Kvikmyndasýningar
Inngangur
The Wagner Family, 29. mars 2014
Sýnd var nýleg heimildarmynd Tonys Palmer, The Wagner Family, þar sem Wagner en þó einkum afkomendur hans fá mismunandi góða dóma samtíðarmanna og eigin skyldmenna.
Siegfried Wagner, 18. janúar 2014
Dagskrá í Norræna húsinu tileinkuð Siegfried Wagner. Reynir Axelsson fjallaði um þennan son Wagners og kom þar margt áhugavert fram um Siegfried, sem hætti við að verða arkitekt en varð í staðinn tónlistarmaður, tónskáld , hljómsveitarstjóri og stjórnandi Bayreuthhátíðarinnar. Hann samdi um 20 óperur sem flestar voru fluttar meðan hann lifði en að honum látnum ákvað fjölskyldan að nóg væri að hafa einn Wagner sem tónskáld og stuðlaði frekar að því að verk hans væru ekki lengur flutt heldur en hitt. Á eftir fyrirlestri Reynis var sýnd upptaka af óperu Siegfrieds, Der Kobold.
Wagner in Exile, 2. nóvember 2013
Árshátíð Wagnerfélagsins á Hótel Holti. Á undan borðhaldi var fyrst sýnd glæný heimildarmynd, Wagner in Exile um útlegðarár Wagners í Sviss.
Wagner’s Dream, 10. mars 2013
Sýnd var heimildarmyndin Wagner’s Dream um uppsetningu Kanadamannsins Robert Lepage á Niflungahringnum í New York. Í upphafi myndarinnar lýsir Lepage því yfir hversu mikla þýðingu það hafi haft fyrir sig að koma til Íslands um það leyti sem hann tók verkið að sér og hitta hér fyrir rætur verksins og það umhverfi sem síðan veitti honum svo sterkan innblástur við uppsetninguna. Andstæður elds og íss, hið síkvika og breytilega í íslenskri náttúru og ekki síst flekaskilin, sem endurspeglast ótrúlega sterkt í leikmyndinni.
Wagner og gyðingaandúð, 24. febrár 2013
Reynir Axelsson var með fyrirlestur um Wagner út frá sjónarhóli Gyðingarandúðar Wagners og hvort hennar sæjust merki í verkum hans. Sýnd var svo sviðssetning Meistarasöngvaranna frá Nürnberg frá óperuhátíðinni í Glyndebourne
Wagner and Me, 2. desember 2012
Sýnd var í Norræna húsinu var heimildamynd breska leikarans Stephen Fry, Wagner and Me, sem var ákaflega vel heppnuð könnunarferð leikarans um æviskeið Wagners sem leiddi hann til flestra þeirra staða sem skiptu máli í lífi tónskáldsins. Í myndinni er m.a. hrakinn sá orðrómur að í útrýmingarbúðum nasista hefði Wagner verið spilaður frá morgni til kvölds. Talað er í myndinni við aldraða tónlistarkonu, sem lifði helförina af en hafði spilað á selló í fámennum hljóðfærahópi í fangabúðunum. Hún sagði að augljóslega hefðu þessir fámennu hópar tónlistarmanna sem spiluðu á hljóðfæri sín í fangabúðunum ekki spilað Wagner. Ástæðan einfaldlega að hann skrifaði nánast ekkert fyrir slíkar hljóðfærasamsetningar, enga kammertónlist.
Wagner og Puccini, 25. mars 2012
Reynir Axelsson flutti erindi um Wagner og Puccini. Að því loknu var sýnd kvikmynd Tony Palmers: Puccini, sem varpar ljósi á lítt þekkt atriði úr ævi hans og er að mestu tekin upp í Torre del Lago, þar sem hann bjó lengi. Óperan Turandot kemur mikið við sögu í myndinni.
Fidelio, 18. febrúar 2012
Sýnd var í Norræna húsinu ópera Beethovens, Fidelio. Þetta var uppfærsla frá Vínaróperunni undir stjórn Leonard Bernstein og í leikstjórn Austurríkismannsins Otto Schenk
Siegfried, 5. nóvember 2011
Félagsmenn og aðrir nutu beinnar útsendingar á sviðssetningu Kandamannsins Robert Lepage á Siegfried frá Metropolitan óperunni í New York. Þar bar helst til tíðinda að ungur Texasbúi, Jay Hunter Morris, stökk inn fyrir áður auglýstan Siegfried og leysti þetta vandasama verkefni með einstökum glæsibrag. Að sýningunni lokinni snæddu á þriðja tug félaga saman á Kringlukránni.
Lohengrin, 14. ágúst 2011
Lohengrin sýndur í beinni útsendingu á netinu frá Bayreuth. Fjöldi fólks safnaðist saman á útitorginu í bænum en aðrir sátu við tölvurnar um heim allan. Í miðri útsendingu brast á mikið óveður í Bayreuth með úrhellisrigningu og stormi. Forsvarsmenn dreifðu regnstökkum og fólk lét sér hvergi bregða og horfði áfram á útsendingu við þessi kröppu skilyrði. Hér heima á Íslandi söfnuðust félagsmenn saman í Norræna húsinu og horfðu saman á sýninguna, alveg ótruflaðir af þessu óveðri.
Hollendingurinn fljúgandi, 2. apríl 2011
Magnús Lyngdal Magnússon flutti fróðlegt erindi um hljóðupptökur á Hollendingnum fljúgandi og sýnd var að fyrirlestrinum loknum upptaka Hollendingsins í bíómynd, gerðri af Tékkanum Vaclav Kaslik. Þar fór Donanld McIntyre með hlutverk Hollendingsins. Hljómsveit Bayerischer Staatsoper og kór tóku þátt í uppfærslunni, hljómsveitarstjóri var Wolfgang Sawallisch.
Trójumennirnir, 5. mars 2011
Sýnd var ópera Berlioz Trójumennirnir í upptöku frá Salzburgarhátíðinni.
Wagner og Berlioz, 22. janúar 2011
Reynir Axelsson stærðfræðingur um Wagner og Berlioz. Fyrirlesturinn var í röðinni „Samtímamenn Wagners, áhrifavaldar og keppinautar. Sýnd var kvikmynd Tony Palmers „Ég Berlioz“ frá árinu 2009.
Götterdämmerung, 5. desember 2010
Sýnd var í Norræna húsinu uppfærsla af síðustu Niflungahringsóperunni, Götterdämmerung. Þetta var upptaka frá Bayreuth úr hinum svokallaða Rosalie-Hring, sem var frumsýndur árið 1994 og kenndur við myndlistarkonuna Rosalie, sem hannaði sviðsmynd og búninga. 30 manna hópur Íslendinga sá þennan Niflungahring sumarið 1995, í aðdraganda stofnun félagsins, en eingöngu Götterdämmerung verður gefin út á mynddiski.
The Transformation of the World into Music, 6. nóvember 2010
Í minningu Wolfgangs Wagner var í upphafi horft á Bayreuthheimildarmynd Werners Herzog, The Transformation of the World into Music.
Rínargullið, 9. október 2010
Félagsmenn og aðrir nutu beinnar útsendingar á afar hrífandi sviðssetningu Kandamannsins Robert Lepage á Rínargullinu frá Metropolitan óperunni í New York. Stjórn félagsins kynnti Wagnerfélagið í anddyri Sambíóa á undan sýningu og að henni lokinni snæddu á fjórða tug félaga saman á Kringlukránni
Valkyrjan, 21. ágúst 2010
Bein útsending á netinu frá Bayreuthhátíðinni. Var þar um að ræða sýningu á Valkyrjunni úr Niflungahring Tankreds Dorst og Christians Thielemann. Ekki var gott um vik að horfa á útsendinguna beint, þar sem hana bar upp á menningarnótt í Reykjavík, en það var horft á hana tveim vikum síðar í Norræna húsinu.
Parsifal, páskar 2010
Sýnd var á Hótel Holti ný upptaka af Parsifal frá óperuhúsinu í Zürich. Leikstjóri Hans Hollman og hljómsveitarstjóri Bernard Haitink.
Lohengrin, 13. mars 2010
Sýnd uppsetning hins þekkta kvikmyndaleikstjóra Werners Herzogs af óperunni Lohengrin frá Bayreuth 1993. Hljómsveitarstjóri var Peter Schneider
Franz Liszt, febrúar 2010
Árni Heimir Ingólfsson, tónlistarstjóri Sinfóníuhljómsveitarinnar flutti erindi um Franz Liszt. Þar var fjallað um stöðu Liszts í tónlistarsögu 19. aldar, samband Liszts og Wagners og þýðingu hins fyrrnefnda fyrir Wagner og verk hans. Að erindinu loknu var sýnd ameríska verðlaunakvikmyndin A Song without End frá árinu 1958. Leikstjóri þeirrar myndar er Charles Vidor og er Franz Liszt í myndinni leikinn af Dirk Bogarde.
Freischütz, janúar 2010
Reynir Axelsson stærðfræðingur fjallaði um óperuna Freischütz og sýnt var myndband með uppfærslu Ruth Berghaus af þessari óperu Webers frá óperuhúsinu í Zürich. Fyrirlesturinn var í sýningarröðinni „Samtímamenn Wagners, áhrifavaldar og keppinautar.
Tristan og Isolde, nóvember 2009
Sýndur glænýr DVD diskur með uppsetningu kvikmyndaleikstjórans Patrice Chéreau á óperunni Tristan og Isolde við La Scala óperuna í Mílanó árið 2007. Hljómsveitarstjóri sýningarinnar var Daniel Barenboim. Þessi frábæra uppfærsla var fyrsta aðkoma Patrice Chéreau að uppsetningu Wagneróperu frá því að hann setti upp hinn margrómaða aldarafmælis Hring í Bayreuth 1976. Sá Hringur var síðan sýndur í sjónvarpi víða um heim og átti ekki hvað síst þátt í stórauknum vinsældum Niflungahringsins á síðustu áratugum, þar sem flest óperuhús heims, stærri sem minni, keppast við að koma upp sínum eigin Hringum.
Karajan, 4. apríl 2009
Dagskrá í tilefni af 100 ára afmæli Herbert von Karajan í Listaháskólanum. Helgi Jónsson tónlistarfræðingur flutti erindi um Karajan og sýnd var af mynddiski upptaka af Rínargullinu frá Salzburg 1973, þar sem Karajan fór bæði með leikstjórn og hljómsveitarstjórn.
Gyðingakonan, 15. mars 2009
Haldið var áfram sýningum í sýningaröðinni “Samtímamenn Wagners, áhrifavaldar og keppinautar”. Sýnd var í Norræna húsinu óperan “La Juive” eða Gyðingakonan eftir franska tónskáldið Jacques Francois Halevy. Á undan sýningunni fjallaði Reynir Axelsson um tónskáldið.
Óperan „K“, 3. febrár 2009
Eitt helsta núlifandi tónskáld Frakka, Philippe Manoury, kynnti óperu sína K, byggða á Réttarhöldunum eftir Kafka. Óperan var frumflutt í Bastilluóperunni í París 2003. Þessi viðburður fór fram í Íslensku óperunni og var samstarfsverkefni við Óperuna, Listaháskólann og Myrka músíkdaga.
Eldskírn Katharinu, 24. janúar 2009
Sýnd var heimildarmyndin Eldskírn Katharinu Wagner eftir Dagmar Kraus og var þar fjallað um fyrstu sviðssetningu Katharinu Wagner, dóttur Wolfgangs og Guðrúnar í Festspielhaus í Bayreuth er hún setti Meistarasöngvarana þar á svið sumarið 2007. Eins og kunnugt er, hefur Katharina nú tekið við stjórn hátíðarinnar ásamt hálfsystur sinni, Evu Pasquier-Wagner.
Afmæli Wagners, nóvember 2008
125 ára dánarafmælis Wagners og 195 ára fæðingarafmælis hans var minnst með 9 klukkustunda kvikmyndasýningu á Hótel Holti. Horft var á bíómyndina „Wagner“ eftir breska kvikmyndagerðarmanninn Tony Palmer. Sýningin hófst kl. 9.30 að morgni, gert var hlé um hádegi og snæddur hádegisverður á hótelinu en síðan haldið áfram fram undir kl. 6.
Parsifal, páskar 2008
Parsifal sýndur af myndbandi, á Hótel Holti. Sýnd var uppfærsla Wolfgangs Wagner frá Bayreuth.
Húgenottarnir, febrúar 2008
Haldið áfram sýningum í sýningaröðinni „Samtímamenn Wagners, áhrifavaldar og keppinautar“. Sýnd var óperan „Húgenottarnir“ eftir Meyerbeer. Á undan óperunni nutu félagsmenn þess að hlýða á afar fræðandi erindi þeirra Þórðar Harðarsonar um Húgenotta og Sveins Einarssonar um sjálfa óperu Meyerbeers.
Hans Knappertbusch, janúar 2008
Sýnt myndband með hljómsveitarstjóranum fræga, Hans Knappertbusch, þar sem hann stjórnaði fyrsta þætti Valkyrjunnar með Vínarfílharmoníunni árið 1963.
Lohengrin, nóvember 2007
Sýnd var á Hótel Holti uppfærsla af Lohengrin frá Óperuhúsinu í Baden-Baden, unnin í samvinnu við Óperuna í Lyon og Scalaóperuna í Mílano. Hljómsveitarstjóri var Kent Nagano en leikstjóri Nikolaus Lehnhoff.
Parsifal, páskar 2007
Parsifal var sýndur af nýútkomnum mynddiski frá óperuhúsinu í Feneyjum.
Niflungahringurinn, mars 2007
Allur Niflungahringurinn var sýndur á einum mánuði, fjóra sunnudaga í röð. Á undan sýningunum voru fluttar af geisladisk kynningar John Tomlinson á leiðarstefjum óperanna. Að þessu sinni varð fyrir valinu uppfærsla Harry Kupfers og Daniel Barenboim frá Bayreuth í kringum 1990.
Afríkustúlkan, janúar 2007
Ný röð kynninga undir heitinu Samtímamenn Wagners, áhrifavaldar og keppinautar. Félagið hafði eignast nokkur myndbönd með óperum samtímamanna Wagners, bæði þeirra sem voru hans skæðustu keppinautar og annarra sem hann leit mjög til sem fyrirmynda. Ætlunin var að gefa félagsmönnum kost á að kynna sér þessar óperur og skoða þær í samanburði við verk Wagners. Fyrsta kynningin var á óperu Meyerbeers, Afríkustúlkan, uppfærsla frá óperuhúsinu í San Francisco. Á undan sýningunni hélt Reynir Axelsson mjög áhugavert erindi um Meyerbeer og samskipti þeirra Meyerbeers og Wagners.
Hollendingurinn fljúgandi, 12. nóvember 2006
Félagið sýndi uppfærslu af Hollendingnum fljúgandi frá tónlistarhátíðinni í Savonlinna í Finnlandi.
Parsifal, páskar 2006
Sýnd var kvikmyndagerð óperunnar Parsifal, sem gerð var af þýska kvikmyndagerðamanninum Hans-Jürgen Syberberg.
Rínargullið, 25. mars 2006
Rínargullið var sýnt í Norræna húsinu og var það uppfærsla frá óperuhúsinu í Stuttgart. Á undan sýningunni kynntu Selma Guðmundsdóttir og Reynir Axelsson leiðarstef Rínargullsins í máli og tónum og vörpuðu síðan heitum stefjanna upp á skjá samhliða sýningu óperunnar.
Wagner und die Frauen, 5. mars 2006
Sýnd var í Norræna húsinu ný leikin þýsk heimildamynd eftir Andreas Morell sem heitir Wagner und die Frauen. Í þessari heimildamynd var dregin upp mynd af konum þeim sem gegndu lykilhlutverki í lífi Wagners.
Meistarsöngvararnir frá Nürnberg, 5. nóvember 2005
Reynir Axelsson kynnti Meistarsöngvarana frá Nürnberg. Sýnd var upptaka óperunnar frá Metropolitan óperunni í New York. Dagskráin fór fram í Norræna húsinu.
Toscanini, 10. apríl 2005
Dagskrá í Norræna húsinu, þar sem Árni Heimir Ingólfsson flutti mjög áhugaverðan og skemmtilegan fyrirlestur um ítalska hljómsveitarstjórann Arturo Toscanini og tengsl hans við Wagner og Bayreuthhátíðina. Árni Heimir sýndi jafnframt myndbandsbrot frá ævi Toscaninis, m.a. upptökur frá tónleikum.
Parsifal, páskar 2005
Sýnd var í Ríkissjónvarpinu glæný upptaka af Parsifal frá óperuhúsinu í Baden-Baden í Þýskalandi. Þessi sýning var samvinnuverkefni Óperunnar í Baden-Baden við ensku þjóðaróperuna (ENO) í London og óperuna í Chicago undir leikstjórn hins þekkta leikstjóra Nikolaus Lehnhoff. Af þessu tilefni var Kornhlaðan í Bernhöftstorfunni tekin á leigu svo félagar gætu notið sýningarinnar saman.
Tristan og Isolde, 26. febrúar 2005
Félagið sýndi í samvinnu við Vinafélag Íslensku óperunnar uppfærslu frá Metropolitan óperunni í New York á Tristan og Isolde, með þeim Jane Eaglen og Ben Heppner í aðalhlutverkum. Júlíus K. Einarsson kynnti óperuna á undan sýningunni.
Eftirlætsiatriði Niflungahringsins, 6. febrúar 2005
Dagskrá í Norræna húsinu þar sem Árni Tómas Ragnarsson sýndi uppáhaldsatriði sín úr hinni annáluðu uppfærslu Frakkans Patrice Chéreau á Niflungahringnum, sem sett var upp í Bayreuth á 100 ára afmæli Niflungahringsins, árið 1976
Tannhäuser, október 2004
Tannhäuser var sýndur í Norræna húsinu og var það uppfærsla verksins frá Metropolitan óperunni í New York. Reynir Axelsson flutti inngangsorð að sýningunni þar sem hann leitaðist við að útskýra orð Wagners skömmu fyrir andlát hans, þegar hann sagði: „Ég skulda enn heiminum Tannhäuser.“
Parsifal, páskar 10. apríl 2004
Páskasýning félagsins á Parsifal var haldin á Hótel Holti. Sýnd var upptaka frá Metropolitan óperunni í New York.
Niflungahringurinn, janúar - mars 2004
Frá 25. janúar til 7. mars.
Félagið stóð á tveggja vikna fresti fyrir myndbandssýningum á Niflungahringsóperunum fjórum. Sýnd var hin hrífandi uppfærsla Patrice Chéreau og Pierre Boulez frá Bayreuth, en þetta var hátíðaruppfærsla árið 1976 í tilefni af 100 ára afmæli Festspielhaus og frumsýningu Niflungahringsins í Bayreuth. Upptakan var gerð árið 1980 og sýnd í sjónvarpi víða um heim á 100 ára dánarafmæli Wagners 1983.
Hljóðritanir á Niflungahringnum, haust 2003
Dagskrá um hljóðritanir á Niflungahringnum í umsjá þeirra Júlíusar Einarssonar og Reynis Axelssonar. Þar var m.a. sýnd heimildarmynd BBC „The Golden Ring“ frá 1965 um hljóðritun Niflungahringsins í Vín undir stjórn Sir Georg Solti.
Birgit Nilsson, 8. nóvember 2003
Dagskrá í Norræna húsinu um sænsku söngkonuna Birgit Nilsson.
Árni G. Stefánsson rakti æviferil söngkonunnar og rifjaði upp minningar frá námsárum sínum í Svíþjóð er hann upplifði söngkonuna í návígi á fjölum Stokkhólmsóperunnar.
Júlíus Einarsson sýndi af myndbandi og DVD valin brot með söng hennar úr ýmsum uppfærslum og frá tónleikum og loks var sýnt myndband frá Vínarborg með viðtali við Birgit
Rienzi, 22. mars 2003
Fjórði og síðasti fyrirlestur Reynis Axelssonar í fyrirlestrarröðinni Æskuverk Wagners. Þar fjallaði Reynir um óperuna Rienzi og sýndi af myndbandi brot úr uppfærslu óperunnar frá Prag.
Ludwig II, 1. mars 2003
Selma Guðmundsdóttir flutti erindi um Lúðvík II og Wagner og sýnt var af myndbandi úr kvikmynd hins þekkta ítalska kvikmyndargerðarmanns Luchino Visconti, Ludwig II .
Tristan og Isolde, janúar 2003
Óperan Tristan og Isolde var sýnd af myndbandi Norræna húsinu í uppsetningu frá Bayerische Staatsoper í München.
Lohengrin, nóvember 2002
Óperan Lohengrin var sýnd af myndbandi í Norræna húsinu og var þar um að ræða uppfærslu frá Metropolitan óperunni í New York.
Hollendingurinn fljúgandi, í maí 2002
Sýnd var af myndbandi uppfærsla á óperunni Hollendingsins fljúgandi frá Bayerische Staatsoper í München. Reynir Axelsson hélt kynningarfyrirlestur.
Meistarasöngvararnir frá Nürnberg, 16. mars 2002
Sveinn Einarsson kynnti óperuna Meistarasöngvarana frá Nürnberg og sýnd var af myndbandi uppfærsla frá Deutsche Oper í Berlín.
Tannhäuser, 24. nóvember 2001
Sýning á nafntogaðri uppsetningu Götz Friedrich á Tannhäuser í Bayreuth á áttunda áratugnum, þar sem söngkonan þekkta Gwyneth Jones fór með hlutverk bæði Venusar og Elísabetar. Á undan sýningunni flutti Steinn Jónsson læknir mjög áhugaverð inngangsorð og sagði frá skoðunum sínum á efnisinnihaldi verksins.
Il Trovatore, 4. nóvember 2001
Sýnd af myndbandi uppfærsla Íslensku óperunnar af óperu Verdis, Il Trovatore, sem var sýnd í sjónvarpi í beinni útsendingu af fjölum Óperunnar árið 1986.
Parsifal, páskar 2001
Parsifal var sýndur í Norræna húsinu. Sýnd var afar falleg og hefðbundin uppfærsla frá Metropolitan óperunni í leikstjórn Otto Schenk og undir hljómsveitarstjórn James Levine.
Winifred Wagner og saga Villa Wahnfried 1914-1975
Sýnd var í tvennu lagi á Hótel Holti heimildamyndin í nóvember og desember, „Winifred Wagner og saga Villa Wahnfried 1914-1975“. þessi umdeilda mynd var tekin upp árið 1975 af Hans Jürgen Syberberg og byggir á viðtölum við tengdadóttur Richards Wagner, hina breskættuðu Winifred. Myndin olli töluverðu fjaðrafoki á sínum tíma ekki síst vegna hispurslausrar umfjöllunar Winifred um samband sitt við Adolf Hitler og nasistatímabilið.
Parsifal, páskar 2000
Parsifal var sýndur í Norræna húsinu. Að þessu sinni var ekki sýnd hefðbundin uppfærsla óperunnar heldur 90 mínútna bíómynd Tony Palmers, sem ber heitið Parsifal – The Search for the Grail. Í myndinni leiðir sögumaður (Placido Domingo) áhorfendur í gegnum söguna um Parsifal og á milli eru brot úr óperu Wagners sem tekin voru upp í Ravello á Ítalíu. Leitast var við að varpa ljósi á mikilvægi gralsins í 2000 ár og inn á milli voru tvinnuð samtöl við ýmsa þekkta fræðimenn um Wagner og guðfræði. Auk þess var vísað til hliðstæðna við Parsifal í kvikmyndasögunni, m.a. til kvikmynda Stevens Spielberg og Ingmars Bergman. Einnig var reynt að skýra hvað vakti fyrir Wagner sjálfum með Parsifal og brugðið upp brotum úr ævisögulegri kvikmynd Palmers um Wagner, sem sýnd var á vegum félagsins fyrir 2 árum.
Götterdämmerung, mars 2000
Sýningar þessar eru í samvinnu við Félag íslenskra fræða.
Uppsetning Metropolitan óperunnar í New York á Niflungahringnum í leikstjórn Otto Schenk og hljómsveitarstjórn James Levine.
Siegfried, 12. febrúar 2000
Sýningar þessar eru í samvinnu við Félag íslenskra fræða.
Uppsetning Metropolitan óperunnar í New York á Niflungahringnum í leikstjórn Otto Schenk og hljómsveitarstjórn James Levine.
Valkyrjan, haust 1999
Sýningar þessar eru í samvinnu við Félag íslenskra fræða.
Uppsetning Metropolitan óperunnar í New York á Niflungahringnum í leikstjórn Otto Schenk og hljómsveitarstjórn James Levine.
Rínargullið, haust 1999
Sýningar þessar eru í samvinnu við Félag íslenskra fræða.
Uppsetning Metropolitan óperunnar í New York á Niflungahringnum í leikstjórn Otto Schenk og hljómsveitarstjórn James Levine.
Íslenski Hringurinn
Upptaka íslenska sjónvarpsins af sýningu Niflungahringsins á Listahátíð 1994 sýnd í Ríkissjónvarpinu.
Tony Palmer um Richard Wagner í febrúar 1999
Átta klukkutíma löng mynd Tony Palmers um Richard Wagner sýnd 7., 14. og 21. febrúar.
Tristan og Isolde, 14. nóvember 1998
Sýning á óperunni Tristan og Isolde í Norræna húsinu.
Þórður Harðarson prófessor og yfirlæknir flutti kynningu með tóndæmum á píanóið.
Meistarasöngvararnir í Nürnberg, október 1998
Reynir Axelsson annaðist mjög áhugaverða kynningu á óperunni.
Parsifal, föstdaginn langa 10. apríl 1998
Óperan Parsifal var sýnd í Safnaðarheimili Dómkirkjunnar. Sýnd var upptaka frá Wagnerhátíðinni í Bayreuth.
Á undan flutti Árni Björnsson skemmtilegt erindi um íslensku útgáfu sögunnar um Parsifal.
Lohengrin, 14. mars 1998
Óperan Lohengrin var sýnd af myndbandi í Norræna húsinu, og var valin til sýningar uppsetning frá Vínaróperunni.
Á undan sýningunni héldu þau Reynir Axelsson og Anna M. Magnúsdóttir kynningarfyrirlestur.
Parsifal, 28. mars 1997
Parsifal var sýndur í annað sinn, í Safnaðarheimili Dómkirkjunnar og var nú sýnd upptaka frá Deutsche Staatsoper í Berlín.
Leikstjóri Harry Kupfer og hljómsveitarstjóri Daniel Barenboim.
Á undan sýningunni flutti Sigurður Örn Steingrímsson, prófessor í guðfræði mjög fróðleg inngangsorð.
Niflungahringurinn, janúar til apríl 1997
Í janúar hóf félagið myndbandssýningar á Niflungahringnum í Norræna húsinu og var hafður sá háttur á að sýna eina óperu í mánuði, annan sunnudag hvers mánaðar, og stóðu því sýningar yfir allt fram í apríl.
Parsifal, föstudaginn langa 5. apríl 1996
Efnt til myndbandssýningar á Parsifal í Safnaðarheimili Dómkirkjunnar.
Sýnd var upptaka frá Metropolitan óperunni í New York frá árinu 1992.
Hljómsveitarstjóri James Levine og leikstjóri Otto Schenk.
Á undan sýningunni flutti séra Hjalti Guðmundsson inngangsorð.
Valkyrjan, 13. febrár 1996
Fyrsta samkoman á vegum hins nýstofnaða félags var á dánardægri tónskáldsins, 13. febrúar og var haldin á Þingholti í Hótel Holti. Þar var Bayreuthhátiðin kynnt í máli og af myndbandi. Kvöldinu lauk með sýningu fyrsta þáttar Valkyrjunnar í uppsetningu Harrys Kupfer og í hljómsveitarstjórn Daniels Barenboim.