjórn, svo og endurskoðendum félagsins, þeim Halldóri Halldórssyni og Guðrúnu Nordal og endurskoðanda til vara, Guðbjarti Kristóferssyni.
17. mars 2019
Selma Guðmundsdóttir