Hannesarholt – Fréttabréf október 2020

Ágætu hollvinir og aðrir velunnarar.

Október er mættur og svalinn gerir vart við sig. Í Hannesarholti má alltaf orna sér við ýmiskonar uppbyggjandi samveru og jafnvel heimabakstur og eldamennsku sem gleður jafnt líkama og sál. Sóttvörnum er hlýtt í hvívetna og við höldum okkar striki á meðan stætt er.

Þriðju tónleikar Romains Collin eru á dagskrá laugardagskvöldið 3.október kl.20. Hann býður til leiks að þessu sinni engri annarri en GDRN, eða Guðrúnu Ýr Eyfjörð. Hún hefur brillerað á íslensku tónlistarsenunni á síðustu árum og einnig út fyrir landsteinana. Það verður spennandi að hlýða á þessa tvo meistara. Þegar er orðið uppselt á þessa tónleika. Kvöldmatur á undan, borðapantanir.

Myndirnar sem prýða veggi veitingastofunnar eru eftir Ingibjörgu Rán Guðmundsdóttur, sem býður uppá leiðsögn um sýninguna sunnudaginn 4.október kl.14. Sýningin stendur til 11.október og myndirnar eru allar til sölu. List án landamæra verður með næstu sýningu.

Romain Collin leikur í fjórða sinn fyrir gesti Hannesarholts laugardaginn 10.október kl.20 og býður til leiks Bergi Þórissyni, og saman kanna þeir tækifærin í að blanda saman akústrískri tónlist og elektrónískri. Þeir félagar hafa nýlega tekið upp disk í Hljóðbergi Hannesarholts. Kvöldmatur, borðapantanir. Miðar aðeins seldir í forsölu, afar takmarkaður sætafjöldi.

Sunnudaginn 11.október er líf og fjör í Hannesarholti. Ólöf Sigursveinsdóttir og Einar Bjartur Egilsson halda hálftímalanga sellótónleika í streymi kl.12.15, og leika tónlist eftir Einar Bjart, Vivaldi, Liszt, Beethoven og Saint-Saens.
Lesið á loftinu fyrir börnin. Einar Örn Thorlacius hollvinur Hannesarholts les á loftinu kl.13. Tvær bækur eru í boði, Sóla og sólin eftir Ólöfu Sverrisdóttur og Eplasneplar eftir Þórey Friðbjörnsdóttur.

Syngjum saman tekur svo við kl.14 í Hljóðbergi með Sessý, Sesselju Magnúsdóttur tónlistarkonu og söngkennara til margra ára. Textar á tjaldi og allir syngja með. Frítt fyrir börn í fylgd með fullorðnum sem greiða 1000 króna aðgangseyri. Söngstundinni verður einnig streymt á fésbók fyrir þá sem ekki eiga heimangengt.

Ásdís Þula Þorláksdóttir les á loftinu fyrir börnin sunnudaginn 25.október kl.13. Ásdís les úr bók sinni Sólstöfum, ljóðabók fyrir börn. Ljóðin fjalla meðal annars um skessur sem dansa við skugga, álfa inni í hól, draumfarir og hetjudáðir og skínandi vetrarsól.

Syngjum saman er í höndum Marínu Óskar og Mikaels Mána kl.14 sama dag, sunnudaginn 25.október. Þau hafa komið fram síðastliðin sex ár sem dúettinn Marína & Mikael og hafa getið sér gott orð á Íslensku tónlistarsenunni. Eins og alltaf, textar á tjaldi til að allir geti sungið með. Frítt fyrir börn í fylgd með fullorðnum sem greiða 1000 króna aðgangseyri. Streymt á fésbók.

Við minnum á hádegisverðinn okkar alla daga nema mánudaga og helgardögurð laugardaga og sunnudaga. Heimabakkelsi alla daga. Verið velkomin.

Með kveðju frá heimilisfólkinu í Hannesarholti,
Ragnheiður Jónsdóttir