Frá Rínargulli til Ragnarökkurs

Viðureign Richards Wagner við Niflungahringinn

Úr efnisskrá Niflungahringsins 1994

Þess misskilnings verður oft vart að Niflungahringurinn sé saminn upp tir Niflungaljóðunum (Nibelungenlied). Þar er hin býska gerð sagnarinnar um fall Gjúkunga endursögð sem riddarasaga. Úr því verki hafði Wagner fátt annað en nokkrar nafngerðir. Það voru íslensk fornrit sem urðu honum innblástur að verkinu og drógu hann lengra og lengra í átt að sagnabrunninum.

Þegar hann hófst handa við að semja óperu um dauða Sigurðar Fáfnisbana* var það fyrir áhrif Eddukvæða sem um þetta fjalla. – Wagner lýsir þessu í grein frá 1851, sem hann kallar Skilaboð til vina minna. Eftir lestur Eddukvæða kvest hann hafa tekið að sjá persónu Sigurðar í hreinna og upprunalegra ljósi: „Þá fyrst áttaði ég mig á,“ segir hann, „að hann [Sigurður] gat verið aðalpersóna í dramatísku verki, en það kom mér ekki í hug meðan ég þekkti aðeins til hans úr miðaIdakvæðinu Nibelungenlied.“

Upphafið

Greina má sagnirnar um Völsunga og Gjúkunga tvennt, annars vegar norrænu gerðina, eins og hún er í Völsungasögu, Eddukvæðum og Snorra-Eddu, og hins vegar þýsku gerðina, sem þekktust er af Niflungaljóðum og Þiðreks sögu af Bern. Þessar tvær gerðir eru um margt ólíkar, ekki síst um þá atburði, sem gerast eftir að söguþræði Hringsins sleppir, er segir frá afdrifum gullsins og falli Gjúkunga. Síðan er margt ólíkt milli einstakra frásagna af sama meiði.

Þegar þróun Niflungahringsins er skoðuð er rétt að hafa í huga að handrit verksins er skrifað aftur á bak, ef svo má að orði komast, þannig að fyrst var saminn textinn að Siegfrieds Tod, sem var frumgerðin að því sem síðar nefndist Götterdämmerung. Síðan voru prjónuð framan við það drög að verki um uppvöxt Sigurðar Fáfnisbana og loks textinn að tveimur fyrri óperunum.

Wagner byrjaði aðdrætti að verkinu þegar hann var hljómsveitarstjóri í Dresden á fimmta áratug aldarinnar og hóf síðan að rita fyrstu gerð textans að Siegfrieds Tod um haustið 1848. Eins og löngum fyrr og síðar las Wagner sér til um allt sem hann gat um viðfangsefnið. Smám saman fór veröld Snorra og Völsungasögu að teyma hann lengra á veg og breyta hugmyndum hans um verkið. Honum fannst að hann þyrfti að skýra tilvist Sigurðar með öðru verki og að lokum urðu þau fjögur talsins, mikill bálkur um æsi og hetjur, en um leið mögnuð dæmisaga um valdafíkn, ágirnd og bölvun gullsins, sem loksins er létt af með mætti heiðarleika og hreinnar ástar.

Viðhorfin breytast

Viðhorf Wagners breyttust mjög meðan á samningu verksins stóð. Það var þýsk þjóðernishyggja sem fyrst dró hann að Niflungaljóðinu og öðrum germönskum sögnum; draumurinn var um endurreisn glæstrar fortíðar í nýju þýsku ríki. En þetta voru umbrotatímar. Þegar hann tók til við samningu textans höfðu aðstæður breyst að mun og þær breyttust enn mörgum sinnum áður en hann lauk verkinu. Árið 1848 blésu vindar frelsis og þjóðvakningar um þýsku ríkin eftir febrúarbyltinguna í Frakklandi. Á þessurn tíma ritaði Wagner pólitískar hugvekjur í róttæku blöðin í Dresden og vorið eftir stóð hann á götuvígjunum í byltingunum 1849, vinur og lærisveinn stjórnleysingjans Mikhaels Bakúníns. Næstu ár flæktist hann víða sem útlagi áður en hann sneri heim árið 1864 sem skjólstæðingur Bæjarakonungs. Þegar Wagner lauk verkinu hafði hann setið um hríð í sameinuðu þýsku keisaradæmi sem einn höfuðpáfi þýskrar menningar.

Lífsskoðanir Wagners breyttust eftir því sem aðstæður hans snerust. Það var uppreisnarmaðurinn sem hóf fyrstu drætti verksins, bitur útlagi sem reit meginhluta textans og tónlistinni var lokið hálfum þriðja áratug síðar af lífsreyndum manni, sem setið hafði á höfðingjastóli í áratug og sá fram á flestar óskir sínar rætast.

Goðafræði Wagners

Wagner skóp eigin goðafræði upp úr margvíslegum heimildum. Ýmislegt breyttist í meðförum hans meðan á samningu verksins stóð, en þó hélst flest óhaggað sem hann setti upphaflega fram í grein um þetta efni árið 1848. Hún nefnist Der Nibelungen-Mythus als Entwurf zu einem Drama og lýsir helstu dráttum þeirrar sagnar sem sögð er í Hringnum. Greinin fjallar auðvitað ítarlegast um efni seinasta verksins, en um leið er ljóst hve fullburða mynd Wagner hefur gert sér af sögninni í heild. Þarna var mörkuð leiðin sem hann hlaut að fara áður en kom að ferðarlokum.

Einkennilegt er, en satt, að í október 1848, þegar Wagner samdi þessa grein, og síðan efnisdrögin að Siegfrieds Tod var hann hvorki búinn að lesa Völsungasögu né heldur umtalsverðan hluta Eddukvæða. Í útgáfurnar sem hann þekkti þá vantaði nokkur goðakvæði, svo sem Rígsþulu og Fjölsvinnsmál, og ekki síst Lokasennu, en einnig síðari hetjukvæði Eddu, þau sem taka við eftir dauða Sigurðar og fjalla um endalok Gjúkunga og Atla Húnakonung. Að sumu leyti varð þetta efninu til góðs. Wagner var að vísu kunnugt um sumt þetta efni úr öðrum ritum, oft í styttri og einfaldaðri gerð. Þess vegna var honum auðveldara að velja og hafna einstökum efnisþáttum. Þá virtist honum efnið viðráðanlegt sem ein viðamikil ópera. Völsungasögu og seinni hetjukvæðin las hann ekki fyrr en síðar sama vetur, en sú lesning bar hann ekki af leið. Textinn að Siegfrieds Tod var saminn þá um veturinn og fylgir í öllum megindráttum því sem hann hafði sett á blað í október. Um vorið var síðan uppreisnin í Dresden og þar með hraktist Wagner í útlegð.

Rínargullið
Alberich rænir gullinu frá Rínardætrum (efst).
Fáfnir og Fasholt nema Freyju á brott frá Ásum og Loka, Valhöll í baksýn á miðri mynd.
Óðinn og Loki sækja Andvara og Mími heim í Niflheim (neðst).

Það var háttur Wagners að fara frjálslega með heimildir sínar, steypa saman sögnum úr ólíkum áttum og endursemja að eigin vild. Slíkt var reyndar tíska á þeim árum. En ólíkt flestum öðrum gerir hann þetta af mikilli kunnáttu og skilningi á viðfangsefninu. Flestum sem lesnir eru í Snorra-Eddu finnst víst listilegt bragð að því hvernig hann fellir saman í Rínargullinu sögurnar um og borgarsmiðinn, hringinn Andvaranaut, epli Iðunnar og samskipti Óðins og Loka.

Heimildir úr Eddukvæðum

Þær íslensku heimildir, sem Wagner hafði til lestrar áður en hann skrifaði textann að Siegfrieds Tod 1848, voru með ýmsu móti og ansi ósamstæðar. Þær Eddukvæðaþýðingar, sem þá lágu fyrir, voru sumar í óbundnu máli, sumar í bundnu, m.a. nokkrar með stuðlasetningu sem ekki var alls staðar burðug. Fyrir okkur Íslendinga er sú staðreyndin líklega merkilegust að Wagner reyndi að stauta sig fram úr Völuspá í útgáfu Ettmüllers og fleiri Eddukvæðum á frummálinu, með því að grúska í þeim útgáfum sem höfðu bæði frumtexta og þýðingu á sömu opnunni. Vel má vera að þetta hafi ýtt undir tilraun hans til að yrkja textann að Siegfrieds Tod með stuðlasetningu. Sumir fyrri þýðendur höfðu að vísu reynt að þýða með stuðlum, en ekki alltaf mjög hönduglega.

Óðinn - eineygður með hrafna tvo á heðum.

Eins og áður sagði hafði Wagner samið textann að Siegfrieds Tod veturinn 1848-49. Síðan lá verkið í salti þar til sumarið 1851. Wagner var þá kominn til Zürich í Sviss. Skyndilega tók hann á ný til við efnið sem hann glímdi við byltingarveturinn í Dresden og gerði efnisútdrátt að nýrri óperu. Um sumarið samdi hann textann að Der junge Siegfried og um haustið fyrstu drög að Rínargullinu og Valkyrjunni. Árið eftir lýkur hann textanum að öllu verkinu.

Hvað skyldi hafa komið Wagner svona að verki og teymt hann að fyrri þáttum sagnarinnar? Eitt er öðru líklegra. Snemma árs 1851 kom út hin mikla Edduþýðing Karls Simrock, bæði Eddukvæðin og Snorra-Edda, í einu verki, með umtalsverðu efni sem ekki hafði legið á lausu áður, svo sem Svipdagsmálum og Lokasennu.

Loki Laufeyjarson

Það er ekki síst Lokasenna sem virðist hafa lokið upp ýmsum dyrum. Ekki er unnt að hugsa sér persónu Loka í Rínargullinu nema í ljósi þess kvæðis, en áhrifin ná víðar og dýpra. Afstaðan til goðanna breytist mjög frá því sem var í Siegfrieds Tod. Viðhorfið er gagnrýnna og neikvæðara og brestir goðanna eru dregnir skýrar fram. Afstaða goðanna til Loka er greinilega komin úr Lokasennu og eins nokkur efnisatriði og orðalag. Innkoma Donners í Rínargullinu, þegar hann ógnar jötnunum, er þannig greinilega sniðin eftir komu Þórs í veisluna í Lokasennu og hótunum hans þar.

Útgáfa Simrocks gerði að auki mörg Eddukvæðin aðgengilegri fyrir Wagner, enda eru áhrif þeirra mun meiri í þeim texta, sem síðan var saminn, heldur en var í frumgerðinni að Siegfrieds Tod. Það munaði hér um að kvæðaþýðing Simrocks er á góðu og kjarnyrtu máli og mjög þokkalega stuðluð. Þetta er líka sú Edduþýðing sem síðan hefur haldið velli í Þýskalandi.

Á síðustu árum hafa augu fræðimanna beinst að áhrifum Simrocks á Niflungahringinn. Einnig vita menn nú meira um bókakost Wagners og lesefni í Dresden, en hvergi er enn fullunnið úr þeim upplýsingum. Til dæmis hefur enginn náð að rannsaka til hlítar stílræn áhrif Simrocks á texta Hringsins, en við fljóta yfirsýn virðast þau vera umtalsverð. Tungutak verður markvissara og knappara, braglínur styttri og áhrif fornyrðislags og fleiri bragarhátta ótvíræð. Ekki síst verður stuðlasetningin ekki lengur aðeins til skrauts, heldur hluti af hrynjandi textans og þar með hluti af tónlistinni sem við hann var samin.

Í Zürich kynntist Wagner líka einum helsta Eddufræðingi þeirra tíma, Ludwig Ettmüller, sem meðal annars hafði gefið út fyrstu góðu þýðinguna á seinni hetjukvæðum Eddu. Wagner kallaði hann „Eddamüller“, og þarf því ekki að efa að samræður þeirra hafa verið mjög á því sviði. Það hefur verið háttur sumra eldri fræðimanna, að gera mikið úr áhrifum hans á smíði Hringsins, en líklegra er að lesefni Wagners hafi valdið mun meiru. En ekki hefur honum þó komið illa að mega á ráð þess manns leita.

Rínargullið, lokaatriði. Metropolitan óperan 1989.

Þór kemur til veislu

Þá kom Þór að og kvað:

Þegi þú, rög vættur,
þér skal minn þrúðhamar,
Mjöllnir, mál fyrnema;
herðaklett
drep eg þér hálsi af,
og verður þá þínu fjörvi um farið.

Loki kvað:

Jarðar bur
er hér nú inn kominn,
hví þrasir þú svo, Þór?
En þá þorir þú ekki,
er þú skalt við úlfinn vega,
og svelgur hann allan Sigföður.

Þór kvað:

Þegi þú, rög vættur,
þér skal minn þrúðhamar,
Mjöllnir, mál fyrnema;
upp eg þér verp
og á austurvega,
síðan þig manngi sér.

Loki kvað:

Austurförum þínum
skaltu aldregi
segja seggjum frá,
síst í hanska þumlungi
hnúktir þú einheri,
og þóttist-a þú þá Þór vera.

Þór kvað:

Þegi rög vættur,
þér skal minn þrúðhamar,
Mjöllnir, mál fyrnema;
hendi inni hægri
drep eg þig Hrungnis bana,
svo að brotnar beina hvað.

Úr Lokasennu

Óðinn og Loki í Niflungahringnum

Það var fyrst ætlun Wagners sumarið 1851 að prjóna gamanóperu um æsku Sigurðar Fáfnisbana framan við Siegfrieds Tod. Hún átti að heita Der junge Siegfried og var heitið sniðið eftir Þiðreks sögu, þar sem hann er nefndur Sigurður sveinn. Síðan bættist meira efni framan við, harmleikur Valkyrjunnar og goðamál Rínargullsins. Þar með jókst alvaran í málum.

Sú persóna sem flytur alvöruna inn í verkið er Óðinn sjálfur. Wagner hugðist láta Óðin í dulargervi ýta fram málum á tveimur stöðum í óperunni og þó fyrst og fremst leggja á ráðin um smíði sverðsins. Þar með tók hann fljótlega að teygja sig lengra í að skýra tilvist Óðins og áhuga hans á Sigurði. Hann samdi textann að Der junge Siegfried í júní 1851, og enn gat hann ekki rifið sig frá efninu. Um haustið skrifar hann vini sínum í Dresden, Theodor Uhlig, og biður hann um að útvega sér Völsungasögu til lestrar á ný. Þá hafði hann þegar, í fyrra bréfi til Uhligs, rætt um að stækka verkið í þrjár fullburða óperur og inngangsverk að auki. Nú snerist áhugi hans allur að Óðni, kvöl hans og vanda, bölvun hringsins og örlögum heims. Gamanóperan varð kveikja að myrku örlagaverki.

Sumir hafa talið Óðinsmynd Niflungahringsins vera undir áhrifum frá kenningum Arthurs Schopenhauers, en það fær ekki staðist. Wagner kynntist verkum Schopenhauers fyrst 1854, meir en ári eftir að hann lauk við að semja textann að Hringnum. Það er nærtækara að halda að í Hringnum birtist viðhorf mótuð af reynslu hans undangengin ár, byltingunni sem brást og rótlausu lífi útlagans, og því hafi hann síðar orðið móttækilegri fyrir hugmyndum Schopenhauers.

Persóna Loka er í verkinu í flestu svipuð því sem við þekkjum úr norrænum sögnum. Hann er utangarðs í heimi goðanna, en kemur þeim iðulega úr vandræðum með klækjum sínum, ráðkænn en stríðinn, og skefur ekki alltaf utan af hlutunum. Því á það ekki illa við að Loki tælir dverginn á sama veg og kötturinn ginnir risann í ævintýrinu um stígvélaða köttinn.

Alldjörf er sú leið Wagners að leggja Loka og Loga að jöfnu, en það er ekki ástæða til að kvarta. Bæði persónan og tónlistin eru mun líflegri fyrir bragðið. Með söng Loka byrjar Wagner að vinna úr stefjum sínum. Fram að því má segja að tónlist verksins sé einföld framsaga stefjanna, en þegar Loki hefur frásögn sína, byrjar hljómsveitin að segja sjálfstæða sögu með því að rifja upp stefin sem fyrr voru komin fram og flétta þau saman á ýmsa vegu.

Æsir svíkja borgarsmiðinn

Þá settust guðin á dómstóla sína og leituðu ráða, og spurði hver annan hver hefði ráðið að gifta Freyju í Jötunheima eða spilla loftinu og himninum svo að taka þaðan sól og tungl og gefa jötnum. En það kom ásamt með öllum að þessu myndi ráðið hafa sá er flestu illu ræður, Loki Laufeyjarson, og kváðu hann verðan ills dauða ef eigi hitti hann ráð til að smiðurinn væri af kaupinu, og veittu Loka aðgöngu. En er hann varð hræddur þá svarði hann eiða að hann skyldi svo til haga að smiðurinn skyldi af kaupinu, hvað sem hann kostaði til.

Úr Snorra-Eddu

Stuldur gullsins

Goðafræði Rínargullsins er á flestan veg nýsmíði Wagners, lauslega byggð á Snorra og öðrum heimildum. Flestar sagnir gera ráð fyrir að Gjúkungar hafi að lokum sökkt gullinu Fáfnisnaut í Rínardjúp til að fela það sem best, en Wagner dregur inn í verkið nýja hugmynd. Í upphafi erum við stödd í óspilltri náttúru í Rínardjúpum. Gullinu er rænt og það notað á illan og óeðlilegan veg. Náttúrunni er spillt og bölvuninni verður ekki aflétt fyrr en gullinu er skilað á fyrri stað.

Treulich und treu
ist’s nur in der Tiefe;
falsch und feig ist,
was dort oben sich freut.

Þannig hljóðar harmsöngur Rínarmeyja, þegar goðin halda um Bifröst til Valhallar, borgarinnar sem þau guldu fyrir með gullinu.

George Bernard Shaw setti fram merkilega túlkun á verkinu í riti sínu The Perfect Wagnerite. Þar lýsti hann Hringnum sem táknsögu um iðnvæðingu og þjóðfélagsátök 19. aldar. Það er margt til í því sem Shaw heldur fram, en þetta er þó aðeins einn flötur af mörgum. Það er jafn nærtækt að líta á Niflungahringinn sem dæmisögu um spjöll okkar á náttúrunni og illa umgengni við gæði jarðar. Sú túlkun á e.t.v. mest erindi til okkar nú á dögum.

Vornótt Völsunga

Í frásögn Völsungasögu af sifjaspellum Sigmundar og Signýjar er engin ást eða munúð, því Sinfjötli, sonur þeirra, var aðeins getinn til hefnda. Í Valkyrjunni lætur Wagner þau systkinin aftur á móti fyllast þvílíkum bríma að hvorki boð né siðir fá stöðvað þau. Það má kalla með fádæmum að komast upp með slíkt efni í óperu á seinni hluta 19. aldar. En slíkur er galdur tónlistarinnar að samúð áhorfenda er öll með þeim Völsungum. Væntanlega hefur Wagner fundist það nægur skammtur fyrir áhorfendur sína að meðtaka sifjaspell, en fleira má hér finna – ef menn eru lesnir í fræðunum.

Í fyrsta þætti Valkyrjunnar kveðst Sigmundur heita Wehwalt, Wölfes Sohn (þ.e. Vágestur Úlfsson). Hann segir að þeir feðgar hafi verið útlægir sem úlfar í skógi og tekur svo til orða um hvarf föður síns að hann hafi aðeins fundið eftir hann úlfsfeld í rjóðri. Í Völsungasögu segir frá því að þeir Sigmundur og Sinfjötli voru sem úlfhéðnar, varúlfar. Í óperunni er þeim látið eftir að skilja sem til sagnanna þekkja.

Í Völsungasögu er Sigmundur sagður sonur Völsungs, sonar Reris, sonar Siga, sonar Óðins. Hjá Wagner er Sigmundur sonur Wälse, þ.e. Völsa, sem reyndar er Óðinn. Hér verður honum þó á í messunni. Hann hefur ekki áttað sig á að völsi merkir getnaðarlimur (á að vísu oftast við lim hests). Því er það ögn hlálegt, þegar Sigmundur æpir hástöfum: „Wälse, Wälse, wo ist dein Schwert …“. Það hefur verið sagt að tónlist Wagners liggi iðulega neðan við mitti, en fyrr má víst rota en dauðrota! Feigðarboðunaratriðið í öðrum þætti Valkyrjunnar hefur Wagner sótt í Hákonarmál Eyvindar skáldaspillis í Heimskringlu, og sumar línur Wagners eru hrein endursögn á hendingum kvæðisins.

  • Sigurður Fáfnisbani sleikir blóð ormsins — trérista frá Hylestadkirkju í Noregi.
  • Sigurður mætir orminum Fáfni. Uppfærsla Wielands Wagner í Bayreuth 1952

Fall Sigmundar

Og er orrusta hafði staðið um hríð kom maður í bardagann með síðan hatt og heklu blá. Hann hafði eitt auga og geir í hendi. Þessi maður kom á mót Sigmundi konungi og brá upp geirinum fyrir hann og er Sigmundur konungur hjó fast kom sverðið í geirinn og brast sundur í tvo hluti.

Úr Völsunga sögu

Óðinn víkur fyrir Sigurði

Efnisdrættir þeir í Siegfried er varða uppvöxt Sigurðar fara í flestu eftir Þiðreks sögu. Hann elst upp hjá Mími smið og er hinn ódælasti. Wagner dregur hér inn í mynd Sigurðar drætti úr þjóðsögunni um strákinn sem kunni ekki að hræðast og eins og í þeirri sögu er það kona sem nær að valda honum ótta í lokin, þegar hann vekur Brynhildi á fjallinu.

Í atriðinu milli Óðins og völvunnar nær verkið á margan veg dramatískum hátindi sínum. Að minnsta kosti rís hér hæst harmleikurinn um Óðin og bölvun guðanna. Eftir þetta hefur Óðinn það eitt hlutverk að prófa hugdirfð Sigurðar og vita hvort hann er þess verðugur að vaða eldinn á fjallinu. Óðinn er fulltrúi fortíðar og fyrri misgerða. Hann verður að víkja til hliðar og vona að hin nýja kynslóð, Sigurður og Brynhildur, séu þess umkomin að leysa veröldina undan bölvun hringsins. Hið einkennilega er að það er fávísi Sigurðar og sakleysi sem veitir honum sjálfum nokkra vernd fyrir bölvun hringsins. En við alla aðra leikur hringurinn hinn myrka leik sinn og inn í þann hrunadans dregst Sigurður fyrir þeirra verk.

Hléið langa

Eftir að Wagner lýkur við textann 1852 hefst hann fljótlega handa við að semja tónlistina og byrjar á Rínargullinu og heldur áfram hvildarlítið fram á vor 1857. Þá lauk hann við að semja annan þáttinn í Siegfried, en lagði svo verkið til hliðar um árafjöld og komst svo að orði að hann hefði skilið við Sigurð sinn undir grænu skógartré. Þar fékk hann að bíða í átta ár.

Vera má að sumum þyki tónlistin í Siegfried, einkum framan af, lakari en í Valkyrjunni. Þá má að vísu kenna efninu að nokkru um. Atburðirnir eru hér óneitanlega á lægra tilfinningasviði. En allt um það var Wagner sjálfur ekki ánægður með framvindu mála þegar hér var komið. Notkun Wagners á leiðsögustefjum og kunnátta hans í að raða þeim saman og spyrða náði hámarki í fyrri hluta Hringsins og það er ekki laust við að hann sé kominn í þrot um nýja og frjóa túlkun með þessari tækni þegar kemur fram í óperuna um Siegfried.

Þegar Wagner tók aftur til við Niflungahringinn átta árum síðar hafði hann lokið við bæði Tristan og Ísold og Meistarasöngvarana, endurskoðað Tannhäuser og upplifað óperuhneykslið mikla við frumflutning þeirrar gerðar í París árið 1861. Hann hafði á þeim árum lært að vinna tónlistina saman í stærri heildir, ekki síst þegar hann fékkst við Tristan og Isold. Því kveður við nýjan tón í forspilinu að þriðja þætti Siegfrieds, sem myndar eina og sterka heild, en nú er stefjunum fléttað saman í flókinn vef, þar sem sagan er sögð með dýpt sem orð ein fá varla náð, því tónlistin kallar fram minnis- og hugrenningatengsl hraðar og víðar en gert verður í texta.

Það er ýmislegt annað sem breyttist í tónlistinni eftir átta ára hlé. Sumt af því á sér rætur í tilurðarsögu textans og þeim viðhorfsbreytingum sem urðu með Wagner á þeim árum. Eins og áður getur, hafði Wagner öðlast sífellt meira vald yfir stuðlasetningu og annarri braglist eftir því sem fram leið samningu textans. Þannig er stuðlasetningin mun skárri í fyrri óperunum eins og við höfum fyrr rætt. Þar ofstuðlar Wagner að vísu, og margt fleira kann að særa brageyra sumra Íslendinga. Þó leysir hann sumar bragþrautir mjög skemmtilega. Tónlistin er síðan samin með fullu tilliti til stuðlasetningar. Stuðlarnir, og þær áherslur textans sem þeim fylgja, eru augljóslega hluti af hrynjandi verksins. Sums staðar, ekki síst í Valkyrjunni, er t.d. að finna aukastuðlun, sem gengur þvert á meginstuðlunina, en á samt sinn þátt í laglínu og hrynjandi.

Því miður er þessi þáttur lokuð bók mörgum flytjendum Hringsins, bæði söngvurum og stjórnendum, og mætti í því samhengi nefna mörg stór nöfn og fræg. Það væri hægt að fylla í stærstu eyðuna í Wagnerfræðum ef íslenskur tónlistarmaður með gott brageyra tæki að sér að greina bragliði og rétta stuðlasetningu textans með tilliti til laglínu söngsins og tónlistarinnar í heild.

Þegar kemur fram í þriðja þátt Siegfrieds er víða komið í eldri gerð textans með ófullkomnari stuðlun. Þvi tekur Wagner að draga úr vægi stuðlasetningar í tónlistinni, og þó enn frekar í lokaverki Hringsins, Ragnarökum. Reyndar getur þokkalega bragviss maður lesið texta þess verks yfir og giskað með góðri vissu á hvaða atriði eru úr frumgerðinni og hver eru úr seinni gerðum. Stuðlarnir segja þar sína sögu.

Wagner og Cosima

Það er langur vegur milli næturstemningar ástaratriðisins í öðrum þætti Tristans og ástardúetts Sigurðar og Brynhildar um bjartan dag á sólgylltum fjallstindi í Siegfried. Ef til vill má segja að jafnlangur vegur sé milli laumuspils Wagners og Mathilde Wesendonck og hins vegar sambúðar Wagners og Cosimu í allra augsýn. Það er ekki laust við að lokaatriðið í Siegfried skorti munúð á við ástaratriðin í Tristan og Valkyrjunni. Það er fremur eins og opinber ástarjátning á meðan hin atriðin eru næturástir í meinum.

Það þarf enginn að velkjast í vafa um að þetta atriði er ástarjátning til Cosimu. Wagner notar í því stefin úr strengleiknum góða, verkinu sem oftast er nefnt Siegfiied-idyll. Það verk samdi hann til Cosimu og hún var vakin með því á jóladagsmorgun árið 1870 fregar nokkrir vinir hans léku það fyrir hana á stigapallinum fyrir framan svefnherbergi þeirra í Triebschen.

Ragnarök - endalokin

Lokaverk Niflungahringsins nefnist Götterdämmerung, þ.e. Ragnarökkur, eins og Ragnarök eru nefnd í Snorra-Eddu. Verkið fylgir í stórum dráttum sama mynstri og frumgerðin, Siegfrieds Tod, þótt ýmsu sé breytt, bæði smáatriðum og stærri efnisþáttum. Þannig eru nokkur frásöguatriði stytt, enda áður búið að semja þrjár óperur um það sem hafði gerst. Eins er sumt fellt niður eða því þjappað saman í þágu dramatískrar framvindu, enda verkið ærið langt samt. Stærsta breytingin er þó í lokin.

Í frumgerð óperutextans koma valkyrjurnar til Brynhildar og eru hneykslaðar yfir því hvernig hún hafi óhlýðnast Óðni og gefið sig Sigurði á vald. Í Ragnarökum er valkyrjan aðeins ein og boðskapur hennar allt annar. Óðinn situr þögull í Valhöll með sundrað spjót sitt í höndum og bíður endalokanna. Askurinn hefur verið höggvinn niður að rótum. Aðeins eitt er eftir, að koma hringnum aftur í hendur Rínarmeyjum, svo að bölvuninni verði aflétt. En Brynhildur, sem þegið hefur hringinn af Sigurði, vill ekki láta af hendi gjöfina sem hún hlaut frá ástmanni sínum. Heldur má veröldin farast. Eftir þetta atriði verða sárari svikin, þegar „Gunnar“ birtist og vinnur Brynhildi sem brúði.

Lok óperunnar vöfðust lengi fyrir Wagner. Í upphaflegu gerðinni, Siegfrieds Tod, gengur Brynhildur á bálið til að sameinast Sigurði í Valhöll. Þegar verkið tók að hlaða utan á sig fór viðhorf Wagners til ástarinnar í því að snúast. Fyrst jók hann enn á ástarjátningu Brynhildar í lokaatriðinu. Ást hennar á Sigurði er þá það eina sem skiptir máli. Hann tók þó síðar að líta á ástina, eins og hún birtist í Hringnum, sem eyðandi afl, og seinni gerðir textans draga dám af því með afneitun Brynhildar á veröldinni, bæði mannheimum og goðheimum. Þær línur voru felldar niður við samningu tónlistarinnar, en standa hins vegar sumar í prentaðri gerð textans.

Í fullnaðargerð textans höfðu viðhorfin því enn breyst. Eldurinn af bálinu teygir sig til himins og eyðir Valhöll og goðunum. Þetta verða ragnarök. Hið gamla og spillta verður að eyðast. Wagner virðist hafa staðið í nokkrum vanda við að skýra þennan endi út í orðum, en tónlistin flytur okkur merkinguna ótvirætt. Við endalokin birtir yfir tónlistinni á þann veg sem við höfum ekki fyrr heyrt í verkinu. Þetta er sama sýn og Völuspárhöfundur sá fyrir sér:

Sér hún upp koma
öðru sinni
jörð úr ægi
iðjagræna;
falla fossar,
flýgur örn yfir,
sá er á fialli
fiska veiðir.

Allt hið gamla er markað bölvun gullsins og verður því að hverfa. Lokatónar hljómsveitarinnar boða nýjan og betri heim.

Ragnarök (Götterdammerung) - lokaatriði.
Uppfærsla Patrice Chereau í Bayreuth 1976-1980.