Ársskýrsla 2024

Aðalfundur 1. febrúar 2025 í Safnaðarheimili Neskirkju

Skýrsla formanns, Selmu Guðmundsdóttur, á 29. aðalfundi félagsins 1.2. 2025 í Safnaðarheimili Neskirkju.

Þetta er 29. aðalfundur Richard Wagner félagsins á Íslandi, en félagið var formlega stofnað 12. desember árið 1995, að undangengnum undirbúningsstofnfundi sama sumar úti í Bayreuth.

Samkvæmt lögum félagsins er kosið í stjórn annað hvert ár og var það síðast gert í fyrra og því verður ekki kosning að þessu sinni. Stjórnina skipa, auk mín sem formaður félagsins: Sólrún Jensdóttir varaformaður, Jón Ragnar Höskuldsson gjaldkeri, Egill Arnarson ritari og Friðrik R. Jónsson í aðalstjórn. Í varastjórn Gunnar Snorri Gunnarsson, Ólöf Jónsdóttir og Þórhallur Eyþórsson.

Starfsárið í fyrra hófst 20. janúar í Safnaðarheimili Neskirkju með erindi Ásdísar Egilsdóttur, sem hún nefndi Tristan á Íslandi og íslenskur Tristan í Bayreuth. Margur hefði ætlað að þessi íslenski Tristan í Bayreuth vísaði í Þorleif Örn en þetta var tilvísan í óperuna Gretti, eftir Þorkel Sigurbjörnsson, sem var sýnd í Bayreuth fyrir ca 20 árum Að loknu erindi Ásdísar var óperan sjálf sýnd í uppfærslu La Scala frá 2007. Leikstjóri Patrice Chéreau, hljómsveitarstjórn Daniel Barenboim. Margrómuð sýning með Waltraud Meier og Ian Storey í titilhlutverkum. Þetta var eina Wagneróperan fyrir utan Hringinn, sem Chéreau leikstýrði.

13. febrúar, á dánardegi Wagners, flutti Sigríður Þorgeirsdóttir heimspekingur erindi í Veröld, Húsi Vigdísar, um Wagner og Nietzsche sem hún nefndi: Wagner sem dekadent og hysteríker. Hvernig Nietzsche reyndi að rústa Wagner. Þar fjallaði hún skv. eigin kynningu, m.a. um hvernig Samband Nietzsches og Wagners hófst sem „stjörnuvinskapur“ en endaði í móðgunum og fjandsemi. Heimspekingurinn sem hampaði Wagner sem endurnýjunarafli þýskrar menningar í fyrstu bók sinni um „Fæðingu harmleiksins“ átti eftir að henda honum á menningarhaugana með einni sinni síðustu bók um „Tilfellið Wagner“ þar sem hann lýsir honum sem hysterískum, dekadent listamanni. Hvað olli vinslitum þeirra og hvað segir þessi ádeila Nietzsches um heimspeki hans og menningarfyrirbærið Wagner? Að loknum fyrirlestrinum héldu félagsmenn í Stúdentakjallarann og drukku minningu Wagners undir leiðsögn Baldurs Símonarsonar um drykkjarföng við hæfi meistarans.

24. febrúar var aðalfundur félgsins haldinn hér í Safnaðarheimilinu og að honum loknum var erindi Magnúsar Lyngdals: Wagner, Brahms og „Nýþýski skólinn“.

30. mars, laugardaginn fyrir páska, var Parsifal sýndur í Þingholti í Hótel Holti. Sýnd var uppfærsla Norðmannsins Stefan Herheim frá Bayreuth 2012. Á undan sýningunni fengum við Þorleif Örn Arnarson í heimsókn til að segja frá reynslu sinni sem óperuleikstjóri, en hann hefur m.a. sett upp Lohengrin í Augsburg, Siegfried í Karlsruhe og Parsifal í Hannover. Parsifal var aðal umræðuefnið auk þess sem Þorleifur sagði frá undirbúningi að uppsetningu á Tristan og Isolde í Bayreuth sl sumar, en Þorleifur er fyrsti Íslendingurinn sem nýtur þess heiðurs að leikstýra í Bayreuth.

12.-15. maí vorum við tvö úr stjórninni á Wagnerdögum í Madrid, formaður og Gunnar Snorri. Þar voru margir tugir gesta víða að. Stærsti atburðurinn var sýning á Meistarasöngvurunum í leikstjórn Laurent Pelly, hljómsveitarstjóri Pablo Heras-Casado. Margt fleira í boði,ferð til Toledo og flamengo kvöld.
A afmælisdegi Wagners, 22. maí, vorum við aftur í Veröld, Húsi Vigdísar. Sýnd var heimildarmynd Werners Herzog um Bayreuth: Die Verwandlung der Welt in Musik, á ensku The Transformation of the World into Music.

Myndin var gerð í framhaldi af því að Werner Herzog setti upp Lohengrin í Bayreuth árið 1987 og var sú sýning í gangi til 1992. Er heimildarmyndin gerð á síðustu árum uppfærslunnar og er einhver áhugaverðasta heimildarmynd um Bayreuth, sem formaður þekkir. Eru þar viðtöl við marga þekkta hljómsveitarstjóra og leikstjóra og sýnt frá uppfærslum þeirra. Að sýningunni var haldið í Stúdentakjallaranum til að skála fyrir meistaranum og deginum. 

Á vormisseri þreytti fyrrum styrkþegi félagsins, Agnes Thorsteins, frumraun sína sem Senta í óperunni í Krefeld í Þýskaland. Þetta var stór áfangi fyrir Agnesi að fá að spreyta sig í þessu krefjandi hlutverki. Fyrir utan Magneu Tómasdóttur, sem söng Sentu í nokkur skipti í Þjóðleikhúsinu 2002, hefur engin íslensk söngkona sungið hlutverkið, svo formaður viti. Alls voru sýningarnar átta og náði formaður að sjá þá síðustu. Agnes stóð svo sannarlega undir hástemmdu lofi, sem hún fékk í mörgum fjölmiðlum.

Hátt í 40 manns sótti svo Bayreuthhátíðina sl. sumar en þar bar auðvitað hæst sýningu Þorleifs Arnar á Tristani og Isolde, sem naut góðs af samvinnu við sviðslistamanninn Vytautas Narbutis, sem búið hefur á Íslandi í áratugi. Saman sköpuðu þeir mjög sterka og áhrifamikla sýningu, sem reyndar fékk misgóða dóma. Það upplýstist í þessu samhengi að gagrýnendum í Festspielhaus eru alltaf valin sæti á þriðja aftasta bekk. Það skýrir ákveðið misræmi í umsögnum þeirra við það sem þeir upplifðu, sem framar sátu eða horfðu á beina útsetningu á Deutsche Grammophon. Í einu af stærstu hlutverkunum, hlutverki Kurwenal, var Ólafur Kjartan Sigurðsson, sem sýndi frábæra frammistöðu og fékk mikið lof fyrir. Það hefur sjaldan verið jafn gaman að vera á Bayreuthhátíðinni og geta samglaðst löndum okkar með þeirra frábæru afrek.

Snemmsumars kom það einnig í ljós að Sinfónían lofaði heilum Wagnertónleikum 5. september, svokallaðri og sannkallaðri Wagnerveislu, þar sem Ólafur Kjartan var í aðalhlutverki í nokkrum einsöngsatriðum, auk þess sem fluttir voru forleikir. Ólafur var einnig tilnefndur staðarlistamaður hljómsveitarinnar, kom fram í klukkutíma kynningardagskrá í Norðurljósum og hitti einnig félagsmenn og skálaði með þeim í Hnossi, að tónleikunum loknum. Hann mun aftur verða á tónleikum Sinfóníunnar í apríl. Ólafur kom reyndar líka fram á opnunartónleikum Sinfóníunnar, Klassíkin okkar, en þar komu einnig fram tveir fyrrverandi styrkþegar félagsins til Bayreuth, þær Agnes Thorsteins og Karin Torbjörnsdóttir.

12. október var Magnús Lyngdal með erindi í Safnaðarheimili Neskirkju og fjallaði um hljóðritunarsögu Hringsins. Til kynningar sagði Magnús: Það eru til alls 229 hljóðritanir (auk 49 í mynd), en mikill meirihluti þeirra eru „unofficial“. Slík yfirferð er líka að einhverju leyti yfirlit yfir flutningssögu Hringsins, a.m.k. í Bayreuth.

26.-31. október fór hópur á vegum félagsins til Mílanó og sá frumsýningu á Rínargullinu og Rósariddara Strauss. Nýr Hringur er í smíðum á La Scala í leikstjórn David McVicar. Valkyrjan fer á svið nú í febrúar og Siegfried í júní. Götterdämmerung verður svo eftir áramót og loks allur Hringurinn í mars 2026. Ólafur Kjartan fer með hlutverk Alberichs í öllum Hringnum. Hann sló mjög eftirminnilega í gegn í Rínargullinu og fékk hástemmt lof úr öllum áttum, enda átti hann bæði stjörnuleik og skilaði um leið hlutverkinu raddlega eins og best verður kosið. Að loknu Rínargullinu slógum við, sem þarna vorum, okkur saman við Wagnerfélaga frá Madrid og Mílanó og snæddum á veitingastaðnum Rauða kettinum. Daginn eftir horfðum við svo á Rósariddarann, í leikstjórn Harry Kupfers. Kirill Petrenko stjórnaði hljómsveitinni. Þessi sýning var, ekki síður en Rínargullið, algjör upplifun bæði í leik og söng, ekki síst fyrir tilstilli Petrenkos. Þessi litli en ánægjulegi hópur Mílanófara naut svo leiðsagnar Íslendings, búsettum í Mílanó, til hinnar sögufrægu Bergamo borgar. En Hringurinn heldur áfram, Thielemann hætti að vísu við að stjórna hljómsveitinni en Simone Young og fleiri tóku við keflinu. Nú þegar hafa nokkrir skráð sig í ferð á Valkyrjuna í febrúar, með henni má sjá uppfærslu af Eugene Onegin. Einnig hyggjast nokkrir sjá Siegfried í júní.

Árshátíð félagsins var haldin 9. nóvember á Hótel Holti. Ræðumaður kvöldsins var Árni Blandon sem flutti erindið: Minningar Wagners um Ludwig Schnorr von Carolsfeld. Um erindið sagði Árni: „Það voru ekki bara sönghæfileikar Schnorrs sem Wagner dáðist að, heldur líka leikarahæfileikar hans. Í minningum sínum lýsir Wagner því hvernig hann útskýrði verk sín fyrir

Schnorr og leikstýrði honum.“ Þess má geta að Ludwig þessi var fyrsti Tristaninn og dó aðeins 29 ára gamall, sumir segja af völdum hlutverksins, þegar hann hafði sungið það aðeins fjórum sinnum. Undir fordrykknum kom Hallveig Rúnarsdóttir og flutti m.a. nokkur af Wesendonckljóðum Wagners, sem hún mun á næstunni gefa út á geisladisk. Með henni lék Hrönn Þráinsdóttir. Undir borðum voru frásagnir félagsmanna. Hjördís Smith og Ólafur Þ. Harðarson sögðu frá fyrstu óperuferð sinni til Bayreuth. Gunnar Snorri Gunnarsson frá ferð á Wagnerdaga í Madrid maí og Mílanó í október. Friðrik Jónsson frá Tristan og Isolde í Bayreuth. Veislustjóri var Ásdís Egilsdóttir.

7. desember stóð til að sýna Lohengrin í uppsetningu Werners Herzog í Bayreuth frá 1990. En þar sen Kringlubíó sýndi sama dag Töfraflautuna frá Met var ákveðið að fresta til 11. janúar.

Félagið hefur verið meðlimur í Alþjóðasamtökum Wagnerfélaga í næstum þrjá áratugi, árgjaldið nemur 2 evrum fyrir hvern félagsmann. Í samtökunum eru samanlagt yfir 20.000 félagar í 125 Wagnerfélögum víða um heim og í öllum heimsálfum. Félagið okkar var fyrir skömmu númer 29 í röðinni að stærð en vafalaust langstærst miðað við höfðatölu. Samtökin hafa staðið fyrir árlegu þingi með glæsilegri dagskrá.. Í fyrra var það í Berlín, í ár verður ekki eiginlegt þing en formannafundur í Bayreuth í maí. Stefnt er svo að þingi í Köln á næsta ári og þarnæsta í Nice.

Önnur verkefni Alþjóðasamtakanna fyrir utan þessi árlegu þing hafa m.a. verið að standa fyrir Wagnersöngkeppni á þriggja ára fresti og var keppnin í all nokkur skipti í Karlsruhe, af miklum myndarbrag í samvinnu við óperuna þar. Nú er leitað að nýjum stað og hefur dregist að finna aðila. Samtökin hafa einnig styrkt keppni fyrir unga leikstjóra og leikmyndahönnuði í Graz. Tobias Kratzer sem leikstýrði Tannhäuser sýningunni í Bayreuth í fyrra og nú nýjum Niflungahring í München er einmitt sigurvegari úr þessari keppni, sömuleiðis Valentin Schwarz, sem nú leikstýrir Niflungahringnum í Bayreuth. Formaður átti þess kost fyrir tveim vikum að fylgjast með undanúrslitum keppninnar, en 9 lið höfðu verið valin úr, af yfir 100 umsóknum, til að keppa til úrslita. Viðfangsefni að þessu sinni var óperan Orfeo eftir Monteverdi. Af þessum 9 liðum (sem í voru oftast 3 eða 4) komust 3 lið áfram og er lokakeppnin í Graz í júní. Samtökin hafa einnig aðkomu að Wagnerdögum í Feneyjum í nóvember ár hvert. Eins og félagsmönnum er kunnugt hefur formaður átt sæti í stjórn samtakanna frá því 2014 og var endurkjörin á aðalfundinum í Berlín 2024 til næstu fimm ára, sú eina úr fráfarandi stjórn. Nýr forseti er Harry Leutscher frá Amsterdam.

Eitt af mikilvægustu verkefnum aðildafélaga alþjóðasamtakanna er að fjármagna starf Richard Wagner Styrkþegastofnunarinnar í Bayreuth sem hefur það markmið að styrkja unga tónlistar- og sviðslistamenn til að sækja Bayreuthhátíðina. Félagið hefur frá 1998 sent styrkþega á hátíðina og tvisvar fleiri en einn. Sl. sumar fór söngkonan Silja Elsabet Brynjarsdóttir en á komandi sumri hefur Íris Björk Gunnarsdóttir sótt um að fara. Fyrir styrkþegana eru í boði, auk þriggja sýninga, leiðsögn um Festspielhaus, heimsókn í Franz Liszt safnið og í Richard Wagner safnið. Framlag félagsins til þessa málefnis hefur hækkað ört síðustu ár og er nú um 800 Evrur. Menntamálaráðuneytið hafði frá upphafi styrkt félagið vegna þessa máls, sem fór í ferðakostnað styrkþega, en sl 3 ár höfum við því miður fengið synjun. Höfum við því þurft að bæta ferðastyrk við þessar 800 evrur. Um 250 styrkþegar koma ár hvert á hátíðina, flestir frá Þýskalandi.

Eins og áður hefur komið fram hafa fyrir ötula baráttu Alþjóðasamtakanna réttindi Wagner félaga til að kaupa miða á Bayreuthhátíðina verið aftur tekin upp. Það hefur gengið vel undanfarin ár að mæta óskum félagsmanna. Miðunum er úthlutað úr ákveðnum potti, sem Alþjóðasamtökin hafa til ráðstöfunar og er úthlutað í samræmi við félagafjölda og halda formenn félaganna utan um að skila umsóknum. Úthlutun er lokið fyrir komandi sumar og fengu allir óskir sínar uppfylltar, samanlagt um 40 manns, eða um 100 miðar. Þar af fara 13 manns að sjá Niflungahringinn. Aðgöngumiðasala er að öðru leyti orðin mun aðgengilegri og oft hægt að kaupa afgangsmiða beint á netinu.

Það hefur orðið bið á því að fá Wagneróperu aftur á svið, hér heima, eftir Litla Hringinn 1994 og Hollendinginn 2002. Uppsetningu á Valkyrju var frestað tvisvar og svo blásin af. Stjórnin er nú í samtali við Sinfóníuhljómsveit Íslands, Þjóðleikhúsið og Listahátíð um hvaða möguleikar gætu verið fyrir hendi með aðkomu hljómsveitarinnar. Okkur vantar stóran atburð fyrir 30 ára afmæli félagsins í desember.

Á næsta ári er 150 ára afmæli Niflungahringsins og Bayreuthhátíðarinnar. Eins og þeir vita sem fylgst hafa með, þá er verið að sýna Hringinn í hverri borginni á fætur annarri. Bara ekki á Íslandi, þó verkið sé sannanlega hálfíslenskt og hefði líklega aldrei orðið til nema fyrir það að Wagner komst í íslensku bókmenntirnar. Af 10 bókum, sem skiptu hann, að eigin sögn, mestu máli við samningu Hringsins, var helmingur íslenskur. Niflungaljóðið nefnir hann ekki einu sinni enda segir hann annars staðar að hann hefði aldrei skrifað þetta verk um Siegfried ef hann hefði aðeins þekkt hann úr Niflungaljóðinu. Það er því bókstaflega menningarleg skylda okkar að flytja verkið í heild, enda vekur það stöðugt furðu erlendis að það skuli ekki hafa gerst, nema með Litla Hringnum. Við eigum svo mikið af hæfileikaríkum söngvurum og afbragðs hljómsveit, eigum flest ef ekki allt, sem til þarf. Í Alþjóðasamtökunum hef ég haft umsjón með norrænu félögunum, það hefur leitt mig þrívegis til Helsinki, þar sem ég horfði á allar Hringóperurnar nema Rheingold. Frábær uppsetning Önnu Kelo. Norðmenn eru að undirbúa nýjan Hring í Osló. Danir eru nánast á hverju leikári með Wagneróperu. Í Englandi er talsvert um að Hringurinn sé fluttur með verulega minnkaðri hljómsveitargerð, m.a. á þessu ári í Regents Opera í London. Þar er hljómsveitin minnkuð niður í 20 manns. Á sama tíma sýnir Covent Garden Hring í leikstjórn Barrie Kosky. Nú er víða í Þýskalandi verið að sýna Hringinn á einu kvöldi, í útgáfu þýska leikarans Loriot, sem stytti Hringinn og samdi texta á milli, sem hann fór upphafega með sjálfur. Agnes Thorsteins mun fara með hlutverk Brynhildar í uppfærslu, sem verður frumsýnd í Koblenz 8. febrúar. Formaður stefnir að því að vera viðstaddur. Enn sem fyrr reynum við að bæta okkur óperusveltið og stofna til óperuferða erlendis og fara t.d. 44 félagsmenn til Barcelona í mars að sjá Lohengrin í leikstjórn Katharinu Wagner. Þar mun Ólafur Kjartan fara með hlutverk Telramunds..
Síðustu ár höfum við notið aðstoðar Axel Ruis, hjá Weopera í Barcelona, sem hefur reynst okkur mjög vel. Fyrst með miða á Valkyrjuna í Napolí í hitteðfyrra, á La Scala og nú í Barcelona. Hann gaukar líka stöðugt að okkur nýjum hugmyndum.

Að lokum vil ég geta þess að félagar í Wagnerfélaginu eru nú 250 talsins og bætast stöðugt nýir félagar í hópinn. Ekki er mikið um úrsagnir úr félaginu, en haft er að reglu að taka menn út af félagaskrá greiði þeir ekki félagsgjöld sín tvö ár í röð. Sem formaður vil ég nota tækifærið og þakka ánægjulegt samstarf við stjórn félagsins og varastjórn, svo og endurskoðendum félagsins, þeim Guðjóni Magnússyni og Guðrúnu Nordal og endurskoðanda til vara, Guðbjarti Kristóferssyni. Ég þakka fyrirlesurunum síðasta árs, Ásdísi Egilsdóttur, Magnúsi Lyngdal, Sigríði Þorgeirsdóttur og Árna Blandon, og sérstaklega þakka ég Jóni Ragnari Höskuldssyni fyrir framlag sitt til heimasíðu félagsins og umsjón og tæknilausnir á samkomum félagsins.
1.2.2025
Selma Guðmundsdóttir
Formaður Richard Wagner félagsins,
www.wagnerfelagid.is