Ársskýrsla 2021

á aðalfundi í Safnaðarheimili Dómkirkjunnar 26. mars 2022

Þetta er 26. aðalfundur Richard Wagner félagsins á Íslandi, en félagið var formlega stofnað 12. desember árið 1995, að undangengnum undirbúningsstofnfundi sama sumar úti í Bayreuth.

Samkvæmt lögum félagsins er kosið í stjórn annað hvert ár og var það síðast gert 2020 og því verður kosning núna á eftir. Stjórnina skipuðu, auk mín sem formaður félagsins:  Sólrún Jensdóttir varaformaður, Jón Ragnar Höskuldsson gjaldkeri, Egill Arnarson ritari og Jóhann J. Ólafsson í aðalstjórn. Í varastjórn Ásmundur Jakobsson, Ásdís Kvaran og Þórhallur Eyþórsson. Jóhann hefur reyndar sagt af sér stjórnarstörfum vegna anna á öðrum vettvangi og er honum þakkað ötult og öflugt framlag og samstarf við stjórn félagsins frá upphafi, lengst af sem varaformaður. Ásdís Kvaran, sem setið hefur í varastjórn undanfarin ár mun einnig láta af störfum og er henni sömuleiðis þakkað fyrir störf sín. Félagi okkar, Ásmundur Jakobsson féll frá í ágúst, 75 ára að aldri. Ásmundur var stofnfélagi og sat í stjórn félagsins frá árinu 1999, lengst af sem ritari. Hann var mjög virkur í starfi félagsins og tók þátt í fjölmörgum ferðum þess.

Ég ætla nú að rekja í stuttu máli starfsemi félagsins síðastliðið ár. Fyrsti ánægjulegi atburðurinn, sem gladdi okkur, þótt félagið stæði ekki fyrir honum, voru Wagnertónleikar Sinfóníunnar 25. febrúar, þar sem Stuart Skelton flutti Wesendonck ljóðin með hljómsveitinni og að auki voru fluttir forleikur og Liebestod úr Tristan und Isolde.  

Næstu þrír atburðir á vormisseri voru fyrirlestrar í Safnaðarheimili Dómkirkjunnar, sem einnig voru sendir beint út í streymi og eru til á heimasíðu félagsins. Var það áframhald á streymisútendingum, sem við byrjuðum með í nóvember 2020, til að halda starfinu lifandi meðan ekki var fýsilegt að hittast. Í nóvemberfyrirlestrunum, sem sendir voru út frá heimili gjaldkera,  var um að ræða tvo fyrirlestra Árna Blandon um verk Wagners í Dagbókum Cosimu og svo fyrirlestur Árna Björnssonar um Wagner og Íslendinga, sem haldinn var á 25 ára afmælisdegi félagsins 12. desember. Þessir fyrirlestrar eru einnig á heimasíðu félagsins.

27. febrúar var Þórhallur Eyþórsson með fyrirlestur um Tungumál Wagners. Þetta var fyrsti fyrirlestur Þórhalls fyrir félagið. Þórhallur Eyþórsson er prófessor í málvísindum við Háskóla Íslands. Hann lauk doktorsnámi í málvísindum frá Cornell-háskóla árið 1995. Þórhallur hefur lengi haft áhuga á Wagner, ekki síst á sambandi tónlistar og texta í verkum hans. Hann átti um árabil sæti í stjórn Hátíðar ungs listafólks (Festival junger Künstler) sem jafnan er haldin í tengslum við Wagnerhátíðina í Bayreuth.“  Hann hefur setið í varastjórn félagsins síðustu tvö árin.

 20. mars var aðalfundur félagsins haldinn og að honum loknum var fyrirlestur Reynis Axelssonar um Wagner og Schopenhauer. Reynir er stærðfræðingur eins og flestir vita og hefur starfað við H.Í frá árinu 1975.  Eitt helsta áhugamál Reynis utan stærðfræðinnar er tónlist, og einkum sönglög. Hann hefur þýtt um það bil hálft þriðja þúsund söngtexta úr tæplega 20 tungumálum á óbundið mál og skrifað fjölda ritgerða um tónlist, einkum fyrir efnisskrár tónleika; sjálfur hefur hann samið nokkur sönglög. Hann hefur flutt mörg erindi fyrir Wagner-félagið. Frá árinu 1979 hefur hann setið í stjórn Hins íslenska bókmenntafélags.

8. maí var svo fyrirlestur Aðalheiðar Guðmundsdóttur um „Völsunga í máli og myndum“.

Aðalheiður Guðmundsdóttir er prófessor í íslenskum bókmenntum fyrri alda við Háskóla Íslands. Eftir Aðalheiði liggja bækur á borð við Úlfhams sögu frá 2001 og Strengleika frá 2006, auk fjölda fræðigreina. Aðalheiður vinnur nú m.a. að fjögurra binda ritverki um fornaldarsögur. Fyrirlestrinum fylgdi þessi áhugaverða kynning:

Um sagnaefni sautján alda. Völsunga saga er meðal þeirra fornaldarsaga sem notið hafa hvað mestra vinsælda, enda áhugaverð fyrir margra hluta sakir. Söguefnið, sem má heita samgermanskt, teygir anga sína víða, jafnt um Norðurlönd sem Bretlandseyjar og meginland Evrópu. Í þessum fyrirlestri verður Völsunga saga skoðuð í ljósi sögurita eftir Gregorius frá Tours, Fredegar og fleiri forna sagnaritara og ljósi varpað á fyrirmyndir söguhetja og atburða. Leitast verður við að sýna hvernig efnið hefur þróast og ummyndast, allt frá sögulegum kjarna, og hvernig óskyldir atburðir og jafnvel alls óskyldar sögulegar persónur urðu með tímanum nátengdar sem þátttakendur í sömu atburðarás. Allt er þetta efniviður sem lá að baki þeim heimildum sem Richard Wagner vann úr þegar hann samdi Niflungahringinn. Að lokum verður litið til þróunar söguhetjanna fram á síðari aldir, og jafnvel til allra síðustu ára. Fyrirlesturinn byggist á efni bókanna Arfur aldanna I (Handan Hindarfjalls) og II (Norðvegur) sem eru væntanlegar hjá Háskólaútgáfunni síðar á þessu ári.

Óperuhátíðin í München var haldin í júlí og hafði formaður reynt að útvega miða fyrir nokkra félaga, sem ekki tókst að þessu sinni. Síðasta dag hátíðarinnar var bein útsending á netinu frá  Tristan und Isolde, þar sem Jonas Kaufmann söng Tristan og Anja Harteros Isolde. Þetta var um leið síðasta sýning hljómsveitarstjórans Kirills Petrenko, sem nú hefur tekið við Berliner Philharmoniker.

Bayreuth
Dagskrá Bayreuthhátíðarinnar var með einfaldara sniði vegna Covid. Frumsýningu á nýjum Niflungahring var frestað til 2022 en í staðinn frumsýnd uppfærsla af Hollendingnum fljúgandi í leikstjórn Dmitri Tcherniakovs. Hljómsveitinni stjórnaði fyrsta konan sem stýrir hljómsveit í Bayreuth, Oksana Lyniv, frá Úkraínu. Auk Hollendingsins voru sýndar óperurnar Tannhäuser, með Ólafi Kjartani Sigurðssyni sem Biterolf og Meistarasöngvararnir. Sérstök sýning var á Valkyrjunni, ekki leikuppfærsla í eiginlegri merkingu en myndlistargjörningar framkvæmdir á sviðinu, fyrir aftan söngvarana, sem voru undir stjórn gjörningalistamannsins Hermann Nitsch. Auk þess voru á dagskrá hátíðarinnar tvennir hljómsveitartónleikar. Miðasala var að þessu sinni eingöngu á netinu og nutu þeir forgangs er höfðu keypt miða 2020. Húsið mátti eingöngu hafa 50% sætanýtingu.

Árlegt þing Alþjóðasamtaka Wagnerfélaga í München
Dagana 14.-18. október var hið árlega þing Alþjóðasamtaka Wagnerfélaga haldið í München. Auk formannafundar aðildafélaganna voru í boði tónleikar, fyrirlestrar og uppfærsla á óperu Wagners Das Liebesverbot.

„Das süsse Lied verhallt“. Wagnertónleikar 29. október í Salnum.
 Tónleikar í Salnum þar sem fluttar voru perlur úr óperum Wagners. Hrólfur Sæmundsson baritón, Margrét Hrafnsdóttir sópran og Egill Árni Pálsson tenór, ásamt Hrönn Þráinsdóttur píanóleikara voru flytjendur á tónleikunum en Árni Blandon leikari og bókmenntafræðingur leiddi tónleikagesti inn í ástir og örlög sögupersónanna í veröld Wagners. Tónleikarnir voru að frumkvæði listamannanna en Wagnerfélagið lagði til Árna Blandon í gervi Wagners, sem gerði mikið fyrir tónleikana. Wagnerhúfan var fengin að láni frá Bayreuth.

Óperuferð til Leipzig 12.-15. nóvember
 Nokkrir félagsmenn fóru til Leipzig og sjá þar óperuþrennu dagana 12.-14. nóvember. Það voru sýningar á Toscu, Hollendingnum fljúgandi og frumsýning á æskuóperu Wagners Liebesverbot (byggt á Shakespeare, Measure for Measure). Upprunalegt tilefni ferðarinnar var einkum að sjá Ólaf Kjartan Sigurðarson í titilhlutverki Hollendingsins, en hann varð því miður fyrir slysi og forfallaðist.

Niflungahringur Stefáns Herheim sýndur í Deutsche Oper
Wagnerfélagið í Berlín, í samvinnu við Deutsche Oper og Alþjóðasamtök Wagnerfélaga, stóð fyrir Wagnerdögum í tilefni af 70 ára afmæli Neu-Bayreuth. Málþing var í Deutsche Oper 18. og 20. nóvember. Nýr Niflungahringur Stefans Herheim og Donald Runnicles var sýndur dagana 16.-21. nóv.með stórstjörnuliði söngvara, m.a. Nina Stemme og Ian Paterson. Þetta var annar umgangurinn á þessum splunkunýja Hring og bauðst félagsmönnum að kaupa miða í gegnum Wagnerfélagið í Berlín. Ellefu félagsmenn sóttu sýningarnar.

Árshátíð Wagnerfélagsins var á Hótel Holti laugardag 27. nóvember. Hún hófst kl. 18 með fyrirlestri Reynis Axelssonar um Wagner og frönsku skáldkonuna Judith Gautier, sem oft hefur verið kölluð „Wagner´s Muse“. Eftir tölu Reynis var barinn opnaður fyrir fordrykk og meðan á honum stóð söng Margrét Hrafnsdóttir sópran ásamt Antoniu Hevesi. Að loknum fordrykknum var veislumáltíð að hætti Holts, og undir borðum frásagnir félagsmanna frá liðnu ári. Gunnar Snorri Gunnarsson sagði frá ferðinni á Bayreuthhátíðina sl. sumar, Friðrik R Jónsson sagði frá Niflungahringnum í Berlín og Jón Ragnar Höskuldsson frá óperuferðinni til Leipzig. Veislustjóri Egill Arnarson.

Fyrirlestri Árna Blandon um Wagner í Ameríku, sem vera átti í desember var frestað og verður nú hér á eftir, að loknum aðalfundinum.

Félagið hefur verið meðlimur í Alþjóðasamtökum Wagnerfélaga í meir en tvo áratugi, árgjaldið nemur 2 evrum fyrir hvern félagsmann. Í samtökunum eru samanlagt yfir 20.000 félagar í 125 Wagnerfélögum víða um heim og í öllum heimsálfum. Félagið okkar var fyrir skömmu númer 29 í röðinni að stærð en vafalaust langstærst miðað við höfðatölu. Samtökin standa fyrir árlegu þingi með glæsilegri dagskrá. Árið 2020 átti það að vera í Bonn í september en féll niður. Á sl árum hefur það verið haldið í Prag, Leipzig, Graz, Dessau, Strasbourg, Búdapest, Innsbruck, Feneyjum og München. Nú í ár átti þingið að vera í Madrid í febrúar en var frestað þar til í október. Dagskrá þinganna má nálgast á heimasíðu Alþjóðasamtakanna, www.richard-wagner.org. Stefnt er að þingi í Brüssel 2023 og í London 2024.

Önnur verkefni Alþjóðasamtakanna fyrir utan þessi árlegu þing eru m.a. að standa fyrir Wagnersöngkeppni á þriggja ára fresti og hefur keppnin í all nokkur undanfarin skipti verið haldin í Karlsruhe af miklum myndarbrag en nú er leitað að nýjum stað og hefur Berlín  verið nefnd til sögunnar. Samtökin standa einnig fyrir keppni fyrir unga leikstjóra og leikmyndahönnuði í Graz. Tobias Kratzer sem leikstýrir Tannhäuser sýningunni í Bayreuth núna er einmitt sigurvegari úr þessari keppni, sömuleiðis Valentin Schwarz, sem leikstýrir Niflungahring í Bayreuth á komandi sumri.   Auk þessa hafa samtökin einnig aðkomu að Wagnerdögum í Feneyjum í nóvember ár hvert. Eins og félagsmönnum er kunnugt hefur formaður átt sæti í stjórn samtakanna frá því 2014 og var endurkjörin á aðalfundinum í Feneyjum 2019 til næstu fimm ára. Nýr forseti er Rainer Fineske frá Berlín.

Eitt af mikilvægustu verkefnum aðildafélaga alþjóðasamtakanna er sennilega að fjármagna starf Richard Wagner Styrkþegastofnunarinnar í Bayreuth sem hefur það markmið að styrkja unga tónlistar- og sviðslistamenn til að sækja Bayreuthhátíðina. Félagið okkar ætlaði 2020 í tuttugusta og þriðja árið í röð að senda styrkþega út til Bayreuth og hafði valið til þess  barítónsöngvarinn Jóhann Kristinsson, sem starfar í Þýskalandi og hefur náð miklum árangri í nokkrum keppnum og uppfærslum í óperum. Þessu var aflýst, þar sem hátíðin féll niður. 2021 voru Styrkþegadagar en þó  þurfti að skera verulega niður og fékk ekkert félag að senda fleiri en einn styrkþega. Gæti styrkþegi, sem valinn hafði verið, ekki nýtt sér að koma var ekki hægt að senda annan í staðinn. Þar sem Jóhann komst ekki sl sumar fór því miður enginn frá okkur. Nú er ljóst að Jóhann kemst heldur ekki nú í sumar og hefur söngkonunni Karin Torbjörnsdóttur verið boðið að vera styrkþegi. Fyrir styrkþegana eru í boði, auk þriggja sýninga, leiðsögn um Festspielhaus, heimsókn í Franz Liszt safnið og í Richard Wagner safnið, sem er nú nýuppgert og endurbætt. Framlag félagsins til þessa málefnis hefur hækkað ört síðustu ár og er nú um 700 Evrur. Menntamálaráðuneytið hefur einnig frá upphafi styrkt félagið vegna þessa máls. Um 250 styrkþegar koma ár hvert á hátíðina, flestir frá Þýskalandi.

Eins og áður hefur komið fram hafa fyrir ötula baráttu Alþjóðasamtakanna réttindi Wagner félaga til að kaupa miða á Bayreuthhátíðina verið aftur tekin upp. Forsvarsmenn hátíðarinnar hafa viðurkennt að það hafi verið mistök að loka fyrir þennan hóp tryggra áskrifenda eins og gert hafði verið. Félagið fékk árið 2017 átta  Hringmiða, sem gerir samanlagt 32 miða og að auki 8 miða á aðrar sýningar. 2018 báðu 12 manns um miða og var hægt að verða við ósk þeirra allra. 2019 báðu færri um miða en það sem beðið var um fékkst. Miðunum er úthlutað úr ákveðnum potti, sem Alþjóðasamtökin hafa til ráðstöfunar og er úthlutað í samræmi við félagafjölda og halda formenn félaganna utan um að skila umsóknum. Aðgöngumiðasala er að öðru leyti orðin mun aðgengilegri og oft hægt að kaupa afgangsmiða beint á netinu. Í ljósi Covid hefur margt verið öðru vísi og í ár er allt mörgum mánuðum seinna á ferðinni en venjulega. Aðeins fyrir örfáum vikum var dagskráin næsta sumar kynnt en hún hefst 25. júlí með frumsýningu á Tristan und Isolde, ný uppfærsla. https://www.bayreuther-festspiele.de/en/programme/programme/. Síðan verður ný uppfærsla á Niflungahringnum sýnd frá og með 31. júlí, í þrjú skipti. Leikstjórn Valentin Schwarz. Hljómsveit Pietari Inkinen. Alberich: Ólafur Kjartan Sigurðarson. Hann mun einnig syngja Biterolf í Tannhäuser og Melot í Tristan und Isolde. Til að sækja um miða þarf að skrá sig inn undir “My Festival”. https://www.bayreuther-festspiele.de/en/tickets-service/ticket-ordering/  Miðapantanir þurfa að berast fyrir miðjan apríl, online sala á afgangsmiðum er svo í maí. Alþjóðasamtökin munu fá um 1250 miða fyrir aðildarfélög, og eitthvað af þeim mun koma í okkar skaut, en fyrirkomulag og tímasetningar ekki ljós enn.

Eins og kynnt hefur verið var loks uppsetning á Wagneróperu á Íslandi í augsýn. Setja átti upp Valkyrjuna, semi-konzertant, sem samstarfsverkefni Íslensku óperunnar, Sinfóníuhljómsveitar Íslands og Listahátíðar  í lok maí 2020. Tímasetningin hentaði einkar vel til að lokka að erlenda gesti, en mikill áhugi hefur verið hjá mörgum í langan tíma á Íslandsferð í tengslum við Wagnersýningu. Í tengslum við sýningarnar höfðum  við í félaginu ákveðið að halda Wagnerdaga í Reykjavík undir hatti Alþjóðasamtaka Wagnerfélaga, með alþjóðlegu málþingi á ensku og þýsku og tónleikum píanósnillingsins Alberts Mamriev. Hátt í tvö hundruð erlendra gesta voru væntanlegir. Við höfðum fengið styrk frá samtökunum og Veröld, hús Vigdísar ákveðið að koma til samstarfs við okkur og hýsa málþingið. Stjórn Alþjóðasamtaka Wagnerfélaga var öll á leiðinni hingað og ætlaði að funda hér. Valkyrjan var svo flutt til febrúarloka 2022 en hefur nú endanlega verið aflýst. Alþjóðlegt málþing og píanótónleikar Alberts Mamriev hafa verið sett á sérstaka Wagnerdaga í byrjun júní, í kringum tónleika Barböru Hannigan. Bætt hefur við Wagnertónleikum Kammersveitar Reykjavíkur, sem verða 2. júní kl 20 í Norðurljósum og marka upphaf Wagnerdaga. Þessir Wagnertónleikar Kammersveitar Reykjavíkur verða þeir fyrstu í sögu sveitarinnar. Mun hún m.a. flytja Wesendonckljóðin í útsetningu fyrir strengjakvartett ásamt sópran, Siegfried Idyll í upprunalegri version og atriði úr Tristan og Isolde með Liebestod, fyrir strengjasextett og sópran. Hanna Dóra Sturludóttir mun syngja með sveitinni. Þýski fiðluleikarinn Martina Trumpp, sem gerði þessar umritanir úr Tristan mun koma til landsins og stjórna Kammersveitinni í þessu verkefni. Tónleikarnir eru hluti af Listahátíð. Á tónleikum 5. júní kl 17 svo Albert Mamriev leika verk eftir Beethoven og Wagner. Tónleikar þessir verða í Salnum í Kópavogi og munu þegar keyptir miðar fjölmargra félagsmanna (áður dagsettir 28. maí 2020) gilda á þessa frábæru tónleika. Svo er það alþjóðlega málþingið undir yfirskriftinni Wagner og Ísland – Norrænu uppspretturnar og áhrif þeirra á Richard Wagner. Fyrirlesarar verða dr. Árni Björnsson, dr.Árni Heimir Ingólfsson, dr. Þórhallur Eyþórsson, Dr. Danielle Buschinger og Selma Guðmundsdóttir píanóleikari og formaður Wagnerfélagsins. Málþingið verður 4. júní í samvinnu við Veröld, Hús Vigdísar, fyrir hádegi á þýsku, eftir hádegi á ensku. Ekki má svo gleyma tónleikum hinnar frábæru Barböru Hannigan 4. júní kl 17, en það eru seinni tónleikar hennar sem verða fyrir valinu á Wagnerdögum. Fyrirhugað er að gera sér glaðan dag með veislumáltíð í Kolabrautinni eftir þá tónleika.

Að lokum vil ég geta þess að félagar í Wagnerfélaginu eru nú 230 talsins og bætast stöðugt nýir félagar í hópinn. Ekki er mikið um úrsagnir úr félaginu, en haft er að reglu að taka menn út af félagaskrá greiði þeir ekki félagsgjöld sín tvö ár í röð. Sem formaður vil ég nota tækifærið og þakka ánægjulegt samstarf við stjórn félagsins og varastjórn, svo og endurskoðendum félagsins, þeim Halldóri Halldórssyni og Guðrúnu Nordal og endurskoðanda til vara, Guðbjarti Kristóferssyni. Einnig Menntamálaráðuneytinu fyrir veittan styrk fyrir Styrkþega til Bayreuth. Ég þakka fyrirlesurunum okkar, Árna Blandon, Árna Björnssyni, Aðalheiði Guðmundsdóttur, Þórhalli Eyþórssyni og Reyni Axelssyni og sérstaklega þakka ég Jóni Ragnari Höskuldssyni fyrir framlag sitt til heimasíðu félagsins og umsjón og tæknilausnir við streymisútsendingar.

26.3.2022
Selma Guðmundsdóttir