Ágætu hollvinir og aðrir velunnarar.
Hannesarholt hefur nú opnað aftur eftir langþráð sumarleyfi. Eins og annars staðar í samfélaginu tökum við eitt skref í einu og aðlögum okkur að nýjum takti sem getur breyst eins og hendi sé veifað og við með.
Nú njótum við þess hvað húsið að Grundarstíg hefur margar vistarverur og auðvelt er að skilja fólk að. Við höfum tilmæli heilsuþríeykisins að leiðarljósi í öllu sem við gerum og bjóðum fólki uppá samveru í fjarvist á öllum hæðum hússins.
Opnunartíminn verður í takt við það sem var í vetur, opið alla daga nema mánudaga, frá kl.11.30-17 og boðið uppá hádegismat virka daga og helgardögurð helgardagana. Kaffi, vínföng og heimabakað bakkelsi í boði alla daga. Kvöldopnun verður auglýst sérstaklega og þá væntanlega í tengslum við viðburði.
Þær gleðilegur breytingar standa fyrir dyrum að Hannesarholt tekur þátt í Sumarborgarverkefni Reykjavíkurborgar og fær þannig að auka við útikaffihúsastemningu fyrir framan Grundarstíg 10. Sú aðstaða er í vinnslu þessa dagana og kemst væntanlega í gagnið eftir helgi.
Myndlistarsýning Ólafar Svövu Guðmundsdóttur, Farvegur, opnar laugardaginn 8.ágúst kl.15. Þetta er þriðja einkasýning Ólafar, en sú fyrsta var einmitt í Hannesarholti, þegar Ólöf sýndi vatnslitamyndir í Hannesarholti í ágúst 2016. Sýningin stendur til 26.ágúst og er sölusýning eins og aðrar myndlistarsýningar í Hannesarholti.
Syngjum saman hljómar á ný í Hannesarholti sunnudaginn 9.ágúst kl.14 – og verður í höndum Hörpu Þorvaldsdóttur tónlistarkonu, sem jafnframt skipuleggur söngstundirnar í Hannesarholti í vetur. Söngelskir gestir Hannearholts eru velkomnir til að taka þátt á staðnum, gegn 1000 kr gjaldi fyrir fullorðna, en eftir sem áður er frítt fyrir börn. Ennfremur verður streymt frá söngstundinni beint á fésbókarsíðu Hannesarholts, þannig að þeir sem ekki eiga heimangengt geta tekið þátt að heiman.
Við gerum ráð fyrir að næsta söngstund verði viku síðar, sunnudaginn 16.ágúst, en síðan annan hvern sunnudag fram í desember. Nánari tilhögun verður auglýst sérstaklega.
Eins og áður er risloftið opið fyrir gesti og gangandi, þar sem fjölskyldur geta dundað sér í gömlu hlýlegu andrúmslofti með gömul leikföng og næði til að drekka kaffibolla og líta í bók með börnum að leik. Einnig liggja frammi bækur í gluggakistum veitingahússins og í bókahillum á 2.hæð, sem gestum er velkomið að líta í.
Lagakeppni við ljóð eftir Hannes Hafstein verður auglýst á næstunni, og býðst þá tónskáldum þjóðarinnar að spreyta sig á að semja nýtt lag við ljóð að eigin val eftir Hannes Hafstein. Þar er af nógu að taka með fjölbreyttu sniði. Skilafrestur verður um miðjan september og vinningslögin verða flutt um miðjan október.
Með kærri kveðju frá heimilisfólki Hannesarholts,
Ragnheiður Jónsdóttir