Richard Wagner félagið á Íslandi

Ágætu félagar.

Bayreuthhátíðin hefur birt dagskrá hátíðarinnar á komandi sumri. Ólafur Kjartan Sigurðsson mun fara með hlutverk Biterolf í Tannhäuser og er þetta í annað sinn sem Íslendingur fer með hlutverk í Bayreuth en áður söng Tómas Tómasson hlutverk Telramunds í Lohengrin í nokkrum sýningum. Sjá nýlegt viðtal við Katharinu Wagner í viðhengi.

Vegna óvissu um nýtingu Festspielhaus í Covid hefur ekki verið boðið upp á fyrirfram pantanir á miðum fyrir sumarið. Hátíðin hefur kynnt það fyrirkomulag að þeir sem kusu að eiga greiðslur inni á hátíðinni sumarið 2020 í stað endurgreiðslu muni eiga þess kost að panta miða á komandi vikum. Afgangur miða, ef einhver er, verði seldur á netinu sunnudaginn 6. júní. https://www.bayreuther-festspiele.de/en/.

Þá er betra að vera búinn að búa til reikning/account, undir My Festival ef maður hefur ekki pantað áður.

https://www.bayreuther-festspiele.de/en/festspiele/news/2021/the-festival-management-announces-the-program-for-the-2021-festival-season/

Fyrirlestrar og aðalfundur.

Stefnt er að þrem fyrirlestrum félagsins á vormisseri og verða þeir kynntir betur fljótlega, en dagsetningarnar eru 6. mars (ath breyting)  fyrir Þórhall Eyþórsson um Tungumál Wagners, 20. mars fyrir Reyni Axelsson um Wagner og Schopenhauer og 24. apríl fyrir Aðalheiði Guðmundsdóttur um “Völsunga í máli og myndum”. Fyrirlestrarnir verða í Safnaðarheimili dómkirkjunnar kl 14 en einnig verður þeim streymt. Fyrirhugað er að aðalfundurinn verði að loknum fyrirlestri Reynis 20. mars.

Baldur Símonarson hefur verið ötull að kynna dagskrá á mezzo.tv, en þar er mjög mikið um spennandi óperusýningar og tónleika. Frá Metropolitan opera eru einnig daglega sendar út óperur í streymi, vikan 16.-22. febrúar er Zeffirelli vika, en vikan þar á eftir tileinkuð Dmitri Hvorostovsky, www.metopera.org. Enn er hægt að sjá tónleika Önnu Netrebko frá Spænska reiðskólanum í Vín og hefur hún aldrei verið í betra formi, raddlega og líkamlega, alveg búin að ná sér eftir Covid, guði sé lof.  Senn koma nýir Metstar tónleikar: Met Stars Live in Concert (brightcove-services.com).

Baldur sendi líka skjal um ókeypir óperur frá Vínaróperunni, sjá viðhengi.

Bestu kveðjur
Selma Guðmundsdóttir