Aðalfundur Richard Wagner félagsins

Fundargerð

27. júní 2020 í Safnaðarheimili Dómkirkjunnar

Selma Guðmundsdóttir setti fundinn kl. 14.05 og lagði til að Sólrún Jensdóttir yrði kosin fundarstjóri. Samþykkt. Fundarstjóri leggur til að Egill Arnarson verði ritari fundarins og ritar hann þessa fundargerð aðalfundar.

1. Skýrsla formanns um starfsárið 2019.

2. Skýrsla gjaldkera um ársreikning félagsins árið 2019.

Reikningar bornir upp til samþykktar og þeir samþykktir.

3. Umræður um liði 1 og 2.

Rætt um frestun á Valkyrkjunni: Selma gerði grein fyrir því að ca 400 kr mismunur sem félagið hefði fengið endurgreiddan fyrir miða á Valkyrjuna vegna 15% í stað 10% afsláttar, hefði ekki verið sendur til baka til viðkomandi félagsmanna sem hefðu keypt miða á afsláttarkjörum heldur yrði litið á þá upphæð sem umsýslugjald. Ekki væri ljóst hvort hægt yrði að standa að sams konar dagskrá og skipulögð hafði verið fyrir útlenda og innlenda félagsmenn þegar Valkyrkjan verður sýnd á næsta ári, það færi eftir því hvenær hún yrði flutt.

Egill gerði athugasemd við kostnað af prentun þýskrar útgáfu Wagners og völsunga, hann væri of lágur í ársreikningi. Reikningur samþykktur með þeim fyrirvara.

Selma ræddi fyrirhugaða Parísarferð til að sjá þar Niflungahringinn. Enn væri allt óljóst með þau plön og hvenær óperuhúsið þar yrði opnað á ný.

4. Kosning til stjórnar.

a) Allir meðlimir aðalstjórnar gefa áfram kost á sér og voru endurkosnir: Selma Guðmundsdóttir formaður, Sólrún Jensdóttir varaformaður, Jón Ragnar Höskuldsson gjaldkeri, Egill Arnarson ritari og Jóhann J. Ólafsson meðstjórnandi.

b) Björn Bjarnason lét af stjórnarsetu í varastjórn en í hans stað bauðst Þórhallur Eyþórsson til að taka þar sæti. Með honum eru Ásdís Kvaran og Ásmundur Jakobsson.

c) Skoðunarmenn félagsins verða, sem fyrr, Guðrún Nordal, Halldór Halldórsson og Guðbjartur Kristófersson varamaður.

5. Tillaga að hækkun félagsgjalda.

Sólrun bar upp tillögur stjórnar um að félagsgjöld einstaklings hækki úr 4.000 kr. í 4.500 kr. og hjón greiði 7.000 kr. í stað 6.000 kr. Samþykkt einróma.

6. Önnur mál.

Selma þakkaði aðal- og varastjórn fyrir sín störf sem og Birni Bjarnasyni fyrir sitt framlag í þágu félagsins sl 10 ár. Hún fjallaði einnig um bókagjöf Jóhanns J. Ólafssonar til félagsins, sem mætti skoða frammi á gangi, og lagði til að á nýrri heimasíðu félagsins mætti nálgast upplýsingar um slík rit sem mætti annaðhvort fá að láni eða koma á skiptibókamarkaði. Um dagskrá næsta vetrar væri erfitt að spá en Reynir Axelsson myndi þó að halda erindi um Wagner og Schopenhauer. Áfram ætti að sýna Hringinn í uppfærslu Patrice Chérau í Hannesarholti í samvinnu við klúbbinn Rabb um klassíska tónlist. Stjórn myndi funda um frekari viðburði. Loks minntist hún á fyrirhugaða ferð félagsmanna til Berlínar þótt það væri enn Zukunftsmusik.

Fundi slitið kl. 14:58.